Borgarafundur: Siðrofið í samfélaginu
5.11.2009 | 00:57
Fundarstjórar voru tveir að þessu sinni en það voru þær Embla Eir Oddsdóttir og Sóley Björk Stefánsdóttur. Þess má geta að þær eru báðar í borgarafundanefndinni hérna á Akureyri.
Eins og áður segir var yfirskrift fundarins Siðrofið í samfélaginu þar sem spurt var hvort stjórnmálamenn hefðu tapað meðvitundinni fyrir samfélaginu? Fyrir hverja þeir eru að vinna? Hvort það er fyrir sjálfa sig, flokkinn eða þjóðina? Þrír framsögumenn fjölluðu um efnið en þingmenn sátu í pallborði og lögðu sitt fram um efnið auk þess sem þeir svöruðu fyrirspurnum áheyrenda eftir framsögurnar.
Ræður framsögumannanna þetta kvöld voru virkilegar hugvekjur og var greinilegt á viðbrögðum stjórnmálamannanna að sumt í ræðum þeirra áttu þeir í erfiðleikum með að sætta sig við á meðan þeir þökkuðu fyrir annað. Ég vil benda á að ræða eins þeirra og glærur annars setti ég neðst við þessa færslu sem krækjur.
Framsaga Jóns Baldvins Hannessonar skólastjóra í Giljaskóla á Akureyri
Fyrstur á mælendaskrá var Jón Baldvin Hannesson. Hann hóf ræðu sína á því að biðja fundargesti að kalla fram í huga sér þau siðferðisgildi sem einkenna dygðuga einstaklinga. Því næst sneri hann sér að því að tala út frá glærusýningu sem hann hafði undirbúið fyrir framsögu sína. Hann undirstrikaði að framkoma og orð spegluðu siðferðislegan styrk hvers einstaklings og að það sem einkennir siðferðislega þroskaðan einstakling er samræmi milli hegðunar hans og viðhorfa.
Því næst sneri hann sér að tveimur listum sem hann hafði útbúið. Annan yfir dygðir og hinn yfir lesti. Jón Baldvin sagði að þó mannkynið byggi í margbreytilegum samfélögum þá væru hugmyndirnar um það hvað telst til dyggða alltaf þær sömu. Ástæðuna sagði hann vera þá að við höfum öll sömu grunnþarfir sem væru þörf fyrir öryggi, áhrif, gleði, frelsi og tilheyra öðrum. Til að við getum uppfyllt þessar þarfir þurfa einstaklingarnir í fjölskyldunni að hugsa um aðra um leið og sjálfa sig.
Í framhaldinu sagði Jón Baldvin að ef við tileinkum okkur dygðir hjálpum við öllum að uppfylla þarfir sínar. Ef ekki, ef við tileinkum okkur lesti í of miklum mæli, þá treysta aðrir okkur ekki. Eðlilega því þeir sem tileinka sér lesti eins og græðgi verða ógn við þarfirnar.
Síðan varpaði hann fram nokkrum spurningum máli sínu til áréttingar eins og: Hvernig fáum við öryggisþörf ef sambúðaraðilinn tileinkar sér yfirgang og ofbeldi? Eða kærleiksþörf þegar hinn hugsar eingöngu um sjálfan sig og gefur ekki af sér? Þá undirstrikaði Jón Baldvin að sá sem brýtur á öðrum skapar andrúmsloft vantrausts þannig að óttinn tekur völdin.
Því næst sneri Jón Baldvin sér að því hvað væri mest áberandi í draumum barna í dag um framtíðina. Þau dreymir flest um að verða fræg, rík og falleg. Þessa drauma þeirra má vafalaust rekja til sjónvarps og annars fjölmiðlaefnis en líka þess gildismats sem setur ytra útlit ofar innri gæðum. Og er það ekki einmitt þetta gildismat sem börnin okkar alast upp við í dag?
Þá talaði Jón Baldvin um að dygð væri meðalhóf á milli tveggja lasta sem hann útskýrði með eftirfarandi samantekt á glæru:
Tilvistarsvið | Skortur | Meðalhóf | Skefjaleysi |
Sjálfsmynd | Undirgefni, sjálfsfyrirlitning | Sjálfsvirðing, stolt | Hroki, mont |
Ógnir/dauði | Hugleysi, ótti, of lítið áræði | Hugrekki | Fífldirfska, dómgreindarskortur |
Aðrir einstaklingar | Undirgefni | Virðing | Misnotkun, yfirgangssemi |
Eigin verk | Vonbrigði | Sjálfsöryggi | Sjálfumgleði |
Næst sneri Jón Baldvin sér að gildum sem hann sagði að svo oft og iðulega væri ruglað saman við dygðir. Þar á meðal nefndi hann menningu, það að tilheyra ákveðnu liði eða t.d. stjórnmálaflokki, ætterni, trúarbrögð o.fl. í þeim dúr. Í framhaldinu sneri hann sér að stjórnmálamönnunum og velti því upp hvort það væri eins komið fyrir stjórnmálamönnunum og börnunum? Og ræða hans náði nýjum hæðum!
Hann benti á að í sínum huga væri þingmennska þjónustustarf. Að hans mati er það óskiljanlegt að menn eyði milljónum króna til að komast í slíkt og spurði sig hvort ástæðan fyrir því að menn væru tilbúnir til slíks væri vonin um frægð og völd?
Þá talaði hann um að stjórnmálamenn sinntu þrenns konar hagsmunum: Eigin, flokksins og þjóðarinnar og undirstrikaði að það væri VANALEGA Í ÞESSARI FORGANGSRÖÐ! Hann varpaði fram þeirri spurningu til áheyrenda hvort þeir sæju fyrir sér marga þingmenn sem setja þjóðarhagsmuni fram yfir flokkshagsmuni? og sneri sér því næst að helstu löstunum sem þrifust í heimi íslenskra stjórnmála.
Tilgangurinn helgar meðalið. Gildi ráða fremur en dygðir. Hópar sem viðkomandi tilheyrir eru mikilvægastir. Sá er góður sem kemur frá tilteknu kjördæmi eða stjórnmálaflokki eða hefur stutt mig eða getur hjálpað mér að öðlast eitthvað. Menn fara fæstir í stjórnmál til að inna af hendi þjónustu. Menn horfa alltof sjaldan á heildarhagsmuni þjóðar og mjög sjaldan til langs tíma...
Ber samræðustíll stjórnmálamanna vott um dygðir? Ber neikvæð afstaða til hugmynda frá öðrum vott um þroska? Nei, því þá er viðkomandi ekki töff, harður, snjall, fylginn sér, sigrar ekki andstæðinginn í kappræðum. Einmitt, kappræðum! Ekki rökræðum. Það verður að eiga hugmynd eða stefnu. Yfirgengileg hræðsla við að missa sérstöðuna, egóið...
Þegar rætt er um hugmyndir ræða íslenskir stjórnmálamenn um hver kom fyrst með hana? Hvaða einstaklingur? Hvaða flokkur ... Það virðist skipta mestu máli! Af hverju? Til að selja sig og flokkinn? Fyrir vikið er jafnframt dregin upp svart/hvít heimsmynd sem er mikil einföldun. Þess háttar afstaða er mikill veikleiki. Menn virðast missa sjálfsvirðinguna ef þeir tapa kappræðum eða tapa eignarhaldi á hugmynd.
Hreppsnefndin okkar - Alþingi - býr sem sagt við marga meinsemd. Þegar stjórnmálamaður segir VIÐ þetta og VIÐ hitt er hann sjaldan með aðra stjórnmálamenn inni í menginu því þeir eru samkeppnisaðilar.
Í framhaldinu vék Jón Baldvin að því sem hann kallaði skilningsskort á eðli og mikilvægi ríkisins. Þar nefndi hann að þegar mið væri tekið á umræðunni væri engu líkara en sumir teldu ríki og ríkisstofnanir vera sprottnar frá djöflinum. Til að útskýra mál sitt vék hann aftur að dygðunum sem við tileinkuðum okkur í því sjónarmiði að lifa í samfélagi við aðra.
Sá sem þarf að taka tillit til annarra í fjölskyldu og hugsa út fyrir sína þröngu eiginhagsmuni þar fær mikið í staðinn. Ríki og sveitarfélög eiga að vera okkar bakhjarl. Okkar fjölskylda. Enda færa þau okkur margt þótt þau séu ekki fullkomin frekar en fjölskyldan. En það er næstum alveg búið að sannfæra okkur um að öll sameign sé af hinu illa. Frjálshyggjan hefur séð um það.
Í þessu samhengi benti hann á að þarna skorti jafnvægi milli tveggja lasta. Annars vegar að sjá ekkert nema einkarekstur og hins vegar að afneita einkarekstri. En reynslan hefur kennt okkur að við þurfum jafnvægi á fleiri sviðum sagði Jón Baldvin og vék máli sínu því næst að þeim framámönnum þjóðarinns sem hafa skapað sér vantraust hennar með framkomu sinni og gjörðum að undanförnu.
Í því samhengi talaði hann ekk bara um stjórnmálamenn heldur líka ýmsa aðra opinbera embættismenn eins og forstöðumenn, framkvæmdastjóra og bankamenn. Hann nefndi nokkur þekkt dæmi frá undanförnum árum sem enn hafa ekki fengið neinar viðunandi skýringar, leiðréttingar eða viðurlög.
Þar má nefna aðgerðir og/eða aðgerðarleysi Seðlabanka og annarra eftirlitsstofnana. Innherjaviðskipti þar sem hluthafar lána sjálfum sér, eignarhaldsfélög sem fengu himinhá lán en njóta nú afskrifta sem falla á þjóðina, rán í gegnum bankaútibú íslensku bankanna erlendis. Hann undirstrikaði að enginn hefði þurft að svara til saka fyrir framantalið. Ekki enn a.m.k. og lauk upptalningu sinni á þessum spurningum og/eða athugunarefnum í sambandi við það siðrof sem hefur orðið í samfélaginu á undanförnum misserum:
- Rannsókn á hruninu var ekki falin erlendum sérfræðingum! Hvers vegna?
- Skuldsetning sjávarútvegsfyrirtækja - beinlínis fyrir tilstilli bankanna - til að fyrirtækin geti fjárfest í öllu mögulegu. OG til að bankarnir eigi nú meira og minna sjávarútvegsfyrirtækin?
- Sífellt meiri MISSKIPTING í kjölfar nýfrjálshyggju og einkavinavæðingar - lækkun hátekjuskatta og skerðing persónuafsláttar?
- Áróður stjórnmálamanna og bankamanna á síðustu metrunum fyrir hrunið?
- Ofmat stjórnmálamanna á eigin getu við úrvinnslu, kynningu og uppbyggingu.
Jón Baldvin sagðist hefði viljað sjá teymi bestu innlendra og erlendra sérfræðinga sem ráðgjafa við
skipulag uppbyggingar og samninga við erlenda aðila. Hann benti á að:
Þeir sem hafa unnið að lagasetningu og regluverki, forystu og stjórnun ríkisvaldsins, stjórnun og rekstri bankastofnana, stjórnun og rekstri stofnana og fyrirrækja, eftirliti með bönkum og öðrum fyrirtækjum, hafa ekki staðið sig. Þeir hafa ekki tekið tillit til dygða heldur tileinkað sér lesti af ýmsu tagi. Ég tel mig merkja ákveðin hættumerki í því virðingarleysi sem nú er til staðar og má rekja til þessara aðstæðna að nokkru leyti. Vonandi hef ég rangt fyrir mér í því.
Í framhaldinu velti hann upp þeirri spurningu hvort við myndum sjá NÝTT Ísland? sem var krafa margra þeirra sem létu í sér heyra síðastliðinn vetur, eða hvort við munum ekki sjá neinar róttækar breytingar á gildismati og hegðun? Förum við brátt aftur í sama ruglið? og leyfi ég mér að bæta því við að það er ekki undarlegt þó menn spyrji sig slíkra spurninga miðað við það sem fram hefur farið á stjórnarheimilinu frá hruni.
Jón Baldvin lauk síðan máli sínu með því að velta upp spurningunni um það hvort löstur geti einhvern tímann verðið réttlætanlegur? en tímans vegna komst hann ekki djúpt ofan í það atriði. Ég ætla hins vegar að fjalla betur um þessa hlið í annarri bloggfærslu fljótlega. (Ég vek athygli á því að glærur Jóns Baldvins fylgja þessari færslu sem viðhengi og er hægt að krækja í þær neðst í þessari færsrlu)
Ræða séra Gunnlaugs Garðarssonar
Næstur tók til máls sér Gunnlaugur sem er sóknarprestur í Glerárkirkju hér á Akureyri. Þeir sem hafa mætt á borgarafundina hérna fyrir norðan eða fyglst með þeim á annan hátt kannast örugglega við ógleymanlegt innlegg hans í lok fundarins sem var haldinn hér undir yfirskriftinn Landráð af gáleysi í samstarfi við borgarafundanefndina í Reykjavík. Ég bloggaði um þann fund hér en efnislegt innihald athugasemdarinnar frá Gunnlaugi kemur fram undir lok þeirrar færslu.
Á þessum fundi hóf séra Gunnlaugur Garðarsson mál sitt á því að velta því upp hvaðan gildin eru upprunnin. Gildin eru nátengd venjum okkar og siðum en á siðunum byggjum við bæði skráð og ókráð lög. Þessi lög hafa svo tilhneigingu til að lifa lengur en við þurfum á þeim að halda eða m.ö.o. þau úreldast en falla þó ekki þar með sagt úr gildi. Þau loða við jafnvel þó ný hafi verið tekin upp.
Þá vék hann að þörfum og hagsmunum og hagsmunabaráttu mismunandi hópa. Í þessu sambandi benti hann á hvernig skynseminn væri þátttakandi valdsins en valdið er stærsti áhrifaþátturinn í því hvert við stefnum, samkvæmt því sem Gunnlaugur sagði, og tók það fram að kennivaldið væri fólkið. Stjórnmálamennirnir vilja þjóna fólkinu eða það er í það minnsta það sem þeir gefa sig út fyrir.
Því næst varpaði Gunnlaugur fram þeirri spurningu hvenær rofið í þessu sambandi hefði átt sér stað? Hann vildi meina að rof væri á milli gilda stjórnar og almennings þar sem færi fram glíma valds og hagsmuna. Í þessu samhengi benti hann á að skynsemin hefði tilhneigingu til að þjóna valdinu ef hún væri ekki upplýst og undirstrikaði það hve skynsemin getur verið lauslát.
Hann fjallaði sérstaklega um íslensk lög í þessu sambandi og tók dæmi um refsirammann sem hefur verið settur varðandi kynferðisafbrot. Hann sagði að dómsvaldið hefði tekið sér það vald að fara ekki eftir löggjafanum með vísan í hefðir. Refsiramminn er sem sagt fyrir hendi og þar segir að harðar skuli taka á kynferðisafbrotum en dómsvaldið skorast undan því að fylgja þessum ramma og hundsar þannig það sem þeim er sett fyrir af löggjafanum. Þetta grefur ekki aðeins undan löggjafarvaldinu heldur líka trausti almennings til dómsvaldsins og trausti hans á lögunum.
Gunnlaugur lauk máli sínu á að vísa til nýliðinna atburða: Þóðarránið sem almenningur horfir upp á er herfilegt. Viðbrögðin, úrræða- og aðgerðarleysið grefur undan trausti hans til valdhafanna. Í þessu sambandi benti hann á að lög héldu heldur ekki í þessum málaflokki eða í það minnsta að dómsvaldið færi þá ekki eftir þeim og vísaði til frétta þetta sama kvöld. Þar sagði frá því að Hæstiréttur ógilti úrskurð héraðsdóms en með því staðfesti Hæstiréttur Íslands að það væri réttlætanlegt að hyggla einum hluthafa umfram annan.
Í þessu ljósi taldi hann ekki óeðlilegt að íslenskur almenningur upplifði ákveðið siðrof. Fyndi fyrir þverrandi trausti til valdhafanna og vaxandi reiði í garð þeirra. Í raun má segja að séra Gunnlaugur hafi varað þingmennina, sem sátu í pallborði, við þeirri þróun sem þeir létu óáreitta. Það var a.m.k. ljóst miðað við viðbrögð þeirra að ræða hans beit þá þannig að þeir fundu til undan orðum hans því flestir ef ekki allir vildu svara honum sérstaklega og þá helst til að miðla honum einhverjum heilræðum eða boðsakp í sambandi við reiðina.
Hér skal tekið fram að málið sem Gunnlaugur vísaði til í lok ræðu sinnar var dómur Hæstaréttar sem sagði frá í fréttum Sjónvarpsins þetta kvöld varðandi mál Vilhjálms Bjarnasonar þar sem hann krafðist þess að fá hlutabréf sín í Glitni á sömu kjörum og Bjarni Ármannsson eða að söluverðið á bréfum Bjarna væri leiðrétt til samræmis við kjör annarra hluthafa sem seldu á svipuðum tíma. Hæstiréttur hafnaði þessari kröfu þrátt fyrir dóm hérðaðsdóms um að Glitnir skyldi greiða Vilhjálmi sama verð fyrir bréfin hans og það sem Bjarni hefði fengið greitt.
Ræða Grétar Þórs Eyþórssonar
Grétar Þór er prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann hér á Akureyri. Hann hóf mál sitt á því að vísa til þess að undanfarnar vikur og mánuði hefur umræðan úti í samfélaginu snúist miklu meira en áður um hlutverk Alþingis, þingmannanna, þingræði og stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Saman við þessar viðræður hafa svo blandast umræður um vald fólksins eða hinar ýmsu hliðar lýðræðisins og síðast en ekki síst gegnsæið i stjórnsýslunni.
Þessa vitundarvakningu rakti Grétar Þór til efnahagshrunsins sl. haust og minnti á að fram að því hefði umræða um málefni af þessum toga yfirleitt alls ekki vakið áhuga almennings nema ef svokallað íbúalýðræði væri undanskilið. Sú umræða felur í sér aukna kröfu almennings um að pólitíkin sé ekki einkamál pólitíkusanna á milli kosninga. Hann vísaði til þess að kollegar hans í Skandinavíu kölluðu slíkar hugmyndir nýsköpun í lýðræði.
Þá vék Grétar Þór að því að fátt hefði sennilega fengið meira rúm í umræðu almennings á liðnum vikum en hlutverk þingmanna og þá einkum í sambandi við atkvæðagreiðslur. Þar vísaði hann sérstaklega til atkvæðagreiðslna í sambandi við ESB-aðildarumsókina, ríkisábyrðina í sambandi við IceSave-skuldirnar og afsagnar Ögmundar Jónassonar.
Samkvæmt túlkun Grétars Þórs snerist þessi umræða um það hvort þingmenn ættu að vera bundnir eigin sannfæringu eða hvort þeir ættu að lúta flokksaga. Einnig það hvort þingmenn ættu að vera framlenging vilja kjósenda sinna heima í borg, bæ eða héraði eða kjósenda úr hagmuna- eða þrýstihópum. Samkvæmt niðurstöðu Grétars Þórs eiga þingmenn eingöngu að vera bundnir eigin sannfæringu enda er kveðið á um það skv. 48. grein núverandi Stjórnarskrár og er það í samræmi við það sem viðgengst í löndunum í kring um okkur.
Í þessu sambandi vísaði hann til Edmunds Burkes (sjá t.d. hér um hann), sem var uppi á 18. öld, og hafði þetta eftir honum: Hann sagði að ef þingmenn væru bundnir við hagsmuni og vilja kjósenda sinna kæmi þekking þeirra og reynsla ekki að neinum notum. Ef þeir endurspegluðu bara vilja annarra yrðu umræður í þinginu meira og minna tilgangslausar.
Grétar Þór vænti þess að við gætum öll verið sammála um að það væri berta að þingmaður færi eftir sinni eigin sannfæringu en annarra en víst er að oft hefur margur þingmaður rekið hagsmuni hópa og hagsmuna á þinginu svo við segjum nú ekki kjördæma. Málið verður hins vegar flóknara þegar þingflokkar eru teknir inn í myndina þar sem hefðin er að þeir vinna sem hópar. Í því sambandi vakna spurningar eins og:
Á einstakur þingmaður að fylgja sannfæringu sinni, eða á hann að lúta flokksaga? Á maður ekki alltaf að fylgja eigin sannfæringu og vera sjálfum sér samkvæmur? Eða geta hagsmunir hóps verið meiri og stærri en sannfæring einstaklinga? Jafnvel þjóðarhagsmunir? Átti Ögmundur að brjóta odd af oflæti sínu og ganga gegn eigin sannfæringu um Icesave samninginn? Eða gerði hann rétt?
Hvað varðar vangaveltur Grétars Þórs í framhaldi af þessum spurningum vísa ég á ræðu hans sem er hægt að komast inn í eftir krækju neðst í þessari bloggfærslu. Að þeim loknum vék Grétar að hlutverki Alþingis:
Alþingi Íslendinga hefur þrenns konar hlutverk: Fulltrúa- og umræðuhlutverkið (að vera vettvangur helstu sjónarmiða í samfélaginu); löggjafarhlutverkið (að vera aðalhandhafi löggjafarvaldsins) og loks eftirlitshlutverkið (að vakta framkvæmdavaldið og veita því aðhald).
Löggjafahlutverkið er það langumfangsmesta og samkvæmt því sem kom fram í máli Grétars Þórs snýst umræða í þinginu í 61% tilvika um lagafrumvörp. Í þessu sambandi minnti hann á þá staðreynd að langstærstur hluti lagafrumvarpa sem fara í gegnum þingið eru stjórnarfrumvörp sem verða til í ráðuneytunum undir væng ráðherranna sem þeim stýra.
Hluti þeirra hugmynda sem í gegnum árin hafa verið uppi um að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu hefur snúið að því að bæta starfsskilyrði þingmanna. Bæta skrifstofuaðstöðu þeirra og það sem ekki fyrir löngu var komið á að þeir fengju aðstoðarmenn. Gert til þess að styrkja starf þeirra. Bæta möguleika þeirra á að afla sér þekkingar um mál, fara ofan í hluti og vera í tengslum við kjördæmin. Þetta mátti hugsa sér sem tilraun til að efla þingið sem slíkt. Gott og vel, en áheyrendur góðir, var þetta ekki það fyrsta sem fauk þegar farið var að skera niður eftir hrunið? Fyrstu innanhússviðbrögð þingsins eftir hrun voru að veikja stöðu þess gegn framkvæmdavaldinu!
Í lok ræðu sinnar vísaði Grétar Þór til yfirskriftar fundarins sem hann sagði að ætti sér skýra skírskotun í það hvernig væri komið fyrir lýðræðinu í þessu landi. Hann benti á að þingmenn ættu að vera fulltrúar kjósenda sinna en nú væri svo komið að eðlilega vaknaði upp spurningin um það hvort þeir væru það í raun? Hann undirstrikaði að hér væri þörf á lýðræðisumbótum sem fælust m.a. í því að efla tengslin á milli kjósenda og fulltrúa þeirra á þingi og auka um leið þátt almennings í ákvarðanatöku á milli kosninga.
Fjörugar pallborðsumræður
Þá var komið að pallborðinu en þar sátu fjórir þingmenn kjördæmisins auk eins þingmanns Hreyfingarinnar. Þetta voru þau: Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður Samfylkingar, Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar, Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokks og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna.
Áður en opnað var á fyrirspurnir utan úr sal fengu þinnmennirnir tækifæri til að tjá sig um yfirskrift fundarins og það sem hafði komið fram í máli framsögumanna. Það er þess vegna ástæða til að taka það fram að margir þeirra áttu langan dag að baki áður en þeir mættu á fundinn og sumir þeirra náðu ekki á fundinn fyrr en Jón Baldvin var u.þ.b. hálfnaður með sína ræðu.
Steingrímur fékk orðið fyrstur og sagði það fyrst að það væri gagnlegt að ræða siðrofið í samfélaginu. Það væri jákvætt hvað þjóðin hefði vaknað til lífsins því hún bæri vissulega ábyrgð líka. Það væri hún sem hefði kosið yfir sig sömu asnana aftur og aftur. Hann vildi meina að á síðustu árum hefðum við upplifað ósigur gagnrýninnar hugsunar. Hér hefði orðið til eitthvað sem hann kallaði hjarðeðlishugsunarhátt.
Höskuldi fannst efnið líka mikilvægt en benti á að menn mættu ekki missa sig og vísaði þar sérstaklega til orða séra Gunnlaugs í sambandi við hæstaréttardóminn. Hann minntist líka á orð Jóns Baldvins hvað siðrof stjórnmálamanna varðaði. Í sambandi við meinta ábyrgð stjórnmálamanna í því hvernig ástatt væri í samfélaginu benti hann á ábyrgð fjölmiðlamanna sem veldu að fjalla frekar um ágreiningsefnin sem upp kæmu á milli stjórnmálamanna og -flokka í stað þess sem full samstaða væri um.
Birgitta þakkaði Jóni Baldvini sérstaklega fyrir hans innlegg og undirstrikaði að ekkert hefur breyst á íslenska stjórnarheimilinu í kjölfar hrunsins síðastliðið haust. Í því sambandi benti hún á að við sitjum uppi með sömu ráðgjafana og nefndirnar og voru starfandi fyrir hrun. Hún sagði að almenningur yrði að þrýsta meira á. Hún sagðist vilja vinna fyrir almenning að öllum góðum málum því hér þyrfti mjög mörgu að breyta til betri vegar.
Tryggi Þór sagði að það þyrfti að leita dýpra þar sem ástæða þess hvernig komið væri ætti sér miklu dýpri rætur en svo að það væri hægt að benda á einstaka menn sem bæru alla sök. Hann vildi meina að Íslendingar hefðu þjáðst af ákveðnu oflæti. Frumorsakirnar sagði hann væri að finna í syndunum sjö. Að hans mati er sú umfjöllun sem þingmenn og ráðherrar hafa fengið ósanngjörn. Í því sambandi benti hann framsögumönnunum, Gunnlaugi Garðarssyni og Jóni Baldvini Hannessyni, á að reiðin sé ein af dauðasyndunum.
Sigmundur Ernir talaði um að gæðastýring síðustu ára hefði leitt til misskiptingar gæðanna. Að hans mati gjöldum við fyrir fámennið. Hann vitnaði í Bjarna Ármannsson sem sagði að: Áhættusæknin er mikil vegna þess að eftirlitið er veikt. Hann sagði það sína upplifun að þingmaðurinn væri fórnarlamb framkvæmdavaldsins. Innan flokkanna ríkti ákveðin meðmælastemming þannig að menn þora ekki að horfast í augu við sjálfa sig og gagnrýna. Að hans mati tala stjórnmálamenn of mikið en gera of lítið af því að hlusta.
Salurinn og pallborðið
Þá var komið að fyrirspurnum áheyrenda og/eða innleggjum þeirra. Fundinn sóttu u.þ.b. fjörutíu gestir en engu að síður varð fyrirspurnartíminn ákaflega líflegur. Fjörlegur á stundum en eldfimur inn á milli. Bæði áheyrendum og gestum í pallborði lá greinilega töluvert niðri fyrir þannig að fundurinn teygðist nokkuð á langinn en var slitið laust um 22:30 en þá voru menn líka þó nokkuð teknir að lýjast enda nokkrir úr hópi áheyrenda þegar farnir heim. (Það skal tekið fram að ég tók myndina hér að neðan ekki fyrrr en undir lok fundarins).
Þar sem velfelstir þingmannanna höfðu brugðist við orðum séra Gunnlaugs eða beinlínis gert athugasemdir við orð hans, einkum um reiðina, vildi hann svara fyrir þau orð og benti á að okkur beri að bregðast við þegar vegið er svo gróflega að sakleysinu eins og hér hafi verið gert. Hann talaði um að gera óréttlætið sýnilegt og benti á að Gandhi hefði lagt breska heimsveldið að velli með þeirri aðferð.
Einn fundargesta benti á að það sem var látið heita jafnræði og gegnsæi hafi í raun orðið skjól spillingarinnar en annar að stjórnlagaþing væri tækið til þeirra breytinga sem hér væru nauðsynlegar. Hann spurði eftir því hvað hefði orðið um hugmyndir og/eða loforð um það.
Steingrímur minnti á að frumvarp um stjórnlagaþing hefði verið stoppað með málþófi stjórnarandstöðunnnar fyrir kosningar. Hann bætti því við að almenningur þyrfti að sýna stjórnmálamönnunum aðhald en til að geta brugðist við þyrfti hann upplýsingar. Að hans áliti geldur almenningur fyrir misvitra forystumenn en hann er samt ekki saklaus. Að mati Steingríms þurfum við öll á því að halda að horfa í spegil í þessu sambandi.
Höskuldur sagði að stjórnlagaþing væri eina tækið sem við hefðum til að gera þinggreininguna algerlega skýra. Hann sagði að það væri meiri hluti fyrir því inni á þingi. Hann bætti því við að menn mættu tala eins og þeir vildu en svo ætti að fara í atkvæðagreiðslu því stjórnlagaþingið væri nauðsynlegt.
Birgitta sagði að hún gæti ekki séð að minnihluti geti stoppað afgreiðslu máls með málþófi. Stjórnlagaþing væri mikilvægt samingarelement en það ætti að vera stjórnlagaþing fólksins en ekki einhverra flokksgæðinga. Í sambandi við það sem hafði komið fram um gegnsæi í máli Steingríms minnti hún á Icesave-málið. Hún vildi meina að það væri meiri launung nú en áður og kallaði eftir efndum á loforðum um gegnsæi.
Tryggvi Þór var mjög upptekinn af orðum séra Gunnlaugs um reiðina og vildi leiðrétta ýmislegt af því sem hann hafði sett fram um hana. Síðan talaði hann um sérhagsmuni og almannahagsmuni og sagði í því sambandi að þegar hallaði á hópa væri það dæmi um spillingu. Í þessu samhengi talaði hann um bankana sem eru nú í eigu ríkisins en þar sagði hann að væri viðhaft mikið ójafnvægi. Í sambandi við stjórnarskrármálið vildi hann meina að það hefði vantað gilda ástæðu fyrir slíku á þeim tíma sem frumvarpið var lagt fram í þinginu.
Sigmundur Ernir sagðist vera málsvari aukins lýðræðis og hagsmuna kjósenda. Hann styddi því bæði hugmyndir um stjórnlagaþing og persónukjör. Hann undirstrikaði að í sínum huga væri sama hvaðan gott kemur en hann benti á að honum væri alls ekki hrósað fyrir þessa afstöðu meðal sinna flokkssystkina. Samkvæmt hans tilfinningu er það almennt viðhorf að það skal allt heita vont sem kemur frá öðrum en gott sem kemur úr eigin flokki.
Í sambandi við gegnsæið benti hann á að það væri stór ástæða til að skoða hverjir eiga fjölmiðlana í landinu. Það væri mjög umhugsunarvert að stærstu eigendur langflestra fjölmiðla hér á landi væru þeir sem bæru meira og minna ábyrgð á hruninu.
Þar sem sumir meðal þingmannanna höfðu sett ofan í við bæði séra Gunnlaug og Jón Baldvin í sambandi við þeirra innlegg í upphafi fundarins, sérstaklega í sambandi við reiðina sem séra Gunnlaugur gerði að umtalsefni í sinni framsögu, bað Jón Baldvin um orðið. Hann sagði að hann bæri litla virðingu fyrir þeim sem bæru ábyrðg á þeirri stöðu sem íslenskur efnahagur væri í, í dag. Ormagryfjan sem er hefði opnast dragi í ljós mikið misrétti og spillingu en lítið gangsæi.
Hann undirstrikaði að í sínum huga væri það veikur maður sem ekki fyndi til reiði yfir því sem íslenskur almenningur horfir nú upp á. Það verður að stoppa ruglið í fjármálunum. Hann benti þingmönnunum á að það væri þeirra að leiða einhverja siðvæðingu inn í fjármálkerfi landsins.
Gunnlaugur undirstrikaði að stjórnmálamennirnir gætu ekki vikið sér undan ábyrgðinni af því að þeir leyfðu opnun útibúa íslensku bankanna erlendis að þjóðinni forspurðri en samt væri það hennar að standa skil á herfilegum afleiðingum þess gjörnings. Reiði almennings fyrir þessar sakir væri fullkomlega eðlileg.
Guðbergur Egill Eyjólfsson var meðal áheyrenda og nú var komið að honum. Undir málflutningi hans kvað við hvatingarorð og klapp frá öðrum áheyrendum en Guðbergur lék á alls oddi þó honum lægi greinilega mikið niðri fyrir. Mig langar að benda á að Guðbergur flutti m.a. flotta ræðu um möguleika til uppbyggingar atvinnuveganna á dráttarvélarmótmælunum svokölluðu sem fram fóru hér á Akureyri sl. vetur. (Sjá hér)
Guðbergur benti á nokkrar góðar hugmyndir um matvæla- framleiðslu og bað sérstaklega um viðbrögð og/eða hugmyndir frá stjórnmálamönnunum við slíkum. En auk þess spurði hann hversu langt stjórnvöld væru tilbúin til að ganga í að leyfa erlendum aðilum að nýta sér neyð landsins. Í því sambandi benti hann á hugmyndir um byggingu hátæknisjúkrahúss og útleigu landssvæðis fyrir herþotur.
Til að undirstrika enn frekar hversu fjarstæðukenndar hugmyndir um uppbyggingu lúxussjúkrahús og útleiga undir herflugvöll eru í hans huga og hve þær stríða gegn öllu sem kallast siðferði og samfélagslegri meðvitund benti Guðbergur á að það mætti velta því fyrir sér að ef þetta skref væri stigið núna hvort næsta skref yrði ekki t.d. lúxusvændishús fyrir auðjöfra? Það mætti réttlæta með því að hér fengju hórunar þó fasta búsetu í viðunandi húsnæði eða hvað segðu menn um risafangelsi fyrir pólitíska fanga héðan og þaðan úr heiminum? Það mætti réttlæta slíkt með því að hér fengju fangarnir þó betri meðferð og heilsugæslu.
Tryggvi Þór svaraði þessu með því að hann hefði ekkert á móti útgerð í heilbrigðiskerfinu og landvörnum. Hann benti Guðbergi á að hann megi ekki gefa sér þær forsendur að vondu kapítalistarnir græði bara á þessu. Hann vísar til þess að rekstur sjúkrahúsa eins og þess sem hér um ræðir hafi reynst vel víða erlendis enda hafa Íslendingar notið góðs af slíkum sérhæfðum sjúkrahúsum líka.
Birgitta þakkaði Guðbergi fyrir flott innlegg og myndlíkingarnar varðandi nýtingu Keilissvæðisins. Í því sambandi benti hún á að útleiga þess undir aðstöðu fyrir herflugvélar stríddi gegn þeirri hugmynd sem hingað til hefur verið almenn samstaða um að hér byggi friðelskandi þjóð.
Höskuldur sagðist vera fráhverfur einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
Þess má geta líka að hann og Tryggvi Þór voru báðir beðnir um að svara fyrir einkavæðingu bankanna. Þ.e.a.s. Kaupþings annars vegar og Landsbankans hins vegar. Það verður að segjast eins og er að báðum vafðist nokkuð tunga um tönn enda komst hvorugur vel frá sínu svari um ábyrgð flokksfélaganna í því ferli öllu saman. Þeir bentu reyndar báðir á að hvorugur hefði verið inni á þingi þegar það var ákveðið hverjir eignuðust þessa banka. Töluvert var líka um frammíköll og háðsglósur á meðan þeir reyndu að svara fyrir sig sem greinilega sló þá nokkuð út af laginu.
Steingrímur vildi leggja það til umræðunnar um reiðina að hún væri eðlileg en ekki hollur ferðafélagi. Innileggi Guðbergs svaraði hann með því að það væri mikilvægt að við héldum sjálfsvirðingu okkar í atvinnumálunum en endaði svo mál sitt á því að benda á að samkvæmt sinni skoðun væri það græðgin sem væri aðalmeinsemdin eða orsakavaldurinn í því sem við horfðum upp á í dag. Honum þætti það vissulega sorglegt að horfa upp á það að þrátt fyrir siðmenningu og leikreglur værum við ekki komin lengra en þetta á þroskabrautinni.
Þegar hér var komið var klukkan orðin 22:30. Ýmsir orðnir framlágir, aðrir ærslafullir, einhverjir ákafari en aðrir en fæstir færir til lengri fundarsetu. Fundi var því slitið þó enn væru nokkrir sem vildu krefja þingmennina svara um brýn málefni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir upplýsandi færslu um fundinn á Akureyri, ég verð að segja það að málflutningur Tryggva þórs og Sigmundar Ernis, og stundum Höskuldar gerir mig reiðari en ég var í gær. Þeir virðast ekki skilja okkur fólkið, þeir setja sjálfa sig skör ofar en okkur hin. Arg og garg!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.11.2009 kl. 01:43
Jóna Kolla, takk fyrir að innlitið og innleggið. Skil vel hvernig þú upplifir svör stjórnmálamannanna. Ég reyni að segja frá án þess að hafa skoðun - a.m.k. á því sem varðar það sem þingmennirnir segja - en ég er náttúrulega ekkert nema mannleg þannig að ég skil svo vel upplifun þína og ástæðurnar að baki henni.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2009 kl. 02:11
takk fyrir þessa færslu, áttu nokkuð ræðuna hans Jóns Baldvins á myndbandi eða sem hljóðskra?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.11.2009 kl. 06:19
Því miður Við höfum rætt það að taka fundina upp eða fá einhvern til samstarfs sem væri tilbúinn til að taka fundina upp, klippa það kræsilegasta saman í stutt myndband og setja inn á YouTube en það hefur ekki orðið að slíku enn.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.11.2009 kl. 17:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.