Er það nú alveg víst?

Það er margt að athuga við þessa frétt. Fyrst er það framsetning og úrvinnsla fréttarinnar en ekki síður innihald hennar. Þessi frétt er tilkynning frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Tilefni tilkynningarinnar kemur fram í titli fréttarinnar og það hverjir standa að baki henni kemur fram strax í byrjun:

Vegna umfjöllunar undanfarnar vikur um þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri, m.a. um þjónustu geðdeildar sjúkrahússins, vilja framkvæmdastjórn og stjórnendur í lækningum og hjúkrun á geðdeild sjúkrahússins koma eftirfarandi á framfæri.

Það er athyglisvert að mbl.is skuli ekki nota tækifærið og fá sjónarhorn einhvers annars sem málið snertir. Fréttin er reyndar ekki annað en orðrétt tilkynning framkvæmdarstjórnar Sjúkrahússins. Ég persónulega hefði viljað heyra í einhverjum þeirra starfsmanna sem er að missa vinnuna samkvæmt því sem kemur fram hér: „Lækkun á rekstrarkostnaði geðdeildar er fyrst og fremst fólginn í fækkun stöðugilda og samnýtingu starfsmanna“ Ég hefði þo helst viljað fá sýn einhvers skjólstæðings deildarinnar sem er búið að loka á og hvaða afleiðingar boðuð sparnaðaraðgerð hefur á batahorfur viðkomandi.
Á bak við allt svona er fólk
Mér finnst afar sérkennilegt að sjá þessa tilkynningu frá Fjórðungs- sjúkrahúsinu orðrétta á mbl.is án þess að blaðamaðurinn, sem gengur þannig frá henni, skuli víkja einu orði að alvarlegasta vinkli hennar. Þeim vinkli sem mér finnst að hljóti að blasa við öllum hugsandi manneskjum. Það er nefnilega þannig að á bak við þessa aðgerð er fólk. Ekki aðeins þeir sem misstu vinnuna sína heldur líka fólk sem er veikt. Þetta fólk hverfur ekki ásamt sjúkdómum sínum við það að deildin, sem hafði það hlutverk að líkna því, lokar.

Miðvikudagskvöldið 28. janúar sl. var borgarafundur hér á Akureyri um niðurskurðinn í heilbrigðiskerfinu. Þar var lokun dagdeildar geðdeildarinnar m.a. rædd sérstaklega. Kristján Jósteinsson, sem frá og með deginum í dag er fyrrverandi forstöðumaður deildarinnar, var einn frummælandinn á þessum fundi. 

Hann var auðvitað miður sín vegna lokunar deildarinnar og benti m.a. á eftirfarandi til að undirstrika að niðurskurður í geðheilbrigðisþjónustunni á þvílíkum tímum og við stöndum frammi fyrir núna er grafalvarlegt mál:

Eftir efnahagshrunið hér á landi í byrjun október síðastliðinn var strax ljóst að einhverjar alvarlegustu afleiðingar þeirra hamfara yrði versnandi geðheilsa meðal þjóðarinnar. Sýnt hefur verið fram á í fjölda rannsókna að efnahagskreppur valda auknu algengi geðraskana. Þetta er reynsla annarra þjóða sem hafa orðið fyrir áföllum af svipuðu tagi.

Finnsk stjórnvöld virtust hins vegar ekki hafa gert sér grein fyrir þeim sálrænu né félagslegu afleiðingum sem síðar urðu í kjölfar efnahagskreppunnar sem hófst þar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Nú, 10-15 árum frá lokum kreppunar eru Finnar að takast á við alvarlegar langtímaafleiðingar kreppunnar með miklum tilkostnaði og þjáningu. Það er þó mikilvægt að undirstrika hér að engin þjóð á Vesturlöndum hefur orðið fyrir jafn alvarlegu áfalli og Íslendingar á síðari tímum.

Umfjöllun um borgarafundinn sem imprað er á hér að ofan og alla ræðu Kristjáns Jósteinssonar er að finna hér. Ræða hans og annað sem kom fram á fundinum draga mjög úr tiltrú minni á því að eitthvað sparist fyrir þessar aðgerðir. Þegar rætt er um sparnað í aurum í tilviki eins og því sem hér um ræðir má heldur ekki gleymast vandamálin hverfa ekki og kostnaðurinn þeirra vegna tæplega heldur. Sennilegra er að hann eigi eftir að aukast þó hann komi annars staðar niður.

Það er þess vegna nokkuð víst að hinn raunverulegi sparnaður sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri ætlar að ná með lokun dagdeildar geðdeildarinnar flyst yfir á bæjarfélag og fleiri vasa. Kostnaðurinn þurrkast þess vegna ekki út heldur kemur niður annars staðar.

 

Viðbót: Ef maður er að nöldra og setja út á þá þarf maður líka að kunna að þakka fyrir þegar eitthvað kemur á móti. Þess vegna ætla ég að bæta því við hérna að í dag er fjallað um lokun dagdeildar geðdeildarinnar á mbl.is frá öðru sjónarhorni en því sem ég gagnrýni hér að ofan. Umfjöllunin er hér. Þar er m.a. talað við tvo skjólstæðinga deildarinnar. Fréttinni lýkur á orðum annars þeirra sem segir: „Að koma hingað gaf mér alveg nýja von.“ Hvað verður um þá von nú við lokun deildarinnar?

Til að allrar sanngirni sé gætt þá er e.t.v. rétt að taka það fram að um tímabundna lokun hennar er að ræða...


mbl.is Sparnaður á geðdeild FSA 6-7 milljónir í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Starf frétta- og blaðamanna hefur tekið þeim breytingum undanfarin ár að nú taka þeir við tölvupóstum og fréttatilkynningum, sníða þær aðeins til og birta. Þeir eru nánast hættir að grafast fyrir um tilefni og ástæður og hvað þá að ræða við báða aðila.

Arinbjörn Kúld, 8.2.2009 kl. 00:13

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég veit ekki hvort þú veist það en ég var í fjölmiðlanámi hér við HÍ og svo starfaði ég eitt ár hjá Svæðisútvarpinu hér fyrir norðan Ég hef þess vegna kynnst starfi blaða- og dagskrárgerðarmanna á fjölmiðlum nokkuð. Þeir eru alls ekki öfundsverðir af starfsskilyrðum sínum blessaðir en sumir mættu sannarlega sýna meiri metnað í starfi.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.2.2009 kl. 02:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband