Kemur út á manni tárunum...

Fordómar, grimmd, græðgi og hvað eina sem hvetur menn til að sýna öðrum yfirgang og óréttlægi vekur mér óhug. Allir þeir sem leggja sitt af mörkum við að vinna gegn því vekja mér hins vegar aðdáun. Fórnfýsi og góðverk sumra þeirra snerta mig svo mjög að það kemur út á mér tárunum. Þannig er það með þessa frétt.
Tilræðið eftir Yasmina Khadra
Fréttin hafði vafalaust enn meiri áhrif vegna þess hvernig ég eyddi deginum. Undir þrjú í dag tók ég nefnilega fram bókina Tilræðið sem fjallar um virtan skurðlækni og konu hans sem eru búsett í Tel Aviv. Bæði eru palestínsk að uppruna en ísraelskir ríkisborgarar.

Skurðlæknirinn sem hefur helgað líf sitt því að bjarga mannslífum verður fyrir margföldu áfalli einn daginn þegar það kemur í ljós að eiginkona hans ber ábyrgð á sjálfsmorðs- sprengingu þar sem nokkrir tugir annaðhvort slasast alvarlega eða deyja.

Þessi bók er algjör demantur. Ekki aðeins vegna þess að hún „varpar ljósi á örvæntingu kúgaðrar þjóðar – jafnt á þá sem grípa til örþrifaráða og hina sem heldur vilja líkna og lækna.“ Heldur ekki síður vegna þess djúpa mannskilnings sem hún endurspeglar. 

Karl Emil Gunnarsson þýðir þessa bók og finnst mér ástæða til að hæla honum sérstaklega fyrir þýðinguna. Texti bókarinnar snart mig oft og tíðum ekkert síður en innihaldið. Þessi málsgrein er ágætt dæmi um snilld þýðandans: „Hótarnir hans brotna á grynningum skilningsleysis míns.“

Ég ljóstra í raun engu upp um endirinn þó ég vitni líka í hann til að undirstrika enn frekar hvernig textinn, mannskilningurinn sem hann speglar og innihaldið vinna saman að því að gera þessa sögu að þeim demanti sem hún er í mínum augum. Þar segir: „Þeir geta tekið allt sem þú átt - eigur þínar, bestu árin, alla gleði þína, síðustu spjörina - en þú átt alltaf drauma þína svo að þú getir endurskapað veröldina sem þeir stálu frá þér.“

Mig langar líka til að segja ykkur svolítið frá höfundi þessarar bókar en nafnið Yasmina Khadra er dulnefni Mohammeds Moulessehoul. 

Mohammed var hershöfðingi í alsírska hernum og skrifaði sex bækur undir eigin nafni til ársins 1988. Þá setti herinn honum skilyrði; annað-hvort hætti hann að skrifa eða öll handrit hans yrðu ritskoðuð af hernum. Mohammed sætti sig við hvorugan kostinn og hóf að skrifa undir nafni eiginkonu sinnar. Þegar Mohammed gat hætt í hernum árið 2001 fluttist hann til Frakklands og svipti hulunni af Yasminu Khadra. (Sjá vefsíðu Forlagsins sem er útgefandi bókarinnar á íslensku)

Tilræðið er níunda bók Yasninu Kadra og kom fyrst út á frönsku árið 2005. Veit ekki hvort það orki sem meðmæli í hugum allra en ég las þessa sögu meira og minna með tárvotar kinnar... Mér finnst hins vegar að allar sögur eigi að hreyfa við tilfinningum lesenda sinna og þess vegna mæli ég hiklaust með þessum bókmenntagimsteini!


mbl.is Fótalaus en kom gangandi heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband