Ráðherrasamanburður: Flokksforystuhlutverk

Það hefur orðið að hefð í íslenskum stjórnmálum að fela formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem mynda nýja ríkisstjórn að setja framkvæmdavaldið með nýskipun ráðherra. Sú hefð hefur líka fests í sessi að við skipun til ráðherraembætta koma þeir einir til greina sem hafa komist inn á þing sem fulltrúar þeirra flokka sem ná saman um ríkisstjórnarmyndun. Jóhanna Sigurðardóttir braut reyndar þessa hefð og skipaði tvo utanþingsráðherra sem sátu þó ekki að embættunum sem þeir voru skipaðir til nema í eitt ár.

Flokkshlýðni

Hún skipaði Gylfa Magnússon yfir Viðskiptaráðuneytið og Rögnu Árnadóttur yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Þegar betur er að gáð var þó fátt byltingarkennt við skipun þessara tveggja þar sem bæði höfðu starfað á vegum þeirra ríkisstjórna sem ullu ástandinu sem varð til þess að Jóhanna Sigurðardóttir fékk tækifæri til að mynda nýja ríkisstjórn með Vinstri grænum árið 2009. Gylfi Magnússon hafði verið formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins frá stofnun þess (sjá hér) en það var Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra sem skipaði hann (sjá hér um hlutverk).

Ragna Árnadóttir kom hins vegar úr ráðuneytum sem var stýrt af ráðherrum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Lengsta starfsaldurinn átti hún úr Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu en þar starfaði hún sem skrifstofu- og/eða ráðuneytisstjóri í þau sex ár sem Björn Bjarnason var yfir ráðuneytinu. Störf þeirra, sem gegndu ráðherraembættum á síðasta kjörtímabili og þeirra sem gegna þeim nú, innan stjórnsýslu undanfarandi ríkisstjórna var rakin í síðustu færslu. Hér verður hins vegar tekið fyrra skrefið af tveimur við að draga fram ábyrgðar- og trúnaðarhlutverk sem umræddur hópur hefur gegnt innan þeirra stjórnmálaflokka sem umræddir hafa starfað fyrir.

Tilgangurinn er ekki síst sá að velta vöngum yfir því að hve miklu leyti slíkur ferill ræður úrslitum varðandi það hverjir hljóta ráðherraembætti og þá ekki síður að rýna enn frekar ofan í það sem var varpað fram í síðustu færslu varðandi það hvers konar hagsmunasamtök stjórnmálaflokkarnir eru og hverjum þeir þjóna best. Ef mark er takandi á samfélagsumræðunni snúast þeir um klíkumyndanir þar sem stöðuveitingar og fyrirgreiðsla af ýmsu tagi hefur verið bundin flokkshollustu og/eða pólitískum viðhorfum. Það er því ekki fráleitt að telja að þeir sem ætla sér að ná langt á pólitískum vettvangi leitist við að hasla sér völl með því að komast að í vængskjóli þeirra sem hafa komist áfram á því sviði.

Aðgangsmiðinn að Forsætisráðuneytinu

Þegar talað er um hefðir sem hafa skapast í íslenskum stjórnmálum, og væntanlega víðar, þá virðist sem ein hefð hafi orðið ófrávíkjanleg hvað varðar niðurröðun ráðherraembætta á þá einstaklinga sem skipast til þessara embætta. Þessi regla er sú að formaður þess flokks sem fær umboðið til ríkisstjórnarmyndunar er sjálfskipaður forsætisráðherra. Það ætti því að vera óhætt að halda því fram að formennska innan stjórnmálaflokks er ein tryggasta ávísunin að Forsætisráðuneytinu.

Það er útlit fyrir að þessi hefð hafi komist á með formönnum Íhaldsflokksins sem var forveri Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn var stofnaður árið 1924 en það ár varð fyrsti formaður hans, Jón Magnússon forsætisráðherra (sjá hér) í þriðja skipti (sjá hér). Tveimur árum síðar tók við starfsstjórn sem Magnús Guðmundsson fór fyrir en hann var aðeins yfir Forsætisráðuneytinu í hálfan mánuð áður en Jón Þorláksson tók við því. 

Jón Þorláksson varð ekki aðeins eftirmaður Jóns Magnússonar í forsætisráðherra-embættinu heldur tók hann líka við formennsku Íhaldsflokksins að honum gegnum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 varð Jón Þorláksson svo fyrsti formaður hans og gegndi því embætti í fimm ár (sjá hér). Fyrrnefndur Magnús Guðmundsson var fyrsti varaformaður hans en hann gegndi því embætti í sjö ár eða þar til hann lést árið 1937.

Það vekur athygli að ásamt Magnúsi Guðmundssyni eru þeir aðeins þrír, af þeim 30 sem hafa verið forsætisráðherrar frá árinu 1924, sem ekki voru formenn þess flokks sem var leiðandi við ríkisstjórnarmyndunina þegar þeir tóku við embættinu (sjá hér).

Fyrrverandi forsætisráðherrar sem voru ekki formenn síns flokks þegar þeir tóku við forsætisráðherraembætti

Eins og kemur fram hér á undan þá fór Magnús Guðmundsson aðeins með forsætisráðherraembættið í hálfan mánuð í kjölfar sviplegs fráfalls Jóns Magnússonar sem varð bráðkvaddur sumarið 1926.

Hermann Jónsson varð forsætisráðherra sama ár og hann settist inn á þing (sjá hér). Jónas Jónsson frá Hriflu var formaður Framsóknarflokksins á þeim tíma og tveimur árum betur eða til ársins 1944. Þá tók Hermann Jónasson við formannshlutverkinu innan flokksins fram til ársins 1962 (sjá hér). Á því átján ára tímabili sem hann stýrði flokknum var hann forsætisráðherra í sinni fimmtu ríkisstjórn og þá í tæp tvö ár (sjá hér). 

Steingrímur Steinþórsson var forsætisráðherra Framsóknarflokksins í rúm þrjú ár (sjá hér) en það var á þeim tíma sem Hermann Jónasson stýrði flokknum. Steingrímur var hins vegar aldrei formaður flokksins.

Loks var Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins í rúm tvö ár. Hann var aldrei formaður flokksins en hann hafði verið varaformaður hans í samtals 10 ár þegar hann varð forsætisráðherra. Ári eftir að hann tók við forsætisráðherraembættinu tók Friðrik Sophusson við af honum sem varaformaður flokksins (sjá hér) Geir Hallgrímsson var formaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sem Gunnar var í Forsætisráðuneytinu en hann átti ekki sæti í þeirri ríkisstjórn sem Gunnar Thoroddsen fór fyrir (sjá hér).

Aðgangsmiðinn að öðrum ráðuneytum

Það er sannarlega forvitnilegt að skoða það hvernig flokksforysta og skipun í ráðherraembætti hafa tvinnast saman og hvort það megi finna einhverjar hefðir í því sambandi. Fljótt á litið er engin sem hefur orðið jafnáberandi og sú sem hefur skapast í kringum Forsætisráðuneytið. Eins og áður sagði má rekja rætur hennar til ársins 1924 þegar Jón Magnússon, formaður Íhaldsflokksins, varð forsætisráðherra.

Árið 1939 varð Hermann Jónasson forsætisráðherra í þriggja flokka þjóðstjórnarsamstarfi Framsóknar-, Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks (sjá hér). Báðir formenn samstarfsflokka Framsóknarflokksins fengu ráðherraembætti í þjóðstjórninni sem þá var sett saman. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Thors, fékk Atvinnumála- og Samgönguráðuneytið og formaður Alþýðuflokksins, Stefán Jóh. Stefánsson, Utanríkis- og Félagsmálaráðuneytið. Það er rétt að geta þess að fjórði flokkurinn á Alþingi Sósíalistaflokkurinn, fékk ekki aðild að þessari ríkisstjórn. Þrátt fyrir það hefur hún jafnan verið kennd við þjóðstjórn.

Það er þó útlit fyrir að það að formenn samstarfsflokkanna hafi tekið sæti í þeim ríkisstjórnum, sem þeir áttu aðild að, hafi ekki orðið að hefð fyrr en á sjötta til sjöunda áratug síðustu aldar. Í þessu sambandi má m.a. benda á að Alþýðubandalagið átti ekki formann í ríkisstjórn fyrr en árið 1980. Þá var Svavar Gestsson skipaður félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Það var Gunnar Thoroddsen sem skipaði hann til ráðherraembættanna (sjá hér)

Hannibal Valdimarsson, sem var fyrsti formaður Alþýðubandalagsins, hafði reyndar áður verið skipaður ráðherra en það var á þeim tíma sem hann gegndi formennsku í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Árið 1971 skipaði Ólafur Jóhannesson hann yfir Samgöngu- og Félagsmálaráðuneytið í fyrri ríkisstjórninni sem hann fór fyrir (sjá hér).

Fyrstu varaformenn fjórflokksins

Af framantöldum flokkum er Sjálfstæðisflokkurinn sá eini sem hefur haft varaformann meðal stjórnarmanna flokksins frá upphafi eða frá árinu 1929 (sjá hér). Fyrsti varaformaður Alþýðuflokksins var kjörinn árið 1954. Framsóknarflokkurinn kaus stjórn flokksins varaformann í fyrsta skipti árið 1960 og Alþýðubandalagið 1965.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins tók þátt í fyrsta skipti í ríkisstjórn árið 1944. Þetta var í annarri ríkistjórninni sem Ólafur Thors fór fyrir en þá skipaði hann Pétur Magnússon, þáverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins yfir Fjármála- og Viðskiptaráðuneytið (sjá hér).

Tíu árum síðar var fyrsti varaformaður Alþýðuflokksins kjörinn en hann, Guðmundur Í. Guðmundsson, var settur yfir Utanríkisráðuneytið í fimmtu ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sem sat á árunum 1956 til 1958 (sjá hér). Guðmundur var utanríkisráðherra fram til ársins 1965 eða í níu ár.

Framsóknarflokkurinn kom ekki að ríkisstjórnarmyndun aftur næstu þrettán árin en þá fékk Ólafur Jóhannesson stjórnarmyndunarumboðið (sjá hér). Sjálfur var hann fyrsti varaformaður Framsóknarflokksins en hann skipaði eftirmann sinn, Einar Ágústsson í því flokksforystuembætti, yfir Utanríkisráðuneytið. Einar Ágústsson hélt embættinu næstu átta árin.

Fyrsti varaformaður Alþýðubandalagsins sem var skipaður til ráðherraembættis var Steingrímur J. Sigfússon. Hann  var skipaður landbúnaðar- og samgönguráðherra í fyrsta skipti árið 1988 og aftur árið 1989. Hann varð varaformaður Alþýðubandalagins árið 1989. Það var Steingrímur Hermannsson sem skipaði hann ráðherra í sínu öðru og þriðja ráðuneyti (sjá hér). Steingrímur J. Sigfússon sat yfir þessum ráðuneytum í þrjú ár.

Formenn og varaformenn stjórnmálaflokkanna sem sátu í ríkisstjórn 1989-1991

Það hafa aldrei verið jafnmargir formenn og varaformenn í ríkisstjórn eins og í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991. Ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn voru ellefu sem þýðir að aðeins fjórir ráðherrar hennar voru ekki formenn eða varaformenn á þeim tíma sem þeir sátu í þessari ríkisstjórn.

Svavar Gestsson, sem var menntamálaráðherra á þessum tíma var hins vegar formaður Alþýðubandalagsins áður eða frá 1980-1987. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann á þessum tíma, Guðmundur Bjarnason, varð varaformaður Framsóknarflokksins á árunum 1994-1998.

Óli Þ. Guðbjartsson, dóms- og kirkjumálaráðherra umræddrar ríkisstjórnar, hafði gengt trúnaðar- og ábyrgðarstörfum innan Sjálfstæðisflokksins auk þess sem hann átti að baki samtals 24 ára starfsferil sem oddviti og bæjarstjórnarfulltrúi á Selfossi áður en hann settist inn á þing. Hann hafði líka verið formaður þingflokks Borgaraflokksins í eitt ár áður en hann var skipaður ráðherra.

Jón Sigurðsson, sem var viðskipta- og iðnaðarráðherra, átti sannarlega athyglisverðan feril að baki þegar hann kom nýr inn á þing árið 1987, og var umsvifalaust skipaður í ráðherraembætti, en miðað við ferilskrá Alþingis kom hann ekki að öðrum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn áður en hann varð þingmaður og ráðherra. Jón var í sex ár inni á þingi og jafnlengi ráðherra. Hann fékk lausn frá þingsetu og ráðherraembætti árið 1993 til að taka við bankastjórastöðu Seðlabanka Íslands.

Eins og sjá má á þessu yfirliti er ekki hlaupið að því að finna út aðra hefð við ráðherraskipun síðustu ára en þá að forystuhlutverk og/eða önnur ábyrgðarstörf eða trúnaðarstöður innan stjórnmálaflokkanna virðist tryggasta ávísunin að ráðherraembætti. Það verður þó ekki annað séð en sum ráðuneyti séu eftirsóknarverðari en önnur þegar kemur að því að formaður í samstarfsflokki velur sér ráðuneyti. Af einhverjum ástæðum hefur ekkert ráðuneyti þó notið eins mikilla vinsælda í þessu sambandi og Utanríkisráðuneytið.

Eins og var rakið hér var Utanríkisráðuneytið sett á fót í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar í forsætisráðherratíð Hermanns Jónassonar. Þáverandi formaður Alþýðuflokksins, Stefán Jóh. Stefánsson, var fyrsti utanríkisráðherrann (sjá hér) en Haraldur Guðmundsson hafði þó farið með utanríkismál í fyrsta ráðuneytinu sem Hermann Jónasson stýrði (sjá hér). Það er rétt að geta þess að þær heimildir sem stuðst er við ber ekki öllum saman um embætti og hlutverk en meginheimild mín í þessu sambandi er þessi hér.

Það hefur verið bent á það áður á þessum vettvangi að það væri ekki úr vegi að kalla Utanríkisráðuneytið: ráðuneyti jafnaðarmanna (sjá hér). Ástæðan er sú að þó Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafi átt ráðherra í gegnum tíðina sem hafa gegnt utanríkisráðherraembættinu þá hafa formenn og varaformenn jafnaðarmannaflokkanna; Alþýðuflokks og Samfylkingar, stýrt því í u.þ.b. þrjá og hálfan áratug. Framsóknarflokkurinn hefur farið með völdin í Utanríkisráðuneytinu í rúma tvo áratugi og Sjálfstæðisflokkur í kringum einn og hálfan. 

Formenn og varaformenn jafnaðarmanna sem hafa stýrt Utanríkisráðuneytinu

Það sem vekur sérstaka athygli þegar embættismannasaga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð er að með aðeins einni undantekningu (sjá hér) þá eru þeir sem hafa verið skipaðir yfir utanríkisráðuneytið formenn eða varaformenn innan þeirra stjórnmálaflokka sem velja því ráðherra. Í einhverjum tilfellum hafa þeir verið formenn hans áður eða hafa orðið það í framhaldinu.

Formenn og varaformenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hafa stýrt Utanríkisráðuneytinu

Á myndinni hér að ofan eru fyrst taldir þeir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem hafa setið yfir Utanríkisráðuneytinu. Það vantar einn en það er Matthías Á. Mathiesen sem tók við af Geir Hallgrímssyni þegar hann fékk lausn frá embætti ári áður en kjörtímabilið sem hann gegndi embætti utanríkisráðherra var úti (sjá hér).

Í neðri röðinni eru þeir utanríkisráðherrar sem hafa komið úr röðum Framsóknarflokksins að Kristni Guðmundssyni undanskildum en hann var utanþingsráðherra yfir Utanríkisráðuneytinu og bar ábyrgð á „framkvæmd varnarsamningsins“ fyrir hönd ríkisstjórnarinnar (sjá hér). Hér má sjá yfirlit yfir þá ráðherra sem hafa farið með utanríkismál Íslendinga. Fyrir þá sem vilja grennslast fyrir um það hvað hefur gert utanríkisráðherraembættið svona eftirsóknarvert má benda á fyrri bloggfærslur um Utanríkisráðuneytið þar sem embættisverk þeirra ráðherra sem þar hafa farið með völd eru rakin (sjá hér og hér

Þó að það sé margt afar athyglisvert í sambandi við forsögu þeirra hefða sem er útlit fyrir að hafi fest í sessi þegar kemur að skipun ráðherra í embætti þá verða rætur þeirra ekki raktar frekar hér. Það er þó ekki útilokað að þessi þráður verði tekinn upp aftur síðar. Hér verður hins vegar látið staðar numið og horfið aftur til þess meginverefnis sem þessari færslu er ætlað að snúast um. Það er að fara yfir flokksforystuhlutverk ráherranna sem skipa núverandi ríkisstjórn og þeirra sem skipuðu þá síðustu. Önnur flokkspólitísk ábyrgðar- og trúnaðarstörf þessara verða umfangsins vegna að bíða næstu færslu. 

Flokksforystuhlutverk ráðherra síðustu ríkisstjórnar

Sú ríkisstjórn sem sat að völdum á síðasta kjörtímabili var mynduð af tveimur stjórnmálaflokkum sem eiga sér sameiginlegar rætur. Ræturnar liggja annars vegar aftur til ársins 1916 en þá var Alþýðuflokkurinn, sem var ætlað að vera flokkur verkahlýðins, stofnaður (sjá hér) og hins vegar til þeirrar sundrandi evrópusambandshugmyndar sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi hugmynd eyddi fjórum flokkum sem sátu á þingi kjörtímabilið 1995 til 1999 en upp af þeim komu flokkarnir, sem mynduðu síðustu ríkisstjórn, með það sameiginlega markmið að koma landinu í Evrópusambandið.  

Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá var Alþýðubandalagið stofnað sama ár og Guðmundur Í. Guðmundsson settist í Utanríkisráðuneytið (sjá hér) en eins og var rakið hér og hér þá verður ekki betur séð en grunnurinn að þeirri utanríkismálastefnu sem varð ofan á í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið lagður á þeim tíma sem hann var utanríkisráðherra. Í kjölfar þess að fimmti alþýðuflokksráðherrann í Utanríkisráðuneytinu, Jón Baldvin Hannibalsson, fékk aðild Íslands að EES-samningnum samþykkta árið 1993 (sjá feril frumvarpsins hér) hófst sá pólitíski ágreiningur sem leiddi til þess að þeir þingflokkar sem heyrðu til vinstri væng stjórnmálanna urðu að engu.

Richard Armour about left and right

Ætlunin var að stofna einn öflugan vinstri flokk en þeir urðu tveir: Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Það er afar líklegt að þó það hafi ekki farið hátt þá sé einn angi skýringarinnar, á því að þannig fór, sú sama og er að gera út af við þá flokka sem enn eru skilgreindir sem vinstri öfl í nútímanum. Miðað við tímasetninguna og miðað við þá Evrópusambandsáherslu sem var í Alþýðuflokknum á sínum tíma og hefur komið upp á yfirborðið sem meginmál Samfylkingarinnar er sú skýring alls ekki ósennileg.

Hvað sem slíkum eða öðrum ágreiningi leið þá sameinuðust flokkarnir tveir, sem urðu til út úr upplausn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka, í ríkisstjórn tíu árum síðar. Ágreiningurinn er þó greinilega ekki útkljáður og hefur þar af leiðandi höggvið skörð bæði í þingmannahóp Vinstri grænna og Samfylkingarinnar ásamt því sem fylgi þessar flokka hefur hrunið.

Hér er ekki meiningin að fara nánar út í þessa þætti eða meinsemdina sem veldur heldur skoða forsögu þeirra sem voru ráðherrar síðustu ríkisstjórnar í flokksforystu þeirra flokka sem þessir tilheyrðu áður og þeim sem þeir vinna fyrir nú. Eins og í öðrum færslum í þessum flokki sem kallast Ráherrasamanburður verður byrjað á ráðherrum síðustu ríkisstjórnar.

Þó kastljósinu verði einkum beint að forystuhlutverkum umræddra innan stjórnmálaflokkanna þá eru önnur ábyrgðar- og trúnaðarstörf talin líka nema hjá þeim sem hafa hvorki verið formenn eða varaformenn umræddra stjórnmálaflokka. Þar sem nokkrir þeirra sem sátu á ráðherrastóli í ríkisstjórn síðasta kjörtímabils byrjuðu í stjórnmálum áður en þær sviptingar á vinstri vængum, sem leiddu til stofnunar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna áttu sér stað, er flokksforysta þeirra í öðrum flokkum talin hér líka.

Eins og áður þá er hægt að fara inn í ferilskrá hvers og eins með því að fylgja krækju sem er tengd nafni viðkomandi. Nafn, titill, fæðingarár, þingvera og aldur við móttöku formanns- eða varaformannshlutverks er talið í vinstra dálkinum en ábyrgðar- og trúnaðarstörf í þeim hægri.   

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar flokkspólitísk forystuhlutverk
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
 fædd 1942. Á þingi 1978-2013
 formaður Samfylkingarinnar 67 ára

Varaformaður Alþýðuflokksins 1984-1993.
Formaður Þjóðvaka 1995.
Formaður Samfylkingarinnar 2009-2013.

 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
 varaformaður 39 ára
Í stjórn Verðandi, ungliðahreyfingar Alþýðubandalagsins, og ritari Alþýðubandalagsins í Kópavogi 1994-1998.
Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1996-2000.

Fulltrúi Röskvu í stúdentaráði og háskólaráði HÍ 1997-1999.

Varaformaður Ungra jafnaðarmanna 2000, formaður 2000-2001.
Í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar 2000-2003, varaformaður 2001-2003.
Varaformaður flokksins frá 2013.
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
 fæddur 1950. Á þingi frá 2007
Formaður Akraneslistans 1998–2000.
(samstarfsframboð Alþýðuflokks og Alþýðubandalags til bæjarstjórnarkosninga)

 Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
 
fædd 1976. Á þingi frá 2007
 varaformaður 27 ára.
 formaður 37 ára

Fulltrúi Röskvu stúdentaráði og háskólaráði  HÍ 1998–2000.

Formaður Ungra vinstri grænna 2002–2003.

Varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 2003-2013.
Formaður flokksins frá 2013.
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
 formaður 44 ára
Í stúdentaráði HÍ 1978-1980. 

Formaður þingflokks Alþýðubandalagsins 1987-1988.
Varaformaður flokksins 1989-1995.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs 1999-2013.
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
 formaður 47 ára
Formaður stúdentaráðs HÍ 1976-1977.

Í miðstjórn Alþýðubandalagsins 1985-1987.
Í framkvæmdastjórn flokksins 1985 og 1986.
Í flokksstjórn Alþýðuflokksins 1991-1993.
Formaður þingflokksins 1991-1993.
Formaður Samfylkingarinnar 2000-2005.
Formaður þingflokksins 2006-2007.


Þó trúnaðarstörfin, sem ofantaldir ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingar - græns framboðs hafa gegnt á vegum viðkomandi stjórnmálaflokka, séu vissulega nokkuð fjölbreytt þá má sjá ákveðin samkenni. Langflestir hafa t.d. verið formenn af einhverju tagi; sumir annarra tengdra stjórnmálahreyfinga eða þingflokka.

Hér er ætlunin að skoða hverjir hafa gegnt formennsku og varaformennsku þessara stjórnmálaflokka. Önnur trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna verða látin bíða næstu færslu. Hér er m.a. átt við þingflokksformennsku og þátttöku í stúdentapólitíkinni á vegum Vöku og Röskvu sem gjarnan hefur verið haldið fram að séu einhvers konar uppeldisstöðvar fyrir frekari stjórnmálaþátttöku á vegum Sjálfstæðisflokksins annars vegar og vinstri flokkanna hins vegar.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur úr forystu Samfylkingarinnar

Á myndinni hér að ofan eru þau talin sem voru eða hafa orðið formenn eða varaformenn Samfylkingarinnar. Fyrsta er að telja Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sem varð formaður Samfylkingarinnar árið 2009. Hún tók við af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var formaður frá 2005 til 2009. Ingibjörg Sólrún tók við af Össuri Skarphéðinssyni sem var annar formaður Samfylkingarinnar. Hann tók við formannsembættinu af Margréti Frímannsdóttur sem var formaður flokksins frá stofnun til ársins 2000 (sjá hér).

Hér má minna á að Ingibjörg Sólrún var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á árunum 2007 til 2009 en þá tók Össur Skarphéðinsson við því hlutverki að framfylgja stefnu Samfylkingarinnar í utanríkismálum. Ólíkt Jóhönnu rekur Össur pólitískar rætur sínar til Alþýðubandalagsins þó hann hafi aldrei setið á þingi fyrir þann flokk eins og þeir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson sem klufu sig frá (sjá hér) þeim þingmannahópi vinstri flokkanna sem stofnuðu síðar Samfylkinguna (sjá hér)

Þegar Össur Skarphéðinsson var kjörinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn vorið 1991 hafði Jóhanna Sigurðardóttir verið varaformaður flokksins í sjö ár og gegndi því embætti tveimur árum betur. Fyrir alþingiskosningarnar 1995 hafði Jóhanna klofið sig frá Alþýðuflokknum og stofnað nýjan flokk, Þjóðvaka. Í stjórnmálalegu samhengi er forvitnilegt að rifja það upp sem haft er eftir einum frambjóðenda flokksins:

Nauðsynlegt er að hafna valdakerfum gömlu flokkana. Þannig að hreinn trúnaður ríki milli samvisku kjósenda og lýðræðislegs stjórnmálaafls. Ekki má takmarka sig við sjónarhól atvinnurekenda, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn gerir, ekki samvinnuhreyfingar eins og Framsóknarflokkurinn, ekki verkalýðshreyfingar eins og Alþýðubandalagið, ekki annars kynsins líkt og Kvennalistinn gerir og ekki Evrópusambandsins, eins og Alþýðuflokkurinn gerir. Nauðsynlegt er að fá stjórnmálaafl sem tekur tillit til allra litbrigða samfélagsins og byggir á víðtækri heildarsýn. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Jóhanna Sigurðardóttir var formaður Þjóðvaka þann stutta líftíma sem flokkurinn átti áður en þingmenn hans gegnu til liðs við fyrrverandi flokkssystkini hennar sem höfðu verið kosnir inn á þing fyrir hönd Alþýðuflokksins. Þessir stofnuðu saman þingflokk jafnaðarmanna í september 1996. Áður en kjörtímabilið var úti höfðu meiri hluti þingmanna Alþýðubandalags og Kvennalista líka gengið til liðs við þennan forvera Samfylkingarinnar.

Miðað við það sem kemur fram í tilvitnuninni hér að ofan um að ekki megi „takmarka sig við sjónarhól [...] Evrópusambandsins, eins og Alþýðuflokkurinn gerir“ er ekki úr vegi að minna á að Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem vann að fullgildingu EES-samningsins fyrir Íslands hönd (sjá hér). Hún fékk reyndar lausn frá því embætti um mitt ár 1994 í kjölfar þess að hún beið lægri hlut fyrir Jóni Baldvini Hannibalssyni í framboði til formanns Alþýðuflokksins (sjá t.d. hér).

Sarah Blake

Tveimur árum síðar var hún þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar aftur gengin til liðs við þingmenn Alþýðuflokksins og tók síðar þátt í því að stofna stjórnmálaflokk sem ætti að vera orðið ljóst að varð að þeim flokki sem hefur gert Evrópusambandsaðild að sínu grundvallarstefnumáli. Það varð reyndar ekki opinbert fyrr en á þeim tíma sem Jóhanna Sigurðardóttir var formaður hans.

Það þarf svo tæplega að minna á að þó Jóhanna hafi lofað því árið 1995 „að Þjóðvaki yrði trúr stefnumálum sínum“ og myndi „ekki taka þátt í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum“ (sjá hér) þá var hún félagsmálaráðherra á ný í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á árunum 2007 til 2009 (sjá hér). Af einhverjum ástæðum þótti Jóhanna samt líklegust til að leysa það margþætta og erfiða verkefni sem blasti við eftir stjórnarslit Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í upphafi árs 2009.

Jóhanna hafði setið í sex ár á þingi þegar hún var kjörin varaformaður Alþýðuflokksins þá 42ja ára. Hún gegndi þessu embætti í níu ár. Árið 1994 stofnaði hún eigin flokk og var formaður hans á meðan hann var og hét. Líftími hans var ekki nema tvö ár. Jóhanna var svo kjörin formaður Samfylkingarinnar, arftaka Alþýðuflokksins, eftir 31s ára veru á þingi. Jóhanna var 67 ára þegar hún tók við forystu flokksins. Hún lét af þingstörfum síðastliðið vor eftir 35 ára þingveru.

Össur Skarphéðinsson var kjörinn formaður Samfylkingarinnar eftir níu ára veru á þingi. Hann var  47 ára þegar hann tók við embættinu og gegndi því í fimm ár. Núverandi formaður, Árni Páll Árnason, hafði setið í sex ár inni á þingi þegar hann náði kjöri 47 ára gamall. Fáum blandaðist hugur um að Jóhanna Sigurðardóttir studdi Guðbjart Hannesson sem eftirmann sinn (sjá hér) þegar Árni Páll var kjörinn.

Sumir vildu reyndar halda því fram að hún hefði viljað fá Katrínu Júlíusdóttur í þetta sæti en hún ákvað að gefa ekki kost á sér til formennsku flokksins en bauð sig fram sem varaformaður hans. Hún hafði setið á þingi í tíu ár þegar hún var kjörin til þess embættis þá 39 ára. Það var Dagur B. Eggertsson sem gegndi varaformannsembættinu á undan henni.

Ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í forystu Vinstri grænna

Vinstri hreyfingin - grænt framboð varð til um svipað leyti og Samfylkingin eða árið 1999. Steingrímur J. Sigfússon var formaður flokksins frá upphafi en áður hafði hann verið varaformaður Alþýðubandalagsins í sex ár. Steingrímur var kosinn inn á þing árið 1983 þá aðeins 28 ára gamall. Sex árum eftir að hann settist inn á þing var hann kjörinn varaformaður Alþýðubandalagsins en á þeim tíma var Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands, formaður þess flokks (sjá hér).

Þegar Steingrímur J. Sigfússon var kjörinn formaður Vinstri grænna var hann orðinn 44 ára og hafði setið inni á þingi í sextán ár. Hann var formaður í fjórtán. Bróðurpart þess tíma var Katrín Jakobsdóttir varaformaður flokksins. Hún var ekki kjörin inn á þing fyrr en árið 2007. Hún hafði hins vegar verið varaborgarfulltrúi Vinstri grænna frá árinu 2002 og formaður Ungra vinstri grænna frá sama tíma.

Katrín var 27 ára þegar hún var kjörin varaformaður Vinstri grænna og 37 ára þegar hún tók við formannsembætti flokksins á síðasta ári. Hún tók við varaformannsembættinu af Svanhildi Kaaber en núverandi varaformaður flokksins er Björn Valur Gíslason (sjá hér)

Flokksforystuhlutverk núverandi ráðherra

Hér er rétt að minna á að þeir einir eru taldir sem eru eða hafa verið í forystu stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis. Taflan hér að neðan er eins sett upp og sú sem er hér að framan þar sem flokksforystuhlutverk ráðherranna í síðustu ríkisstjórn var rakin.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
  flokkspólitísk forystuhlutverk
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
 forsætisráðherra
 fæddur 1975. Á þingi frá 2009
 formaður 34 ára
Formaður Framsóknarflokksins frá 2009.
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 fæddur 1970. Á þingi frá 2003
 formaður 39 ára
Í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, 1991-1993, formaður 1993.

Formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2009.
 Kristján Þór Júlíusson,
 heilbrigðisráðherra
 fæddur 1957. Á þingi frá 2007
 varaformaður 55 ára
Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 2002-2013.
Formaður sveitarstjórnarráðs flokksins 2002-2009.
2. varaformaður flokksins 2012-2013.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 fæddur 1962. Á þingi frá 2009
 formaður 51s árs

Ritari stjórnar Framsóknarfélags Árnessýslu 2001-2008.
Varaformaður flokksins 2013.

 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 fædd 1966. Á þingi frá 2013
 varaformaður 47 ára

Framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 1995–1999.
Í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 1995–1999.
Í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Austurbæ og Norðurmýri 1995–1996.
Aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins 1999–2006.
Varaformaður flokksins frá 2013.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi forsætisráðherra, er formaður Framsóknarflokksins. Hann tók við formannsembættinu af Valgerði Sverrisdóttur (2008-2009) sem var kjörin varaformaður flokksins árið 2007 um leið og Guðni Ágústsson (2007-2008) var kosinn formaður hans. Við það að Guðni sagði af sér sem þingmaður og formaður flokksins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 tók Valgerður við (sjá hér).

Á undan Guðna Ágústsyni hafði Jón Sigurðsson (2006-2007) verðið formaður Framsóknarflokksins í eitt ár. Hann tók við af Halldóri Ásgrímssyni sem var formaður flokksins í tólf ár. Tveir fyrrverandi forsætisráðherrar úr röðum Framsóknarflokksins hafa gengt formennsku flokksins lengur en hann en það eru feðgarnir Hermann Jónasson sem var formaður Framsóknarflokksins í átján ár og Steingrímur Hermannsson sem var formaður hans í fimmtán ár. 

Þeir voru formenn Framsóknarflokksins í 10 ár eða lengur

Þess má svo geta að Jónas Jónsson frá Hriflu var formaður Framsóknarflokksins í tíu ár. Tryggvi Þórhallsson var forsætisráðherra á þeim tíma sem Jónas frá Hriflu var yfir Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (sjá hér). Hann var formaður flokksins á árunum 1928-1932 (sjá frekar hér).

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins nokkrum mánuðum áður en hann varð þingmaður Framsóknarflokksins. Hann var 34 ára þegar hann tók við formannsembættinu. Á sama tíma var Birkir Jón Jónsson kosinn varaformaður flokksins en Sigurður Ingi Jóhannsson tók við því embætti á síðasta landsfundi flokksins sem var haldinn í byrjun árs 2013.

Sigurður Ingi var 51s árs þegar hann var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins. Hann kom nýr inn á þing í alþingiskosningunum 2009 og hafði því setið í fjögur ár á þingi þegar hann var kjörinn af landsfundi Framsóknarflokksins til varaformannsembættisins.

Ráðherrar í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem gegna eða hafa gegnt flokksforystu

Bjarni Benediktsson, núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins sama ár og Sigmundur Davíð tók við Framsóknaflokknum. Bjarni tók við formennsku flokksins úr hendi Geirs H. Haarde sem gegndi formennsku flokksins frá 2005 til fyrri hluta ársins 2009.

Geir var eftirmaður Davíðs Oddssonar sem var formaður Sjálfstæðisflokksins í fjórtán ár. Aðeins Ólafur Thors hefur gegnt formennsku flokksins lengur en hann var formaður hans í 37 ár. Bjarni Benediktsson (eldri) tók við formennskunni af Ólafi og hafði leitt flokkinn í níu ár þegar hann lést sviplega í eldsvoða við Þingvallavatn árið 1970 (sjá t.d. hér)

Þeir voru formenn Sjálfstæðisflokksins í 8 ár eða lengur

Geir Hallgrímsson var kjörinn formaður flokksins þremur árum síðar og var formaður hans næstu tíu árin. Þorsteinn Pálsson var eftirmaður hans en hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í átta ár áður en varaformaður flokksins til tveggja ára bauð fram gegn honum og hafði betur (sjá nánar hér). Reyndar eru nokkrar líkur fyrir því að það sem leit út eins og slagur hafi verið löngu undirbúinn þáttur (sjá hér).

Samantekt

Það hefur orðið að hefð í íslenskum stjórnmálum að formenn og varaformenn þeirra stjórnmálaflokka sem mynda ríkisstjórn fara með ráðherraembætti fyrir hönd þeirra flokka sem þeir stýra. Það að formaður þess stjórnmálaflokks sem leiðir stjórnarsamstarfið fer með forsætisráðherraembættið er elst þeirra hefða sem lítur út fyrir að séu orðnar viðteknar í íslenskum stjórnmálum. Þessi hefð á 90 ára afmæli á þessu ári.

Á síðasta kjörtímabili voru þau þrjú sem voru ráðherrar ásamt því að gegna flokksforystuhlutverkum í sínum flokkum. Á þessu kjörtímabili eru þau fjögur. Það liggur væntanlega í augum uppi að það er mikið starf að vera ráðherra og hvað þá þegar því fylgir líka starf formanns eða varaformanns þess flokks sem fer með ríkisstjórnarsamstarfið. Hér er þó ótalið að umræddir ráðherrar gegndu/gegna líka þingmennsku.

Af einhverjum ástæðum hefur farið lítið fyrir því í samfélagsumræðunni hversu líklegt það er að einn einstaklingur geti farið með svo umfangsmikil og margþætt hlutverk eins og ráherraembætti, þingmennsku og formanns-/varaformannshlutverk í stjórnmálaflokki í ríkisstjórn á einum og sama tímanum. Eins og gefur að skilja þá þurfa þeir sem sitja inni á þingi að setja sig inn í ýmis konar mál og þeir sem eru ráðherrar þurfa að setja sig rækilega inn í málaflokk/-a viðkomandi ráðuneytis.

Þessir þurfa þar af leiðandi að finna tíma meðfram þingveru og ráðuneytisstörfum til að mæta á ráðstefnur, fundi og fylgjast með fréttum og annarri umræðu sem snerta bæði þing- og ráðherrastörf þeirra. Væntanlega þurfa þessir líka að svara einhverjum símtölum og bréfum sem þeim berast. Þegar það er svo tekið inn í að þetta fólk þarf, eins og allir aðrir, líka að sinna sjálfum sér, fjölskyldu, nánum vinum og öðrum hversdagslegum verkefnum og skyldum þá hlýtur það að segja sig sjálft að eitthvað verður undan að láta.

Því miður er ekki annað að sjá en bæði fjölmiðlar og almennir kjósendur hafi viðurkennt þá sérkennilegu hefð að það þyki sjálfsagt að bæði formenn og varaformenn, þeirra flokka sem taka þátt í stjórnarsamstarfinu, taki frekar sæti í ríkisstjórn frekar en þeir veiti ríkisstjórninni aðhald varðandi yfirlýsta stefnu flokksins í þeim málaflokkum sem koma til kasta þingsins eða eru á hendi ráðuneytanna.

Charles de Gaulle

Það má vera að stjórnmálamennirnir séu týndir inni í þeirri hugmynd að stjórnmálaflokkarnir séu fyrst og fremst vettvangur til að raða upp í goggunarröðina þegar kemur að úthlutun og skipun í ráðherraembætti en það ætti að vera nokkuð ljóst að slíkt verklag þjónar ekki hagsmunum kjósenda.

Það er alls ekki útilokað að hugsa sér að hæfustu einstaklingarnir veljist til formennsku og/eða varaformennsku innan stjórnmálaflokkanna en það er þó engan vegin öruggt, að ef vísasta leiðin til að komast að sem ráðherra séu slík embætti, að hagsmunir kjósenda séu teknir með inn í dæmið. Það má nefnilega gera ráð fyrir því að með núverandi fyrirkomulagi fari eftirsóknin eftir því að komast í sviðsljósið að ráða meiru en það að fylgja þeirri stefnu sem viðkomandi flokkur heldur á lofti af alúð og árvekni. 

Í þessu sambandi má spyrja sig hver er tilgangurinn með því að hafa bæði formann og varaformann í stjórnmálaflokkum. Eins og flestir gera sér grein fyrir er það hlutverk varaformannsins að styðja við formanninn með því að ganga í hlutverk hans ef hann kemst ekki yfir það sem honum er ætlað af einhverjum ástæðum.

Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að annarhvor, formaður eða varaformaður, taki við ráðherraembætti, komi til þess að viðkomandi stjórnmálaflokkur gangi inn í ríkisstjórn, og viðkomandi er best til þess falinn að gegna einhverju þeirra embætta sem flokknum er falið að skipa til. Það væri ekki síður eðlilegt að það væri aðeins annar af þessum tveimur en hinn stæði utan ríkisstjórnarinnar og væri þar með fulltrúi kjósenda sem veitti ríkisstjórninni og þingmönnum flokksins stefnulegt aðhald.

Það er ekki komið að því að draga fram endanlega niðurstöðu þessara skrifa. Það eru a.m.k. kaflar eftir í þessum færsluflokki þar sem ráðherrar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar eru til samanburðar út frá þeim ferilskrám þeirra sem er að finna á alþingisvefnum. Hér hafa verið dregin fram flokksforystuhlutverk sem þessi gegndu eða gegna nú. Í næstu færslu verða önnur ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörf á vegum stjórnmálaflokkanna dregin fram. Þessum samanburði lýkur svo á samanburði á þingreynslu þeirra sem hér hafa verið til skoðunar. 

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla

Heimildir um forsætis- og utanríkisráðherraskipan liðinna ára
Forsætisráðherrar á Íslandi (Wikipedia)
Forsætisráðherra Íslands
(Wikipedia)
Fyrri ráðherrar (Forsætisráðuneytið)
Utanríkisráðherrar á Íslandi (Wikipedia)
Utanríkisráðherratal (Utanríkisráðuneytið)
Sögulegt yfirlit um utanríkisþjónustuna (Utanríkisráðuneytið)

Heimildir af Wikipediu um forystu stjórnmálaflokkanna:
Alþýðubandalagið (1956-1998)
Alþýðuflokkurinn (1916-1998)
Borgarflokkurinn (1923-1924(flokkur Jóns Magnússonar))
Borgaraflokkurinn (1987-1994(flokkur Alberts Guðmundssonar))
Framsóknarflokkurinn (1916)
Kommúnistaflokkur Íslands (1930-1938)
Íhaldsflokkurinn (1924-1929)
Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn (1938-1968)
Samfylkingin (1999-)
Samtök frjálslyndra og vinstri manna (1969-1978)
Sjálfstæðisflokkurinn (1929-)
Vinstri grænir (1999- (vantar yfirlit yfir eldri stjórnir))
Þjóðvaki (1994-1996 (vantar yfirlit um forystu))

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í íslenskri pólitík er mikil samþjöppun valds eins og þú bendir á Rakel. Einn og sami einstaklingur getur verið ráðherra, þingmaður og  formannur-/varaformaður stjórnmálaflokks. Afleiðingarnar eru skortur á lýðræðislegum ákvörðunum á milli kosninga, þar sem 59 þjóðkjörnir þingmenn eru algjörlega háðir geðþóttaákvörðunum 4 manna hóps stjórnarliða.

Þessi hópur semur við forystumenn stjórnarandstöðunnar um hvaða mál fara í gegnum þingið. Á meðan verið er að semja bíða óbreyttir þingmenn eftir að fá skilaboð um hvort vinna þeirra í nefndum og frumvörp/þingsálytkunartillögur lendi í ruslakörfunni. Ég hef aldrei kynnst jafn miklu tilgangsleysi í störfum mínum á vinnumarkaði og sóun á vinnuframlagi eins og á Alþingi.


Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 18.5.2014 kl. 18:23

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Kærar þakkir fyrir þetta virkilega athyglisverða innlegg! Mér þykir reglulega vænt um það þar sem ég hef sannarlega rennt nokkuð blint í sjóinn með þessi skrif.

Ég bý ekki að neinni reynslu af þingstörfum en þar sem ég bý í þessu samfélagi, hef frá því að ég man eftir mér fylgst með pólitík og tók m.a.s. nokkurn þátt í grasrót hennar um örstutt skeið nú nýverið, þá hafa vaknað spurningar. Spurningar sem hafa orðið svo áleitnar að ég ákvað að leggjast í þá heimildavinnu sem liggur að baki þeim skrifum sem þetta blogg hefur verið undirlagt af í bráðum eitt ár.

Innlegg þitt er mér dýrmætt ekki síst fyrir það að ég hef hvað eftir annað fyllst miklum efasemdum um efnið, aðferðina, leiðina og ályktanirnar. Innleggið þitt segir mér að sennilega er eitthvað sem ég er að skrifa sem kveikir ekki aðeins til umhugsunar heldur stenst raunveruleikann nógu mikið til að þeir sem hafa reynsluna kannast við hann. Ég reikna reyndar ekki með því að það verði aðrir en þeir huguðustu sem þora að opinbera það með þeim hætti sem þú gerir hér að ofan

Ég ætla auðvitað að leyfa mér að vera bjartsýn, eins og alltaf, og vona að fleiri leyfi sér að viðurkenna að sú samþjöppun sem hefur orðið á valdi skapar ekki aðeins ómanneskjulegt vinnuálag á þann sem tekur það á sig að vera formaður/varaformaður, ráðherra og þingmaður heldur hefur þær afleiðingar að lýðræðið verður að engu. Ekki síst fyrir það að fólk með heilbrigða skynsemi hefur engan áhuga á að taka þátt í því að vinna samfélaginu og almenningi með því að gefa á kost á sér til þingmennsku miðað við starfsskilyrðin og vinnuumhverfið.

Vinnuumhverfið sem þú lýsir er ekki fyrir einstaklinga sem búa yfir þekkingu og reynslu af þeim málaflokkum sem koma til kasta Alþingis. Þeir sem búa yfir faglegum menntaði, hreinskilni og heiðarleika gagnvart verkefninu, að gefa kost á sér til þingstarfa til að vinna að heilindum að hagsmunum almennings, þvælast illilega fyrir í því vinnuhefðarmynstri sem þú gefur innsýn i hér að ofan (og hefur reyndar gert annars staðar áður).

Í þeirri heimildaöflun sem ég lagðist í hef ég rekist á ræður nokkurra þingmanna sem benda til heilinda og metnaðar til þess að vinna hagsmunum almennings fyrst og fremst. Það er athyglisvert að eftir því sem þeir eru einarðari og ákveðnari í að gefa ekkert eftir í því að verja hagsmuni almennings því líklegra er að þeir mæti sömu framkomu inni á þingi og þér var sýnd þar. Þessir hverfa líka út af þingi eins og þú nema að þeir beygi sig. Ég hef ekki grafist fyrir um það hvort þeir sem þetta á við um hafi tekið ákvörðun um það sjálfir eða hvort það var prófkjörið sem batt enda á feril þeirra sem alþingismenn.

Eftir því sem ég les meira og skoða fleira þeim mun áleitnari verður spurningin um það hverjir það eru sem bera mestu ábyrgðina á því að hæfasta fólkið hrekst út af þingi eða gefur aldrei kost á sér til slíkra starfa. Eða öllu heldur hverjir það eru sem bera ábyrgð á því að meint lýðræði er ekki mikið meira en sýndarlýðræði.

Það eru tæplega eingöngu allir þeir sem hafa samlagast eða ákveðið að samþykkja vinnuumhverfið, af einhverjum ástæðum, sem ríkir í pólitíkinni hvort sem það er inni á Alþingi eða innan stjórnmálaflokkanna. Sú hugsun verður nefnilega stöðugt áleitnari að kjósendur geti tæplega talist alsaklausir í þessu mengi.

Ég get reyndar vel virt okkur kjósendum það til vorkunnar að standa í þeirri meiningu að fólk gefi tæpast kost á sér í pólitík ef þeir hafa ekkert ríkulegra fram að færa en “tóma“ meðalmennsku. Miðað við það sem er að gerast allt í kringum okkur þá er sú „meining“ hins vegar frekar orðin að friðþægingu en gildri afsökun fyrir því að grípa ekki í taumanna og krefjast endurskoðunar og -skipulagningar á því hvernig er staðið að því að velja þá sem raðast síðan til þess að vinna að og verja heildarhagsmuni samfélagsins.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 18.5.2014 kl. 20:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband