Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

Ráðherrasamanburður: Nefndareynsla II

Þetta verkefni er farið að teygja sig vel á annað ár. Frá upphafi hefur það einkum snúist um að reyna að draga það fram hvað það er sem ræður því hver sest í ráðherrastól hverju sinni. Það eru sjálfsagt margir sem treysta sér til að svara því með jafnvel hita og sleggjudómum og vísa til “almennrar vitneskju“ máli sínu til rökstuðnings. Stundum liggur sannleikskorn í því sem er almannarómur en hann dugar skammt í rökræðum.

Þegar bankarnir hrundu haustið 2008 opinberaðist það fyrir mörgum að eitthvað mikið væri að innan bankanna og einkarekinna endurskoðunarfyrirtækja þeirra. Það þótti líka blasa við að opinberar eftirlitsstofnanir höfðu ekki sinnt hlutverkum sínum við að sinna hagsmunum heildarinnar í stað fjármálastofnana eingöngu. Það sem verra var er að stjórnmálamennirnir gátu ekki verið saklausir heldur!

Alltof margir, sem tóku þátt í kröfugerðinni um uppstokkun,virtust loka augunum algjörlega fyrir því að Samfylkingin var í þeirri stjórn sem tók þátt í því að kjafta þá staðreynd í hel að hrunið átti sér aðdraganda. Þó nokkrir tóku svo þátt í því að styrkja hana aftur til valda vorið 2009. Margir kjósenda virtust sættast á að ný stjórn annars hrunflokkanna í bandalagi við VG væri svarið við þeirri uppstokkun sem byltingaraddirnar sem vöknuðu í kjölfar hrunsins, höfðu kallað eftir.

Hins vegar kom það berlega í ljós í síðustu alþingiskosningum að mjög margir kjósendur voru alls ekki sáttir við það hvernig sú stjórn spilaði úr spilum sínum. Fylgjendur síðustu ríkisstjórnar hafa margir neitað að horfast í augu við það að verk svokallaðrar „velferðarstjórnar“ var langt frá því að vera í takt við uppstokkun eða framfarir í stjórnarháttum og/eða aukið lýðræði ásamt því sem fulltrúar hennar sviku öll kosningaloforð um aukinn jöfnuð. Þessir fóru mikinn í aðdraganda síðustu kosninga og fara enn í gagnrýni á stefnu og efndir núverandi stjórnmálaflokka.

Doris Lessing

Að nokkru leyti voru það þessar ástæður sem urðu til þess að farið var af stað með þetta bloggverkefni. Sú sem heldur úti þessu bloggi sér sem sagt ekki allan muninn á þeim flokkum sem voru stundum settir saman undir einn hatt á síðasta kjörtímabili og kallaðir: fjórflokkurinn. Spurningar vöknuðu sem leiddu m.a. til þess ásetnings að finna það út hvort það sé einhver raunverulegur munur á; annars vegar bakgrunni ráðherra þessarar og síðustu ríkisstjórnar og svo þeim forsendum, sem bakgrunnur þeirra gefur tilefni til að álykta, að liggi að baki skipun þeirra til embættis.

Eins og þeir sem hafa lesið fyrri færslur eru væntanlega búnir að átta sig á þá þykir það orðið ljóst að munurinn er lítill sem enginn. Reyndar er meðalaldur (sjá hér) þeirra sem sitja á ráðherrastóli nú og svo þingreynslualdur (sjá hér) nokkru lægri en þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili. Að öðru leyti er ekki annað að sjá en formenn þeirra stjórnmálaflokka sem taka þátt í ríkistjórn nú og þeirrar á undan hafi farið eftir afar áþekkri formúlu við skipun ráðherranna.

Formúlan sem um ræðir varð ekki til vorið 2009 heldur virðist hún hafa verið í mótun frá tíma heimastjórnarinnar. Hún byggir á hefð sem tekur harla lítið mið af faglegum þáttum. Miðað við það sem hefur verið dregið fram hér er ekki annað að sjá en hún byggi helst á einhverju, sem e.t.v. mætti kalla, flokkspólitísku metorða- og valdakapphlaupi.

Í því ljósi er það alls ekkert skrýtið að efnahagur landsins hafi ratað í hrun sem leiddi til kreppu. Langdreginnar efnahagskreppu sem hefur haft þær afleiðingar að bæði stjórnmálin og samfélagið, sem stjórnmálaflokkarnir hafa gefið sig út fyrir að þjóna, eru stödd í slíkri úlfakreppu að við upplifun hana öll án þess rata út úr henni.

Hér er meiningin að halda áfram þaðan sem frá var horfið í síðustu færslu. Áherslan í þessum miðjuhluta, þar sem fjallað er um þingnefndir Alþingis, er að draga fram nokkra þeirra athyglisverðustu þátta sem urðu út undan í þeirri síðustu. Auk þessa verður litið aftur í tímann og byggt frekar undir það, sem var haldið fram í síðustu færslu, þ.e. að í augum stjórnmálamanna á framabraut þá þykir utanríkismála- og fjárlaganefndin mikilvægari en aðrar nefndir til að komast áfram innan þess valdastrúktúrs á Alþingi sem flokkspólitíkin hefur mótað og viðhaldið hingað til.

Athyglisverðast

Síðasta færsla snerist aðallega um að draga fram staðreyndir miðað við ferilskrár þeirra sem gegna ráðherraembættum á núverandi kjörtímabili og hinna sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili. Úrvinnslan á þessu efni var hins vegar látin bíða annarar færslu sem birtist hér.

Eitt af því markverðasta sem kom fram þar er að Össur Skarphéðinsson, sem kom inn á þing sama ár og Alþingi var breytt í eina málstofu, hefur átt sæti í öllum núverandi fastanefndum þingsins. Hann sat almennt í þremur fastanefndum á sama tíma en var yfirleitt ekki lengur í hverri þeirra en rúm tvö ár.

Sú fastanefnd sem hann hefur setið lengst í er utanríkismálanefndin þar sem hann átti sæti á árunum 1995 til 1999 og svo aftur 2005 til 2007. Össur hefur verið formaður tveggja fastanefnda Alþingis: iðnaðarnefndar og heilbrigðis- og trygginganefndar.

Þeir sem koma næstir á eftir honum, þegar horft er til fjölda nefndarsæta, eru Bjarni Benediktsson og Ögmundur Jónasson. Bjarni, sem á lengsta þingreynslualdur núverandi ráðherra, hafði setið í öllum fastanefndum Alþingis, nema umhverfis- og samgöngunefndinni, áður en hann varð ráðherra vorið 2013.

Að öllu jöfnu sat hann í þremur nefndum á sama tíma og gjarnan í fjögur ár í hverri þeirra en þó sumum skemur. Lengst sat Bjarni í utanríkismálanefnd eða í átta ár en styst í heilbrigðis- og trygginganefnd en þar átti hann sæti í aðeins eitt ár. Bjarni hefur verið formaður tveggja nefnda; allsherjarnefndar í fjögur ár og utanríkismálanefndar í tvö ár.

Flestar fastanefndir

Af þeim sem eru taldir á myndinni hér að ofan vekur nefndarreynsla Ögmundar Jónassonar og Álfheiðar Ingadóttur ekki minnsta athygli. Ástæðan er ekki síst sú hve Álfheiður hefur komist að í mörgum nefndum á aðeins tveimur árum en sú sem snýr að Ögmundi kemur reyndar ekki fram nema með því að fara í ferilskrána hans (sjá hér).

Það sem breytir mestu á nefndarferli hans er að hann vék úr ráðherraembætti aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann var skipaður (haustið 2009) og gekk svo inn í ríkisstjórnina aftur einu ári síðar (haustið 2010). Það hefur áður verið vikið að því sem vekur athygli við nefndarreynslu Álfheiðar Ingadóttur.

Þar var m.a. bent á að hún hafði aðeins tveggja ára reynslu úr tveimur þegar Jóhanna tók við stjórnartaumunum í Stjórnarráðinu í byrjun árs 2009 (sjá hér). Þessar nefndir eru heilbrigðis- (og trygginganefnd) og iðnaðarnefnd. Miðað við ferilskrána hennar hafði hún hins vegar setið í sex nefndum þegar hún tók við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009.

Skýringin liggur í því að við stjórnarskiptin var Álfheiður skipuð í fjórar nýjar nefndir. Tvær þeirra voru allsherjar- og efnahags- og skattanefnd sem er útlit fyrir að komi næstar á eftir fjárlaga- og utanríkismálanefndinni að virðingu. Auk þessara vegtylla var hún formaður viðskiptanefndar mánuðina áður en hún var skipuð heilbrigðisráðherra aðeins rétt rúmum fjórum mánuðum eftir að Jóhönnustjórnin tók formlega við stjórnartaumunum (sjá hér).

Á meðan Álfheiður gegndi ráðherraembættinu vék hún úr þeim nefndum sem hún hafði setið í áður nema kjörbréfanefndinni. Þegar ráðherratímabili hennar lauk haustið 2010 tók hún við öllum sætunum aftur og einu betur. Hún átti þar af leiðandi sæti í fimm fastanefndum þingveturinn 2010 til 2011. Þessar nefndir eru: allsherjarnefnd, viðskiptanefnd, kjörbréfanefnd, efnahags- og skattanefnd og umhverfisnefnd (sjá nánar hér).

Umbun eða sárabætur?

Ögmundur Jónasson hefur hingað til haldið því fram að hann hafi vikið úr embætti heilbrigðisráðherra af eigin hvötum þar sem skoðun hans í Icesave-málinu samrýmdust ekki skoðunum þáverandi ríkisstjórnar (sjá t.d. hér). Miðað við nefndarsætin sem hann fékk í kjölfarið er ekki útlit fyrir að skoðanamunurinn hafi verið látinn koma illa niður á honum. Haustið 2009 tók hann við fjórum nefndarsætum þar af í þremur nefndum sem hann hafði aldrei setið í áður.

Ein þeirra var utanríkismálanefndin, þá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndin og svo umhverfisnefndin. Fjórða nefndin sem hann fékk sæti í var efnahags- og skattanefndin (sjá nánar hér). Í þessu samhengi er svo spennandi að sjá hvaða nefndarsæti þau Kristján L. Möller, Árni Páll ÁrnasonJón Bjarnason og Oddný G. Harðardóttir fengu í kjölfar þess að þeim var gert að víkja úr ráðherrastólum. Reyndar gegnir öðru máli um Oddnýju en þau hin. Hún, rétt eins og Álfheiður Ingadóttir, var aðeins tekin tímabundið inn í ríkisstjórnina.

Það sem er þó óvenjulegast í tilviki Oddnýjar er að það er ekki annað að skilja en hún hafi átt sæti í tveimur fastanefndum og einni erlendri nefnd á sama tíma og hún gegndi embætti fjármálaráðherra. Það er heldur ekki hægt að álíta annað en Oddný hafi verið sett yfir Fjármálaráðuneytið þannig að Steingrímur J. Sigfússon gæti tekið við ráðuneytunum sem Árni Páll Árnason og Jón Bjarnason sátu yfir áður en þeim var vikið út úr ríkisstjórninni.

Brottvikningin átti sér stað á gamlársdag árið 2011 (sjá hér). Oddný G. Harðardóttir var ráðherra í níu mánuði og ekki er hægt að skilja það sem kemur fram á ferilskrá hennar öðru vísi en að hún hafi á sama tíma setið í allsherjar- og menntamálanefnd og þingskapanefnd ásamt því að eiga sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (sjá hér).

Þegar Ögmundur gekk aftur inn í ríkisstjórnina haustið 2010 var Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sett undir Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Þar af leiðandi varð Kristján L. Möller að víkja. Í kjölfarið tók hann við þremur nefndarsætum og var gerður að formanni í einni þeirra. Þetta var iðnaðarnefndin en þar hafði hann setið áður í eitt ár. Hann var líka settur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndina en hann hafði áður átt sæti í sjávarútvegsnefndinni í þrjú ár. Þriðja nefndin er heilbrigðisnefnd en þar hafði hann aldrei átt sæti áður.

Eftir 2011 átti hann áfram sæti í þremur nefndum en reyndar aðeins tveimur sem eru taldar til fastanefnda miðað við þetta yfirlit. Hann varð formaður atvinnuveganefndar haustið 2011 og hélt þeirri vegtyllu út síðasta kjörtímabil. Auk þessa var hann gerður að þriðja varaforseta Alþingis og átti því sæti í forsætisnefndinni frá árinu 2010 til loka síðasta kjörtímabils. Þess má geta að hann hefur verið fyrsti varaforseti frá upphafi þessa kjörtímabils (sjá hér).

Rúmu ári eftir að Álfheiður Ingadóttir og Kristján L. Möller viku sem ráðherrar var komið að Árna Páli Árnasyni og Jóni Bjarnasyni að yfirgefa sína stóla. Árni Páll sem hafði setið í utanríkismálanefnd í tvö ár (2007-2009) og verið varaformaður hennar á sama tíma  fékk aftur sæti þar. Hann hélt því út kjörtímabilið og fékk líka sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins en þar hafði hann ekki átt sæti áður. Hann er sá eini sem vék ráðherrasæti í síðustu ríkisstjórn sem var umbunað eða bættur skaðinn með sæti í erlendri nefnd (sjá nánar hér).

Jón Bjarnason fékk líka sæti í utanríkismálanefndinni eftir að honum var sparkað út úr Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á síðasta kjörtímabili. Hann hafði aldrei átt sæti þar áður en sat í henni kjörtímabilið á enda ásamt efnahags- og viðskiptanefndinni en hann hafði áður setið í viðskiptanefndinni í tvö ár (sjá nánar hér).

Það vekur vissulega athygli að Jón Bjarnason hafi fengið sæti í utanríkismálanefndinni í kjölfar þess að honum var vikið úr embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir afstöðu hans til evrópusambandsaðildarinnar (sjá hér). Skýringin kann að vera sú að hann sagði sig ekki opinberlega úr VG þá þegar en það hefði vissulega gert endanlega út af við ríkisstjórnina. Hún var nefnilega orðin minnihlutastjórn á þessum tíma þó sú staðreynd fengi af einhverjum ástæðum að liggja í þagnargildi.

Það er fleira sem vekur athygli þegar nefndarferill Jóns Bjarnasonar er skoðaður. Sama ár og hann settist inn á þing fékk hann sæti í fjárlaganefnd og átti þar sæti næstu tíu árin eða þar til hann var skipaður ráðherra síðustu ríkisstjórnar. Í þessu samhengi er rétt að minna á að árið, sem hann kom inn á þing, er sama ár og Samfylkingin og Vinstri grænir buðu fram til alþingiskosninga í fyrsta skipti; þ.e. er árið 1999.

Það ár hlutu aðrir elstu þingmenn Vinstri grænna, ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, sæti í þeim þremur nefndum sem lítur út fyrir að sitji efst í virðingarröð fastanefndanna á Alþingi. Þingmennirnir fjórir, sem hér er rætt um, sátu óvenju lengi í þessum nefndum miðað við það sem almennt gerist. Jóhanna, sem var þingmaður Samfylkingarinnar, átti sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni tveimur árum styttra en aðrir sem eru taldir á myndinni hér að neðan.

Öll eiga það hins vegar sameiginlegt að þau sátu í sömu nefndinni, og þau settust í árið 1999, fram til þess að þau tóku við ráðherraembætti: Jóhanna árið 2007 í stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hinir árið 2009 þegar stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum eftir að hin hraktist frá völdum.

Í þessu samhengi má líka geta þess að Kristján L. Möller tók sæti í samgöngunefnd árið 1999. Hann átti þar sæti nær óslitið fram til þess að hann var skipaður samgönguráðherra í stjórn Geirs H. Haarde sama ár og Jóhanna Sigurðardóttir var skipuð félagsmálaráðherra (sjá hér).

Bandalag sem brást?

Það er vissulega spurning hvað hefur ráðið því sem kemur fram hér að ofan en á það skal minnt að Steingrímur J. Sigfússon var formaður VG allan þann tíma sem hann átti sæti í utanríkismálanefndinni. Það var því á hans valdi hvernig nefndarsætunum, sem þingflokkur VG fékk í sinn hlut, var úthlutað.

Það er þ.a.l. hann sem hefur raðað þeim Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni ásamt öðrum þingmönnum flokksins í nefndir. Það voru hins vegar Margrét FrímannsdóttirÖssur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem tryggðu Jóhönnu Sigurðardóttur sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni frá því að hún varð þingmaður Samfylkingarinnar þar til Ingibjörg Sólrún skipaði hana sem einn ráðherra flokksins vorið 2007.

Átta til tíu ára reynsla ofantalinna í efnahags- og viðskiptanefnd/efnahags- og skattanefnd, utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd vekur ekki síst athygli í ljósi þess að ef mark er takandi á því sem hefur verið dregið fram á þessum bloggvettvangi þá situr hver þingmaður að jafnaði ekki nema tvö til þrjú ár í hverri nefnd (sjá hér).

Það má svo vekja athygli á því að Steingrímur J. hafði átt sæti í efnahags- og viðskipanefndinni í átta ár áður en hann tók sæti í utanríkismálanefndinni. Honum var úthlutað sæti í þeirri nefnd sama ár og Davíð Oddsson tók við sem forsætisráðherra, í fyrsta skipti, og þá í stjórnarsamstarfi við Alþýðuflokkinn.

Þar sem það er mjög líklegt að á þeim tíma hafi svipaðar reglur verið við lýði hvað varðar vald flokksformanna er ekki úr vegi að rifja upp að það var Ólafur Ragnar Grímsson sem var formaður Alþýðubandalagsins á þessum tíma. Steingrímur sat í efnahags- og viðskiptannefndinni fyrstu tvö kjörtímabil Davíðs. Margrét Frímannsdóttir var formaður Alþýðubandalagsins seinna kjörtímabilið en undir lok þess tók hún þátt í að mynda Samfylkinguna ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, Össuri Skarphéðinssyni o.fl. en Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson klufu sig frá fylkingunni og tóku saman við Vinstri græna.

Samfylkingin og Vinstri grænir voru nýir stjórnarandstöðuflokkar á valdatíma þriðja ráðuneytis Davíðs Oddssonar. Við upphaf þess skipaði Steingrímur J., Ögmund Jónasson í sitt gamla sæti innan efnahags- og viðskiptanefndarinnar, setti óreyndan þingmann í fjárlaganefndina og tók sjálfur sæti í utanríkismálanefndinni. Þessi nefndarsætaskipan hélst næstu tíu árin eða þar til allir þrír urðu ráðherrar undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009.

Margrét Frímannsdóttir, sem var fyrsti formaður Samfylkingarinnar, skipaði Jóhönnu Sigurðardóttur sem fyrsta fulltrúa flokksins í efnahags- og viðskiptanefndina. Með því urðu þau Ögmundur samferða í átta ár innan sömu nefndar eða þar til Jóhanna Sigurðardóttir var skipuð félagsmálaráðherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér).

Tæpum tveimur árum síðar sprakk stjórnarsamstarfið og þessi urðu öll ráðherrar í stjórn sem tók við í kjölfar háværra krafna um endurnýjun og breytta stjórnarhætti. Þrjú þeirra sem tóku við ráðherraembætti í Jóhönnustjórninni höfðu auk þess verið ráðherrar í hrunstjórninni. Það voru: Jóhanna Sigurðardóttir, Kristján L. Möller og Össur Skarphéðinsson. Allt síðasta kjörtímabil var helmingur ráðherrahópsins skipaður þeim sem áttu það sameiginlegt að eiga yfir tíu ára þingreynslu að baki og hafa tekið þátt í því að stofna til Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1999.

Vorið sem þessi komu inn á þing fyrir framangreinda flokka sat Halldór Ásgrímsson sitt annað kjörtímabil sem utanríkismálaráðherra en hann hafði verið sjávarútvegsráðherra á sama tíma og Steingrímur J. var skipaður landbúnaðarráðherra og Jóhanna félagsráðherra Þetta var í þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar sem sat á árunum 1989 til 1991 eða þar til Alþýðuflokkurinn sprengdi upp stjórnarsamstarfið (sjá hér).

Loks skal vakin athygli á því að sama ár og Steingrímur J. fékk sæti í efnahags- og viðskiptanefndinni tók hann líka sæti í sjávarútvegsnefndinni en þar sat hann í sjö ár. Hann varð svo formaður hennar fyrsta kjörtímabilið sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur störfuðu saman í öðru ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér). Það er óvíst að, að baki því sem hér hefur verið rakið liggi neitt sem skiptir máli en vissulega vekja þessi atriði nokkra athygli og eru þess vegna talin hér.

Drög að samantekt á þessu efni

Það er ekki einfalt að draga þetta efni þannig saman að það sýni á óyggjandi hátt hvort og þá hvernig vera í nefndum hefur verið metin hingað til við skipun til ráðherraembætta. Þó verður tæplega annað sagt en að í þessum skrifum hafi verið dregnar fram sterkar vísbendingar um að það þyki harla góður undirbúningur fyrir ráðherrastöðu að hafa verið í nefnd sem fjallar um málefni þess ráðuneytis sem viðkomandi er skipaður yfir.

Það er því líklegra að val á ráðherraefnum fari öðru vísi fram en almennt er gert ráð fyrir. Þegar mið er tekið af því hvernig sá hópur sem hefur verið til skoðunar hér hefur raðast niður á nefndir er það a.m.k. ekki útilokað að draga þá ályktun að ráðherraefni flokkanna séu valin miklu fyrr á þingmannsferli þeirra sem hljóta skipun. Eigi þessi ágiskun við rök að styðjast skýrir þetta  nokkuð það valdaþrátefli sem þingstörfin einkennast gjarnan af.

Það er greinilegt að ekki nauðsynlegt að uppfylla það skilyrði að hafa setið í viðeigandi nefnd til að fá ráðherraembættisúthlutun. Kristján Þór Júlíusson er heilbrigðisráðherra án þess að hafa nokkurn tímann setið í velferðarnefndinni. Í báðum stjórnum sátu líka ráðherrar sem voru nýir inni á þingi þegar þeir voru settir yfir ráðuneyti.

Þessir höfðu því hvorki þingreynslu né reynslu innan úr nefndum sem heyrðu málefnalega undir ráðuneytin sem þeir voru skipaðir yfir. Hér er að sjálfsögðu átt við þær Svandísi Svavarsdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Þær eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa báðar framkvæmdastjórar á vegum sinna flokka og síðar borgarfulltrúar. Það sem þessi eiga hins vegar sameiginlegt er að þau voru efst á framboðslista síns kjördæmis þegar þau komu inn á þing (Svandís, Kristján Þór og Hanna Birna).

Þar sem Svandís og Hanna Birna voru nýjar inni á þingi þegar þær voru skipaðar í ráðherraembætti er forvitnilegt að bera ferilskrár þeirra saman. Hér er það gert út frá aldri, menntun, starfs- og stjórnmálareynslu. Þeir sem vilja nánari samanburð er bent á alþingisvefinn þaðan sem þessar upplýsingar eru teknar. Ferilskrá Svandísar er hér og Hönnu Birnu er hér.

Svandís Svavarsdóttir og Hanna Birna Kristjánsdóttir

Fyrir árið 2011 var það ekki óalgengt að hver þingmaður ætti sæti í þremur til fjórum þingnefndum á sama tíma en með breytingunum á þingskaparlögunum var ætlunin að draga úr nefndarálaginu þannig að hver þingmaður ætti aðeins sæti í einni nefnd. Reyndin virðist hins vegar vera sú að hver þingmaður situr í tveimur til þremur nefndum. Algengasta samsetningin er sú að þeir sitja í tveimur þingnefndum og í einni erlendri nefnd (sjá hér).

Annað sem ætti að liggja fyrir eftir þá samantekt sem hefur verið leidd fram hér er að áherslan á nefndarstörf þingmanna hefur orðið æ ríkari þáttur í störfum þeirra. Hér hefur líka töluverð áhersla verið lögð á að draga það fram að ein af þeim hefðum sem hafa orðið til í kringum þingnefndirnar er misjöfn virðingar- og/eða mikilvægisröð þeirra. Þær fastanefndir þingsins sem er útlit fyrir að veiti mestu upphefðina eru: utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd, þá efnahags- og viðskiptanefnd og svo allsherjarnefnd og loks iðnaðarnefnd.

Til að undirstrika þessa niðurstöðu enn frekar er forvitnilegt að horfa aftur í tímann og skoða þá sem hafa orðið forsætisráðherrar á stjórnmálaferli sínum en hafa áður setið í utanríkismálanefnd og/eða verið utanríkisráðherrar. Áður en lengra er haldið er þó vert að benda á að í kaflanum Ráðherrasamanburður: Flokksforystuhlutverk voru einnig færð rök fyrir því í hvaða virðingarröð stjórn utanríkismála er í íslenskri flokkspólitík. Að þessu var einnig vikið í færslunum Til Evrópustýringar Íslands og Utanríkisráðuneytið.

Aðgöngumiðinn að forsætisráðuneytinu

Eins og kemur fram á þessari mynd þá má það heita hefð, frá árinu 2004, að þeir sem verða forsætisráðherrar hafi áður setið í utanríkismálanefnd. Það má reyndar vera að þessi hefð sé eitthvað eldri. Það er a.m.k. ljóst að það hafa verið sterk tengsl á milli forsætisráðherra- og utanríkisráðherraembættisins frá því að fyrsti utanríkisráðherrann var skipaður árið 1941.

Stefán Jóh. Stefánsson (Alþýðuflokki) var fyrsti utanríkisráðherrann (sjá hér). Hann var jafnframt fyrsti forsætisráðherrann sem hafði gegnt utanríkisráðherraembættinu áður en hann varð forsætisráðherra (sjá hér). Bjarni Benediktsson (eldri) hafði verið utanríkisráðherra í sex ár áður en hann varð forsætisráðherra, Benedikt Gröndal í eitt ár, Halldór Ásgrímsson í níu og Geir H. Haarde í eitt en hann hafði líka setið í utanríkismálanefnd í sjö ár áður en kom að því að hann tók við ráðherrastöðu.

Hér er ótalinn Ólafur Thors sem fór með Utanríkisráðuneytið samhliða forsætisráðherraembættinu í fyrstu tveimur ráðuneytunum sem hann fór fyrir. Þetta var árið 1942 og svo árin 1944 til 1947 (sjá hér). Það er heldur ekki óalgengt að þeir sem hafa verið forsætisráðherrar hafi orðið utanríkisráðherrar í framhaldinu. Þetta kemur líka fram á myndinni hér að ofan.

Þetta á við í tilviki Emils Jónssonar, Ólafs Jóhannessonar, Geirs HallgrímssonarSteingríms Hermannsonar og Davíðs Oddssonar. Það vekur væntanlega athygli að bæði Steingrímur og Davíð gegndu þó ekki utanríkisráðherraembættinu nema í eitt ár hvor. Það er ekki síður athyglisvert að af þeim átján, sem hafa verið forsætisráðherrar frá því að Utanríkisráðuneytið var stofnað, þá eru þeir ellefu sem höfðu gengt embætti utanríkisráðherra áður en þeir urðu forsætisráðherra, fóru með bæði embættin á sama tíma eða voru yfir Utanríkisráðuneytinu í framhaldi þess að þeir sátu í Stjórnarráðinu.

Til að lesendur átti sig enn frekar á sambandinu sem er á milli embættanna er vert að gera sams konar samanburð á embætti fjármála- og forsætisráðherra. Þessi embættisheiti eru jafngömul eða frá stofnun fyrstu ráðuneytanna árið 1917 (sjá hér). Vera í fjárlaganefnd er líka höfð með í þessum samanburði en ætlunin er að skoða hversu algengt það er að þeir sem hafa orðið forsætisráðherra hafi verið fjármálaráðherra áður, í framhaldinu eða hvort þeir, sem hafa sest í Stjórnarráðið eftir 1991, hafi setið í fjárlaganefnd.

Fjármálaráðherrar sem hafa orðið forsætisráðherrar

Af þeim 24 sem hafa verið forsætisráðherra frá árinu 1917 þá eru þeir eingöngu fimm sem hafa líka verið fjármálaráðherra og allir áður en þeir urðu forsætisráðherra. Geir H. Haarde er eini forsætisráðherrann eftir 1991 sem hafði átt sæti í fjárlaganefndinni áður en hann varð æðstráðandi í ríkisstjórn. Hann stýrði þremur ráðuneytum á þingferlinum: fyrst Fjármálaráðuneytinu, þá Utanríkisráðuneytinu og síðast Forsætisráðuneytinu.

Áður en Geir tók sæti í fjárlaganefnd hafi hann átt sæti í tveimur nefndum. Hann sat í utanríkismálanefnd á árunum 1991-1998 og var formaður hennar þrjú síðustu árin. Hann var líka í sérnefnd um stjórnarskrármál árin 1992-1997. Auk þessa átti hann sæti í tveimur erlendum nefndum (sjá hér).

Þetta dæmi dregur það væntanlega fram að það eru mjög sterk tengsl á milli þess að formenn þeirra þriggja stjórnmálaflokka, sem oftast hafa komið að ríkisstjórnarmyndun; þ.e. Sjálfstæði-, Framsóknar- og Alþýðuflokks/Samfylkingarinnar, sækist eftir því að verða bæði forsætis- og utanríkisráðherra. Það er ekki að sjá að sama samband sé á milli embætta fjármála- og forsætisráðherra.

Hins vegar er rétt að taka það fram að það er alls ekki óalgengt að þeir sem hafa orðið forsætisráðherra hafi áður setið í ýmsum stjórnum og ráðum helstu peningastofnana landsins. Það er heldur ekkert einsdæmi að þeir sem hafi veitt ríkisstjórnarsamstarfi forsæti sitt hafi tekið við æðstu stjórn peningastofnana landsins.

Það er þar af leiðandi ekki útilokað að halda því fram að þó það sé langt frá því að nokkuð bendi til ákveðins orsakasamhengis á milli fjármála- og forsætisráðherraembættisins, eins og á milli þess síðarnefndar við utanríkisráðherraembættið, þá er slíkt samhengi fyrir hendi við helstu stofnanir fjármálamarkaðarins. Þessu verða gerð aðeins nánari skil í næstu færslu.

Niðurlag þessarar færslu

Það hefur þegar komið fram að það varð ofan á að lengja þessi skrif. Það væri þó nær að segja að þetta verkefni reyndist töluvert umfangsmeira en leit út fyrir í fyrstu. Einkum þykir ástæða að byggja betur undir ýmislegt sem samanburður á ráðherrahópunum tveimur svo og umfjöllunin um ráðuneytin hafa gefið vísbendingu um varðandi nefndarreynslu. Hér er átt við vísbendingar um það hvað hvort og hvaða hlutverki hún gegnir varðandi val á þeim sem verða ráðherrar.

Það er væntanlega öllum ljóst að sú hefð hefur orðið ofan á að formenn og varaformenn eru orðnir sjálfskipaðir komist flokkarnir sem þeir stýra til valda. Það hafa líka skapast ákveðnar hefðir í sambandi við það hvaða ráðuneyti þessir setjast yfir (sjá hér). Hins vegar er ekki annað að sjá en viss samkenni sé líka að finna í því í hvaða nefndum þessir hafa átt sæti. Þar af leiðandi er forvitnilegt að setja þetta fram og reyna að átta sig á því hvort eitthvert samhengi sé á milli þessara þriggja þátta; þ.e: formennsku í stjórnmálaflokkum, nefndarsetu og svo úthlutunar ráðherraembætta.

Hér, eins og í fyrri færslum, hafa þeir, sem hafa verið skipaðir í ráðherraembætti frá vorinu 2009, verið í brennidepli. Til að sýna fram á samhengið sem er útlit fyrir að sé á milli utanríkismálanefndar og forsætisráðherraembættisins var þó farið aftur í tímann. Því verður haldið áfram í næstu færslu en þar er ætlunin að fjalla frekar um þær nefndir sem skv. þessu hér heyra undir „aðrar nefndir“. Þessar eru m.a. þingvalla- og forsætisnefndin sem ýmislegt bendir til að hafi a.m.k. skipt máli í því valdakapphlaupi sem flest bendir til að ráði úrslitum varðandi bæði skipun í nefndir og síðar ráðherrastóla.

Síðasta færslan sem fjallar um nefndarstörf núverandi og fyrrverandi ráðherra snýst svo um erlendu nefndirnar. Þegar þetta verður allt komið saman þá ætti að vera óhætt að setja fram einhverjar frekari fullyrðingar. Nú þegar er þó óhætt að setja það fram að skipun til ráðherraembætta byggir frekar á flokkspólitískum hefðum en faglegum forsendum. Þessar flokkspólitísku hefðir virðast líka vera afar áþekkar innan þeirra stjórnmálaflokka sem mynduðu ríkisstjórn vorið 2009 og svo hinna sem skipuðu þá sem situr nú.

Það er sem sagt allt útlit fyrir að þær hefðarreglur sem hafa orðið ofan á við skipun til nefndarsæta og ráðherraembætta ráðist af uppgangi viðkomandi innan stjórnmálaflokksins og í stjórnmálum almennt. Með öðrum orðum hversu duglegur hann er við að pota sjálfum sér áfram innan stjórnmálaflokksins og síðar þingflokksins og síðast en ekki síst í kapphlaupinu um mikilvægustu nefndarsætin. Sennilega haldast þessi atriði mjög í hendur.

Þegar svona er komið ræður fagleg þekking á þeim málaflokki, sem hver og einn er skipaður yfir, sáralitlu ef nokkru máli. Með öðrum orðum þá ræður flokkspólitíkin öllu þegar kemur að skipun í ráðherraembætti á kostnað þeirra þátta sem væru heillavænlegastir fyrir málefnin og hagsmuni samfélagsins.

Yanis Varoufakis

Þegar allt kemur til alls þá er það reyndar líklegt að sú flokkspóltíska þröngsýni, sem ræður því hvernig nefndar- og ráðherrasætum er úthlutað, sé meginskýring þeirrar kreppu sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á velflestum sviðum. Því miður eru lítil líkindi til þess að hæfustu einstaklingarnir, veljist til að stýra efnahagsmálum landsins, atvinnulífinu, velferðarkerfinu og utanríkismálunum ásamt því að annast stjórnskipunareftirlitið, á meðan stjórnmálaflokkarnir beita aðferðum við val á forystumönnum sem taka mið af því hverjir eru færastir í að leggja það undir sig sem skilar þeim sjálfum mestu bæði hvað flokkspólitísk völd og illskiljanlega pólitíska virðingarröð varðar.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla
Ráðherrasamanburður: Nefndareynsla I

Krækjur í aukafærslur í þessum flokki:
Hefðarreglur ráða för I
Hefðarreglur ráða för II
Hefðarreglur ráða för III
Hefðarreglur ráða för IV
Ráðherrasamanburður: Aukafærsla vegna skipunar Sigrúnar

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimild um fastanefndir Alþingis
Fastanefndir Alþingis - Sögulegt yfirlit

Heimild um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


mbl.is Forgangsröðunin „óásættanleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrasamanburður: Nefndareynsla I

Þessi færsla er framhald færslunnar Ráðherrasamanburður: Þingreynsla sem var birt hér í byrjun desember sl. Þar var fjallað um starfsaldur fyrrverandi og núverandi ráðherra í stjórnmálum, vera þessara í þingnefndum var talin fram og endað á samanburði. Færslan innihélt aðallega tölulegar upplýsingar um árafjölda á þingi og í þingnefndum ásamt því sem það var skoðað hvort þessi hefðu starfað í nefndum sem eru málefnalega skyldar ráðuneytunum sem þau stýrðu áður eða stýra nú.

Á þeim tíma sem er liðinn frá því að umrædd færsla var sett í loftið hefur Ólöf Nordal tekið við sem innanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Þar sem færslan um þingreynsluna varð mjög löng var tækifærið við skipun Ólafar notað og efni hennar skipt í fjóra hluta með viðbótum varðandi þingreynslu Ólafar. Sérstök aukafærsla var líka sett fram í tilefni skipunar Sigrúnar Magnúsdóttur. Krækjur í þessar færslur eru neðst í heimildaskrá þessarar færslu.

Benjamin Rush

Hér verður settur fram fyrsti hlutinn um fastanefndir Alþingis en alls verða færslurnar um nefndarreynslu þess hóps, sem hér hefur verið til skoðunar, fjórar. Í þessum fyrsta hluta er farið yfir sögu fastanefndanna auk þess sem farið er yfir það í hvaða fastanefndum hver þeirra, sem hefur setið á ráðherrastóli frá 2009, hefur átt sæti.

Tilgangurinn með þessari nákvæmu umfjöllun er að sýna fram á það að nefndirnar gegna ákveðnu hlutverki í að virðingarraða þingmönnum og um leið að auka líkur þeirra til að ná ráðherrasæti komist flokkur þeirra í ríkisstjórn. Þetta kemur m.a. fram í því að sum nefndarheiti eru algengari á ferilskrám þeirra sem hafa orðið ráðherrar. Meira verður ekki fullyrt að svo komnu máli.

Saga fastanefndanna

Hér er margt að athuga og nauðsynlegt að gera nokkra fyrirvara og þá þann fyrstan að núverandi nefndarfyrirkomulagi var ekki komið á fyrr en árið 1991 með því að Alþingi var gert að einni málstofu (sjá feril frumvarpsins hér með dagsetningum). Fastanefndirnar rekja hins vegar upphaf sitt aftur til ársins 1915.

Árið 1915 var ákveðið í þingsköpum að kosnar skyldu 14 fastanefndir, en fram til þess tíma var venja að skipa nefnd um hvert mál. Þessar nefndir voru fjárhagsnefnd, fjárveitinganefnd, samgöngumálanefnd, landbúnaðarnefnd, sjávarútvegsnefnd, menntamálanefnd og allsherjarnefnd, allar bæði í efri og neðri deildum þingsins. Voru 5 menn í hverri nefnd að því undanskildu að 7 voru í fjárveitinganefnd neðri deildar. (sjá hér)

Á þessum tíma var Einar Arnórsson ráðherra Íslands. Ráðherra Íslands átti sæti í ríkisstjórn Danmerkur og var Einar fimmti og síðasti einstaklingurinn sem gegndi þessu embætti. Hann sat fram til ársins 1917 þegar fyrsta ráðuneyti Jóns Magnússonar var sett á fót en í því áttu sæti þrír ráðherrar í stað eins áður.

Annar ekki jafn mikilvægur fyrirvari sem þarf að gera hér er sá að það er ekki alveg víst að sá fjöldi sem er sagður hafa verið í hverri nefnd sé 100% réttur. Samkvæmt því sem kemur fram hér er nefnilega útlit fyrir að talan fimm hafi ekki alltaf verið tekin alvarlega. Það er líka möguleiki að heimildin á alþingisvefnum sé ekki alveg nógu nákvæm hvað fjöldann varðar.

Hér verður hins vegar gengið út frá því að heimildinni sé treystandi og haldið áfram að rekja það sem þar kemur fram. Miðað við það þá hefur þessi nefndarskipan haldist óbreytt fram til ársins 1928 en þá var utanríkismálanefnd bætt við og skyldi hún „kosin í sameinuðu þingi og skipuð 7 mönnum.“ (sjá hér). Þetta var í forsætisráðherratíð Tryggva Þórhallssonar.

Í tíð fyrsta ráðuneytis Hermanns Jónassonar (árið 1936) „var síðan með breytingu á þingsköpum ákveðið að auk 7 aðalmanna skyldu kosnir jafnmargir varamenn.“ (sjá hér) Fram til ársins 2011 var utanríkismálanefnd eina nefndin sem í voru kjörnir varamenn. Fleiri breytingar voru þó gerðar á fastanefndum Alþingis á fjórða áratugnum og fram til þess tíma að núverandi nefndarskipun var lögfest um mitt ár 2011.

Alex Carey

Iðnaðarnefnd var bætt við árið 1932 í forsætisráðherratíð Ásgeirs Ásgeirssonar. „Árið 1934 var þingsköpum breytt á þann veg að fjárveitinganefnd skyldi kosin í sameinuðu Alþingi og yrði skipuð 9 mönnum.“ (sjá hér). Við þetta fækkaði nefndum þingsins um eina þar sem fjárveitinganefndir lögðust af í öðrum deildum þingsins með þessari breytingu. Henni var einnig komið á, á tíma fyrsta ráðuneytis Hermanns Jónassonar.

Hermann Jónasson var enn forsætisráðherra þegar fastanefndum þingsins var aftur fjölgað upp í 17. Þá var bætt við „allsherjarnefnd, skipuð 7 mönnum, sem kosin skyldi í sameinuðu þingi“ (sjá hér). Við það urðu allsherjarnefndirnar þrjár, ein í hverri málstofu þingsins með alls 17 mönnum.

Fastanefndirnar héldust svo óbreyttar í rúma tvo og hálfan áratug en þá var nefndarmönnum fjölgað upp í sjö í öllum nefndum (sjá hér). Þetta var árið 1964 í forsætisráðherratíð Bjarna Benediktssonar. Væntanlega hefur þó fjárveitinganefnd áfram verið skipuð níu mönnum.

Tæpum áratug síðar, eða í fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar, var nefndunum fjölgað úr sautján upp í tuttugu og tvær. Auk þess var heiti fjárhagsnefnda efri - og neðri deildar breytt í fjárhags- og viðskiptanefnd:

Árið 1972 var ákveðið að kosnar yrðu atvinnumálanefnd, heilbrigðis- og trygginganefnd og félagsmálanefnd. Skyldi kjósa heilbrigðis- og trygginganefnd og félagsmálanefnd í báðum deildum þingsins en sameinað þing skyldi kjósa atvinnumálanefnd sem skipuð yrði 7 mönnum. Var þeirri nefnd ætlað að fjalla um mál sem landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðarnefndir í deildum mundu fjalla um ef þau væru borin fram í frumvarpsformi. (sjá hér)

Árið 1974 tók ráðuneyti Geirs Hallgrímssonar við stjórnartaumunum en þá „var nefndarmönnum í fjárveitinganefnd fjölgað úr 9 í 10.“ (sjá hér). Matthías Á. Mathiesen var fjármálaráðherra á þessum tíma. Árið 1978, eða fjórum árum síðar, tók síðara ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar við völdum og var nefndarmönnum þá aftur fækkað niður í níu. Árið 1983 varð Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra í fyrsta skipti í ríkisstjórn sem var mynduð af Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki. Sú ríkisstjórn sat fram til ársins 1987.

Fyrstu tvö árin var Albert Guðmundsson fjármálráðherra en á þeim tíma var fjölda nefndarmanna í fjárveitinganefnd aftur fjölgað upp í tíu. Þorsteinn Pálsson tók við Fjármálaráðuneytinu árið 1985 en þá var nefndarmönnunum fækkað enn á ný niður í níu. Sama ár „bættist félagsmálanefnd í hóp þeirra nefnda sem kosnar voru í sameinuðu þingi“ (sjá hér) en áfram var þó kosið í slíkar nefndir í báðum deildum þingsins.

Árið 1991 voru gerðar veigamiklar breytingar á þingsköpum þegar deildaskipting þingsins var lögð af. Fastanefndir þingsins urðu 12, allsherjarnefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, félagsmálanefnd, fjárlaganefnd, heilbrigðis- og trygginganefnd, iðnaðarnefnd, landbúnaðarnefnd, menntamálanefnd, samgöngunefnd, sjávarútvegsnefnd, umhverfisnefnd og utanríkismálanefnd. Hver nefnd var skipuð 9 þingmönnum að því undanskildu að 11 sátu í fjárlaganefnd, auk þess sem kosnir voru 9 varamenn í utanríkismálanefnd. (sjá hér)

Þingmennirnir: Páll Pétursson, Geir H. Haarde, Guðrún Helgadóttir, Össur Skarphéðinsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson mæltu fyrir frumvarpinu með þessum breytingum aðeins hálfum mánuði eftir að fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar tók við völdum vorið 1991 (sjá hér). Hér má taka það fram að á þessum tíma sat Alþýðuflokkurinn með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn en þessi nefndarskipan hélst óbreytt fram til þess að Sjálfstæðisflokkur myndaði ríkisstjórn með arftaka Alþýðuflokksins; Samfylkingunni, vorið 2007 (sjá hér). Breytingar sem þá voru gerðar fólust aðallega í tilfærslum á málaflokkum og nafnabreytingum samfara því en líka sameiningu nefnda eða tvískiptingu:

Efnahags- og viðskiptanefnd var skipt upp í tvær nefndir, efnahags- og skattanefnd annars vegar og viðskiptanefnd hins vegar. Félagsmálanefnd breyttist í félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd breyttist í heilbrigðisnefnd. Þá voru sjávarútvegsnefnd og landbúnaðarnefnd sameinaðar undir heitinu sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. (sjá hér)

Fjórum árum síðar var komið að enn einni breytingunni á fastanefndum Alþingis en þær komu til framkvæmda á miðju sumri árið 2011. Þá var nefndunum fækkað úr tólf niður í átta og nefndarmönnum fækkað niður í níu í öllum nefndum. Hins vegar eru nú kosnir jafnmargir varamenn í allar nefndir en ekki einungis í utanríkismálanefnd eins og áður.

Sérnefndir um stjórnarskrármál ættu líka að geta heyrt sögunni til þar sem málefni þeirra eru komin undir sérstaka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem er ný í fastanefndum þingsins. Aðrar nefndir voru sameinaðar undir nýjum en skyldum heitum nema utanríkismálanefnd og fjárlaganefnd. Þær héldu heitum sínum óbreyttum (sjá hér og lögin hér).

Alexander Berkman

Samkvæmt þingskaparlögunum, sem voru samþykkt síðustu daga júnímánaðar árið 2011, var þeim m.a. ætlað að létta starfsálagi af þingmönnum þannig að þeir væru að jafnaði ekki í fleiri en tveimur þingnefndum. Þar er líka gert ráð fyrir að þingmenn sitji í sömu nefnd/-um allt kjörtímabilið. Tíminn á eftir að leiða það í ljós hvort þetta markmið verði að veruleika eða ekki.

Miðað við núverandi fastanefndir

Eins og hefur komið fram áður, í þessu bloggverkefni, þá var og er ekkert óalgengt að þingmenn og ráðherrar gegni mörgum hlutverkum á sama tíma. Þó eitthvað hafi dregið úr margvíslegum ábyrgðarfjölbreytileika hérlendra stjórnmálamanna þá er útlit fyrir að sú hugmynd sé ekkert á undanhaldi að þeir sem eru formenn og varaformenn stjórnmálaflokkanna séu best til þess fallnir að gegna ábyrgð og skyldum ráðherra.

Sú hugmynd að stjórnmálamenn geti gengið inn í hvaða hlutverk sem er kemur líka fram í því hvernig þingmönnum hefur verið/er raðað niður í þingnefndir. Ein allra langlífasta hefðin á Alþingi er sú sérkennilega hugmyndafræði að þeir, sem raðast í efstu sæti framboðslistanna (og eru skv. hefðinni þ.a.l. ráðherraefni síns flokks), eru álitnir alvitrir á öll málefni hinna aðskiljanlegustu málaflokka. Það er reyndar ekki annað að sjá en býsna stór hluti kjósenda sé á þessari sömu skoðun.

Það er kannski þess vegna sem það hefur orðið að hefð að líta svo á að vera/þátttaka í nefndum Alþingis sé eins og undirbúningsáfangi eða prófsteinn, sem þeir sem hafa komið hafa hug á pólitískum frama, skuli undirgangast áður en að honum kemur. Til að fá ráðherraembættið, sem þeir sem eru í fyrstu sætunum telja sig jafnvel eiga heimtingu á komist þeirra flokkur í ríkisstjórn, þá þurfa þeir fyrst að safna einhverjum stigum.

Það er þó greinilega ekki algilt að allir þurfi að fara í gegnum þann undirbúning að safna þingreynslu til að komast í ráðherrastól. Þetta kom m.a. fram í skipun Svandísar Svavarsdóttur á síðasta kjörtímabili og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á þessu. Miðað við skipun þeirra er ekki annað að sjá en þátttaka í borgarstjórnarmálunum þyki líka ásættanlegur undirbúningsáfangi til að stýra ráðuneyti og málefnum þess.

Lysander Spooner

Hér á eftir fylgir nokkuð viðamikil tafla sem er sett fram í nokkrum hlutum. Henni er líka ætlað nokkuð margþætt hlutverk. Meginmarkmiðið er þó að draga það skýrar fram í hvaða fastanefndum þeir, sem hafa gegnt ráðherraembættum frá vorinu 2009, höfðu áttu sæti áður en þeir voru skipaðir ráðherrar og freista þess um leið að koma auga á eitthvert mynstur.

Hér er að sjálfsögðu átt við mynstur sem gefur það til kynna að nefndirnar hafi eignast einhverja virðingarröð þannig að þær gefi kannski mismörg “stig“ þegar kemur að ráðstöfun ráðherrastóla. Ekki er annað að sjá en þetta sé tilfelli varðandi stöðu viðkomandi innan stjórnmálaflokksins (sjá t.d. hér) en það liggur ef til vill í augum uppi að það þarf að skoða fleiri þingmenn til að fá fram marktæka niðurstöðu hvað nefndarreynsluna varðar.

Það væri óskandi að stjórnmálafræðin sannaði gildi sitt og legðist í almenna úttekt á því hvort það getur verið að hefðirnar sem hafa orðið til í kringum flokkspólitíkina og stjórnmálin séu reist á jafn hæpnum forsendum og sú frumathugun, sem hér hefur farið fram, bendir til. Að þessu sögðu er óhætt að fullyrða að þeir sem rýna nákvæmlegast í það efni sem hefur verið sett fram hér munu reka augun í ýmislegt sem vekur forvitni. Það er heldur ekki ólíklegt að einhverjir muni treysta sér til að setja fram niðurstöður út frá öllu þessu efni.

Til að ekkert fari á milli mála er kannski ástæða til að minna á það enn einu sinni að í þessari samantekt er stuðst við þau yfirlit sem koma fram í ferilskrám viðeigandi þingmanna á alþingisvefnum. Þar er talin fram vera hvers þeirra í nefndum eftir árið 1991. Til að gera samantektina á þessu bloggi einfaldari og vonandi aðgengilegri er stuðst við núverandi heiti fastanefnda Alþingis. Það hefur verið tekið fram áður að sumarið 2011 voru einhverjar nefndir sameinaðar undir einni en heiti sumra höfðu líka verið breytileg frá því að þær voru stofnaðar með nýju þingskaparlögunum frá árinu 1991.

Eftirfarandi samantekt ætti samt að renna frekari stoðum undir það að tvær nefndir hafa annað vægi í þeirri goggunarröð sem er útlit fyrir að ráði mestu þegar kemur að úthlutun nefndarsæta og svo ráðherrastólum. Þessar nefndir eru fjárlaga- og utanríkismálanefndin. Þær sem koma þar á eftir er allsherjarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd. Það er útlit fyrir að iðnaðarnefndin komi næst í virðingarröðinni.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að nefndarheitin sem eru rauð- eða blálituð, í eftirfarandi töflum, eru nefndir sem heyra undir þau ráðuneyti sem viðkomandi var skipaður ráðherra yfir. Þessar nefndir eru rauðlitaðar hjá þeim sem voru ráðherra á liðnu kjörtímabili en heiti nefndanna eru blá hjá þeim sem eru ráðherrar nú. Nöfn fyrrverandi og núverandi ráðherra eru höfð í tímaröð miðað við það hvenær þeir áttu sæti í viðkomandi nefndum.

Á eftir upptalningunni er svo gerð tilraun til að draga það fram hve margir í hvorri ríkisstjórn áttu sæti í viðkomandi nefnd og hver meðaltalsreynsla hópsins er af starfi innan hennar. Í þessu sambandi er rétt að minna á að það munar a.m.k. sex árum á þingaldursreynslu þeirra sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili og þeirra sem sitja nú.

Vakin er athygli á því að hvorki Hanna Birna Kristjánsdóttir né Svandís Svavarsdóttir koma fyrir í eftirfarandi yfirlitum um nefndarsetur. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að þær voru nýjar á þingi þegar þær voru skipaðar til ráðherraembætta.

Allsherjar- og menntamálanefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Össur Skarphéðinsson allsherjarnefnd 1991-1992
1
 Ögmundur Jónasson allsherjarnefnd 1995-1997, 1998-1999 og 20104
 Jóhanna Sigurðardóttir allsherjarnefnd 1996-19993
 Katrín Júlíusdóttir menntamálanefnd 2003-2005 og 2007-2009
4
 Guðbjartur Hannesson menntamálanefnd 2007-20092
 Katrín Jakobsdóttir menntamálanefnd 2007-20092
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Álfheiður Ingadóttir allsherjarnefnd 20091/2
 Árni Páll Árnason allsherjarnefnd 2009; formaður
 menntamálanefnd 2009
 
 Oddný G. Harðardóttir menntamálanefnd 2009-2011; form. 2009-2010
 allsherjar- og menntamálanefnd 2011
2
2ja ára meðaltalsreynsla á 9 einstaklinga á samanlagt 10 árum19
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Bjarni Benediktsson allsherjarnefnd 2003-2007; formaður 4
 Illugi Gunnarsson menntamálanefnd 2007-2009 (2 ár)
 allsherjarnefnd 2010-2011
 3
 Ólöf Nordal allsherjarnefnd 2007-20103
 Eygló Harðardóttir menntamálanefnd 2009-2011
 allsherjar- og menntamálanefnd 2011
2
3ja ára meðaltalsreynsla á 4 einstaklinga á samanlagt 7 árum12


Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan þá hafa allsherjar- og menntamálanefnd verið sameinaðar í eina. „Nefndin fjallar um dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál, málefni þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og jafnréttismál, svo og um mennta- og menningarmál og vísinda- og tæknimál.“ (sjá hér)

Það vekur væntanlega athygli hve margir ráðherrar Samfylkingarinnar hafa átt sæti í þeim nefndum sem nú hafa verið sameinaðar undir hatti allsherjar- og menntamálanefndar. Þegar allir eru taldir eru þeir sex en þeir eru helmingi færri úr hópi Vinstri grænna sem höfðu átt sæti í þessum nefndum sem nú eru komnar saman í eina.

Fjórir þeirra sem eru ráðherrar núverandi ríkisstjórnar höfðu átt sæti í þessum nefndum þegar þeir voru skipaðir en það hlýtur að vekja athygli að það er miklu algengara að þeir hafi átt sæti í allsherjarnefnd en menntamálanefnd. Allir  fjórir höfðu átt sæti í allsherjarnefnd. Helmingurinn hafði einnig átt sæti í menntamálanefnd. Það má líka vekja athygli á því að enginn ráðherra Framsóknarflokksins hefur átt sæti í allsherjarnefnd fyrr en árið 2011 og þá aðeins í mjög stuttan tíma.

Í framhaldi þessarar ábendingar má minna á að Eygló Harðardóttir hefur hæsta þingreynslualdurinn af núverandi ráðherrum Framsóknarflokksins. Hún kom inn á þing um miðjan nóvember haustið 2008 í kjölfar þess að Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku (sjá hér). Ein helsta skýring þess að nefndarreynsla hennar sker sig úr reynslu annarra ráðherra Framsóknarflokksins er væntanlega sú að hún tók við nefndarsætum Guðna Ágústssonar þegar hún tók við þingsæti hans. Þ.á.m. var sæti í iðnaðarnefndinni sem nú er komin undir atvinnuveganefndina.

Atvinnuveganefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsnefnd 1991-1998; form. 1995-19987
 Össur Skarphéðinsson sjávarútvegsnefnd 1991-1993
 iðnaðarnefnd 1991-1993; formaður
 landbúnaðarnefnd 1992-1993
2
 Jóhanna Sigurðardóttir iðnaðarnefnd 1995-19994
 Katrín Júlíusdóttir iðnaðarnefnd 2005-2009; formaður 2007-2009 4
 Ögmundur Jónasson sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2009-20101
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Jón Bjarnason landbúnaðarnefnd 2003-2007
 sjávarútvegsnefnd 2006-2007
4
 Kristján L. Möller iðnaðarnefnd 2003-2004
 sjávarútvegsnefnd 2003-2006
3
 Álfheiður Ingadóttir iðnaðarnefnd 2007-20092
3ja ára meðaltalsreynsla á 8 einstaklinga á samtals 16 árum27
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Bjarni Benediktsson iðnaðarnefnd 2003-2004 og 2007 2
 Kristján Þór Júlíusson iðnaðarnefnd 2007-2009 2
 Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarnefnd 2007-2009 2
 Eygló Harðardóttir iðnaðarnefnd 2008-20091
 Gunnar Bragi Sveinsson iðnaðarnefnd 2009-20112
 Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2009-2011
 atvinnuveganefnd 2011-2013
 4
2ja ára meðaltalsreynsla á 6 einstaklinga á samtals 6 árum13


Atvinnuveganefnd „fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.“ (sjá hér) og hefur nú sama fundartíma og allsherjarnefndin eða fyrir hádegi á þriðjudögum og fimmtudögum. Það er þar af leiðandi hæpið að eiga sæti í báðum nefndum á sama þingi. Stundataflan sem er vísað í hér verður sett fram í næstu færslu.

Sú ályktun sem mætti draga af því sem kemur fram í töflunni hér að ofan er að frá því að núverandi nefndarkerfi var komið á (þ.e. 1991) hafi það þótt eftirsóknarvert að fá sæti í iðnaðarnefndinni sem er nú komin saman við atvinnuveganefndina með málefnum landbúnaðarins og sjávarútvegsins. Af því sem þegar er komið fram er líka tilefni til að draga þá ályktun að hver þingmaður hafi ekki verið nema tvö til þrjú ár að jafnaði í hverri þingnefnd.

Þegar rýnt er í töfluna, sem sýnir hvaða ráðherrar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar höfðu setið í forverum atvinnuveganefndarinnar, verður heldur ekki annað ályktað en að landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndir hafi ekki þótt mikilvægar eða spennandi nefndir af þeim sem eru í forystu stjórnmálaflokkanna. Það sama á við um menntamálanefndina.

Hér er ein undantekning en Sigurður Ingi tók sæti í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndinni í upphafi síðasta kjörtímabils og sat áfram í arftaka hennar þegar hún var Eftir sameinuð iðnaðarnefndinni. Hann er reyndar eini ráherra núverandi ríkisstjórnar sem hefur átt sæti í atvinnuveganefndinni.

Það vekur og athygli að allir Samfylkingaráherrarnir höfðu átt sæti í iðnaðarnefndinni áður en þeir voru skipaðir ráðherrar á síðasta kjörtímabili. Helmingur þeirra sem nú eru ráðherrar hafa líka átt sæti í þeirri sömu nefnd en enginn fyrrverandi ráðherra Vinstri grænna hafði átt þar sæti þegar hann tók við ráðuneyti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Efnahags- og viðskiptanefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Steingrímur J. Sigfússon efnahags- og viðskiptanefnd 1991-1999
8
 Jóhanna Sigurðardóttir efnahags- og viðskiptanefnd 1999-2007
8
 Ögmundur Jónasson efnahags- og viðskiptanefnd 1999-2007
 efnahags- og skattanefnd 2007-2009 og
 2009-2010
11
 Össur Skarphéðinsson efnahags- og viðskiptanefnd 2001-2005
4
 Katrín Jakobsdóttir efnahags- og skattanefnd 2007-2009
2
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Árni Páll Árnason viðskiptanefnd 2007-20092
 Jón Bjarnason viðskiptanefnd 2007-2009
 efnahags- og skattanefnd 2009
2
 Álfheiður Ingadóttir viðskiptanefnd 2009; formaður
 efnahags- og skattanefnd 2009
1/2
5 ára meðaltalsreynsla á 8 einstaklinga á samanlagt 19 árum37
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Bjarni Benediktsson efnahags- og skattanefnd 2007-2009 2
 Ragnheiður Elín Árnadóttir efnahags- og skattanefnd 2007-2009
 viðskiptanefnd 2009-2010
(1 ár)
 3
 Illugi Gunnarsson efnahags- og skattanefnd 2007
 viðskiptanefnd 2010-2011
2
 Eygló Harðardóttir viðskiptanefnd 2009-2011
 efnahags- og viðskiptanefnd 2012-2013
4
3ja ára meðaltalsreynsla á 4 einstaklinga á samanlagt 5 árum11


Eins og glöggir lesendur taka eflaust eftir þá hefur Össur Skarphéðinsson, Ögmundur Jónason, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson og Eygló Harðardóttir öll átt sæti í forverum þeirra nefnda sem þegar hafa verið taldar upp. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að rifja það upp að á síðustu áratugum hafa þingstörf breyst mjög mikið eða frá því að vera ætlað að fara að mestu fram í deildarskiptu þingi til þess að fara fram í þingnefndum.

Þegar horft er til þess mikla munar sem kemur fram í þessari töflu á samanlögðum árum (= tíminn sem hver og einn átti sæti í þeirri nefnd, sem er til skoðunar, lagður saman) vekur það væntanlega athygli hve munurinn er mikill á milli ráðherrahópanna. Í þessu sambandi er rétt að minna á að tími Steingríms J., Jóhönnu og Ögmundar hefur mikið að segja varðandi þessa útkomu en þau höfðu öll verið umtalsvert lengur á þingi en ráðherrar núverandi ríkisstjórnar. Þetta á reyndar við um Össur líka en þó hann hafi nýtt tímann til að vera í mörgum nefndum þá hefur hann staldrað stutt við í hverri þeirra.

Eins og þegar hefur komið fram þá hét nefndin, sem er fjallað um hér, efnahags- og viðskiptanefnd fyrst eftir að þýðing þingnefndanna var aukin í tilefni þess að Alþingi var gert að einni málstofu. Heitinu var síðar breytt í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (2007-2009) og viðskiptahlutinn settur undir sérnefnd. Þessar nefndir hafa nú verið sameinaðar undir gamla heitinu. „Nefndin fjallar um efnahagsmál almennt, viðskiptamál, þ.m.t. bankamál, fjármálastarfsemi og lífeyrismál, svo og skatta- og tollamál.“ (sjá hér)

Fjárlaganefndin er arftaki fjárveitinganefndarinnar. Heitinu var breytt til núverandi myndar með breytingunni sem var gerð árið 1991 á þingsköpum Alþingis. Hún er önnur tveggja nefnda sem hélt síðan heiti sínu við endurskoðun síðustu ríkisstjórnar á lögum um nefndarskipun Alþingis.

Það má minna á að þegar fastanefndunum var komið á árið 1915 var fjárveitinganefnd neðri deildar fjölmennari en aðrar nefndir þingsins. Á kreppuárunum (árið 1934) voru gerðar þær breytingar að í stað þess að tvær slíkar nefndir væru starfandi; hvor í sinni deild þingsins, voru þær lagðar niður en í stað þess var kosið í hana í sameinuðu þingi. Þá var nefndarmönnum fjölgað úr sjö upp í níu (sjá hér). Á árunum 1974 til 1985 var fjöldi þeirra rokkandi á milli níu og tíu en árið 1991 var þeim fjölgað upp í ellefu.

Væntanlega þarf ekki að fjölyrða um það frekar að fjárlaganefndin er ein þeirra nefnda sem hafa frá upphafi þótt ein sú mikilvægasta og e.t.v. sú allra mikilvægasta á fyrsta áratug fastanefndanna. Í þessu ljósi er afar athyglisvert að virða það fyrir sér hverjir þeirra sem hafa gegnt ráðherraembætti eftir 2009 hafa átt sæti í þessari nefnd.

Fjárlaganefnd

Það hefur þegar verið vakin athygli á því að Össur Skarphéðinsson og Bjarni Benediktsson höfðu átt sæti í öllum þeim nefndum sem þegar hafa verið taldar upp. Skýringin á bak við það að tími þess síðarnefnda er litaður með bláu á myndinni hér að ofan er sú að verkefni nefndarinnar tengjast núverandi ráðherrastöðu hans.

Það eru þó væntanlega önnur atriði á þessari mynd sem vekja meiri athygli en þetta tvennt. Fyrst er það væntanlega hversu margir Samfylkingar- og Sjálfstæðisflokksráðherrar höfðu átt sæti í fjárlaganefndinni áður en þeir urðu ráðherrar. Svo það hversu lengi Jón Bjarnason, eini ráðherra Vinstri grænna sem hafði setið í þessar nefnd, sat þar og loks það að þeir Bjarni, Illugi og Kristján Þór áttu allir sæti í nefndinni á árunum 2007 til 2009.

Þetta allt er ekki síst athyglisvert fyrir það að enginn núverandi ráðherra Framsóknarflokksins hafði átt sæti í fjárlaganefndinni áður en hann var skipaður ráðherra. Þegar árin, sem annars vegar ráðherrahópur fyrrverandi ríkisstjórnar og hins vegar þeirrar núverandi áttu í fjárlaganefndinni, eru lögð saman þá kemur í ljós að þeir fimm sem gegndu ráðherrastöðum í ríkisstjórn Jóhönnu höfðu setið þar í samtals ellefu ár eða samfleytt frá árinu 1999 til ársins 2011.

Núverandi ríkisstjórn hafði hins vegar átt fjóra fulltrúa í fjárlaganefndinni á þeim tíu árum sem liðu frá því að Bjarni fékk þar sæti þar til hann varð fjármálaráðherra. Niðurstaðan er þar af leiðandi sú að eðaltalsreynsla beggja hópa er nær því sú sama eða tæp fjögur ár; þ.e. tæplega eitt kjörtímabil.

Fjárlagaefndin „fjallar um fjármál ríkisins, fjárveitingar, eignir ríkisins, lánsheimildir og ríkisábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Enn fremur skal nefndin annast eftirlit með framkvæmd fjárlaga.“ (sjá hér). Í nefndinni eiga sæti níu fulltrúar eins og í öðrum fastanefndum þingsins.

Eðli málsins samkvæmt þá ætti að vera óhætt að fullyrða að fjárlaganefndin er ein af mikilvægustu nefndum Alþingis. Miðað við það sem hefur verið dregið fram hér að framan ætti að vera óhætt að taka undir þá fullyrðingu að hún er líka ein þeirra eftirsóknarverðustu. Það er líklegt að það sé eitthvað misjafnt eftir þingum og kjörtímabilum hvaða aðrar nefndir eru taldar eftirsóknarverðastar. Af því sem kemur fram í næstu töflu er ekki útilokað að ætla að einhver áherslumunur sé líka á milli flokka hvaða nefndir þykja mikilvægar.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Jóhanna Sigurðardóttir sérnefnd um stjórnarskrármál 1995-1997,
 1999-2000 og 2004-2007
 kjörbréfanefnd 1999-2003
9
 Össur Skarphéðinsson kjörbréfanefnd 1999-2003
 í stjórnarskrárnefnd 2005-2007
6
 Ögmundur Jónasson kjörbréfanefnd 1999-2007
 sérnefnd um stjórnarskrármál 1999-2003, 2004 
 og 2005-2007
8
 Steingrímur J. Sigfússon sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2005
 í stjórnarskrárnefnd 2005-2007
3
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Álfheiður Ingadóttir kjörbréfanefnd 20091/2
5 1/2 árs meðaltalsreynsla á 5 einstaklinga á samanlagt 10 árum26
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Bjarni Benediktsson sérnefnd um stjórnarskrármál 2004-2007 og
 2009
(fyrri)
 kjörbréfanefnd 2005-2009
 5
 Ólöf Nordal kjörbréfanefnd 2009-2011
 sérnefnd um stjórnarskrármál 2010-2011
 stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011-2013
4
 Sigrún Magnúsdóttir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2013-20141
3ja ára meðaltalsreynsla á 3 einstaklinga á samanlagt 10 árum10


Það er alls ekki útilokað að niðurstaða þessarar töflu þýði það eitt að stjórnarandstöðuflokkarnir fái frekar sæti í nefndum eins og kjörbréfanefnd og svo sérnefndum eins og þeirri sem hefur verið skipað í nokkuð reglulega frá því að EES samningurinn var leiddur í lög árið 1994 (sjá hér). Hér er að sjálfsögðu átt við sérnefndir um stjórnarskrárbreytingar. Báðir málaflokkar heyra nú undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eins og hefur komið ítrekað fram í síðustu færslum.

Hlutverki þessarar nefndar hefur líka verið gerð rækileg skil nú þegar þannig að það ætti að vera óþarft að telja það allt upp aftur. Eins og kemur fram hér þá er það líka afar víðtækt. Í þessu sambandi er vert að minna á að henni er m.a. ætlað að fjalla um „málefni forseta Íslands, Alþingis og stofnana þess, kosningamál, málefni Stjórnarráðsins í heild og önnur mál sem varða æðstu stjórn ríkisins“. Nefndinni er einnig ætlað að:

hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. (sjá hér)

Miðað við það sem bankahrunið, haustið 2008, og eftirleikur þess hefur leitt í ljós er hins vegar hæpið að gera ráð fyrir að með nefndinni hafi verið komið á raunverulegu eftirlit sem muni breyta einhverju í stjórnsýsluháttum hér á landi. Miðað við það á hvaða vettvangi og með hvaða aðferðum er skipað í fastanefndir Alþingis er a.m.k. líklegra að eftirlitið muni frekar stjórnast af pólitískum hvötum og/eða ásetningi en faglegum.

Varðandi muninn sem kemur fram í meðaltalsreynslu (árafjöldi einstaklinga í hvorum hópi deilt með fjölda einstaklinganna) þeirra sem eru taldir í töflunni hér að ofan má benda á að sambærilegan mun er að sjá í töflunni fyrir efnahags- og viðskiptanefndina sem stendur hér framar. Hér munar mestu um árafjöldann sem Jóhanna, Ögmundur og Össur hafa átt í forverum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar.

Það er auðvitað hæpið að ætla að efnahags- og viðskiptanefndin þyki ekki mikilvæg en þó eru mjög sterkar vísbendingar um að hún sé ekki álitin jafn þýðingarmikil og fjárlaganefndin. Þeir ráðherrahópar sem hér hafa verið bornir saman eiga báðir tæpa fjögurra ára meðaltalsreynslu úr þeirri síðarnefndu. Hins vegar er meðaltalsreynslan úr efnahags- og viðskiptanefndinni fimm ár hjá ráðherrahópnum sem sat í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en tvö ár hjá núverandi ráðherrahópi. Svipaður munur kemur fram í töflunni hér að ofan þó hann sé hálfu ári minni.

Á þessu kunna að vera a.m.k. tvær skýringar. Sú sem var bent á hér að ofan sem þýðir það að þeir sem eru í stjórnarandstöðu fái frekar sæti í þeim nefndum sem eru síður eftirsóknarverðar en svo skiptir það auðvitað máli að allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar, að Bjarna einum undanskildum, komu ekki inn á þing fyrr en árið 2007 eða síðar.

Þriðja atriðið er að heildartala þeirra sem sátu á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili er hærri. Það munar reyndar ekki nema tveimur þegar utanþingsráðherrarnir, Ragna Árnadóttir og Gylfi Magnússon, eru ekki taldir með. Ef tvö síðasttöldu atriðin væru stórir áhrifavaldar á eftir að skýra af hverju þessi munur á meðaltalsreynslu kemur ekki fram í öllum nefndunum.

Það er hins vegar ekki ólíklegt að það skipti máli að flestar núverandi fastanefndir standa fyrir tvær til þrjár eldri sem hafa verið sameinaðar í eina. Það skýrir þó ekki þá staðreynd að meðaltalsreynsla núverandi ráðherrahópsins er hærri í allsherjar- og menntanefndinni en þeirra sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili. Þetta skýrir heldur ekki að jafnaðarreynsla núverandi hóps af setu í atvinnuveganefndinni er aðeins ári styttri en þeirra sem voru ráðherrar á síðasta kjörtímabili. Þessi munur er á milli hópanna þegar þessir þættir eru skoðaðir í sambandi við umhverfis- og samgöngunefndina.

Umhverfis- og samgöngunefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Össur Skarphéðinsson umhverfisnefnd 1999-2000
1
 Katrín Júlíusdóttir umhverfisnefnd 2007-2009
2
 Ögmundur Jónasson umhverfisnefnd 2009-20101
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Jón Bjarnason samgöngunefnd 1999-20032
 Kristján L. Möller samgöngunefnd 1999-2003 og 2004-2007
7
 Oddný G. Harðardóttir samgöngunefnd 2009-20101
3ja ára meðaltalsreynsla á 6 einstaklinga á samanlagt 10 árum16
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Illugi Gunnarsson umhverfisnefnd 2007-2009 2
 Ólöf Nordal samgöngunefnd 2007-2009
 umhverfisnefnd 2007-2009
2
 Eygló Harðardóttir umhverfisnefnd 2008-2009 1
 Kristján Þór Júlíusson umhverfisnefnd 2009-20112
2ja ára meðaltalsreynsla á 4 einstaklinga á samanlagt 4 árum7


Miðað við það sem má lesa út úr þessari töflu hafa forverar þessarar nefndar ekki þótt þurfa mikla einbeitingu þar sem langflestir sem hafa setið í annaðhvort samgöngu- eða umhverfisnefndinni hafa ekki staldrað þar við lengur en eitt til tvö ár. Kristjáni L. Möller er eina undantekningin. Hann var samgönguráðherra í rétt rúmt eitt ár á síðasta kjörtímabili en þá var Samgönguráðuneytið lagt niður og málefni þess færð undir Innanríkisráðuneytið (sjá hér).

Umhverfis- og samgöngunefndin „fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt. Enn fremur fjallar nefndin um samgöngumál, þ.m.t. framkvæmdaáætlanir, byggðamál svo og málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskiptingu þess og ríkisins.“ (sjá hér)

Utanríkismálanefnd virðist vera undir aðra mikilvægis- eða virðingarröð seld en flestar aðrar fastanefndir Alþingis. Hún er eina nefndin sem hefur haldið sama heiti frá því að hún var sett á stofn árið 1928. Fjárlaganefndin er svo önnur einungis tveggja fastanefnda sem héldu sínum heitum eftir breytingarnar sem voru gerðar á þingsköpum Alþingis undir júnílok sumarið 2011. Heiti hennar var sett árið 1991 eða þegar uppstokkun var gerð á á fastanefndunum í tilefni þess að Alþingi var gert að einni málstofu. Af því tilefni var heiti fjárveitinganefndarinnar breytt í fjárlaganefnd.

Fleira sem ýtir undir þá ályktun að utanríkismálanefndin hafi alltaf verið á öðrum virðingarstað en aðrar fastanefndir þingsins er að frá stofnun hennar (árið 1928) var hún kosin í sameinuðu þingi. Samkvæmt því sem kemur fram hér áttu sjö sæti í nefndinni en fimm í öðrum nefndum. Fram til ársins 2011 var utanríkismálanefndin eina nefndin sem var skipuð varamönnum. Varamennirnir voru jafnmargir þeim sem áttu sæti í nefndinni. Þessu fyrirkomulagi var komið á árið 1938 eða tíu árum eftir að hún var sett á fót(sjá hér).

Það grefur heldur ekki undan þeirri ályktun, að utanríkismálanefndin hafi annan sess en hinar fastanefndir þingsins, að hún er eina nefndin þar sem það er tekið fram að: „Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á.“ þar er líka tekið fram að fulltrúar hennar skuli vera til taks ef á þarf að halda „jafnt á þingtíma sem í þinghléum“(sjá hér).

Það vekur sérstaka athygli að í utanríkismálanefnd hafa báðir ráðherrahóparmir átt jafnmarga fulltrúa. Meðaltalsreynsla beggja hópa er líka jöfn eða eitt kjörtímabil. Þó ber að benda á að það munar um tíu ára veru Steingríms J. Sigfússonar og sex ára setu Össurar Skarphéðinssonar þegar reynsla ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar er metin með þessum hætti.

Glöggir lesendur hafa væntanlega veitt því athygli að Össur er sá eini af þeim, sem hér eru bornir saman, sem hefur átt sæti í öllum nefndunum sem þegar hafa verið taldar.  Í því samhengi er full ástæða til að vekja athygli á því að utanríkismálanefndin er sú eina þar sem Össur hefur átt sæti í meira en eitt kjörtímabil. Það hversu lengi hann og svo Steingrímur J. hafa átt sæti í nefndinni er ætti ekki síður að vekja sérstaka athygli þegar það er haft í huga hversu eftirsóknarvert það virðist að fá sæti í þessari nefnd.

Bjarni Benediktsson er sá eini meðal núverandi ráðherra sem hefur átt sæti í nefndinni í meira en eitt kjörtímabil. Eins og kemur fram hér að neðan hefur hann setið í utanríkismálanefnd í átta ár.

Utanríkismálanefnd

Eins og kemur fram á myndinni hér að ofan þá hefur helmingur þeirra, sem hafa átt sæti í utanríkismálanefndinni, setið það sem samsvarar einu kjörtímabili eða lengur. Þetta er ekki síst athyglisvert fyrir það að í flestum tilvikum hafa þeir sem eru bornir saman hér ekki átt sæti í sömu nefnd nema í 1-3 ár.

Áður en síðasta fastanefndin verður talin skal tilgreina hlutverk utanríkismálanefndar en á vettvangi hennar er fjallað „um samskipti við erlend ríki og alþjóðastofnanir, varnar- og öryggismál, útflutningsverslun, málefni Evrópska efnahagssvæðisins og þróunarmál, svo og utanríkis- og alþjóðamál almennt. Enn fremur fjallar nefndin um skýrslur alþjóðanefnda sem og skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.“ (sjá hér) Auk þessa hefur hún „yfirumsjón með umfjöllun nefnda Alþingis um EES-mál.“

Velferðarnefnd
 Fyrrverandi ráðherrar
heiti nefndar og tímabil
ár
 Össur Skarphéðinsson heilbrigðis- og trygginganefnd 1995-1999; form.4
 Ögmundur Jónasson heilbrigðis- og trygginganefnd 1995-1996
 félagsmálanefnd 1997-1998
 félags- og tryggingamálanefnd 2007-2009, 2010
5
 Steingrímur J. Sigfússon félagsmálanefnd 1999-20034
 Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálanefnd 2003-20074
 Katrín Júlíusdóttir félagsmálanefnd 2004-20073
 Guðbjartur Hannesson félags- og trygginganefnd 2007-2010; form. 
 2009-2020
2
 Ráherrar tímabundið
heiti nefndar og tímabilár
 Kristján L. Möller félagsmálanefnd 1999-2000
 heilbrigðis- og trygginganefnd 2006-2007
2
 Álfheiður Ingadóttir heilbrigðis- og trygginganefnd 2007
 heilbrigðisnefnd 2007-2009
2
 Árni Páll Árnason heilbrigðis- og trygginganefnd 2007
 heilbrigðisnefnd 2007-2009
2
3ja ára meðaltalsreynsla á 9 einstaklinga á 15 ára tímabili20
 Núverandi ráðherrarheiti nefndar og tímabilár
 Bjarni Benediktsson heilbrigðis- og trygginganefnd 2004-2005 1
 Eygló Harðardóttir heilbrigðisnefnd 2008-2009
 velferðarnefnd 2011-2012
 2
1s árs meðaltalsreynsla á 2 einstaklinga á 3ja ára tímabili13


Af því sem er talið í þessari töflu er auðvitað sláandi hversu margir þeirra, sem sátu á ráðherrastóli fyrir hönd síðustu ríkisstjórnar, hafa átt sæti í félagsmála-, heilbrigðis- og trygginganefnd. Þeir eru hins vegar ekki nema tveir í núverandi ráðherrahópi sem hafa setið í þessum nefndum. Þessi tvö hafa líka setið þar áberandi styttra en ráðherrar síðustu ríkisstjórnar.

Þessi munur skýrist að einhverju leyti af því að ráðherrahópurinn sem situr nú á a.m.k. helmingi styttri heildarþingreynslualdur en hinir sem voru ráðherrar á næsta kjörtímabili á undan (sjá t.d. hér). Í þessu sambandi má minna á að þeir sem gegna ráðherraembættum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins komu nær allir nýir inn á þing árið 2007 og flestir ráðherrar Framsóknar settust ekki inn á þing fyrr en vorið 2009.

Þingreynslualdurinn segir hins vegar alls ekki alla söguna eins og kemur fram þegar horft er til samanburðarins á utanríkismála- og fjárlaganefndinni en þar er nefndarreynsla beggja hópa nokkuð jöfn. Mestur munurinn er hins vegar á meðaltalsreynslu ráðherrahópanna í velferðarnefndinni, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni og efnahags- og viðskiptanefndinni.

Í þessum nefndum munar almennt tveimur árum á meðaltalsreynslu. Eina nefndin þar sem núverandi ráðherrahópur kemur út með hærri meðalnefndarreynslu í árum talið er allsherjar- og menntanefnd. Þegar aðrar tölur sem sýna fjölda hvors hóps sem hafði setið í viðkomandi nefndum og árafjöldann sem hvor hópur hafði átt fulltrúa í umræddri nefnd eru bornar saman er munurinn minni. Þetta kemur skýrar fram í kaflanum hér á eftir.

Út frá þrengra sjónarhorni

Af þeim fimmtán, sem sátu á ráðherrastóli í mislangan tíma á síðasta kjörtímabili, eru þau tólf sem höfðu einhverja nefndarreynslu áður en þau voru skipuð til embættis. Fjögur þeirra voru inni á þingi þegar núverandi nefndarfyrirkomulagi var komið á. Það eru því átján ár (1991-2009) sem er verið að horfa til þegar þessi hópur er til athugunar. Reyndar átti síðasta nýskipun ráðherra í þeirri stjórn sér stað í loka ársins 2011 (sjá hér) þannig að árin er þar af leiðandi alls tuttugu.

Í núverandi ríkisstjórn eru þau tíu sem höfðu nefndarreynslu þegar þau voru skipuð. Tímabilið er frá 2003 til 2014 eða ellefu ár. Árið 2003 miðast við það að þá kom Bjarni Benediktsson, sem á lengstu þingreynsluna í núverandi ráðherrahópi, inn á þing. Reyndar gætu árin, sem núverandi ráðherrahópur ætti úr einhverri fastanefnd þingsins, verið tólf þar sem Sigrún Magnúsdóttir var skipuð ráðherra í lok síðasta árs. Skipun Ólafar Nordal breytir hins vegar engu um árafjöldann þar sem hún hvarf af þingi vorið 2013.

Í töflunni hér að neðan er tekið saman í hversu margir í hvorum ráðherrahópi höfðu átt sæti í hverri fastanefnd þingsins. Þar kemur dregið fram hver meðaltalsreynsla hvers þeirra var, áður en til ráðherraskipunar kom, í árum talið. Síðast er svo samanlagður árafjöldi hvors hóps í viðkomandi nefnd. Það er rétt að taka það fram að það sem er rautt í töflunni hér að neðan á við ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar en það sem er blátt á við ráðherra þeirrar sem situr nú.

Allsherjar- og menntamálanefnd
 jafnaðarreynsla
fjöldi
tímabil
2 ár910 ár
3 ár47 ár
 Atvinnuveganefnd
3 ár816 ár
2 ár66 ár
 Efnahags- og viðskiptanefnd
 5 ár819 ár
3 ár45 ár
Fjárlaganefnd
4 ár5 11 ár
3,5 ár410 ár
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
5,5 ár510 ár
3 ár310 ár
Umhverfis- og samgöngunefnd
3 ár610 ár
2 ár44 ár
Utanríkismálanefnd
4 ár514 ár
4 ár58 ár
Velferðarnefnd
3 ár915 ár
1 ár23 ár


Þar sem þegar hefur verið gerð ýtarleg grein fyrir því sem kemur fram í þessari töflu í kaflanum á undan verður ekki staldrað frekar við það sem hún dregur fram. Hins vegar kann það að vera spennandi að taka það saman, sem hefur verið sett fram hér á undan, út frá einstaklingunum sem hafa verið skipaðir ráðherrar frá vorinu 2009.

Í eftirfarandi töflu er þetta gert en þar er heiti fastanefndanna skammstafað á sama hátt og gert er í slóð viðkomandi nefndar sem er krækt við skammstafanirnar. Einnig eru krækjur á ferilskrár viðkomandi þingmanna undir nöfnum þeirra. Á eftir nafni hvers og eins kemur fyrst árið, sem viðkomandi kom inn á þing, þá x í þeim reitum sem eiga við þá nefnd, sem hann hefur setið í, en reiturinn hafður gulur ef hann hefur aldrei átt sæti í nefndinni.

Síðast er svo samtalan yfir það hversu lengi viðkomandi hefur átt sæti í fastanefndum þingsins. Þar á eftir kemur reyndar reitur sem er merktu mt. og stendur fyrir meðaltal og á við hvert má gera ráð fyrir að sé meðaltalsreynsla hvers eftirtaldra úr þeim nefndum sem hann hafur átt sæti í. Þetta gefur í fæstum tilvikum rétta mynd af raunverulegum árafjölda, sem hver þeirra sem um ræðir sátu í hverri nefnd, en dregur það þó fram, sem hefur komið fram áður, að fæstir meðal þeirra, sem hér hafa verið bornir saman, hafa meiri reynslu úr hverri nefnd en sem nemur tveimur árum.

Það er svo væntanlega ástæða til að minna á það enn einu sinni að með breytingunni á þingsköpum Alþingis árið 1991 varð líka stór breyting á fastanefndunum og hvernig vera í þeim er talin fram á ferilskrá alþingismanna. Af þessari ástæðu var gerð sérstök grein fyrir nefndarveru Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, sem bæði komu inn á þing fyrir 1991, í þessari færslu hér.

Það sem er litað rautt eða blátt í þessari töflu eru x-in í þeim nefndum sem snerta ráðuneytin sem viðkomandi stýrði áður eða stjórnar nú. Rautt fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar sem sat á árunum 2009 til 2013 en blátt fyrir ráðherra núverandi ríkisstjórnar.

 Fyrrverandi ráðherrar
kos.amavevflseusutvfármt.
 Jóhanna Sigurðardóttir1978 xxx x xx122
 Steingrímur J. Sigfússon1983 xx x xx183,6
 Össur Skarphéðinsson1991xxxxxxxx141,8
 Ögmundur Jónasson1995xxx xxxx152,1
 Katrín Júlíusdóttir2003xx x x x61,2
 Guðbjartur Hannesson2007x  x   x31
 Katrín Jakobsdóttir2007x x     21
 Svandís Svavarsdóttir2009        0 
Fjöldi nefndarsæta/7 einstaklingum= reynsla af 5 nefndum á hvern702
 Ráherrar tímabundið
kos.amavevflseusutvfár 
 Kristján L. Möller1999 x   x x72,3
 Jón Bjarnason1999 xxx x  102,5
 Árni Páll Árnason2007x x   xx20,5
 Álfheiður Ingadóttir2007xxx x  x20,4
 Oddný G. Harðardóttir2009x  x x  20,7
Fjöldi nefndarsæta/5 einstaklingum= reynsla úr 4 nefndum á hvern231
 Núverandi ráðherrarkos.amavevflseusutvfár 
 Bjarni Benediktsson2003xxxxx xx101,4
 Kristján Þór Júlíusson2007 x x x  62
 Ragnheiður Elín Árnadóttir2007 xx  x  51,7
 Illugi Gunnarsson2007x xx x  41
 Eygló Harðardóttir2008xxx  x x51
 Gunnar Bragi Sveinsson2009 x    x 42
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson2009      x 44
 Sigurður Ingi Jóhannsson2009 x      44
 Hanna Birna Kristjánsdóttir2009        0 
 Ólöf Nordal2007x  xxxx 61,2
 Sigrún Magnúsdóttir2013    x   ~21,5
Fjöldi nefndarsæta/10 einstaklingum= reynsla úr 3 nefndum á hvern422

Það er e.t.v. rétt að skýra það sem er tekið saman í lok hverrar upptalningar hér að neðan en þar er einstaklingunum sem áttu einhverja þingreynslu að baki deilt í heildarfjölda þeirra nefndarsæta sem hvor hópur hafði átt. Út úr því er fenginn meðalfjöldi á einstaklingana í hópnum.

Auðvitað kemur það svo í ljós þegar betur er að gáð að það eru t.d. bara Kristján Þór og Ragnheiður Elín, af núverandi ráðherrum, sem hafa setið í nákvæmlega þremur nefndum. Eins og áður hefur komið fram hafði Bjarni Benediktsson átt sæti í öllum nefndum Alþingis nema umhverfis- og samgöngunefndinni þegar hann var skipaður efnahags- og fjármálaráðherra vorið 2013. Sigmundur Davíð, Sigurður Ingi og Sigrún Magnússóttir höfðu hins vegar aðeins átt sæti í einni nefnd áður en þau urðu ráðherrar.

Í samanburðinum hlýtur það að vekja athygli að jafnvel þeir ráðherrar síðustu ríkisstjórnar sem höfðu styttri þingreynslualdur að baki þegar þeir voru skipaðir ráðherrar höfðu setið í tveimur til þremur nefndum áður en þeir voru skipaðir ráðherrar.

Árni Páll Árnason hafði reyndar átt sæti í fjórum fastanefndum þingsins áður en hann varð ráðherra þrátt fyrir að eiga aðeins tveggja ára þingreynslualdur að baki og Álfheiður Ingadóttir sem kom inn á þing sama ár og hann, þ.e. vorið 2007, hafði átt sæti í fimm fastanefndum Alþingis þegar hún var skipuð. Þær verða reyndar sex ef það er miðað við nefndarskipulagið fyrir mitt ár 2011.

Meðal þeirra ályktanna sem má draga af því sem umrædd tafla leiðir í ljós er að það sé þó nokkur munur á viðhorfum á milli stjórnmálaflokkanna varðandi það hvernig nefndarsætunum er skipt á milli þingflokksmanna. Þetta kemur skýrast fram þegar nefndarskipan þeirra, sem höfðu setið í tvö til þrjú ár á Alþingi áður en þeir voru skipaðir ráðherrar á síðasta kjörtímabili er borin saman við nefndarreynslu þeirra, sem gegna ráðherraembættum fyrir Framsóknarflokkinn nú.

Allir, að Eygló einni undanskilinni, núverandi ráðherrar Framsóknarflokksins komu nýir inn á þing vorið 2009 eða síðar. Þrjú þeirra höfðu átt sæti í einni og sömu fastanefndinni frá því þau komu inn á þing. Gunnar Bragi skipti hins vegar um nefnd á miðju síðustu kjörtímabili. Flutti sig úr iðnaðarnefndinni yfir í utanríkismálanefndina.

Það eru vissulega fleiri atriði sem vekja athygli í þeim samanburði sem farið hefur fram hér að ofan. Einhverjum þeirra verða gerð ýtarleg skil í næstu færslu en alls verða færslurnar um nefndareynslu þeirra sem hafa verið skipaðir ráðherrar frá vorinu 2009 fjórar. Þessi og tvær til viðbótar um þingnefndirnar og svo ein um erlendu nefndirnar. Það er þó möguleiki á að umfangið leiði til þess að þær verði fleiri.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla

Krækjur í aukafærslur í þessum flokki:
Hefðarreglur ráða för I
Hefðarreglur ráða för II
Hefðarreglur ráða för III
Hefðarreglur ráða för IV
Ráðherrasamanburður: Aukafærsla vegna skipunar Sigrúnar

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimild um fastanefndir Alþingis
Fastanefndir Alþingis - Sögulegt yfirlit

Heimild um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband