Þegar allt hrynur...

Mig langar til að byrja á því að vekja athygli ykkar á því að í tengdri frétt kemur fram að bankinn, sem lánaði höfuðpaurunum þremur sem stóðu á bak við íslenska efnahagshrunið, tilheyrir í raun lýbanskri efnahagslögsögu! Spurning hvar glæpamennirnir sem breyttu íslensku bönkunum í peningaþvættismiðstöðvar komust í samband við fulltrúa Aresbank? Það skyldi þó ekki vera að samböndunum hafi verið komið á í þessari ferð hér? (Þessi ferð var farin í janúar 2008 og má m.a. lesa um hana hér)

En tilefni þessara skrifa er annað en það að bölsótast enn einu sinni yfir siðspilltu eðli glæpamannanna sem höfðu sest að í íslensku bönkunum í umboði íslenskra stjórnvalda. Tilefnið er ekki heldur það að ítreka enn einu sinni vandlætingu mína yfir dáðleysi íslenskra stjórnmála- og annarra embættismanna sem í stað þess að koma bankahundunum í bönd létu þá komast upp með að stinga allri gæfu og framtíð lands og þjóðar í eigin vasa. Þessir hundar rændu okkur ekki aðeins framtíð okkar og sjálfstæði. Þeir rændu okkur ærunni líka!

Síðastliðið haust hrundi nefnilega ekki bara efnahagur þessa lands. Sjálfsvirðing margra Íslendinga hrundi  líka og það ekki að ástæðulausu! Ég man hvað ég skammaðist mín mikið.  (Hér má sjá það sem ég sagði um þessa skömm fyrir rétt um ári síðan á borgarafundi hérna fyrir norðan). Ég skammast mín reyndar enn og ekki á skömm mín eftir að batna meðan við búum við óbreytt ástand!

Ég skammast mín svo mikið að ég er tilbúin til að gefa eftir þjóðerni mitt og eyða því sem ég á eftir ólifað annars staðar en hér. Ég er tilbúin til að snúa baki við fortíð minni og uppruna, loka það úti og byrja algerlega upp á nýtt einhvers staðar allt annars staðar. Ég leyfi mér að vitna beint í Evu Hauksdóttur í myndinni Guð blessi Ísland þó hún segi þetta í öðru samhengi: „Þetta er algerlega nýtt viðhorf fyrir mér!“

Ég hef hingað til dáðst að flestu sem er íslenskt. Ég elska það mest allt nema kulda vetrarins. Ég hef umborið hann en þegar kuldi stjórnvalda gagnvart kjósendum sínum er kominn langt yfir frostmark hins íslenska vetrar þá er mér nóg boðið! Aðgerðarleysi þeirra lýsir svo glórulausu sinnuleysi. Ekki aðeins gagnvart efnahag okkar heldur orðspori þjóðarinnar líka.

Það getur vel verið að afstaða þessarar konu til okkar Íslendinga heyri til undantekninga en ég skil hana að mörgu leyti vel (Ég tek það fram að ég „rændi“ þessari þýðingu á orðum Alexöndru aftan af þessari bloggfærslu Írisar Erlingsdóttur):

„Þjófarnir í íslensku bönkunum, í samkrulli við spillt íslensk stjórnvöld, kosin til valda af samsekum íslenskum almenningi, studdir af hinum gagnslausu íslensku fjölmiðlum og hórmangeraðir af siðvana íslenskum forseta, stálu milljörðum frá öðrum þjóðum. Ykkar sameiginlega viðleitni (collective efforts) (já, sameinaða, því þrátt fyrir að þið haldið því fram að þið hafið ekki tekið þátt, þá gerðuð þið það samt) lagði í rúst líf fólks og fjárhag góðgerðarstofnana sem hjálpuðu hinum fátæku, þurfandi og óvinnufæru.

Eitt ár er liðið og enn höfum við ekki heyrt eitt einasta orð um afsökun, eða iðrun eða samviskubit. Í staðinn fáum við væl, kvartanir og mótmæli þess efnis að þið séuð saklaus. Glæpamenn ykkar og hjálparkokkar þeirra reka enn bankana ykkar, fjölmiðlana ykkar og sitja í ríkisstjórn ykkar. Þið og þeir kunnið greinilega ekki að skammast ykkar. Eftir að hafa nauðgað og blætt okkur, nú segið þið:

Gleymið hjálparstofnununum, hinum þurfandi, hinum fátæku. “Aumingja litla Ísland” er aðal fórnarlambið. Pínulitla Ísland er hundelt af lánardrottnum. Pínulitla Ísland er rógborið af yfirgangsseggjum. Agnarlitla Ísland vissi ekki neitt. Ekkert er ykkur að kenna. Þið gerðuð ekkert rangt. Leiðtogar ykkar blekktu ykkur. Fjölmiðlarnir ykkar lugu að ykkur. Og vanþekking ykkar sýknar ykkur.

Við, fórnarlömb glæpa ykkar, erum ef til vill ekki klárasta, flottasta, ríkasta, fallegasta fólk í heimi (eins og Íslendingar halda gjarna fram að þeir séu). En við höfum siðferði. Við metum hógværð og berum virðingu fyrir sannleikanum. Og þegar við lesum afsakanir ykkar, sjáum við úr fjarska hrokafulla, sjálfsupptekna, raunveruleikafirrta litla þjóð veltandi sér upp úr nýjustu lyginni sinni.

Þið hafið glatað trausti okkar. Þið munið aldrei aftur ávinna ykkur það.”


mbl.is Deilt um hvort peningamarkaðsinnlán teljist innlán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Takk fyrir. Því meiri upplýsingar sem ég fæ og því betur sem ég skoða þetta því líklegri þykir mér sú ágiskun að stjórnvöldum gangi það eitt til með öllum þessum drætti að fela sporin eftir sig og eða meðreiðarsveina sína, sem fjármögnuðu flokka, prófkjör og jafnvel einstaklinga.

Sigurður Þórðarson, 14.10.2009 kl. 04:27

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Af hverju annars allur þessi dráttur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.10.2009 kl. 15:20

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Rakel. Fjölmiðlar ganga nú fram af manni á hverjum degi. Ég tek þó ekki undir málflutininginn í rammanum. Mér er fullljóst að t.d. þú berð enga sök á hruninu og ég á eftir með að sjá hvað ég hef unnið mér til saga. Alla vega var ég ekki í neinni klíku né hef heldur fengið neitt sem ég hef ekki unnið heiðarlega fyrir.

Það sama má trúlega segja um marga Íslendinga. Blekkingarnar sem dynja yfir fólk úr fjölmiðlum og leynimakkið gerir þjóðina meira og minna óhæfa til þess að taka ákvarðanir í kosningum.

Í einangrun hér úti á miðju Atlandshafi virðist hafa þróast einhver menning hollustu og tryggðar við flokka og fólk óháð hugsjónum. Á þessu bera fjölmiðlar og stjórnmálamenn fyrst og fremst ábyrgð.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.10.2009 kl. 23:21

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Góðar pælingar Rakel. En ég skammast mín ekki lengur fyrir að vera íslendingur. Ég hef sjaldan hitt eins marga einstaklinga af erlendu bergi brotna og eftir hrun. Engin þeirra, nema þessi Alexandra, fordæmir íslenskan almenning enda telja þeir að almenningur í þessu landi hafi verið blekktur big time! Þeir fordæma hins vegar þessa 30 bankamenn og útrásardólga. Þeir fordæma einnig íslenska stjórnmálamenn sem og þeirra eigin stjórnmálamenn sem þeir telja vanhæfa úr öllu hófi.

Útlendingar vita mætavel, nema þessi Alexandra, að þú dæmir ekki heila þjóð út frá gjörðum örfárra einstaklinga eða krappi í stjórnmálamönnum þeirra. Þeir gera sér líka grein fyrir að landið er gjaldþrota og segja það beint. Þess vegna finnst þeim sem ég hef talað við að stjórnmálamenn þeirra og alþjóðastofnanir koma illa fram og alls ekki skilja hver staðan er í raun og veru. Þeir gera sér einnig grein fyrir fámenni þjóðarinnar og furða sig á þeim fjárhæðum sem ætlast er til að þjóðin greiði fyrir glæpi fáeinna. Þeir gera sér einnig grein fyrir að við munum aldrei geta greitt þetta sem til er ætlast án þess að rústa samfélaginu. Þeir skilja heldur ekki hvers vegna ætlast er til að íslenska þjóðin taki á sig áhættu erlendra fjárfesta, að íslenska þjóðin einkavæði hagnað þeirra og taki á sig tapið þegar það verður. Slíkt er ekki gert erlendis gagnvart erlendum fjárfestum að öllu jöfnu.

Kv, ari

Arinbjörn Kúld, 14.10.2009 kl. 23:24

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæll Ari ég tek undir það sem þú segir. Þessi Alexandara er kannski svona fólk sem hefur gaman af því að sparka í liggjandi fólk.

Útlendingar sem ég hef talað við telja að við séum fjárkúguð af Bretum og Hollendingum.

það er meginlínan hjá þeim sem ég hef talað við.

Ég vil líka benda á að aldrei hafa eins margir útlendingar lagt leið sína til landsins eins og á þessu ári og þeir hafa ekki tekið með sér byssur heldur börnin sín og ástvini. Það bendir nú til þess að þeir treysti Íslendingum nokkuð vel.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 15.10.2009 kl. 00:35

6 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég sé á myndunum að Össur hefur lagt á sig ferðalag til Qatar, ásamt forsetahjónunum.  Fleðruhátturinn í honum og Ólafi er með ólíkindum.  

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 15.10.2009 kl. 00:47

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Til að það fari ekkert á milli mála þá tók ég því ekki þannig að Alexsandra væri gott dæmi um skoðun meginþorra þeirra sem fylgjast með því sem fram fer á Íslandi. Hins vegar þykir mér viðhorf hennar skiljanlegt.

Skömm mín stafar ekki af því sem hún segir að Íslendingar eigi að skammast sín yfir heldur hinu himinhróðandi aðgerðarleysi. Það er ljóst að stjórnvöld eru að gera lítið sem ekkert til að taka á þeim alvöru vanda sem við erum að glíma við. Vandinn er ekki eitthvað sem kom að himnum ofan.

Það eru menn sem standa á bak við það að efnahagur landsins er nú ein rjúkandi rúst. Þessum mönnum var trúað fyrir íslensku bönkunum. Sparifé landsmanna. Þeir biluðust og höguðu sér eins og sælgætissjúkir smágrísir í yfirhlaðinni nammibúð. Þeir rændu og rupluðu, gömbluðu og overdósuðu, sóuðu og týndu en eins og við er að búast af sönnum fíklum þá orguðu þeir eintómar hótanir þegar fór að sjást til botns. Það er því miður útlit fyrir að þeir hafi flækt íslensk stjórnvöld svo rækilega í spillingarnetið með sér að þeir hafi þau hreinlega í vasanum!

Sú stjórnsýsla sem lét þetta viðgangast er sest ofan á okkur núna. Þeir hlaða á okkur byrðunum en sussa á okkur eins og það séum við sem erum ofstopafullar og hávaðasamar frekjudósir. Það er krafist þolinmæði og bent á að hlutirnir taki tíma... og á meðan við bíðum fýkur í sporin.

Stór hluti þjóðarinnar hlustar á susskórinn og tekur þátt í sussinu, því miður. Á meðan þessu fer fram þykir mér ekki skrýtið þó fleiri í kringum okkur snúist á sveif með viðhorfi Alexsöndru. Á meðan við látum sussa á okkur til þess eins að þeir sem komu okkur í þessa stöðu geti afmáð sönnunargögnin eða látið glæpina sína firnast þá skammast ég mín. Ég get barasta ekki að því gert!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.10.2009 kl. 02:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband