Heitir glæpurinn landráð af gáleysi?

hrunid.jpgÉg velti því fyrir mér hvort hér er komið nafn á glæpnum sem stjórnvöld og auðmannaklíkan, vinir þeirra, hafa unnið íslensku samfélagi? Þegar ég skoða það sem þeir sem áttu að fylgjast með hafa sagt þá finnst mér ekki ósanngjarnt að kalla glæp þeirra einmitt þessu nafni.

Er það ekki rétt að ríkisstjórnin og stjórnendur bankamála vildu ekki hlusta? Sáu ekki það sem þau áttu að hafa kunnáttu til að sjá? Almenningur hafði áhyggjur af þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin viðhélt en fulltrúar hennar hlustuðu bara alls ekki á úrtöluraddir almennings sem ef miðað er við kosningatölur tilheyrðu minnihlutanum.

Það er kannski hægt að fyrirgefa stjórnvöldum heyrnarleysið gagnvart almenningi í þessu tilliti einhvern tímann seinna. Hitt að þeir skelltu líka skollaeyrum við aðvörunum sprenglærðra sérfræðinga á sviði viðskipta og hagfræði er hins vegar grafalvarleg staðreynd. Það getur tæplega nokkur haldið því fram kinnroðalaust að þjóðin geti fyrirgefið slíkt hvað þá að henni beri skylda til þess.

Það má vissulega reyna að halda því fram að þeir sem héldu um stjórnartauma íslensks efnahagslífs hafi hreinlega talið að stefna þeirra í efnahagsmálum myndi ganga upp. Þegar það hefur hins vegar komið í ljós að margítrekaðar viðvaranir sérfróðra manna um hrunið, sem efnahagsstefna þeirra myndi leiða til, hefur orðið að veruleika er ljóst að þeir hafi hreinlega ekki haft nóga mikla þekkingu til að taka ábyrgð á efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég spyr mig líka hvernig þeir gátu talið sér trú um að efnahagsstefna eigi að leiða til farsældar þegar hún sýnir að erlendar skuldir vaxa með þvílíkum hraða að aukning þeirra stefnir í himinhæðir á meðan landsframleiðslan heldur sig niður við jörð? Héldu þeir að eitthvað annað gilti um rekstur ríkisins en um allan annan rekstur þar sem eyðslan verður að taka mið af innkomunni? Það er að segja ef maður vill ekki stefna honum í gjaldþrot. Ég get ekki betur séð en þeir sem áttu að halda utan um ríkiskassann hafi ekki haft til þess neina burði. M.ö.o. þeir hafa enga burði til að valda slíku ábyrgðarstarfi og þess vegna fór sem farið hefur.

Af því sem hefur komið fram í hinu alvarlega efnahagshruni hér á landi finnst mér við hæfi að kalla glæp þeirra sem bera ábyrgð á þessum hlutum landráð af gáleysi!

Viðbætur: Hefði auðvitað átt að tengja tengja þessa frétt á mbl.is við færsluna. En þar sem ég rakst ekki á hana fyrr en eftir að ég hafði vistað færsluna þá ætla ég að vísa í fréttina hér. Hún rökstyður í raun sakfellinguna sem er sett fram hér. Í fréttinni er haft eftir Haraldi Magnusi Andreassens hagfræðingi hjá norska verðbréfafyrirtækinu First Securites, en hann hefur kynnt sér íslensk efnahagsmál, að það hefði átt að vera búið að stoppa bankana, ríkisstjórnina, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og Alþingi fyrir löngu!

Svo set ég línuritið sem Stefán Ólafsson kynnti í Silfri Egils í gær hérna með líka. Það sýnir nefnilega svo vel hvurs lags óráðsíða var á rekstri landsins:

skuldasaga.png


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já þessi glæfralega meðferð á eignum þjóðarinnar eru landráð. Fjöldi athafna og orða ráðamanna og auðmanna eru í reynd landráð þegar lagatextinn er skoðaður

Landráð í almennum hegningarlögum, 88. gr., 91. gr. og 100. gr. En þar segir: 88. gr. Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta … fangelsi allt að 6 árum.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 3.11.2008 kl. 19:00

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég sé á þessu að ég þurfti ekki einu sinni að setja spurningarmerki við þetta og fréttirnar sem maður heyrir af því að skuldir bankastarfsmanna Kaupþings hafi verið afskrifaðar eru svo sannarlega ákveðin tegund af landráðum! Ég spyr bara hvar enda þessi ósköp?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.11.2008 kl. 19:27

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Já tek undir með þér Rakel. Hvar og hvernig getur þetta endað?? Vel skrifað og hugsað hjá þér. Ég vissi það svo sem að það myndi margt koma í ljós í nóvember....en þetta byrjar hratt og mun ekki hægjast á spillingarmálunum sem eiga eftir að koma upp er ég hrædd um.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 3.11.2008 kl. 21:27

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir það Katrín mín Nú eru skrifin og góðir vinir besta mótefnið gegn þeim óhugnaði sem sest óneitanlega að manni þessa daganna. Ég hef vissulega hugsað til samtalsins okkar niðri á Austurvelli sl. sumar og þess sem þú sagðir þá. Á þeirri stundu grunaði mig ekki að skömmu síðar ættir þú eftir að vera innan um þúsundir mótmælenda á þessum sama stað og krefjast réttlætis fyrir okkur öll.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.11.2008 kl. 22:21

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Frábært Arnar Kannski verða fleiri samhljóða skilti í mótmælunum n.k. laugardag! Mér finnst alltaf vera að bætast við sakaskrána og hef áhyggjur af því, eins og mörg okkar hér, að þetta sé bara byrjunin Nýjustu upplýsingar ættu þó virkilega að hafa kveikt það vel í mörgum að þeir stormi niður á Austurvöll um helgina. Það er nefnilega allt útlit fyrir að það komi enginn okkur til bjargar þannig að við verðum sjálf að sjá um að losna undan þessum siðlausu óráðsíuseggjum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.11.2008 kl. 22:36

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Þessi kúrfa segir meira en þúsund orð

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 4.11.2008 kl. 00:10

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þessi skuldasöfnun lítur illa út, en hvernig lítur eignahliðin út.  Við megum ekki heldur gleyma því að þeir höfðu alltaf staðið í skilum og það höfðu skuldunautar þeirra líka.  Ég ætla samt ekki að neita því, að þessi hækkun var allt of ör og mikil og hana hefði ekki átt að leyfa.  Hér brást fjölmargt eins og ég hef bent á nú síðast athugasemd nr. 2 við eftirfarandi færslu: Forvitnilegt viðtal, þegar horft er í baksýnisspegilinn

Marinó G. Njálsson, 4.11.2008 kl. 00:17

8 identicon

Þarna er ekki um neitt gáleysi að ræða hvernig sem á þetta er litið.

Þarna er á ferðinni sem oft hefur verið orðað í lögregluskýrslum sem einbeittur brotavilji!!!!

Þessir menn vissu alveg hvað þeir voru að gera og voru búnir að vita það í þó nokkurn tíma.

Þetta eru landráð og það ber að höndla þessa með útfrá því framtíðinni.

Eggert Vébjörnsson (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 00:27

9 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

 Þessi lög munu taka gildi um áramótin....gáleysi?? I dont think so
Nú verður uppþot eða fjölmennar óeirðir brjótast út sem hafa haft eða gætu haft í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll og ekki verður með vissu bent á hinn seka eða hina seku og er þá lögreglu heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða háttsemi.
90. grein Laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 12. júní

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 4.11.2008 kl. 00:43

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Kúrfan er hrikaleg og gott hjá Stefáni að merkja inn á hana ferlið í einkavæðingu bankana þannig að við sjáum svart á hvítu (rautt á gráu) hvernig ofvöxturinn í erlendri skuldsetningu hangir saman við þann gjörning.

Marinó: Ég fylgist reglulega með blogginu þínu vegna þess að þú útskýrir vel það sem mig skortir þekkingu á og stundum vitsmuni til að ná almennilega utan um. En ef ég hef skilið heildarmyndina rétt þá var eignamyndunin meira og minna bundin í steynsteypu sem er einksis virði í dag þegar enginn getur eða vill kaupa hana? Það er þess vegna ekkert óeðlilegt þó hún sé ekki með á þessari mynd, eða hvað?

Það væri frekar við hæfi að lögin sem Katrín vekur athygli á að Björn Bjarnason hafi fengið samþykkt á Alþingi sl. vor kvæðu skýrt á um hvernig þeir skulu meðhöndlaðir sem selja landið sitt og þjóðina með í hendur erlendum veðlánurum. Lagagreinin sem Katrín birtir hér virðist þó frekar eiga við um hóp mótmælenda.

Ég get þess vegna tekið undir það sem Katrín segir í einni athugasemdinni við síðustu færsluna á blogginu sínu. Við ættum að nýta tímann fram að jólum til að koma þeim skilaboðum á framfæri að við viljum núverandi ríkisstjórn frá. Það er a.m.k. öruggara.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2008 kl. 02:26

11 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Góð grein hjá þér, hef ekki meira um það að segja, þar sem allt loft er farið úr mér

Sigurveig Eysteins, 4.11.2008 kl. 08:55

12 identicon

Hér á Íslandi hafa verið framin landráð hvort sem það er af gáleysi eða eins og ein athugasemdin bendir á, "einbeittur brotavilji." En hver eða hverjir geta gert e-ð í málinu? Vanmáttur, vonleysi og reiði eru þær tilfinningar sem eru ráðandi hjá hinum venjulega íslending þessa daganna. Hvað getum við gert spyr maður sig?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 13:03

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir það Sigurveig Ég skil vel að það sé allt loft úr þér. Ég held einmitt að það sé rétt hjá Arinbirni að við finnum flest til vanmáttar, vonleysis eða reiði eftir þessar hamfarir sem hefur gengið yfir íslenskt samfélag. Það versta er að þær eru ekki yfirstaðnar. Undir þessum kringumstæðum er e.t.v. best að taka hvern dag í einu.

Arinbjörn: Ég spyr mig eins og þú hvað við getum gert. Þ.e. íslenska þjóðin. Ekki getum við sætt okkur við það að sitja í skuldafangelsi mann fram af manni vegna þess að glæpaklíkan tapaði margföldum þjóðartekjunum í fjárhættuspilinu þar sem hún hafði lagt hana undir.

Ég vildi að gæti leitað til einhvers og kært meðferð stjórnvalda á þjóð minni svona eins og ég myndi kæra meðferð illa meðferð foreldra á börnum sínum. Ég veit ekki hvort Alþjóðadómstóllinn gæti verið „barnavernd“ þjóðarinnar?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2008 kl. 22:41

14 identicon

Rakel, þú segir satt, einn dag í einu. Það er það eina sem er í boði eins og er. Alger pólskipti í stjórnmálum er það sem við þurfum og ég trúi því að það muni verða. Það getur eiginlega ekki neitt annað komið út úr þessu. Þessar hamfarir eru ekki yfirstaðnar.

Bloggið gefur manni ákveðna von, við þurfum að finna einhvern sameiginlegan vettvang við bloggarar og virkja samtakamáttinn. Við getum ekki leitað til Alþjóðadómsstólsins svona óundirbúið ein og óstudd en við getum beðið alþjóðasamfélagið um aðstoð við uppgjörið þegar að því kemur er það ekki?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 5.11.2008 kl. 03:13

15 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er alla vega byrjun að alþjóðasamfélagið standi með íslensku þjóðinni. Ég túlka margar þær yfirlýsingar erlendra sérfræðinga á sviði viðskipta og efnahagsmála sem ég hef rekist á bæði í erlendum og innlendum fjölmiðlum á þann hátt. Þeir hafa a.m.k. bent á stefnan í þessum málum hafi verið afar glannaleg og ekki annars að vænta en hún leiddi til alvarlegs hruns.

Ég vil trúa því að margir þessara sérfræðinga muni vera tilbúnir að leggja þjóðinni lið við uppgjör þessara mála. Framtíðin verður þó að leiða það í ljós og þó vonin breyti engu í sjálfu sér þá er hún líklegri til jákvæðra breytinga en algjör uppgjöf, ekki satt?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 5.11.2008 kl. 03:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband