Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Utanríkisráðuneytið

Þetta er næstsíðasta færslan í þessum flokki þar sem ferill ráðherra í núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn hafa verið bornir saman í þeim tilgangi að draga það fram hvað liggur skipun æðstu embættismanna ráðuneytanna til grundvallar. Hér verða ferlar þeirrar Össurar Skarphéðinssonar og Gunnars Braga Sveinssonar skoðaðir í þessum tilgangi.

Utanríkismálin hafa verið gríðarlega umfangsmikill þáttur í íslenskri stjórnsýslu undanfarna áratugi. Af þeim ástæðum var horfið til þeirrar ákvörðunar að setja þessari færslu aðdraganda sem hlaut heitið Til Evrópusambandsstýringar Íslands. Ástæðurnar sem liggja ákvörðuninni að baki eru einkum tvær: Evrópusambandið hefur verið mjög fyrirferðamikið í allri pólitík á Íslandi á undanförnum árum og því bæði gagnlegt og forvitnileg að skoða forleikinn að því að svo er komið. Hin er svo bundin því hvað efnið, sem liggur núverandi stöðu í Evrópumálum Íslands til grundvallar, er viðamikið.

John F. Kennedy

Eins og hefur verið tekið fram áður þá er þetta verkefni orðið töluvert umfangsmeira en lagt var af stað með í upphafi. Þar af leiðandi hafa færslurnar margar orðið lengri en góðu hófi gegnir. Hins vegar má líta á þær sem heimildabanka fyrir framhaldið. Eins og áður segir er þetta næstsíðasta færslan með samanburði á ferilskrám núverandi og fyrrverandi ráðherra þar sem ráherrar Innanríkisráðuneytisins eru nú einir eftir.

Hér verður dregið saman það allra helsta úr síðustu færslu og einhverju bætt við. Viðbæturnar tengjast aðallega embættisferli Össurar Skarphéðinssonar sem stendur vissulega allur í beinu sambandi við núverandi stöðu.

Íslensk stjórnvöld með eylandið í útrás

Það kom fram í síðustu færslu að saga Utanríkisráðuneytisins á upphaf sitt í hernámi Danmerkur vorið 1940. Jafnaðarmaðurinn Stefán Jóh. Stefánsson var þá skipaður fyrsti utanríkisráðherrann í stjórn Hermanns Jónassonar sem þá var forsætisráðherra yfir þriðju stjórninni sem hann fór fyrir (sjá hér). 

Utanríkisráðuneytið er því rétt tæplega 75 ára gamalt. Aðeins nokkrum árum eldra en sjálfstæði landsins en fyrstu lög voru sett um ráðuneytið í byrjun árs 1941. Af einhverjum ástæðum er útlit fyrir að frá upphafi hafi meiri orka farið í það að tengja Ísland við þau ríki sem hafa haft yfirburðastöðu í efnahagslegu og pólitísku tilliti í stað þess t.d. að bindast minni og fyrirferðarminni ríkjum sem hafa átt meira sammerkt með sögu og atvinnustigi landsins.

Strax árið 1941 gerði ríkisstjórn Framsóknar-, Alþýðu- og Sjálfstæðisflokk mikilvæga samninga við Bandaríkjamenn og Breta sem tryggðu landinu ekki aðeins varnir á stríðstímum heldur bæði vistir og gjaldeyristekjur. Samningurinn sem gerður var við Bandaríkjamenn sneri að vörnum og því „að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu.“ (sjá hér) Skömmu síðar var stærsti sölusamningurinn sem gerður hafði verið hér á landi undirritaður þar sem samið var „við Breta um kaup á íslenskum afurðum fyrir kr. 100 milljónir.“ (sjá hér)

Það er nokkuð víst að bresk-íslenska viðskiptanefndin, sem segir frá hér, hefur haft hönd í bagga hvað varðar viðskiptasamninginn við Breta en það verður að teljast líklegt að sömu einstaklingar hafi líka verið ríkisstjórninni innan handar í sambandi við varnar- og viðskiptasamninginn við Bandaríkjamenn. Í lok styrjaldarinnar tekur við nær einn áratugur þar sem Utanríkisráðuneytið er í höndum Sjálfstæðisflokksins; Ólafur Thors frá 1944-1947 og Bjarni Benediktsson (eldri) frá 1947 til 1953 (sjá hér).

Stelpur á Seltjarnarnesi á fimmta áratug síðustu aldar

Sumarið 1944, eða sama ár og Ísland varð sjálfstætt ríki, sátu a.m.k. tveir Íslendingar Bretton-Woods ráðstefnuna. Þetta voru þeir: Magnús Sigurðsson, þáverandi bankastjóri Landsbankans (sjá hér), og Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands (sjá hér). Á ráðstefnunni var grunnurinn lagður að stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans. Ísland var meðal 28 ríkja sem skrifuðu undir stofnsamþykkt Alþjóðabankans árið eftir (sjá hér). Sama ár gerðist Ísland aðili að Alþjóðagjaldeyris-sjóðnum og tók Magnús Sigurðsson sæti í fulltrúaráði Alþjóðabankans en eftirlét Ásgeiri Ásgeirssyni, sem þá var bankastjóra Útvegsbankans, sæti í fulltrúaráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (sjá hér). 

Fyrrum formaður bankaráðs Landbankans tók við bankastjórastöðu bankans árið 1945. Hið nána samstarf sem Landsbankinn átti við alþjóðlegar bankastofnanir varð síst yfirgripsminna í embættistíð hans. Árið 1950 „gerðist Landsbankinn aðili að hinni alþjóðlegu samstarfsstofnun seðlabanka Bank for International Settlements í Basel“ fyrir áeggjan fyrrnefnds Jóns Árnasonar (sjá hér). Þess má geta hér að Már Guðmundsson hafði verið yfirmaður hjá BIS í fimm ár áður en Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hann yfir Seðlabanka Íslands árið 2009 (sjá hér og hér).

Haustið 1946 varð Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum og var Thor Thors, bróðir þáverandi utanríkisráðherra, Ólafs Thors (sjá hér), „skipaður fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.“ (sjá hér) Bjarni Benediktsson (eldri) tók við Utanríkisráðuneytinu í byrjun árs 1947 en um hann hefur verið sagt að hann hafi átt „drjúgan þátt í að marka þá utanríkisstefnu sem Íslendingar hafa síðan fylgt.“ (sjá hér)

Árið eftir (1948) að hann var skipaður í embætti utanríkisráðherra gerðist Ísland stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (The Organisation for European Economic Co-operation: OECD) sem fékk aðsetur í París. Aðildarríkin átján áttu það sameiginlegt að þekkjast boð Bandaríkjanna um svokallaða Marshall-aðstoð og er svo að skilja að aðild af þessu tagi hafi verið skilyrði þess að njóta hennar (sjá hér).

Eins og kom fram í undanfara þessarar færslu þá voru þeir fáir sem gagnrýndu Marshall-áætlunina hér á landi utan Sósíalistaflokkinn. Síðar hefur því hins vegar verið haldið fram að með „Marshall-aðstoðinni hafi verið markað upphafið að styrkjakerfinu á Íslandi í hinum ýmsu atvinnugreinum“ (sjá hér) ásamt því að ryðja hérlendri stóriðjustefnu til rúms.

Austurstræti sumarið 1944

Orð bandaríska sagnfræðingurinn Michael J. Hogan um tilgang áætlunar eru ekki síður athyglisverð en slíkar kenningar í ljósi þess sem síðar hefur orðið. Hann segir að tilgangur Bandaríkjamanna með Marshall-áætluninni hafi verið að móta Evrópu efnahagslega í sinni eigin mynd.“ (sjá hér) „American officials hoped to refashion Western Europe into a smaller version of the integrated single-market and mixed capitalist economy that existed in the United States.“ (sjá hér) Þetta er ekki síst skoðunarvert í ljósi raka eins langreyndasta starfsmanns íslensku utanríkisþjónustunnar, Einars Benediktssonar, varðandi Evrópusambandsaðild nú: 

Að gerðum aðgengilegum aðildarsamningi mælir mat hagsmuna okkar með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta er ekki síst vegna þess að næsta þróunarstig Evrópusamvinnunnar er svokallaður fríverslunarsamningur við Bandaríkin (Trans Atlantic Trade and Investment Pact). [...] Það er einmitt þetta nýja fríverslunarsvæði sem er lífshagsmunamál fyrir okkur, ekki síst vegna erlendra fjárfestinga eftir að höftum verður aflétt. (sjá hér

Vorið eftir að Íslendingar urðu hluti Marshall-áætlunarinnar, eða vorið 1949, undirritaði Bjarni Benediktsson hinn umdeilda stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins. Á næstu árum hans í embætti utanríkisráðherra var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt svo og Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins.

Tæpum fjörutíu árum eftir að Íslendingar voru gerðir aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu vitnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í orð Lúðvíks Ingvarssonar, fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem fjallaði um þær áhættur sem geta legið í milliríkjasamningum. Það er rétt að taka það fram að eftirfarandi orð hefur Ingibjörg Sólrún upp úr grein sem birtist eftir þennan fyrrverandi lagaprófessor í Morgunblaðinu þann 25. ágúst 1992 en þar bendir hann á að „með samningsgerðinni [...] hafi verið á tvennan hátt brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.“ (sjá hér)

“Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig.“ [...]

Síðan vitnar hann til þess að Alþingi hafi samþykkt gildistöku mannréttindasáttmálans með þingsályktun en í 59. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.“

 Það hefur sem sagt ekki staðist að samþykkja samninginn með einfaldri þingsályktun og þá hafi það heldur ekki staðist að samþykkja það dómsvald sem Mannréttindasáttmálinn felur í sér að óbreyttri stjórnarskrá. [...]

 ,,Frá upphafi bar Mannréttindasáttmáli Evrópu það með sér,“ [...] ,,að í honum fólst afsal ríkisvalds, þ.e. dómsvalds á því réttarsviði sem hann fjallar um. Má t.d. um þetta benda á 49., 52. og 53. gr. sáttmálans. Hann geymir reyndar líka ákvæði sem fela í sér að erlent stjórnvald er að nokkru leyti sett yfir íslenska handhafa löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, sbr. 32. gr.“
(sjá hér)

Áður en horfið verður frá upprifjun á afdrifaríkum ákvörðunum fyrstu utanríkisráðherranna er rétt að minna á að árið 1951 var varnarsamningurinn milli Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og árið eftir (1952) var stofnuð fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu með aðstöðu í París (sjá hér). Eins og uppalninginn hér að framan gefur til kynna þá lá megináhersla íslensku ríkisstjórnanna sem sátu fyrsta áratugina eftir stríðslok á að treysta samskiptin við eiginlega sigurvegara seinni heimsstyrjaldarinnar. 

Á tímabilinu 1944 til 1953 gerðust Íslendingar því aðilar að þó nokkrum alþjóðastofnunum og undirgengust í leiðinni stofnsáttmála sem hafa haft gífurleg áhrif á íslenska löggjöf ásamt því að hafa varanleg áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum. Þeirri þróun var langt frá því lokið heldur hefur haldið áfram fram á þennan dag.

Í þessu sambandi þykir sérstök ástæða til þess að vekja athygli á að á fyrstu áratugunum eftir stríðslok þótti ekkert athugavert við það að helstu efnahagsráðgjafar ríkisstjórnarinnar hefðu verið starfsmenn hinna svokölluðu Bretton Woods-stofnana (Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans) eins og átti við um Benjamín Eiríksson (1951-1953) og Jónas H. Haraldz (1957-1961). Miðað við það að engar athugasemdir voru gerðar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga við nánið samband Þorvalds Gylfasonar við bæði Bretton Woods-stofnanirnar og stofnanir Evrópusambandsins (sjá hér) þykir kannski fæstum nokkuð óeðlilegt við slík tengsl jafnvel þó viðkomandi bjóði sig fram til ábyrgðarstarfa innan stjórnsýslunnar hér á Íslandi.

Krakkar í Kópavogi í kringum 1960

Það er vissulega forvitnilegt að staldra við bakgrunn þeirra tveggja sem störfuðu sem ráðgjafar íslenskra stjórnvalda á sviði efnahagsmála á fyrstu áratugunum eftir seinna stríð og svo miklu fleiri sem gegndu viðlíka ábyrgðarstöðum á vegum ríkisstjórnarinnar á mótunarárum íslensks samfélags. Það verður hins vegar látið bíða seinni tíma fyrir utan að vekja athygli á grein Jónasar H. Haraldz frá árinu 1962 sem hann birti í Fjármálatíðindum. Þar ræðir hann kosti þess og galla að Ísland gerist aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu (EB) sem var forveri þess sem nú heitir Evrópusambandið (ESB) (sjá hér). Meginniðurstaða hans er þessi:

Ég tel, að tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið myndu geta greitt verulega fyrir hagvexti á næstu árum og áratugum. Ég óttast það hins vegar, að standi Ísland algerlega utan Efnahagsbandalagsins geti hér skapazt efnahagsleg kyrrstaða á sama tíma og örar efnahagslegar framfarir yrðu í nágrannalöndum okkar. Héldist slík þróun um nokkurt skeið, gæti hér skapazt mikill vandi, sem ekki væri takmarkaður við efnahagssviðið eitt.

[...]

Eigi Ísland á komandi árum að ná þeim efnahagslegu framförum, sem telja verður eðlilegar og nauðsynlegar, verður landið að færa sér í nyt sérmenntað erlent vinnuafl og erlent fjármagn, bæði opinbert fjármagn og einkafjármagn. Mér virðist miklu sennilegra, að við eigum erfitt með að fá eins mikið af þessu vinnuafli og þessu fjármagni og við óskum eftir, heldur en við þurfum að verja okkur fyrir ágangi erlends vinnuafls og fjármagns. (sjá hér)

Þessi skýra afstaða Jónasar H. Haraldz, sem hann birtir árið 1962, er einkar athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Fyrst er auðvitað það að hann hafði verið opinber ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum þar til árinu áður. Þess má geta að meiri hluta þess tíma sátu alþýðuflokksþingmennirnir Guðmundur Í. Guðmundsson í Utanríkisráðuneytinu og Gylfi Þ. Gylfason í Viðskiptaráðuneytinu. Um Gylfa sagði Jónas að hann: „hefði markað Alþýðuflokknum frjálslyndari stefnu en áður“ (sjá hér). Það þarf vart að minna á að Alþýðuflokkurinn er forveri Samfylkingarinnar.

Það sem er að mörgu leyti athyglisverðast við þau skýru skilaboð sem þessi fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, á þeim tíma, sem hefur gjarnan verið kennt við viðreisn, er að í byrjun greinarinnar rekur Jónas H. Haraldz það sem greinir Efnahagsbandalagið frá þeim alþjóðastofnununum um efnahagssamvinnu sem það er sprottið upp úr:

Efnahagsbandalagið stefnir að samvinnu ákveðins hóps landa og dregur a.m.k. í bili úr efnahagslegum samskiptum við lönd utan þessa hóps. Efnahagsbandalagið gengur lengra í þá átt að gera vinnuafl og fjármagn hreyfanlegt landa á milli en aðrar stofnanir og Efnahagsbandalagið gerir ráð fyrir því að margar mikilvægar ákvarðanir séu teknar með meirihlutavaldi og sumar þeirra öðlist lagagildi á bandalagssvæðinu án frekari aðgerða stjórnarvalda hlutaðeigandi lands. (sjá hér (leturbreytingar eru höfundar))

Frá Marshall-aðstoð til IPA-styrkja

Þegar litið er yfir sögu Utanríkisráðuneytisins þá virðist óhætt að taka undir staðhæfingar um að Sjálfstæðisflokkurinn hafði lagt grunninn að þeirri utanríkismálastefnu að tengjast alþjóðastofnunum sem tryggðu framhald þess kapítalíska kerfis sem stærstu sjávarútvegsfyrirtækin lögðu grunninn að þegar á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar (sjá hér). Með slíkri staðhæfingu er þó ekki nema hálf sagan sögð því þeir utanríkisráðherrar Alþýðuflokksins sem sátu á árunum 1956 til 1971 fylgdu nákvæmlega sömu slóð. Rétt er að benda á að Alþýðuflokkur sat í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í 12 ár af þessu 15 ára tímabili eða á árunum 1959-1971 (sjá hér).

Við Tjörnina í kringum 1955

Guðmundur Í. Guðmundsson tók við Utanríkisráðuneytinu árið 1956 og sat yfir því í níu ár. Í stjórnartíð hans var Pétur J. Thorsteinsson, sem hafði verið aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu á árunum 1947-1953, skipaður sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér).

Árið 1964 fékk Ísland bráðabirgðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti; GATT. Einar Benediktsson var skipaður fyrsti fulltrúi landsins á vettvangi GATT en hann kom síðar „að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.“ (sjá hér). Árið 1968 fékk Ísland síðan fulla aðild að GATT að tillögu þáverandi viðskiptaráðherra; Gylfa Þ. Gíslasonar (sjá hér).

Flokksbróðir þeirra Guðmundar og Gylfa, Emil Jónsson, tók við embætti utanríkisráðherra árið 1965 og gegndi því fram til 1971 (sjá hér). Á meðan hann var utanríkisráðherra var fastanefnd Íslands hjá NATO flutt frá París til Brussel ásamt því sem hún var gerð að sendiráði gagnvart Belgíu og Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér).

Árið eftir, eða 1970, varð Ísland aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA). Fastanefnd landsins gangvart því var sett niður í Genf. Gylfi Þ. Gíslason var flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta efni í desember 1969 (sjá hér). Fyrrnefndur Einar Benediktsson var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá EFTA.

Undir lok embættisferilsins í Utanríkisráðuneytinu lagði Emil fram stjórnarfrumvarp til laga um Utanríkisþjónustu Íslands. Miðað við umræðurnar sem sköpuðust í kringum frumvarpið þá er ljóst að þegar á þessum tíma var einhverjum farið að blöskra kostnaðurinn í kringum utanríkisþjónustuna (sjá feril málsins hér).

Rétt rúmum tveimur mánuðum eftir að lögin voru samþykkt, eða 17. júní 1971, var fyrsta skrefið að innleiðingu  Vínarsamningsins stigið. Þann dag öðlaðist sá hluti hans sem snýr að stjórnarmálasambandi gildi á Íslandi (sjá hér).  Samkvæmt sáttmálanum nýtur öll utanríkisþjónustan í heiminum og starfsmenn alþjóðastofnana „skattfrelsis að öllu leyti.“ eins og Pétur H. Blöndal gerir skýra grein fyrir hér.

Eftir 15 ára setu alþýðuflokksmanna yfir Utanríkisráðuneytinu tók framsóknarþingmaðurinn, Einar Ágústson, við embætti utanríkisráðherra árið 1971. Í stjórnartíð hans var fríverslunarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu undirritaður. Hann tók gildi 1973 en komst ekki til framkvæmda að fullu fyrr en árið 1976 eða þegar lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta var í höfn.

Undir lok ráðherratímabils Einars Ágústsonar öðlaðist annar hluti Vínarsamningsins um ræðissamband gildi eða 1. júlí 1978 (sjá hér). Þá tók alþýðuflokksþingmaðurinn, Benedikt Gröndal, við ráðuneytinu en í stjórnartíð hans var Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur (sjá hér).

Börn á leikvelli árið 1978

Árið 1988 var Utanríkisráðuneytið enn einu sinni skipað þingmanni Alþýðuflokksins en þá tók Jón Baldvin Hannibalsson við embættinu sem hann hélt til ársins 1995. Á þeim tíma sem Jón Baldvin var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) voru teknar a.m.k. tvær afdrifaríkar ákvarðanir sem varða það sem á undanförnum árum hefur verið kallað þjóðréttarskuldbindingar.

Í apríl 1993 var samþykktur samningur um aukaaðild Íslands að hernaðarbandalagi Vestur Evrópusambandsins. Eftir nokkrar umræður og gagnrýni á að með aukaaðildinni væru Íslendingar í raun í tveimur hernaðarbandalögum var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum á móti 26.  (sjá feril málsins hér). Íslendingar voru reyndar gerðir aðilar árinu áður en þá sjálfsagt með fyrirvara um samþykki Alþingis. (sjá hér).

Langstærsta og afdrifaríkasta embættisverk Jóns Baldvins eru lögin um EES-samninginn EEA) en hann  tók gildi 1. janúar 1994. Frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að 10.000 blaðsíðna (sjá hér) meginmál EES-samningsins öðlaðist „lagagildi hér á landi“ (sjá hér) var til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Ítrekaðar ábendingar úr ýmsum áttum varðandi það að samningurinn færi gegn 21. grein íslensku Stjórnarskrárinnar voru að engu hafðar frekar en undirskrifir 19% kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn og þingsályktunartillaga um sama efni (sjá mynd neðst í þessari frétt).

Á eftir Jóni Baldvini tók Framsóknarflokkurinn aftur við Utanríkisráðuneytinu. Það var Halldór Ásgrímsson sem settist í stól utanríkisráðherra og gegndi þeirri stöðu í níu ár. Eftir því sem næst verður komist hefur enginn utanríkisráðherra verið jafn stórtækur í fjölgun sendiráða erlendis eins og hann en í stjórnartíð hans fjölgaði íslenskum sendiráðum erlendis um sjö (sjá hér). Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) tók einnig gildi á meðan hann gegndi embættinu en það var forsætisráðherrann, Davíð Oddsson, sem lagði frumvarpið um breytingar ýmissa laga vegna aðildar Íslands að stofnuninni fram fyrir Alþingi (sjá hér).

Afdrifaríkasta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar sem kom til kasta Alþingis var sú ákvörðun að gera Ísland að hluta af Schengen-svæðinu. Halldór lagði fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nóvember 1999 (sjá feril málsins hér). Tillagan var samþykkt með 41 atkvæðum á móti 5 en 18 þingmenn voru fjarrverandi (sjá hér).

Paul Valery

Þriðja tímabil jafnaðarmanna í Utanríkisráðuneytinu hófst tveimur árum eftir að Halldór Ásgrímsson yfirgaf utanríkisráðherraembættið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Geirs H. Haarde frá vorinu 2007 fram undir janúarlok árið 2009. Eins og kom fram í síðustu færslu snerist Ingibjörg Sólrún svo algjörlega í afstöðu sinni til aðildar Íslands að EES-samningnum að í upphafi umfjöllunar um málið sagði hún m.a. að „aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu [..] leysir ekki allt“ (sjá hér) en í lokin treysti hún sér ekki til að taka skýra afstöðu til málsins í atkvæðagreiðslu um það (sjá hér).

Núna rúmum tuttugu árum síðar hlýtur hún að teljast einn helsti orsakavaldur þeirrar stöðu að aðild Íslands að Evrópusambandinu varð helsta baráttumál síðustu ríkisstjórnar. Afstaða Ingibjargar Sólrúnar til Evrópusambandsaðildar mátti vera öllum ljós í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Rétt rúmum hálfum mánuði eftir að fyrstu fréttir af hruni Íslandsbanka voru gerðar opinberar sagði hún þessa vera kostina í þeirri stöðu sem upp var komin:

Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans. (sjá hér)

Tveimur mánuðum síðar, eða rétt fyrir jól, árið 2008 gerði Ingibjörg Sólrún tilraun til að þrýsta á Sjálfstæðisflokkinn til að samþykkja þessa leið þegar hún lét hafa það eftir sér að „ríkisstjórnarsamstarfinu [væri] sjálfhætt ákveði landsfundur Sjálfstæðisflokksins að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu“ (sjá hér). Áður en að stjórnarslitum kom lagði hún línurnar varðandi framhaldið þar sem hún lagði áherslu á að „gengið yrði sem fyrst til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og síðan yrðu niðurstöður þeirra viðræðna lagðar undir þjóðaratkvæði.“ (sjá hér).

Eftir að stjórnarslitin höfðu verið opinberuð og bráðabirgðastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tekin við völdum setti hún arftaka sínum í Utanríkisráðuneytinu enn nákvæmari fyrirmæli um stefnuna í utanríkismálum þjóðarinnar þar sem hún benti á að 80 daga stjórnin þyrfti að gera „mikilvægar breytingar á stjórnarskrá sem leiða til þess að ef þjóð og Alþingi kýs, þá getur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili“ þannig að þjóðin geti deilt „fullveldi sínu með öðrum þjóðum“ (sjá hér). 

Mike Huckabee

Eins og allir eru væntanlega meðvitaðir um varð Ingibjörgu Sólrúnu ekki að ósk sinni. Þess í stað fór þorri tímans á síðasta kjörtímabils í að liðka til fyrir Evrópusambandsaðild. Umsóknin var gerð að forgangsmáli nýrrar ríkisstjórnar sem tók við eftir alþingiskosningarnar vorið 2009.

Þingsályktunartillaga um aðildarumsóknina var lögð fram á Alþingi aðeins tíu dögum eftir að sumarþing nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna kom saman um miðjan maí. Sama dag og samþykki hennar lá fyrir sendu Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson umsóknina út til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins (sjá hér).

Til að liðka til fyrir aðild vann síðasta ríkisstjórn að því að koma Icesave-skuldunum sem “þægilegast“ fyrir þannig að þær settu ekki strik í reikning aðildarferilsins, kosningaloforð um áherslu á viðhald og stuðning við mennta- (sjá hér) og velferðarkerfið (sjá hér og hér) voru svikin auk loforða um að koma náttúruauðlindunum í var fyrir einkavæðingu nýfrjálshyggjunnar (sjá hér). Breytingartillaga sem átti að stuðla að því að fjármagnseigendur gætu ekki falið slíka eignaraðild í skjóli eignarhaldsfyrirtækja (sjá hér) fékk heldur ekki náð fyrir augum þeirra Evrópusambandssinnuðu  ríkisstjórnar sem var við völd á síðasta kjörtímabili (sjá hér).

Síðasta kjörtímabil dró það nefnilega skýrt fram hvernig jafnaðarmennska Samfylkingarinnar er ofurseld þeirri nýfrjálshyggju sem einkennir alla grunnhugmyndafræði þeirra alþjóðastofnana sem Evrópusambandið byggir tilveru sína á (sjá hér). Það kom reyndar ekki öllum svo á óvart en fleiri furðuðu sig á því hversu stór hluti þingmanna Vinstri grænna gengust inn á þann euro-kratisma sem varð ofan á í ríkisstjórn þessara tveggja flokka. 

Eftir að aðildarviðræðurnar sigldu í strand í mars árið 2011 var breytt um kúrs og áherslan lögð á það að koma breytingartillögum stjórnlagaráðs í gegnum þingið (sjá hér). Ástæðan var sú að breytingartillögurnar tryggðu ekki aðeins lögmæti slíkra þjóðréttarskuldbindinga sem í Evrópusambandsaðild felst heldur höfðu ýmsar greinar hennar verið aðlagaðar að hugmyndafræði Evrópusambandsins (sjá einkum 67. og 111. greinina). Þó einhver árangur næðist í því innlimunarferli sem Össur Skarphéðinsson tók í arf frá Ingibjörgu Sólrúnu þá mistókst að búa þannig um hnútana að af Evrópusambandsaðild yrði á síðasta kjörtímabili.

Börn að leik við Melaskóla

Töluverður árangur á þeirri vegferð náðist þó annars vegar með því að þingsályktunartillaga um aðlögunarstyrki Evrópusambandsins voru samþykktir fyrir þinglok í júní 2012. Á sama tíma var samþykkt frumvarp til laga sem tryggðu embættismönnum ESB sömu fríðindi og Vínarsáttmálinn gerir ráð fyrir að embættismenn utanríkisþjónustunnar njóti; þ.e. undanþágu frá allri skatta- og tollaálagningu viðkomandi gistiríkja (sjá feril málsins um þetta atriði hér).

Að vonum sköpuðust allnokkrar umræður um þingsályktunartillöguna og frumvarpið sem viðkoma þessari „fjárhagsaðstoð til að gera pólitískar, efnahagslegar og stjórnsýslulegar umbætur í því skyni að gerast aðilar að Evrópusambandinu“ (sjá hér). Reyndar vekur þar mesta athygli hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar koma sér ítrekað undan því að viðurkenna að með viðtöku IPA-styrkjanna hafi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna opinberað það að ekki væri lengur um neinar „könnunarviðræður“ eða  samningaumleitan við Evrópusambandið að ræða heldur væri næsta skref að undirgangast aðlögun stjórnsýslunnar til að af aðildinni gæti orðið. Hér verður aðeins gripið niður í eitt dæmi þar sem fulltrúi þáverandi stjórnarandstöðu gerir tilraun til að draga þetta fram:

Það hefur reyndar verið alveg óhemjumikil feimni og hræðsla hjá stjórnvöldum og meiri hlutanum á þingi að gangast við því að umsóknarferlið fæli í sér aðlögun og hefði þann tilgang að laga okkur að Evrópusambandinu. Það hefur líka verið ákveðin blekking fólgin í því að reyna að stilla málum upp þannig að Ísland og Evrópusambandið séu með einhverjum hætti jafnsettir aðilar sem setjast við samningaborð og ákveða hvernig Evrópusambandið eigi að vera eftir að Ísland gengur inn.  [...]

Ísland er að ganga í Evrópusambandið eins og það er og verður auðvitað að aðlaga sig því eins og raunar ýmsir talsmenn Evrópusambandsins sjálfs hafa bent á þegar um er spurt. Það að sækja um aðild að Evrópusambandinu felur í sér að menn gangast undir regluverk Evrópusambandsins en ekki þannig að Ísland geti samið á jafnréttisgrundvelli um það hvert það regluverk eigi að vera. (sjá hér) 

Viðtaka aðlögunarstyrkjanna var samþykkt (sjá hér) og við tók síðasta þingár ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna sem fór að stórum hluta í það að reyna að þröngva breytingartillögum stjórnlagaráðs í gegnum þingið. Ástæðan var ekki síst sú að þar er gert ráð fyrir að: „heimilt [sé] að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að“ (sjá 111. greinina hér) og að ekki verði „hægt að krefjast [þjóðar]atkvæðagreiðslu um [...] lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum“ (sjá 67. greinina hér).

Svipuðum aðferðum var beitt eins og nú eru uppi varðandi framhald Evrópusambandsaðildarinnar. Kjósendur voru hvattir til að styðja við breytingarnar á Stjórnarskránni með mætingu á kröfufundi sem snerust í grunninn um vilja þeirra minnihlutastjórnar sem var við völd undir lok síðasta kjörtímabils um að ljúka aðildarferlinu. Alls voru haldnir a.m.k. 10 kröfufundir um þetta málefni (sjá hér) á vegum þríburaframboðsins, svokallaða, (Dögunar, Lýðræðisvaktarinnar og Pírata) en jafnaðarmenn (euro-kratar) allra flokka voru nokkuð áberandi á öllum fundunum (sjá hér, hér og hér).

Frá því þetta var hafa orðið nokkur umskipti á þingi vegma alþingiskosninganna sl. vor. Fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar og litlu flokkarnir tveir sem vörðu hana falli eru í stjórnarandstöðu nú. Allir fylgja þeirri utanríkismálastefnu, sem Ingibjörg Sólrún lagði eftirmanni sínum í hendur í febrúarbyrjun árið 2009, sem einn flokkur. Af þessu verður ekki betur séð en sú frjálshyggjusinnaða stefna sem Gylfi Þ. Gíslason lagði jafnaðarmönnum til skv. Jónasi H. Haraldz leiði ekki aðeins til sömu blindu foringjadýrkunarinnar og fylgjendur Davíðs Oddssonar hafa verið sakaðir um heldur slíkrar tilþrifapólitíkur að hún fæst illa þrifist nema innan skammlífra örflokka.

Þingmenn Samfylkingarinnar á kröfufundum um framhald aðildarviðræðna Íslands við ESB

Í blindum trúnaði á fyrrum leiðtoga jafnaðarmanna, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hefur núverandi stjórnarandstaða gert það að sínu sameiginlega forgangsmáli að knýja  ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks til að halda voninni um Evrópusambandsaðildina á lífi. Ýmsir fulltrúar hennar hafa gengið svo langt í þessu eina baráttumáli sínu að þeir hafa hvatt kjósendur til að leggja sér lið með virkri þátttöku í enn einni kröfufundaröðinni sem í grunninn snýst um þann ásetning að koma Íslandi inn í Evrópusambandið.

Fyrrum flokkssystkini Ingibjargar Sólrúnar látast svo sannfærð um að Evrópusambandsaðildin sé slíkt þjóðþrifamál að þeir eru alls ófeimnir við að láta sjá sig á kröfufundunum sem Evrópusambandssinnarnir hafa staðið fyrir og kostað í hjarta Reykjavíkur að undanförnu.

Utanríkisráðherra

Utanríkisráðherrar

Össur Skarphéðinsson er fæddur árið 1953 og er því rétt rúmlega sextugur. Hann var kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn árið 1991 eða þegar hann var 38 ára. Hann hefur setið þar óslitið síðan eða í rúma tvo áratugi. Hann hafði aðeins verið í tvö ár inni á þingi þegar hann tók við sínu fyrsta ráðherraembætti en þá gekk hann inn í embætti fyrrverandi flokksbróður síns, Eiðs Guðnasonar, sem var umhverfisráðherra í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar. Þessu embætti gegndi hann í tvö ár (sjá hér).

Þetta var ekki í eina skiptið sem Össur átti sæti í ráðuneyti sem var stýrt af Sjálfstæðisflokknum. Hann  var skipaður iðnaðarráherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér) og gegndi því embætti ráðherra samfleytt frá vorinu 2007 fram að alþingiskosningunum síðastliðið vor. Hann var iðnaðarráðherra frá 2007 til 2009 en var skipaður utanríkisráðherra í báðum ráðuneytum Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann er eini karlmaðurinn sem sat í sama ráðherraembættinu frá upphafi síðasta kjörtímabilsins til loka þess (sjá hér).

Gunnar Bragi Sveinsson er fæddur árið 1968. Hann kom nýr inn á þing vorið 2009 og hafði því setið í fjögur ár á þingi þegar hann var skipaður utanríkisráðherra í núverandi ríkisstjórn þá 45 ára.

Menntun og starfsreynsla:
Össur
varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1973. Sex árum síðar lauk hann BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands. Árið 1983 útskrifaðist hann með doktorspróf í lífeðlisfræði, með fiskeldi sem sérgrein, frá Háskólanum í East Anglia á Englandi, 1983. Árið eftir var hann styrkþegi British Council við framhaldsrannsóknir. Össur var ritstjóri Þjóðviljans í þrjú ár; frá 1984 til 1987. Þá var hann lektor við Háskóla Íslands í eitt ár. Þess er ekki getið á ferilskrá hans inni á alþingisveggnum hvað hann starfaði árið 1988 til 1989 en á árunum 1989 til 1991 var hann aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar.

Vorið 1991 var Össur kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn 38 ára. Eftir að Össur var kjörinn inn á þing var hann ritstjóri tveggja blaða. Fyrst Alþýðublaðsins árið 1996 til 1997 og síðan DV árið 1997 til 1998.

Gunnar Bragi varð stúdent  frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra árið 1989. Hann stundaði síðar nám í atvinnulífsfélagsfræði við Háskóla Íslands. Árið eftir að hann lauk stúdentsprófi var hann verslunarstjóri Ábæjar í eitt ár auk þess sem hann var verkamaður og gæslumaður í Steinullarverksmiðjunni þar sem hann starfaði til ársins 1991. Þá tók hann aftur við verslunarstjórastöðunni í Ábæ þar sem hann starfaði til ársins 1995. Fyrsta árið þar var hann auk þess ritstjóri héraðsfréttablaðsins Einherja.

Eftir námið í atvinnufélagsfræðinni var hann sölu og verslunarstjóri hjá Skeljungi hf í eitt ár og þá aðstoðarmaður félagsmálaráðherra á árunum 1997 til 1999. Það var í tíð Páls Péturssonar í Félagsmálaráðuneytinu (sjá hér). Í framhaldinu var hann markaðsráðgjafi hjá Íslensku auglýsingastofunni. Þá starfaði hann um tveggja ára skeið á verslunarsviði Kaupfélags Skagfirðinga en var svo framkvæmdastjóri Ábæjar árið 2002 til 2003 og í framhaldinu framkvæmdastjóri Ábæjar-veitinga ehf. fram til ársins 2007. Vorið 2009 var Gunnar Bragi kosinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn 41s árs að aldri.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Össur
byrjaði afskipti sín af pólitík þegar í háskóla. Þegar hann var 23ja ára var hann formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár. Eftir að hann kom heim úr doktorsnáminu tók hann upp þráðinn aftur og tók virkan þátt í starfi Alþýðubandalagsins á sama tíma og hann var ritstjóri Þjóðviljans. Hann var í framkvæmdastjórn flokksins í eitt ár. Á sama tíma var hann í miðstjórn hans og reyndar einu ári betur eða til ársins 1987.

Fjórum árum síðar var hann kosinn inn á þing fyrir Alþýðuflokkinn en hann var þá í flokkstjórn hans auk þess sem hann var formaður þingflokks Alþýðuflokksins. Þessum embættum gegndi hann til ársins 1993. Hann var formaður Samfylkingarinnar í fimm ár eða frá stofnun flokksins í maí árið 2000 og fram til ársins 2005. Hann var formaður þingflokks Samfylkingarinnar árið 2006 til 2007.

Það er útlit fyrir að afskipti Gunnars Braga af pólitík hafi hafist af alvöru á þeim tíma sem hann gerðist aðstoðarmaður félagsmálaráðherra rétt undir þrítugt. Um svipað leyti tekur hann sæti í stjórnum Húsnæðissamvinnufélags Skagafjarðar og Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands. Þar situr hann í tvö ár eða fram til ársins 2000. Á sama tíma er hann formaður stjórnar varasjóðs viðbótarlána eða á árunum 1998 til 2002.

Samkvæmt ferilskrá Gunnars Braga inni á alþingisvefnum er hann formaður Félags ungra framsóknarmanna í Skagafirði og varaformaður kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi vestra. Þess er ekki getið hvenær hann var kjörinn eða skipaður til þessara embætta eða hvort hann gegni þeim enn. Hann var formaður þingflokks framsóknarmanna á árunum 2009-2013.

Gunnar Bragi sat í sveitarstjórn Skagafjarðar á árunum 2002 til 2009. Á þeim tíma var hann varaforseti Sveitarfélagsins. Frá árinu 2006 fram til þess að hann var kjörinn inn á þing sat hann í alls sjö stjórnum, nefndum og ráðum. Þar af var hann formaður byggðaráðs Skagafjarðar í þrjú ár en á sama tíma var hann formaður Gagnaveitu Skagafjarðar, stjórnar Norðurár bs. sorpsamlags og  stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Auk þess var hann varaformaður atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar þessi sömu ár. Tvö síðustu árin áður en hann var kjörinn inn á þing sat hann líka í stjórn Hátækniseturs Íslands ses. og síðasta árið einnig í menningarráði Norðurlands vestra.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Össur hefur setið inni á þingi í 23 ár. Hann hefur verið þingmaður Reykjavíkinga frá því hann var kjörinn inn á þing árið 1991. Fyrst eftir að Reykjavík var skipt upp í tvö kjördæmi árið 2003 var hann þingmaður Reykjavíkur norður. Frá 2009 hefur hann hins vegar verið þingmaður Reykjavík suður.

Össur byrjaði þingferil sinn sem þingmaður Alþýðuflokks. Árið 1996 gekk hann til liðs við þingflokk jafnaðarmanna sem samanstóð af þingmönnum Alþýðuflokks og Þjóðvaka (sjá hér). Frá vorinu 2003 hefur Össur setið inni á þingi fyrir Samfylkinguna. 

Frá því að Össur settist inn á þing fyrir rúmum tveimur áratugum hefur hann starfað í tíu nefndum. Þar af tvisvar í utanríkismálanefnd. Fyrst á árunum 1995 til 1999 og svo aftur á árunum 2005 til 2007. Þess má geta að hann á sæti í núverandi utanríkismálanefnd.

Því má svo bæta við að Össur átti sæti í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA á árunum 1991 til 1993 og 1999 til 2004, Íslandsdeild VES-þingsins á árunum 1995 til 1999, Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins árið 2004 til 2005 og í Íslandsdeild NATO-þingsins á árunum 2005 til 2007 þar sem hann var formaður. Hann á sæti þar aftur á þessu kjörtímabili.

Gunnar Bragi hefur setið inni á þingi í fimm ár. Hann var kjörinn inn á þing fyrir Framsóknarflokkinn sem alþingismaður Norðvesturkjördæmis. Frá því að hann var kjörinn inn á þing hefur hann átt sæti í þremur þingnefndum. Þar af sat hann í utanríkismálanefnd frá árinu 2011 fram til vorsins 2013. 

Ráðherraembætti:
Eins og áður hefur komið fram var Össur skipaður ráðherra í fyrsta skipti þegar hann hafði aðeins setið í tvö ár inni á þingi. Þetta var í öðru ráðuneyti Davíðs Oddssonar en þá tók Össur við umhverfisráðherraembættinu fertugur að aldri í tilefni þess að Eiður Guðnason fékk lausn frá embættinu. Össur gegndi embætti umhverfisráðherra á árunum 1993 til 1995 (sjá hér). Þegar hann var 44 ára var hann skipaður iðnaðarráðherra í síðara ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér). Því embætti gegndi hann í tæp tvö ár áður en hann var skipaður utanríkisráðherra 46 ára (sjá nánar hér).

Gunnar Bragi tók við Utanríkisráðuneytinu í kjölfar síðustu alþingiskosninga. Hann var 45 ára þegar hann skipaður í embætti utanríkisráðherra (sjá nánar hér).    

Samantek:
Það er harla fátt sem þeir tveir sem hafa verið bornir saman hér virðast eiga sameiginlegt. Þegar betur er að gáð hafa þeir þó báðir setið í utanríkismálanefnd þó það hafi ekki verið á sama tímanum. Þeir hafa líka báðir gegnt formennsku í sínum þingflokki inni á Alþingi. Það er útlit fyrir að þar með sé það upptalið nema það teljist með að báðir hafa verið utanríkisráðherrar eftir bankahrunið 2008.

Í kjölfar þess hruns komst krafan um aðild að Evrópusambandinu í hámæli hjá vissum hópum innan samfélagsins. Margir þeirra sem hafa haft hæst í kringum hana eru stuðningsmenn Samfylkingarinnar en þó er ljóst að fuægjemdir Evrópusambandsaðildar er að finna í öllum flokkum

Þaum munu erfa það sem kynslóðirnar á undan þeim skildu eftir handa þeim

Það er hins vegar augljóst að á meðan Össur Skarphéðinsson kemur fram sem einlægur aðdáandi Evrópusambandsins þá hefur Gunnar Bragi Sveinsson ekki farið í launkofa með það að hann vill ekki láta undan þrýstingi þeirra sem halda því fram að íslenska krónan sé ónýtur gjaldmiðill og því sé einboðið að ganga í Evrópusambandið til að hægt sé að taka upp evru.

Því hefur verið haldið fram að þar fylgi hann stefnu ónefnds kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga en minna hefur farið fyrir því að draga fram þá sem hafa lagt Össuri Skarphéðinssyni línurnar í þeirri utanríkismálastefnu sem hann hefur lagt sig eftir að framfylgja samkvæmt forskrift Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í upphafi árs 2009 (sjá hér). Því hefur líka verið haldið fram að Gunnar Bragi kunni sig lítt í samskiptum við fulltrúa annarra þjóða og honum legið á hálsi fyrir að hafa lítt hleypt heimdraganum heldur haldið sig mest á heimaslóðum í Skagafirðinum.

Þegar ferill Gunnars Braga er skoðaður er ljóst að hann hefur væntanlega ekki dvalið nema þrjú ár utan sinnar heimabyggðar áður en hann var kosinn inn á þing. Össur hefur væntanlega verið í ein fjögur eða fimm ár á erlendri grundu fram til þess að hann settist inn á þing fyrir rúmum tuttugu árum. Það er hæpið að ætla að sú dvöl Össurar geri gæfumuninn þegar kemur að því að taka skynsamlegar ákvarðanir sem varða utanríkismálastefnu heillar þjóðar.

Það verður heldur ekki séð að BS-próf Össurar og doktorsgráða í lífeðlisfræði hafi aflað honum þekkingar eða reynslu í stefnumótun utanríkismála eða samskiptum við fulltrúa erlendis. Frá því að Össur kom fyrst inn á þing hefur framkoma Össurar einkennst af einhverju sem sumum hefur fundist gefa tilefni til að ætla að hann búi yfir ríkulegum húmor en aðrir hafa frekar viljað kenna við galgopahátt. Á síðustu misserum hafa einhverjir jafnvel haldið því fram að gálgahúmor Össurar og/eða galgopaháttur sé hans leið til að breiða yfir eitthvað annað.

Í því sambandi hefur sá óheiðarleiki verið nefndur í utanríkismálastefnu síðustu ríkisstjórnar að vinna að Evrópusambandsaðild án þess að kjósendur væru almennilega upplýstir um að það væri sú meginstefna sem unnið væri að á öllum sviðum. Vissulega ber Össur ekki einn ábyrgðina á þeim hálfsannleika og/eða villuljósum sem brugðið hefur verið upp til að halda kjósendum frá meðvitundinni um það að svar síðustu ríkisstjórnar við afleiðingum bankahrunsins var innganga í Evrópusambandið og upptaka evru.

Að vilja og vilja ekki en vilja hvorugt viðurkenna

Af ferilskrám Össurar og Gunnars Braga að dæma vantar báða tilfinnanlega þá þekkingu og reynslu sem réttlætir það að þeim skuli hafa verið treyst fyrir jafnumfangsmiklum og viðkvæmum málaflokki og utanríkismálastefna nýfrjálsrar smáþjóðar. Á sama tíma og efnahagur þjóðarinnar hrynur fyrir afleiðingar þeirrar taumlausu nýfrjálshyggju sem hafði verið rekin hér af stjórnvöldum í tæp tuttugu ár horfir það sannarlega sérkennilega við að svar þeirra stjórnvalda sem taka við skuli vera það að sækja um aðild að nýfrjálshyggjubandalagi Evrópuþjóða.

Slík hugmyndafræði verður ef til vill enn furðulegri þegar það er tekið með í reikninginn að sú stjórn sem setti hana fram og fylgdi henni eftir var samsett af tveimur stjórnmálaflokkum sem í orði kveðnu höfðu fordæmt leið nýfrjálshyggjunnar. Þetta er Samfylkingin sem hefur kennt sig við jöfnuð og réttlæti og haldið því fram að það sem máli skipti sé „veruleiki venjulegs fólks“ (sjá hér) og Vinstri grænir sem „hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum“ (sjá hér).

Hinu má ekki gleyma að það var Alþýðuflokkurinn, forveri Samfylkingarinnar, sem átti ekki sístan þátt í því að sú stjórn komst til valda sem skilaði Íslandi langleiðina inn í Evrópusambandið í óþökk stórs hluta þjóðarinnar. Frá því að EES-samningurinn tók gildi hér á landi í ársbyrjun 1994 hafa orðið stórkostlegar breytingar á íslensku samfélagi og nægir þar að nefna byggðarröskunina, óstöðugleikann í verðlagi nauðsynjavara, gífurlega hækkun húsnæðisverðs einkum á höfuðborgarsvæðinu, vöxt stærri sjávarútvegsfyrirtækja á kostnað þeirra minni, gjaldþrot minni fyrirtækja, samdráttinn í ýmis konar innanlandsframleiðslu að ógleymdri þeirri útþenslustefnu bankastarfseminnar sem hefur þegar leitt til hruns íslenska bankakerfisins.

Því má heldur ekki gleyma að það var Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, sem sat við stjórn þegar hættumerkin í aðdraganda bankahrunsins voru útilokuð þannig að bankarnir féllu hver af öðrum haustið 2008. Þegar horft er til baka þá er ekki annað að sjá en Samfylkingin hafi þegar verið búin að úthugsa leið fram hjá því skeri sem íslensku hagkerfi hafði verið búið. Hér er vísað í það sem haft er eftir Árna Páli Árnasyni úr útvarpsviðtali í upphafi ársins 2008:

Við erum auðvitað að ræða um það [...] hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við. (sjá hér)

Drullumall

Kjósendur Samfylkingarinnar vorið 2009 hafa e.t.v. kosið flokkinn til að koma landinu fljótt og örugglega inn í Evrópusambandið. Hins vegar völdu einhverjir kjósendur Vinstri græna fram yfir  Sjálfstæðisflokk eða Framsóknarflokk til útiloka enn frekar að umsókn að Evrópusambandinu yrði sú leið sem yrði valin út úr afleiðingum hrunsins. Kjósendur beggja flokka hafa væntanlega orðið fyrir sárum vonbrigðum því hvorugur flokkurinn náði að uppfylla kosningaloforð sín í sambandi við Evrópusambandsaðild. 

Ef afstaðan til Evrópusambandsaðildar ræður mestu um stuðning kjósenda í alþingiskosningum má með sömu líkum gera ráð fyrir því að þeir sem vilja alls ekki ganga inn í Evrópusambandið hafi kosið Framsóknarflokkinn en þeir sem treystu Sjálfstæðisflokknum til að koma fram eins og Vinstri grænir á síðasta kjörtímabili hafa væntanlega frekar kosið Sjálfstæðisflokkinn. Styr hefur staðið um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar frá upphafi og spjótin beinst að Gunnari Braga. Í byrjun febrúar lagði hann fram þingsályktunartillögu um að að umsóknin um Evrópusambandsaðild verði dregin til baka (sjá hér).

Í þeirri umræðu sem hefur skapast í kringum hana kynnti Gunnar Bragi stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum þar sem boðað er stórfellt átak í „upptöku gerða í EES-samninginn“ (sjá hér) sem verður ekki betur skilið en svo að núverandi ríkisstjórn muni þrátt fyrir allt vinna að enn meiri krafti en fyrri ríkisstjórn að aðlögun íslenskra laga að regluverki Evrópusambandsins.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa brugðist þannig við að þeir hafa kallað þessa nýju stefnu vandræðalegt yfirklór og svolítið grín sem þýðir hraðari aðlögun að Brussel. Þorsteinn Pálsson, einn ötulasti talsmaður Evrópusambandsaðildar, hefur m.a.s. ástæðu til gera ríkisstjórninni einhverjar glettur um leið og hann bendir á að stefnan geti tæpast talist ný.

Hún felur aðallega í sér áform um að bregðast vel við ýmsum athugasemdum sem fram hafa komið á síðustu árum um framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Ætlunin er til að mynda að hraða sjálfvirkri innleiðingu á reglum sameiginlega innri markaðarins. (sjá hér)

Börn eiga rétt til framtíðar

Ef allt er dregið saman má halda því fram að staðan í utanríkismálum Íslands megi rekja til þriggja grundvallarþátta: Í fyrsta lagi er það frelsi Utanríkisráðuneytisins sem hefur rekið dýra utanríkisþjónustu sem þjónar fyrst og fremst versluninni og fjármálamarkaðinum í landinu. Í öðru lagi er það ofurstjórnsemi bæði flokka og einstaklinga sem hafa haft með Utanríkisráðuneytið að gera. Það má minna á að þessir flokkar eru Alþýðuflokkur/Samfylking sem hefur farið með Utanríkisráðuneytið í samtals 32 ár, Framsóknarflokkur sem hefur verið yfir ráðuneytinu í samtals 23 ár og svo Sjálfstæðisflokkur sem hefur farið með ráðuneytið í samtals 16 ár.

Þriðja og e.t.v. mikilvægasta atriðið er svo metnaðarleysið sem býr að baki því hvernig utanríkisráðherrar eru valdir og skipaðir. Það er rétt að minna á að sama aðferð er viðhöfð við skipun annarra ráðherra. Það sem liggur skipun þeirra til grundvallar er að þeir hafi starfað í viðkomandi stjórnmálaflokki og komist til einhverra metorða innan hans. Gunnar Bragi og Össur höfðu báðir setið í utanríkismálanefnd áður en þeir urðu utanríkisráðherrar. Auk þess hefur Össur verið í nokkrum Íslandsdeildum á þingum þeirra alþjóðastofnananna sem Ísland hefur gerst aðili að.

Hins vegar er ljóst að Össur ber ekki sísta ábyrgðina á þeim hnút sem utanríkismálastefna stjórnvalda er í nú. Það alvarlegasta er e.t.v. það að þjóðin; þ.e. kjósendur, hefur í raun haft sáralítið um það að segja í hvers konar samband og/eða samhengi hún hefur verið sett í við aðrar þjóðir og önnur ríki með ýmis konar þjóðréttarskuldbindingum frá því að Íslendingar voru gerðir aðilar að Marshall-aðstoðinni 1948.

Össur Skarphéðinsson hafði tækifæri til þess að upplýsa þjóðina refjalaust um það hver utanríkismálastefna þeirrar ríkisstjórnar sem hann starfaði fyrir væri og hvernig hann ræki hana. Það gerði hann ekki og það er útlit fyrir að kjósendur hafi ekki kunnað að meta það sem þeir reiknuðu út. Í því samhengi má geta þess að ánægja kjósenda með hans störf í ánægjukönnunum Gallups á síðasta kjörtímabili mældist aldrei hærra en um 20% en stóð nánast í stað frá upphafi kjörtímabilsins til loka þess.

Gunnar Bragi Sveinsson hefur tækifæri til að fara öðru vísi að en Össur og það er útlit fyrir það að hann hafi stigið fyrsta skrefið til þess með því að kynna nýja Evrópustefnu núverandi ríkisstjórnar. Hins vegar er spurning hverjum þessi stefna er ætlað að þjóna þar sem það er ekki að sjá að almenningur muni hafa neitt um stefnuna að segja þó vissulega sé gert ráð fyrir samstarfi við ýmsa aðila eins og „aðila á vinnumarkaði með áherslu á hagsmunagreiningu EES reglna“ (sjá hér). Með þeirri stefnu sem Gunnar Bragi hefur kynnt liggur e.t.v. tækifæri hans til að gefa almenningi loksins tækifæri til að tjá sig utanríkismálastefnu landsins.

Abraham Lincoln

Það er a.m.k. löngu orðið tímabært að utanríkisráðherrar landsins svo og aðrir stjórnmálamenn setji hlutina í samhengi en reki ekki sambærilega utanríkismálastefnu og hefur verið rekin hér á landi nánast frá þeim degi sem landið öðlaðist sjálfstæði frá Dönum. Stefnu sem hefur orðið til innan Utanríkisráðuneytisins og verið rekin þar án frekari kynningar fyrir landi og þjóð nema í á leið sinni í gegnum Alþingi þar sem stórkostlegustu ákvarðanir um framtíð landsins hafa ítrekað verið settar fram í þingsályktunartillögum til að forða þeim undan forsetanum og þjóðinni. Þetta átti til að mynda við umsóknina um Evrópusambandsaðildina.

Í þessu samhengi er rétt að hafa það í huga að allir þeir þjóðréttarsamningar sem hér um ræðir hafa ekki aðeins sett innlendu löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldi skorður heldur hafa þeir haft gífurleg áhrif á íslenska löggjöf, efnahagslíf og byggðar- og atvinnuþróun. Með öðrum orðum þá hafa þessir samningar svo víðtækar afleiðingar á íslenskt samfélag að það er löngu orðið tímabært að kjósendur séu ekki aðeins upplýstir um stefnuna í utanríkismálum heldur að þeim sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á hana með því t.d. að fá að svara þeirri einföldu spurningu hvort þeir vilji þá áframhaldandi aðlögun að EES-samningnum sem Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað í nafni núverandi ríkisstjórnar (sjá hér).

Helstu heimildir
Utanríkisráðherratal
Sögulegt yfirlit yfir utanríkisþjónustuna
 

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ánægja með störf ráðherra: 6. október 2009 (fyrsta könnun)
Ánægja með störf ráðherra:
9. apríl 2010
Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu: 23. mars 2012
Ánægja með störf ráðherra:
10. janúar 2013

Heimildir úr lögum
Lög samþykkt á Alþingi
(stjórnartíðindanúmer laga)
Lög um Evrópska efnahagssvæðið
. 13. janúar 2/1993.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands
nr. 39/1971

Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka
. lagt fram 21. febrúar 2014.
Stjórnskipunarlög
(heildarlög), frá 16. nóvember 2012 til 6. mars 2013.
Samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
(IPA-styrkir til aðlögunar stjórnsýslu Íslands) frá 2. desember 2011 fram til 18. júní 2012.
Frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins
(skattleysi og undanþága frá tollum til handa starfsmönnum ESB hér á landi). frá 30. nóvember 2011 fram til 18. júní 2012.
Aðildarumsókn að Evrópusambandinu
. frá 25. maí fram til 16. júlí 2009.
Evrópskt efnahagssvæði
. frá 18. ágúst 1992 fram til 12. janúar 1993.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu
(þingályktunartillaga) 5. des. fram til 19. des. 1969. 

Heimildir úr fjölmiðlum
Þorsteinn Pálsson. Fljótandi utanríkispólitík. visir.is 15. mars 2014.
Evrópustefnan „vandræðalegt yfirklór“
. ruv.is 12. mars 2014
Þetta er ný Evrópustefna ríkisstjórnarinnar
. eyjan.is 11. mars 2014.
Helga Jónsdóttir: Evrópska efnahagssvæðið mikilvægara en nokkru sinni fyrr. visir.is 1. mars 2014
Langt í metfjölda undirskrifta
. visir.is 28. febrúar 2014.
Einar Benediktsson (fyrsti fulltrúi í GATT). Vettvangur breytinganna. visir.is 20. febrúar 2014.
Sami. Tvöfaldi ávinningurinn: ESB-aðild og nýtt Atlantshafsbandalag. visir.is 27. apríl 2013.
Guðlaugur Þór Þórðarson: Öryggi landsins eftir Einar Benediktsson.  31. mars 2012.
Mannsævi í mörgum löndum
(um æviminningar Einars Benediktssonar, sendiherra) dv.is 7. nóvember 2009.
Fréttaskýring: Lengsta sumarþing í 90 ár
. mbl.is 24. ágúst 2009.
Evrópusambandið á dagskrá
. visir.is 7. júlí 2008.
Fyrstu skrefin stigin í átt að samruna við ESB
. Morgunblaðið 12. maí 1999.
Utanríkisstefna á vegamótum
. Alþýðublaðið 15. apríl 1993
Stjórnarandstaðan vill stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn
. Morgunblaðið 22. ágúst 1992.
Ekkert fé fæst frá Könum nema samið sé við Breta
. Þjóðviljinn 27. nóvember 1960.
Hernaðaráætlun fimmtu herdeildarinnar bandarísku birt
. Þjóðviljinn. 23. október 1948

Heimildir af vef Utanríkisráðuneytisins
EES - Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
Evrópusamruninn í alþjóðlegu og sögulegu samhengi
. Utanríkisráðuneytið.
Ísland og Sameinuðu þjóðirnar
. Utanríkisráðuneytið.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
WB-Alþjóðabankinn
. Utanríkisráðuneytið

Heimildir af Wikipediu
Evrópska efnahagssvæðið
. Wikipedia. Síðast breytt 26. júlí 2013.
Evrópusambandið. Wikipedia. Síðast breytt 3. febrúar 2014.
Marshalláætlunin
. Wikipedia. Síðast breytt 3. febrúar 2014.
Rómarsáttmálinn
. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013.
Samningalotur GATT-samkomulagsins
. Wikipedia. Síðast breytt 15. apríl 2013.
Úrúgvælotan
. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013.
Vestur-Evrópusambandið
. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013. 

Heimildir úr ýmsum áttum
Áherslur og framkvæmd Evrópustefnu
. (2014) Utanríkisráðuneytið.
Blaðagreinar og viðtöl vegna aðildarviðræðnanna við ESB
. 2009-2014. 
Einar Benediktsson. Þrjár greinar. Evrópusamtökin. 10. ágús. 2010.
Evrópuvefurinn. Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál.
Jónas H. Haraldz. Ísland og Efnahagssamband Evrópu frá efnahagslegu sjónarmiði séð. Fjármálatíðindi. 1962
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012.
Umsókn Íslands um aðild að ESB
. Aðildarviðræður Íslands og ESB 2009-2013
Þórhallur Ásgeirsson. Efnahagsaðstoðin 1948-1953. Fjármálatíðindi.1955
Ögmundur Jónasson. Söguþræðir. 10. mars 2014.


Til Evrópusambandsstýringar Íslands

Þetta átti að verða næstsíðasta færslan í skrifum um ráðuneyti síðustu og núverandi ríkisstjórnar. Í stað þess að staðið verði við þá fyrirætlan þá kemur hér sérstök færsla um embættisskipan og stjórnsýslulegar ákvarðanir á vegum Utanríkisráðuneytisins frá stofnun þess. Ástæðan er einfaldlega sú að miðað við núverandi stjórnmálaástand er það ekki aðeins forvitnilegt heldur gagnlegt að fara nokkuð ýtarlegar í sögu íslenskra utanríkismála en upphaflega stóð til.

Utanríkisráðuneytið var sett á fót í kringum hernámið 1940. Það er útlit fyrir að frá upphafi hafi það verið sjálfstæðara en önnur íslensk ráðuneyti sem sætir vissulega furðu þegar það er haft í huga hve margar ákvarðanir, sem hafa verið teknar á vegum æðstu embættismanna þess, hafa falið í sér „afsal og kvaðir bæði á landi og landhelgi“ og breytingar „á stjórnarhögum ríkisins“. Hér er vísað í 21. grein Stjórnarskrárinnar en þar segir:

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til. (sjá hér)

Eins og glöggir lesendur taka væntanlega eftir gerir þessi grein íslensku Stjórnarskrárinnar ráð fyrir því að það sé forseti landsins sem geri „samninga við önnur ríki“. Við hernámið jók Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, við embætti þáverandi félagsmálaráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson, og skipaði hann utanríkisráðherra (sjá hér) auk þess sem lög voru sett um Utanríkisráðuneytið sem tóku gildi árið 1941 (sjá hér)

Vorið 1942 tók minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins við völdum með Ólaf Thors í forsætisráðuneytinu. Þessi stjórn sat í sjö mánuði en á þeim tíma var Ólafur Thors ekki aðeins forsætisráðherra heldur líka utanríkisráðherra auk þess að vera yfir landbúnaðar-, vega- og sjávarútvegsmálunum (sjá hér). Undir jól árið 1942 greip þáverandi forseti, Sveinn Björnsson, inn í það stjórnmálaástand sem upp var komið með því að skipa utanþingsstjórn (sjá hér).

Það er ekki fullkomlega útilokað að honum hafi reynst ákvörðunin um slíkt inngrip auðveldari í ljósi þess hvernig Alþingi hafði farið á svig við 21. grein Stjórnarskrárinnar og fært umboðið til „samninga við önnur ríki“ frá forsetaembættinu til nýs ráðherraembættis innan ríkisstjórnarinnar. Hins vegar breytti þetta ekki neinu hvað það varðar að samningsumboðið við önnur ríki er enn í höndum þess stjórnmálamanns sem hreppir utanríkisráðherraembættið þrátt fyrir að 21. grein Stjórnarskrárinnar um það hvers umboðið er hlýtur að teljast nokkuð skýr.

Fyrstu utanríkisráðherrarnir

Á árunum 1918 til ársins 1934 heyrðu utanríkismálin undir forsætisráðherra. Fyrsti Haraldur Guðmundsson ráðherrann sem ekki var forsætisráðherra en fór samt með utanríkismálin er alþýðuflokksþingmaðurinn Haraldur Guðmundsson en hans hefur verið getið nokkrum sinnum áður í þessu yfirliti. Hann var skipaður atvinnumálaráðherra í ráðuneyti Hermanns Jónassonar en fór auk þess með utanríkis-, heilbrigðis- og kennslumál. Haraldur var fyrsti ráðherrann sem var skipaður yfir heilbrigðismálin (sjá hér).

Eins og segir í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti sem nefnist: Til kvótastýrðs sjávarútvegs II þá var Haraldur skipaður ráðherra í fyrstu ríkisstjórninni sem Alþýðuflokkurinn átti aðild að. Forsætisráðherra hennar var Hermann Jónasson sem var þá nýr þingmaður Framsóknarflokksins. Fulltrúar þessarar ríkisstjórnar kölluðu hana Stjórn hinna vinnandi stétta

Þegar Hermann Jónasson setti gerðardóm á verkfall sjómanna í lok mars 1938 sagði Haraldur Guðmundsson af sér (sjá hér) og tók Hermann Jónsson við embættum hans þann hálfa mánuð sem eftir lifði af kjörtímabilinu (sjá hér).

Haraldur Guðmundsson tók gagnfræðapróf þegar hann var 19 ára. Næstu átján árin aflaði hann sér afar fjölbreyttrar starfsreynslu víðs vegar um land þar sem hann var m.a: gjaldkeri útibús Íslandsbanka á Ísafirði, blaðamaður og kaupfélagsstjóri í Reykjavík og loks útibússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði fyrstu fjögur árin sín á þingi. Hann var kjörinn inn á þing árið 1927 þá 35 ára að aldri. Sjö árum eftir að hann var kosinn inn á þing gegndi hann sínu eina ráðherraembætti á tuttugu og sjö ára þingferli.

Fyrstu fjögur árin sem hann var á þingi var hann ekki aðeins útbússtjóri Útvegsbankans á Seyðisfirði heldur líka bæjarfulltrúi eða fram til ársins 1931. Hann átti auk þess sæti í landsbankanefnd fram til ársins 1936. Hann var formaður Alþýðuflokksins á árunum 1954 til 1956.

Stefán Jóh. Stefánsson Stefán Jóh. Stefánsson var fyrsti utanríkisráðherrann. Hann var skipaður í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar sem tók við völdum vorið 1939 og sat fram til vors 1941. Samfara utanríkisráðherraembættinu gegndi hann líka embætti félagsmálaráðherra sem einnig var ný ráðherrastaða. Stefán hefur þar af leiðandi komið við sögu þessarar samantekt áður þar sem fjallað var um Félags- og húsnæðisráðuneytið. Þar er hann talinn sem fyrsti félagsmálaráðherrann samkvæmt þessari heimild hér.

Stefán var líka fyrsti forsætisráðherrann til að skipa landbúnaðarmálunum sérstakan ráðherra (sjá hér) og kom þar af leiðandi við sögu í þeim aðdraganda færslunnar um Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem ber heitið Til kvótastýrðs landbúnaðar.

Stefán varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 24 ára og tók lögfræðipróf frá Háskóla Íslands fjórum árum síðar. 32ja ára var hann kominn með réttindi hæstaréttarlögmanns. Þegar hann kom inn á þing hafði hann 16 ára lögmannsreynslu að baki en hann rak áfram málaflutningsskrifstofu í Reykjavík með öðrum málaflutningsmönnum meðfram þingstörfum í 11 ár.

Stefán sat reyndar ekki óslitið inni á þingi frá því að hann var kjörinn í fyrsta sinn árið 1934 og þar til að hann hætti árið 1953. Nær allan þann tímann sem hann átti sæti þar gegndi hann jafnframt öðrum störfum. Þar má benda á að hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík fyrstu þrjú árin sem hann sat á þingi jafnfram því að sitja í bæjarráði.

Við Tjörnina á fjórða áratugnum

Hann sat líka í bankaráði Útvegsbankans nær allan tímann sem hann var á þingi og var formaður þess lengst af. Á sama tíma var hann í stjórn Byggingarsjóðs verkamanna og lengst af formaður Norræna félagsins líka. Síðustu átta árin sem hann var á þingi var hann eining framkvæmdastjóri Brunabótafélags Íslands.

Þess má svo að lokum geta að hann hafði verið í miðstjórn Alþýðuflokksins í tíu ár þegar hann var kosinn inn á þing í fyrsta skipti og sat þar fram til ársins 1940. Hann var kosinn formaður flokksins árið 1938 en þá átti hann ekki sæti inni á þingi. Hann gegndi formannsembættinu fram til ársins 1952.     

Á þeim tíma sem Stefán Jóh. Stefánsson var utanríkisráðherra tóku Íslendingar alfarið við meðferð utanríkismála í kjölfar þess að Danmörk var hernumin af Þjóðverjum (sjá hér). Í kjölfarið var Utanríkisráðuneytið stofnað og lög sett um ráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis á árinu 1941. Ný lög um Utanríkisþjónustu Íslands voru sett árið 1971 (sjá hér) í stjórnartíð Emils Jónssonar sem var utanríkisráðherra á árunum 1965 til 1971.

Við borð stórveldis

Það geisaði stríð úti í Evrópu þegar Utanríkisráðuneytið var sett á fót. Danmörk var hernumin 9. apríl 1940 og daginn eftir er ráðuneytið stofnað.  Hálfum mánuði seinna er fyrsta alræðisskrifstofa Íslands opnuð í New York. Fjórum dögum síðar er opnað sendiráð í London. Stuttu seinna er opnað sendiráð í Stokkhólmi, í Washington ári síðar og í Moskvu árið 1944. Elsta sendiráð Íslendinga er frá 1920 en það er í Kaupmannahöfn (sjá hér)

Abraham Lincoln

Bretar hernámu Ísland mánuði eftir að Þjóðverjar lögðu Danmörku undir sig. Tveimur mánuðum síðar var Stefán Jóh. Stefánsson skipaður fyrsti utanríkisráðherra Íslands og bráðabirgðalög sett um utanríkisþjónustuna. Lögin um Utanríkisráðuneytið voru sett um miðjan febrúar 1941. Sama ár var gerður samningur við Bandaríkin sem kvað á um hervernd og viðurkenningu á frelsi og fullveldi Íslands. Samningurinn átti líka að tryggja að Bandaríkjamenn sæju „landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu.“ (sjá hér)

Stefán Jóhann fékk lausn frá embættinu í byrjun árs 1942 en Ólafur Thors tók við því. Sjálfstæðisflokkurinn var yfir Utanríkisráðuneytinu næstu tíu árin en þá hafa þau tvö ár sem utanþingsstjórn Björns Þórðarsonar (1942-1944) verið undanskilin. Þá tók Ólafur Thors við  Utanríkisráðuneytinu að nýju og var yfir því til ársins 1947.

Næst tók Bjarni Benediktsson (eldri) við ráðuneytinu fram til ársins 1953 en hann er einn þeirra sex sem sátu lengst í embætti utanríkisráðherra. Í framhaldi þess að hann hætti tók við 15 ára stjórnartíð Alþýðuflokksins yfir Utanríkisráðuneytinu en Framsóknarflokkurinn hefur verið fyrirferðarmikill þar líka. Sósíalistaflokkurinn, síðar Alþýðubandalag, var hins vegar aldrei trúað fyrir utanríkismálunum.

Utanríkisráðherrar fyrri tíma

Á fyrsta rúma áratug Utanríkisráðuneytisins er grunnurinn lagður að framtíðarsamskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir. Hér verður stuðst við síðu Utanríkisráðuneytisins þar sem reynt verður að draga fram það mikilvægasta. Fyrst er að nefna hervarnar- og viðskiptasamninginn sem var gerður við Bandaríkjamenn í tíð Stefán Jóh. Stefánssonar sumarið 1941. Hann gerði líka viðskiptasamning við Breta það sumar um kaup á íslenskum afurðum. Þrjú sendiráð voru opnuð a árunum 1940 til 1941 (sjá hér).

Í stjórnartíð Ólafs Thors voru opnuð tvö sendiráð til viðbótar. Á árunum 1945 og 1946 gerði Ólafur Thors samning við Breta um kaup á rúmlega 30 togurum. Keflavíkursamningurinn var undirritaður haustið 1946 en í samningum var gert ráð fyrir að bandarískir hermenn yfirgæfu landið en Bandaríkjamenn hefðu áfram afnot af Keflavíkurflugvelli. Rúmum mánuði síðar, eða 19. nóvember 1946 var Ísland aðili að Sameinuðu þjóðunum (sjá hér). Þess má geta að Thor Thors, bróðir Ólafs Thors, var „formaður sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum frá upphafi til æviloka.“ Hann lést árið 1965 (sjá hér).

Þess má að lokum geta að á árunum 1944 til 1947 var Ólafur Thors ekki aðeins utanríkisráðherra heldur líka forsætisráðherra (sjá hér). Svipaða sögu er að segja frá árinu 1942 en þá fór hann með Utanríkisráðuneytið í ellefu mánuði. Frá maí og fram að því að utanþingsstjórnin tók við í desember það ár var hann auk þess forsætisráðherra og fór með landbúnaðar- og sjávarútvegsmálin (sjá hér). 

Af Arnarhóli á fjórða eða fimmta áratug síðustu aldar

Bjarni Benediktsson tók við utanríkisráðherraembættinu í upphafi árs 1947 og gegndi því fram til ársins 1953. Á þessu sex ára tímabili sat hann undir þremur forsætisráðherrum. Sá fyrsti var Stefán Jóh. Stefánsson sem var fyrstur til að fara með embætti utanríkisráðherra. Ráðuneyti hans sat frá ársbyrjun 1947 til loka árs 1949. Á þeim tíma var sendiráðunum erlendis fjölgað um eitt auk þess sem aðalræðisskrifstofa var opnuð í Hamborg en gerð að sendiráði þremur árum síðar. Það hefur verið staðsett í Brussel frá 1999 (sjá hér).

Í apríl 1948 gerðist Ísland stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem var breytt árið 1960 í Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD. Sama ár varð Ísland hluti af Marshalláætluninni sem tók til næstu fimm ára eða til ársins 1953. Ári síðar skrifaði Bjarni Benediktsson undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins en nánar verður sagt frá aðdraganda þess í sérstökum kafla hér á eftir.

Á árunum 1949-1950 var Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í þriðja ráðuneyti Ólafs Thors (sjá hér) og svo áfram í ráðuneyti Steingríms Steinþórssonar á árunum 1953-1956 (sjá hér). Á þessum tíma var Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt og Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins. Vorið 1951 var varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna undirritaður og árið 1952 var stofnuð fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu með aðstöðu í París (sjá hér).

Í nafni vaxtar og varna

Áður en lengra verður haldið er rétt að staldra ögn betur við þá þýðingarmiklu atburði sem áttu sér stað í íslenskri utanríkismálapólitík upp úr seinna stríði. Eins og kom fram hér að framan varð Ísland hluti af Marshall-áætluninni sama ár og það varð stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu sem varð síðar að Efnahagsvinnu- og framfarastofnun Evrópu; betur þekkt sem OECD.

Þetta var árið 1948 og tók Marshall-áætluninni til næstu fimm ára. Bjarni Benediktsson var í Utanríkisráðuneytinu á þessum tíma en Stefán Jóh. Stefánsson var forsætisráðherra. Ríkisstjórn hans, sem var samsett af Alþýðu-, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki (sjá hér), tók einhliða ákvörðun um það að  Ísland gerðist aðili að Marshall-áætluninni án þess að samningurinn þar að lútandi væri nokkurn tímann borinn undir Alþingi til samþykktar (sjá hér).

Brjóttu ísinn með einhverju ókeypis

Með því Marhall-fénu voru keyptir tíu togara sem bættust við fiskskipaflota Íslendinga þegar árið 1948. Það var ekki aðeins gengið í það að veita sjávarútveginum heldur líka landbúnaðinum sem var vélvæddur. Stærstu framkvæmdirnar voru þó vatnsaflsvirkjanirnar þrjár: Sogs-, Laxár- og Írafossvirkjun. Aðrar framkvæmdir sem má nefna eru bygging áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, Sementsverksmiðjunnar á Akranesi, síldarbræðslna og fiskimjölsverksmiðja auk hraðfrystihúsa sem voru byggð víða um land (sjá m.a. hér).

Á þessum tíma voru fáir sem gagnrýndu Marshall-áætlunina hér á landi utan Sósíalistaflokkinn. Síðar hefur því m.a. verið haldið fram að með „Marshall-aðstoðinni hafi verið markað upphafið að styrkjakerfinu á Íslandi í hinum ýmsu atvinnugreinum“ (sjá hér). Sumir hafa líka bent á að með byggingu Áburðarverksmiðjunnar hafi upphaf þeirrar stóriðjustefnu sem enn er við lýði verið mörkuð.

Bandaríski sagnfræðingurinn Michael J. Hogan hefur haldið því fram að tilgangur Bandaríkjamanna með Marshall-áætluninni hafi verið að móta Evrópu efnahagslega í sinni eigin mynd.“ (sjá hér) „American officials hoped to refashion Western Europe into a smaller version of the integrated single-market and mixed capitalist economy that existed in the United States.“ (sjá hér)

Michael J. Hogan segir að vonirnar sem voru bundnar Marshall-áætlunin hafi verið þær að án tollamúra á milli landa Vestur-Evrópu „væri hægt draga úr innri baráttu evrópsku þjóðríkjanna og skapa sameinað markaðssvæði óhult fyrir áhrifum kommúnista.“ (sjá hér). Fulltrúar Sósíalistaflokksins hér á landi töldu að hér væri á ferðinni „áætlun um að misnota aðstöðu dollaravaldsins til að ná efnahagslegum og pólitískum ítökum og yfirráðum um allan auðvaldsheiminn.“ (sjá hér)

Mótmæli 30. mars 1949

30. mars 1949 er dagur sem fáir gleyma sem hafa kynnt sér sögu hans. Þann dag var Atlantssamningurinn til umræðu á þinginu. Gert hefur verið ráð fyrir að um 8.000 manns hafi verið samankomnir á Austurvelli og nærliggjandi götum þegar flest var. Allt var þó með kyrrum kjörum framan af í kringum þinghúsið en öðru máli gegndi um það sem fór fram innan húss.

Áköfustu mótmælin komu frá fulltrúum Sósíalistaflokksins þar sem Einar Olgeirsson fór fremstur í flokki. Hann benti á að að hvorki ríkisstjórnin né fylgismenn hennar hefðu gefið neina skýringu á því hvers vegna þurfti að standa þannig að málinu að það var keyrt  í gegnum þingið á rúmum sólarhring án þess að nokkur sérfræðingur í alþjóðarétti fengi tækifæri til að sjá samninginn eða tjá sig um hann við utanríkismálanefnd þingsins. Hann fullyrti að málatilbúnaðurinn allur  skýrðist af því að ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn væri að hlýða fyrirskipun erlendra stjórnvalda (sjá hér). Fleiri höfðu sig í frammi:

Hermann [Jónasson] minnti á hve framkvæmd Keflavíkursamningsins hefði orðið langt frá loforðunum, og lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að ekkert hefði reynzt jafnhættulegt vinsamlegri sambúð íslendinga og Bandaríkjamanna og einmitt Keflavíkursamningurinn. (sjá hér)

Þegar kom að atkvæðagreiðslunni sat hann hjá ásamt öðrum þingmanni Framsóknarflokksins. Áður en að henni kom „bar Einar [Olgeirsson] fram þá breytingartillögu að því aðeins yrði afráðin þátttaka Íslands í Atlanzhafsbandalagi að samningsuppkastið hafi áður verið lagt undir þjóðardóm í þjóðaratkvæðagreiðslu og hlotið meiri hluta greiddra atkvæða (sjá hér). Tillagan fékk ekki brautargengi en það fékk samningurinn hins vegar.

Atkvæðagreiðslan um samninginn fór þannig að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (19) studdu að Íslendingar yrðu gerðir að stofnaðilum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Ellefu þingmenn Framsóknarflokks, einn var á móti en tveir sátu hjá; þ.á m. Hermann Jónasson. Sjö þingmenn Alþýðuflokks utan tveggja sem greiddu atkvæði á móti en það voru Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson. Allir þingmenn Sósíalistaflokksins voru hins vegar á móti (10). Atkvæði féllu því þannig að 37 greiddu atkvæði með NATO-samningum 30. mars 1949 og 13 voru á móti en tveir sátu hjá (sjá hér).

Orðsending NATO-flokkanna

Á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð inni í alþingishúsinu hafði friðurinn fyrir utan það snúist upp í logandi óeirðir. Sumir hafa haldið því fram að Ólafur Thors hafi sigað lögreglunni á friðsama mótmælendur og ólætin hafist þannig. Auðvitað verður aldrei hægt að rekja það nákvæmlega sem átti sér stað niður á Austurvelli þennan dag; síst að öllu eftir að allt fór þar úr böndunum. Það er þess vegna ómögulegt að skera úr um það hvort það voru þeir sem voru á móti aðild að Atlantshafsbandalaginu eða hinir sem voru hlynntir sem byrjuðu.

Það verður heldur tæplega nokkurn tímann fullkomlega hrakið eða sannað hvort Ólafur Thors hafi gefið lögreglu og hvítliðum skipum um að nú skyldu þeir ráðast til atlögu gegn friðsömum mótmælendum. Orðsendingin hér að ofan gefur þó tilefni til að draga þær ályktanir að átökin sem brutust út á Austurvelli 30. mars árið 1949 hafi verið sviðsettar. Þessi mynd og texti, sem voru sett á forsíðu Morgunblaðsins daginn eftir (sjá hér) er síst til að draga úr líkum þeirrar niðurstöðu.

Mynd Morgunblaðsins af mótmælunum fyrir framan alþingishúsið 30. mars 1949

Þess ber þó að geta að það var ekki aðeins formaður Sjálfstæðisflokksins sem hvatti friðsama borgara til að taka þátt í sviðsetningunni fyrir framan alþingishúsið daginn sem stofnaðildarsamningurinn við NATO var keyrður í gegnum þingið. Samkvæmt tilkynningunni hér að ofan þá skrifuðu formenn Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins einnig undir það að „kommúnistar hafi án þess að leita leyfis boðað til útifundar“ til að trufla starfsfrið Alþingis (sjá hér). 

Grunnur lagður að Evrópusambandsaðild

Hér verður þráðurinn tekinn upp að nýju við að rekja embættisverk þeirra sem hafa setið lengst í Utanríkisráðuneytinu. Sá sem tók við ráðherraembættinu af Bjarna Benediktssyni (eldri) var alþýðuflokksmaðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson. Stjórnarskiptin fóru fram sumarið 1956 en þá varð Hermann Jónasson forsætisráðherra í fimmta skiptið (sjá hér).

Ríkisstjórnin sem Hermann leiddi var sett saman af Framsóknarflokki, Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki. Forystan yfir utanríkismálunum kom í hlut Alþýðuflokksins; þ.e. Guðmundar Í. Guðmundssonar. Hann var utanríkisráðherra fram til ársins 1965 undir fjórum forsætisráðherrum. Á þeim tíma var Ísland aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna eða árið 1955 (sjá hér). Vorið 1962 öðlaðist samstarfssamningur Norðurlandanna gildi hér á landi (sjá hér).

Árið eftir var Pétur J. Thorsteinsson, sem hafði verið aðstoðarmaður í Utanríkisráðuneytinu á árunum 1947-1953, skipaður sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Þess má geta að Pétur var sonur Péturs J. Þorsteinssonar sem stofnaði Milljónafélagið ásamt föður Ólafs Thors (sjá hér). Félagið varð gjaldþrota 1914 og átti þátt í því að Íslandsbanki riðaði til falls árið 1920 (sjá hér og líka hér).

Árið 1964 fékk Ísland bráðabrigðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti; GATT. Einar Benediktsson var skipaður fyrsti fulltrúi Íslands á vettvangi GATT en hann kom síðar „að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA og starfaði einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.“ (sjá hér). Einar óx upp innan sömu stéttar og Pétur J. Þorsteinsson (sjá hér) Árið 1968 fékk Ísland fulla aðild að GATT að tillögu þáverandi viðskiptaráðherra; Gylfa Þ. Gíslasonar (sjá hér).

Horft niður Lækjargötu sjöunda áratugarins

Flokksbróðir Guðmundar, Emil Jónsson, tók við embætti hans árið 1965 og gegndi því fram til 1971 (sjá hér). Á meðan hann var utanríkisráðherra var fastanefnd Íslands hjá NATO flutt frá París til Brussel ásamt því sem hún var gerð að sendiráði gagnvart Belgíu og Efnahagsbandalagi Evrópu (sjá hér). Árið eftir, eða 1970, varð Ísland aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA). Fastanefnd landsins gangvart því var sett niður í Genf. Gylfi Þ. Gíslason var flutningsmaður þingsályktunartillögu um þetta efni í desember 1969 (sjá hér). Fyrrnefndur Einar Benediktsson var fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá EFTA.

Undir lok embættisferilsins í Utanríkisráðuneytinu lagði Emil fram stjórnarfrumvarp til laga um Utanríkisþjónustu Íslands. Miðað við umræðurnar sem sköpuðust í kringum frumvarpið þá er ljóst að þegar í kringum 1970 var einhverjum farið að blöskra kostnaðurinn í kringum utanríkisþjónustu svo nýfrjálsrar en fámennrar þjóðar. Alls komu fjórar breytingartillögur fram við frumvarpið á mismunandi stigum þess en frumvarpið fór í gegn án þess að tillit væri tekið til tillagna um öflugra eftirlit með „rekstri sendiráða og ræðismannsskrifstofa“ (sjá hér) og niðurfellingu 13. greinar (sjá hér) þessara laga þar sem augljósasti misnotkunarmöguleikinn liggur. Greinin sem um ræðir er svohljóðandi:

Starfsmenn utanríkisþjónustunnar taka laun samkvæmt almennum reglum um laun starfsmanna ríkisins. Auk þess skulu starfsmenn erlendis fá greiddar staðaruppbætur, sem miðast við kostnað á nauðsynjum (fæði, húsnæði o.fl.) og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað. Þá skulu starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem dveljast langdvölum erlendis, fá greiddan hluta af kostnaði við að senda börn sín í skóla á Íslandi. Þessar staðaruppbætur skulu ákveðnar samkvæmt reglum er utanríkisráðherra setur að höfðu samráði við utanríkismálanefnd. Reglur skulu settar á sama hátt um greiðslur sjúkrakostnaðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar erlendis. (sjá hér)

Rétt rúmum tveimur mánuðum síðar, eða 17. júní 1971, er fyrsta skrefið að innleiðingu  Vínarsamningsins stigið enn þann dag öðlast sá hluti hans sem snýr að stjórnarmálasambandi gildi á Íslandi (sjá hér).  Samkvæmt sáttmálanum nýtur öll utanríkisþjónustan í heiminum og starfsmenn alþjóðastofnana „skattfrelsis að öllu leyti.“ eins og Pétur H. Blöndal bendir á hér hér. Það er rétt að taka það fram að þetta hefur í engu breyst enn þá.

Þess má líka geta í þessu samhengi að ekki eru nema rétt rúm tvö ár síðan að íslenska ríkið greiddi 75 milljónir króna í bætur fyrir það að gámur starfsmanns utanríkisþjónustunnar fór í sjóinn (sjá hér). Það er útlit fyrir að hvorki þessi eða annar kostnaður í kringum Utanríkisþjónustuna hafi gefið tilefni til að taka lögin frá 1971 til endurskoðunar í þeim tilgangi að draga úr ríkisútgjöldum.

Samkvæmt þessari heimild hér rekur ríkissjóður 25 sendiráð, aðalræðisskrifstofur og fastanefndir víðs vegar um heiminn með yfir 120 starfsmenn. Langfjölmennasta sendiráðið er í Brussel með 15 starfsmenn en auk þess heldur ríkissjóður uppi 7 manna fastanefnd í sömu borg (sjá hér).

Börn í íslenskum vetri árið 1976

Framsóknarmaðurinn, Einar Ágústson, tók við af Emil Jónssyni í Utanríkisráðuneytinu og sat þar í sjö ár (1971-1978) undir tveimur forsætisráðherrum. Fyrst Ólafi Jóhannessyni og þá Geir Hallgrímssyni. Í stjórnartíð Einars í Utanríkisráðuneytinu var fríverslunarsamningarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu undirritaður. Hann tók gildi 1973 en komst ekki til framkvæmda að fullu fyrr en árið 1976 eða eftir lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta. Undir lok ráðherratímabils hans öðlast annar hluti Vínarsamnings um ræðissamband gildi sem er 1. júlí 1979 (sjá hér).

Jón Baldvin Hannibalsson er meðal þeirra sem hafa setið lengst í utanríkisráðuneytinu. Steingrímur Hermannsson skipaði hann til utanríkisráðherra í öðru og þriðja ráðuneyti sínu. Vorið 1991 skipaði Davíð Oddsson hann enn og aftur yfir utanríkismálin á sínu fyrsta forsætisráðherrakímbili (sjá hér). Í embættistíð Jóns Baldvins fjölgaði sendiráðunum um tvö auk þess sem stjórnmálasamband var tekið upp við Eystrasaltsríkin en Íslendingar voru fyrstir þjóða til að viðurkenna sjálfstæði þeirra (sjá hér).

Á þeim tíma sem Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra undir forsætisráðuneyti Davíðs Oddssonar eru a.m.k. tvær afdrifaríka ákvarðanir teknar sem varða utanríkismálastefnu stjórnvalda. Ein þeirra er samningur um aukaaðild Íslands að hernaðarbandalagi Vestur Evrópusambandsins. Hugmyndin var lögð fyrir þingið í þingsályktunartillögu (sjá hér) í mars 1993 (sjá hér).

Eftir nokkrar umræður og gagnrýni á að með aukaaðildinni væru Íslendingar í raun í tveimur hernaðarbandalögum var tillagan samþykkt með 29 atkvæðum á móti 26. Átta þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna (sjá hér). Miðað við þessa heimild hér voru Íslendingar reyndar orðnir aðilar áður en samþykkt Alþingis lá fyrir (sjá hér).

Langstærsta og afdrifaríkasta embættisverk Jóns Baldvins eru lögin um EES-samninginn (EEA) en hann  tók gildi 1. janúar 1994. Frumvarpið sem gerði ráð fyrir því að 10.000 blaðsíðna (sjá hér) meginmál EES-samningsins öðlaðist „lagagildi hér á landi“ (sjá hér) var til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Ítrekaðar ábendingar úr ýmsum áttum varðandi það að samningurinn færi gegn 21. grein íslensku Stjórnarskrárinnar voru að engu hafðar frekar en undirskrifir 19% kjósenda og þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá mynd neðst í þessari frétt).

Þegar kom að atkvæðagreiðslu Alþingis um innleiðingu EES-samninginn féllu atkvæði þingmanna þannig að 33 studdu aðildina en 23 voru á móti. Sjö greiddu ekki atkvæði. Það má vekja athygli á því að á meðal þeirra sem greiddu ekki atkvæði voru sex þingmenn Framsóknarflokksins og einn þingmaður Kvennalistans. Þar á meðal voru: Finnur Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Aðrir þingmenn bæði Framsóknarflokks og Kvennalista voru á móti.

Aðeins þrír þingmenn, sem greiddu atkvæði um EES-samninginn í upphafi árs 1993, eru enn inni á þingi. Það eru Össur Skarphéðinsson sem studdi samninginn, eins og allir aðrir þingmenn Alþýðuflokksins, Einar K. Guðfinnsson sem sagði líka já eins og 23 af 26 þingmönnum Sjálfstæðisflokksin og Steingrímur J. Sigfússon sem sagði nei eins og aðrir þingmenn Alþýðubandalagsins (sjá hér).

Madeleine Albright

Halldór Ásgrímsson tók við Utanríkisráðuneytinu vorið 1995 og sat þar í þremur ráðuneytum Davíðs Oddssonar eða fram til haustsins 2004 (sjá hér). Á meðan hann gegndi embætti utanríkisráherra fjölgaði sendiráðum erlendis um sjö (sjá hér). Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) tók einnig gildi en það vekur athygli að það er forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem leggur fram frumvarpið um breytingar ýmissa laga vegna aðildar Íslands að Alþjóðarviðskiptastofnuninni (sjá hér). 41 þingmaður greiðir samningum atkvæði en allir þingmenn Alþýðuflokksins sitja hjá eða eru fjarverandi (sjá hér).

Í stjórnartíð Halldórs Ásgrímssonar í Utanþingráðuneytinu átti hann sæti í Þróunarnefnd Alþjóðabankans á árunum 1997 til 1998 og var formaður í ráðherraráði Evrópuráðsins (sjá hér). Afdrifaríkasta embættisverk Halldórs Ásgrímssonar sem kom til kasta Alþingis er væntanlega sú ákvörðun að gera Ísland að hluta af Schengen-svæðinu. Halldór lagði fram þingsályktunartillögu um þetta efni í nóvember 1999 sem var tekin til fyrstu umræðu í byrjun desember og í framhaldinu vísað til utanríkismálanefndar (sjá feril málsins hér).

Tillagan var samþykkt með 41 atkvæðum á móti 5 en 18 þingmenn voru fjarrverandi. Össur Skarphéðinsson er einn þeirra sem var fjarrverandi og greiddi því ekki atkvæði. Einar K. Guðfinnsson var viðstaddur atkvæðagreiðsluna en greiddi ekki atkvæði. Ögmundur Jónasson sagði nei en Steingrímur J. Sigfússon já (sjá hér). Þess ber að geta að ekki verður annað skilið en atkvæðagreiðslan hafi verið tvítekin og þá sú fyrri framkvæmd með nafnakalli (sjá hér). Þar falla atkvæði framantalinna með sama hætti nema Steingrímur J. hefur sagt nei (sjá hér)

Ráðuneyti jafnaðarmanna

Þegar saga Utanríkisráðuneytisins er skoðuð vekur það sérstaka athygli að af tæplega 75 ára starfssögu ráðuneytisins þá hefur ráðuneytið verið áberandi lengst undir forystu jafnaðarmanna (Alþýðuflokks/Samfylkingar) eða í kringum 32 ár. Til samanburðar má benda á að Framsóknarflokkurinn hefur verið yfir ráðuneytinu í 23 ár og Sjálfstæðisflokkur í 16 ár. Sósíalistar hafa aldrei farið fyrir ráðuneytinu (Sósíalistaflokkur/Alþýðubandalag/Vinstri grænir(?)). 

Jafnaðarmennirnir í Utanríkisráðuneytinu

Eins og áður hefur komið fram þá lagði Stefán Jóh. Stefánsson grunninn að því nána sambandi sem var staðfest með margs konar samningum í utanríkisráðherratíð Bjarna Benediktssonar (eldri). Stefán Jóh. var fyrsti utanríkisráðherrann og gerði varnar- og viðskiptasamning við Bandaríkjamenn árið 1941 (sjá hér). Hann var síðan forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem grundvölluðu það að Ísland er nú meðal þeirra ríkja nútímans sem standa á þröskuldi þess að verða eitt af sambandsríkjum Evrópusambandsins.

Það er a.m.k. margt sem gefur tilefni til að draga þá ályktun þegar horft er til þeirrar þróunar sem hefur orðið ofan á bæði í utanríkissamskiptum stjórnvalda og þeirri samfélagsþróun sem sigldi í kjölfar þeirra aðildarsamninga sem voru gerðir á þessum árum. Eftir tíu ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í Utanríkisráðuneytinu, ellefu mánuði árið 1942 og svo árin 1944 til 1953, tók við fimmtán ára valdatíð jafnaðarmanna (Alþýðuflokks) sem spannar árin 1956 til 1971.

Í valdatíð Sjálfstæðisflokksins voru Íslendingar ekki aðeins orðnir aðilar að alþjóðabandalögum eins og Atlantsbandalaginu (NATO), Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OECD) og Sameinuðu þjóðunum (UN) heldur líka að Marshall-áætluninni sem fáir gagnrýndu á sínum tíma en einhverjir hafa þó bent á að hafi lagt grunninn að mörgum þeirra vandamála sem íslenskt samfélag glímir við enn í dag.

Alþingisgarðurinn í kringum 1950

Enginn þeirra samninga og/eða aðildar sem að ofan greinir voru lögð fyrir þjóðina heldur sátu stjórnmálamennirnir einir að ákvörðunum án þess að skeyta því nokkru hvort slíku fylgdi valdaafsal á íslensku „landi eða landhelgi“ eða breytingar „á stjórnarhögum ríkisins“ (sjá 21. grein Stjórnarskrárinnar). Á árunum 1956 til 1971 var haldið áfram á þessari braut þegar Ísland varð aðili að Fríverslunarsambandi Evrópu (EFTA) árið 1970.

Þáverandi viðskiptaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, var flutningsmaður þingsályktunartillögu um aðildina.
Einar Benediktsson, sem hafði verið skipaður fulltrúi Íslands gagnvart GATT árið 1964 vann „að undirbúningi að inngöngu Íslands í EFTA“ (sjá hér). Samkvæmt því sem segir hér „gerðist Einar snemma eindreginn talsmaður þess að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu.“ Síðar starfaði [hann] einnig fyrir Ísland þegar samið var um EES-samninginn.“ (sjá hér).

Í dag ritar þessi fyrrverandi sendifulltrúi landsins greinar þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni „að yrðu samningsslit með því að draga [ESB-]umsóknina til baka núna [yrði það] versta áfall fyrir orðspor Íslands í sögu lýðveldisins. Við sláum ekki á þá bróðurhönd sem margir ESB-leiðtogar hafa rétt okkur.“ (sjá hér). Meginrök Einars eru þau að næsta þróunarstig Evrópusamvinnunnar er svokallaður fríverslunarsamningur við Bandaríkin (Trans Atlantic Trade and Investment Pact).“ (sjá hér). Þess má svo geta hér í framhjáhlaupi að Einar Benediktsson starfaði hjá OECD áður en hann tók við starfi á vegum utanríkisþjónustu Íslands í sömu borg; þ.e. París (sjá hér).

Ingólfstræti sennilega í kringum 1970

Árið 1971 tók Framsóknarflokkurinn við Utanríkisráðuneytinu næstu sjö árin. Á þeim tíma var fyrsti hluti Vínarsáttmálans innleiddur (sjá hér). Samkvæmt honum eru starfsmönnum utanríkisþjónustunnar tryggð ýmis forréttindi sem Pétur H. Blöndal gerði ágæta grein fyrir í þingræðu sinni, í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, þar sem svonefndir IPA-styrkir voru til umræðu í upphafi árs 2012 (sjá feril málsins hér):

Varðandi það sem h[æst]v[irtur] þingmaður sagði um skattfrelsi [...] þá er mjög undarlegt að Vínarsáttmálinn frá 1815 skuli enn vera notaður til að réttlæta skattfrelsi ákveðinna forréttindastétta í heiminum sem er utanríkisþjónustan öll og starfsmenn alþjóðastofnana sem njóta skattfrelsis að öllu leyti.

Þeir borga heldur ekki tolla, þeir borga ekki vörugjöld, þeir borga miklu lægra bensín og fyrir nánast hvað sem er borgar þetta fólk miklu minna. Það tekur ekki þátt í kostnaði við velferðarkerfið, það tekur ekki þátt í kostnaði við ríkisreksturinn og að það skuli vera vinstri menn sem standa hér, eins og hæstv[irtur] utanríkisráðherra, og verja þetta kerfi er alveg með ólíkindum.

Ég hef barist fyrir því í mörg ár að skattfrelsi utanríkisþjónustunnar verði afnumið en það gengur mjög erfiðlega vegna þess að ég rekst alltaf á þennan Vínarsamning frá 1815, held ég að rétt sé með farið, þar sem verið var að tryggja sendimenn fyrir því að gistiríki færi illa með þá en það er náttúrlega löngu liðin tíð.

Nú er þetta orðin forréttindastétt manna sem lifa í einhverjum allt öðrum veruleika en við hin og njóta leikskólanna okkar, njóta gatnanna okkar og háskólanna fyrir börnin sín og fyrir sjálfa sig og borga ekki til samfélagsins. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir h[æst]v[irta] þingmenn Alþingis að fara í herför fyrir því að afnema þetta skattfrelsi um allan heim, því að það verður að gerast um allan heim til að ná einhverjum árangri.“ (sjá hér)

Alþýðuflokksþingmaðurinn, Benedikt Gröndal, tók við af framsóknarþingmanninum, Einari Ágústsyni, í Utanríkisráðuneytinu. Hann sat þar aðeins í tvö ár (1978-1980) jafnframt því sem hann var forsætisráðherra (sjá hér). Í stjórnartíð hans var Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna innleiddur (sjá hér). Þá taka við átta ár sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skipta þannig á milli sín að ef sjálfstæðismaður var í Forsætisráðuneytinu var framsóknarmaður yfir Utanríkisráðuneytinu og öfugt.

 Aukinn sóknarþungi

Alþýðuflokkurinn komst aftur til valda í Utanríkisráðuneytinu árið 1988 þegar Jón Baldvin Hannibalsson varð utanríkisráðherra. Hann gegndi því embætti til ársins 1995. Það var í ráðherratíð hans sem Íslendingar urðu aðilar að EES-samningum (EEA). Eins og kom fram hér að framan var málið til meðferðar á Alþingi í hálft ár (sjá hér). Það vekur athygli að einn þeirra þingmanna sem tók þátt í því að gagnrýna  það að meginmál EES-samningsins fengi lagagildi hér á landi (sjá hér) var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ferill hennar í málinu er reyndar allur afar athyglisverður.

Örlög þessarar þjóðar þau ráðast nefnilega innan lands og það eru engar "patentlausnir" til á vandamálum okkar. Við getum sem hægast klúðrað okkar málum öllum hvort heldur sem er innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins eða Efnahagsbandalagsins. Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu eða Efnahagsbandalaginu er ekki upphaf alls, ekki rök í öllum málum og leysir ekki allt. (sjá hér)

Þetta eru lokaorðin í stórmerkilegri þingræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 25. ágúst 1992 þar sem EES-samningurinn var til umræðu. Í ræðu sinni vísar hún í grein Lúðvíks Ingvarssonar, fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu þann sama dag. Tilvísunin þjónar greinilega þeim tilgangi að benda á að með samþykkt EES-samningsins verði brotið á sama hátt gegn ákvæðum Stjórnarskrárinnar eins og Lúðvík bendir á að raunin hafi sýnt fram á að hafi gerst þegar „Íslendingar gerðust aðilar að Mannréttindasáttmála Evrópu“ árið 1953. Síðan vitnar hún beint í orð Lúðvíks Ingvarssonar um þetta efni:

„Í sáttmálanum er erlendum dómstóli veitt æðsta dómsvald um íslensk málefni á tilteknu sviði, þar sem Hæstiréttur Íslands var áður æðsta dómstig.“ [...]

,,Mörgum mun finnast að aðild að Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins hafi hingað til aðeins leitt gott af sér fyrir Íslendinga þrátt fyrir það að aðildin hafi aldrei verið samþykkt á Alþingi með löglegum hætti. Af þessu mega þeir, sem þykir aðildin góð, ekki draga þá ályktun að allir milliríkjasamningar, sem samþykktir verða með ólöglegum hætti á Alþingi, muni aðeins leiða til góðs.“ [...]

„Mistökin, sem urðu við samþykkt aðildarinnar að sáttmálanum, eiga að vera öllum en þó einkum handhöfum löggjafarvaldsins, alþingismönnum og forseta Íslands, alvarleg áminning um að viðhafa alla gát þegar gerðir eru milliríkjasamningar sem e.t.v. stríða gegn stjórnarskránni.“
(sjá hér)

Undir lok ræðu sinnar víkur Ingibjörg Sólrún að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (sjá hér). Þingsályktunartillagan var lögð fram í þinginu 24. ágúst 1992 af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Steingrími Hermannssyni, Ólafi Ragnari Grímsson, Kristínu Einarsdóttur, Páli Péturssyni og Ragnari Arnalds (sjá hér). Þar sem Ingibjörg Sólrún víkur að mögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands bendir hún á andstöðu Jóns Baldvins Hannibalssonar við að leggja málið „undir dóm kjósenda“:

Meginrök hans voru þau, svo vitnað sé beint, „að slíkt valdaafsal þingsins væri hvorki sjálfsagt né eðlilegt“ og að hann vildi ekki „stuðla að því að umbylta því stjórnarfyrirkomulagi sem var ákveðið í stjórnarskrá árið 1944 og hefur ríkt góð sátt um allan lýðveldistímann“ eins og hann sagði. Að auki taldi hann landsmenn ekki í stakk búna til að taka afstöðu til samningsins. (sjá hér)

Sams konar rök, og þau sem Ingibjörg Sólrún hefur eftir „jafnaðarmanninum Jóni Baldvini“ (sjá hér), komu fram í nefndaráliti um fyrrnefnda þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna EES-samningsins.

Frá því lýðveldið var stofnað má nefna þrjá tillögur um þjóðaratkvæði á Alþingi við meðferð mikilvægra samninga við erlend ríki eða fyrirtæki. Í öllum tilvikum voru tillögurnar felldar með atkvæðagreiðslu á þingi, þ.e. þegar fjallað var um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), samninginn við Alusuisse um álverið í Straumsvík og aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA).

Í stuttu máli má því segja að það væri brot á íslenskri stjórnskipunarhefð að samþykkja þessa tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þátttöku Íslands í EES. Það gengi einnig í berhögg við fyrri niðurstöður á Alþingi þegar um mikilvæga alþjóðasamninga hefur verið að ræða.  (sjá hér)

Þingsályktunartillagan um þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild Íslands að EES var vísað til allsherjarnefndar sem þríklofnaði í afstöðu sinni til hennar (sjá t.d. hér). Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks og einn þingmaður Alþýðuflokks lögðust gegn henni með ofangreindum rökum, sem samandregið mætti umorðast þannig, að slíkt væri ekki í samræmi við þær vinnuhefðir sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hefðu tileinkað sér fram að því.

Talsmaður hentugleikastefnunnar

Tillagan um að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu var felld á Alþingi með 31 atkvæði gegn 28. Fjórir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Einn þeirra var Össur Skarphéðinsson sem var fjarrverandi. Aðrir þingmenn sem enn eru á þingi studdu tillöguna fyrir utan Einar K. Guðfinnsson sem var á móti (sjá hér).

Það vekur svo sérstaka athygli að Jóhanna Sigurðardóttir er einn þeirra þingmanna sem hafnaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Ísland verði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta vekur ekki síst undrun í ljósi nýlegra ummæla hennar um núverandi stjórnvöld sem ætla ekki að leggja það  undir dóm kjósenda hvort þeir vilja að aðlögunarferlinu að regluverki Evrópusambandsins verði framhaldið eða ekki (sjá hér). 

Áður en skilist verður við þátt Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í umræðum Alþingis um EES-samninginn og að Ísland undirgangist ákvæði hans með því að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu er rétt að minna á endanlega afstöðu hennar sem bæði kemur fram í nefndaráliti sem hún setti saman og atkvæðagreiðslunni. Í nefndarálitinu sem hún stóð ein að segir hún:

Enn er vafi á því að frumvarpið standist gagnvart stjórnarskrá og ekki er komið endanlegt lagaform á ýmsar tilskipanir EB sem munu hafa veruleg áhrif hér á landi. Við þessar aðstæður hljóta ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna að bera alla pólitíska ábyrgð á málinu.

Treystir undirrituð sér ekki til að leggja til við þingið að það samþykki frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið þó að hún sé efnislega sammála aðildinni á þeim forsendum sem hér hafa verið reifaðar. Aðrar þingkonur Kvennalistans telja aftur á móti að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópska efnahagssvæðisins og munu því greiða atkvæði gegn samningnum. (sjá hér)

Ingibjörg Sólrún sat hjá þegar kom að atkvæðagreiðslunni um fullgildingu EES-samningsins og samning EFTA-ríkjanna um m.a. stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (sjá frumvarpið hér og niðurstöður atkvæðagreiðslunnar hér). Það má svo minna á að af þeim þingmönnum sem enn eru inni á þingi þá sögðu Einar K. Guðfinnsson og Össur Skarphéðinsson já en Steingrímur J. Sigfússon nei.

Fífur í vindi

Að lokum er svo rétt að minna á það aftur að 19% atkvæðisbærra manna skrifuðu undir kröfu um að því yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort Ísland gerðist aðili að þeim samningi sem Jón Baldvin Hannibalsson hafði undirritað í Oportó í Portúgal 2. maí 1992 (sjá hér). Bæði þing og forseti virtu óskir um það að samningurinn yrði lagður undir dóm kjósenda að vettugi á rökum byggðum á vísunum til hefða og venja „sem ekki væri stætt á að bregða út af.“ (sjá hér)

Baráttan um Ísland hefst fyrir alvöru

Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra til ársins 1995 en þá tók Halldór Ásgrímsson við embættinu og gegndi því í átta ár. Á þeim tíma sem hann var yfir Utanríkisráðuneytinu varð ísland aðili að Schengen-samstarfinu sem er ætlað að tryggja „frjálsa för einstaklinga um innri landamæri fimmtán samstarfsríkja“ (sjá hér). Íslendingar gerðust aðilar að þessu samkomulagi 25. mars 2001.

Tveimur árum síðar var ráðist í byggingu Kárahnjúkavirkjunar en aðalverktakafyrirtækið, sem stóð að framkvæmdinni, var Impregilo sem er ítalskt byggingarfyrirtæki. Langflestir starfsmennirnir sem komu að virkjunarframkvæmdunum voru erlendir. Í framhaldinu tóku bæði stærri og minni fyrirtæki hér á landi að flytja inn erlent vinnuafl (sjá hér) sem þeir komust upp með að borga lægri laun en íslenskum verkamönnum (sjá hér).

Eftir alþingiskosningarnar vorið 2007 kom það mörgum á óvart að Samfylkingin skyldi ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þegar það er skoðað að Samfylkingin er einshvers konar framhald Alþýðuflokksins þá hefði samstarf þeirra alls ekki átt að koma á óvart þar sem ekki voru liðin nema 12 ár frá því að jafnaðarmenn höfðu náð að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum. Hér er að sjálfsögðu vísað til þeirrar stjórnar Sjálfstæðis- og Sjálfstæðisflokks þar sem Jón Baldvin Hannibalsson fór með Utanríkisráðuneytið fram til ársins 1995.

Ignibjörg Sólrún Gíslandóttir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem utanríkisráðherra Íslands

Í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skipuð yfir Utanríkisráðuneytinu og varð þar með arftaki Valgerðar Sverrisdóttur sem sat þar í eitt ár. Á undan henni sátu þeir Geir H. Haarde og Davíð Oddsson sitt árið hvor (sjá hér). Þegar Ingibjörg Sólrún tók við hafði aðildarsamningurinn að Evrópska efnahagssvæðinu gerbreytt starfsumhverfinu á Alþingi til þess að sífellt fleiri mál, sem lögð voru fyrir þingið, snertu beinlínis aðildina með einum eða öðrum hætti (sjá frá 117. löggjafarþingi hér). Í þessu ljósi og því sem síðar ætti að vera orðið ljóst er vel þess virði að grípa niður í ræðu Ingibjargar Sólrúnar frá 31. janúar 2008:

Virðulegi forseti. Nú eru 14 ár og 30 dagar frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gekk í gildi og Ísland með menningarstofnanir sínar, atvinnufyrirtæki, banka, sveitarfélög, vísindarannsóknir, stjórnsýslu og löggjafarstarf sameinaðist innri markaði Evrópu.

Engin ein ákvörðun í síðari tíma sögu Alþingis hefur haft jafnrík og djúptæk áhrif á íslenskt samfélag og enginn andmælir því nú, virðulegi forseti, að EES-aðild var algerlega rétt ákvörðun Íslendinga. Hún þýddi opnun landsins, nýtt frelsi fólks til að flytjast milli landa, stofna fyrirtæki, færa fjármagn og eiga viðskipti með vörur og þjónustu. Hún gaf af sér stóreflda íslenska háskóla, kynnti til sögu hér á landi fyrstu réttarbætur á mörgum sviðum, t.d. í umhverfismálum og neytendamálum, og hún er hin raunveruleg[a] forsenda þess að íslensk fyrirtæki gátu leyst gamlar og lúnar landfestar og sótt á heimsmarkað, jafnokar hvers sem er.

Við Íslendingar höfum margt að læra af 14 ára reynslu okkar á innri markaði Evrópu. Hugsum til þess núna hversu margir töldu árið 1993 að EES-aðild stefndi þjóðerni og sjálfstæði í bráða hættu og drögum þann lærdóm sem augljós er af sögu síðasta eins og hálfa áratugar, þann lærdóm að það styrkir Ísland verulega að taka þátt í innri markaði Evrópu. (sjá hér)

Flestum sem störfuðu með Ingibjörgu Sólrúnu á Alþingi þann tíma sem hún sat í Utanríkisráðuneytinu blandaðist vart hugur um að hún stefndi að því markmiði að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Ef til vill voru það orð flokksbróður hennar, Árna Páls Árnasonar, þáverandi varaformanns utanríkismálnefndar, sem gáfu fyrstu vísbendinguna. Þann 11. febrúar 2008 hefur  Steingrímur J. Sigfússon þetta eftir samfylkingarþingmanninum og spyr forsætisráðherra um stefnu þáverandi ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandsaðild:

„Við erum auðvitað að ræða um það,“ segir þingmaðurinn, „hvernig við getum leyst mjög brýnan og alvarlegan vanda sem er sá vandi að gjaldmiðillinn hentar ekki þörfum landsins lengur og veldur heimilum og fyrirtækjum gríðarlegum búsifjum. Þegar við erum að ræða lausnir á þeim vanda er alveg ljóst að evran er sú lausn sem menn binda mestar vonir við.

Það er líka ljóst að helstu stjórnmálaforingjar á Íslandi eru sammála um að evran verður ekki tekin upp án aðildar að Evrópusambandinu. Sama segir Seðlabankinn. Við þær aðstæður hlýtur umræða um lausn á þessum brýna vanda“ — aftur er talað um brýnan vanda — „alltaf að snerta aðild að Evrópusambandinu og það er óhjákvæmilegt.“ (sjá hér og alla umræðuna hér).

Í kjölfar bankahrunsins duldist engum lengur hverjar hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar eru í samskiptum Íslands við önnur lönd. Þann 13. október 2010 ritaði hún grein í Morgunblaðið þar sem svar hennar til þjóðar sem var enn í áfalli yfir nýfegnum fréttum af hruni íslensku bankanna og afleiðingum þess:

Kostirnir í stöðunni eru því þessir. Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans.

Eftir hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar stóðu íslenskir stjórnmálamenn andspænis þeirri áleitnu spurningu hvort Ísland gæti spjarað sig án formlegra bandamanna ef til átaka kæmi í heiminum. Niðurstaðan var að svo væri ekki og Ísland gekk bæði til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir og NATO.

Nú stöndum við andspænis sambærilegri spurningu þó ógnirnar séu af efnahagslegum toga. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut af stjórnmálamönnum að telja sjálfum sér og öðrum trú um að við getum haldið áfram að senda fólk á bátsskeljum út á opið haf og sagt því að fiska. Það hefur þegar endað með ósköpum. (sjá hér og líka frétt á mbl.is)

Í desember árið 2008 lét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafa það eftir sér að hún teldi sjálfhætt í ríkisstjórninni ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki að ganga frá umsókn um aðild að Evrópusambandinu (sjá hér). Ekki varð þó af stjórnarslitum fyrr en 26. janúar árið 2009 (sjá hér)

Áður en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir dró sig út úr stjórnmálunum lagði hún línurnar hvað varðar þann blekkingarleik sem haldið hefur verið á lofti æ síðan um að: „gengið [verði] til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og síðan [verði] niðurstöður þeirra viðræðna lagðar undir þjóðaratkvæði.“ (sjá hér). Eftir að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum er þetta haft eftir Ingibjörgu Sólrúnum um það hver séu mikilvægustu verkefni stjórnarinnar:

Ingibjörg telur mikilvægt að sett verði ákvæði í stjórnarskránna fyrir komandi þingkosningar svo þjóðin geti hvenær sem er gert breytingar á stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu. „Það þýðir að þjóðin getur ákveðið að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum á næsta kjörtímabili ef hún svo kýs án þess að boðað sé til kosninga í millitíðinni. (sjá hér)

Ingibjörg Sólrún Gísaldóttir um nauðsyn þess að breyta Stjórnarskránni til að heimila valdaafsal til ESB

Össur Skarphéðinsson sem tók við Utanríkisráðuneytinu af Ingibjörgu Sólrúnu hefur verið ötull fylgismaður þeirrar utanríkismálastefnu jafnaðarmanna sem Ingibjörg Sólrún opinberaði í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Frá því að hann tók við völdum hefur það verið að koma æ betur í ljós að þeir eru margir og ólíkir hóparnir sem aðhyllast valdaafsal yfir landi og landhelgi ásamt breytingum á íslenskum stjórnarháttum. Það ber að hafa það í huga að þó hóparnir séu bæði margir og háværir þá er ekki endilega víst að þeir séu svo fjölmennir ef vel væri talið.

Þeir helstu eru stærstu atvinnurekendurnir og stærstu útgerðirnar sem sækjast eftir ódýrara vinnuafli, stærstu innflytjendurnir sem vilja losna við verndartolla íslenskrar matvæla- og iðnaðarframleiðslu, einhverjir háskólaprófessorar sem vilja halda í ýmsa styrki sem stöður þeirra grundvallast á og svo þeir stjórnmálamenn sem dreymir um öruggar stöður á þingum, stofnunum eða fastanefndum Evrópusambandsins þegar þingferli þeirra lýkur á Alþingi.

Núverandi stjórnarandstöðu og nokkrum ötulum talsmönnum hennar hefur tekist á nokkrum undanförnum dögum og vikum að æsa ýmsa óánægða kjósendur fram til að flykkja sér um þennan málstað án þess að taka nokkuð tillit til þeirrar ógna sem Evrópusambandsaðild hefur leitt yfir mörg þeirra ríkja sem nú þegar eru með fulla aðild og hafa tekið upp gjaldmiðil þess (sjá t.d. hér og hér).

Araham Lincoln

Þeir sem hafa hvatt til mótmæla fyrir framan alþingishúsið að undanförnu halda því enn þá fram að það sé eitthvað til sem heitir að „kíkja í pakkann“, „sérlausnir fyrir Ísland“ og það sé raunverulega eitthvað um að kjósa eftir að innlimunarferlið er um garð gengið. Sú örvænting sem margir þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa orðið berir af á undanförnum dögum bendir þó til þess að jafnvel þeir sjálfir sjái fram á að málflutningur af slíku tagi dugi ekki lengur til að halda lífi í þeirri aðildarhugmynd sem þeir berjast fyrir.

Nánar verður komið að þessum þáttum í næstu færslu um Utanríkisráðuneytið en þar verða meginpunktarnir í þessari færslu dregnir saman og tengdir því Evrópusambandsaðildarferli sem var meginviðfangsefni síðasta kjörtímabils. Í lok hennar verður svo samanburður á menntunar- og starfsferli Össurar Skarphéðinssonar og Gunnars Braga Sveinssonar.

Helstu heimildir
Utanríkisráðherratal
Sögulegt yfirlit yfir utanríkisþjónustuna
 

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Heimildir úr lögum
Utanríkisráðuneytið:
Lög reglugerðir og samningar 
Lög samþykkt á Alþingi
(stjórnartíðindanúmer laga)

Lög um Evrópska efnahagssvæðið. 13. janúar 2/1993.
Lög um utanríkisþjónustu Íslands
nr. 39/1971
Auglýsing um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna
. 9.desember 74/1955

Ferlar einstakra mála inni á Alþingi
Samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
(reglur um fjárhagsaðstoð við Ísland: IPA). frá 2. desember 2011 fram til 18. júní 2012.
Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna
. frá 18. nóvember 1999 til 22. mars 2000.
Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu
. frá 16. mars fram til 28. apríl 1993.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu
. frá 24. ágúst fram til 5. nóvember 1992.
Evrópskt efnahagssvæði
. frá 18. ágúst 1992 fram til 12. janúar 1993.
Alþjóðasamningur um ræðissamband
. frá miðjum október 1977 fram í miðjan febrúar 1978
Utanríkisþjónusta Íslands
. frá miðjum febrúar fram í byrjun apríl 1971.
Alþjóðasamningar um stjórnmálasamband
. frá miðjum október 1970 fram í miðjan mars 1971.
Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu
(þingályktunartillaga) 5. des. fram til 19. des. 1969. 

Heimildir úr þingræðum
Ræður þingmanna
(á árunum 1907-2014)

Þingræða Ólafs Thors frá 30. mars 1949: Atlantssamningurinn er merkasti friðarsáttmálinn.

Heimildir úr fjölmiðlum
Jóhanna: Svona stærilæti og ósvífni gagnvart þjóðinni er ekki hægt að líða
. eyjan.is 28. febrúar 2014.
Langt í metfjölda undirskrifta
. visir.is 28. febrúar 2014.
Einar Benediktsson (fyrsti fulltrúi í GATT). Vettvangur breytinganna. visir.is 20. febrúar 2014.

Sami. Tvöfaldi ávinningurinn: ESB-aðild og nýtt Atlantshafsbandalag. visir.is 27. apríl 2013.
Ljósmyndir lögreglunnar frá NATÓ mótmælunum í mars 1949
. 13. desember 2013
Arnaldur Grétarsson. Magnaðar myndir af Nató-mótmælunum við Austurvöll 1949. 1. ágúst 2013

Guðlaugur Þór Þórðarson: Öryggi landsins eftir Einar Benediktsson.  31. mars 2012.

Skafti Jónsson um gáminn: „Það er sárt að missa eigur sínar“. dv.is 19. desember 2011
Ómetanleg listaverk og ríkið borgar skaðann
. dv.is 2. desember 2011.

Vigdís Hauksdóttir. Vínarsamningurinn, Samfylkingin og erlend sendiráð. Morgunblaðið 20 nóvember 2010

Mannsævi í mörgum löndum (um æviminningar Einars Benediktssonar, sendiherra) dv.is 7. nóvember 2009.
Stjórnarskrá breytt fyrir ESB-aðild. visir.is 4. febrúar 2009.
Stjórnarsamstarfi lokið
. mbl.is 26. janúar 2009
Nægar ástæður til að slíta stjórnarsamstarfinu ef Samfylkingin hefði áhuga á því
. eyjan.is 4. janúar 2009

Ingibjörg Sólrún: Fyrst IMF og svo ESB. mbl.is12. október 2008.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Aftur til fortíðar eða upphaf nýrra tíma. Morgunblaðið 12. október 2008.

Fyrstu skrefin stigin í átt að samruna við ESB. Morgunblaðið 12. maí 1999.

Utanríkisstefna á vegamótum. Alþýðublaðið 15. apríl 1993
Páll Vilhjálmsson. Baráttan um skilgreininguna á forsetaembættinu. Vikublaðið 21. janúar 1993.

Allsherjarnefnd er þrískipt í áliti á þjóðaratkvæði um EES-samninginn. Morgunblaðið 4. nóvember 1992.
BSRB vill þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samning
. Morgunblaðið 15. september 1992
Ótrúlegur tvískinnungur og pólitísk hentistefna
. Morgunblaðið. 26. ágúst 1992.
Stjórnarandstaðan vill stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn
. Morgunblaðið 22. ágúst 1992.

Landráðin framin í skjóli ofbeldis og villimannlegra árása á friðsama alþýðu. Þjóðviljinn 30. mars 1949
Trylltur skríll ræðst á Alþingi
. Morgunblaðið. 31. mars 1949

Hernaðaráætlun fimmtu herdeildarinnar bandarísku birt. Þjóðviljinn. 23. október 1948

Heimildir af vef Utanríkisráðuneytisins
EES - Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
Evrópusamruninn í alþjóðlegu og sögulegu samhengi
. Utanríkisráðuneytið.
Sameinuðu þjóðirnar
. Utanríkisráðuneytið. 
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið
. Utanríkisráðuneytið.
Skrá yfir fulltrúa Íslands hjá alþjóðasamtökum frá upphafi
. Utanríkisráðuneytið
Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna
. Utanríkisráðuneytið.
Vínarsamningurinn um ræðissamband
. Utanríkisráðuneytið.

Heimildir af Wikipediu
Evrópska efnahagssvæðið
. Wikipedia. Síðast breytt 26. júlí 2013.
Keflavíkursamningurinn
. Wikipedia. Síðast uppfært 11. september 2010.
Marshalláætlunin
. Wikipedia. Síðast uppfær 3. febrúar 2014.
Samningalotur GATT-samkomulagsins
. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013
Úrúgvælotan
. Wikipedia. Síðast uppfært 15. apríl 2013.
Vestur-Evrópusambandið
. Wikipedia. Síðast breytt 9. mars 2013

Heimildir úr ýmsum áttum
Andrés Magnússon. Utanríkisráðherra er ekki vandanum vaxinn. 20. júní 2008. (blogg)
Evrópuvefurinn. Upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál
Helsingforssamningurinn
. Samstarfsamningur á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.
Jónas H. Haraldz. Ísland og Efnahagssamband Evrópu frá efnahagslegu sjónarmiði séð. Fjármálatíðindi. 1962
Staða Íslands í Evrópusamstarfi. Skýrsla Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra til Alþingis. 2000.
Sigrún Elíasdóttir. Marshall-áætlunin og tæknivæðing Íslands. júní 2012. 
„Tel mig ekki hafa betra verk unnið“
[Án árs] (viðtal til við Bjarna Benediktsson)
Umsókn Íslands um aðild að ESB
. Aðildarviðræður Íslands og ESB 2009-2013


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband