Það er kannski ekki nema von...

Hugurinn hvarflar víða þessa daga og vikur sem hafa liðið frá hruni bankanna. Margt vekur mér furðu og sumt svo mjög að ég er angdofa og orðlaus. Það hefur ýmislegt viðgengist í samfélaginu á undanförnum misserum sem mér hefur fundist í hæsta máta ósanngjarnt en ég ímyndaði mér þó aldrei að ósanngirnin gæti orðið jafn yfirgengileg og sú sem við horfum upp á um þessar mundir.

Mér finnst það a.m.k. yfirgengileg ósanngirni að íslensk stjórnvöld setji almenningi að blæða og þjást fyrir auðgunarbrot nokkurra banka- og fyrirtækjaeigenda. Fréttir herma að það sé skollin, eða u.þ.b. að skella, á kreppa í löndunum í kringum okkur en hún muni þó hvergi verða þyngri en hér á Íslandi. Ástæðan er sögð íslensku útrásarbarónarnir sem lögðu ævisparnað íslenskra sparifjáreigenda undir á spilaborði áhættufjármagnisins.

Heilbrigð skynsemi segir mér að eigendur bankanna, sem fóru þannig að ráði sínu, og fjármálaeftirlitið í landinu, sem lét þetta viðgangast, eigi að taka ábyrgðina og bera hana líka. Heilbrigð skynsemi segir mér að banka- og fyrirtækjaeigendur sem fóru þannig að ráði sínu séu glæpamenn sem eigi ekkert frekar að fá að njóta vafans frekar en hverjir aðrir innbrotsþjófar. Heilbrigð skynsemi segir mér líka að fjármálaeftirlitið í landinu eigi að axla sína ábyrgð, biðja almenning í landinu afsökunar, viðurkenna vanhæfni sína og draga sig í hlé.

Það sem við horfum upp á er í þvílíkri mótsögn við heilbrigða skynsemi mína að ég velti því óneitanlega fyrir sér hvort ég lifi í martröð eða veruleika. Ég veit að þetta er ekki martraðarkenndur draumur og þess vegna spyr ég mig hví veruleikinn sé svona öfugsnúinn eins og raun bert vitni? Í raun finnst mér veruleikinn sem blasir við í íslensku samfélagi um þessar mundir ekki aðeins martraðarkenndur heldur stórhættulega geðveikur!

Þess vegna setur að mér kvíða. Ég treysti ekki stjórnvöldum sem snúa út úr sanngirninni eins og þeir hafa gert. Ef ég gerist sek þarf ég að taka út mína refsingu. Af hverju gildir það ekki um auðmannaklíkuna líka? Af hverju þarf íslenskur almenningur að sitja í skuldafangelsi fyrir fámenna auðmannarefi? Af hverju þurfum við að blæða og þjást þó fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin hafi látið þetta auðmannabræðralag hafa sig af fíflum?

Ég þykist vita að það liggi nokkuð ljóst fyrir meðal allra aðila hverjir hinir seku eru. Ég krefst þess að þeir fái meðhöndlun eins og aðrir grunaðir. Að þeir verði rannsakaðir og dregnir til saka. Ég krefst þess að þeir verði látnir borga það tjón sem þeir bera ábyrgð á. Ég neita því að dæmdur fjárglæframaður geti snúið heim með rússagull og hreiðrað um sig í einni af elstu fjármálastofnun landsins og orðið þannig enn stórtækari í fjárglæfrastarfseminni, og komist upp með það!

Ég veit að það gengur kreppa yfir hinn vestræna heim en það eru fleiri og alvarlegri hlutir sem dundu á íslensku hagkerfi en svo að hún skýri þá djúpu lægð sem við erum ekki enn komin til botns í. Ég á rétt á að fá það upp á yfirborðið hvaða hlutir það voru og hverjir báru ábyrgð á þeim. Ég á líka rétt á því að mínar skuldir fái sömu meðhöndlun og þeir gæðingar sem hafa verið fríaðir frá skuldum sínum með ólögum frá Alþingi á undanförnum vikum. Ég á rétt á því að ég og fjöldinn sem ég tilheyri verði sett í forgang fram yfir örfáa glæpamenn sem eru flestir búnir að flytja lögheimili sín út fyrir landsteinanna. 

Það er ekki langt síðan að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds við að heyra þá vafasömu speki hafða eftir einhverjum bandbrjáluðum græðgisvæðingarsinnanum að græðgin væri dyggð! Mér var svo sannalega misboðið. Að einhverjum geti dottið þessi heimska í hug. Að einhverjum skuli detta í hug að bera slíka gerræðishugmynd á borð fyrir venjulegan almenning. Það er því miður nokkuð ljóst að þeir sem hömpuðu útrásinni og þeim örfáu einstaklingum sem stóðu að baki henni voru heillaðir af þessari kenningu.

Kenningin um að græðgin sé dyggð er afskræming á veruleikanum, eins og dæmin allt í kringum okkur núna sanna, en græðgisvæðingarsinnaðir banka- og fyrirtækjaeigendur sem hafa fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnina í vasanum neita að horfast í augu við það. Græðgin hefur bent þeim á lausn á vanda þeirra: Látum almenning blæða! Getur það verið að þeir muni komast upp með það! Ég neita að trúa því en þessi mynd græðginnar hefur ýtt mér út á tilfinningalegt hengiflug.HengiflugEr það von þó manni blöskri?! Er það von þó manni misbjóði?! Er það von þó manni finnist maður vera staddur úti á ystu brún hengiflugsins?!

En hvað er til ráða? Eina leiðin sem ég sé út úr þessari skelfilegu líðan er að rísa upp og mótmæla: Hingað og ekki lengra! Bíð spennt eftir fréttum morgundagsins. Þykir slæmt að geta ekki verið með en treysti því að íbúar höfuðborgarsvæðisins og nágrennis misbjóði eins og mér og fjölmenni á þjóðfundinn. Ég get ekki séð annað en það sé langbesta gjöfin til 90 ára fullveldis landsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl; Rakel !

Þakka þér; afbragðs færzlu, hérna. Hefi engu við að bæta, þinnar stórkostlegu framsetningar, á raunverulegu ástandi mála, á landi hér.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 01:22

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir kveðjuna Óskar Gott að heyra að einhver geti notið þeirrar tilfinningalegu „útrásar“ sem ég leyfi mér að láta flæða hér. Líður svolítið betur af því að heyra að hugsanir mínar eigi samhljóm annars staðar líka.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 01:33

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Tek heilshugar undir hvert einasta orð hér og hverja tilfinningu sem þú lýsir svo vel í þessari færslu þinni. Ætla að fá að setja link á síðuna þína á blogginu mínu og hvetja alla til að lesa þessi skrif. Mér er svo misboðið að ég er farin að skilja og skynja í líkamanum áður óþekktar tilfinningar..svona innri þörf fyrir að refsa og berja einhvern fast. Mig langar að arga og garga en veit að það heyrir enginn í mér og allt sem ég hef að segja er hundsað. Og það er verið að ganga fram af öllum þeim gildum sem ég hef hingað til trúað að við hefðum sem þjóð. Ef það verða ekki tugþúsundir manna og kvenna á Arnarhóli í dag og gera ráðamönnum það fullkomlega ljóst að við LÍÐUM ÞETTA EKKI MEIR...þá veit ég ekki hvað ég á að halda. Kannski eru íslendingar aumingjar og vitleysingar. 

Já ég veit..ekki falleg hugsun. Ég mun samt halda í vonina fram eftir degi ..sjáum svo hvernig fól bregst við þegar skorturinn og húsnæðisleysið verður raunverulegt eftir jólin. Segjum febrúar. Þá verður byltingin..og ekki bara hugarfarsleg spái ég.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.12.2008 kl. 10:43

4 Smámynd: Þorgrímur Gestsson

Takk fyrir þetta. Það er gaman að finna hvernig fólk er að vakna til vitundar um óréttlætið, sem hefur lengi viðgengist. En nú eru runnir upp tímar samstöðu þjóðarinnar. Ég held að þessar þrengingar efli okkur sem þjóð. Til hamingju með 90 ára fullveldisafmælið og megi sem flestir koma á Arnarhól í dag. Takið ykkur frí úr vinnu - eins og Jónas Kristjánsson (held ég) bloggaði nýverið einhvers staðar er þetta ekki bylting; byltingin hefur þegar verið gerð, bylting stjórnvalda gegn þjóðinni, þetta er gagnbylting, tilraun þjóðarinnar til þess að koma á nýju réttlæti, án flokksskírteina.

Lifi gagnbylting fólksins!

Þorgrímur Gestsson, 1.12.2008 kl. 11:42

5 Smámynd: Hinrik Þór Svavarsson

takk fyrir góðan pistil Rakel..

og Katrín við verðum að halda í vonina... ég trúi enn að þetta geti ekki gengið mjög lengi þar sem fólk sé búið að átta sig á gjaldþroti nýfrjálshyggjunnar (græðgisvæðingarinnar) og það þarf að halda þeirri staðreind á lofti til að hugarfar geti breyst. Ég get ekki eða frekar er ég ekki tilbúinn til að trúa að Íslendingar séu svo heimskir að sjá ekki að það þarf að skipta um stefnu ..

það er verið að ráðast á eigur hins almenna borgara og bara taka þær. við verðum að verjast ef við ætlum ekki að verða leiguliðar hjá ógeðfelldri yfirstétt!.. Sýnum hvað í okkur býr á Arnarhóli í dag

lifi byltingin

bylting fólksins

byltingin okkar!

Hinrik Þór Svavarsson, 1.12.2008 kl. 11:53

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Leiguliðar hjá ógeðfelldri yfirstétt...jæks hvað þetta er ömurleg framtíðarsýn og má bara ekki gerast.

Allir á Arnarhól!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 1.12.2008 kl. 12:26

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka ykkur öllum fyrir fallegar kveðjur. Ég er svo sannarlega sammála því að við þurfum að skipta um stefnu. Það er mikið rétt að í raun voru það íslensk stjórnvöld sem gerðu byltingu. Þau umbyltu lýðræðinu og efnahagnum. Við getum ekki sætt okkur við það og þess vegna gerum við gangbyltingu. Vona með ykkur að það verði fjölmenni á Arnarhóli. Sé það í netmiðlunum það eru nokkrir byrjaðir að safnast saman þar núna en á erfitt með að trúa öðru en það eigi eftir að bætast þó nokkrir við.

Katrín: Bara gaman að því að þú hafir sett krækju á þessa færslu mína

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 15:09

8 identicon

Rakel mín, tek undir hvert orð. Þú ert ekki ein um að upplifa tilveruna eins og martröð. Ég spyr sjálfan mig margsinnis á hverjum degi hvort þetta sé raunveruleiki eða vondur draumur. Mér finnst ástandið í samfélaginu vera eins og eftir fyrirvaralausa stórstyrjöld sem engin veit af hverju hófst. Styrjöld sem tapaðist illilega og þeir sömu og hófu hana keppast við að sverja hana af sér, kenna öðrum um eins og saklausum útlendingum sem treystu okkur. Nú þurfum við sem "eftir lifum" að taka höndum saman og byggja upp nýtt samfélag.

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 16:43

9 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er mjög góð líking hjá þér. Lostið eða óraunveruleikatilfinningin er örugglega áþekk því að hafa lifað af og standa frammi fyrir því að endurskipuleggja allt. Uppbyggingastarfið getur hins vegar ekki hafist fyrr en allir hafa komið til sjálfs síns.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 17:56

10 identicon

Hehehhe þetta er góður punktur hjá með meðvitundina. Þá er að spurning hverjir eru með meðvitund og hverjir ekki?

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 21:21

11 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er alla vega ljóst að framganga þeirra sem segjast vera best til þess fallnir að leiða björgunarstarfið líta út fyrir að vera hættulega vankaðir

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.12.2008 kl. 22:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband