Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Mér finnst það svo skrýtið...
25.9.2008 | 23:29
Síðasliðið vor voru samþykkt ný lög um framhaldsskólann. Það hefur verið ótrúlega lítil umræða um þessi nýju lög í fjölmiðlum og úti í samfélaginu yfirleitt. Það ber að taka það fram að það var ekki aðeins gerð breyting á lögunum sem varða framhaldsskólann heldur öll skólastigin. Það vekur mér furðu hvað lítið hefur verið fjallað um þær breytingar sem þessi nýju lög hafa í för með sér.
Það eru eflaust á þessu nokkrar skýringar en engin góð. Sú sorglegasta er sú að það virðist enginn vita neitt. Það er reyndar ekki skrýtið því þeir (eða sá/sú) sem sköpuðu þau virðast ekki alveg gera sér grein fyrir innihaldinu eða umgjörðinni sjálfir. Það versta við þetta er að í meginatriðum er þetta alveg satt!
Ég get ekki fullyrt hvort að þeir fulltrúar sem menntamálaráðherra hefur sent út í framhaldsskólana fram að þessu, til að upplýsa kennara þeirra fyrst um frumvarpið og núna lögin, hafi ekki mátt segja, eða hafi ekki vitað, allt. Það hlýtur þó að teljast furðuleg vinnubrögð að senda tengiliði eða fulltrúa inn í skólana sem geta ekki svarað eðlilegum spurningum kennara um breytingarnar sem lögin munu hafa í för með sér á vinnuumhverfi þeirra og nemenda skólans.
Ef þau í Menntamálaráðuneytinu geta eða vilja ekki svarað þeim spurningum, sem brenna á kennurum og hagsmunasamtökum þeirra, varðandi nýju lögin þá er hæpið að þeir svari öðrum. Það er samt skrýtið að fjölmiðlar skuli ekki fjalla einmitt um það. Þögnina og/eða leynimakkið í kring um nýju menntalögin að hálfu ráðuneytisins. Ég myndi halda að það hvernig menntun er háttað í landinu varði alla þjóðina. Ekki bara kennara... Það er þess vegna skrýtið að almenningur í landinu uni þessari þögn og um leið óvissu um það hvenig menntun barna og unglinga á Íslandi verður háttað í framtíðinni.
Mér finnst það t.d. mjög athyglisvert að Alþingi hefur afsalað sér völdunum sem það hafði í þessum efnum til Menntamálaráðuneytisins. Mér finnst líka mjög athyglisvert að á sama tíma og fulltrúar ráðuneytisins reyna að setja nýju lögin um framhaldsskólann í glanspappír fyrir okkur hin með stöfunum: skólarnir munu öðlast svo mikið frjálsræði þá sitja starfsmenn ráðuneytisins sveittir við að setja saman 23 reglugerðir til að ramma inn lögin...
Já mér finnst það virkilega skrýtið að fréttamenn og fjölmiðlarnir yfirleitt skuli hlífa menntamálaráðherra og öðrum starfsmönnum ráðuneytisins við að skýra það út fyrir þjóðinni hvað þeir eru að búa til? Til hvers? Fyrir hverja? Hvers vegna? Hvað þetta kostar? Hvað muni ávinnast? Hverju var hent út? Hvað tekið upp í staðinn? Hvaða faglegu forsendur liggi að baki? Með hvaða menntunarfræðingum og -ráðgjöfum þetta var unnið? o.s.frv. o.s.frv.
Ég hélt fyrst að tilgangurinn með nýju lögunum væri sá að spara en mér sýnist að nú þegar sé búinn að fara þvílíkur peningur í þetta hringl ráðuneytisins með framhaldsskólann að ég skil ekki að það skuli ekki vera búið að loka á frekara bruðl í sambandi við hann a.m.k. Í lok síðustu aldar var eytt ótrúlega litlum tíma en miklum peningum til að búa til nýja námsskrá fyrir framhaldsskólastigið. Þegar hún kom út í upphafi þessarar aldar kom í ljós að innihald hennar var nokkurn vegin það sama og þeirrar á undan. Það var þó búið að hræra þannig til í innihaldi áfanganna að gömlu kennslubækurnar voru langflestar úreltar. Þess vegna þurfti að eyða meiri pening í að búa til nýjar þannig að þær pössuðu við þá sem urðu til út úr tilfærslu- og sambræðsluverkefninu...
Nánast um leið og bókakassarnir með nýju námsskránni voru farnir af stað út í skólana var byrjað að undirbúa miklu stærra og kostnaðarsamara verkefni. Nú skyldi stokka allt íslenska menntakerfið upp. Nýju menntalögin eru útkoman og auðvitað varð nýja námsskráin fyrir framhaldsskólann, sem hefur ekki einu sinni náð 10 ára aldri, úrelt um leið og þessi lög tóku gildi. Í raun veit enginn hvernig nýja námskráin á að vera. Fyrst þarf að fást botn í það hvar gólfið á að vera og hvar þakið samkvæmt nýju framhaldsskólalögunum. Á meðan það er ekki ljóst er tæpast hægt að fara að smíða veggina... Síðustu fregnir herma þó að reglugerðarfarganið verði tilbúið upp úr næstu áramótum.
Eins og allir geta ímyndað sér þá er ákaflega þægilegt að vinna við þessar aðstæður eða hitt þá heldur. Kennarar eru líka flestir alveg gáttaðir. Nemendur sennilega margir hverjir líka ef þeir eru þá almennilega meðvitaðir um það hvað er að gerast. Það eru þó nokkrir í hópi kennara sem prísa sig sæla yfir því að þeir eru að komast á eftirlaunaaldur. Senilega eru líka margir í núverandi nemendahópi framhaldsskólanna sem finnst að nýju lögin komi þeim ekki við þar sem þeir útskrifast samkvæmt gamla kerfinu. Einhverjir eru líka í losti eins og ég.
Þeir eru reyndar þó nokkrir sem reyna að halda í þá trú að í nýju lögunum felist miklar úrbætur. En það er staðreynd að heildarmyndina hefur enginn nema kannski menntamálaráðherra. Er það ekki skrýtið í ljósi þess að lögin hafa þegar tekið gildi!?
Menntun og skóli | Breytt 8.11.2008 kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stolt mamma
8.9.2008 | 00:08
Ég er voðalega stolt mamma enda á ég tvær mjög vel heppnaðar dætur. Það er lán sem ég er ákaflega þakklát fyrir. Ég hef áður skrifað langt og ítarleg blogg sem snertir yngri dóttur mína. Ég má auðvitað ekki gera upp á milli dætra minna þannig að ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á afrekum eldri dóttur minnar hérna líka
Eldri dóttir mín var nefnilega að útskrifast frá Háskólanum á Bifröst sl. laugardag. Hún var að ljúka BA-námi af yngstu skorinni þar. Sú heitir HHS en þessi skammstöfun stendur fyrir heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Dóttir mín var meðal þeirra fyrstu sem veðjuðu á þetta nám haustið 2005 og var að útskrifast núna þremur árum seinna.
Hún er búin að vera rosalega dugleg. Hún lauk kúrsunum fyrir ári síðan, keypti sér íbúð með kærastanum sínum og byrjaði að vinna. Á sama tíma og hún hefur verið að vinna sig upp hjá fyrirtækinu þar sem hún vinnur hefur hún verið að skrifa BA-ritgerð um kosningarþátttöku ungs fólks á Íslandi. Það er ekkert af ástæðulausu sem ég er stolt af þessari elsku
Ég sakna sumarsins nú þegar
3.9.2008 | 01:53
Jæja, þá er haustið að skella á í allri sinni dýrð.
Þó haustið sé fallegur árstími fyllist ég alltaf trega yfir því að sumarið er liðið og við tekur langur vetur. Veturinn er alltof langur. Ég vildi snúa skiptingu íslensku árstíðanna þannig við að veturinn væri þrír mánuðir og sumarið níu!
Ég elska nefnilega sumarið, sólina, ylinn, gróðurinn og ilminn. Veturinn er hins vegar langur, dimmur og kaldur. Snjór og frost eru heldur engir vinir mínir.
Fyrir svona svefnpurkur eins og mig er ekkert ömurlegra en að rífa sig eldsnemma upp úr rúminu í kolsvörtu myrkri til að fara út í ískaldan vetrarmorguninn. Standa svo í tíu mínútur að meðaltali yfir bílnum við að sópa hann og skafa. Ég er ákaflega ánægð yfir því að á síðustu árum er veturinn á Íslandi orðinn mildari en hann var og þess vegna ekki eins algengt að maður þurfi að norpa yfir slíkum morgunverkum.
Ég skil dýrin sem leggjast í dvala yfir vetrartímann óskaplega vel. Sumarið er hins vegar árstíminn sem ég hvílist og endurnærist í. Veturinn er sá tími sem ég þarf að láta hendur standa vel fram úr ermunum. Þetta helgast einfaldlega af atvinnu minni.
Þetta hljómar kannski eins og ég sé að kvarta og kveina. Það er ekki ætlunin. Þetta er frekar eins og hugleiðsla sem ég set hér niður í þeim tilgangi að klappa mér á bakið og minna mig á að hver árstíð hefur sitt einkenni. Þær taka við hver af annarri og eftir langan vetur kemur fallegt vor og svo árstíðin sem ég elska mest
Þessi hugleiðsla er um leið ástaróður til sumarsins sem mér finnst alltaf líða svo alltof hratt. Að hausti læt ég huggast við það að á næsta ári kemur nýtt sumar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)