Við skulum öll sameinast og mótmæla næsta laugardag

Mér finnst hún alltaf jafnskrýtin spurningin um það hvers vegna ég mótmæli og hverju ég er að mótmæla. Mér finnst það liggja svo í augum uppi að það ætti ekki að þurfa að útskýra það. En kannski á þessi spurning rétt á sér og þess vegna ætla ég að reyna að svara henni í fáum orðum.

Við bankahrunið síðastliðið haust þá fékk ég staðfestingu á því sem mig hafði lengi grunað. Það var eitthvað mikið að í íslensku samfélagi. Meinið lá ekki beinlínis hjá þjóðinni. Þ.e.a.s. mér og þér. Meinið var meira eins og dulið krabbamein sem hafði þó áhrif á þjóðina alla. Það má líka segja að meinið hafi verið enn flóknara því það var ekki síður andlegt. Áróðurinn sem var viðhafður miðaði allur að því að gera þjóðina meðvirka. Við áttum að líta upp til neyslufíklanna og taka þá okkur til fyrirmyndar.
Réttlæti
Við bankahrunið varð mér ljóst að neyslu- fíklarnir höfðu í skjóli áróðursins rænt þjóðina. Það var þessi staðreynd sem ýtti mér af stað út í mótmælin í upphafi. Einhverjir ömuðust við því og fannst ég gera mig seka um það að vera of pólitísk. Ég hef alltaf hafnað því og geri það enn. Sterk réttlætiskennd er nefnilega hafin yfir alla pólitík að mínu mati.

Því er ekki að neita að mér blöskruðu viðbrögð stjórnvalda sem einkenndust að aðgerðarleysi og áframhaldandi árórði sem var í engum takti við hin hrópandi vandamál sem mér fannst blasa við. Það skipti ekki máli hverjir hefðu verið við stjórn, hverjir eru við stjórn eða hverjir verða við stjórn. Ég sætti mig ekki við aðgerðarleysi og á meðan það viðgengst þá held ég áfram að mótmæla!

Ég ætlast til að þeir sem settu þjóðina á hausinn verði sóttir til saka! Ef ég hefði gerst sek um auðgunarbrot væri ég yfirheyrð og ákærð. Ég vil að það sama sé látið yfir alla ganga. Það að margir flækist inn í það sem olli bankahruninu og það að upphæðirnar séu ógnarstórar er sísta afsökunin fyrir því að málið sé látið kyrrt liggja.

Þó þeir sem muni vinna að málinu muni þurfa að mæta hótunum afsakar það ekki heldur að málið sé látið kyrrt liggja. Það sem skiptir máli er að það er ekkert réttlæti í því að við, íslenskur almenningur, eigum að blæða fyrir þessa glæpi. Við og afkomendur okkar.

Ég mótmæli! Ég mótmæli í nafni barna minna og barnabarna. Ég mótmæli fyrir alla þá sem mér þykir vænt um. Fyrir alla þá sem þurfa að líða fyrir það að það er verið að skera niður í velferðarkerfinu sem var ekki svo burðugt fyrir. Ég mótmæli fyrir hönd okkar allra hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Ég læt engan tala niður til mín þess vegna. Ég læt engan setja á mig einhvern pólitískan stimpil þó ég krefjist réttlætis fyrir íslenska þjóð. Mér er reyndar alveg sama þó einhver vilji kalla mig vinstri græna eða kommúnista fyrir það að ég mótmæli. Ef það er orðið yfir réttlæti í orðaforða þeirra, sem það gera, þá er mér sama. Ég mótmæli og er stolt af því! Ég get ekki setið þegjandi undir óréttlætinu sem felst í því að þeir sem settu landið á hausinn skuli enn ganga lausir.

Ég ætla að taka þátt í mótmælum n.k. laugardag. Ég vona svo sannarlega að þú gerir það líka. Það er nefnilega rík ástæða til! Mundu að mótmælin hafa haft áhrif þó við höfum ekki fengið það sem að mínu mati er brýnast út úr þeim enn.

Ef fram fer sem horfirNeyslufíklarnir sem settu landið á hausinn leika enn lausum hala. Vegna þess sem þeir gerðu okkur hafa margir glatað öllu sínu sparifé. Misst húsin sín, bílana sína og síðast en ekki síst atvinnuna sína. Þeir eru núna rúmlega 16.000 sem ganga um atvinnulausir.

Hvaða afleiðingar telur þú að þetta eigi eftir að hafa fyrir samfélagið? Ég veit að ef ég missti allt mitt þá missti ég um leið vonina, trúna og kærleikann. Ég reikna með að ég yrði döpur, reið og fylltist jafnvel hefndarþorsta.

Ég vil það ekki og ég vil ekki að neinn þurfi að standa frammi fyrir slíkum tilfinningum heldur. Til að sporna gegn óréttlætinu og afleiðingunum þurfum við að standa saman. Ég hvet alla til að mótmæla n.k. laugardag og standa vörð um réttlætið og geðheilbrigði þjóðarinnar um leið!


mbl.is 14 þúsund heimili eiga bara skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Rakel !

Um leið; óg ég þakka þér, þessa stórkostlegu grein, vil ég, að fram komi, að allt frá hruni, og reyndar fyrr; hefi ég hugleitt, hversu þessir; raunverulegu VÍTISENGLAR, hafi getað slegið um sig, innan lands sem utan, í boði hinna hégómlgustu, meðal okkar - alla tíð.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 21:30

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér innlitið og kveðjuna Við erum ábyggilega nokkur sem óaði við því sem fram fór og varð bert í bankahruninu. Það er ljóst að efnahagur landsins er í rúst. Það er ekki slys. Það eru afleiðingar af gengdarlausri græðgi. Þeir sem fóru þannig fram verða að sæta ábyrgð. Það er krafa sem við verðum að sameinast um að nái fram að ganga. Fyrr uni ég mér ekki hvíldar. Það er svo einfalt!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.3.2009 kl. 21:40

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég verð að fara að drífa mig á mótmælafund aftur ég hef ekki mætt síðan í byrjun febrúar.  Ég hafði mætt á alla hina mótmælafundina nema þann fyrsta. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.3.2009 kl. 00:52

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Kannski sjáumst við bara á laugardaginn

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.3.2009 kl. 15:09

5 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Ég mæti enn á öll mótmæli og borgarafundi. Það var gaman að hitta þig í gær en það kom mér á óvart hvað þú er ljóshærð. Vona að þú hafir haft gaman að borgarafundi.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.3.2009 kl. 20:07

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Sömuleiðis Sjáumst vonandi á morgun líka! Þetta með háralitinn... Ég virka sennilega dökkhærðari á myndinni en ég ber orðið með góðu móti í dag Svo eru þeir ótrúlega margir sem hafa alltaf séð mig rauðhærða hvort sem ég hef verið dökkhærð eða ljóshærð. Fékk ágæta skýringu á þessu fyrir stuttu síðan frá manni sem sagði: Að það væri ekki nema von þar sem ég sé andlega rauðhærð

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.3.2009 kl. 01:21

7 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Verður mótmælt á torginu?

Hallgrímur Guðmundsson, 14.3.2009 kl. 01:52

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Nei, því miður Ég er í Reykjavík og ætla að taka þátt í mótmælum þar á morgun.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 14.3.2009 kl. 02:16

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tryggvi, ég mótmæli því að þeir sem settu landið á hausinn fái aðra meðferð en aðrir glæpamenn. Ég mótmæli því að hátt í 20.000 séu orðnir atvinnulausir. Að 30-40.000 heimili í landinu séu orðin gjaldþrota. Ég mótmæli því að bankarnir og aðrar lánastofnanir skuli ganga í þrotabú fólks á meðan ríkisstjórnin hefur beðið því vægðar.

Ríkið á bankanna þannig að ríkisstjórnin stjórnar þeim. Þess vegna á hún að fylgja því eftir að þeir taki ekki húsnæði og aðrar eignir upp í skuldir. Það eru allir samningar sem við húsnæðiskaupendur og lántakendur gerðum við banka og lánastofnanir. Þess vegna er það í hæsta máta óeðlilegt að þessar stofnanir skuli sæta lagi nú og leysa til sín eignir fólks í djúpri neyð sem það ber í langflestum tilvikum sáralitla ábyrgð á sjálft.

Ég mótmæli því líka að íslenskir fjölmiðlar skuli láta undir höfuð leggjast að upplýsa almenning um raunverulega stöðu þessara mála. Ég krefst þess að þeir fari að leggjast í alvöru rannsóknarblaðamennsku og þjóna almenningi sem sá upplýsingamiðill sem þeir eiga að vera.

Er ég nú orðin norðanskelfir! Það er ekki ónýt nafnbót En svo ég svari spurningu þinni. Ég gegni ýmsum hlutverkum. Eitt þeirra er að ég er fulltrúi framhaldsskólakennara í samninganefnd. Það þýðir að ég þarf að sitja fulltrúa- og aðaltrúafundi á vegum Félags framhaldsskólakennara og Kennarasambands Íslands. Það var erindi mitt suður að þessu sinni.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.3.2009 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband