Davíð sýnir þjáningum þjóðarinnar fullkomið skeytingarleysi

Tárfull auguÉg veit ekki hvort ég er eitthvað óeðlilega viðkvæm en fréttin sem ég tengi þessari færslu, svo og þessi hér, hreyfðu báðar þannig við mér að ég fékk kökk í hálsinn. Ég fann einhvern veginn svo djúpt til undan því algera skeytingarleysi sem Davíð Oddsson sýnir þjóðinni og e.t.v. sérstaklega þeim hluta hennar sem hafa staðið upp og mótmælt aðgerðum hans og/eða aðgerðarleysi varðandi fjármál þjóðarbúsins að undanförnu.

Hann lokar sig bara inni í sínum rammgerða steinsteyputurni og hæðist að mótmælendum. Þeir koma auðvitað úr ýmsum áttum og eru e.t.v. mislitur og í einhverjum atriðum ósamstíga hópur. Þeir virðast þó vera  merkilega margir sem eru sammála um að einmitt honum beri að axla ábyrgðina á undangengnum efnahagshörmungum og víkja.

Þetta var krafa þeirra sem tóku sig saman eftir þjóðfundinn í dag og komu sér fyrir í anddyri Seðlabankans núna seinni partinn: „Við viljum Davíð [Oddsson seðlabankastjóra] burt. Mjög einföld krafa og það er ekkert hlustað á þessa kröfu. 90% þjóðarinnar vill hann burt. Gæti þetta verið skýrari krafa.“

Miðað við könnunina sem þarna er vísað í er langmestur meirihluti þjóðarinnar sammála um að Davíð eigi að segja af sér. Auðvitað eru þeir sumir sem vilja ekki gera neitt. Aðrir eru ákveðnir í að halda höfðinu ofan í sandinum svolítið lengur. Einhverjir ætla að freista þess að gleyma sér í jólaundirbúningnum og enn aðrir ætla að doka með að taka afstöðu og sjá hvort raunveruleikinn sem blasir við í dag líði ekki bara hjá...

HandtakÞeir eru hins vegar fjölmargir sem eru búnir að fá miklu meira en nóg. Það eru bæði ungir og aldnir. Einhverjir þeirra mættu á þjóðfundinn í dag þó ég hafi vissulega vonað að þeir yrðu miklu fleiri sem létu sjá sig þar. Flestir vilja aðgerðir. Vilja sjá einhver viðbrögð og árangur en þrautseigjan og þolinmæðin eru ótrúleg. 

Þeir sem tóku sig saman og söfnuðust saman fyrir framan Seðlabankann til að bera Davíð Oddssyni þau skilaboð að þjóðin segði honum upp starfinu sýndu líka ótrúlega stillingu miðað við tilefnið. Einu móttökurnar sem þeim var boðið upp á var lögreglunnar. Davíð lét hins vegar ekki sjá sig eða heyra. Skeytingarleysi hans gangvart þessum fámenna en þolinmóða og prúða hópi mótmælenda særir mig.

Ég tek undir það sem einn í hópi þeirra sagði í viðtali við mbl.is: „Við krefjumst þess að stjórnvöld sem og aðrir í þjóðfélaginu fari að sýna ábyrgð.“ Að mínu viti sýna þeir sem mótmæla ábyrgð. Þeir vilja knýja á um farsælar breytingar fyrir mig og þjóðina alla. Við viljum réttlæti þjóðinni til handa. Við viljum að það sama sé látið yfir alla þegna hennar ganga.

Þeir sem gerast sekir um auðgunarbrot eru látnir sæta ábyrgð. Þeir sem gerast sekir um vanrækslu í starfi eru látnir sæta ábyrgð. Þeir sem hafa gerst sekir um landráð, jafnvel þó það hafi verið af gáleysi, verða að sæta ábyrgð. Þjóðin getur ekki tekið út refsinguna fyrir þessa einstaklinga. Þeir myndu heldur aldrei gera slíkt hið sama fyrir okkur!

Fólkið sem safnaðist saman fyrir framan Seðlabankann í dag hrópaði: „Réttlæti ekki ofbeldi.“ Þjóðin er fórnarlamb margs konar ofbeldis þessa daganna. Það er undir okkur komið hvort við viljum láta níðast á okkur áfram eða hvort við viljum horfast í augu við það að íslenska stjórnkerfið er meingallað og það er bráðnauðsynlegt að hreinsa til í því til að rýma til fyrir nýjum og farsælli leiðum í framtíðinni.

Mig langar til að vekja athygli á umfjöllun smugunnar.is á aðgerðunum fyrir framan Seðlabankann í dag en þar segir:

Uppfært - 16:37: Nú eru þeir tvöhundruð mótmælendur sem staddir eru inni í anddyri Seðlabankans byrjaðir að setjast niður og segjast ekki hreyfa sig fyrr en Davíð Oddsson hefur sagt af sér. Á bak við glerhurð bíður vopnuð sérsveit lögreglumanna sem hefur hótað táragasi ef mótmælendur yfirgefa ekki anddyrið.

Uppfært - 16:45: Nú eru mótmælendur teknir að syngja "Lok, lok og læs og allt í stáli - lokað fyrir okkur" auk þess að krefja sérsveitarmennina að ganga í lið með sér.

Uppfært - 17:12: Anddyri Seðlabankans hefur nú verið rýmt. Mótmæledur og lögreglan náðu samkomulagi. Það fól í sér að að allir mótmælendur yfirgæfu Seðlabankann gegn því að lögreglan leggði niður vopn og beitti sér ekki gegn mótælendum á nokkurn hátt. (smugan.is)

Mig langar svo til að ljúka þessu á broti úr Kastljósi frá 21. nóvember: Andspyrnuhreyfing á krepputímum. Þetta myndband er samantekt frá mótmælaaðgerðunum í Reykjavík fyrstu sex vikur mótmælanna. Það var Katrín Snæhólm sem vakti athygli mína á þessari dásamlegu samantekt.  Lára Hanna er líka með þetta myndband inni á síðunni sinni.

VonarglætaÁstæðan fyrir því að ég lýk þessari færslu með tilvísun í þetta myndband er að fréttirnar frá aðgerðununum við Seðlabankann í dag, sérstaklega sú sem kom á undan, vekja mér svipaðar tilfinningar og myndirnar sem það birtir. Ég finn til samkenndar og stolts þegar ég horfi á þetta þolgóða og staðfasta fólk sem biður á friðsaman hátt um sanngirni en er fullkomlega hundsað. Ég dáist að þolgæði þess og styrk og vona að þó við sjáum lítil sem engin viðbrögð enn þá muni samtakamáttur þjóðarinnar knýja fram réttlæti okkur til handa.

Ég ætla að minnsta kosti að halda í vonina. Það er eina haldreipið sem ég hef í bili.


mbl.is Ráðist inn í Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: oktober

oktober, 1.12.2008 kl. 23:04

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir að setja þessa athugasemd við færsluna mína með vísuninni á fréttina á síðuna þína. Þeir voru margir gullmolarnir sem féllu þarna en þetta sýnir það sem ég vildi benda á í færslunni minni hvað mótmælendur eru ótrúlega yfirvegaðir og rólegir. Það er ekki að tilefnislausu sem Íslendingar fara út í frost og kulda til að mótmæla. Það er sorglegt að ráðamenn láti sem þeim komi þetta ekki við og hundsi þá fullkomlega.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 23:15

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Takk fyrir enn eina frábæra færslu Rakel...hvet alla til að horfa á myndböndin sem þú vekur athygli á í færslunni. Sérstaklega finnst mér myndbandið frá mótm´lunum við seðlabankann í gær flott. Þar getur fólk séð að orðin skríll og ofbeldi eiga engan veginn við.

Já maður getur nú tárast þegar vanvirðing ráðamanna nær sínum hæstu hæðum. En mað'ur tárast nú líka yfir góðum hlutum eins og samstöðu og því að fleiri og fleiri íslendingar eru nú að vakna upp við vondan drauminn og gera eitthvað í þessari martröð. Marg spennandi að gerast í grasrótinni og við eigum fleiri góða að en flesta grunar Byltingin verður..það er bara spurning hvenær en ekki hvort!!

Knús á þig flotta kona.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.12.2008 kl. 15:33

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og ég sagði þér þá féll ég algjörlega fyrir myndbandinu úr Kastljósi sem þú bentir á. Ég er líka búin að horfa á það nokkrum sinnum og hlusta á lagið sem er leikið undir því. Myndbandið sem Arnar benti mér á er líka alveg ómetanlegt. Ekki síst fyrir það sem þú segir að ef einhver vill kalla þá sem mótmæltu fyrir framan Seðlabankann ofbeldisfullan skríl þá sýnir þetta myndband að það er nú öðru nær!

Es: Hlakka til að hitta þig á laugardaginn. Verð í sambandi. Bestu kveðjur þangað til

Rakel Sigurgeirsdóttir, 2.12.2008 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband