Loksins af borgarafundi um greiðsluverkfall HH

Þann 28. september sl. var fyrsti borgarafundur vetrarins haldinn hér á Akureyri. Það hefur dregist nokkuð úr hófi að gera grein fyrir honum hér en nú verður gerð bragarbót á því. Fundurinn var með hefðbundnu sniði nema það voru Hagsmunasamtök heimilanna sem réðu eiginlega lögum og lofum á fundinum. Meginefni fundarins var kynning á samtökunum svo og greiðsluverkfallinu sem þá var fyrirhugað en er nýlokið þegar þetta er skrifað.
Guðmundur Egill Erlendsson
Borgarafundanefndin hér á Akureyri stóð að undirbúningi og auglýsingum á fundinum. Við lögðum til einn frummælanda og hagfræðing frá Háskólanum hér í pallborðið en Hagsmunasamtökin áttu tvo af fjórum frummælendum. Auk framantalinna flutti Bragi Dór Hafþórsson, lögfræðingur framsögu en hann kom frá lögfræðistofunni Lögmenn Laugardal. Fundarstjóri var Guðmundur Egill Erlendsson.

Mætingin á fundinn var sæmileg eða tæplega tuttugu manns. Þeir sem mættu á fundinn voru þó greinilega ánægðir með hann. Einkum það að borgarafundirnir skuli vera farnir af stað aftur. Þess má geta hér að næsti fundur verður haldinn þann 29. n.k. en hann verður auglýstur bæði í N4-dagskránni og á Facebook þegar nær dregur.

En þá að framsögunum á síðasta fundi. Reyndar langar mig til að taka það fram áður en lengra er haldið að neðst í þessari færslu eru krækjur í ræður þeirra sem voru með þær niðurskrifaðar ásamt glærum sem annar frummælendanna frá Hagsmunasamtökunum hafði tekið saman fyrir kynninguna á samtökunum og boðuðu greiðsluverkfalli þeirra.

Framsaga húsnæðislánagreiðanda

Margrét Ingibjörg RíkarðsdóttirFyrst tók til máls Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir. Betur þekkt hér norðan heiða undir nafninu Magga Rikka. Hún mælti fyrir hönd húsnæðislánagreiðenda og sagði farir síns heimilis í þeirri baráttu ekki sléttar.

Hún byrjaði á því að rekja fjárhagslegar forsendur sínar og síns heimilis sem eru sennilega líkar margra annarra í hennar sporum. Hún hefur aflað sér menntunar sem hún nýtir sér í starfi. Vinnur hjá hinu opinbera og þiggur laun í samræmi við taxta opinberra starfsmanna. Hún er gift og miðað við þær forsendur sem voru þegar þau tóku saman dreymdi þau um að eignast húsnæði og hafa bíl til umráða. 

En nú eru allar forsendur brostnar og eins og Magga Rikka benti á er það ekki hinn almenni húsnæðislánagreiðandi sem ber ábyrgð á þeim forsendubresti. En í framhaldi af slíkum vangaveltum sagði hún þetta:

Það sem mér svíður sárast er að ég er gerð ábyrg fyrir óráðsíu þeirra sem komu öllu á kaldan klaka. Ég þarf að borga af lánum sem eru orðin þannig að greiðslumat mitt hefði trúlega ekki heimilað þau.

Er þetta eðlilegt? Hverra hagsmuna er verið að gæta? Ekki minna. Er það e.t.v. siðferðilega rangt af mér hinum almenna lántakenda að greiða lán mín. Það gæti Bjarna Ármannssyni alla vega fundist. Eins og allir vita lýsti hann því yfir að það væri siðferðilega rangt af honum að borga lán sem fyrirtæki í hans eigu hafði tekið. Er lausnin kannski sú að stofna fyrirtæki utan um lánin okkar og setja þau síðan í gjaldþrot? Spyr hin einfaldi skuldunautur.

Þá rakti Magga Rikka sögur úr nærumhverfi sínu sem voru allar á þann veg að hinn almenni borgari er varnar- og réttindalaus gagnvart valdi og regluverki ríkis og fjármálastofnanna. Lánin hafa farið fram úr greiðslugetu almennings og hann er að niðurlotum kominn. Þetta leiddi hana til eftirfarandi ályktunar

[...] finnst mér eðlilegt að þeir sem tóku sér lán til bíla- og húsakaupa fái tap sitt bætt rétt eins og þeir sem tóku sér lán til að búa til ”sparifé”, fengu sitt bætt, og þær bætur verði með raunverulegum hætti en lengi ekki bara í hengingarólinni. Fyrir ári síðan þegar bankarnir fóru á hausinn og allt fór fjandans til voru sett lög sem tryggðu innistæðueigendum innistæður sínar í bönkunum. Ég spyr, er ekki hægt á sama hátt að setja lög sem heimila leiðréttingu á yfirgengilegum breytingum lána og forsendubresti? 

Framsaga formanns greiðsluverkfallsins 1. okt. - 15. okt. 2009

Þá var komið að fyrri framsögumanni Hagsmunasamtaka heimilanna en  það var Þorvaldur Þorvaldsson sem er meðstjórnandi í Hagsmunasamtökunum en hann var auk þess formaður verkfallsstjórnar í nýliðnu greiðsluverkfalli.

Hann byrjaði á því að rekja lauslega sögu samtakanna og tilgang. Samkvæmt heimasíðu samtakanna er tilgangur þeirra „að veita fólkinu í landinu möguleika til að sameinast um og að taka þátt í að verja hagsmuni heimilanna með þátttöku sinni.“ Helsta markmiðið er að knýja fram leiðréttingu verðtryggðra og erlendra húsnæðislána og að jafna ábyrgð milli lántakenda og lánveitenda.(Hvorutveggja tekið af heimasíðu samtakanna. Sjá hér)
Þorvaldur Þorvaldsson
Því næst sneri Þorvaldur sér að því að segja frá tilefni greiðsluverkfallsins og hvernig hugmyndin að því hefði orðið til. Í því sambandi benti hann á að það væri ósanngjarnt að lántakandinn bæri einn ábyrgð á því að forsendur lána hafi breyst.

Hvað hugmyndina um greiðsluverkfallið varðaði vísaði hann til verkalýðsbaráttunnar þar sem verkfallsvopnið var notað í upphafi síðustu aldar til að ná fram mörgum af þeim réttindum verkalýðsins sem finnast sjálfsögð í dag. (Sjá m.a. þessar glærur, Axels Pétur Axelssonar inni á heimasíðu HH, hvað þetta varðar.)

Þá kynnti hann markmið greiðsluverkfallsins, sem er í fimm liðum, en þau voru í meginatriðum þessi:

  1. Að erlend lán með veði í íbúðarhúsnæði verði leiðrétt og yfirfærð í íslenskar krónur.
  2. Verðtryggð lán með veði í íbúðarhúsnæði verði leiðrétt þannig að verðbætur verði að hámarki 4% á ári frá 1. janúar 2008.
  3. Lagabreyting leiði til þess að ekki verði gengið lengra í innheimtu veðlána en að leysa til sín eignina sem stendur undir láninu.
  4. Lagabreyting leiði til þess að við uppgjör skuldar fyrnist eftirstöðvar innan fimm ára og verði ekki endurvakin.
  5. Gerð verði tímasett áætlun um afnám verðtryggingar lána sem fyrst og vaxtaokur aflagt. (Sjá líka hér

Þorvaldur rakti sögu verkfallsstjórnar frá stofnunhennar. Tók það m.a. fram að þeir hefðu leitað til ríkissáttasemjarar um að koma á samingaviðræðum. Þrátt fyrir að hann hefði tekið málaumleitan verkfallstjórnarinnar vel í fyrstu vísaði hann málinu frá sér. (Sjá hér)

Því næst útskýrði hann hvers vegna fyrirhugað greiðsluverkfall ætti aðeins að standa í hálfan mánuð. Hann sagði að þetta hálfsmánaðarverkfall væri hugsað sem eins konnar æfing og/eða liðskönnun. Þetta tímabundna verkfall myndi vonandi leiða í ljós hversu margir væru tilbúnir til að taka þátt og hvaða áhrif verkfall af þessu tagi hafi.

Þorvaldur taldi það nokkuð ljóst að þessi loforð ríkisstjórnarinnar um að mæta skuldavanda ríkisstjórnarinnar væru m.a. tilkomin vegna boðaðs greiðsluverkfalls. Hann benti á að samkvæmt hugmyndum stjórnvalda kæmi aðeins til greina að mæta þeim sem þegar eru komnir í greiðsluþrot. Þorvaldur ítrekaði að það þyrfti meira til.

Stór hluti lánagreiðenda finni fyrir því að þeir þurfa stöðugt að fórna fleiri og fleiri atriðum sem þeir töldu til sjálfsagðra lífsgæða fyrir nokkrum mánuðum. Margir væru þegar í stórkostlegum vandræðum við að ná endum saman en enn fleiri stefnu í viðlíka stöðu. Þess vegna þurfi almennar aðgerðir til að skapa almenna sátt í samfélaginu.
Borgarafundur á Akureyri 28.09.2009Í lok ræðu sinnar lýsti Þorvaldur eftir áhugasömum aðilum sem vildu standa að stofnun útibús Hagsmunasamtaka heimilanna hér á Norðurlandi. Mér er kunnugt um að nokkrir áhugasamir settust saman á Café Karólínu eftir fundinn en ég hef ekki haft spurnir af árangrinum.

Framsaga meðstjórnanda Hagsmunasamtaka heimilanna

Þá tók næst til máls Arney Einarsdóttir en hún er meðstjórnandi í samtökunum eins og Þorvaldur (sjá hér). Arney byrjaði á því að rekja ástæðu þess að hún gekk til liðs við samtökin sem var eins og hún orðaði það sú að við hrunið sl. haust upplifði hún rán um hábjartan dag. Henni var svo miðboðið að hún ákvað að gera eitthvað í málinu og gekk til liðs við Hagsmunasamtök heimilanna. Þannig beinir hún reiði sinni í aðgerðir.

Hún benti á að engin hafi verið að fylgjast með hagsmunum heimilanna. Talsmaður neytenda hafi verið sá eini sem lét sig málefni þessa hóps einhverju varða. Hún benti líka á að það þyrfti ekki aðeins að standa vörð um heimilin í dag heldur til frambúðar líka.
Arney Einarsdóttir
Arney var með glærur sem hún sendi mér og setti ég þær sem krækju neðst í þessari færslu.Til að byrja með fór hún að nokkru leyti yfir það sama og Þorvaldur hafði gert á undan henni. Þannig kynnti hún starfssemi samtakanna og benti á heimasíðu þeirra. Hún vék að greiðsluverkfallinu og viðurkenndi að hún hefði verið svolítið feimin við það til að byrja með.

Hins vegar minnti hún á að það voru lánveitendur en ekki lántakendur sem brugðust. Lántakendur meðal almennings stóðu í þeirri meiningu að þeir mættu treysta ráðgjöf starfsmanna bankanna og tóku ákvarðanir með tilliti til þess sem þeim var talin trú um að væri ráðlegt.

Lánveitendurnir aftur á móti, þ.e.a.s. eigendur bankanna, tóku svo stöðu gegn krónunni og ollu með því hækkun á höfuðstóli lánanna. Til að bæta gráu ofan á svart sýndu erlendir lánveitendur íslensku bankanna mikið fyrirhyggjuleysi þegar þeir dældu inn í þá lánsfé án neinnar fyrirhyggju.

Arney vék líka að því að eigendur bankanna reyndu að firra sig allri ábyrgð en benti í því sambandi á fréttatilkynningar bankanna um 100% húsnæðislán sem hafa ma.a. birst í fjölmiðlum. Ég bendi á glærur 9 og 10 í krækjunni í glærupakkanum hennar hér að neðan í þessu sambandi.

Þar er annars vegar fréttatilkynning frá Íslandsbanka frá árinu 2004 og hins vegar frá Kaupþingi frá 2007. Þar er m.a. haft eftir Ingólfi Helgasyni, forstjóra Kaupþings á Íslandi, að hann óttist ekki að þessi lán muni auka þenslu!

Arney sagði það sitt mat að almennar aðgerðir væru sanngjarnari en það að einstaklingar gætu samið hver fyrir sig út frá fjölskyldutengslum eða kunningsskap. Hún sagði það hluta af tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna að jafna áhættuna á milli lánveitenda og lántakenda. Í þessu sambandi þyrfti að auka samfélagslega ábyrgð lánveitenda.

Hún minnti á að u.þ.b. 9% landsmanna áætlaði að flytja úr landi vegna núverandi aðstæðna. Þess vegna væri það brýnt að koma stjórnvöldum og fjármálastofnunum í landinu í skilning um það að þau verði að grípa til aðgerða og koma heimilunum til bjargar. Hagsmunasamtök heimilanna hefur lagt sig fram um að þrýsta á þessa aðila og krefja þá um slíkar aðgerðir sem gætu líka endurvakið traust almennings til þeirra..

Arney fór yfir viðbrögð stjórnvalda fram að þessu við skuldavanda heimilanna en þau eru eftirtalin:

  • Tímabundin stöðvun nauðungaruppboða til 31. okt 2009 (tillaga HH) – staðfest 25. mars 2009
  • Lög um greiðsluaðlögun samningskrafna tóku gildi 1. apríl 2009 – eru nú í endurskoðun
  • Lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði taka gildi 15.
    maí 2009 – eru nú í endurskoðun.
  • Stjórnvöld hafa nú viðurkennt þörf til ALMENNRA LEIÐRÉTTINGA – Endurskipulagning skulda..
  • Hvað með leiðréttingu höfuðstóls? (sjá glæru númer 17 í glærupakkanum hennar Arneyjar sem er krækt neðst í þessa færslu)

Í þessu sambandi benti hún á að á meðan ekki kæmi til lækkunar höfuðstóls lánanna væri aðeins verið að framlengja vandanum. Auk þess talaði hún um að það væri afar ósanngjarnt að bara annar aðilinn í lánasamningnum, þ.e. lánveitandi, geti haft áhrif á forsendur lánasamningsins sér í hag. Lánveitendur, sem hafa sjaldnast nokkra sérþekkingu í lánamálum, geti hins vegar ekki haft nokkur áhrif á þróun samningsins.

Síðan vék Arney að lögum um vexti og verðtryggingu (sjá hér). Þar segir orðrétt í 13. gr: Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu.“ Í þessu sambandi talaði hún um að bráðavandinn væri meiri hjá þeim sem eru með gengistryggð lán en hún varaði við því að verðtryggðu lánin væru á sömu leið.
Borgarafundur á Akureyri 28.09.2009Að lokum vék Arney Einarsdóttir að könnun sem var gerð meðal félagsmanna HH. Þetta voru niðurstöður sem komu út úr spurningum eins og:

  1. Hverjar telurðu líkurnar á því að þú og þín fjölskylda geti staðið við fjárhagslegar skuldbindingar heimilisins næstu 6 mánuði?
  2. Hvernig er fjárhagsstaða þíns heimilis?
  3. Til hvaða aðgerða ert þú tilbúin/n að grípa til með það að markmiði að þrýsta á um aðgerðir stjórnvalda? (Sjá glærur 21-23 í krækjunni hér að neðan sem leiðir inn í glærupakkann hennar Arneyjar)

Þá kom hún að könnun sem Capacent-Gallup gerði meðal almennings í ágúst til september sl. á fjárhag þjóðarinnar og viðhorfi hennar til verðtryggingar og niðurfærslu lána. Þar kom m.a. í ljós að 18% þjóðarinnar telur sig gjaldþrota og stærstur hluti þessa hóps er á aldursbilinu þrítugt upp í fimmtugt. Niðurstöður þessarar könnunar leiddu líka í ljós að um 80% þjóðarinnar vill afnám verðtryggingar og niðurfærslu bæði verð- og gegnistryggðra lána (Sjá glærur Arneyjar nr. 24-27 í krækju merktri henni neðst við þessa færslu).

Að lokum setti hún upp glæru sem sýndi afstöðu þeirra sem tóku þátt í könnun Hagsmunasamtaka heimilanna. Þar kemur fram afstaða svarenda til þeirra aðgerða sem samtökin stungu upp á að kæmu til greina varðandi þrýsting á stjórnvöld til að krefja þau um aðgerðir til handa heimilunum.

Framsaga lögfræðings sem vinnur að undirbúningi hópmálsóknarinnar

Ég geri ráð fyrir því að allir kannist við Björn Þorra Viktorsson og hópmálsóknina, sem hann og kollegar hans á lögmannastofunni Lögmenn Laugadal, hafa nú í undirbúningi. Ef ekki vísa ég á viðtal við Björn Þorra úr Kastljósi frá 10. september sl. sem má finna hér og auk þess á heimasíðu þeirra en þar má m.a. finna þetta um hópmálsóknina:

Lögmenn laugardal ehf. hafa ákveðið að taka upp hanskann fyrir lántakendur á Íslandi og láta reyna á fjölmörg álitaefni varðandi réttarstöðu þeirra við þær dæmalausu aðstæður sem því miður hafa skapast í kjölfar banka- og efnahagshruns.

Bragi Dór HafþórssonBjörn Þorri komst ekki sjálfur á fundinn þó hann hefði mikinn áhuga á því. Hann mælti með Braga Dór Hafþórssyni, kollega sínum. Bragi olli svo sannarlega engum vonbrigðum heldur hélt bæði kröftuga og upplýsandi ræðu.

Ræðan hans er í mörgum atriðum svo upplýsandi að ég vildi helst birta hana alla en þar sem þessi færsla er þegar orðin alltof löng verð ég að velja úr henni nokkra athyglisverðustu bitanna. Ég minni svo á  ræðan í heild fylgir þessari færslu í  krækju hérna neðst og hvet ég alla til að lesa hana í heild. Eins og sjá má í framhaldinu átti í megnustu vandræðum með að velja úr henni.

Ef einhverjir voru farnir að dotta yfir tölulegum staðreyndum undir lok framsögu Arneyjar trúi ég ekki öðru en þessi kraftmiklu orð Braga Dórs í upphafi ræðu hans hafi rifið upp bæði eyrna- og augnlok viðkomandi:

Það greiðsluverkfall sem nú stendur fyrir dyrum er einmitt leið að réttarbót fyrir tugþúsundir skuldara á Íslandi. Réttarbót sem hefði átt að koma á með einhliða aðgerðum stjórnvalda fyrir réttu ári síðan. Ranglætið sem blasti við var augljóst. Fáir ofurríkir menn komu íslensku þjóðinni niður á hnén þar sem almenningur baðst miskunnar en í staðinn var höfuðið einfaldlega skilið frá búknum.

Winston Churchill þáverandi forsætisráðherra Breta sagði eitt sinn: ,,Aldrei hafa jafn margir átt jafn mörgum jafn mikið að þakka.“ Þessu má snúa upp í andhverfu sína þegar kemur að áhrifavöldum þessarar miklu kreppu sem við stöndum nú í og segi ég þá í staðinn: ,,Aldrei hafa jafn fáir valdið jafn mörgum jafn miklum skaða.“  

Í framhaldinu minnti Bragi Dór á að loforð fyrrverandi og núverandi ríkistjórna um að bjarga ætti heimilunum í landinu hafi ýmist reynst marklausar yfirlýsingar og/eða vonlausar aðgerðir til þess eins að slá ryki í augu almennings. Í staðinn hefur verið passað dyggilega upp á fjármagnseigendur.

Því næst rakti hann dæmi um fjölskylduna Jón og Jónu sem tóku erlent lán til íbúðakaupa í júlí 2007. Dæmið leit vel út þá en í ljósi nýliðinna atburða eru þau komin í þrot. Þá varpaði hann fram spurningunni um það hvernig þau gætu varist. Í fyrsta lagi benti hann á sömu lög og Arney hér að ofan eða lög um vexti og verðtryggingu og sagði:

Þegar lögin voru sett árið 2001 þá komst nefnd sú sem kom að samningu þessara laga að [þeirri niðurstöðuað] óheimilt væri að gengistryggja lán til framtíðar og kemur sú skoðun skýrt fram í athugasemdum eða leiðbeiningum með frumvarpi því sem varð að þessum lögum. Í þessari nefnd sat m.a. annarra Finnur Sveinbjörnsson, núverandi bankastjóri Kaupþings banka.

Bragi Dór undirstrikaði að bankarnir reyndu að skýla sér á bak við ómarktæk rök eins og þau að erlendu lánin væru ekki íslensk. Í því sambandi minnti hann á að allar upphæðir á þessum lánasamningum væru gefnar upp í íslenskum krónum. Þ.m.t: höfuðstóll, útborgun, vaxtakostnaður, afborganir, gjöld o.fl. Greiðendur fái greitt í íslenskum krónum og greiði þessi lán með þeim peningum. „Þannig að það er alger firra að halda því fram að um sé að ræða raunveruleg erlent lán. Lán getur ekki verið erlent bara út af því að bankinn segir það.“

Í öðru lagi ber að líta til þess að forsendur lánasaminga sem láveitendur og lántakendur gerðu sín á milli eru fullkomlega brostnar. Bankarnir reyna að verja sig með því að segja að lántakendur hefðu átt að geta séð það fyrir að lántaka í erlendri mynt væri hættulet og til að bæta gráu ofan á svart þá hafi þeir aldrei mælt með lántöku í erlendri mynt. Eingöngu boðið upp á hana!

Í framhaldinu varpaði Bragi Dór aðeins skýrara ljósi á þær forsendur sem voru fyrir hendi þegar íslenskir lántakendur voru að taka sín erlendu lán:

Forsendur eru hluti þeirra ákvörðunarástæðna sem lántaki og lánveitandi gera með sér í tengslum við lánið. Til að tryggja hag sinn þá lætur bankinn almennt fara fram greiðslumat þar sem koma fram tölur um hvað lántakandi getur greitt mánaðarlega til að standa í skilum. [...] Greiðsluáætlun er svo gefin út en þar koma fram ákveðnar forsendur sem lántakandi skoðar og notar þegar hann gerir upp við sig hvort hann hyggst taka lánið eða ekki.

Í júlí 2007 taldi greiningardeild KB-banka að gengisvísitala krónunnar myndi vera um 127 stig árið 2008. Í dag er hún rúmlega 230 stig. Bragi Dór varpaði fram þeirri spurningu hvað hefði orðið til þess að svo miklu munar?

Í kjölfar efnahagssamdráttar þá byrja bankarnir í það minnsta að taka stöðu gegn krónunni, jafnvel væri hægt að líta svo á að bankarnir hafi misnotað gengisskráningu krónunnar til lengri tíma eingöngu til að sýna fram á hagnað enda byggðist langstærsti hluti hagnaðar bankanna á gengishagnaði á árinu 2008. Með þessum hætti var hægt að sýna fram á STYRK íslenska bankakerfisins á kostnað skuldara.

Bragi Dór benti á að það verði að leiðrétta þá samninga sem voru gerðir við þessar kringumstæður eða m.ö.o. erlendu lánasamningana. Ástæðan er sú að þeir viðskiptahættir sem voru hafðir í frammi í kringum þá eru í besta falli siðlausir en í versta falli ólögmætir. Undir lok ræðu sinnar vék Bragi Dór svo máli sínu að núverandi félagsmálaráðherra með þessum orðum:

Fyrir nokkrum vikum sagði ágætur félagsmálaráðherra að aðgerðir til uppbyggingar heimilanna í landinu mættu ekki kosta neitt. Á ég þá að segja á móti – aðgerðir til Greiðsluverkfalluppbyggingar ríkisins í formi skatta og gjalda má ekki kosta mig neitt?

Að lokum sagði hann það skoðun sína að með greiðsluverkfalli minnti almenningur á samtakmátt fjöldans. Það er með honum sem við getum látið vita af okkur og hverjir það eru sem ráða í reynd. Það erum VIÐ! Fólkið í landinu.

Þá var komið að pallborði og fyrirspurnum 

Það var greinilegt að framsögumönnum þessa fundar lá töluvert mikið á hjarta þannig að það teygðist nokkuð á máli þeirra allra. Þess vegna varð ekki mikið rúm fyrir umræður sem kom kannski ekki að mikilli sök þar sem fundargestir voru ekki fleiri en raun bar vitni.

Þeir sem sátu í pallborði og svöruðu fyrirspurnum úr sal voru eftirtaldir frummælendur: Arney Einarsdóttir og Þorvaldur Þorvaldsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Bragi Dór Hafþórsson frá Lögmönnum í Laugardal, Auk Jóns Þorvaldar Heiðarssonar sem er hagfræðingur og lektor við Háslólann á Akureyri.. 
Borgarafundur á Akureyri 28.09.2009Í upphafi fékk Jón Þorvaldur tækifæri til að lýsa yfir afstöðu sinni þar sem hann lýsti helst yfir áhyggjum af því hvað hann sæi lítinn mun á því sem var og er nú uppi í samfélaginu. Ný ríkisstjórn hefur valdið honum miklum vonbrigðum því sáralítill munur er á henni og þeirri sem var felld í janúar síðastliðnum.

Þorvaldur Þorvaldsson benti á að það væri löngu tímabært að þrýsta á verkalýðshreyfinguna að taka þátt í kjarabaráttu Hagsmunasamtaka heimilanna. Að hans mati eru forystumenn verkalýðsins farnir að líta á sig sem bankastjóra yfir lífeyrisstjóðunum eingöngu og of uppteknir af því að verja sinn hag í þeim embættum til að láta sig kjarabaráttu verkalýðsins sig nokkru varða.

Bragi Dór svaraði einni fyrirspurn utan úr sal á þá leið að hópmálsókn væri bönnuð á Íslandi. Fólk hefur þó komið með lánin sín til Lögmannanna í Laugadal til að láta þá fara yfir þau. Nú þegar hafa þeir fundið eitt mál sem þeir fara af stað með gegn bönkunum. Ávinningurinn fyrir alla aðra er að slík mál verða fordæmisgefandi.

Arney Einarsdóttir svaraði annarri fyrirspurn utan úr sal með því að benda á að reiknivélarnar sem er verið að nota í íslenska hagkerftinu rekist hver á aðra og stríða gjarnan hver á móti annarri. Hún kallaði þetta „framvirkt fitl“. Hún benti á í þessu sambandi að t.d. gæti hækkun á launum kennara haft mjög alvarlegar afleiðingar á „dekurhagtölu“ einhvers annars sem gripi því til sinna ráða til að vinna á móti slíkri hækkun. Í þessu sambandi benti hún líka á að hagfræðiformúlur væru mannanna verk en ekki náttúrulögmál.

Nokkrir fundargesta, ásamt Jóni Þorvaldi, lýstu yfir áhyggjum sínum af svo drastískum aðgerðum eins og greiðsluverfalli og veltu fyrir sér hvaða afleiðingar það hefði fyrir þá að taka þátt í slíku. Þorvaldur svaraði slíkum athugasemdum með því að benda á að óttinn við að fara út fyrir rammann væri í sjálfu sér eðlilegur.

Hins vegar sagði hann að allir þyrftu að hafa það í huga að lánagreiðendur væru núna líkt og í búri út af þeim örfáu sem fóru út fyrir alla ramma og komu okkur í þessa stöðu. Greiðsluverkfallið væri því tilraun til að losna út úr búrinu og koma þeim sem fóru úr fyrir rammann inn fyrir hann aftur og koma skikki á veruleikann.

Hann benti á þátt stjórnmálamanna í þeim veruleika sem við okkur blasir núna. Hann velti þeirri spurningu upp hvar ábyrgðin lægi þegar það væri haft í huga að þeir þögðu í stað þess að gera lánagreiðendum viðvart um það hvert stefndi.

Í þessu sambandi tók einn fundargesta til máls og gerði siðrofið í samfélaginu að umtalsefni. Hann benti á þverrandi samfélagslega meðvitund stjórnmálamanna sem kemur m.a. fram í því að þeir setja þjóðina ítrekað aftast í forgangsröðun sinni. Viðkomandi benti á að eins og málið liti út fyrir honum þá setti stjórnmálamaðurinn sinn eigin frama í fyrsta sætið. Þá flokkinn. Þannig að hollustan við sjálfan sig og flokkshollustan væru sett miklu framar en þjónustan við samfélagið sem þeir væru kosnir til að þjóna.

Þetta verður viðfangsefni næsta borgarafundar sem verður haldinn hér á Akureyri þann 29. október n.k.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú ert svo dugleg. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.10.2009 kl. 00:55

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir krósið Jóna Kolla en ég skal alveg segja þér það svona í trúnaði að ég var alveg að gugna á þessari færslu Það sem rak mig áfram er það að ég þykist vera að búa til heimildir fyrir framtíðina. Það er kannski alveg glórulaust að geyma þær hér þar sem það er allt eins víst að þær verið horfnar ef einhverjum dettur í finna út úr því á Netinu hvað var að gerast á Akureyri á þessum byltingarárum

Rakel Sigurgeirsdóttir, 20.10.2009 kl. 02:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband