Það sem ræður mínu vali

Það hefur margt verið rætt og ritað um forsetakosningarnar, sem fram fara í dag, á undanförnum vikum og mánuðum. Sumir segja að það sé meira en áður og á nýjan og rætnari hátt. Það má vera að eitthvað sé til í því en ég ætla ekki að gerast einhver dómari í þessum efnum þó vissulega hafi mér blöskrað stundum og þá einkum orðbragðið sem hefur verið viðhaft um sitjandi forseta. 

Þó það sé ekki meining mín að elta ólar við slíkt orðbragð eða annað orðaval einstakra bloggara eða Fésara þá þykir mér rétt að minna á það að fjölmiðlun hefur tekið stakkaskiptum á sl. fjórum árum. Það má heldur ekki gleyma því að aðstæðurnar í samfélaginu eru allt aðrar nú en í síðustu forsetakosningum. Frá hruni hefur líka verið undirliggjandi umræða um eðli forsetaembættisins og valdsvið forseta.

Þessi umræða hefur reyndar komist nokkuð upp á yfirborðið í aðdraganda og kjölfar Ólafur Ragnar Grímssonþjóðaratkvæðagreiðslnanna tveggja um Icesave þar sem hafa heyrst athugasemdir eins og þær að: „koma böndum á forsetann“ og spurningar á borð við það: „Hvað eigum við eiginlega að gera við forsetann?“

Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þessar raddir nýti tækifærið nú í aðdraganda forseta-kosninganna og láti í sér heyra og það með jafn ósvífnum hætti og raunin hefur orðið. Það er reyndar ekki fullkomlega nýtt að menn og konur gerist lágkúruleg í orðavali í aðdraganda kosninga. Það er samt ekki ætlun mín að rifja slíkar dæmisögur upp. Erindi mitt fram á ritvöllinn nú er annað.

Ætlun mín er að draga fram ástæður þess að ég „breytingarsinninn“, eins og ég var kölluð á Fésbókinni minni á dögunum, tók þá ákvörðun að taka þátt í áskorun á sitjandi forseta um að bjóða sig fram aftur og kjósa hann ef hann yrði við þeirri ósk.

Fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave

Það er ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson braut blað í samskiptum almennings við valdið þegar hann vísaði nýsamþykktum Icesave-samningum til þjóðaratkvæðagreiðslu í janúar 2010. Þetta gerði forsetinn  í framhaldi þess að hann tók við 56.089 undirskriftum sem Indefence-hópurinn safnaði: „Var þetta fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins 1944. “ (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Indefence-hópurinn á tröppum Bessastaða
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sem fór fram 6. mars þetta sama ár, nýttu 62,7% kjósenda sér þetta tækifæri til að koma afstöðu sinni á framfæri. 98,1% þeirra sem kusu höfnuðu því að Icesave- samningarnar, sem Alþingi hafði samþykkt fyrir hönd þjóðarinnar, yrðu að lögum. Ólafur Ragnar braut því ekki aðeins blað í samskiptum íslensku þjóðarinnar við forseta sinn heldur fékk íslenskur almenningur fyrst þjóða tækifæri til og
að setja bönkum og fjármálastofnunum skorður hvað varðar það að velta skuldum sínum yfir á almenna skattgreiðendur.

Ég viðurkenni það að á þessum tímum var ég full tortryggni. Þá þrjá daga sem liðu frá því Indefence-hópurinn afhenti undirskriftirnar og þar til Ólafur Ragnar opinberaði niðurstöðu sína um að vísa nýsamþykktum lögum um Icesave-samninginn til þjóðaratkvæðagreiðslu beið ég milli vonar og ótta. Þegar ég hlustaði á hann segja frá ákvörðun sinni í útvarpinu skildi ég þýðingu þess að hann tók stöðu með þjóðinni. Ég skildi líka að hann hafði ákveðið að bjóða peningavaldinu byrginn og bauð öðrum innan stjórnsýslunnar að fylgja fordæmi sínu.

Sameiginlegar áhyggjur

Við efnahagshrunið haustið 2008 hrundi sjálfsmynd mín sem Íslendings en við ákvörðun forsetans byrjaði hún að rétta úr sér aftur. Við úrslit þjóðaratkvæðagreislunnar 6. mars árið 2010 fór hún að vaxa á ný.

Svo kom að útgáfu Rannsóknarskýrslunnar. Vanefndum stjórnsýslunnar varðandi uppgjörið sem þjóðinni hafði verið lofað við útgáfu hennar. Pólitísk refskák fjórflokksins opinberaðist svo þjóðinni fullkomlega í atkvæðagreiðslunni 28. september haustið 2010. Þann dag opinberuðu 36 þingmenn að þeim finnst ekki rétt að æðstu embættismenn þjóðarinnar beri ábyrgð á gjörðum sínum en finnst það ekkert tiltökumál að þjóðin sitji undir allri ábyrgðinni af óráðsíunni sem fylgir því að búa við siðlausa og ábyrgðarlausa stjórnsýslu.

Siðrofið sem opinberaðist þennan dag kallaði á nýja mótmælahrynu sem hefur staðið yfir með nokkrum hléum frá 1. október þetta sama ár. Tunnurnar boðuðu til mótmæla að kvöldi 4. október 2010 og urðu það stærstu og háværustu mótmæli Íslandssögunnar. Valda- og eignastéttin bókstaflega titraði af örvæntingu en úthaldsleysi almennings bjargaði þeim fyrir horn. Í bili a.m.k.

Í sömu viku og tunnumótmælin fóru af stað sendi, sú sem þetta skrifar, bréf á forsetaskrifstofuna þar sem hún óskaði eftir því að forsetinn veitti þremur fulltrúum grasrótarinnar áheyrn í tilefni stjórnmálaástandsins í landinu. Forsetinn brást skjótt við og þriðjudaginn 12. október tók hann á móti þremur slíkum á Bessastöðum. Fundurinn stóð yfir í tvo klukkutíma. (sjá hér)

Fulltrúar tunnubyltingarinnar á fundi forseta

Ég brýt engan trúnað við þennan fund þó ég segi frá því að á honum opinberaðist mér ekki aðeins maður sem var tilbúinn til að taka á móti fulltrúum grasrótarinnar með svo stuttum fyrirvara heldur deildi hann með þeim áhyggjunum sem var tilefni fundarins. Hann minnti þá líka á að það væri ekki bara í Reykjavík sem fram hefðu farið stærri mótmæli en áður þekktust heldur höfðu farið fram stór mótmæli og borgarafundir dagana á undan víðs vegar um landið vegna niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu í fámennari byggðum landsins.

Á fundinum hughreysti hann okkur með því að hann myndi standa með þjóðinni fengi hann til þess umboð hennar. Hann hefur fengið tækifæri til þess einu sinni síðan. 

Önnur þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave 

Í byrjun árs 2011 var komið að endurteknu efni í Icesave-fléttunni sem stjórnvöld hafa reynst svo áköf að festa íslenskan almenning í. Upp reis hópur sem kallaði sig Samstöðu þjóðar gegn Icesave og stóð fyrir undirskriftarsöfnun þar sem óskað var eftir þjóðaratkvæðagreiðslu færi svo að Alþingi myndi samþykkja lög sem legðu það á íslenska skattgreiðendur að borga upp tap sem íslensku bankarnir gerðu breskum og hollenskum viðskiptavinum sínum.

Samstaða þjóðar gegn Icesave

19. febrúar 2011 fór hópurinn og afhenti forsetanum undirskriftarlista með 41.000 nöfnum. 9. apríl, það sama ár, fór þjóðarattkvæðagreiðslan fram. 75,3% kjósenda greiddu atkvæði og varð niðurstaða hennar sú að 59,8% höfnuðu því að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, yrði veitt heimild, fyrir hönd ríkisstjóðs: „til að staðfesta samninga sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, svonefnda Icesave-samninga. Samningarnir fjalla um ábyrgð íslenska ríkisins á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins.“ (sjá hér)

Ég leyfi mér að vekja sérstaka athygli og endurtaka það að vorið 2011 nýttu 59,8% umboðið sem forsetinn veitti þjóðinni til að hafna því að Alþingi velti skuldum banka og fjármálastofnana yfir á almenna skattgreiðendur.

Jafnfætis breytingaröflunum

Haustið 2011 lofaði góðu fyrir grasrótarstarfið með opnun Grasrótarmiðstöðvarinnar. Draumurinn var samstaða þeirra einstaklinga og afla sem hafa komið fram frá efnahagshruninu 2008. Grasrótarmiðstöðin var kjörinn vettvangur fyrir þessa að koma saman og spegla hugmyndir að lausnum og leiðum að breytingum á því kerfi sem brást. Enn og aftur hafði sú sem þetta skrifar samband við forsetaskrifstofuna og óskaði eftir fundi með forsetanum og fjórum einstaklingum til að ræða stjórnmálaástandið.

Biðtíminn var nokkru lengri en í fyrra skiptið en móttökurnar, af bæði forsetans hálfu og starfsfólks hans, voru hlýjar og uppörvandi eins og fyrr. Í lok fundarins undirbjuggu fulltrúarnir, sem sátu fundinn, forsetann undir það að honum yrði væntanlega boðið á formlega opnun Grasrótarmiðstöðvarinnar. (sjá hér)

Forsetahjónin heimsækja Grasrótarmiðstöðina

Þegar að opnuninni kom þáði Ólafur Ragnar Grímsson og eiginkona hans boð stjórnar þessa nýja grasrótarvettvangs. Undir lok samkomunnar bað forsetinn um orðið og sagði m.a: „grasrótarstarf er ekki aðeins mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi heldur er grasrótarstarf lífsmarkið með lýðræðinu.“ (sjá hér og hér)

Af framansögðu ætti engan að undra að ég „breytingarsinninn“ velji þann frambjóðanda sem hefur sýnt það í orði og á borði að hann stendur með þjóðinni og kann að setja sig í spor grasrótarinnar. Fyrst og síðast tilheyri ég nefnilega þeirri grasrót sem hefur unnið að því óslitið frá haustinu 2008 að koma hugmyndum að lausnum og leiðum að breytingum á kerfinu á framfæri. Breytingum á því kerfi sem hefur brugðist almenningi í landinu og lítur út fyrir að ætla að halda því áfram.

Af þessum ástæðum hef ég ákveðið að hugsa út fyrir boxið í þessum forsetakosningum og kjósa þann frambjóðanda sem ég treysti best til þess styðja við breytingar til raunverulegs lýðræðis. Þar sem hann hefur nú þegar ákveðið í tvígang að standa með þjóðinni og bjóða peningavaldinu þannig byrginn þá mun hann halda því áfram fái hann til þess stuðning kjósenda.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar verða svo að finna út úr því hvort þeir ætla sér að fylgja fordæmi hans eða halda áfram í stríði við forseta sem tekur hagsmuni almennings fram yfir hag fjármagnseigenda. Ég trúi því að fulltrúar hennar muni ekki seinna en næsta vor uppskera eins og þeir hafa sáð til. Það er a.m.k. útlit fyrir það að Ólafur Ragnar fái góða uppskeru af því sem hann hefur sáð til undanfarin þrjú ár. Það væri óskandi að önnur stjórnvöld tækju mið af því og ákveddu að það er farsælla að vinna með meiri hluta kjósenda en á móti þeim.


mbl.is Rúm 35.000 atkvæði komin í hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær grein hjá þér Rakel eins og þín er von og vísa.  Tek undir hvert orð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.6.2012 kl. 13:19

2 Smámynd: Dagný

Takk fyrir þetta. Efldi mig enn frekar í sannfæringunni.

Dagný, 30.6.2012 kl. 13:49

3 identicon

Frábær grein hjá þér Rakel og einnig sannfærði mig enn betur en ég var fyrir. Ég vil ég hvetja þig til að koma þessu á enn frekara framfæri, s.s. í blöðin og fleira.

Davíð (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 15:08

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Setti þetta inn á mitt blogg svo og á Málefnin. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.6.2012 kl. 15:59

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir innleggin og Ásthildi sérstaklega fyrir að koma þessu áfram. Það sem Davíð segir er vel athugandi en þá þannig að ég skrifi greinina upp í þátíð. Skoða það út frá því hvernig öldurnar liggja núna eftir kosningarnar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.6.2012 kl. 16:34

6 identicon

Takk fyrir þessa stórgóðu grein Rakel.  Ég tek undir hvert orð. 

Tilvísað ítarefni er síðan ómetanleg heimild um maðkaðan 4-flokkinn.

Takk, enn og aftur Rakel.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 22:16

7 identicon

Tek svo hjartanlega undir þá áskorun,

að þú komir þessari grein sem víðast á framfæri.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.6.2012 kl. 22:29

8 identicon

Góð grein!

Jón Helgi (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 00:00

9 identicon

Ágætis grein og heimildir!

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 1.7.2012 kl. 16:27

10 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Málefnaleg grein hjá þér Rakel mín að vanda og gott að lesa hana þó ég sé á öndverðri skoðun við þig í þessu máli og hafi kosið Þóru.

Ég hef mínar málefnalegu ástæður fyrir því eins og þú fyrir þínu kjöri.

Eitt sem mér þykir áhugavert að velta upp. Hvenær er rétt að horfa í gegnum fingur sér við þá stefnu að tími fólks í æðstu embættum eigi að vera takmarkaður?

Kristbjörg Þórisdóttir, 2.7.2012 kl. 23:21

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

T.d. í tilfelli eins og því sem við sem þjóð stöndum frammi fyrir nú þar sem það er ljóst að hagsmunum almennings stafar ógn af stefnu ríkisstjórnarinnar og afar óvíst að sú stefna stríði á móti stefnu annarra flokka sem sem nú eru inni á þingi.

Það er líka ljóst að ríkisstjórnin á í stríði við forsetaembættið. Reyndar með ólíkindum hvernig margir þeirra sem eiga samleið með málflutningi þeirra gegn Ólafi Ragnari teygja sundrungarumræðuna fram yfir úrslit sjálfra kosninganna. Það er nokkuð ljóst að þessir hafa lítinn áhuga á samstöðu við þann meiri hluta sem treysti Ólafi Ragnari best til að gegna þessu embætti við núverandi aðstæður.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.7.2012 kl. 01:55

12 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Leiðir það þá ekki til þess að á meðan ekki verður algjör uppstokkun á þingi að þá verði þörf fyrir Ólaf í þónokkur ár til viðbótar. Er það hollt fyrir hann og þjóðina?

Ekki er nú hægt að tala um meirihluta þegar hann hefur einungis þriðjung kjósenda á bakvið sig sem er mjög miður, ekki síst við þessar aðstæður.+

Er það einungis ríkisstjórnin sem á í stríði við forsetaembættið? Sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Kristbjörg Þórisdóttir, 4.7.2012 kl. 12:00

13 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er útlit fyrir að það að koma Þóru Arnórsdóttur að sé þér slíkt hjartans mál að þú sést tilbúin til að standa í útúrsnúningum og argaþrasi við einhvern sem unir úrslitum forsetakosninganna. Ég get ekki séð að slíkt hafi nokkuð upp á sig nema leiðindin.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.7.2012 kl. 01:43

14 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir þetta með þér Rakel, ótrúlegt hve margir eru tapsárir og geta ekki unað lýðræðislegum niðurstöðum.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.7.2012 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband