Borgarafundur: Hverjum þjóna fjölmiðlar?

Síðastliðinn sunnudag  (1. mars) var haldinn enn einn borgarafundurinn hér á Akureyri. Fundurinn fór fram í Deiglunni að þessu sinni og hófst klukkan þrjú. Yfirskrift fundarins var: Hverjum þjóna fjölmiðlar? Markmiðið var að fjalla um hlutverk fjölmiðla í samfélaginu.

Fundarstjóri var Edward H. Huijbens en frummælendurnir voru þrír. Tveir komu að sunnan og var það megin- ástæðan fyrir því að fundurinn var haldinn um miðjan dag á sunnudegi að þessu sinni. Þennan sunnudag var glampandi sól og þess vegna flestir sennilega að reyna sig við skíðabrekkurnar í Hlíðarfjalli. Þrátt fyrir það voru þó rúmlega 30 manns á fundinum. Auðvitað voru það sorglega fáir miðað við brýnt umtæðuefni en fundurinn tókst samt vel að mati viðstaddra.

Tveir frummælendana komu að sunnan, eins og áður sagði, en það voru þau: Þorbjörn Broddason prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og Björg Eva Erlendsdóttir ritsjóri Smugunnar. Auk þeirra var Björn Þorláksson fréttamaður Stövar 2 hér á Akureyri með framsögu. Ágúst Ólafsson forstöðumaður Svæðisútvarps RÚV á Akureyri og Guðmundur Heiðar Frímansson heimspekingur og deildarforseti við kennaradeildina við Háskólann á Akureyri sátu líka í pallborði ásamt framantöldum.

Sóley Björg Stefánsdóttir, einn skipuleggjanda borgarafundanna hér fyrir norðn, tók framsögurnar upp að þessu sinni. Upptökurnar birti hún síðan á Facebook og set ég krækjur undir nöfnum framsögumanna þannig að þeir sem eru á Fésinu geta hlutstað á ræðurnar ef þeir vilja. Ég leyfi mér að mæla sérstaklega með einstaklega góðri ræðu Þorbjarnar Broddasonar sem var fyrstur til að taka til máls á þessum fundi.
Þorbjörn Broddason
Það er engin spurning í huga Þorbjarnar hverjum fjölmiðlar eiga að þjóna. Hann sagði að fjólmiðlar ættu að vera handbendi skjólstæðinga sinna en þá sagði hann vera: lesendur, hlutstendur og áheyrendur. Eftir þetta skýra svar í byrjun ræðu sinnar leit Þorbjörn aftur til tíma flokksblaðanna og velti því fyrir sér hvort hefði ráðið hvoru í raun. Þ.e. hvort það voru þeir sem stýrðu blöðunum sem stýrðu í raun flokknum sem þau þjónuðu eða öfugt.

Þorbjörn tók það skýrt fram í þessu sambandi að þessar vangaveltur gætu reyndar aðeins átt við í sambandi við Tímann og Morgunblaðið þar sem það voru sterk peningaöfl sem stýrðu þeim en því var ekki að heilsa með minni blöðin eða Alþýðublaðið og Þjóðviljann. Þessi tvö voru þó ekki síður handbendi ákveðinna flokka en hin. Á tíunda áratug síðustu aldar deyja svo öll flokksblöin nema Morgunblaðið en nýir eigendur tóku við því.

Um tíma var eignarhald blaðanna þannig að Björgúlfsfeðgar áttu Morgunblaðið, Bónusfeðgar Fréttablaðið og Bakkavararbræður Viðskiptablaðið. Þorbjörn benti á að það væri eðlilegt að við spyrðum okkur hvers vegna þessir vildu eiga fjölmiðla þó þeir stórtöpuðu á því. Auk þess ættum við að spyrja okkur hvort einhver munur sé á því ástandinu sem hann lýsti að hefði verið fyrir 1990 og því sem er nú í byrjun 21. aldarinnar. Að hans mati er það ekki. Blöðin eru notuð til að gæta hagsmuna sterkra hagsmunafla í þjóðfélaginu ekkert síður nú en var áður. Að hans mati lifum við ekki aðeins í spilltu samfélagi heldur nánast trylltu líka.

Hann vildi meina að þrátt fyrir þetta breytta eignarhald, sem hann lýsti, þá hefðu fjölmiðlarnir síst staðið sig í því hlutverki að þjóna hagsmunum þeirra sem þeir ættu í raun að þjóna. Því næst kom Þorbjörn að Ríkisútvarpinu sem hann minnti á að væri í eigu allrar þjóðarinnar og ætti þess vegna að þjóna henni allri. Hann minnti á breytingar á lögum um útvarpsráð en nú er það þannig að útvarpsráð gengur ævinlega í takt við ríkjandi ríkisstjórn. 

Ef ég skildi Þorbjörn rétt hafði hann mesta trú á fréttastofu Ríkisútvarpsins en hann vildi þó meina að þeir hefðu ekki síður gerst sekir um það að hafa sofnað á verðinum hvað hlutverk þeirra gagnvart skjólstæðingum sína varðar. Hann minnti á að fjölmiðlar ættu að vera fjórða valdið en til þess að þeir gætu gegnt því hlutverki yrðu fjölmiðlamenn að læra að spyrja gagnrýninna spurninga. Að hans mati geta frétta- og blaðamenn aldrei losað sig undan eignarhaldi sínu en Ríkisútvarpið sem er í eigu allrar þjóðarinnar ætti að hafa burði til þess að hans mati.

Að lokum nefndi Þorbjörn þrjú dæmi frá liðnum árum þar sem fjölmiðlar hefðu algerlega brugðist hlutverki sínu gagnvart neytendum:

Fyrsta dæmið kallaði Þorbjörn „DeCode og lænarnir“ þar sem fjölmiðlarnir gleyptu allt sem kom frá DeCode og hundsuðu sjónarmið þeirra lækna sem reyndu að vekja athygli á öðrum sjónarmiðum. Þeir  birtu hins vegar flennistórar upphrópanir fréttatilkynninga sem DeCode matreiddi ofan í fjölmiðlana.

Annað dæmið nefndi hann „útrásina og hagfræðingana“. Þar benti hann á að Ragnar Önundarson hefði spáð því nákvæmlega í byrjun árs 2005 hvernig myndi fara fyrir efnahag landsins vegna ofvaxtar bankanna. Fjölmiðlar veittu þessu enga athygli en fóru með himinskautum við að mæra útrásarvíkingana ásamt ýmsum ráðamönnum þjóðarinnar.

Þriðja dæmið sem Þorbjörn nefndi er úr nútímanum en hann nefndi það „persónukjör og kjördæmaskipan“ og spurði sig hvers vegna þetta fengi enga umfjöllun í fjölmiðlun. Hann benti á að þetta væri þó tiltölulega aðgengilegt efni þar sem fjölmiðlamenn þyrftu ekki annað en leita til stjórnmálafræðinga og félagsfræðinga sem þeir ættu að vera í góðri æfingu að bera undir spurningar.

Ég hjó sérstaklega eftir því sem hann sagði í þessu sambandi í lok ræðu sinnar þar sem hann hvatti þjóðina til á að taka fram potta og sleifar til vinna persónukjöri og breyttri kjördæmaskipan brautargegni. Þorbjörn tók það svo fram að það væru ekki bara fjölmiðlar sem hefðu brugðist heldur líka fræðingar sem áttu að láta í sér heyra. Lausnina á vanda fjölmiðla sagði Þorbjörn vera betur metnaðir fjölmiðlamenn!
Björg Eva Erlendsdóttir
Næst tók Björg Eva til máls. Hún benti á að áður hefði verið talað um að stjórnmálaflokkarnir hefðu stýrt fjölmiðlunum en nú væri talað um frjálsa fjölmiðla. Hún undirstrikaði að þetta væri blekking. Markaðsfjölmiðlar gætu aldrei verið frjálsir. Hún velti svolítið fyrir sér hvaða eignarfyrirkomulag kæmi best út þ.e. fjölmiðlar sem eru í eigu flokka, markaðsafla eða lytu svokallaðri dreifðri eignaraðild en komst í raun ekki að neinni einfaldri niðurstöðu í því sambandi.

Fjölmiðlar mega þó ekki lúta auði og valdi á þann hátt að þeir bregðist neytendum sínum. Hún benti á að það hvernig er komið fyrir fjölmiðlunum núna sé í beinu samhengi við þá samfélagsþróun sem hefur verið á undanförnum árum og við erum kannski byrjuð að horfast í augu við núna.

Hún benti á að yfirvöld hafi gjarnan beitt sér gegn fréttamönnum. Ráðherrar hafi gjarna kallað fréttamenn á teppið og hundskammað þá. Það var líka algengt að ef það var verið að fjalla um eitthvern tiltekinn málaflokk sem heyrði undir eitthvert ráðuneytanna þá var viðkvæðið: „Ertu búin/-inn að tala við ráðherrann? Það verður auðvitað að skoða báðar hliðar á þessu máli.“

Hins vegar hafði enginn áhyggjur af því að hin hliðin fengi að njóta sín þó búið væri að birta allt upp í sjö viðtöl við ráðherrann um sama mál þá minnti enginn á að það vantaði annað sjónarhorn. Enginn lagði áherslu á að það þyrfti að tala við þá sem ákvörðun ráðherrasns snerti. Eva benti líka á að það hafi allir vitað að það borgaði sig ekki að gangrýna stjórnvöld of harkalega því þá gat viðkomandi allt eins pakkað saman og kvatt starfið.

Það vissu það líka allir að sérstakir trúnaðarmenn stjórnvalda voru settir yfir fjölmiðla. Þetta gilti um alla fjölmiðla og þannig er það enn þá. Þetta gildir líka um Ríkisútvarpið sem lýtur nú lögmálum markaðarins og það er þannig t.d. núna að það er miklu auðveldara að reka fréttamenn en var áður. Björg Eva vakti athygli á því, sem flestir eru sennilega meðvitaðir um, að nú eftir hrunið hefur það verið nokkuð áberandi að fréttamenn sem stunduðu gagnrýna fréttamennsku hafa verið reknir en hinir ekki.

Almenningur treystir Ríkisútvarpinu enn þá best en hinum treystir það almennt ekki. Þar skiptir mestu máli að flestir vita hvað eignaraðildin merkir. Hún benti á að það væru nokkrar skýringar á þvi að flestir treystu Ríkisútvarpinu best en varaði við því að fólk treysti öllu sem þaðan kæmi í blindni því reglurnar sem um það ættu að gilda, gerðu það ekki alltaf. Ríkisútvarpið hefur ákveðnar skyldur en það eru stjórnendur þess sem túlka þessar reglur.

Björg Eva talaði um að innan fjölmiðlanna hafi ekki orðið eins alvarleg þróun og í bönkunum en þó hafi margir gamlir og reyndir blaðamenn yfirgefið fjölmiðlana eða verið gert að víkja. Hún talaði um að fjölmiðlarnir hefðu í þó nokkrum tilvikum fórnað því sem þeir hefðu helst átt að halda í og nefndi þáttinn Kompás í því samhengi. Þeir sem sitja eftir á fjölmiðlunum er frekar einsleitur hópur blaðamanna sem eru flestir nýskriðnir út úr háskóla og búa langflestir í miðbæ Reykjavíkur.

Undir lokræðu sinnar vék hún að vefmiðlunum sem hafa verið að spretta upp og blómstrað í þeim jarðvegi sem hún lýsti á undan. Hún vék að Smugunni sem hún ritstýrir sjálf og Pressunni sem er nýr miðill sem segist vera óháður miðill en þegar hún nefndi nafn ritsjórans vakti það almennan hlátur í salnum. Þar var greinilega enginn tilbúinn til að kaupa það að þessi miðill gæti verið óháður eftir að þeir heyrðu nafn hans.

Björg Eva sagði að hún væri þó ekki svartsýn á þróun fjölmiðla. Hún undirstrikaði að eignarhald fjölmiðla muni alltaf hafa áhrif þess vegna sé það líka mikilvægt fyrir lesendur að það sé ekkert verðið að fela hver eigi og reki viðkomandi miðil. Hún vildi að fjölmiðlar væru margir og margvíslegir þannig að þeir endurspegluðu margvíslega sýn lesenda, hlustenda og áhorfenda.
Björn Þorláksson
Björn Þorláksson
var síðastur frummælanda. Hann var sá eini sem sendi mér ræðuna þannig að þeir sem vilja heldur lesa ræðu hans en hlusta á hana bendi ég á krækju í hana í lok þessarar færslu.

Björn hóf ræðu sína á því að fjalla um hlutverk blaðamannsins sem hann sagði að ætti ávallt að vera það að vera í stjórnarandstöðu en hann velti því líka upp hvernig slíkt gengi í litlu landi eins og á Íslandi hvað þá litlum bæ eins og hér á Akureyri? Að hans mati er Akureyri alveg nógu stór staður til að bera gagnrýna og faglega blaðamennsku þó lítið fari fyrir henni nú að hans mati.

Hann benti á að því miður hefði margt færst til verri vegar eftir hrunið síðastliðið haust og tók eftirfarandi dæmi:

Tökum staðarblaðið. Þar virðist það algjörlega hafa farið fram hjá ritstjórn staðarblaðsins að 1700 Norðlendingar eru nú í dauðateygjunum á atvinnuleyssiskrá. Eigendur þess hafa sagt í samtölum við mig að þeir telji það ekki hlutverk blaðsins að færa fólkinu neikvæðan tón. Mikilvægara sé að tala fólk upp! Það er hreint ótrúlegur misskilningur ef menn halda það raunverulega að það sé fjölmiðla að tala upp eitt eða annað. Þeir eiga bara að segja frá hlutunum eins og þeir eru.

 

Hann benti líka á þann vanda sem flestir blaðamenn stæðu frammi fyrir en það væri sá að þrufa að leika tvö hlutverk. Annars vegar ættu þeir að vera harðir spyrlar en svo þyrftu þeir að leika skemmtikrafta þar á milli. Hann nefndi Sigmar Guðmundsson sem dæmi um þetta. Síðan hélt hann áfram:

Í uppsagnarholskeflu síðustu mánaða hefur aðallega ein týpa fréttamanna lifað af. Það er týpan sem ég kalla hina tannlausu blaðamenn. Þá sem alltaf eru vinir allra. Sigla lygnan sjó. Þora aldrei. Sjálfstæðir blaðamenn sem hafa synt upp árnar eins og hugrakkir laxar, blaðamenn sem hafa gert sér grein fyrir mikilvægi þess að hjóla í valdið alla daga ársins hafa velflestir fengið uppsagnarbréf á síðustu vikum. 

Vandinn sem Björn benti á að staðarblaðið hér stæði m.a. frammi fyrir er sá að ef þeir ætluðu sér að fjalla um neikvæðu fréttirnar þá væri líklegt að Akureyrarbær sem heldur því að meira og minna leyti uppi með því að auglýsa í blaðinu kippti að sér hendinni. Hann benti á að þetta væri ekki aðeins vandi fjölmiðlanna hér á Akureyri. Vandinn væri á landvísu. Hann ítrekaði þó að fjölmiðlarnir hefðu brugðist hlutverki sínu í aðdraganda kreppu og stæðu sig afleitlega enn. Stóra spurninginn sem við stæðum frammi fyrir núna er sú hvernig fjölmiðla við viljum í framtíðinni?

Þegar frummælendur höfðu lokið ræðum sínum komið að Ágústi Ólafssyni og Guðmundi Heiðari Frímannssyni að koma með stutt innlegg um það hverjum fjölmiðlar eigi að þjóna að þeirra mati. Ágúst Ólafsson, forstöðumaður RÚV hér á Akureyri byrjaði. Hann byrjaði á því að taka undir það sem hafði komið fram í framsögunum á undan um aðstæður fjölmiðla og fréttamanna.

Hann benti þó sérstaklega á tímaleysi sem fréttamenn byggju við til að vinna betur að einstökum fréttum og fylgja þeim eftir. Tók undir að nálægðin á minni stöðum gerði starf fréttamanna oft flóknara en í stærri samfélögum.

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki, sagði að fjölmiðlar ættu fyrst og fremst að þjóna almenningi. Þeirra hlutverk væri að þjóna með frásögnum og rökræðum um samfélagsmál. Hann sagði að það væri óþægilega mikið til í því sem fram kom í framsögunum en vildi þó ekki taka undir þá svartsýni sem honum fannst koma þar fram. Hann benti á þróunina sem hefði orðið í fjölmiðlun á síðustu misserum og vildi undirstrika hlutverk Netsins í því sambandi.

Nú gæti almenningur t.d. látið skoðun sína á hinum ýmsu málum í ljós á Netinu og tekið þátt í samfélagsumræðunni þar. Hann taldi að þessi þróun myndi grafa undan tökum stjórnmálamanna og auðvaldsins á fjölmiðlun. Guðmundur vakti líka athylgi á því að vandinn við að benda á það sem miður fer blasir ekki bara við fréttamönnum heldur ýmsum gætu stefnt t.d. stefnt starfsöryggi sínu í voða með að opna munninn. 

Hann taldi það líka grafalvarlegt mál að fjölmiðlar hefðu verið hræddir til þagnar og vísaði þar til þess hvernig gangrýnin á bankakerfið hefði sett allt á annan endann á sínum tíma. Þar vísaði hann til þess hvernig bæði bankamenn og stjórnmálamenn hefðu þaggað niður í fjölmiðlunum þannig að þeir settu frekari umfjöllun um gagnrýnina út af dagskránni.
Edward H. Huijbens
Eftir að fundarstjórinn opnaði fyrir fyrir- spurnir bað Hjörleifur Hallgrímsson, stofnandi Vikdudags, um orðið þar sem hann tók undir orð Björns og vakti athygli á því að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir sínar til að fá að birta grein eftir sig þar þá hefði það ekki fengist. Hans niðurstaða er sú að þar sé ekki pláss fyrir gagnrýnar greinar. Þar á bæ sé sú stefna viðhöfð að vekja ekki máls á því sem miður fer í bæjarfélaginu. Síst af öllu ef gagnrýnin í því sambandi beinist að bæjaryfirvöldum.

Umræðurnar í fyrirspurnartíma fundarins urðu mjög fjörugar og kom margt afar athyglisvert fram. Björg Eva ítrekaði t.d. í sínu svari um Ríkisútvarpið að það væri markaðsúrvarp. Hún treysti sér hins vegar ekki til að skera úr um það hvort skyldur þess væru ekki nógu vel skilgreindar eða hvort það væri ekki farið nógu vel eftir þeim. 

Ég varpaði fram spurningu um fréttamat fjölmiðla sem ég vil meina að sé töluvert brenglað og vísaði þá til þess að á þessum tíma voru allir fjölmiðlar kjaftfullir af upplýsingum um það hver sæktist eftir sæti, á hvaða lista og í hvaða kjördæmi en nánast ekkert hefur verið fjallað um öll þau brýnu málefni sem mótmælendur kepptast við að vekja athygli á, á bæði mótmælum og borgarafundum eins og þessum. Eins benti ég á að mér finnst það skjóta mjög skökku við að þegar fjallað er um mótmælin er alltaf talað við lögreglu og valdhafa en ekki einhverja meðal mótmælenda.

Þorbjörn ítrekaði að það ætti að taka upp persónukjör svo fréttir gætu farið að snúast um einhverja alvarlegri hluti en hvaða Jónar eða Jónur sæktust efir sæti í hvaða kjördæmi.  Björn Þorláksson benti á að það væri eitthvað mikið að fréttamatinu þegar það gengi allt út á það að tala alltaf og endalaust aðeins við valdhafana og taldi fulla ástæðu til að sinna fólkinu í landinu betur. Guðmundur tók líka undir það að það vantaði að fjölmiðlar leituðu svara við mikilvægum spurningum og taldi að ástæðan fyrir því væri sú að hér hefði ekki tíðkast sjálfstætt fréttamat.

Ágúst Ólafsson var á því að uppröðun á lista flokkanna væri það sem fólk vildi fá að heyra um nú rétt fyrir kosningar en viðurkenndi að þeir hefðu mátt fjalla betur um borgarafundina sem hafa verið haldnir hér á Akureyri.  Björg Eva benti á að fjölmiðlar hefðu fjallað töluvert um mótmælin en viðurkenndi að það væri full ástæða til að fjalla ítarlegar og meira um margt af því sem þar hefur komið fram. 

Margrét Heinreksdóttir, lögfræðingur, var einn gestanna á þessum fundi. Hún benti á að þegar fjölmiðlarnir urðu frjálsir með lagasetningu árið 1986 þá hefðu þeir ekki öðlast neitt raunverulegt frelsi. Það eina sem hefði komið út úr þessari löggjöf var það að eftir það urðu þeir aðeins örðuvísi háðir. Síðan benti hún á hvernig margir fjölmiðalmenn leyfa sér að koma fram í fjölmiðlum þegar þeir mæta óundirbúnir í viðtöl eins og Sigmar Guðmundsson í hið fræga Kastljósviðtal við Davíð Oddson ekki fyrir alls löngu.

Hún benti á að fréttamenn ættu ekki að sýna almenningi það virðingarleysi að mæta svo illa undirbúnir í sjónvarpsviðtöl að viðmælendur taki yfir viðtalið. Valdhafarnir ættu ekki að komast upp með að stýra umræðunni í fjölmiðlunum lengur. Að lokum benti hún á að ef fjölmiðlar ætluðu sér að þjóna almenningi í landinu ættu þeir að fara að hlusta á landann.

Þorbjörn brást við því sem Margrét sagði um frammistöðu Sigmars í umræddu Katljósviðtali og sagði það mestu niðurlægingu íslenskrar fjölmiðlunar þennan veturinn. Hann sagði að það hefði verið ótrúlegt að horfa upp á það hvað Sigmar var illa undirbúinn. Áhorfendur kunnu spurningarnar sem hann átti að spyrja Davíð Oddsson. Þeir vissu líka hvernig Davíð myndi bregaðst við en sátu agndofa yfir því hvernig Davíð lék sér hreinlega að Sigmari eins og hann hefði ekki hugmynd um það hvers átti að spyrja eða hvers var að vænta af viðmælanda sínum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Það er smá ruglingur þarna með nafnið mitt mín kæra. Sóley Björk Stefánsdóttir heiti ég og þrátt fyrir að hafa ekkert á móti því að vera mistekin fyrir ofurfemínistann Sóley Tómasdóttur :) held ég að betra sé að rétt sé rétt ;)

Sóley Björk Stefánsdóttir, 10.3.2009 kl. 16:57

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Fyrirgefðu. Búin að leiðrétta þetta

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2009 kl. 20:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband