Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Opið bréf til Guðbjarts og Gylfa

Undanfarin misseri hafa fjölmargir einstaklingar reynt að ná eyrum valdsins með afar fjölbreytilegum aðferðum. Sumir hafa aðhyllst fundarhöld  en einhverjir halda því fram að beinar aðgerðir séu mun líklegri til að skila árangri. Loks eru það þeir sem telja að blogg og greinarskrif séu líklegust til að ná árangri í þeim tilgangi að koma sjónarmiðum á framfæri þannig að eftir þeim verði tekið.

Nú hafa nokkrir þeirra sem hafa ítrekað reynt að ná eyrum valdhafa og forystumanna samfélagsins tekið sig saman og ákveðið að fara að fordæmi AGS-hópsins sem tók sig saman haustið 2009 og átti í bréfasamskiptum við Dominique Strauss (sjá t.d. hér). Markmið þeirra einstaklinga sem hafa tekið sig saman að þessu sinni er að fá svör frá ráðamönnum við áleitnum spurningum um ýmis konar málefni sem varða líf og kjör íslensks almennings.

Þeir eru átta sem skrifa undir þetta fyrsta bréf en það hefur verið sent á velferðarráðherra og forseta ASÍ.

Reykjavík 23. febrúar 2011

Ágæti, Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.

Viss hluti samlanda okkar þarf að lifa á lágmarkskjörum frá einum mánaðamótum til þeirra næstu. Til þessa hóps teljast: öryrkjar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, félagsbótaþegar og starfsmenn á lágmarkslaunatöxtum. Flestallir sem koma að ákvörðun um hversu mikið einstaklingar í þessum hópum hafa úr að spila hafa margfalt hærri tekjur og eru sökum þess illa búnir til að meta aðstæður skjólstæðinga sinna rétt.

Heildartekjur upp á 160 þúsund krónur á mánuði er staðreynd fyrir stóran hóp Íslendinga. Bæði rannsóknir þinna eigin starfsmanna, sérfræðinga og hyggjuvit meðalmannsins benda ótvírætt til þess að nánast ómögulegt sé að ná endum saman með fyrrnefndri upphæð.

Eftir umfangsmikla vinnu á vegum velferðarráðuneytisins var nýlega lögð fram ákaflega gagnleg skýrsla um neysluviðmið (sjá hér). Hún er vel unnin í alla staði og gefur góða vísbendingu um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Vegna þessarar skýrslu var sett upp reiknivél (sjá hér) á vef ráðuneytisins. Samkvæmt henni þarf einstaklingur í leiguíbúð 300.966 krónur í ráðstöfunarfé til þess að eiga fyrir nauðþurftum og öðru sem telst til mannréttinda eins og húsnæði og virkri þátttöku í samfélaginu.

Í ljósi alls þessa leitum við til þín með eftirfarandi spurningu:

Hvernig myndir þú, ágæti Guðbjartur, ráðleggja fólki að ná endum saman með áðurnefndum hundrað og sextíuþúsund króna tekjum á mánuði?

Ráðleggingar þínar gætu orðið upphafið að bættri umræðu um núverandi vandamál þeirra einstaklinga sem glíma við þessa spurningu 12 sinnum á ári.

Virðingarfyllst og með ósk um svör,

Ásta Hafberg
Björk Sigurgeirsdóttir
Gunnar Skúli Ármannsson
Elías Pétursson
Jón Lárusson
Kristbjörg Þórisdóttir
Ragnar Þór Ingólfsson
Rakel Sigurgeirsdóttir


Bréf með sömu fyrirspurn var send á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands, og afrit á alla fjölmiðla.


Við eigum auðvitað rétt á upplýsingum!

Sumir tala um að áróðursstríðið varðandi nýja Icesave-samninginn sé hafið og eflaust eru það einhverjir sem vilja meina að það sé allt fyrir tilveru þess hóps sem kallar sig Samstöðu þjóðar gegn Icesave. Þetta er auðvitað mikil einföldun og reyndar alls ekki rétt að hópurinn sem slíkur hafi staðið fyrir einhverju sem mætti líkja við stríð.

kjósum!

Ég og Sveinn Tryggvason vorum í Bítinu á Bylgjunni í morgun og þar hvöttum við alla sem hugsa sér að fara í áróðursstríð að skipta um kúrs og sýna væntanlegum kjósendum í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá virðingu að leggja áherslu á að upplýsa þá um nýja Icesave-samkomulagið. Stjórnmálamennirnir ættu að sjálfsögðu að draga sig í hlé. A.m.k. þeir sem hafa sýnt sig í því að fara beinlínis með rangt mál í yfirlýsingum sínum varðandi fyrri samninga en það er hæpið að þeir standist mátið og kannski enn hæpnara að þeir verði látnir í friði.

Við eigum færa lögfræðinga og hagfræðinga, við eigum einstaklinga sem hafa fylgst með samningaferlinu frá upphafi. Sumir hafa kynnt sér eðli allra samninganna og breytingarnar sem hafa orðið á þeim. Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi sl. mánudagskvöld að þetta mál snerist fyrst og fremst um hagsmuni og eðlilega veltir maður fyrir sér hagsmuni hverra hann hann á við. Frá mínum bæjardyrum séð eru það hagsmunir fjármálafyrirtækjanna og þeirra sem bera hina raunverulegu ábyrgð.

Við í hópnum Samstaða þjóðar gegn Icesave viljum hins vegar verja hagsmunum almennings í þessu máli. Áskorunin um að nýi Icesave-samningurinn færi í þjóðaratkvæðagreiðslu var fyrsti áfanginn í því. Næst viljum við að samingurinn hljóti kynningu. Við ætlum að leggja okkar að mörkum til þess. Við erum með síðu inni á Fésbókinni þar sem við munum setja inn fréttir og greinar um þjóðaratkvæðagreiðsluna og Icesave-samningana. (Sjá hér)

Vefsvæðið kjósum.is verður hins vegar nýtt til að birta greinar og önnur skrif sem innihalda upplýsingar um það hvað mælir gegn hinum nýja Icesave-samningi. Væntanlega verður vefurinn tilbúinn fyrir slíkar birtingar fyrir vikulokin. Þeir sem hafa fylgst með kosningunni þar inni hafa sennilega fengið rækilegt veður af því að hópurinn sem stóð að baki henni er afar fjölbreyttur. Við erum þó sammála um það að okkur finnst nýi samningurinn ekki ásættanlegur.

Nei við IcesavePersónulega mun ég segja nei við þessum samningi. Fram að kosningum mun ég draga fram ástæður mínar fyrir því en hér ætla ég að nota tækifærið og ljúka við tvennt sem mér tókst ekki að ljúka við í viðtalinu sem ég vísaði í hér að ofan. Í fyrsta lagi langar mig til að ítreka það að 8. greinin, sem var í fyrsta Icesave-samkomulaginu, var felld út úr í Icesave II. Þeir sem höfnuðu lögunum um ríkisábyrgð af þeirri ástæðu skal bent á að í Icesave III er heldur ekkert sem kemur í stað hennar en þar stóð:

8. gr. Endurheimtur á innstæðum.
Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.


Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón. (leturbreytingar eru mínar)

Annað atriði sem mér tókst ekki að klára í viðtalinu varðar hinar mörgu hliðar Icesave-samkomulagsins. Sumir tala um að það snúist um hagsmuni annars vegar en réttlæti hins vegar. Það má líka skoða það út frá eftirtöldum þremur þáttum: Efnahagslegum, lagalegum og siðferðislegum.

Réttlætið er auðvitað nátengt þeirri siðferðislegu kröfu að almenningur eigi ekki að borga skuldir auðmanna. Icesave II og nýi samningurinn tekur af allan vafa um það hvar ríkisstjórnirnar, sem koma að þessum samningi, standa í þessu efnum. Í þeirra augum eru það hagsmunir fjármálakerfisins sem ríkja yfir réttlæti almennings. Ég leyfi mér að efast um að breskum og hollenskum almenningi verði neinn greiði gerður með því að íslenskur almenningur, sem fær ólíkt þeim tækifæri til að eiga síðasta orðið, færi þannig með það að hann tæki undir þetta sjónarmið!


mbl.is Óviðunandi ábyrgðarleysi forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir vinna skipulega gegn lýðræðinu

Það er undarlegt að búa í samfélagi þar sem ráðandi stéttir; s.s. stjórnmálamenn og fjármagnseigendur, leggjast af öllum sínum þunga gegn lýðræðinu. Það er dapurlegt að horfa upp á subbulegar aðferðir þeirra. Það er virkilega sorglegt að sjá hve margir skíta sjálfa sig út á því að gegna erindum þessara stétta í þeim tilgangi að hindra það beinlínis að þjóðin geti haft afgerandi áhrif á tilveru sína og framtíð.

Það er ekki bara stjórnlagaþingið sem hefur orðið fórnarlamb þess konar skæruhernaðar heldur hvers konar viðleitni fjölmargra einstaklinga sem leggja sumir hverjir nótt við dag við að sporna gegn því einræði sem stjórnvöld hafa snúist til á undanförnum árum. Ein þeirra leiða er að ná til fólks með undirskriftarlistum. Með því móti er gjarnan sett fram krafa og/eða áskorun sem stríðir gegn hugmyndum stjórnvalda. Áskoruninni er þá gjarnan beint til stjórnmálamanna og/eða forsetans.

kjosum.is

Þetta á t.d. við um áskorunina sem hópurinn Samstaða þjóðar gegn Icesave setti fram nú á dögunum undir slóðinni kjósum.is Það er greinilegt að þeir eru margir sem styðja þessa áskorun enda varla við öðru að búast miðað við það að nýleg skoðanakönnun MMR sýndi að 62% aðspurðra vildu að íslenska þjóðin fengi „að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu.“ (Sjá frétt á mbl.is hér)

„Tillaga um að bera Icesavesamninginn undir atkvæði þjóðarinnar var felld á Alþingi með 33 atkvæðum gegn 30.“ (sjá hér) Þrátt fyrir þennan litla mun er ljóst að það eru valdamiklir einstaklingar og ráðandi öfl sem óttast ekkert meira en það að lagafrumvarið um Icesave-samninginn verði fellt ef það ratar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Frá því að áskorunin um þjóðaratkvæði kom fram á kjosum.is  hefur meiri hluti þingheims verið í spretthlaupi undan lýðræðinu. Þessir hafa algerlega hundsað þann hluta áskorunarinnar sem er beint til þeirra og beitt ýmis konar vopnum til að draga úr gildi þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarpið.

Áróðursrefir og alltof margir fjölmiðlar hafa lagst á sveif með þeim og reynt að draga úr trúverðugleika undirskriftarsöfnunarinnar. Það er vissulega sorglegt að horfa upp á það að fulltrúar valdsins, sem ættu ávallt að hafa hag þjóðarinnar í fyrirrúmi, skuli leggja allt sitt hugvit í það að grafa undan tækifærum almennings til að hafna samningi sem mun hafa verulegar og afgerandi afleiðingar á lífskjör hans í framtíðinni.

Jónas KristjánssonMerkilegast hefur verið að fylgjast með tveimur bloggurum sem hafa áunnið sér þann vafasama sess að stýra skoðunum lesenda sinna. Hér á ég við þá Teit Atlason og Jónas Kristjánsson sem hafa gert sig seka um allt annað en það að umgangast þann sess af virðingu við þá meginreglu að „hafa það sem sannara reynist“. Upphrópanirnar og sleggjudómarnir, sem þeir viðhafa án þess að vísa til heimilda eða geta þess hvað gerir þá að sérfræðingum í þeim málefnum sem þeir gerast æðstu dómarar í, bera hvorki vott um virðingu fyrir sannleikanum né fólki almennt. 

Í reynd hafa þeir lesendur sína að ginningarfíflum og þess vegna virkilega umhugsunarvert hvers vegna fólk yfirleitt hefur fyrir því að fylgjast með þeirri sorpblaðamennsku sem þeir viðhafa á bloggum sínum. Þeim er sennilega báðum fullkunnugt um vald sitt sem þeir beita af svívirðilega lítilli virðingu fyrir lesendum sínum. Óneitanlega veltir maður markmiðum þeirra fyrir sér þar sem það liggur í augum uppi að þeir kunna hvorki að koma fram af yfirvegun eða heiðarleika. Þetta mátti m.a. sjá í Kastljósinu í gærkvöldi þar sem Teitur opinberaðist í þeim eina tilgangi sínum að eyðileggja fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave III næði fram að ganga. (sjá hér)

Teitur AtlasonEf Teitur hefði útskýrt það fyrir mér hvað gerði hann að sérfræðingi í undirskriftarsöfnunum af þessu tagi. Ef hann hefði sleppt öllum upphrópununum og sleggjudómum. Ef hann hefði einhvern tímann hlustað á Frosta í öðrum tilgangi en snúa út úr einstaka orðalagi sem andmælandi hans viðhafði.  Ef hann hefði verið málefnalegur í gagnrýni sinni. Ef hann hefði útskýrt tilgang sinn þá gæti hann gert þá kröfu að á hann sé hlustað en í augnablikinu verður hann að horfast í augu við það að hann er búinn að skjóta sjálfan sig út af borðinu sem álitsgjafi sem mark er takandi á

Allt hugsandi fólk ætti að vera búið að sjá í gegnum það að Teitur og Jónas eru ekkert annað en áróðursvélar. Þetta hafa skynsamir og málefnalegir menn sýnt fram á á yfirvegaðan og málefnalegan hátt. Sjá þessa færslu Marinós G. Njálssonar og þessa frá Viggó H. Viggóssyni. Marinó segir á sínu bloggi varðandi það sem Teitur hefur einkum gagnrýnt.

Sumir eru bara ekki stærri persónur en svo, að þeir hafa þörfina til að skemma fyrir öðrum.  Þeir verða að eiga það við sína siðgæðisvitund.  Ekkert ferli stoppar einstakling í þeim eindregna ásetningi sínum að koma fram illum vilja.  Hlutverk öryggisráðstafana í þessu tilfelli er ekki að koma í veg fyrir bullskráningar heldur að uppgötva þær áður en listinn er sendur forseta Íslands.

Viggó bendir á það augljósa þegar hann segir: „Þeir sem halda því fram að aðrar undirskriftasafnanir hafi verið "betri" þurfa að sýna fram á það, ekki dugir að slengja því fram án stuðnings.“ en mig langar til að bæta því við að þó hægt væri að sýna fram á það að aðrar „undirskriftarsafnanir hafi verið betri“ þá teljast það engan vegin gild rök varðandi það að þeir sem standa að baki kjosum.is hafi viðhaft eitthvert svindl.

Teitur hefur hins vegar verið staðinn að slíku sjálfur. Honum virðist nefnilega vera svo umhugað um öryggi skoðanakannanna að hann gleymir að til að koma upp um  „falsarana“ þá gengur ekki að nota fölsuð gögn sjálfur (sjá hér) nema tilgangurinn sé áróður sem getur leitt til múgæsingar...


mbl.is Sjálfstæðismenn í Kópavogi skora á forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að þeir skuli voga sér!

Menn hafa velt því fyrir sér bæði innan og utan veggja alþingishússins hvort sú flýtimeðferð sem Icesave-frumvarpið gengur í gegnum núna stafi af þeim góðu undirtektum sem undirskriftarsöfnunin inni á kjosum.is

Í þessum skrifuðu orðum eru þeir að komast upp í 28.000 sem hafa skrifað undir áskorun til forsetans um að vísa því til þjóðaratkvæðagreiðslu hvort almenningur eigi að greiða Icesave-reikninga Landsbankans. Undirtektir eru framast björtustu vonum en það var þó ljóst strax og undirskriftarsíðan fór í loftið að langstærsti hluti almennings tók henni fagnandi.

Hinir sem hafa hag af dekri stjórnvalda við fjármagnseigendur og stofnanirnar sem þeir stýra hafa reynt að reka alls kyns áróður varðandi þá sem höfðu frumkvæðið að því að koma henni í loftið. Þeirra á meðal er Björn Valur Gíslson sem kallar þá sem standa að baki henni m.a. hægri öfgamann en virðist um leið algerlega fyrirmunað að átta sig á öfgunum í því sem hann stendur fyrir með orðum sínum og gjörðum inni á þingi þessa daganna. (Sjá hér)

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir hefur tekið að sér að benda honum á öfganna í því sem hann gerir sig beran af fyrir framgöngu hans bæði á þingi og öðrum opinberum vettvangi. Jakobína segir m.a: „Fátt hef ég rekist á öfgafyllra um daganna en eindreginn vilja til þess að verða við ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga.

Ég hef starfað í mörgum aðgerðar- og/eða viðspyrnuhópum en engum sem er eins stór og þessi. Það sem vekur sérstaka athygli mína við þennan hóp er það hve fjölbreyttur hann er en um leið fókuseraður á meginmarkið sitt sem er það að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um svo afdrifaríkan samning sem Icesave-samingurinn er. Það er líka annað sem vekur sérstaka athygli mína en það er hversu lýðræðislega meðvitaðir allir í hópnum eru sem kemur best fram í því hvernig við vinnum saman þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, aðstæður og skoðanir til jafnvel annarra þátta sem viðvíkur Icesave.

Auðvitað þarf að hafa fyrir því að koma skoðun sinni að í svona stórum hópi en þannig virkar lýðræðið. Það þarf nefnilega að ræða málin til að komast að niðurstöðu. Slíkt tekur ekki aðeins tíma heldur reynir líka á þolinmæðina oft og tíðum. Þessi vinna er það sem hvert og eitt okkar verður að læra til að við sitjum ekki uppi með spillta stjórnmálamenn sem voga sér að „leggja þjóð sína í klafa fyrir [...] glæpahunda og þjófa.“ Hlustið á þessa áttræðu konu sem ég hef þessi orð eftir en hún hringdi inn á Útvarp Sögu á dögunum og las bæði þingi og þjóð pistilinn:

 

Að lokum vil ég benda öllum að lesa þessa færslu Völu Andrésdóttur. Mig langar mest til að birta hann allan fyrir það hvað hvað hann er kynngimagnaður en ákvað að fara millileiðina og vísa í tvo valda kafla úr þessari kynngimögnuðu færslu hennar:

Hvort núverandi Icesave tilbúningur er örlítið "betri" en einhver fyrri tilbúningur skiptir mig nánast engu máli því ég er einnig þeirrar skoðunar að allir erlendir einkabankaskuldafjötrar sem Alþingi reynir að setja á íslenskan almenning (án þess að skuldaþrælarnir íslensku gefi fyrir því skýrt samþykki með þjóðaratkvæði eða stjórnarskrárbreytingu) eru ekki bara siðlausir heldur ganga þeir þvert á náttúrurétt einstaklinga sem búa í stjórnarformi því sem við köllum lýðveldi.

Náttúruréttur einstaklinga eru hin óafsalanlegu mannréttindi sem við fáum frá skaparanum/náttúrunni.  Í lýðveldi heldur þjóðin þessum grundvallarréttindum utan stjórnvaldsins og því getur stjórnvaldið hvorki veitt þau né tekið.  Þessi grundvallarréttindi saklauss manns til lífs (sem er tími hans á þessari jörð), frelsis og eigna eru þó ekki nema stafur í bók ef ódæmdur einstaklingur getur, án síns samþykkis, verið neyddur af stjórnvaldi til þess að gefa líf sitt og eigir (í hluta eða heild) til aðila sem eru honum réttarfarslega ótengdir.

Pistlinum lýkur hún á þessum sterku lokaorðum:

Ég get ekki spáð fyrir um afleiðingar þess að hafna samningnum en ég tel síðustu mánuði og ár hafa sýnt það að gagnaðilarnir ýkja þær stórum.  Ég tel einnig að þó þær verði slæmar geta þær seint verið jafn slæmar og það fordæmi að hægt sé fyrir vel tengda menn að fara til útlanda, láta greipar sópa, skeina sig á stjórnarskránni og senda skuldirnar á saklausa íslenska skattgreiðendur, börn þeirra og barnabörn. Né heldur það fordæmi að leyfa almannaþjónunum á Alþingi að breyta hinni heilögu goggunarröð íslensks lýðveldis:

1. Skaparinn/Náttúran

2. Maðurinn

3. Stjórnarskráin

4. Stjórnkerfið

Það er alveg sama hvernig Icesave er pakkað inn, innihaldið er alltaf það sama - frekari kollvörpun stjórnarskrárinnar og íslensks lýðveldis í þágu erlends skuldaþrældóms af þriðjaheimsklassanum.  Íslendingar eru betri þjóð en svo að láta jafn blygðunarlaust óréttlæti líðast hvort sem heldur innanlands eða utan.

Versta frelsi er betra en besti þrældómur. (Vala Andrésdóttir (leturbreytingar eru mínar)


mbl.is Gagnrýna leynd um skuldastöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei þýðir NEI. Icesave er glæpur!

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að farin er af stað undirskriftarsöfnun með áskorun á Alþingi um „að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans“ Ef að líkum lætur munu fæstir þar innan veggja hlusta eftir vilja þjóðarinnar og því er líka skorað á forsetann að vísa ákvörðuninni til þjóðarinnar. (Sjá hér)

Það er skemmst frá því að segja að undirtektir hafa verið hreint frábærar. Nú þegar þessar línur eru skrifaðar hafa 5291 skrifað undir þessa áskorun sem þýðir að frá því að það var opnað fyrir undirskriftir hafa nær 200 manns skrifað undir á hverjum klukkutíma. Með sama áframhaldi ætti fjöldinn að vera kominn upp í a.m.k. 10.000 fyrir blaðamannafundinn sem verður haldinn kl 11:00 í Þjóðmenningarhúsinu á morgun. Á þeim fundi verða þeir sem standa á bak við þessa áskorun kynntir.

Það væri nær

Þeir sem stofnuðu til svokallaðra Icesave-skulda eru allir þekktir braskarar og samkvæmt ýtarlegum gögnum, sem fram koma í Rannsóknarskýrslunni og miklu víðar, voru þeir allir afar liðtækir við ýmis konar fjármálamisferli. Því miður virðist lítið lát á! Af þessum sökum er það stórundarlegt hve stjórnmálaelítan sækir það fram af mikilli hörku að koma skuldum þessa glæpagengis yfir á þjóðina.

Ég hef lengi velt því fyrir mér hverju sætir. Það er borðleggjandi að niðurstaðan sem ég hef komist að er tæplega að allra skapi en enn og aftur vísa ég til raka, sem er að finna í Rannsóknarskýrslunni, máli mínu til stuðnings. Þar kemur nefnilega fram besti vitnisburðurinn um þau vafasömu tengsl sem voru/eru á milli stjórnmála- og fjármálaelítunnar. Það er því engan veginn út í hött að halda því fram að stjórnmálamennirnir styðja það að skuldum stjórnenda Landsbankans sé velt yfir á almenning fyrir hreina eiginhagsmunagæslu!

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri en langar til að vísa í aðra færslu sem ég skrifaði um Icesave II þann 6. janúar í fyrra (sjá hér). Undir lok hans sagði ég þetta: 

Að lokum ítreka ég enn og aftur það sem ég hef sagt aftur og aftur með mismunandi orðum: Gamli tíminn er liðinn og af honum hefur nýr tími tekið við! Gömlu aðferðirnar duga ekki til uppbyggingarinnar. Við þurfum hugarfarsbreytingu til að byggja upp það samfélag sem við höfum tækifæri til að reisa okkur og framtíðinni núna.

Hugmyndafræðin sem byggir á sérhagsmunagæslu peningavaldsins er stærsti óvinurinn í þeirri uppbyggingu sem ég er tilbúin til að taka þátt í. Ég vil samfélag þar sem jöfnuður og réttlæti ríkja! Samfélag þar sem ég get snúið mér aftur að hversdagslífinu án þess að hafa stöðugar áhyggjur af því að þeir sem veljast til valda séu að vinna að duldum hagsmunum örfárra útvaldra.

Ég skora á þig sem lest þessar línur að taka afstöðu til þess hvort þú ert tilbúinn til að fórna öllu til viðreisnar samfélagi þar sem fjármálaelítan hefur svo skefjalausan forgang að lífskjör almennings eru skorin niður til örbirgðar til að viðhalda forréttindum hennar á öllum sviðum! Í því sambandi er rétt að minna þig á að með því að samþykkja Icesave verður ríkissjóður keyrður í gjaldþrot. Honum verður boðinn leið til að forða því sem er sú að selja auðlindirnar...

Innskot: Við erum ekki að tala um kvótann því það er búið að tryggja aðlinum í LÍÚ eignarhaldið yfir honum. Það getur því enginn selt hann úr landi nema þeir sjálfir.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstaða þjóðar gegn Icesave

Segjum nei við Icesave!Mig langar til að vekja athygli allra þeirra, sem ýmist fylgjast reglulega með skrifum mínum eða rekast hér inn fyrir tilviljun, á að nú hefur farið af stað undirskriftarsöfnun með áskorun á forsetann um að vísa Icesave III til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjá hér: http://www.kjosum.is/

Þegar þetta er skrifað nálgast þeir sem þegar hafa skrifað undir töluna 500 en undirskriftarlistinn fór í loftið um tíuleytið í gærkvöldi. Vona svo sannarlega að allir skrifi undir og taki líka þátt í að vekja athygli á þessari áskorun.


... skrefinu lengra.

Ég birti eftirfarandi ljóða- eða örtextasafn sem glósu á Fésbókinni minni fyrir nokkrum kvöldum síðan (sjá hér). Viðbrögðin urðu þau að ég ákvað að ganga skrefinu lengra og birta þau líka hérna á blogginu mínu. Það sem gerði útslagið voru ábendingar um mennskuna í þessum textum. Ljóðin eru óbreytt frá því ég birti þau inni á Fésbókinni en ég stytti bæði inngang og lokaorð eitthvað.

                         **************************

Þau hafa ekki gefist mörg andrúmin að undanförnu til að staldra við og og líta til baka en nú er engu að síður runninn upp slíkur tími í lífi mínu að fortíðin bankar á vegginn og vill minna á sig. Spurningar um það hver ég var áður og hvert ég stefndi þá leita á hugann. Svörin sem liggja fyrir koma á óvart vegna þess hvað þau eru í rökréttu samhengi við það sem ég er nú. Lífið er ekki tilviljun og leiðin sem liggur að baki er beinni braut en ég hugði.

Þrenningin

Barnsins bros og blíða
var gleðin mín.
Föðursins fals og flægð
var sorgin mín.
Móðurinnar mildi og minning
var ævin mín.

Fanginn

Gekk yfir akra og tún
í liljuhvítum kjól
en hugur minn var fangi
sem átti ekkert skjól

Liljuhvítur kjóll


Allt um kring

Ég hvíli í fangi stormsins
stari í auga myrkursins
finn frið í ölduróti hafsins
leita svara í hvísli þagnarinnar
hyl mig í voðfelldu líni næturinnar
en vaki í mistri drauma minna

Eina nótt

Sem upplýst stórskip
komstu að landi mínu
sem stjörnublikandi næturhiminn
leið nótt okkar funda
því þar varstu kominn víkingur draumsins
en nærsýni mín truflaði yfirsýnina.
Ég sá ekki brimöldur hafsins
sem stýrðu fleyi þínu til mín
né stjörnuhröp næturinnar.

Nú sit ég á brotinni strönd
græt brimsöltum tárum
í hyldjúpa, einmanna nóttina.
Þú víkingur
hins grimma náttúrueðlis
sem brýtur undir þig lönd
í skjóli myrkurs.
Að morgni ertu farinn
en skilur eftir þig
sviðin og brotin lönd.

Víkingur

Bráð

Tvílitur pardus
læðist að mér í nóttinni.
Gullin glóð skín honum
úr augum þar sem hann
virðir mig fyrir sér.
Hann býður mér
rauðar rósir ástarinnar
- og ég læt blekkjast.
Þá réttir hann mér
svartan bikar sorgarinnar
- og fer.

Heiftarþel

Vopnin eggslegin
í eldi sárra harma
í benjasmiðju
salti drifinni.
Hamarinn á
járninu ymur,
hitað í harmaeldi,
nærður af andvörpum,
kælt í táraelfi.
- Þau vopn munu
þig síðar bíta!

Hefndarþel


Hjartasorg

Hjartað gegnir tregafullum ómi,
hugurinn eyðandi stormi.

Hvarmar blika tárum,
augun tómi.

Varirnar lokaðar í hljóði.

Haust

Á spegilsléttum
roðagylltum
fleti vatnsins
speglaðist flug
svananna
eins og
draumsýn
um haust

Haust


Traust og trú

Ókannaðar lendur hugans
hvísla því að mér
að sorgin sé aðeins
óvelkominn gestur í húsi mínu
að í æðum mínum
ólgi blóðið
til að njóta hamingjunnar
að sársaukinn
sé systir gleðinnar,
að ég sé á réttri leið
- þrátt fyrir allt!

Utangarðs

Ég veit að alríki kvöldsins hefur snúið til sandsins.
Það gerðist fyrir framan hendurnar á mér.

Ég vil skilja við blindu mína og standa stöðug
en að mér sækir einhver undarleg þreyta
og mig svíður í brennimerkta fæturna.

Það er enginn sem býst við mér lengur
og gömlu, tómu strætin eru of daufgerð fyrir drauma mína.

Utangarðs

 
Eitthvað

Eins og fjarlægt hvísl
sem ég get ekki greint
eins og óljóst hugboð
sem ég get ekki höndlað.

Samt er eins og ég viti eitthvað
sem ég get ekki komið orðum að.

Þrá

Löngun mín þráir
og hún vakir

Þó ég gangi til hvílu
vakir hún á meðan ég sef

og bíður mín

Þrá í bið


Þetta er lítil gjöf frá mér til lesenda þessa bloggs en textarnir minna mig á að ég hef alltaf þjáðst af djúpri samkennd og samlíðan vegna ástar minnar á lífinu og fólkinu sem ég hef kynnst. Það er þessi ást sem hefur haldið mér á lífi og knýr mig áfram nú til að berjast gegn því sem ógnar okkur öllum.


Það styttist...

Leaving the ruinsHversu mörg orð er hægt að hafa um það þegar allar manns dekkstu framtíðarspár eru u.þ.b. að rætast? Hvaða orð á maður eftir þegar maður hefur hvað eftir annað hrópað viðvörunarorð um það hvert stefnir án sýni- legs árangurs? Hvað getur maður sagt þegar maður hefur hvað eftir annað hvatt fólk til að standa saman og spyrna við fótum en fæstir nenna?

Sjálfsagt er það fjöldamargt en ég finn engin orð. Ég finn eingöngu fyrir auðninni... Mig langar samt til að benda á það enn einu sinni að mér sýnist að sú leið sem er bent á hér: http://utanthingsstjorn.is/eini björgunarbáturinn sem er í boði frá gerræði mafíunnar sem hefur lagt íslensku stjórnmálaflokkana undir sig.

Haldi fram sem horfir sé ég hins vegar ekki annað fyrir mér en að íslenska þjóðin verði fyrir enn einni blóðtökunni vegna landflótta. Ég er þegar farin að horfa á ákveðinn björgunarbát í þeim tilgangi að fara áður en það verður of seint...


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband