Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Forgangsverkefni!
5.4.2009 | 15:44
Það sannast alltaf betur og betur hve vanhæf síðasta ríkisstjórn var í raun og veru. Það var því mikið þarfaverk að hrópa hana niður. Áður en lengra er haldið verð ég að taka það fram að sú ríkisstjórn sem tók við af þeirri síðustu hefur staðið sig vel í einhverjum málum en þeir eru jafnhugmyndalega gjaldþrota gagnvart stærsta vandamáli þjóðarinnar og sú á undan.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að það eru mörg verk að vinna í endurreisnarstarfinu eftir niðurrifsstarfssemi undangegninna áratuga. Ég geri mér líka grein fyrir því að það verður ekki unnið á einum degi. Það eru þó forgangsröðunin og áherslurnar sem ég gagnrýni.
Ég er sammála sumu því sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á en þó er tvennt sem ég get ekki sætt mig við. Í fyrsta lagi ætti hún að segja samningnum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn upp og senda fulltrúa hans til síns heima og í öðru lagi að setja björgun heimilanna í fyrsta sæti. Ef einhver efast um þessa forgangsröðun ættu þeir að hlusta á erlendu sérfræðingarnir sem komu fram í Silfri Egils í dag.
Þeir fullyrtu að sú forgangsröðun sem íselnskur almenningur líður nú þegar fyrir sé eftir kokkabókum sjóðsins en það líka að hún ætti eftir að leiða okkur inn í miklu verri neyð en þá sem við þekkjum nú þegar. Í mínum eyrum hljómaði það sem þessir sérfræðingar sögðu þannig að í raun væru hugmyndafræði sjóðsins að leiða þjóðina til helvítis í boði stjórnvalda.
Ég trúi því hreinlega ekki að það sé ætlun íslenskra stjórnvalda en þetta undirstrikar það að fulltrúar hennar þurfa nauðsynlega að læra að hlusta! Er þetta ekki einmitt það sem svo margir mótmælendur hafa haldið fram. Fyrst stjórnvöld eru ekki tilbúin til að hlusta á okkur þá verða þeir að hlusta á sérfræðingana sem komu fram í Silfrinu í dag.
Ég vona líka að þeir læri af þessu og leiti sér ráðgjafar í erfiðum aðstæðum í framtíðinni en ani ekki áfram eins og einhverjir vitleysingjar eins og reyndin hefur verið í mörgum viðbrögðum stjórnvalda á undanförnum áratugum. Stjórnmálamenn sem vilja telja almenningi trú um að þeir séu starfi sínum vaxnir verða hreinlega að vanda sig betur og leita álits sérfræðinga áður en þeir taka afdrifaríkar ákvarðanir.
Kjósendur verða líka að taka ábyrgð í kjörklefunum. Ég trúi því ekki að nokkur treysti sér til að styðja þá til áframhaldandi stjórnmálaþátttöku sem annaðhvort skrifuðu undir samninga af því tagi sem hér um ræðir eða þá sem þora ekki að segja samningum hreinlega upp.
Eftir að hafa hlustað á þá Micheal Hudson og John Perkings þá ætti hverjum sem lætur sér annt um hag íslensku þjóðarinnar að vera það ljóst hve bráðnauðsynlegt það er að segja samningnum sem gerður var við AGS upp og það á stundinni. Við þurfum að snúa okkur að öðru en þeirri gölnu forgangsröðun að setja fjármálastofnanir skilyrðislaust í fyrsta sætið. Við erum líka farin að finna tilfinnanlega fyrir því hvað slík forgangsröðun kostar okkur.
Ég reikna með að ástandið sé þannig í dag að hver einn og einasti Íslendingur þekki einhvern nákominn sem er atvinnuluaus. Allir sem hafa tekið lán standa frammi fyrir því að láninn þeirra hafa hækkað umtalsvert á undanförnum mánuðum. Hver einn og einasti hefur líka fundið það á eigin pyngju hvernig vöruverðið hefur stigið upp á við á örfáum mánuðum.
Mig langar líka að nota tækifærið og vekja athygli á því sem Jón Helgi Egilsson sagði í Silfrinu um að vaxtastefnan sem hefur viðgengist hér um langan tíma sé í raun þennslustefna eða með öðrum orðum þá stuðli háir vextir að þennslu í stað þess að ráða niðurlögum hennar. Fyrir þessu færði hann líka mjög góð rök. Ég á ekki í miklum vandræðum með að kaupa þetta miðað við efnahagsþróuninni hér á landi á síðustu árum.
Mér sýnist það ljóst að forgangsverkefnin séu þessu: Byrja á því að sparka AGS og setja svo heimilin í fyrsta sætið!
Borgarafundur: Við viljum breytingar!
5.4.2009 | 07:49
Það var upplifun að vera viðstaddur síðasta borgarafund hér á Akureyri. Ástæðan er einfaldlega sú að í pallborði voru efstu menn á þeim listum sem munu bjóða fram til næstu alþingiskosninga hér í kjördæminu. Umræddur fundur var haldinn í Deiglunni síðastliðið laugardagskvöld og má með sanni segja að það var afar athyglisvert að fylgjast með pallborðinu en ræðumenn kvöldsins voru líka eftirtektarverðir.
Fundurinn var þannig skipulagður að fyrst tóku til máls tveir framsögumenn. Þeir voru: Margrét Ingibjörg Ríkharðsdóttir og Jón Þorvaldur Heiðarsson. Fundarstjóri var Edward H. Huijbens. Framsögumennirnir voru báðir alveg frábærir og í rauninni synd að hvorugur þeirra skuli ekki vera á leiðinni inn á þing.
Margrét eða Magga Rikka, sem er þroskaþjálfi og forstöðumaður Hæfingarstöðvarinnar, tók fyrst til máls. Ræða hennar fylgir sem viðhengi neðst með þessari færslu.
Magga Rikka byrjaði ræðu sína með örstuttri kynningu á sjálfri sér. Þar sagði hún m.a: Ég lifi sennilega nokkuð hefðbundnu lífi. Bý í sjáfstæðri búsetu, þ.e. ég bý með manni sem ég hef sjálf kosið að búa með.
Síðan fór hún yfir stöðuna í samfélaginu eins og hún horfir við henni og setti fram kröfu sem eflaust margir geta tekið undir með henni þar sem hún sagði: Ég vil að svokallaðar eignir svokallaðra auðmanna verði sóttar. Ég vil að svokallaðar eigur þeirra verði notaðar til að rétta hallann.
Í framhaldinu kom hún víða við og ræddi meðal annars um umbætur hvað varðar menntunar-, heilbrigðis- og atvinnumál. Hún vék líka að því sem er hvað háværast í umræðum almennings í dag eða vanda heimilanna með eftirfarandi orðum:
Það er ljóst að það fólk sem átti peninga í svokölluðum sjóðum bankanna og kaus að fjárfesta í þeim hefur verið að fá sitt bætt. Finnst þeim sem valdið hafa fengið frá okkur ekki ástæða til, að þeir sem ákváðu að festa fé sitt í þaki yfir höfuðið, sé bætt það tap sem þeir hafa orðið fyrir, og á ég þá við með raunverulegum hætti? Ekki með því að lengja í hengingaról fólks.
Á dögunum fengu tveir bankar verðtryggð lán með 2ja% vöxtum. Ég væri alveg til í að fá slíka fyrirgreiðslu. Þá gæti ég borgað upp höfuðstól t.d. húsnæðislánsins míns og verðið með lán á hagstæðari vöxtum en ég er með í dag.
En það sem ég vil er að höfuðstóll verðtryggðra lána verði færður niður. Fyrst í stað verði verðtrygging leiðrétt til samræmis við það sem hún var áður en bankarnir fóru að fella gengið ársfjórðungslega sér í hag. Sem síðan jók á verðbólguna sem við almennir félagar í samfélaginu höfum sjálfsagt fundið hvað mest fyrir. Síðan vil ég svo sjá verðtygginuna afnumda með öllu. Það ætti nú ekki að vera vandamál, því það virðist vera áhugamál allra stjórnmálalokka.
Undir lok ræðu sinnar vék Magga Rikka að því þegar hérlend stjórnvöld lögðu blessun sína yfir innrássina í Írak í nafni þjóðarinnar án þess að spyrja hana álits. Í því sambandi sagði hún að hún vildi að íslenska þjóðin lýsi sig algjörlega hlutlausa í öllum stríðsrekstri. Við sem friðelskandi þjóð getum ekki lagt blessun okkar yfir fjöldamorð á saklausum borgurum, jafnvel ekki á snargölnum stjórnvöldum.
Í lok ræðunnar sagði Magga það sína skoðun að hér ætti að stofna til Stjórnlagaþings sem væri valið til með slembiúrtaki.
Jón Þorvaldur, sem er lektor og sérfræðingur við Ransóknarstofnun Háskólans á Akureyri, flutti líka afar athyglisverða framsögu. Hann byrjaði á því að velta því upp hvernig hið nýja Ísland ætti að líta út.
Hann benti á að í dag væri framkvæmdavaldið of sterkt. Það réði í reynd þinginu sem kemur m.a. fram í því að oft eru aðeins tveir ráðherrar sem hafa komið að hverju frumvarpi sem lagt er fyrir þingið.
Framkoma framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu hefur gegnsýrt samfélagði að mati Jóns Þorvaldar. Framkvæmdarvaldið hér á landi hefur jafnvel tekið að sér hlutverk dómsvaldsins.
Jón Þorvaldur lagði hins vegar áherslu á þrískiptingu valdsins og kom með tillögur í því efni. Það eru þingmenn sem eiga að setja lög en framkvæmdarvaldið á að framfylgja þeim. Hann benti á að það væri miklu eðlilegra að fosetinn skipaði dómara í embætti en þeir væru ráðherraskipaðir.
Með því fyrirkomulagi myndu forsetakosningar líka fara að skipta einhverju máli. Forsetinn þyrfti að setja sér skýra stefnu í sambandi við það hvernig hann skipaði í starf dómara. Ef þjóðinni líkaði ekki stefna hans eða framkvæmd í þeim efnum þá greiddu kjósendur honum ekki atkvæði.
Jón Þorvaldur benti á að hér hefðu verið gerð afglöp í efnahagsmálum af hálfu ríkisvaldsins sem sýndu sig í því að þeir hefðu ýtt undir þennsluna í samfélaginu í stað þess að hvetja til aðhalds. Þess vegna hefði farið eins og fór og þess vegna væri af engu að taka núna.
Í lok ræðu sinnar vék Jón Þorvaldur líka að hugmyndinni um stjórnlagaþing. Hann benti á að núna væri besti tíminn til að vinna að breytingum á stjórnarskránni. Núna væru líka margir sem hefðu góðan tíma til að vinna að henni. Hann sagði að hann treysti ekki fjórflokknum eða flokksræðinu fyrir stjórnarskránni.
Í pallborði voru eftirtaldir: Hjálmar Hjálmarsson fyrir Borgarahreyfinguna, Kristján Þór Júlíusson fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Ásta Hafberg Sigmundsdóttir fyrir Frjálslynda flokkinn, Höskuldur Þórhallsson fyrir Framsóknarflokkinn, Kristján Möller fyrir Samfylkinguna og Steingrímur J. Sigfússon fyrir Vinstri græna.
Það var greinilegt að ræður framsögumannanna vakti athygli þessara forystumanna flokkanna enda kepptust þeir við að punkta hjá sér margt að því sem kom fram í máli framsögumannanna. Vonandi halda þeir þessum punktum til haga og taka tillit til þeirra. Ég vona líka að þeir hafi tekið sérstaklega eftir því sem kom fram í máli þeirra beggja í sambandi við stjórnlagaþingið.Framantaldir fengu tækifæri til að bregðast við því sem kom fram í máli framsögumannanna. Steingrímur byrjaði. Hann fagnaði sérstaklega því sem kom fram í máli Jóns Þorvaldar um skattahækkanir í þennslu. Að hans mati munu kosningarnar framundan snúast um uppgjör við hrunið ekki síður en framtíðina.
Kristján Möller lagði áherslu á að við hefðum fengið fortíðina í hausinn á okkur. Höskuldur vék sérstaklega að umræðunni um stjórnlagaþingið sem hann vildi meina að yrði að berjast fyrir. Hann taldi að það tækist ekki að fá því framgengt nema með byltingu.
Ásta Hafberg benti á að það hefði skort að gera langtímaáætlun fyrir þjóðina. Hún undirstrikaði að nú þyrftu kjósendur að velja eitthvað nýtt í stað þess gamla sem hefði brugðist henni. Hún undirstrikaði að vandi heimilanna væri brýnasta málefnið í hennar augum og lagði áherslu á að það yrði m.a. að afnema verðtrygginguna í þeim tilgangi að koma til móts við heimilin í landinu.
Kristján Þór sló á létta strengi þó honum væri greinilega fúlasta alvara þegar hann benti á að framsóknar- og samfylkingarmenn hefður ekki efni á að skammast út í Sjálfstæðisflokkinn og kenna honum um allt sem aflaga fór. Þeir yrðu líka að horfast í augu við það að þeir hefðu báðir verið samstarfsaðilar Sjálfstæðisflokksins á liðnum árum. Hann tók svo undir orð Steingríms að í raun hefðu Vinstri grænir einir efni á að skamma Sjálfstæðisflokkinn.
Að hans mati er það náttúrulögmál efnahagsmálanna að ganga í hæðum og lægðum. Efnahagslífið hefði náð óvenju mikilli hæð á liðnum árum og henni fylgir þessir erfiðu tímar sem við erum að ganga í gegnum núna.
Hjálmar ákvað að fá svolítið persónulegt svigrúm, eins og hann orðaði það, og kom upp í pontu til að bregðast við framsögunum og því sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna höfðu lagt til málanna fram að þessu. Hann benti á að fjórflokkarnir séu eiginhagsmunasamtök sem vinna aðeins fyrir flokkinn og eigendur þeirra. Hann ítrekaði að hér þyrfti að tryggja nýtt lýðræði sem gætti hagsmuna þjóðarinnar. Til þess að það mætti takast þyrfti að koma á virku lýðræði þar sem þrískipting valds væri tryggt.
Hann benti á spillingu síðastliðinna ára í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins þar sem hann hefði nýtt sér aðstöðuna og lagt undir sig löggjafarvaldið, framkvæmarvaldið og dómsvaldið auk fjórða valdsins sem eru fjölmiðlar. Þessa spillingu þyrfti að uppræta til að bjarga íslensku samfélagi. Það þyrfti að bjarga heimilunum, atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunum, lífeyrissjóðunum, bönkunum og stjórnmálaflokkunum og það þurfi að gerast núna.
Að þessu loknu var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal. Þar bar margt á góma. Þar var spurt um hryðjuvekalögin, endurskilgreiningu á eignahugtakinu, viðbrögð við vanda heimilanna, afstöðuna til ESB og ýmislegt sem varðar kosningalöggjöfina svo eitthvað sé talið.
Þeir sem sátu í pallborði virtust allir vera sammála um að 5% reglan væri afar ósanngjörn en enginn þeirra, sem voru í pallborðinu og sitja nú inni á þingi, ræddi þó um að afnema hana. Höskuldur virtist vera sá eini sem mundi hvernig hún er tilkominn en hann sagði að hún hefði verið til að auka á réttlæti en kom illa niður á öðru þegar til kom. Ég er ekki viss um að hann hafi tekið það fram hvaða réttlæti 5% reglan átti að auka þegar hún var sett.
Hugmyndin um breytingu á kjördæmaskipaninni fékk misjafnari viðtökur. Kristján Þór og Ásta Hafberg voru þó sammála um það að þetta kjördæmi, Norðausturkjördæmið væri alltof stórt til að fulltrúar þeirra gætu sinnt því almennilega. Þess má geta að þetta kjördæmi nær austan frá Djúpavogi norður til Siglufjarðar. Kristján Þór talaði um að það væri miklu nær að skipta kjördæmunum hérna megin á landinu niður í Norðurlands- og Austurlandskjördæmi.
Hvað persónukjörið varðaði þá lýsti Kristján Möller yfir sérstökum áhyggjum af því hvernig slíkt færi með kynja- og byggðakvótann. Steingrímur benti hins vegar á að persónukjör væri til í mörgum myndum. Hjálmar benti á að það væri í stefna Borgarahreyfingarinnar að taka upp persónukjör og endurskoða á kjördæmaskipunina.
Það var reyndar áberandi á þessum fundi hvernig fulltrúar núverandi þingflokka viku sér einhvern veginn undan því að svara mörgum þeirra spurninga sem varpað var fram eða fundu allt annan flöt á málefninu en spurningin snerist um. Fulltrúar Frjálslynda flokksins og Borgarahreyfingarinnar stóðu sig mun betur í því að svara spurningum beint án undanbragða eða málþófs.
Ásta Hafberg er í efsta sæti fyrir Frjálslynda flokkinn hér í Norðausturkjördæmi og Hjálmar Hjálmarsson mun taka sæti á lista Borgarahreyfingarinnar ef af stofnun hans verður. Það er verið að vinna að því hörðum höndum þessa daganna að bjóða kjósendum kjördæmisins upp á þennan valkost en enn þá vantar bæði meðmælendur og frambjóðendur á listann til að af því geti orðið. Það hefur ekki verið ákveðið hvaða sæti Hjálmar mun taka á listanum en Herbert Sveinbjörnsson mun leiða listann í kjördæminum ef nógu margir í Norðausturkjördæmi eru tilbúnir til að mæla með framboði hans og ef nógu margir fást til að taka sæti á listanum.
Það var nokkuð áberandi að það komu fáar spurningar utan úr sal sem snertu þetta kjördæmi sérstaklega. Fulltrúar núverandi þingflokka vöktu athygli á því af fyrra bragði að flutningsgjöldin væru að drepa niður fyrirtækin á landsbyggðinni. Kristján Möller sagðist vera búinn að margræða þetta efni í mörg ár en það hefði ekkert verið tekið á þessu. Kristján Þór benti á að fyrirtækin í Reykjavík þyrftu ekki að greiða neitt gjald fyrir að flytja vörur frá Reykjavík út á landsbyggðina en fyrirtækin á landsbyggðinni þyrftu að greiða sérstakt flutningsgjald til að flytja vörur sínar til höfuðborgarsvæðisins.
Hjálmar benti á að fundir eins og þessi borgarafundur væri mjög góð leið til virkjun lýðræðisins. Að hans mati ætti það að vera skylda þingmanna að efna til slíkra funda í byggðarlögum landsins til að gefa íbúum þeirra tækifæri til að fylgjast með en ekki síður til að hafa áhrif.
Mig langar líka til að skjóta því hérna inn að dreifingaraðilar ýmissa afurða er líka í Reykjavík þannig að grænmetisbóndinn í Eyjafirði hann þarf t.d. fyrst að senda alla sína uppskeru til Reykjavíkur áður en hægt er að selja hana i matvörubúðum hér á Akureyri og annars staðar á Eyjafjarðarsvæðinu. Það er í raun furðulegt að landsbyggðarþingmennirnir séu ekki fyrir löngu búnir að taka sig saman og vinda ofan af þessari fáránlegu vitleysu. Það er þess vegna fjarskalega eðlilegt að spyrja: Hvers vegna er þetta svona? Hverra hagur er það að viðhalda núverandi aðferðum í þessu sambandi? og af hverju er þessu ekki breytt í hvelli núna til að koma á móts við fyrirtækin á landsbyggðinni sem enn halda velli?
Það kemur sennilega engum á óvart að algengasta efni spurninganna sem voru bornar upp á fundinum sneri að vanda heimilanna. Einhverjir höfðu áhyggjur af því hvernig afskriftir og niðurfærslur á skuldum þeirra kæmu niður á þeim sem hefðu ekki tekið þátt í neyslufylleríi undangenginna ára en flestir höfðu áhyggjur af því að fylgjast með því hvernig lánin þeirra hafa margfaldast á liðnu ári án þess að neitt væri að gert til að koma heimilunum til bjargar en hins vegar væri verið að afskrifa skuldir ýmissa annarra sérvalinna einstaklinga og stofnanna á sama tíma.
Ég gat alls ekki heyrt að Kristján Möller eða Kristján Þór kæmu með neinar hugmyndir um það hvernig ætti að leysa vanda heimilanna. Ég treysti því reyndar að kjósendur séu vel heima í hugmyndum þingflokkanna í þessum efnum sem að mínu mati er eitt helsta kosningamálið. Ég ætla þess vegna að enda þetta á því að draga það saman sem fram kom á fundinum um þetta efni og bæta við krækjum inn á stefnuskrá allra sem bjóða fram í kjördæminu.
Tryggvi Þór Herbertsson, sem er annar á lista Sjálfstæðisflokksins, er einn af upphafsmönnum hugmyndarinnar um að fella niður 20% af öllum skuldum. Ef ég skildi Höskuld rétt er Framsóknarflokkurinn fylgjandi ekki ósvipaðri aðferð sem gengur út á 20% niðurfellingu á húsnæðislánum. Steingrímur telur allt slíkt tal óráðstal þar sem Íbúðalánasjóður yrði gjaldþrota með þessari leið og lífeyrissjóðirnir líka. Hann viðurkenndi það þó að hann væri töluvert veikur fyrir hugmynd Frjálslynda flokksins sem Ásta Hafberg kynnti á fundinum. Þar sem ég treysti mér ekki til að fara rétt með hugmynd þeirra leyfi ég mér að vísa í blogg Helgu Þórðardóttur þar sem hún kynnir hana.
Hugmynd Borgarahreyfingarinnar er að því leyti skyld hugmynd Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að þegar upp er staðið þá er það u.þ.b. 20% sem munar þegar skuldastaða heimilanna verður lagfærð með tilliti til stöðunnar eins og hún var í janúar á síðasta ári. Hjálmar sagði að ástæðan fyrir því að miða skyldi við þennan máðuð væri sú að þá hefði stjórnvöldum verið ljóst í hvað stefndi en kosið að þegja. Þau bæru því ábyrgð á þeirri stöðu sem heimilin væru í, í dag og bæri þess vegna að axla hana með viðeigandi aðgerðum þeim til bjargar.
Krækjur inn á stefnuskrá hvers flokks þar sem hún er fyrir hendi á Netinu annars inn á forsíðu:
Borgarahreyfingin xO
Framsóknarflokkur xB
Frjálslyndi flokkurinn xF
Samfylkingin xS
Sjáfstæðisflokkurinn xD
Vinstri grænir xV
Vaxtalækkun og niðurfærsla skulda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvað ber framtíðin í skauti sér?
5.4.2009 | 00:58
Þeir eru eflaust margir sem standa í sömu sporum og ég og reyna að rýna inn í framtíðina en sjá þar ekki mikla birtu. Þeir eins og ég fá eflaust að heyra það að þeir séu svartsýnismenn.
Miðað við núverandi forsendur sé ég enga birtutíma framundan. Þvert á móti stefnir í ákaflega erfitt tímabil. Það er undir okkur kjósendum komið hversu erfiðir tímanir framundan verða en ekki síður hversu langvarandi þeir verða.
Ég vona að kjósendur beri gæfu til að vera raunsæir. Að þeir átti sig á því fyrir hvað kosningaloforð flokkanna standa. Að þeir skoði líka hve vel eða illa flokkurinn sem þeir ætla sér að kjósa hefur staðið við það sem hann hefur lofað hingað til.
Svo er líka fullt vit í því að skoða ný framboð. Öruggasta leiðin til að ná fram raunverulegum breytingum er nefnilega oft sú að sleppa takinu á því gamla og hleypa einhverju alveg nýju að.
Þeir sem gagnrýna mig fyrir svartsýni segja gjarnan að það borgi sig ekki að vera svona upptekin af því sem er að. Ég segi á móti að mér finnist það borga sig að horfa óttalaust framan í staðreyndir til að geta tekið skynsamlega ákvörðun.
Ég vil meina að aldrei hafi verið brýnna að horfast í augu við stöðuna eins og hún er í raun. Framtíð þjóðarinnar veltur nefnilega á því að hver einn og einasti Íslendingur meti aðstæðurnar sem við stöndum öll frammi fyrir. Framtíð okkar og þjóðarheill veltur á því að allir kjósendur kjósi út frá heilbrigðri skynsemi.
Það er ekki svartsýni að horfa raunsætt á það sem hefur verið að gerast í samfélaginu að undanförnu. Það er heldur ekkert hættulegt að taka afstöðu og finnast eitthvað um það sem hefur verið að gerast. Það er ekkert óskynsamlegt við það að sleppa takinu á því gamla sem hefur brugðist. Það er ekkert ábyrgðarleysi fólgið í því að treysta á eitthvað nýtt í staðinn.
Það er reyndar eina vitið! Öðru vísi breytist nefnilega alls ekki neitt!
Hver á að borga?
4.4.2009 | 21:36
Ég hef ekkert á móti því að Barack Obama heimsæki Ísland en hver á að borga kostnaðinn af slíkri heimsókn? Mig grunar að það sé m.a. ég og þess vegna verð ég að segja að ég hef ekki efni á því að fá Bandaríkjaforseta í heimsókn. Það verður að bíða betri tíma.
Obama segir að við munum verða fyrst til að vinna okkur upp úr efnahagslægð- inni. Ef orð hans geta híft okkur upp úr lægðinni þá verður kannski ekki langt í það að Íslendingar hafi efni á því að fá hann í heimsókn. Hins vegar held ég að það þurfi eitthvað miklu meira en orðin ein til að rétta af íslenskan efnahag.
Við þurfum sérfræðinga! Ég veit að það eru stór orð en ég verð að segja það að við höfum úrval af hálfvitum á efnahagssviðinu sem settu okkur á hausinn en þar fer minna fyrir sérfræðingunum, því miður. Starfsmenn eftirlitsstofnanna og þingheimur svaf á meðan hersveitir græðginnar, sem höfðu komið sér fyrir við háborð innlendra fjármálastofnanna, sópuðu peningunum út úr landinu.
Við höfum stjórnvöld sem setja þessar fjármálastofnanir í forgang á meðan fjöldi atvinnulausra vex dag frá degi. Þeir leggja blessun sína yfir það að ráðstöfunartekjur heimilanna fari í það að halda þessum stofnunum á floti og bæta þeim upp tapið sem eigendurnir ollu þeim sjálfir. Á meðan fara atvinnufyrirtæki á hausinn, heimili verða gjaldþrota, velferðarkerfið leggst á hliðina og almenningur þjáist vegna óréttlætisins sem hann þarf að þola.
Miðað við þessa forgangsröðun íslenskra stjórnvalda skil ég ekki á hvaða forsendum Ísland verði fyrst til að rétta sig af eftir hrunið. Því miður tel ég þessi orð Obama sýna það fyrst og fremst hve illa upplýstur hann er um ástandið hér á landi.
Obama vill til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Græðgin er tortímandi afl sem eirir engu
4.4.2009 | 20:08
Græðgisvæðingin ógnar ekki aðeins Íslendingum heldur allri heimsbyggðinni. Græðgin ógnar ekki aðeins almenningi heldur líka grunnskilyrðum lífs á jörðinni. Græðgin er tortímandi afl vegna þess að henni fylgja stríð, hallæri og dauði. Græðgin er hömlulaust eyðingarafl sem verður að stöðva hvað sem það kostar.
Sennilega kannast flestir við reiðmennina fjóra sem segir frá í Opinberunarbók Jóhannesar að muni ógna veröldinni á okkar tímum. Fyrir þá sem kunna að hafa áhuga á að kynna sér frekar fyrir hvað þeir standa þá vísa ég á þetta. Þar segir m.a:
The first horse is black and is generally regarded as a harbinger of economic collapse
Besides the obvious implications of war, the red also symbolizes the desires and emotions
The manipulation of the economies by the power elite and corrupt governments could result in famine, indicated by the exorbitant price for barley.
The fourth part is the physical. All of the karma we have sewn collectively and personally that we have not transmuted or balanced on the cosmic balance scale becomes physical.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sérhæfð vanhæfing
4.4.2009 | 17:32
Yfirmenn þessarar stofnunar virðast ekkert hafa áttað sig á þessu hlutverki sínu. Þvert á móti virðast þeir enn vera á þeirri skoðun að það sé hlutverk þeirra að liggja á og hylma yfir upplýsingum sem varða fjármál þeirra stofnana sem þeir eiga að fylgjast með.
Mér þykir full ástæða til að ganga hart að því að fá þá, sem stjórnuðu Fjármálaeftirlit- inu frá 2004 til sl. hausts, til að svara því hvers vegna þeir gerðu það ekki. Þeir ættu líka að svara því fyrir hverja þeir töldu sig vera að vinna. Er þetta ekki opinber stofnun? Það ætti þess vegna að liggja í augum uppi fyrir hverja þeir áttu og eiga að vera að vinna!
Það er hins vegar eðlilegt að maður spyrji sig hvort þeir voru að gæta hagsmuna einhverra örfárra græðgisgæðinga eða hvort þeir kunni bara einfaldlega minna í hagfræði en allur almenningur? Í báðum tilvikum er ljóst að við erum að tala um sérfræðinga sem eru ekki hæfir til að vinna að hagsmunum þjóðarheildarinnar. Það er aftur á móti spurning hvort það var námið eða ráðningarsamningurinn sem grundvallaði þá sérhæfðu vanhæfingu sem þeir sem stýra Fjármálaeftirlitinu hafa og eru enn að gera sig seka um.
Mér finnst ástæða til að yfirmenn Fjármálaeftirlitsins taki sig saman í andlitinu og átti sig á því hvert raunverulegt hlutverk Fjármálaeftirlits ríkisins er. Ég vil líka hvetja starfsmenn Fjármálaeftirlitsins til að fara að vinna vinnuna sína af alúð og samviskusemi. Ég minni á að þessi stofnun þarf að vinna gríðarlega vinnu í að vekja upp traust og trúverðugleika ekki aðeins gagnvart vinnuveitendum sínum heldur alþjóðasamfélaginu líka.
Aðgerðir að því tagi sem sagt er frá í tengdri frétt eru síst til þess fallnar. Hún orkar þannig á mig a.m.k. að mér sýnist vera komið enn eitt tilefnið til að leggja þessa stofnun niður. Með þessu er ég alls ekki að halda því fram að við þurfum ekki fjármálaeftirlit.
Við þurfum hins vegar stofnun sem sinnir slíku eftirliti í alvöru með alla skjólstæðinga sína í huga. Stofnun sem vinnur að hagsmunum almennings. Stofnun sem nýtir upplýsingaveiturnar í samfélaginu til að koma nauðsynlegum skilaboðum áfram til allra vinnuveitenda sinna. Stofnun sem er skipuð hæfu starfsfólki sem hefur hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.
Við þurfum ekkert sýndareftirlit sem er svo blindað af sérhæfðri vanhæfingu að það ætlar sér að fara að kúga fjölmiðla til að birta ekki upplýsingar sem varða hagsmuni almennings.
Undrandi á forgangsröðun FME | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það skyldi þó ekki vera samhengi!
1.4.2009 | 23:28
Það eru auðvitað engin ný tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn tefji mál sem þeir eiga ekki frumkvæði að sjálfir. Það eru heldur engin ný tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn sé málsvari þeirra sem sitja að auðæfunum í landinu. Fyrir sumum eru það þó ný tíðindi að þessi rótgróni flokkur sem kennir sig við sjálfstæði þjóðar standi í vegi fyrir því sem meiri hlutinn hefur komist að samkomulagi um að tryggi framtíðarsjálfstæði íslensku þjóðarinnar en ekki tímabundið sjálfstæði einstaklinga og/eða forréttindastéttar.
Það eru e.t.v. líka ný tíðindi fyrir sumum að Sjálfstæðisflokkurinn gegni leynt og ljóst ýmsum hagsmunasamtökum einstaklinga í íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Þegar mig rekur í rogastans yfir þvergirðingshætti ýmissa háværra fulltrúa flokksins inni á þingi þá velti ég oft fyrir mér þessum hagsmunatengslum. Ég spyr mig gjarnan að því hver hefur nú hringt í hvern og hvaða leynilegu samningar voru settir af stað við það sama tækifæri?
Þessar vangaveltur verða þeim mun áleitnari sem röksemdirnar fyrir andstöðu þingmannsins eru loftkenndari. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvers vegna Birgir Ármannsson setur sig upp á móti afgreiðslu stjórnlagafrumvarpsins sem liggur fyrir þinginu núna. Mér finnst rök hans nefnilega bara vera moldviðri af orðum án neinnar vigtar. Hann segir skv. fréttinni, sem þessi færsla er tengd við: það sæta furðu að forystumönnum ríkisstjórnarinnar skuli yfir höfuð detta það í hug á síðustu dögum þingsins að samstaða geti verið um að afgreiða stjórnarskrárfrumvarpið.
Stjórnarflokkarnir og fylgiflokkar þeirra kvarta afar mikið yfir því að sjálfstæðismenn séu að tefja meðferð þess. Hins vegar gleymist oft í þeirri umræðu að áform stjórnarflokkanna um breytingarnar nú ganga út á að keyra málið í gegn með miklu skemmri aðdraganda og undirbúningi en nokkru sinni fyrr og án pólítísks samráðs auk þess sem afar skammur tími er ætlaður til málsmeðferðar í þinginu, segir Birgir.
Annað eins hefur nú gerst og af minna tilefni en hvað um það. Ég velti því eðlilega fyrir mér hvort Birgir sé bara þverplanki að eðlisfari eða hvort þessi rakalausi æsingur stafar kannski af kappi út af einhverju allt öðru og þá rakst ég á þetta í Viðskiptablaðinu frá í dag:
Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila, segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Það er mat Viðskiptaráðs og fjölda fræðimanna að þjóð geti ekki átt eign og vegna þess hefur yfirlýsing í þá veru enga efnislega merkingu.
Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá sem skilað var til sérnefndar um stjórnarskrárfrumvarpið.
Viðskiptaráð gerir talsverðar athugsemdir við þá ætlan löggjafans að afgreiða frumvarpið með þeim hraða sem raun ber vitni.
Frumvarpið felur í sér breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins og við slíkar breytingar ber að gæta vandaðra vinnubragða, sérstaklega hvað snertir samráð við atvinnulíf, fræðimenn og aðra hagsmunaaðila, segir í umsögn Viðskiptaráðs.
Í umsögninni kemur fram að eignarréttur að auðlindum verður, ef frumvarpið verður samþykkt, í höndum ríkisins og fer það með allar heimildir sem felast í eignarréttinum s.s. réttinn til umráða, hagnýtingar og ráðstöfunar. (Sjá frh. hér)
Eru einhverjir fleiri en ég sem taka eftir því að það er ekkert haft fyrir því að nefna fræðimennina sem vísað er til sem álitsgjafa. Ætli ástæðan sé sú að Viðskiptaráð er orðið svo vant því að hafa áhrif á störf Alþingis að þeim finnst ástæðulaust að færa rök fyrir gagnrýni sinni á störf þess með því að vísa í áreiðanlega og nafngreinda álitsgjafa.
Takið líka eftir tóninum og orðaforðanum í umsögn Viðskiptaráðs hér að ofan. Mér finnst málefnaflutningur Birgis bera ríkan keim af því sem kemur fram í þessari umsögn. Nánast eins og einn og sami maður hafi skrifað og talað.
Í umsögn Viðskiptaráðs kemur fram að það beri að hafa samráð. Ég reikna með að bæði heilbrigðisstarfsfólk og kennarar gætu tekið undir það að það beri að hafa samráð við hugsmunasamtök þess við lagabreytingar sem varða það og skjólstæðinga þeirra en er það raunin? Nei! En er líklegt að hagsmunasamtök kennara og heilbrigðisstarfsfólks notuðu sama tón og orðalag og viðskiptaráð hér að ofan?
Nei. Og ég tel að það sé vegna þess að þessi hagsmunasamtök hafi alls ekki setið við sama borð á liðnum áratugum. Viðskiptaráð hefur rutt öllum hindrunum úr vegi sínum og sópað öllum öðrum aftur fyrir sig og er nú orðið svo vant því að hafa áhrif inn á þingi að þeir senda frá sér orðsendingu þar sem þeir tala niður til þingsins. Þeir gera lítið úr þingmönnum og störfum þingsins á kurteisan og málefnanlegan hátt því þeir ætlast til að á þá sé hlustað og eftir þeirra ábendingum sé farið.
Sá sem sendir frá sér slíka yfirlýsingu er greinilega vanur því að á hann sé hlustað og eftir hans ábendingum sé farið. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það að eftir lestur hennar í Viðskiptablaðinu frá í dag glæðist sú hugmynd að það sé eitthvað meira sem búi að baki hins bullandi ágreinings sem Birgir Ármannsson og fleiri úr röðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins standa fyrir til að tefja afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins.
Bullandi ágreiningur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.4.2009 kl. 01:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Full ástæða til
1.4.2009 | 20:29
Ég skil vel að háskólanemendur hafi áhyggjur af framtíð sinni. Ég hef reyndar ekki aðeins áhyggjur af þeim eða framtíð annarra nemenda sem þegar hafa hafið nám heldur framtíð menntunar í landinu almennt. Útlitið er nefnilega afar svart. Gróusögurnar um niðurskurðartölur næstu ára grassera en í raun liggur ekkert fyrir nema það að það verður niðurskurður.
Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á því sem fram kom á fundi, sem borgaranefndin hér á Akureyri hélt í janúar á þessum ári, undir yfirskriftinni Niðurskurðurinn í menntamálum. Þar var framtíð menntunar í landinu til umræðu en:
Það er líka önnur alvarleg hlið á þessum málaflokki sem eru möguleikar nemenda til náms. Möguleikar nemenda til framhaldnáms er nú þegar í mikilli hættu vegna samdráttar í atvinnulífinu og verulegrar skerðingar á möguleikum þeirra til vinnu með námi og yfir sumartímann. Þátttaka nemenda í atvinnulífinu hefur lengi verið grundvallarforsenda þess að ungt fólk hér á Íslandi hafi haft ráðrúm til að afla sér menntunar. Á sama tíma og lokast á þenan mikilvæga möguleika til tekjuöflunar útilokast stór hópur ungra einstaklinga á Íslandi frá tækifærum til framhaldsmenntunar. (Úr færslu minni varðandi það sem kom fram á umræddum fund)
Þeir svartsýnustu segja að ef ekkert verður að gert fari fyrir íslenska skólakerfinu eins og því finnska fyrir u.þ.b. 15 árum. Þeir sjá fyrir sér að það verði vegið svo hastarlega að fjárhagslegum rekstargrunni menntastofnanna í landinu að menntunin bíði óbætanlegt tjón af. Við munum því standa í sömu sporum og Finnar sem þurftu að byggja upp frá grunni eftir óvæginn niðurskurð til menntamála sem finnska ríkisstjórnin sá eftir á að hyggja að hefðu verið kolröng viðbrögð við kreppunni þar í landi.
Ég hef furðað mig á því fyrr hvað þau málefni sem eru tekin til umræðu á borgarafundum og mótmælunum hafa hlotið lítinn hljómgrunn og litla eftirfylgni m.a. í fjölmiðlum. Í grasrótinni hafa nefnilega verið tekin til umræðu mjög mörg afar brýn málefni. Efni sem þarf að bregðast við og taka á ef ekki á allt að fara í óefni. Eitt þessara málefna er alvarlegar horfur hvað varðar framtíð menntunar í landinu.
Það dugir nefnilega ekki að standa nýgreiddur og -straujaður uppi í stíflökkuðu ræðupúlti og tala um gildi menntunar það þarf að gera sér grein fyrir hvað í orðunum felst. Allt skynsamt og heiðarlegt fólk veit að menntun er einn af þeim grundvallarþáttum sem verður að vernda og halda við. Ekki síður í slæmum árum en góðum. Ef sú grunnstoð sem menntakerfið er hrynur tekur það okkur nokkra áratugi að byggja upp mannsæmandi samfélag að nýju.
Við þurfum í alvöru að horfa framan í þær spurningar sem vöknuðu á borgarafundinum sem ég vísaði til hér á undan en þær voru m.a. þessar:
- Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á aukavinnu með skóla?
- Hvað gerist ef foreldrar þeirra missa vinnuna?
- Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á að verða sér út um sumarvinnu?
- Hvaða möguleika eiga nemendur til háskólanáms í framtíðinni?
- Hvað verður um landsbyggðina ef háskólar hennar þurrkast út?
- Hvað verður um það fólk sem er að afla sér menntunar núna?
- Verður einhver vinna fyrir það?
- Hvað verður um nám þess?
Það er líka vert að benda á það að sennilega kemur niðurskurðurin í öllu framhaldsnámi að sjálfu sér þegar nemendur hverfa frá námi sökum þess að þeir hafa ekki lengur efni á að vera í skóla!
Við verðum að taka ábyrgð á framtíðinni því ef allt fer fram sem horfir þá erum við enn á niðurleið. Einu áætlanirnar sem eru til umræðu í sambandi við menntamál er niðurskurður en eins og allir ættu að vita hefur nú þegar verið skorið niður á öllum skólastigum. Það ættu líka allir að vita hvað niðurskurður í skólakerfinu þýðir í aðalatriðum. Hann þýðir í meginatriðum skerta þjónustu við nemendur. Er það, það sem við viljum?
Blása til setuverkfalls á skrifstofu rektors | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)