Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Ráðherrasamanburður: Aukafærsla vegna skipunar Sigrúnar

Þessi færsla er skrifuð í tilefni af skipun Sigrúnar Magnúsdóttur í embætti umhverfis- og auðlindaráðherra. Hér verður ferilskrá hennar sett fram eins og hinna en það var gert í færslu sem fékk heitið Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta. Ferilskrá Ólafar Nordal var sett fram í nýlegri viðbótarfærslu í framhaldi af skipun hennar í byrjun síðasta mánaðar.

Þar sem Sigrún Magnúsdóttir á sér langa sögu í pólitík verður farið nokkuð ýtarlega yfir hana ásamt því að bera ferilskrá hennar saman við forvera hennar, Svandísi Svavarsdóttur, sem sat á tíma fyrri ríkisstjórnar. Auk þessa verða dregin fram þau atriði sem skipun Sigrúnar hefur breytt/styrkt í því sem þegar hefur verið sett fram í þeim ráðherrasamanburði sem þetta blogg hefur verið undirlagt af á undanförnum mánuðum.

Ferilskrá Sigrúnar Magnúsdóttur

Ferilskráin hér að neðan er byggð á því sem kemur fram á alþingisvefnum en það er rétt að benda á að ýtarlegri ferilskrá má finna á heimasíðu hennar og svo ágrip á heimasíðu Framsóknar. Þar kemur m.a. fram að baráttumál Sigrúnar á þessu kjörtímabili eru: „Atvinnuuppbygging, menningartengd ferðaþjónusta, þjóðmenning, varðveisla minja og menntamál.“ (sjá hér)

Sigrún Magnúsdóttir

Sigrún Magnúsdóttir
fædd í Reykjavík 15. júní 1944

þingmaður Reykjavík norður
Framsóknarflokkur
formaður þingflokksins frá 2013
hefur setið inni á þingi frá sama tíma (varaþingmaður Reykvíkinga mars-apríl 1980 og apríl-maí 1982)

umhverfis- og auðlindaráðherra
2014-

aldur

 70 ára

menntunKvennaskóla- og landspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1961.
Próf frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1962.
Stundaði nám við öldungadeild MH 1974-1976.
BA-próf í þjóðfræði og borgarfræðum frá HÍ 2006.


stjórnmálatengd störf
og nefndarsetur utan Alþingis


Í hreppsnefnd Suðurfjarðahrepps 1970-1972.

Varaborgarfulltrúi 1982-1986, borgarfulltrúi 1986-2002.
Formaður borgarráðs 1994-2000.

Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1994-2002.

Í stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar 1982-1986.
Í stjórn heilbrigðisráðs Reykjavíkur 1984-1986.
Í stjórn Dagvistar barna 1988-1990.
Í stjórn Veitustjórnar Reykjavíkur 1990-1994.
Í fræðsluráði Reykjavíkur 1991-1994, formaður 1994-2002.
Formaður nefndar borgarinnar um yfirfærslu á grunnskólanum frá ríkinu 1994-1996.  
Formaður verkefnisstjórnar um skólabyggingar í Reykjavík 1994-2002.
Varaformaður Hafnarstjórnar Reykjavíkur 1994-2002.
Formaður nefndar um að koma á laggirnar sjóminjasafni í Reykjavík 2001-2004.
Varaformaður stjórnar Heilsugæslunnar í Reykjavík 2002-2003.
Í stjórn Framkvæmda- og eignaráðs borgarinnar 2008-2010.

Í nefnd á vegum menntamálaráðherra um tengsl heimila og skóla 1982-1983.
Í nefnd á vegum menntamálaráðherra til undirbúnings stofnunar Borgarholtsskóla 1996-1998;
í skólanefnd skólans 1998-2005.
Í nefnd milli menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um málefni framhaldsskólanna í borginni, t.d. uppbyggingu og kostnaðarskiptingu 1996-2002.
Í nefnd menntamálaráðherra um endurmat á kostnaði vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga 1999-2000.

Formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans 1994-2002.

Formaður Félags framsóknarkvenna í Reykjavík 1981-1986.
í stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélaga í Reykjavík 1981-1986.
Í miðstjórn Framsóknarflokksins 1982-2002 og frá 2008.
Í stjórn flokksmálanefndar Framsóknarflokksins 1982-1987. 
Í landsstjórn Framsóknarflokksins 1989-1993.
Í stjórn kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Reykjavík 2010-2012. Formaður Félags framsóknarmanna í Reykjavík 2011-2012.

Sat formannafundi Bandalags kvenna í Reykjavík 1981-1986 og 2010-2013.
Varaformaður Kaupmannasamtaka Íslands 1991-1995.
Varaformaður stjórnar Sjálfsbjargarheimilisins 1991-2006.
Í stjórn hjúkrunarheimilanna Eirar og Skjóls 1992-1994;
í fulltrúaráði Eirar 1994-2004.
Varaformaður Hollvinasamtaka um varðskipið Óðin frá 2006.
Varaformaður félagsins Matur, saga, menning 2006-2009.

Í bankaráði Landsbanka Íslands 1993-1995.

Í landsdómi 2005-2012.

Þingvallanefnd 2013-

starfsaldur á þingi
Hefur setið á þingi í rúmlega eitt og hálft ár.

viðkomandi þingnefndir
stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2013-2014.


önnur starfsreynsla
Banka- og skrifstofustörf í Þýskalandi 1962-1967.
Bankastörf á Íslandi 1967-1969.
Kennari á Bíldudal 1969-1971.
Kaupmaður í Reykjavík 1971-1994.
Forstöðumaður og kynningastjóri Víkurinnar, Sjóminjasafnsins í Reykjavík, 2005-2011.

><>  ><>  ><>  ><>  ><>  ><>   ><>

Pólitíkin

Eins og kemur fram hér að ofan hóf Sigrún feril sinn í pólitík 26 ára gömul og hefur verið meira og minna viðloðandi pólitík í 44 ár. Reyndar var hún aðeins í tvö ár í hreppsnefnd Suðurfjarðahrepps en svo liðu tíu ár áður en hún komst til áhrifa í Framsóknarflokknum, fyrst sem varaþingmaður árið 1980, þá sem varaborgafulltrúi og svo sem borgarfulltrúi sex árum síðar.

Næstu tvo áratugina barst Sigrún mikið á bæði innan flokksins og í borgarpólitíkinni en hún var borgarfulltrúi frá árinu 1986 til ársins 2002 eða í 16 ár. Á árunum frá 1994 til 2002 átti hún að jafnaði sæti í 12 til 14 ráðum nefndum og stjórnum. Það má minna á það að á þessum árum var grunnskólinn færður frá ríki til sveitarfélaga en það vekur sérstaka athygli hvað Sigrún Magnúsdóttir átti mörg sæti á vegum borgar- og ríkisstjórnar á þessum árum þar sem unnið var að mótun menntamála í landinu:

  • í fræðsluráði Reykjavíkur 1991-1994, formaður 1994-2002.
  • formaður borgarráðs 1994-2000.
  • í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1994-2002.
  • formaður verkefnisstjórnar um skólabyggingar í Reykjavík 1994-2002.
  • formaður nefndar borgarinnar um yfirfærslu á grunnskólanum frá ríkinu 1994-1996.  
  • í nefnd á vegum menntamálaráðherra til undirbúnings stofnunar Borgarholtsskóla 1996-1998, í skólanefnd skólans 1998-2005.
  • í nefnd milli menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um málefni framhaldsskólanna í borginni, t.d. uppbyggingu og kostnaðarskiptingu 1996-2002.
  • í nefnd menntamálaráðherra um endurmat á kostnaði vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga 1999-2000. (sjá hér)

Upphafið að því að Sigrúnu hefur verið falin svo mörg trúnaðarstörf við mótun menntamála gæti verið tveggja ára kennslureynsla hennar frá Bíldudal en hún starfaði sem leiðbeinandi við grunnskólann þar árin 1969 til 1971. Ekki er tekið fram hvaða greinar hún hefur kennt en miðað við menntun hennar má ætla að það hafi verið hússtjórnar- og handavinnugreinar þó það sé allt eins líklegt að hún hafi kennt almennar greinar þó kennaramenntunina vanti.

Væntanlega eru þeir allnokkrir sem þykir það hæpin grunnur, að hafa eingöngu tveggja ára kennslureynslu að byggja á, í jafnvíðtækum áhrifastöðum og Sigrúnu voru falin á sviði stefnumótunar í menntamálum. Þegar ferilskrá Sigrúnar er skoðuð með tilliti til þess ráðherraembættis sem hún hefur verið skipuð til nú er ljóst að þar er hvorki menntunar- né reynslugrunnur á sviði umhverfis- og auðlindamála til að byggja á heldur.

Eina skýring skipunarinnar er pólitískur ferill hennar. Það virðist engu skipta þó þar sé ekkert sem viðkemur málaflokkunum sem hún er orðin æðstráðandi yfir. Í eftirfarandi orðum, sem koma fram í frétt á vef ráðuneytisins, kemur það e.t.v. skýrast fram hversu rík sú hugmyndafræði er að það sé miklu frekar reynsla af flokkspólitískum stjórnmálastörfum, sem veita góðan grunn til að standa sig í starfi ráðherra, heldur en bein þekking eða reynsla af málaflokknum sem viðkomandi er ætlað að stýra:

Sigrún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu.  Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála. 

Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og  hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns. (sjá hér)

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur fullyrt að „Sigrún njóti almenns stuðnings“ (sjá hér) meðal þingmanna Framsóknarflokksins. Hann sagði jafnframt að: „marg­ir öfl­ug­ir þing­menn væru í þing­flokki Fram­sókn­ar­flokks­ins og gætu leyst það verk­efni að vera ráðherra.“ (sjá hér) sem minnir nokkuð á orð Steingríms J. Sigfússonar sem hann lét falla við skipun Álfheiðar Ingadóttur í embætti heilbrigðisráðherra haustið 2009: „Við vorum að sjálfsögðu ekki í neinum vandræðum og margir fleiri komu til greina.“ (sjá hér).

Euripides

Af einhverjum ástæðum hefur ekki tekist að finna viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttir vegna þeirra breytinga sem voru gerðar þegar Guðbjartur Hannesson var skipaður heilbrigðisráðherra. Fréttir af því hvernig þeirri skipun var tekið innan Samfylkingarinnar eru nokkuð misvísandi. Þannig segir á einum stað að „almenn ánægja með ákvarðanir um breytta ríkisstjórn [og] nýrri ráðherraskipan hafi verið fagnað með lófataki“ (sjá hér) á meðan annars staðar kemur fram að „fundurinn [var] ekki átakalaus og menn því ekki á eitt sáttir um þessa ráðstöfun“ (sjá hér).

Þegar Oddný G. Harðardóttir var skipuð er það haft eftir Jóhönnu að þetta sé í „fyrsta sinn [sem kona gegn­ir] embætti fjár­málaráðherra á Íslandi. Það er sér­stak­lega ánægju­legt að enda árið 2011 með því að ná þess­um merka áfanga í jafn­rétt­is­bar­áttu á Íslandi.“ Þetta er sett fram á vef Forsætisráðuneytisins (sjá hér). Af þessu má ætla að annaðhvort hafi Jóhanna Sigurðardóttir ekki gefið fjölmiðlum kost á viðtölum við framangreind ráðherraskipti eða fjölmiðlar hafi ekki treyst sér til að hafa neitt eftir henni heldur frekar talað við þá sem létu af embættum og þá sem tóku við (sjá hér og hér).

Af öllu þessu ætti þó að vera óhætt að fullyrða að formenn fjórflokksins, svokallaða, eru allir sammála um það að það sé þeirra að velja ráherra eftir óskráðum flokkspólitískum hefðarreglum sem er ekki annað að sjá en að séu afar sveigjanlegar. Það má líka vekja athygli á því að miðað við það sem hér hefur verið rakið er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að fjölmiðlar hafi gengist inn á að þetta sé eðlileg aðferðafræði sem engin ástæða sé til að efast um.

Ágrip af sögu utanríkisráðherraembættisins

Ef allir eru taldir sem hafa farið með Umhverfisráðuneytið frá stofnun þess er Sigrún Magnúsdóttir þrettándi ráðherrann sem tekur við lyklavöldunum þar; þriðji eftir að heitið var aukið til núverandi myndar haustið 2012 (sjá hér). Þegar Halldór Ásgrímsson er talinn, eins og hér er gert en hann fór með Umhverfisráðuneytið í tæpar þrjár vikur vorið 1999 (sjá hér), er Sigrún sjötti framsóknarmaðurinn sem fer fyrir ráðuneytinu.

Framsóknarmennirnir eru taldir hér en Halldóri sleppt þar sem hann sat aðeins síðustu vikur kjörtímabilsins 1995-1999 í stað Guðmundar Bjarnasonar sem fékk lausn frá embætti þremur vikum áður en kjörtímabilið var úti (sjá hér).

Framsóknarmenn í Umhverfisráðuneytinu

Eins og kom fram í sérstakri færslu um Umhverfis- og auðlindaráðuneytið (sjá hér) var það stofnað árið 1990 og er því aðeins tuttugu og fjögurra ára gamalt. Þegar það er haft í huga að alls 13 einstaklingar hafa farið þar með æðstu völd frá stofnun þess er ljóst að ráðherraskiptin þar hafa verið mjög ör. Hins vegar hefur Framsóknarflokkurinn farið með umhverfismálin lengst allra flokka eða í nær helming tímans sem er liðinn frá stofnun ráðuneytisins.

Miðað við sögu annarra ráðuneyta vekur það athygli að ríflega helmintur þeirra sem hefur gegnt embætti umhverfisráðherra eru konur (sjá hér). Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er eina ráðuneytið þar sem fleiri konur en karlar hafa farið með æðstu völd. Sigrún Magnúsdóttir er sjöunda konan til að stýra því.

Þegar horft er til menntunar og starfsreynslu þeirra sem hafa farið með umhverfis- og auðlindaráðherraembættið er ekki að sjá að þeir formenn, sem hafa skipað ráðherra yfir ráðuneyti þessa málaflokks, hafi verið uppteknir af þessum þáttum við valið. Það er helst að menntun Júlíusar Sólness, sem var fyrsti umhverfisráðherrann, og Össurar Skarphéðinssonar, sem varð þriðji ráðherrann til að stýra ráðuneyti umhverfismála, snerti umhverfis- og auðlindamál.

Júlíus Sólnes, sem gegndi embættinu í eitt ár, er með próf í byggingarverkfræði og einhverja starfsreynslu í þeirri sérgrein (sjá hér). Össur Skarphéðinsson er með doktorspróf í lífeðlisfræði með fiskeldi sem sérgrein (sjá hér) en hann tók við embætti umhverfisráðherra af Eiði Guðnasyni árið 1993 þegar Eiður var skipaður sendiherra í Osló (sjá hér). Össur var umhverfisráðherra í tvö ár (sjá hér).

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 var Kolbrún Halldórsdóttir skipuð yfir Umhverfisráðuneytið. Hún var fyrsti ráðherra Vinstri grænna til að fara með ráðuneytið en féll út af þingi í alþingiskosningunum um vorið. Svandís Svavarsdóttir kom hins vegar ný inn á þing. Hún var umsvifalaust gerð að umhverfisráðherra og er líklegast að sú tilhögun hafi ráðist af því að hún hafði setið í tvö ár í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur áður en hún kom inn á þing(sjá hér).

Svandís Svavarsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir

Þegar Svandís Svavarsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir eru bornar saman er auðvitað ljóst að það munar 20 árum á þeim í aldri en þó er hægt að sjá ákveðin samkenni sem formenn þeirra hafa væntanlega báðir tekið mið af við skipun þeirra í ráðherraembætti. Þ.e. að báðar hafa fyrst og fremst flokks- og sveitarstjórnareynslu sem þeim er ætlað að byggja á í því ráðherraembætti sem þeim var úthlutað.

Af því sem hefur verið dregið fram í fyrri færslum og undirstrikað hér þá ætti það að vera orðið fullljóst að reynsla af pólitísku starfi ræður mun meiru og jafnvel öllu þegar kemur að vali formanna ríkisstjórnarflokkanna á þeim sem þeir skipa til ráðherraembætta. Það er ekkert á ferilskrá Sigrúnar sem rökstyður það að hún búi yfir staðgóðri þekkingu eða reynslu af umhverfis- og auðlindamálum. Það er líka hæpið að halda því fram að Svandís Svavarsdóttir hafi búið yfir nægilegri þekkingu og reynslu af málefnum Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þó hún hafi sannarlega setið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og munað um hana þar (sjá hér).


Aldursforseti

Eins og kom fram hér í upphafi er þetta innskotsfærsla í tilefni af því að Sigrún Magnúsdóttir hefur nú verið skipuð yfir Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Hér að ofan hefur ferilskrá Sigrúnar einkum verið skoðuð út frá ferli Svandísar Svavarsdóttur og því hvernig hún fellur að því hefðarmynstri sem hefur orðið ofan á við ráðherraskipanir hér á landi. 

Frá sl. vori hefur meginverkefnið á þessu bloggi verið það að stilla saman þeim þáttum sem koma fram á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra í þeim tilgangi að draga það fram sem ræður vali formanna stjórnmálaflokkanna þegar kemur að skipun í ráðherraembætti. Þeir þættir sem hefur verið stillt þannig saman er aldur, menntun, starfs-, flokks- og stjórnmálareynsla.

Þessi samanburður er langt kominn. Svo langt að það er óhætt að fullyrða að það er hvorki viðkomandi menntun né reynsla af atvinnumarkaði sem formenn stjórnmálaflokkanna hafa í hávegum þegar þeir skipa ráðuneytunum æðstráðendur. Hins vegar skiptir flokkspólitískur ferill greinilega máli og ekki skemmir fyrir að viðkomandi hafi aflað sér reynslu af pólitíska sviðinu. Þar skiptir ekki öllu hvort hún er af sveitarstjórnar- eða landsmálum.

Allir sem gegna ráðherraembættum nú hafa verið í þingnefnd sem tengist málaflokki/-flokkum þess ráðuneytis sem þeir sitja yfir nema Kristján Þór Júlíusson og Sigrún Magnúsdóttir. Ef Hanna Birna Kristjánsdóttir er talin með þá var hún ný inni á þingi þegar hún var sett yfir Innanríkisráðuneytið og hafði þar af leiðandi enga reynslu innan úr þingnefndum þegar hún tók við embætti. Þegar þetta er skrifað situr Ólöf Nordal yfir ráðuneytinu en hún hefur reynslu innan úr þingnefndum sem viðkoma starfi hennar sem innanríkisráðherra.

Í síðustu ríkisstjórn var Svandís Svavarsdóttir eini ráðherrann sem hafði enga reynslu, innan úr viðkomandi þingnefnd, áður en hún var skipuð til embættisins. Hún, eins og Hanna Birna Kristjánsdóttir, hafði heldur enga þingreynslu.

Nýskipanir Ólafar Nordal og Sigrúnar Magnúsdóttur hafa breytt einhverju varðandi tölulegar niðurstöður sem hafa verið settar fram í fyrri færslum þessa samanburðarverkefnis. Það hafa þegar verið settar fram sérstakar færslur þar sem þingreynslu Ólafar Nordal var bætt við það sem hafði verið sett fram í færslunni Ráðherrasamanburður: Þingreynsla en hér á eftir verður farið yfir önnur atriði með breytingum sem skipun hennar og Sigrúnar valda.

Elstir og yngstir

Aldur við skipun: Áður hefur aldur þeirra sem voru ráðherrar fyrir stjórnarskiptin vorið 2013 og þeirra sem tóku við verið borinn saman. Við nýskipun Sigrúnar Magnúsdóttur hefur orðið sú breyting að hún er langelsti ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Reyndar er hún elst þeirra sem hafa verið skipaðir ráðherrar á Íslandi eins og Kjarninn vakti athygli á hér. Svo er auðvitað spurning hvort hún verði elst í embætti líka en það met á Gunnar Thoroddsen nú.

Elst í ráðherraembætti

Eins og kemur fram í færslunni Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun var meðaltalsskipunaraldur framsóknarráðherranna lægstur eða 43 ár. Skipunaraldur ráðherranna sem sitja í ríkisstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins var 47. Þar sem Hanna Birna og Ólöf Nordal eru fæddar sama ár breyttist hann ekkert við það að Ólöf var skipuð til embættis en við skipun Sigrúnar Magnúsdóttur hækkar meðalaldur framsóknarráðherranna um heil fimm ár og er þar af leiðandi orðinn jafnhár þeirra ráðherra sem sátu fyrir hönd Vinstri grænna við ríkisstjórnarskiptin vorið 2013.

 Aldursdreifing eftir flokkum30-40
40-50
50-60
60-70
 Meðalaldur
 Framsóknarflokkur
 1 2 1 1 48 ára
 Sjálfstæðisflokkur
  4 1 47 ára
 Samfylkingin 1  1 254 ára
 Vinstri grænir
 1 1 1 148 ára
  1/2 6/1 2/2 0/3      ***


Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan er meðalaldur við skipun mjög áþekkur á milli flokka nema hjá Samfylkingunni. Þar er meðalaldurinn fimm til sex árum hærri en hjá öðrum flokkum sem hafa átt sæti í ríkisstjórn frá vorinu 2009.

Menntun og starfsreynsla: Þegar hefur verið gerð ýtarleg grein fyrir því að menntun og starfsreynsla Sigrúnar er ekki í neinum tengslum við málefni þess ráðuneytis sem hún hefur verið skipuð yfir. Þar af leiðandi er lítil ástæða til að bæta neinu við það sem kom fram í köflunum Ráherrasamanburður: Menntun og -: Starfsreynsla. Þess má þó geta að Sigrún Magnúsdóttir er með BA-próf eins og þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (reyndar er hann með BS-próf) og Eygló Harðardóttir.

Varðandi starfsreynsluna má svo minna á að sex af þeim átta ráðherrum, sem voru leystir undan embættisskyldum vorið 2013, höfðu reynslu af kennslu og/eða voru kennaramenntaðir. Með því að Ólöf Nordal og Sigrún Magnúsdóttir eru orðnar ráðherrar eru þau orðin fjögur sem hafa einhverja kennslureynslu á ferilskránni í núverandi ríkisstjórn.

Kennslu- og skólareynsla

Aðrir þættir sem þegar hafa verið skoðaðir í sérstökum færslum er sveitarstjórnar-, flokks- og þingreynsla. Eins og áður hefur komið fram byrjaði Sigrún Magnúsdóttir afskipti sín á sviði sveitarstjórnarmála aðeins 26 ára gömul eða á sama aldri og Katrín Jakobsdóttir (sjá mynd hérna neðar).

Ólíkt Katrínu hóf Sigrún sinn pólitíska feril „úti á landi“ eða í hreppsnefnd Suðurfjarðahrepps (Patreks- og Tálknafjörður ásamt Bíldudal). Þar sat hún í tvö ár eða til ársins 1972. Tíu árum síðar var hún varaborgarfulltrúi og svo borgarfulltrúi frá árinu 1986 til ársins 2002.  Sigrún á því 22 ár að baki í sveitarstjórnarpólitíkinni sem er næstlengsti ferill af því sviði meðal þeirra sem hér eru bornir saman.

Punktarnir sem telja

Sveitarstjórnarreynsla: Það var fjallað um sveitarstjórnarreynslu þeirra sem þessi ráðherrasamanburður hefur staðið um í sérstakri færslu. Þar var sett fram mynd til að draga fram starfsaldur þeirra sem voru leystir frá embættum vorið 2013 og hinna sem voru skipaðir í framhaldinu. Hanna Birna Kristjánsdóttir er ekki lengur talin í þessum hópi en Sigrún er ný. Önnur breyting sem hefur verið gerð á þessari mynd að þeir sem koma fram á henni er raðað í starfsaldursröð.

Starfsaldur af sveitarstjórnarsviðinu

Ef allir sem hafa gegnt ráðherraembætti frá vorinu 2009 eru skoðaðir þá dreifist fjöldi þeirra sem áttu einhverja sveitarstjórnarreynslu að baki þannig á milli flokkanna: Framsóknarflokkur: 5, Sjálfstæðisflokkur: 2 (1), Samfylkingin: 1 (2) og Vinstri grænir: 2 (2). (Í þessari upptalningu eru þeir hafðir innan sviga sem hafa verið leystir frá embætti á þessu kjörtímabili og svo þeir sem sátu ekki út síðasta kjörtímabil).

Eins og hefur verið gerð rækileg grein fyrir hér að framan þá tók Sigrún þátt í borgarpólitíkinni í alls 20 ár. Fyrst með óbeinum hætti á árunum 1982-1986 en síðan með beinum og stigvaxandi hætti eftir að hún varð borgarfulltrúi árið 1986. Árin 1994-2002 var hún formaður borgarstjórnarhóps Reykjarvíkurlistans. Hún var líka formaður borgarráðs frá árinu 1994 en gegndi því embætti tveimur árum skemur en formennskunni í borgarstjórnarhópi Reykjavíkurlistans.

Á þessum árum hefur Sigrún að jafnaði verið í 12 til 14 hlutverkum í hinum ýmsu ráðum, stjórnum og nefndum sem er líklega met í þeim hópi sem hér hefur verið borinn saman. Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að rifja upp stöðu þeirra, sem hér eru bornir saman, innan Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 Nafn ráðherra Staða innan samtaka og Sambands ísl. sveitarfélaga
 Guðbjartur Hannesson Í fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga 1994-1998
 Sigrún Magnúsdóttir Í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga 1994-2002
 Kristján Þór Júlíusson Í stjórn Sambands ísl. sveitarfél. 1998-2007
 Oddný G. Harðardóttir Í stjórn Sambands sveitarfél. á Suðurnesjum 2006-2009; formaður þess á 
 árunum 2007-2008
 Gunnar Bragi Sveinsson   Formaður stjórnar Samtaka sveitarfél. á Norðurl. vestra 2006-2009
 Hanna Birna Kristjánsdóttir Í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga 2006-2013
 Í stjórn Samtaka sveitarfél. á höfuðborgarsv. 2008-2010
 Sigurður Ingi Jóhannsson Í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfél. 2007-2009
 Svandís Svavarsdóttir Varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga 2007-2009


Sigrún Magnúsdóttir á það líka sameiginlegt með öllum þeim sem sátu tímabundið á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili og þeim Illuga Gunnarsyni, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, Sigurði Inga JóhannssyniGunnari Braga Sveinssyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur (sjá líka færsluna: Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla) að hafa starfað á vegum fyrri ríkisstjórna. Hún var í nefnd á vegum menntamálaráðherra til undirbúnings stofnunar Borgarholtsskóla 1996-1998 en á þeim tíma var Björn Bjarnason menntamálaráðherra (sjá hér).

Sama ár var hún valin í nefnd milli menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um málefni framhaldsskólanna í borginni. Hún sat í þeirri nefnd til ársins 2002 sem er sama ár og Tómas Ingi Olrich tók við Menntamálaráðuneytinu af Birni Bjarnasyni (sjá hér). Árið 1999 tók hún sæti í þriðju nefndinni sem Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, kom á fót. Henni var ætlað að framkvæma endurmat á kostnaði vegna flutnings grunnskólans til sveitarfélaga og lauk störfum árið 2000. Nefndin gerði verksamning við KPMG sem yfirfór gögn og setti fram skýrslu um málið (sjá hér).

Það má taka það fram að á árunum 1996 til 2002, sem er tímabilið sem Sigrún átti sæti í ofantöldum nefndum, átti Framsóknarflokkurinn sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Halldór Ásgrímsson var formaður flokksins á þessum tíma en núverandi eiginmaður Sigrúnar, Páll Pétursson, var félagsmálaráðherra á sama tíma.

Flokksreynsla: Bæði Ólöf Nordal og Sigrún Magnúsdóttir höfðu komist til metorða innan sinna flokka áður en þær voru skipaðar til ráðherraembættis á vegum núverandi ríkisstjórnar. Sigrún Magnúsdóttir á sannarlega lengri og fjölskrúðugri feril innan Framsóknarflokksins en samkvæmt ferilskrá Ólafar hafði hún gegnt tveimur embættum innan flokksins áður en hún var skipuð innanríkisráðherra.

Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi á árunum 2006 til 2009. Árið 2010 var hún kjörinn varaformaður flokksins og gegndi því embætti til ársins 2013 þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við.

Forysta Sjálfstæðisflokksins sl. ár

Það hefur þegar verið fjallað nokkuð ýtarlega um það hvernig það hefur orðið að hefð við ríkisstjórnarmyndun að líta á formennsku og varaformennsku innan stjórnmálaflokkanna eins og tryggingu fyrir ráðherraembætti (sjá hér). Annað sem lítur út fyrir að hafa orðið að hefð meðal formanna þeirra stjórnmálaflokka sem hafa komist til valda er að taka mið af annarri virkni og/eða metorðum innan viðkomandi flokks.

Sigrún Magnúsdóttir á svo sannarlega bæði langan og fjölskrúðugan feril þegar tillit er tekið til þess tíma sem hún hefur verið í stjórnum og ráðum Framsóknarflokksins. Hún hefur verið virk innan flokksins í alls 27 ár. Á þeim tíma hefur hún verið í forystu fyrir stjórn Félags framsóknarkvenna (1981-1986) og Félags framsóknarmanna í Reykjavík (2011-2012).

Áður hafði hún setið í fulltrúaráði framsóknarfélaganna í Reykjavík (1981-1986) og stjórn kjördæmissambands Framsóknarflokksins í borginni (2010-2012. Auk þessa hefur hún átt sæti í miðstjórn flokksins (1982-2002 og frá 2008),í stjórn flokksmálanefndar hans (1982-1987), landsstjórn (1989-1993) og loks þingflokki hans (frá 2013).

Þau höfðu verið í formennsku og/eða stjórn aðildarfélaga sinna flokka

Í færslunni Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla var vakin athygli á því, sem getur reyndar ekki farið fram hjá neinum, að hér eru aðeins þrír taldir af ráðherrum síðustu ríkisstjórnar en sjö af núverandi ráðherrum. Þar segir:

Skýringin liggur væntanlega að einhverju leyti í því að stjórnmálaflokkarnir sem tóku upp stjórnarsamstarf í kjölfar alþingiskosninganna vorið 2009 eru yngri en Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur og því að meðalaldur síðustu ríkisstjórnarfulltrúa er hærri en þeirra sem eiga sæti í núverandi ríkisstjórn (sjá hér).

Í þessu samhengi má reyndar vekja athygli á því að auk þeirra flokkshlutverka Sigrúnar Magnúsdóttur, sem voru talin hér að ofan, þá var hún formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans á árunum 1994 til 2002. Sigrún Magnúsdóttir á svo þann vegsauka sameiginlegan með mörgum sem hafa orðið ráðherrar að hafa verið þingflokksformaður.

Reyndar hefur hún aðeins gegnt því embætti í rúmt ár en þegar ferilskrár þeirra, sem hafa verið skipaðir ráðherrar hingað til eru skoðaðar, virðist það ekki alltaf skipta öllu hversu mikla eða langa reynslu viðkomandi hefur hlotið í flokksskipuðum embættum heldur miklu fremur að vissir þættir og/eða embætti komi fyrir á ferilskrá hans. Það er margt sem bendir til þess að þingflokksformennska sé einn þessara þátta.

Þau höfðu verið þingflokksformenn áður en þau voru skipuð

Þingreynsla: Eins og þegar hefur verið bent á þá hefur verið gerð nákvæm grein fyrir þingreynslu Ólafar Nordal í sérstökum færslum. Þar var líka aukið við kaflann Ráðherrasamanburður: Þingreynsla. Aðallega vangaveltum varðandi ályktanir sem má draga af því sem þessum færslum er ætlað að vekja athygli á.

Ólöf hafði setið á þingi í sex ár en gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu á þessu kjörtímabili. Í yfirlýsingu sem hún gaf út um þetta atriði kemur reyndar fram að hún „ætl­ar ekki að hætta af­skipt­um af stjórn­mál­um og úti­lok­ar ekki end­ur­komu síðar“ (sjá hér). Sennilega voru þeir fáir ef nokkrir sem óraði fyrir því að það yrði svo fljótt sem hún sneri til baka.

Þegar allt er talið þá er þingreynsla Sigrúnar Magnúsdóttur hins vegar ekki nema tæp tvö ár en það eru liðnir 20 mánuðir síðan hún fékk kosningu sem alþingismaður vorið 2013. Í tilefni þess að hún var kjörin var tekið við hana viðtal þar sem hún sagði m.a:

Mig langar ekki í ráðherraembætti. Það á að velja til að gegna ráðherraembættum fólk sem ætlar að sitja lengur á þingi en eitt kjörtímabil.“

Hins vegar er hún alveg til í að taka að sér formennsku í einhverri af fastanefndum þingsins. (sjá hér)

Sigrún er formaður Þingvallanefndar (sjá hér)en henni varð ekki að þeirri ósk sinni að verða formaður í neinni fastanefnd þingsins. Hins vegar var hún skipuð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd (sjá hér) en víkur væntanlega úr henni þar sem hún hefur verið skipuð ráðherra.

Vera hennar í þingnefndum breytir þar af leiðandi því sem var sett fram með þessari töflu nánast ekki neitt. Eina breytingin er að þeim sem hafa setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjölgað um einn.

 Heiti fastanefndar
xSxVxBxDSamtals
 Allsherjar- og menntamálanefnd4 (2)
2 (1)
13 10 (3)
 Atvinnuveganefnd3 (1)
2 (2)
3311 (3)
 Efnahags- og viðskiptanefnd2 (1)
3 (2)
139 (3)
 Fjárlaganefnd3 (1)
(1) 47 (2)
 Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd21 (1)
126 (1)
 Umhverfis- og samgöngunefnd2 (2)
1 (1)
137 (3)
 Utanríkismálanefnd2 (1)
2 239 (1)
 Velferðarnefnd4 (2)2 (1)118 (3)
 Sætafjöldi eftir flokkum22 (10)
13 (9)
102262 (19)
 Sætafjöldi eftir ríkisstjórnum35 (19)32 


Það má minna á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin er ný á meðal fastanefnda þingsins. Hún bættist við með breytingum á lögum um þingsköp sem tóku gildi um mitt ár 2011 (sjá hér). Undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni hafa kjörbréfanefnd og sérstakar stjórnarskrárnefndir verið sameinaðar en verksvið hennar hefur líka verið aukið til samræmis við heiti hennar. Eitt af verkefnum hennar er að:

„hafa frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra eða verklag þeirra sem ástæða þykir til að athuga á grundvelli þess eftirlitshlutverks sem Alþingi hefur gagnvart framkvæmdarvaldinu. Komi beiðni um slíka athugun frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna skal hún fara fram. Um athugun sína getur nefndin gefið þinginu skýrslu.“ (sjá hér)

Í þessu samhengi má benda á að heiti nefndarinnar hefur verið fyrirferðamikið í fjölmiðlum á þessu kjörtímabili fyrir framgöngu nokkurra nefndarmanna í lekamálinu svokallaða (sjá t.d. þessa krækju á leitarniðurstöðu á Google).

Þingvallanefnd

Þrír núverandi ráðherra eiga það sameiginlegt að hafa átt sætti í Þingvallanefnd áður en þeir voru skipaðir ráðherra. Það vekur athygli að enginn þeirra sem sat á ráðherrastóli í stjórnartíð síðustu ríkisstjórnar hafði átt sæti í þessari nefnd áður en kom að embættisskipun þeirra. Þetta vekur ekki síður athygli í því ljósi að þegar allir eru taldir voru þau 13 (15 með Rögnu Árnadóttur og Gylfa Magnússyni) sem voru ráðherrar í mislangan tíma á árunum 2009 til 2013.

Samantekt og niðurlag

Hér hefur verið farið nokkuð ýtarlega yfir feril Sigrúnar Magnúsdóttur og hann borinn saman við forvera hennar og samráðherra. Reynsla hennar liggur einkum í borgarstjórnarmálum og nefndum á vegum borgarinnar og Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra. Þegar þessari reynslu hennar er bætt við, það sem var sett fram í töflunni hér, að neðan verður töluverð breyting á samanlagðri stjórnmálareynslu þeirra sem gegna ráðherraembætti fyrir Framsóknarflokkinn.

 
 fj.
sveitarstjórn.r.
þingreynsla
 Samtals
 Framsóknarflokkur
 5 (4)
 47 (25)
 19 (17)
66 (42)
 Sjálfstæðisflokkur
5 (6)
 22 (33)
 34 (28)
56 (61)
 Samfylkingin 4 (7)
 26 (43)
58 (72)
 84 (115)
 Vinstri grænir
 4 (6)
9 (22)
42 (54)
51 (76)
Meðaltalsreynsla 7 (6)/4 (5)
5 (5)/12 (10)12 (10)/17 (15)


Taflan sýnir samanlagða stjórnmálareynslu þeirra sem sitja nú eða sátu áður á ráðherrastóli fyrir ofantalda stjórnmálaflokka. Tölurnar í svigunum er fjöldinn þegar þeir eru taldir með sem sátu áður í núverandi ríkisstjórn eða tímabundið á ráðherrastóli í tíð síðustu ríkisstjórnar. Neðst hefur árafjöldanum svo verið deilt á fjölda ráðherra.

Þessi samanburður dregur það m.a. fram hversu miklu munar þegar þingreynsla núverandi - og fyrrverandi ráðherra er borin saman. Þegar sveitarstjórnarreynslan er hins vegar lögð við minnkar munurinn þannig að samanlögð stjórnmálareynsla þessara er áþekkari.

Áður en botninn verður sleginn í þessa aukafærslu þykir ástæða til að vekja athygli á því að Sigrún Magnúsdóttir átti sæti í Landsdómi á árunum 2005 til 2012 og var því ein þeirra sem réði niðurstöðu dómsins í máli Geirs H. Haarde.

Sigrún Magnús­dótt­ir lýsti sig í sér­at­kvæði sam­mála for­sendu meiri­hlut­ans um for­send­ur og niður­stöður fyrstu þriggja ákæru­liðanna, en sam­mála minni­hlut­an­um um síðasta ákæru­liðinn. Hún vildi því einnig að Geir yrði sýknaður af öll­um ákær­um. (sjá hér)

Framhald þessarar færslu er væntanlegt á næstu vikum en þar verður haldið áfram með færsluflokkinn Ráðherrasamanburður. Áætlað er að framhaldsfærslurnar verði tvær. Í þeirri fyrri verður farið svolítið dýpra í nefndarreynslu ráðherrahópsins sem hér hefur verið borinn saman en í þeirri seinni verður gerð grein fyrir þátttöku hans í erlendum nefndum. Í báðum færslum er áætlað að reyna að finna út þýðingu þeirra hvað möguleika á skipun í ráðherraembætti varðar.

Heimildir

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands
(sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband