Ég sakna sumarsins nú þegar

Jæja, þá er haustið að skella á í allri sinni dýrð.

Haustlauf Þó haustið sé fallegur árstími fyllist ég alltaf trega yfir því að sumarið er liðið og við tekur langur vetur. Veturinn er alltof langur. Ég vildi snúa skiptingu íslensku árstíðanna þannig við að veturinn væri þrír mánuðir og sumarið níu!

Ég elska nefnilega sumarið, sólina, ylinn, gróðurinn og ilminn. Veturinn er hins vegar langur, dimmur og kaldur. Snjór og frost eru heldur engir vinir mínir. 

Fyrir svona svefnpurkur eins og mig er ekkert ömurlegra en að rífa sig eldsnemma upp úr rúminu í kolsvörtu myrkri til að fara út í ískaldan vetrarmorguninn. Standa svo í tíu mínútur að meðaltali yfir bílnum við að sópa hann og skafa. Ég er ákaflega ánægð yfir því að á síðustu árum er veturinn á Íslandi orðinn mildari en hann var og þess vegna ekki eins algengt að maður þurfi að norpa yfir slíkum morgunverkum.

Ég skil dýrin sem leggjast í dvala yfir vetrartímann óskaplega vel. Sumarið er hins vegar árstíminn sem ég hvílist og endurnærist í. Veturinn er sá tími sem ég þarf að láta hendur standa vel fram úr ermunum. Þetta helgast einfaldlega af atvinnu minni.

Þetta hljómar kannski eins og ég sé að kvarta og kveina. Það er ekki ætlunin. Þetta er frekar eins og hugleiðsla sem ég set hér niður í þeim tilgangi að klappa mér á bakið og minna mig á að hver árstíð hefur sitt einkenni. Þær taka við hver af annarri og eftir langan vetur kemur fallegt vor og svo árstíðin sem ég elska mestHeart

Þessi hugleiðsla er um leið ástaróður til sumarsins sem mér finnst alltaf líða svo alltof hratt. Að hausti læt ég huggast við það að á næsta ári kemur nýtt sumarSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband