„Grasrótarstarf er lífsmarkið um lýðræðið“

Á meðan Alþingi snýst um sjálft sig og þingmennirnir fá hvert svimakastið af öðru yfir málefnunum sem berast þeim á færibandi fjármálaelítunnar. Á meðan einkareknir fjölmiðlar valdsins snúast um tölur og hagfræði banka og annarra fjármálastofnana. Á meðan fámennur hópur glataðra sálna upplifir sig sem miðju alheimsins og týnir sér í hugmyndinni um eigið mikilvægi inni í hringiðu kerfisófreskjunnar. Á meðan þetta kerfislæga vífillengjubatterí vindur merkinguna burt úr lýðræðinu, sem þeim var trúað fyrir, hefur það fundið sér annan jarðveg að blómstra í.

Þetta varð næstum því áþreifanlegt á opnum kynningarfundi sem haldinn var í nýopnaðri Grasrótarmiðstöð nú í kvöld. Grasrótarmiðstöðin er til húsa að Brautarholti 4 en samstarf er um rekstur miðstöðvarinnar. Það eru níu aðilar sem koma að rekstrinum eða eftirtaldir: Alda: Félag um lýðræði og sjálfbærni, Borgarahreyfingin, Bót: Aðgerðarhópur um bætt samfélag, Frjálslyndi flokkurinn, Húmanistaflokkurinn, Hreyfingin, IFRI-hópurinn, Samtök fullveldissinna og Þjóðarflokkurinn.

Fundurinn í kvöld var haldinn í þeim tilgangi að kynna aðstöðuna og þá starfsemi sem hefur komið sér fyrir í grasrótarmiðstöðinni nú þegar. Einstaklingar og hópar sem vilja starfa að bættu samfélagi voru hvattir til að mæta. Þó nokkrir þáðu boðið. Meðal þerra sem var boðið og þekktust það voru forsetahjónin.
Forsetahjónin kynna sér gróskuna í grasrótinniÁ fundinum kynntu hóparnir, sem standa að rekstri Grasrótarmiðstöðvarinnar, fyrir hvað þeir standa en auk þess komu fulltrúar ýmissa annarra hópa og sögðu frá hugðarefnum sínum. Þar má nefna Zeitgeist-hópinn, Occupy Reykjavík, Íbúahreyfinguna, Stjórnarskrárfélagið og Gagnauga.

Orð fulltrúa Occupy-hópsins benti fundargestum á að „við komumst ekki nær grasrótinni en gista á Austurvelli.“ Hann benti fundargestum líka á að það væri draumur þeirra að búa til fræ sem nýtt samfélag gæti vaxið af. Fjölmiðlum var send fréttatilkynning um þennan fund. Svipan birti hana, Ásta Hafberg sagði frá þessum opna kynningarfundi í Bítinu á Bylgjunni í morgun og Helga Þórðardóttir og Björg Sigurðar voru á Útvarpi Sögu af sama tilefni. Eini fulltrúi íslenskra fjölmiðla á fundinum var frá Svipunni en auk hans átti gríska sjónvarpið fulltrúa á fundinum. 

Mikilvirkasti fjölmiðill grasrótarinnar átti hins vegar fjölda fulltrúa og eru myndirnar með þessari færslu frá tveimur þeirra. Þeir kalla sig Dóra Sig og Tóta haka. Svo sendi einn mér þessa upptöku af ræðu forsetans og eins fulltrúa Occupy-hreyfingarinnar fyrir augnabliki síðan:

Forsetinn hefur sýnt það margsinnis í verki að hann hefur áhuga á því sem er að gerast í grasrótinni og hefur hlýtt með athygli á það sem fulltrúar hennar hafa að segja. Það væri óskandi að fleiri fulltrúar valdsins tækju hann til fyrirmyndar hvað þetta varðar. Forsetinn ávarpaði samkomuna í kvöld (sjá myndbandið hér að ofan) þar sem hann vísaði til þess að það hefði komið fram á fundi hans með fulltrúum grasrótarinnar fyrr í haust að sumir óttuðust það að taka þátt í grasrótarstarfi eins og því sem Grasrótarmiðstöðin fóstrar nú.

Ólafur Ragnar sagði að honum hafi þess vegna þótt það mikilvægt að þau Dorrit þekktust boðið um að mæta á þennan kynningarfund og taka þannig þátt í því að eyða þessum ótta. Hann bætti því við að „grasrótarstarf er ekki aðeins mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi heldur er grasrótarstarf lífsmarkið með lýðræðinu.“

Undir lokin minnti hann á þá tæknibyltingu sem orðið hefur á sviði upplýsingatækninnar og bætti við: „Nú eigið þið, hvert og eitt ykkar, eigin fjölmiðil. [...] Upplýsingatæknin hefur gefið ykkur vald til að koma sjónarmiðum ykkar og skoðunum á framfæri.“ Þetta er vald sem engin grasrótarhreyfing hefur haft fyrr en nú.

Að lokum er rétt að benda á að það er draumur rekstraraðilanna að samstarfsvettvangur af því tagi sem nú er orðinn til niður í Brautarholti 4 verði til þess að efla allt grasrótarstarf. Sameiginlegur starfsvettvangur leiðir þá saman sem hafa verið virkir á vettvangi samfélagsmála meira og minna frá haustinu 2008. Hann ætti líka að gera þeim sem hafa áhuga á að taka þátt auðveldara fyrir að nálgast fleiri sem eru að vinna að hugmyndum og lausnum á þeirri samfélagskreppu sem við blasir.

Opinn grasrótarfundur

Fundurinn í kvöld var svo sannarlega til að glæða vonir um að slíkt verði að veruleika.


mbl.is Forsendan þarf að standast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: eysi

Takk fyrir þessa snilldar grein

eysi, 10.11.2011 kl. 13:32

2 Smámynd: BJÖRK

Frábær grein og bestu óskir um síaukið grasrótarstarf!

BJÖRK , 10.11.2011 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband