Full ástæða til

Ég skil vel að háskólanemendur hafi áhyggjur af framtíð sinni. Ég hef reyndar ekki aðeins áhyggjur af þeim eða framtíð annarra nemenda sem þegar hafa hafið nám heldur framtíð menntunar í landinu almennt. Útlitið er nefnilega afar svart. Gróusögurnar um niðurskurðartölur næstu ára grassera en í raun liggur ekkert fyrir nema það að það verður niðurskurður.

Í þessu sambandi langar mig til að vekja athygli á því sem fram kom á fundi, sem borgaranefndin hér á Akureyri hélt í janúar á þessum ári, undir yfirskriftinni Niðurskurðurinn í menntamálum. Þar var framtíð menntunar í landinu til umræðu en:

Það er líka önnur alvarleg hlið á þessum málaflokki sem eru möguleikar nemenda til náms. Möguleikar nemenda til framhaldnáms er nú þegar í mikilli hættu vegna samdráttar í atvinnulífinu og verulegrar skerðingar á möguleikum þeirra til vinnu með námi og yfir sumartímann. Þátttaka nemenda í atvinnulífinu hefur lengi verið grundvallarforsenda þess að ungt fólk hér á Íslandi hafi haft ráðrúm til að afla sér menntunar. Á sama tíma og lokast á þenan mikilvæga möguleika til tekjuöflunar útilokast stór hópur ungra einstaklinga á Íslandi frá tækifærum til framhaldsmenntunar. (Úr færslu minni varðandi það sem kom fram á umræddum fund)

Þeir svartsýnustu segja að ef ekkert verður að gert fari fyrir íslenska skólakerfinu eins og því finnska fyrir u.þ.b. 15 árum. Þeir sjá fyrir sér að það verði vegið svo hastarlega að fjárhagslegum rekstargrunni menntastofnanna í landinu að menntunin bíði óbætanlegt tjón af. Við munum því standa í sömu sporum og Finnar sem þurftu að byggja upp frá grunni eftir óvæginn niðurskurð til menntamála sem finnska ríkisstjórnin sá eftir á að hyggja að hefðu verið kolröng viðbrögð við kreppunni þar í landi.

Ég hef furðað mig á því fyrr hvað þau málefni sem eru tekin til umræðu á borgarafundum og mótmælunum hafa hlotið lítinn hljómgrunn og litla eftirfylgni m.a. í fjölmiðlum. Í grasrótinni hafa nefnilega verið tekin til umræðu mjög mörg afar brýn málefni. Efni sem þarf að bregðast við og taka á ef ekki á allt að fara í óefni. Eitt þessara málefna er alvarlegar horfur hvað varðar framtíð menntunar í landinu.

Það dugir nefnilega ekki að standa nýgreiddur og -straujaður uppi í stíflökkuðu ræðupúlti og tala um gildi menntunar það þarf að gera sér grein fyrir hvað í orðunum felst. Allt skynsamt og heiðarlegt fólk veit að menntun er einn af þeim grundvallarþáttum sem verður að vernda og halda við. Ekki síður í slæmum árum en góðum. Ef sú grunnstoð sem menntakerfið er hrynur tekur það okkur nokkra áratugi að byggja upp mannsæmandi samfélag að nýju.

Við þurfum í alvöru að horfa framan í þær spurningar sem vöknuðu á borgarafundinum sem ég vísaði til hér á undan en þær voru m.a. þessar:

  • Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á aukavinnu með skóla?
  • Hvað gerist ef foreldrar þeirra missa vinnuna?
  • Hvað gerist þegar nemendur hafa enga möguleika á að verða sér út um sumarvinnu?
  • Hvaða möguleika eiga nemendur til háskólanáms í framtíðinni?
  • Hvað verður um landsbyggðina ef háskólar hennar þurrkast út?
  • Hvað verður um það fólk sem er að afla sér menntunar núna?
  • Verður einhver vinna fyrir það?
  • Hvað verður um nám þess?

Það er líka vert að benda á það að sennilega kemur niðurskurðurin í öllu framhaldsnámi að sjálfu sér þegar nemendur hverfa frá námi sökum þess að þeir hafa ekki lengur efni á að vera í skóla!

Við verðum að taka ábyrgð á framtíðinni því ef allt fer fram sem horfir þá erum við enn á niðurleið. Einu áætlanirnar sem eru til umræðu í sambandi við menntamál er niðurskurður en eins og allir ættu að vita hefur nú þegar verið skorið niður á öllum skólastigum. Það ættu líka allir að vita hvað niðurskurður í skólakerfinu þýðir í aðalatriðum. Hann þýðir í meginatriðum skerta þjónustu við nemendur. Er það, það sem við viljum?
Brörnin láta sig dreyma


mbl.is Blása til setuverkfalls á skrifstofu rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband