Sumir telja að þeir séu útvaldir til að stjórna

Ég er svo orðvana, máttvana og hugstola um þessar mundir. Kannski er það vegna þess að mér liggur svo margt á hjarta. Það er svo margt sem mig langar til að segja en ekkert af því hefur ekki verið sagt áður. Við mótmælendur erum búin að endurtaka sömu orðin í mismunandi tónhæð og tilbrigðum í bráðum fjóra mánuði! Þrátt fyrir að skilaboð okkar eigi hljómgrunn í áliti lærðra hagfræðinga hlusta valdhafar landsins ekki á rödd okkar. A.m.k. ekki enn.

Á morgun verða enn ein mótmælin. Ég er því miður norður á Akureyri þannig að ég kemst ekki til að hafa hátt við Alþingishúsið. Þeim sem mæta á morgun sendi ég þakklæti mitt og virðingu fyrir að standa vaktina. Ef ég væri galdranorn þá myndi ég senda ykkur vestfirskan Hornstrandarkyngikraft til að magna upp hávaðan og láta ykkur virka stærri, fleiri, reiðari og hættulegri. En læt nægja að óska ykkur heilla og árangurs!

Ég er mikið búin að velta því fyrir mér hvernig á að orða núverandi staðreyndir um ógnina sem við stöndum frammi fyrir. Ógnina sem blasir svo við okkur mótmælendum að við fórnum ótrúlegum tíma og orku í að koma þeim á framfæri við fulltrúa íslensks valds. Fulltrúana sem telja sig útvalda til að stjórna í þessu landi en eru slíkar mannleysur að þeir kunna ekkert með valdið að fara! Þeir eru ekki þroskaðri en svo að þeir virðast telja að valdið hefji þá yfir allt og alla. Að valdið hafi þeim hlotnast til eignar og megi þess vegna fara með það að eigin vild sama hvað einhverjar þúsundir mótmælenda segja.

Það er ofvaxið mínum skilningi hvernig valdhafarnir í þessu landi leyfa sér að haga sér, svo ofvaxið að mig langar til að ryðja út úr mér löngum fúkyrðaflaumi um innræti þeirra og gjörðir. Mín vegna ætla ég samt að sleppa því að gera mig seka um að missa mig frekar yfir þeim heldur láta Guðmundi Andra Thorssyni eftir orðið í hans frábæru grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Hann kann svo sannarlega að virkja gremjuna í hárbeitta hæðni en segja samt allt sem segja þarf!Hámark hrokans (Fréttablaðið 19. janúar 2009)


mbl.is Hvetja til mótmælastöðu við Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta er frábær grein. Einu sinni var sagt við mig þegar ég var að vinna mig vitlausan og tók mér ekkert frí í marga mánuði af því ég taldi mig ómissandi eftirtalin orð: "Ari minn, þú veist að kirkjugarðarnir í Evrópu eru fullir af ómissandi fólki." Ég var orðin svo bilaður af botnlausri vinnu að það tók mig heilan dag að skilja hvað vinur minn átti við. Ég tók mér strax frí og réði mann í vinnu þegar ég skildi þessi orð. Valdhafar skilja þetta ekki og hafa eitthvað verulega ljótt að fela. Mér líður eins og þér. Ég er ennþá öskureiður og veit ekki hve lengi ég get hamið reiðina. En eins og sálfræðngurinn sagði í Silfri Egils 11 jan þá er reiðin jákvæð fyrir okkur og hana getum við nýtt til góðra verka þegar okkar tími kemur.

Arinbjörn Kúld, 19.1.2009 kl. 23:52

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Skal reyna að spara hana þangað til þá en ég lofa engu

Es: Þú hlýtur að vera að meina grein GAT því ég skrifaði enga grein...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.1.2009 kl. 00:07

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Hehe jú rétt.

Arinbjörn Kúld, 20.1.2009 kl. 00:33

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Great minds think alike...  Ég setti þessa grein inn hjá mér í gær. Fannst hún frábær.

Við hugsum til þín við Alþingishúsið á morgun. Hvað á ég að berja oft í pottlokið fyrir þína hönd?

Lára Hanna Einarsdóttir, 20.1.2009 kl. 02:14

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú getur nú danglað aðeins í pottlok heima hjá þér okkur til samlætis

Hólmdís Hjartardóttir, 20.1.2009 kl. 02:20

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Lára Hanna: Ég fór einmitt beint inn á síðuna þína þegar ég var búin að ganga frá færslunni minni og ég sprakk úr hlátri Ef þú átt 24 aukahögg þá myndi ég svo sannarlega þiggja það að þú létir þau syngja vel í pottlokinu þannig að þau muni hvína í eyrum þessa „ó-missandi fólks“.

Takk fyrir kveðjurnar báðar tvær! Þær lyfta mér svo sannarlega upp. Vildi svo sannarlega vera með ykkur en þyrfti þá að leggja niður vinnu allan daginn á morgun.

En hver veit nema ég fari að ráðum Hómdísar. Takk fyrir tillöguna

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.1.2009 kl. 02:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband