Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Einbeittur brotavilji eða skipulögð glæpastarfssemi?

Þeir eru þó nokkrir sem höfðu áhyggjur af þeirri þróun sem átti sér stað í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Sumir reyndu að vekja athygli á þeim í íslenskum fjölmiðlum því þeir vildu vara við því að samfélagið stefndi í þrot.

Margir hafa bent á athyglisverðar staðreyndir eins og þær hvernig hefur verið skipað í embætti og stöður á undanförnum árum. Þessir reyndu að vekja athygli á þeim áhyggjum sínum að skipulega væri stefnt að því að veikja eftirlits- stofnanir, fjölmiðla, lögreglu og dómsvald eða gera þessar stofnanir auðsveipar og meðfærilegar með því að setja vini og vandamenn í mikilvægar stöður innan þeirra.
ÞöggunartilburðirÞeir sem hafa talað þannig sáu þó ekki endilega allt það fyrir sér það sem hefur opinber- ast á þessum vetri. Enda þvílíkt og annað eins að maður setur hvað eftir annað hljóðan. Bæði opinberanirnar sjálfar og hvað þær hafa vakið lítil viðbrögð. Það er kannski ekki nema von að stór hluti þjóðarinnar sé hálfdofin og áttavillt þegar öll þau ósköp sem hafa gengið á og opinberast frá liðnu hausti eru höfð í huga.

Það er þess vegna spurning hvort þögnin í samfélaginu stafar af því hve vel hefur tekist við að skipa flokksholla einstaklinga í mikilvægar stöður eða því að meginþorri þjóðarinnar sitji enn fastur í áfallalostinu sem ósköpin hafa valdið henni. Hvort sem heldur er þá virðist ekkert lát á þeim tilefnum sem þarf að bregðast við. Hvert sjokkerandi hneykslismálið rekur annað og hverju slíku fylgir svo annað áfall yfir skortinum á eðlilegum viðbrögðum viðeigandi stofnana.

Nú síðast er það mútuþægni sjálfstæðismanna. Það er auðvitað ekki í mínu valdi að fullyrða að hver og einn einasti flokksmeðlimur hafi verið upplýstur um öll þau ósköp af mútugreiðslum sem flokkurinn tók við. Hins vegar er ótrúlegt að fylgjast með fréttaflutningi af minnisleysi og sakleysi einstaklinga innan flokksins sem þar hafa setið við stjórn. Það er ekki nóg með að þeir bregði við minnisleysi heldur vísa þeir hver á annan og komast upp með þetta allt saman. (Sjá m.a. fréttir á mbl.is frá því að málið kom upp og þessa samantekt Láru Hönnu Einarsdóttur)
FeluleikurÞað hlýtur að liggja í augum uppi að m.a.s. meðlimir innan Sjálfstæðisflokksins vita að það að taka við umræddum „styrkjum“ stangast ekki aðeins á við almennt velsæmi heldur eru upphæðirnar slíkar að hér getur ekki verið um neitt annað að ræða en mútur. Ég spyr mig þess vegna hvers vegna formenn og framkvæmdastjórar flokksins eru ekki í yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeildinni? Viðbrögð flokksmanna sýna það sennilega best að hér hefur verið flett ofan af mjög alvarlegu efnahagsbroti og það beri að rannsaka það af sérfræðingum í slíkum málum.

Miðað við það hvernig á málinu er tekið mætti ætla að hér sé um að ræða nemendafélag sem hefur orðið uppvíst af því að fara sér fullgeyst á eiginhagsmunapotsbrautinni. Ég vil þess vegna undirstrika það og ítreka að hér er verið að tala um ein elstu og áhrifamestu stjórnmálasamtök landsins! Miðað við það sem nú hefur komið fram eru þar innan um einstaklingar sem búa yfir einbeittum brotavilja og hafa stundað skipulagða glæpastarfssemi í skjóli flokksins.

Mér sýnist óhætt að draga þá ályktun að flokkurinn sé búinn að koma sér svo vel fyrir að þegar meðlimir hans verða uppvísir af slíkri glæpastarfsemi sem hér um ræðir þá er það talið eðlilegt að flokkurinn fjalli um hana innan sinna raða. Það ætti þó að liggja í augum uppi að flokkurinn hefur hvorki burði né vilja til að fjalla heiðarlega um þessi efni. Það kemur ekki síst fram í því að á  undanförnum dögum hafa svör og yfirlýsingar meðlima hans stangast svo á að það er augljóst að það er mjög einbeittur vilji meðal þeirra sem bera ábyrgðina til að firra sig henni.

Það er ljóst að það er eitthvað mikið að í samfélaginu þegar svo er komið að það þykir eðlilegt að stjórnmálaflokkur sem verður uppvís að slíku glæpsamlegu athæfi fær ekki aðeins að starfa áfram óáreittur heldur er allt tekið gott og gilt sem frá honum kemur þrátt fyrir að þar stangist flest augljóslega á. Þetta vekur í raun upp svo margar spurningar að það væri of langt mál að telja þær allar upp hér.

Miðað við framgang mála er e.t.v. það eitt eftir að binda vonir við það að dómgreind kjósenda sé nógu óspillt til að átta sig á því hvað hér er á ferðinni því það er augljóst að það treystir sér enginn sem á að taka á afbrotamönnunum til að bregðast eðlilega við. Ég leyfi mér a.m.k. að vona að kjósendur hafni því að hér sitji skipulögð glæpasamtök við stjórnvölinn áfram sama hvaða nafni þau nefnast!
mbl.is Nöfn fyrirtækja ekki rædd í miðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Martröð eða draumur um framtíð landsins

 Sjálfshjálp handa hræddri þjóðÉg fór á frumsýningu Draumalandsins í Háskólabíói sl. miðvikudagskvöld. Þess vegna get ég tekið undir það sem er haft eftir Ólafi Sigurjónssyni, byggingarmeistara, á Smugunni. Það verður nefnilega enginn samur eftir að hafa séð þessa mynd. A.m.k. ekki þeir sem hafa einhverjar tilfinningar.

Í leit minni af efni um Draumalandið rakst ég á blogg Jóhanns Hauskssonar frá 7. ágúst á síðasta ári. Þar fjallar hann um ritdóm Sverker Sörlin, sem er prófessor í umhverfissögu og rithöfundur, á enskri þýðingu bókarinnar sem þá var nýkomin út. Þessi ritdómur birtist í Dagens Nyheter. Þar vakti  þetta sérstaka athygli mína: „Íslendingar ættu að vara sig á því að gera landið [...] að afdrepi fyrir þorpara þar sem græðgin er aflgjafinn og tækifærismennskan stýrið.“
Stíflan við KárahnjúkaSjálf las ég bókina, Draumalandið, eftir Andra Snæ Magnasonar fljótlega eftir að hún kom út. Bókin vakti mig svo sannarlega til umhugsunar en hún gerði mig líka dapra. Eiginlega miklu daprari en kvikmyndin sem byggir á henni. Ástæðan er sú að þegar ég las bókina sá ég ekki hvernig virkjana- og stóriðjubrjálæðinu yrði snúið við. Nú eygi ég hins vegar von til þess að græðgisþróuninni sem þetta byggir á verði hrundið á bak aftur.

Draumalandið fjallar um þjóð sem er búin að koma upp öllum sínum innviðum og hefur öll tækifæri í hendi sér en ákveður að gera landið að einni stærstu málmbræðslu í heiminum. Til þess þarf að fórna einstæðri náttúru og þenja efnahagskerfið til hins ítrasta.

Í aðdraganda hruns hins íslenska efnahagskerfis var farið út í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar. Stærðarskalinn á þeim tíma var byltingarkenndur. Erlent vinnuafl var fengið til þess að byggja stærstu stíflu í Evrópu en orkuverðið var leyndarmál en samkvæmt erlendum stórblöðum sparar Ísland Alcoa um 25 milljarða króna árlega í orkuverði. Eða jafngildi árslauna 7000 kennara.

Draumalandið lýsir saklausri þjóð sem dregur að sér öfl og fyrirtæki með vafasamt orðspor og hörmulega slóð eyðileggingar á bakinu. Orkuverðið er stærsta beitan og strax eftir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar er markið sett enn hærra: Tvö ný álver og samtals virkjanir sem jafngilda tvöföldun á stærstu framkvæmd sögunnar. (Leturbreytingar eru mínar. Sjá meira hér)

Einu sinni var ósnortið land... en svo kom álrisinn og lagði það undir sig...Myndin snart mig. M.a.s. svo að ég tárfelldi eins og margir sem finna til yfir því sem þarna kemur fram. Það sem einkum kom fram á mér tárunum var að horfa upp á varnarleysi heiðarfuglanna þegar varplandi þeirra var sökkt á kaf í vatn.

En raunveruleikinn er magnaðasta hrollvekjan. Rómantísk myndskeið og þeir hlutar Draumalandsins sem sýna eyðilegginguna, fórnirnar og örvæntingu þeirra sem börðust fyrir landinu og  lífinu voru vissulega  áhrifamikil, þótt þau væru flestum kunn.

Endurflutningur frétta og yfirlýsinga stjórnmálanna var hins vegar  skelfilegastur.  Fólk stundi í salnum og greip fyrir höfuð sér. Þetta var enn verra en mann minnti.  Kór á Austurlandi að syngja  „Ég vil elska mitt land fyrir forstjóra Alcoa.“ Stoltur fyrrverandi sveitarstjóri kominn í vinnu hjá álrisanum, grunlaus um raunverulegt hlutverk sitt. Vel heppnuð niðurstaða  eftir uppskriftinni. „Að plata og kaupa einfeldninga.“  (Leturbreytingar mínar Smugan)

Það var líka greinilegt eftir lok myndarinnar að það voru margir í einhvers konar losti. Ég hef aldrei verið á mynd þar sem hálfur salurinn situr eins og lamaður í sætum sínum eftir að myndinni er lokið. Þegar ég leit í andlit þeirra sem sátu eftir sá ég á andlitum þeirra að þeim var brugðið. Ég lái þeim það ekki.


Auk gagnrýninnar sem ég rakst á inni á Smugunni þá last ég þennan ritdóm Hjördísar Stefánsdóttur í Morgunblaðinu í dag en þar segir hún m.a: „Stórbrotið sjónarspil og eldfimt umfjöllunarefni ferja áhorfandann á heljarþröm í gegnum „tilfinningarússíbana“ sem stuðar farþegana til umhugsunar – sama hvort þeir samþykkja málstað myndarinnar eður ei.“

Inn á kvikmyndi.com hefur María Margrét Jóhannsdóttir skrifað gagnrýni um þessa mynd sem hún gefur þrjár stjörnur af fjórum. Hún hefur greinilega ýmislegt út á myndina að setja þar sem hún segir m.a:

Í raun fer meiri hluti fyrri hluta myndarinnar í það að uppfylla allar kröfur og staðla sem góðar áróðursmyndir þurfa að búa yfir og orðið „tilfinningaklám“ er það sem kemur upp í huga manns. Hent er upp á tjaldið til skiptis fallegum myndum af brosandi íslenskum börnum annars vegar og myndum af stóriðjuframkvæmdum og fátæku fólki á Indlandi hins vegar. Allt mjög dramatískt, eitthvað sem Michael Moore gæti verið stoltur af. Talað er um hvernig störfin í gamla daga voru raunverulegri en í dag – sérkennilegur óður til sjálfsþurftarbúskapar! – og því haldið fram að hagvöxtur sé slæmur. 

Það kemur kannski ekki á óvart að Viðskiptablaðið vekur sérstaka athygli á þessari gagnrýni undir yfirskriftinni: Draumalandið: Eitthvað sem Michael Moore gæti verið stoltur af“. Það gerir vefritið Völlurinn líka undir fyrirsögninni: „„Tilfinningaklám“ í Draumalandi“. Smáfuglarnir inni á AMX fjalla líka um myndina með þeirri aðferð sem þeim einum er lagið undir fyrirsögninni „Draumalandið: Áróðursmynd segir Morgunblaðið“. Það kemur reyndar fram að þeir hafi ekki séð myndina en byggja á því sem Hjördís Stefánsdóttir hefur um myndina að segja í sinni gagnrýni.

Ég ætla að enda þessi skrif í sambandi við kvikmyndina sem allir verða að sjá á umfjöllun vefmiðilsins náttúra.is um Draumalandið en þar segir m.a:

Það sem eftir stendur er verk sem allir verða að fá tækifæri til að sjá, ekki síst verða allir Íslendingar að sjá myndina fyrir 25. apríl á þessu ári. Draumalandið setur okkur Íslendinga rækilega í spor hins auðkeypta sveitalubba sem hefur verið rækilega tekinn í ........ Nota bene ekki aðeins af erlendum stóriðjurisum heldur af okkar eigin stjórnmálamönnum, bæjarstjórum og ekki síst fréttamönnum og konum sem hjálpuðu (og hjálpa enn) til við að láta allt hljóma eins og þetta sé allt saman eðlileg og uppbyggileg þróun sem beri að gleðjast yfir. Já góðu landar, við höfum verið gerð að algerum fíflum á síðustu árum, það er staðreynd sem kvikmyndin Draumalandið nær að segja frá á auðmjúkan og syrgjandi hátt.

Það er okkar að móta draumalandið héðan í frá!

Það var einu sinni hnjúkur sem teygði hlíðar sínar niður í gil...... en svo kom álrisinn og sökkti því í vatnMyndirnar frá virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka eru fengar úr þremur áttum. Flestar eru af síðunni draumalandid.is. Tvær eru úr ferð sem ég fór um þessar slóðir sumarið 2002 og ein er af síðu Rafns Sigurbjörnssonar og er sú merkt honum. 


Full ástæða til að krefjast afsagnar

Mér finnst það borðleggjandi að hér er verið að ræða um styrk eða fyrirgreiðslu af því tagi sem kallast mútur á góðri íslensku. Bara upphæðin staðfestir það. Stendur ekki líka til að skila „styrknum“? Það staðfestir að m.a.s. Sjálfstæðismenn finna skítalyktina af þessum peningum.

En nú hefur Guðlaugur Þór, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, tekið á sig ábyrgðina af því að hafa haft forgöngu um að útvega flokknum þessa myndarlegu peningupphæð... furðulegt að hann skuli hafa valið þá leið að skera niður í heilbrigðiskerfinu fyrst hann er svona fiskinn þegar peningar eru annars vegarShocking

Það er a.m.k. víst að að Guðlaugur Þór er sagður bera ábyrgðina á því að koma Sjálfstæðisflokknum í þá stöðu að þurfa að þiggja þennan styrk. Mér finnst reyndar einsýnt að hér er á ferðinni svo óeðlileg fyrirgreiðsla að það er bara hjákátlegt og fáránlegt annað en kalla hana  sínu rétta nafni!

Ég spyr mig þess vegna hvort þess verði ekki krafist að Guðlaugur Þór Þórðarson segi af sér fyrir það að þiggja mútur? Varðar það ekki líka við lög að betla eins og Guðlaugur vill láta líta út fyrir hafi verið kveikjan að þessari rausnarlegu upphæð?


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíðandi framkoma!

Það koma stundir þar sem maður verður svo yfirkominn af undrun og furðu yfir hroka og yfirgegnilegum dónaskap einhvers sem maður þarf að eiga við að maður kemur hreinlega ekki upp orði. Oftast getur maður huggað sig við þá fullvissu að það hafi bara staðið eitthvað sérstaklega illa á fyrir þeim sem gerir sig sekan um hátterni af þvílíku tagi.

En það verður mér ljósara með hverjum deginum sem líður að slík framkoma þykir sumum sjálfsagt að ástunda á hverjum degi gagnvart vinnufélögum sínum og skjólstæðingum. Það sem verra er, er að þessi framkoma er stunduð inni á Alþingi okkar Íslendinga og það af mönnum sem þykjast hátt yfir alla aðra hafnir ef mark á að taka á orðum þeirra.

Þessi framkoma virðist einkanlega í heiðri höfð innan Sjálfstæðisflokksins og er því eðlilegt að maður spyrji sig hvort þessi framkoma er kennd í stjórnmálaskóla hans?! Það er reyndar ekki nýtt að einstaka þingmenn tali til starfsbræðra sinna eins og þeir séu af einhverri óæðri vitleysingjategund en þeir sjálfir af einhverju útvöldu eðalkyni. Það hefur þó keyrt um þverbak eftir að fyrrverandi ríkisstjórn sá sig tilneydda til að segja af sér fyrr á þessu ári.

Mótmæli á AusturvelliMér virðist þetta að miklu leyti sömu mennirnir sem haga sér þannig og ósköpuðust yfir friðsömum mótmælum og kölluðu til lögreglu til að þagga niður í mótmælendum. Þeim stóð þvílík ógn af venjulegum borgurum sem var nóg boðið og stilltu sér upp með búsáhöldin ein að vopni að þeir kölluðu m.a. segja sérsveitina til að stilla sér upp á milli sín og þeirra. Þeir létu það m.a. segja óátalið að lögreglan beitti efnavopnum sínum á hópinn nema að þeir hafi gefið fyrirskipun um að þeim skildi beitt.

Eru það ekki sömu mennirnir sem kölluðu yfirvegaða mótmælendur skríl sem gera sig núna seka um að óvirða þingið með óvönduðu orðavali, útúrdúrum og alls konar fáránlegum uppákomum? Er ekki ástæða til að við þjóðin, vinnuveitendur þeirra, köllum til lögreglu og látum hana fjarlægja þessa skemmdarvarga út af þinginu. Þeir eru nefnilega ekki einvörðungu að óvirða sjálfa sig og aðra þingmenn með framkomu sinni heldur standa þeir í vegi fyrir því að þingið geti hrundið í framkvæmd ýmsum þeim þjóðþrifamálum sem nú liggja fyrir því.

Mér finnst það sem ég sé og heyri af því sem fram fer á þinginu vera til skammar fyrir þá sem haga sér eins og fífl bæði í orði og æði. Þess vegna hef ég velt mikið vöngum yfir því hvort það er ekki mannskemmandi fyrir þá sem þurfa að sitja undir þessu að starfa við þessar aðstæður. Mér myndi líða illa að þurfa að vinna með svo skemmdu fólki að þeim finnist sjálfsagt að tefja fyrir mikilsverðum málum með slíkri lítilsvirðingu og umræddir þingmenn viðhafa nú.

Þetta má ekki ganga svona og þess vegna er nauðsynlegt að setja þingmönnum siðareglur eins og öðrum starfsstéttum. Þeir sem kunna ekki að haga sér eftir þeim ætti að veita áminningu og hreinlega vísa þeim úr þingsal ef þeir láta sér ekki segjast. Það þarf að skapa öðrum þingmönnum viðunandi starfsskilyrði með því að fjarlægja þá sem viðhafa þar andlegt ofbeldi daginn út og daginn inn.

Ég hvet ykkur til að hlusta á ræðu Jóns Magnússonar, 10. þingmanns Reykjavíkur suður, en hana er að finna hér. Þetta er reyndar ekki versta dæmið um það sem ég er að tala um hér að ofan en hrokinn og rembingurinn er þó greinilegur þar sem hann segir að hann hafi haft „annað og merkara við tímann að gera“ í gær en að hlusta á Silfur Egils „þann innihaldsrýra sleggjudómaþátt“.

Það gerist ekki oft en núna langar mig til að:
Öskra
mbl.is Þingfundur hafinn á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski full ástæða til en af allt öðru tilefni

Ég hef nú meiri áhyggjur af því sem hann er og hefur sjálfur verið að bralla. Það er nefnilega ýmislegt sem bendir til að sumt af því stríði gegn hagsmunum mínum og allrar þjóðarinnar. Það er þess vegna full ástæða fyrir Össur Skarphéðinsson að hafa áhyggjur en ekki af því sem Norður-Kóreumenn eru að bardúsa hinum megin á hnettinum: 

Hann ætti miklu heldur að hafa áhyggjur af því sem hann sjálfur hefur verið að bralla á alls konar fundum með vafasömum leiðtogum víða um heim og afleiðingunum af því fyrir þjóðina sem treysti honum fyrir þingmennsku og ráðherraembætti!

Össur Skarphéðinsson í AusturlöndumForseti Íslands: Ólafur Ragnar Grímsson, gestgjafinn: emírinn af Katar og iðnaðarráðherra Íslands: Össur Skarphéðinsson.

Össur Skarphéðinsson skrifar undir samningInaðarráðherra Íslands og fjármálaráðherra Katar skrifa undir milliríkjasamning.

Sjá fleiri mydir frá þessu ferðalagi hér og efni samningsins sem er verið að undirrita á myndinni hér að ofan auk annara erinda sem hann sinnti í þessu ferðalagi hér. Umrætt ferðalag átti sér stað í janúar í fyrra.


mbl.is Utanríkisráðherra áhyggjufullur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki öll vitleysan eins!

Ætli þeir, sem finnst sjálfsagt að fresta þingfundi út af þessari útsendingu, eigi ekki upptökutæki? Ætli þeir fylgist svona vel með öllu sem fram fer í fjölmiðlum? Mér finnst það hæpið miðað við meðvitundarleysi þeirra sumra að ég tali ekki um forgangsröðunina!
mbl.is Hlé á þingfundi vegna framboðsfundar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífsspursmál!!

MúturÁ undanförnum árum hafa menn setið á þingi sem hafa verið tilbúnir til að gera vafasama saminga fyrir erlend stórfyrirtæki á kostnað þjóðarinnar. Þeir hafa skrifað undir samninga þar sem þeir hafa m.a. samþykkt það að þjóðin borgi raforkunnotkun þessara fyrirtækja. Þeir sem hafa skrifað undir slíka samninga hafa á móti fengið ýmis konar fyrirgreiðslur sem á góðri íslensku heitir ekkert annað en mútur!

Viljum við greiða slíkum einstaklingum atkvæði okkar til að þeir geti þannig hlaðið undir sinn eigin rass á kostnað þjóðarinnar?! Ég segi nei!!! Við höfum ekkert með slíka að gera inn á okkar þjóðþingi. Við þurfum þangað hugsjónafólk sem ver hagsmuni lands og þjóðar umfram allt! Nú höfum við tækifæri til að kjósa slíkt fólk.

Fólk sem stóð upp síðastliðið haust og mótmælti því sem hefur viðgengist í stjórnsýslunni fram að þessu. Fólk sem af eldmóði flutti ræður á mótmæla- og borgarafundum. Fólk sem kallaði eftir réttlæti. Fólk sem barði potta og pönnur til að hrópa niður sofandi og spillt stjórnvöld. Fólk sem hefur sýnt óeigingirni, vitsmuni og styrk í baráttu sinni fyrir lýðræðisumbótum.

Nú er tækifærið til að kjósa þetta fólk á þing og vísa eiginhagsmunaseggjunum, græðgisseggjunum og landráðamönnunum þaðan út enda hafa þeir sýnt það og sannað að þeir eiga ekkert erindi við hagsmuni þjóðarinnar. Bregðumst ekki skyldu okkar við okkur sjálf, börnin okkar, landið okkar og framtíðina. Kjósum rétt! Kjósum réttlæti, lýðræði, skynsemi og óeigingirni í komandi kosningum!


mbl.is Dagskrártillaga felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnst engum þetta tortryggilegt!

Ég fékk eftirfarandi sent sem athugasemd við eina af færslunum mínum í gær. Mér finnst það sem þar kemur fram svo stórkostlega athyglisvert að ég bókstaflega verð að vekja frekari athygli á henni.

Það hefur komið mér á óvart að sjá á bloggsíðum í dag hversu margir virðast ekki hafa skilið hvað hefur verið í gangi hér síðustu ár. Hvaðan hélt fólk að peningarnir sem íslensku glæpamennirnir stærðu sig af hefðu komið?:

Af himnum ofan? Vaxið á trjánum?

Hvaðan hélt fólk að peningarnir vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu komið? Hvar hefur Landsvirkjun tekið lán undanfarin ár? Við hverja semur Landsvirkjun sem krefjast þess að orkuverðinu sé haldið leyndu fyrir eigendum orkunnar? Um hvað annað semur Landsvirkjun?

Af hverju hafa stjórnvöld ekki skilgreint hvað eru íslenskar auðlindir og komið þeim sem slíkum í stjórnarskránna sem ævarandi eign þjóðarinnar sem er bannað að taka veð í?

Hvað er utanríkisráðherrann að gera með stöðugu blaðri um stóriðju? Hverjir græða á stóriðju á Íslandi? Ekki Íslendingar! Hlustið á Perkins? Hvað var utanríkisráðherrann ítrekað að leggja leið sín til Austurlanda nær?

Öllum átti að vera það ljóst að peningar voru sendir hingað til lands í þeirri von að "eigendur" þeirra myndu síðar "eignast" eitthvað sem þá langaði í. Því miður þá voru það ekki íslensku glæpamennirnir sem útlendinga langaði að eignast (þeir mega fá þá alla og eilfífar þakkir mínar fyrir ef þeir halda þeim frá Íslandi um alla eilífð). Öllum mátti vera það ljóst að útlendar ríkisstjórnir og útlend stórfyrirtæki notuðu peninga til að búa svo um hnútana að síðar kæmist þau yfir auðlindir Íslands: vatnið, orkuna, fiskinn!

Það sem ég hef furðað mig á síðustu mánuði er hvað heimur sumra fjölmiðlamanna virðist vera lítill: Þeir sóa tíma lands og þjóðar í þjark um hvort skattar verði hækkaðir þegar þeir ættu að leggja sig fram um að halda uppi málefnalegri umræðu um hvort dagar íslenskar þjóðar séu brátt taldir, hvort íslensk menning á sér framtíð, hvort fullveldi Íslands sé á leiðinni á spjöld sögunnar. Skattprósenta skiptir ekki nokkru máli ef íslenskir glæpamenn og handónýtir stjórnmálamenn hafa búið svo um hnútana að Ísland er ekki lengur í höndum Íslendinga.

Nú þegar fólk hefur heyrt í þeim Hudson og Perkins þá er vonandi að það skynji núna og skilji hvaða hætta stafar að okkur vegna útlenda peningamanna: Í hvaða stórhættu íslenskir bankaglæpamenn komu okkur. Hvað var raunverulega að baki fréttatilkynningunum frá bönkunum sem fréttamenn lásu upp eins og um væri að ræða fréttir. Þeir virtust hafa óheftan aðgang að fréttastofum um hvað þeir væru stórkostlegir og frábærir; viðskiptavild, erlendir fjárfestar o.s.frv.

Enn er hægt að telja okkur trú um að þjóðin eigi landið sitt en á hún það? Eða hefur hún enn bara umráðaréttinn yfir því þar til ESB og AGS sækja veðin sín - veðin þeirra íslenskar auðlindir.

Það má ekki líða enn einn dagurinn að stjórnmálamenn sleppi við að svara í smáatriðum:

Hver er staðan?Hver er raunveruleg staða Íslands og Íslendinga?

Hvað á það að þýða að skipa samninganefnd vegna Icesave!? Steingrímur svari því undanbragðalaust!

Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde svari því undanbragðalaust hvernig stóð á því að þau gerðu Icesave að vanda íslensku þjóðarinnar.

Björgólfur Thor og faðir hans eiga sjálfir að semja við lánardrottna sína. Viðskiptavinir þeirra feðga eru ekki lánardrottnar mínir og þínir!

Skuldir einkafyrirtækja eru ekki skuldir íslensku þjóðarinnar og hafa aldrei verið.

Fréttamenn látið stjórnmálamenn segja þjóðinni sannleikann og engar refjar!

Fyrirgefðu, hörkuna í máli mínu - en það eru 20 dagar til kosninga og við erum ekki að fara að kjósa til fjögurra ára að þessu sinni heldur um framtíð okkar, framtíð landsins og í þetta sinn eru þetta ekki inntóm orð - heldur þá ískaldi veruleiki að alls er óvíst að Ísland sé íslenskt mikið lengur!

 

Mikið vildi ég að allir fréttamenn tækju tilmælin hér að ofan til sín og færu að vinna að því að stjórnmálamennirnir segðu okkur sannleikann! Öðru vísi gera fjölmiðlar sig seka um að vinna gegn almenningshagsmunum en ég trúi því ekki að hinn almenni fréttamaður vilji gera sig sekan um slíkt.

Ég vona líka að þjóðin taki sig saman og segi þeim stjórnmálamönnum sem hafa orðið berir að útúrsnúningum, málþófi á örlagastundum og beinum lygum á undanförnum mánuðum verði skilyrðislaust sagt upp í komandi kosningum. Það er þjóðinni lífsnauðsynlegt að það verði gerð ærleg hreingerning inni á þinginu og hvenær er betra tækifæri til þess en einmitt núna!


mbl.is Tenging við evru skapar erfiðleika
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilingsvana tómarúm handan við hversdaglegan raunveruleikann

Bíddu! Er það ég, þingheimur eða blaðamaðurinn sem skrifar þessa frétt sem datt úr sambandi! Eru leiðslurnar inn í heilastöðvar þingmanna kannski lengri en gegnur og gerist! Ég meina horfðu þeir sem eru að ota fram frumvarpi um fjárfestingasamning vegna álvers í Helguvík ekki á Silfur Egils í gær!

Samkvæmt því sem þar kom fram eru það ekki lengur náttúruverndarsjónarmiðin sem vega þyngst í allri álversumræðu heldur ógnin sem íslensku efnahagslífi stafar af erlendum eigendum álfyrirtækjanna. Samkvæmt því sem John Perkings upplýsti okkur um, í samtali sínu við Egil Helgason, þá urðum við fórnarlömb ótrúlega ósvífinnar hryðjuverkasveitar á efnahagssviðinu um leið og við hleyptum Alcoa inn í landið. Mér þykir ekki erfitt að trúa þessum orðum hann miðað við það sem við vitum um raforkuverð til neytenda, stöðu Landsvirkjunar og hvernig „austfjarðardraumurinn“ hefur komið út í reynd.

Mér finnst hins vegar með ólíkindum að lesa frétt af því inni á mbl.is að það sé enn verið að ræða eitthvað sem tengist álveri á Íslandi! Hvernig fara menn að því að loka svona á sér skilningarvitunum? Hvernig komast þeir hjá því að sjá, heyra og skilja? Lifa þeir hreinlega í einhverju skilningsvana tómarúmi handan við þann raunveruleika sem við hin horfum upp á?

Fyrir þá sem hafa ekki enn horft á viðtal Egils Helgasonar við John Perkings annars vegar og Micheal Hudson hins vegar, í Silfrinu í gær, þá bendi ég á að undir nöfnunum þeirra eru krækjur á viðtölin við þá undir nöfnunum þeirra. Eins var birtist stórmerkileg grein eftir Michael Hudson í Fréttablaðinu í gær en hún er sú fyrri af tveimur.

Það er hreinlega skylda hvers Íslendings að átta sig á því hvað er að gerast í íslensku samfélagi. Við tölin hér á undan og grein M.H. eru mjög upplýsandi  og þess vegna góð leið til að átta sig á því við hverju við þurfum að bregðast. Þjóðin verður öll að átta sig á því hvaða ógnir steðja að landi þeirra og þjóð. Nokkrar þeirra eru því miður inni á þingi. Við verðum að byrja á því að koma þeim þaðan út áður en þeir vinna hagsmunum okkar frekari tjón. Þau eru orðin gífurleg nú þegar.


mbl.is Alfarið á móti álverssamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggunin

Þeir sem horfðu á Silfrið í dag og fylgjast með fréttum á mbl.is taka sennilega eftir því að þar hefur ekki komið stafkrókur um það sem þar kom fram í dag. Hvers Mikill vill meiravegna ætli það sé?

Nú er rétt að benda á að tveir spreng- lærðir og þrautreyndir sérfræðingar sögðu það sem margir mótmælendur hafa hamrað á aftur og aftur varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessir sérfræðingar tóku það skýrt fram að ef við færum að kröfum sjóðsins þá færðust lífskjör almennings niður á plan fátækustu ríkja heims- ins! Getur verið að þeir sem eru á vaktinni hjá mbl.is í dag telji þetta ekki stórmerkilegar fréttir eða skilja þeir kannski ekki ensku?

Mér þykir það ekki síður stórfrétt að leiðtogar stjórnarflokkanna sem áttu að vinna að hagsmunum þjóðarinnar á undangengnum árum hafa í raun verið að selja okkur í ánauð. Þeir þögguðu niður í þeim sem reyndu að vara þá við í hvað stefndi og enn kjósa þeir að grjóthalda kjafti. Það lítur líka helst út fyrir að þeir hafi skipað vefmiðlunum að gera slíkt hið sama. Það er því útlit fyrir að þöggunarvopnin séu enn í umferð.

Við yfirferð yfir stærstu vefmiðlana má finna fréttir um viðræður Össurar og Obama um samstarf Íslands og Bandaríkjanna í jarðhitavinnslu. Þar er líka að finna fréttir um það að Valgerður hafi kvatt stjórnmálin eftir rúmlega tveggja ára setu. Það getur vel verið að einhverjum þyki þetta mikilsverðar fréttir en miðað við þær stórfréttir sem komu fram í Silfri Egils í dag þá eru þetta algjörar miðjusíðufréttir.

Það er líka merkilegt að rifja upp orð Agnesar Bragadóttur úr Silfrinu í dag þar sem hún talar um að nýju eigendur mbl.is „kunni að eiga fjölmiðil“. Mér finnst þetta reyndar svo loðið orðalag að ég leyfi mér að velta því fyrir mér hvort það beri að skilja það svo að þetta merki: Það að kunna að þegja yfir stórfréttunum en mjatla ofan í fólk smáatriðunum í sambandi við það hvort einhver Pólverji hafi haft hægðir eða ekki!

Kuldaleg þögnÉg furða mig alltaf meir og meir á þeim sem sitja við stjórnvölinn. Þeim sem stýra allri stjórnsýslunni, fjármálunum og fjölmiðlunum án nokkurrar alúðar eða mannkærleika. Þeim sem eru svo firrtir allri réttlætiskennd að þeir voga sér m.a.s. að þegja yfir því sem almenningur, sem heldur þessu öllu uppi, á rétt á að vita!

Skilja þöggunarsinnarnir ekki á hverju þeir ala með framkomu sinni? Skilja þeir ekki hvernig þessi æpandi þögn er að fara með fólk? Skilja þeir ekki hvernig þeir grafa undan trausti og trúðverðuleika... hvernig þeir grafa undan sátt og samlyndi. Skilja þeir ekki að í raun þá ógna þeir friðnum með þessum áberandi þöggunar- vopnum sínum? Ég vona svo sannarlega að þeir fari að opna skilningarvit sín fyrir þessum nöturlegu staðreyndum!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband