Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Þegar við stöndum í stað miðar okkur bara aftur á bak...
31.5.2009 | 01:12
Mér þykja þau dimm voðaskýin sem hrannast upp á vonarhiminn íslenskrar þjóðar og skyggir svo á framtíðina að hún verður svartari og svartari. Hvað er til ráða? Er það ný bylting? Eigum við að hringja í Sturla og biðja hann að ræsa vörubílinn? eða bændurna og biðja þá að mæta á dráttarvélunum?
Þeir eru margir sem eru strax farnir að naga sig í handarbökin yfir því hvernig þeir vörðu atkvæði sínu í síðustu kosningum og lái ég þeim það ekki. Sumir vilja halda því fram að Jóhönnu Sigurðardóttur sé fjarstýrt en mönnum ber ekki saman um það hver heldur á fjarstýring- unni eða hvort sá sem á heldur er staddur innanlands eða utan.
Eins hef ég heyrt að einhverjir innan Vinstri grænna eigi orðið erfitt með svefn og finnst það ekki skrýtið miðað við það að núverandi ríkisstjórn virðist eingöngu ætla að bjarga þeim sem settu þjóðina á hausinn á kostnað almennings.
Það er engin spurning að mótmæli síðastliðins vetur höfðu áhrif en útkoman sem við horfum upp á núna er alls ekki sú sem ég vænti með stöðu minni í mótmælunum. Ég treysti heldur alls ekki Samfylkingunni til að leiða stjórnarsamstarfið við núverandi aðstæður.
Ég reikna með að allir viti að Jóhanna Sigurðardóttir mætti ekki á einn einasta Borgarafund. Hún hlustaði aldrei á fólkið í landinu sem vildi koma áhyggjum sínum af stjórn og framtíð landsins á framfæri. Samt kusu margir Samfylkinguna vegna hennar! Það má vel vera að hún hafi haldið dyggan vörð um lítilmangann áður en nú þegar hún er komin í forsætisráðherrastólinn, á atkvæðum þeirra sem kusu hana út á manngæsku hennar, þá stendur hún dyggan vörð um fjármálastofnanir landsins eins og fyrirrennarar hennar.
Hún leggur því lið að frumvarp sem eiga að stuðla að réttindum erlendra kröfuhafa séu keyrð í gegnum þingið. Hún lætur drauminn um að koma Íslandi inn í ESB ganga fyrir því að þeir sem rændu og eru enn að ræna þjóðina séu stöðvaðir. Í stuttu máli sagt: Hún stendur vörð um þá sem hafa efni á að kosta kosningarbaráttur stjórnmálamanna og - flokka.
Undanfarinn vetur hafa ótrúlega margir erlendir og innlendir sérfræðingar komið með hugmyndir um það hvernig megi koma íslensku þjóðinni út úr þeirri efnahagskreppu sem fyrrverandi ríkisstjórnir sigldu henni inn í. Þeir hafa sett fram hugmyndir og kenningar sem hefur verið vel tekið af hugsandi einstaklingum vegna þess að þær líta virkilega út fyrir að geta virkað og orðið okkur til bjargar. Í stað þess að hlusta eða þiggja ráð allra þessara sérfræðinga hjakkar núverandi ríkisstjórn í gömlu fari.
Þessu útúrspólaða hjólfari með aðferðum sem hafa verið margreyndar og hafa engu eða litlu skilað eins og hækkunum á jaðarneyslu og svo er það ESB-aðildardraumurinn. Mér sýnist að þeir séu reyndar enn þó nokkrir sem trúi því í alvöru að aðild að ESB sé raunhæfur kostur og slík aðild muni skila Íslendingum einhverri ofurjákvæðri niðurstöðu.
Flestir fylgjendur slíkrar aðildar hafa samt átt í nokkrum erfiðleikum með að útskýra fyrir mér hverju hún á að bjarga því í rökum flestra felst draumurinn um að allt verði eins og var fyrir hrun. Í þeirri staðreynd felast einmitt helstu mótrök mín því samkvæmt mínum skilningi er ESB bara enn stærra nýfrjálshyggjubákn en það sem útrásarvíkingarnir byggðu inni í bönkunum, með alls konar sýndarfyrirtækjum, í skjóli vanhæfra stjórnmálamanna.
Það varð að sjálfsögðu töluverð endurnýjun á þingi í kjölfar síðustu kosninga. Þeir sem leiða stjórnar- samstarfið eru samt af gömlu elítunni enda engar nýjar hugmyndir, engar snjallar eða framsæknar lausnir sem hafa komið þaðan. Ég er komin að þeirri niðurstöðu að gagnrýni mín og fleiri á það sem ríkisstjórn undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur sé ekki spurning um skort á þolinmæði heldur heilbrigð skynsemi...
Þess vegna kref ég þessa ríkisstjórn um það sama og ég krafði þá sem Geir H. Haarde leiddi: Viðurkennið vanmátt ykkar og úrræðaleysi. Rekið gömlu sérfræðingana eða brúðuleikhússtjórana ykkar. Hlustið á alla þá innlendu og erlendu sérfræðinga sem hafa komið fram á sjónarsviðið; sumir m.a.s. fyrir hrun. Það mun leiða okkur öll út úr þessu myrkri sem við erum stödd í núna og forða okkur frá nýrri og að öllum líkindum heiftúðugri byltingu.
Langar að lokum að vekja athygli allra á vefsíðunni Hvítbók!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það borgar sig að standa upp!
28.5.2009 | 02:30
Þvílík heimildamynd! Þvílíkar spurningar sem hún vekur upp! Enda hefur hún unnið til fjölda verðlauna. Ég er að tala um myndina The big sellout sem Lára Hanna vakti athygli okkar á og var sýnd í Ríkisstjónvarpinu í kvöld.
Það eru margar spurningar sem myndin vekur manni en hún gefur líka svör. Hún segir mér a.m.k. að ég á bræður og systur út um allan heim. Hún sagði mér að ég hef ekki áhyggjur af ástæðulausu. Síðast en ekki síst sagði hún mér að það borgar sig að standa upp og segja sína skoðun en það er mikilvægt að við stöndum saman.
Ég grét yfir örlögum heilbrigðisþjónustunnar á Filippseyjum. Ég grét yfir því hvernig er farið með íbúa Soweto og örlögum frelsishetjunnar Bongani. Ég fáraðist yfir einkavæðingu almenningssamgangna í Brigton en ég fylltist líka stolti yfir hetjunum í Cochabamba sem hvikuðu hvergi og unnu vatnsstríðið!
Þegar ég var búin að horfa nokkra stund áttaði ég mig líka á því að á Filippseyjum, í Suður-Afríku og Bólivíu blandaðist AGS inn í þá staðreynd að stjórnvöld seldu opinbera þjónustu í hendur einkaaðilum í þeirri viðleitni að skera niður... Í því samhengi er eðlilegt að spyrja: Hvað blasir við okkur?
Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins reyna að telja okkur trú um að þeir séu saklausir af stefnu stjórnvalda!! Ég neita að hlusta á svoleiðis bull. Þeir hafa krafið ríksstjórnina um að skera niður ríkisútgjöld. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að mæta því? Með því að skera niður í mennta- og heilbrigðiskerfinu! Hversu margar heimildarmyndir þurfum við að sjá til að átta okkur á því hvaða leið verður farin til þess og hvaða afleiðingar hún mun hafa?
Er það framtíðin í heilbrigðiskerfinu að aðeins þeir sem eiga peninga fá almennilega læknisþjónustu eins og rafmangsknúna öndunarvél? Er það framtíðin að þeir einir sem geta borgað skólagjöld, bækur, nettengingu og slíkan kostnað geta tryggt börnum sínum menntun? Getur verið að vatnið verði tekið af okkur nema við látum það líðast að borga fjórðung mánaðartekna okkar fyrir það? Getur verið að við megum búast við því í framtíðinni að vera handtekin fyrir það að safna rigningarvatni?
Ég mæli með því að við tökum frelishetjurnar í Cochabamba okkur til fyrirmyndar og gefumst ekki upp fyrr en fulltrúar Alþjóðagjaldeyrisstjóðsins hafa tekið krumlurnar burt af hálsi íslensks efnahagslífs! Vonandi tekst okkur í leiðinni að endurreisa lýðræðið!!
Ekki benda á mig...
25.5.2009 | 22:13
Það er ekki hægt að láta tækifæri sem þetta líða hjá án þess að birta eina af myndum Halldórs. Myndin sýnir atvik sem sumir halda fram að hafi nánast verið eins og Halldór túlkar það hér. Tengd frétt flytur okkur reyndar fordæmingu Össurar Skarphéðinssonar á kjarnorkutilraunum Norður-Kóreumannna en í lok hennar vísar hann í orð nýja vinarins frá síðastliðnum Natófundi: Ég fagnaði því mjög að Obama Bandaríkjaforseti skyldi lýsa því yfir á leiðtogafundi Nató á dögunum að Bandaríkjamenn ætluðu sér að taka upp nýja stefnu í þessum málum og berjast gegn kjarnorkuvopnum. Það er kannski það sem gekk á þegar Össur fleygði sér í fang Obama en ekki það sem ég hef haldið hingað til.
Össur hefur áður lýst skoðun sinni á því sem á sér stað í Norður-Kóreu en það var 6. apríl sl. Ég skrifaði þetta af því tilefni og er enn sama sinnis.
Ættu frekar að fæða fólk sem lifir við hungurmörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvernig stendur nú á þessu?
23.5.2009 | 16:19
Það er auðvitað vonum seinna að við fáum fréttir af því tagi að húsleit sé hafinn hjá þeim sem þjóðina grunar að hafi sett hana á hausinn. Það er auðvitað líka vonum seinna að þeir sem stýrðu fjármálaumsvifum landsins lóðbeint ofan í botnlaust gynnungagap sæti rannsókn. Mennirnir sem nutu aðdáunar og margs konar verðlauna fyrir einstakt viðskiptavit.
Hér er t.d. brot úr þekktri ræðu sem flutt var í tilefni af því að Sigurður Einarsson og Heiðar Már Sigurðsson tóku við verðlaunum Frjálsrar verslunar sem útnefndi þá menn ársins í íslensku atvinnulífi árið 2005: ÞEIR HLJÓTA ÞENNAN heiður fyrir framúrskarandi hæfni við rekstur bankans, stækkun hans, farsælan feril, athafnasemi og frumkvöðlastarf í útrás íslenskrar bankaþjónustu og þróun íslensks fjármagnsmarkaðar. (Sjá hér).
Þetta sama ár tóku þessir sömu höfðingjar við Útflutningsverðlaunum forseta Íslands. Af því tilefni sagði einn þeirra sem eiga sæti í nefndinni sem velur hver skal hljóta verðlaunin m.a. þetta:
Kaupþing banki fær verðlaunin fyrir þann árangur sem fyrirtækið hefur á skömmum tíma náð á þróuðum mörkuðum erlendis. Fyrirtækið fer fremst í öflugri útrás íslenskra fjármálafyrirtækja og hefur vakið athygli fyrir framsækinn og arðbæran rekstur. Djörfung og dugur einkenna fyrirtækið, starfsmenn þess og stjórnendur. [...]
Í dag er Kaupþing banki hf. stærsti banki landsins og í hópi 10 stærstu banka á Norðurlöndum með starfsemi í tíu löndum og stefnir að því að vera í hópi leiðandi fjárfestingabanka á Norðurlöndum. Í árslok 2004 voru 1606 stöðugildi hjá Kaupþing banka og dótturfélögum, heildareignir fyrirtækisins námu 1534 milljörðum króna og hagnaður bankans eftir skatta nam rúmum 15,7 milljörðum kr. Rúmlega helmingur hagnaðarins á rætur að rekja til starfsemi utan Íslands. (Sjá nánar hér)
Þar sem Sigurður Einarsson og Heiðar Már Sigurðsson hafa verið nefndir hér og ekki síður vegna þess að báðir stýrðu Kaupþingi á þessum uppgangstímum er ekki úr vegi að vekja athygli á þessari frétt hér og líka þessari hér.
En þá að því sem átti að verða meginmál þessarar bloggfærslu en það er að þrátt fyrir þrálátan orðróm um glæpsamlega viðskiptahætti æðstu stjórenda Kaupþings og óbein tengsl ráðamanna í Katar inn í þá samninga er það fyrst nú sem þetta mál er rannsakað. Samkvæmt fréttinni þá má rekja:
Upphaf málsins [...] til bréfs sem Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, sendi til lögreglu en líkt og Davíð upplýsti í Kastljósþætti þann 24. febrúar sl. að fréttir hefðu borist af því að lögreglu hefði borist nafnlaust bréf sem varð til þess að sjeik í Katar og hundruð milljarða tilfærslur á peningum komu upp á yfirborðið. Davíð sagði, að upplýsingarnar hefðu að vísu borist sér nafnlausar en bréfið hefði hann skrifað lögreglunni 2. desember. Þetta hefði valdið breytingum í skilanefndum Kaupþings og víðar.
Ef við miðum við að þetta sé tímasetning þessara upplýsinga þá er liðið hálft ár frá því að vísbendingar sem benda til saknæms athæfis lágu fyrir! Hins vegar er ljóst að allmörgum fannst það liggja beint við að stjórnendur Kaupþings og viðskiptin við háttsetta einstaklinga í Katar sættu rannsókn.
Ég var að spjalla við Svía, ágætan vin minn í Stokkhólmi og fyrrverandi starfsmann Kaupþings þar í borg. Hann sagði mér að hrikalegar sögusagnir væru í gangi um meint "Criminal act" æðstu stjórnenda Kaupþings. Hann sagði að ef sögusagnirnar reyndust réttar, þá væri ekki langt í að Hreiðar Már og félagar hyrfu af yfirborði jarðar með fúlgur fjár. M.a. sagði hann sögusagnirnar segja að fjárfesting arabíska olíufurstans fyrir stuttu síðan í Kaupþingi, væri blekkingarleikur sem stjórnendurnir hefðu sett á svið í samvinnu við Arabann. Svo margir ættu um sárt að binda nú, í viðskiptum sínum við bankann, að æðstu stjórnendur hans gætu sig hvergi hreyft nema í fylgd lífvarða. (Af bloggi Gunnars Th. Gunnarssonar frá 10. október 2008)
M.a. orða getur einhver upplýst okkur hin um það hvar Heiðar Már Sigurðsson er niðurkominn núna? Eða látið Ólafi Þór Haukssyni upplýsingarnar um dvalarstað hans í té.
Unnið úr leitinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Á Austurvöll 23. maí kl. 15:00
22.5.2009 | 22:24
Hagsmunasamtök heimilanna hafa blásið til fundar á Austurvelli. Fundinn vilja þau kalla samstöðufund en í fréttatilkynningu frá þeim segir: Í ljósi þess neyðarástands sem ríkir á Íslandi boða Hagsmunasamtök heimilanna til samstöðufundar á Austurvelli laugardaginn 23.5.2009 kl. 15.00.
Ég trúi ekki öðru en allir séu orðnir vel kunningir þessum samtökum og þeirra góðu baráttu. Annars bendi ég á heimasíðu þeirra þar sem bæði er hægt að skrá sig í samtökin og fylgjast með starfi þeirra.
Ég á bágt með að skilja annað en margir hafi orðið fyrir sárum vonbrigðum yfir stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar og yfir því djúpa skilningsleysi sem þau sýna gagnvart stöðu heimilanna í landinu. Þess vegna hvet ég alla þá sem vettlingi geta valdið til að fjölmenna á Austurvöll á morgun og sýna Hagsmunasamtökum heimilanna og baráttu þeirra samstöðu. Eða eins og stendur í fréttatilkynningu þeirra að taka stöðu með heimilunum.
Ræðumenn fundarins eru eftirtaldir:
- Bjarki Steingrímsson, varaformaður V.R.
- Guðrún Dadda Ásmundardóttir, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
- Ólafur Garðarsson, í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
- Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarstjórnarfulltrúi
Hljómsveitin EGÓ kemur líka fram.
Flytur skýrslu um efnahagsmál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Kemur út á manni tárunum...
22.5.2009 | 03:20
Fordómar, grimmd, græðgi og hvað eina sem hvetur menn til að sýna öðrum yfirgang og óréttlægi vekur mér óhug. Allir þeir sem leggja sitt af mörkum við að vinna gegn því vekja mér hins vegar aðdáun. Fórnfýsi og góðverk sumra þeirra snerta mig svo mjög að það kemur út á mér tárunum. Þannig er það með þessa frétt.
Fréttin hafði vafalaust enn meiri áhrif vegna þess hvernig ég eyddi deginum. Undir þrjú í dag tók ég nefnilega fram bókina Tilræðið sem fjallar um virtan skurðlækni og konu hans sem eru búsett í Tel Aviv. Bæði eru palestínsk að uppruna en ísraelskir ríkisborgarar.
Skurðlæknirinn sem hefur helgað líf sitt því að bjarga mannslífum verður fyrir margföldu áfalli einn daginn þegar það kemur í ljós að eiginkona hans ber ábyrgð á sjálfsmorðs- sprengingu þar sem nokkrir tugir annaðhvort slasast alvarlega eða deyja.
Þessi bók er algjör demantur. Ekki aðeins vegna þess að hún varpar ljósi á örvæntingu kúgaðrar þjóðar jafnt á þá sem grípa til örþrifaráða og hina sem heldur vilja líkna og lækna. Heldur ekki síður vegna þess djúpa mannskilnings sem hún endurspeglar.
Karl Emil Gunnarsson þýðir þessa bók og finnst mér ástæða til að hæla honum sérstaklega fyrir þýðinguna. Texti bókarinnar snart mig oft og tíðum ekkert síður en innihaldið. Þessi málsgrein er ágætt dæmi um snilld þýðandans: Hótarnir hans brotna á grynningum skilningsleysis míns.
Ég ljóstra í raun engu upp um endirinn þó ég vitni líka í hann til að undirstrika enn frekar hvernig textinn, mannskilningurinn sem hann speglar og innihaldið vinna saman að því að gera þessa sögu að þeim demanti sem hún er í mínum augum. Þar segir: Þeir geta tekið allt sem þú átt - eigur þínar, bestu árin, alla gleði þína, síðustu spjörina - en þú átt alltaf drauma þína svo að þú getir endurskapað veröldina sem þeir stálu frá þér.
Mig langar líka til að segja ykkur svolítið frá höfundi þessarar bókar en nafnið Yasmina Khadra er dulnefni Mohammeds Moulessehoul.
Mohammed var hershöfðingi í alsírska hernum og skrifaði sex bækur undir eigin nafni til ársins 1988. Þá setti herinn honum skilyrði; annað-hvort hætti hann að skrifa eða öll handrit hans yrðu ritskoðuð af hernum. Mohammed sætti sig við hvorugan kostinn og hóf að skrifa undir nafni eiginkonu sinnar. Þegar Mohammed gat hætt í hernum árið 2001 fluttist hann til Frakklands og svipti hulunni af Yasminu Khadra. (Sjá vefsíðu Forlagsins sem er útgefandi bókarinnar á íslensku)
Tilræðið er níunda bók Yasninu Kadra og kom fyrst út á frönsku árið 2005. Veit ekki hvort það orki sem meðmæli í hugum allra en ég las þessa sögu meira og minna með tárvotar kinnar... Mér finnst hins vegar að allar sögur eigi að hreyfa við tilfinningum lesenda sinna og þess vegna mæli ég hiklaust með þessum bókmenntagimsteini!
Fótalaus en kom gangandi heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Getur breytt miklu!
19.5.2009 | 01:24
Sólin um helgina lýsti aðeins upp sálarmyrkrið en veðrið í dag minnti óþyrmilega á staðsetningu landsins. Eyjafjörðurinn lokaður af skýjum og norðanvindi. Það bárust þó hlýir straumar úr suðvestrinu á öldum ljósvakans af verðrinu á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir af nýsettu þingi voru minna hlýir. Sumir a.m.k.
Stefnuræða forsætisráðherra var eins og við var að búast nema kannski heldur verri. Ég tek undir með honum að það er vor í lofti í náttúrunni en ég fann ekki fyrir neinu nema köldum haustnæðingi í málflutningi Jóhönnu Sigurðardótur, því miður. Ferskleiki vorsins var þó að finna í ræðum sumra ungliðanna á komandi þingi.
Það er greinilegt að þeir eru þó nokkrir sem taka undir það. Ræður Birgittu Jónsdóttur og Þórs Sarris vekja greinilega vorlyfta von í brjóstum margra sem á þau hlýddu. Ég heyrði ekki ræðu Birgittu en vona að hún birti hana á blogginu sínu eins og Þór hefur þegar gert. Er reyndar vongóð um að hún birtist von bráðar á bloggi Láru Hönnu Einarsdóttur ásamt fleirum.
En aðeins að ræðu Þórs sem segir margt afar skynsamlegt í ræðu sinni. Hann er greinilega með fókusinn rétt stilltan þegar hann undirstrikar að brýnast [er] að takast á við vanda heimilanna, fyrirtækjanna og skuldir ríkissjóðs. Í þessi verkefni ber að nota vinnutíma sumarþingsins. (Þeim, sem heyrðu ekki ræðu Þórs eða hafa ekki lesið hana enn, bendi ég hingað).
Áður en ég lýk þessum stuttu (og e.t.v. hálfstefnulausu) skrifum langar mig til að segja frá því að N4 - Sjónvarp Norðulands hefur tekið aftur til starfa. Ég og Björk Stefánsdóttir vorum þar í viðtali hjá Birni Þorlákssyni í Föstudagsþættinum sl. föstudag. Eins og þeir sem hafa fylgst reglulega með þessu bloggi vita tókum við báðar virkan þátt í að undirbúa og stýra borgarafundunum hér á Akureyri ásamt Sigurbjörgu Árnadóttur.
Það var líka skemmtilegt viðtal við Hlyn Hallsson, í Föstudagsþætti Björns Þorlákssonar á N4 sl. föstudag, um bindisskylduna o.fl. úreltar hefðir sem hann setti spurningarmerki við á sínum tíma sem varaþingmaður Steingríms J. Sigfússonar og sumir þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa endurvakið nú. Ég ætla að bæta því við hér að það er eindregin skoðun mín að þjóðin fari á mis við mikið að Hlynur skuli ekki vera einn þeirra sem tóku sæti inni á Alþingi í dag!
Viðtalið við Hlyn Hallsson er að finna hér en viðtalið við okkur Sóleyju er hér.
Vilja afnema verðtryggingu og leiðrétta lán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nauðsynlegt að setja sig inn í ESB-umræðuna
18.5.2009 | 03:43
Mig langar til að vekja athygli á umræðufundi sem haldinn verður á svokölluðu Háskólatorgi (sal HT 101) þriðjudaginn 19. maí kl 12:00-13:15.
Framsögu hefur norski sérfræðingurinn Dag Seierstad. Jostein Lindland, framkvæmdastjóri, svarar síðan fyrirspurnum ásamt Seierstad. Frjálsar umræður eftir því sem tíminn leyfir.
- Af hverju höfnuðu Norðmenn ESB-aðild tvívegis?
- Hvað geta Íslendingar lært af reynslu Norðmanna?
- Hvaða undanþágur fengu Norðmenn frá meginreglum ESB?
- Hver voru samningsmarkmið Norðmanna?
- Fer fylgi í Noregi við ESB-aðild vaxandi eða minnkandi?
Þeir sem standa að fundinum er Heimssýn, sem er hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, en þeir eru með heimasíðu sem er að finna hér. Ég fékk þessa tilkynningu af því ég er félagi í hópi inni á Facebook.com sem heitir Ísland ekki í ESB! Þeir sem eru á móti aðild að ESB vita væntanlega líka allir af síðunni ósammála.is, ekki satt? Þegar þetta er skrifað hafa 4999 einstaklingar skrifað undir yfirlýsinguna sem þar er að finna:
Við undirrituð erum ósammála þeim málflutningi að innganga í Evrópusambandið sé leiðin til þess að koma efnahagsmálum Íslands aftur í réttan farveg. Við teljum að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið sem sjálfstæðri þjóð utan sambandsins.
Við viljum að umræðan um Evrópumál fari fram á upplýstan og málefnalegan hátt en ekki með upphrópunum og hræðsluáróðri. Okkur þætti ákjósanlegast að sátt næðist meðal þjóðarinnar áður en farið væri í aðildarviðræður en ef tekin yrði ákvörðun um að sækja um inngöngu í Evrópusambandið er lágmarkskrafa að það gerðist með yfirveguðum hætti en ekki í flýti.
Það er ennfremur skoðun okkar að ef til þess kæmi að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið sé það eðlileg krafa að aukinn meirihluta kjósenda þurfi til þess að hún nái fram að ganga. Ekki sé ásættanlegt að slíkt hitamál yrði samþykkt einungis með naumum meirihluta.
Hins vegar eru 14932 skráðir á vefinn sammala.is en þar segir:
Við erum sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru. Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.
Um þetta erum við sammála þrátt fyrir að vera hópur fólks með margar og ólíkar skoðanir um flest annað. Við erum sammála hvert á eigin forsendum og höfum fyrir því okkar eigin ástæður og rök.
Við erum sammála um að aðildarsamning á að bera undir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá munum við, eins og aðrir Íslendingar, gera endanlega upp hug okkar um hvort við erum enn sömu skoðunar og fyrr og greiða atkvæði í samræmi við það.
Við erum sammála um að ríkisstjórnin sem tekur við völdum að loknum kosningum 25. apríl eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að ESB.
Þó ég sé sjálf ósammála þeirri stefnu sem íslensk stjórnmál hafa tekið í dag þá er ljóst að það verður ekki hjá því komist að setja sig vel og vandlega inn í ESB-umræðuna. Ég er búin að finna bloggara sem ég fylgist reglulega með í þeim tilgangi að halda mér upplýstri. Það er Frosti Sigurjónsson og mæli ég hiklaust með hans vandaða bloggi í þessum tilgangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nauðsynlegt að ryðja sumrinu braut...
18.5.2009 | 00:49
Veturinn í náttúrunni hefur vikið fyrir sumrinu en frostið sem skall á síðastliðið haust í efnahagslífinu ríkir enn og þíðan virðist því miður alllangt undan. Sá samtakamáttur sem birtist í mótmælum almennings í vetur markaði þó ákveðin spor... Það er í raun ótrúlegt að sjá og upplifa hvað varð til í þeirri grasrót sem sá samtakamáttur grundvallaði.
Ég er enn að uppgötva sumt og verður kannski seint eða aldrei fullkomlega talið. Í dag rakst ég t.d. á þetta myndband Skúla Arasonar. Myndband sem boðar nauðsynlegar breytingar. Þær vorleysingar sem verða að eiga sér stað í íslensku stjórnmála- og efnahagslífi áður en sumarið tekur við á þeim vettvangi líka.
Lántakar með frystingu inn í sumarið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svarið við spurningunni: Hvernig gat þetta gerst?
12.5.2009 | 00:12
Hilda var bareigandi í Berlín. Til þess að auka veltuna ákvað hún að leyfa dyggum viðskiptavinum sem flestir voru atvinnulausir alkar að drekka út á krít.
Hún skráði allt sem drukkið var í þykkan kladda. Þegar þetta þægilega fyrirkomulag spurðist út þá flykktust nýir viðskiptavinir á barinn. Frelsi fólks til þess að njóta augnabliksins og borga seinna gaf Hildu valið tækifæri til þess að hækka verðið á vinsælustu veigunum; bjór og brennivíni.
Salan jókst gífurlega. Ungur og efnilegur lánafulltrúi í hverfisbankanum gerði sér grein fyrir að þessar skuldir viðskiptavinanna væru framtíðarverðmæti. Hann hækkaði því yfirdráttarheimild Hildu í bankanum. Lánafulltrúinn taldi þetta vandræðalaust vegna þess að skuldir alkanna væru haldgóð veð.
Í höfuðstöðvum bankans breyttu sérfræðingar í æðri peningalist þessum viðskiptaskuldum í drykkjuskuldabréf, alkabréfavafninga og gubbuafleiður. Þessi verðbréf sem virt áhættumatsfyrirtæki stimpluðu (gegn þóknun) AAA-gæðastimpli gengu síðan kaupum og sölum út um allan heim. Raunverulega skildi enginn hvað nöfn bréfanna þýddu eða hvernig þau væru tryggð. Samt sem áður héldu þau áfram að hækka. Þau urðu metsöluvara.
Einn góðan veðurdag, þrátt fyrir að bréfin væru enn á uppleið, þá ákvað áhættusérfræðingur bankans að nú væri tímabært að drykkjurútarnir á bar Hildu myndu borga eitthvað upp í skuldirnar. Þeir gátu það hins vegar ekki. Hilda gat því ekki staðið í skilum við sína skuldunauta og lýsti yfir gjaldþroti.
Drykkju- og alkabréfin féll um 95%. Gubbubréfin náðu ekki stöðugkeika fyrr en eftir 80% fall. Nýr veruleiki blasti við hjá fyrirtækjunum sem seldu barnum á lánakjörum og höfðu jafnvel fjárfest líka í fyrrnefndum bréfum. Heildsalan sem seldi Hildu brennivínið varð gjaldþrota en fyrirtækið sem seldi bjórinn var yfirtekið af keppinauti.
Eftir dramatísk fundahöld og andvökustundir sem stóðu samfleytt í marga sólarhringa þá ákváðu stjórnvöld að bjarga bankanum. Til þess varð að hafa upp á ábyggilegum greiðendum...
Það var því ákveðið að bindindismenn myndu borga brúsann!
Hilda var bareigandi í Berlín. Til þess að auka veltuna ákvað hún að leyfa dyggum viðskiptavinum sem flestir voru atvinnulausir alkar að drekka út á krít.
Hún skráði allt sem drukkið var í þykkan kladda. Þegar þetta þægilega fyrirkomulag spurðist út þá flykktust nýir viðskiptavinir á barinn. Frelsi fólks til þess að njóta augnabliksins og borga seinna gaf Hildu valið tækifæri til þess að hækka verðið á vinsælustu veigunum; bjór og brennivíni.
Salan jókst gífurlega. Ungur og efnilegur lánafulltrúi í hverfisbankanum gerði sér grein fyrir að þessar skuldir viðskiptavinanna væru framtíðarverðmæti. Hann hækkaði því yfirdráttarheimild Hildu í bankanum. Lánafulltrúinn taldi þetta vandræðalaust vegna þess að skuldir alkanna væru haldgóð veð.
Í höfuðstöðvum bankans breyttu sérfræðingar í æðri peningalist þessum viðskiptaskuldum í drykkjuskuldabréf, alkabréfavafninga og gubbuafleiður. Þessi verðbréf sem virt áhættumatsfyrirtæki stimpluðu (gegn þóknun) AAA-gæðastimpli gengu síðan kaupum og sölum út um allan heim. Raunverulega skildi enginn hvað nöfn bréfanna þýddu eða hvernig þau væru tryggð. Samt sem áður héldu þau áfram að hækka. Þau urðu metsöluvara.
Einn góðan veðurdag, þrátt fyrir að bréfin væru enn á uppleið, þá ákvað áhættusérfræðingur bankans að nú væri tímabært að drykkjurútarnir á bar Hildu myndu borga eitthvað upp í skuldirnar. Þeir gátu það hins vegar ekki. Hilda gat því ekki staðið í skilum við sína skuldunauta og lýsti yfir gjaldþroti.
Drykkju- og alkabréfin féll um 95%. Gubbubréfin náðu ekki stöðugkeika fyrr en eftir 80% fall. Nýr veruleiki blasti við hjá fyrirtækjunum sem seldu barnum á lánakjörum og höfðu jafnvel fjárfest líka í fyrrnefndum bréfum. Heildsalan sem seldi Hildu brennivínið varð gjaldþrota en fyrirtækið sem seldi bjórinn var yfirtekið af keppinauti.
Eftir dramatísk fundahöld og andvökustundir sem stóðu samfleytt í marga sólarhringa þá ákváðu stjórnvöld að bjarga bankanum. Til þess varð að hafa upp á ábyggilegum greiðendum...
Það var því ákveðið að bindindismenn myndu borga brúsann!
Skattar svipaðir og 2005-2007 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)