Sumt gleymist aldrei...

Það er ljóst að sumt gleymist aldrei! Þannig tíma lifum við núna. Tíma sem verða lengi í minnum hafðir. Tíma sem við reynum að rýna og ráða í en fáum ekki fullkomlega greint hvernig verða túlkaðir þegar fram í sækir. Það eina sem við vitum fyrir víst núna er að þetta eru merkilegir tímar en fyrir hvað þeirra verður nákvæmlega minnst í framtíðinni getum við ekki endanlega fullyrt.

Ég eins og aðrir reyni að ráða í þessa tíma en ég get aðeins túlkað þá fyrir mig. Ég hef ábyggilega sagt það áður að ég hef svo sannarlega fundið fyrir tilfinningasveiflum varðandi möguleikana sem ég sé í því sem er að gerast í samfélaginu. Að öllu jöfnu er ég sennilega fast að því að vera fáránlega, barnalega bjartsýn en rétt eins og aðrir fyllist ég stundum vonleysi.

Slíkar tilfinningar helltust yfir mig þegar fréttirnar af hruni Glitnist bárust okkur Landráð af „gáleysi“síðasta haust. Slíkt vonleysi hellist yfir mig aftur og aftur á meðan ég reyndi að gera það upp við mig hvort fulltrúar fyrrverandi ríkis- stjórnar neituðu að horfast í augu við ábyrgð sína vegna skorts á dómgreind eða vegna vanhæfni í ætt við siðspillingu. Ég skal líka viðurkenna það að ég barðist mörgum sinnum við tilfinningar sem einkenndust meira af vonleysi en nokkru öðru þegar ég fylgdist með uppgangi Davíðs Oddssonar í borgarpólitíkinni á níunda áratug síðustu aldar.

Nú situr þessi fyrrverandi borgar- stjóri í einum seðlabankastjóra- stólanna og það er útlit fyrir að hann ætli sér að neita að fara. Á meðan situr öll íslenska þjóðin með öndina í hálsinum og bíður átekta eftir því hver framvindan verður. Ég hef ákveðið að treysta núverandi forsætisráðherra til að leysa það mál á farsælan hátt.

En það er ljóst að þessir tímar munu ekki gleymast. Það hvernig leysist úr krísunni sem tengist seðlabankastjórninni akkúrat núna verður bara einn liður í miklu stærri sögu. Við höfum upplifað svo margt eftir hrun bankanna og eigum að öllum líkindum eftir að horfa upp á svo margt til viðbótar í tengslum við það að það er ómögulegt að segja fyrir um það á þessari stundu hvað mun standa upp úr í allri þeirri sögu.

Ástæða þess að ég er að velta þessu fyrir mér núna er sú að í raun eigum við eftir að komast til botns í því sem liggur að baki því sem við höfum hingað til aðeins séð utan frá. Við eigum eftir að komast að skýringum þess að bankarnir kollsteyptust og þjóðarbúið með. Við höfum öll einhverjar skýringar og mörg okkar óstaðfestan grun. Margir hafa orðað glæpinn landráð í því sambandi.

Ég er ein þeirra sem hef verið ákaflega óróleg einmitt vegna þess hvernig allt lítur út fyrir að íslenska þjóðin hafi verið gerð gjaldþrota fyrir tilverknað örfárra einstaklinga, sem fengu að vinna að því óáreittir, en enginn þeirra hefur verið sóttur til saka. A.m.k. ekki enn! Ég man ekki hvenær ég fór að kalla glæp þeirra og samverkamanna þeirra landráð en 3. nóvember síðastliðinn skrifaði ég pistilinn: Heitir glæpurinn landráð af gáleysi?

Núna þremur mánuðum seinna erum við ekki miklu nær en þó eru þeir alltaf fleiri og fleiri sem virðast hallast að því að það alvarlega efnahagsumhverfi sem við búum við núna eigi rætur sínar að rekja til einhvers sem fellur undir slíka skilgreiningu. Þetta krefst auðvitað tafarlausrar ransóknar. E.t.v. er það skref í þá átt að halda borgarafund undir heitinu: Landdráð af „gáleysi“.

Þessi fundur verður haldinn á Akureyri núna um helgina. Borgarafundarnefndirnar á Akureyri og í Reykjavík standa sameiginlega að þessum fundi en hann verður haldinn í Ketilhúsinu á sunnudaginn, 8. febrúar kl. 15:00. Ég vona að fjölmiðlamenn ranki við sér og fjalli um þennan fund eins og hann á skilið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Ég mæti á fundinn. Hann verður örugglega góður. Verður ekki kaffi og kleinur?

Jóhann G. Frímann, 7.2.2009 kl. 08:11

2 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Góður pistill hjá þér. Ég er hrædd um að fram að kosningum gefist ekki tími til að skoða þessi mál og það á ekki eftir að koma niðurstaða í þetta allt, og í kosningunum kjósi fólk yfir sig Sjálfstæðismenn aftur, og við verðum í sömu sporum og við vorum fyrir hrun, og það versta sem ég hræðist er að þá verði hrunið komið yfir á heimshrun og við samfærð um að þetta hafi ekki verið slæmri stjórn að kenna, það verður algjör hvítþvottur hjá Sjálfstæðinu. Ekki það ég er að reyna að vera bjartsýn, það gengur bara hálf treglega þessa daganna, kannski lagast þetta með hlýnandi veðri og hækkandi sól

Sigurveig Eysteins, 7.2.2009 kl. 08:44

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir enn einn frábæran pistilinn Rakel og takk fyrir stuðninginn.

Sjáumst á sunnudaginn,

Hlynur Hallsson, 7.2.2009 kl. 10:08

4 identicon

Rakel Þetta er akkúrat lýsingin á þvi sem við erum að upplifa núna...

og hvernær verður landráð af gáleysi landráð af ásetningi? Hvað vissu þessir herrar (þetta voru jú allt karlar) og hvernær vissu þeir það?

Ef það væri vilji til að rannsaka þessi meintu landráð þá væri fyrir löngu búið að frysta alla tölvupósta, fundarboð og allar fundargerðir þessara manna. Hægt væri að lofa þeim sakaruppgjöf sem aðstoðuð við að upplýsa málið.

Grunurinn er fyrir hendi en viljinn til að komast í botn í málinu er ekki til staðar hjá stjórnvöldum.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 10:22

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jóhann: Ég get ekki lofað þér kaffi og kleinum en ég held að mér sé óhætt að lofa ykkur Hlyni góðum fundi

Sigurveig: Ég vildi að ég gæti sent þér einhverja bjartsýnisgeisla en sé ekki hvernig má koma því við á þessum miðli. Þetta hjarta kemst kannski næst því

Þráinn: Ég er svo vel upp alin að ég bæti „gáleysinu“ við svona til vonar og vara. Hins vegar tek ég undir ásetningsvangaveltur þínar. Þeir sem voru svo uppteknir af því að græða að þeir hugsuðu um ekkert nema um eigin hag, fluttu peningana úr landi, færðu eignir yfir á eiginkonur sínar þegar í óefni stefndi o.fl. vissu hvað þeir voru að gera. Þeim virðist hafa verið sama því ættum við þá ekki að geta treyst því að þeir gjaldi fyrir glæpi sína!

Við höfum þegar þolað miklar hörmungar fyrir græðgisfíklana og eigum eftir að þola meira þannig að það er lágmarkskrafa að þeir verði rannsakaðir! Vona að einhverjir fari að gefa sig fram sem vilja aðstoða við að fletta ofan af þeim efnahagshryðjuverkum sem voru unnin á íslenskum fjármálamörkuðum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.2.2009 kl. 15:32

6 Smámynd: hilmar  jónsson

Góð færsla Rakel.

hilmar jónsson, 7.2.2009 kl. 20:36

7 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir pistilinn Rakel. Það sem er kannski verst er að ógeðfeld valdaklíka sem reynir að sópa alvarlegum glæpum undir teppið og bjarga sjálfum sér og sínum en skilja þjóðina eftir í hörmungum. Við þessu verður að bregðast. Á þingi endurskoða nú sjálfstæðismenn söguna og vilja telja þjóðinni trú um að þeir hafi hvergi komið nærri.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.2.2009 kl. 21:45

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk Hilmar og Jakobína fyrir innlitið.

Jakobína: Ég get ekki hugsað mér að þeir sem tóku þátt í glæpnum komist upp með hann! Við getum ekki látið það viðgangast að auður og völd upphefji menn yfir lögin. Við lifum á 21. öldinni og við eigum að vera komin lengra í jafnréttinu en svo að óbreyttur almenningur þurfi að líða fyrir einstaklinga sem ráða yfir meiru en gegnur og gerist.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.2.2009 kl. 23:00

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sjálfsstæðisflokkurinn á hæstarétt. Hæstiréttur hefur markvisst alltaf dæmt þeim í vil sem framið hafa mannréttindabrot (valdhöfunum).

Þegar þessi mannréttindabrot eru færð fyrir alþjóðadómstóla vinna einstaklingar alltaf en valdhafarnir hér hunsa niðurstöðurnar.

Svon hefur þetta gengið kerfisbundið í áratugi. Meira segja blessuð börnin eru ekki óhult fyrir þessum svíðingum en hæstiréttur dæmdi fyrir nokkrum vikum síðan að heimilt væri að misþyrma börnum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 8.2.2009 kl. 00:53

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég hef fylgst með þróuninni sem hefur orðið í sambandi við ráðningar eða kannski öllu heldur skipanir dómara í hæstarétt og hvaða afleiðingar það hefur haft í sambandi við einstaka málaflokka. Því miður eru þar þó nokkur fjöldi mála sem hafa fengið þannig niðurstöðu að það hefur fyllt mig vonleysi...

Fæ kannski tækifæri til þess seinna að segja þér hvaða málaflokkar það eru sem ég hef einkum fylgst með.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.2.2009 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband