Mér finnst það svo sárt...

... að horfa upp á hrokann gagnvart einlægninni. Af hverju endist fólk til að mæta aftur og aftur til að koma þeim skilaboðum til hrokafullra ráðherra að það treysti þeim ekki fyrir hagsmunum sínum og þjóðarinnar? Af hverju nennir fólk að standa frammi fyrir einkennisklæddum lögreglumönnum sem skipa því að standa fyrir utan gula borðann og hóta því handtöku ef það heldur ekki aftur af sér?

Svarið er einfalt! Allt sem þessi ríkisstjórn hefur gert frá bankahruninu segir okkur blákalt að það standi ekki til að vernda hag þjóðarinnar en hún þarf vinnufrið til að bjarga sjálfri sér og koma öllu í fyrra horf. Til þess þarf að kýla þjóðina niður með ýmsum efnahagsaðgerðum því það töpuðust jú peningar en það er ekki látið nægja. Það er líka talað niður til hennar.

ÍslandFulltrúar ríkisstjórnarinnar segja að mótmælendur hindri þá í því að vinna vinnuna sína en hvað með fólkið sem hefur misst vinnuna sína fyrir aðgerðir og/eða aðgerðaleysi hennar? Áróður þeirra er sá að þeir séu í fullum rétti og að þeir séu að reyna að leysa vandann en við vitum betur. Við höfum haft 10 vikur til að sjá að það eina sem þessi stjórn er fær um er að auka neyð almennings!

Við höfum heyrt í sérfræðingum í innlendum og erlendum fjölmiðlum, á mótmælenda- og borgarafundum sem við treystum miklu betur til að leysa úr efnahagsvanda þjóðarinnar en ríkisstjórninni. Það sem við höfum séð af aðgerðum hennar undanfarnar vikur virðist miða að því að velta vandræðunum, sem þau og vinir þeirra orsökuðu af stórum hluta, yfir á almenning en skuldhreinsa sjálf sig í leiðinni.

Það stendur ekki til að neinn verði látinn axla ábyrgð nema almenningur. Þeir sem léku sér með verðmæti fyrirtækja, fjármálafyrirtækja og, að ég talin nú ekki um, krónunnar þurfa að komast að fjármálastofnunum aftur og þess vegna ríður á að ríkisstjórnin fái vinnufrið. Æra þeirra er í húfi annars. Þennan dóm dreg ég eingöngu af því sem þjóðin hefur fengið að sjá, heyra og finna undanfarnar vikur.

Það þarf engan að undra að einhverjum þyki ástæða til að verja sig við núverandi aðstæður. Fólk er að missa vinnuna, eignirnar og einhverjir eru byrjaðir að flýja land. Undarlegast að það skuli ekki vera enn fleiri sem sjá sig knúna til að grípa til einhverra slíkra varnaraðgerða. Undarlegt líka hvað þeir sem finna sig knúna til að rísa upp gegn óréttlætinu, sem er verið að matreiða ofan í þjóðina, eru yfirvegaðir og einlægir. Ekki síst þegar þeir mæta engu nema hroka og yfirlæti frá stjórnmálamönnunum.

SársaukiMér finnst svo sárt að horfa upp á myndbandið með þessari frétt. Hrokinn í Ingibjörgu Sólrúnu, Einari Kr. og Guðlaugi Þór gagnvart fólki sem er búið að hrópa á 11. viku: Við treystum ykkur ekki! Víkið burt! og svo segir Einar að hann sé búinn að tala við fólkið... Ég segi það ekki að þögn er ákveðin tjáning og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn fólkinu er það ekki síður. En jafnvel Einar Kr. ætti að skilja að þær eru síst til þess fallnar að þagga niður í þessu þolgóða fólki.

Við erum ekki fífl! Við höfum hlustað á fjölda sérfræðinga og ráðgjafa, bæði innlenda og erlenda, og við vitum að þið eruð að tryggja fjármálastofnunum áframhaldandi tekjur á kostnað launþega í landinu. Við vitum að þið ætlið að tryggja sjálfum ykkur og vinum ykkar áframhaldandi brautargegni í sömu stöðunum og þið höfðuð áður og til að undirstrika enn frekar hollustu ykkar við þá sem viðhalda tilveru ykkar þá hlífðuð þið þessum vinum ykkar við hátekjuskattinum, glottuð og sögðuð: „Sko, þið hélduð að við kæmust ekki upp með annað en setja á hátekjuskatt núna en við erum svo klár að við fundum aðra miklu aðgengilegri leið. Táknar þetta ekki að við getum enn verið vinir?“ 

Ef þið hefðuð sett hátekjuskattin á þá hefði það táknað að ykkur hefði verið hent út af listisnekkjunni og ekki fengið að vera með lengur. Eiðar og svardagar hefðu ónýst og þið hefðuð þurft að standa ein og óstudd. Rúin stuðningi peningamarkaðarins og þeirra sem þið í blindu ykkar teljið að hafi keypt stólana undir ykkur til óskorðaðrar fjögurra ára eignar. Stólana sem þið látið eins og líf okkar sé komið undir því að einmitt þið haldið þeim...

Já, Það er sannarlega sárt að horfa á hreinræktaða einlægni mætt af slíkum hroka!
Mótmæli


mbl.is Ríkisstjórnin inn um bakdyrnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir frábæran pistil Rakel. Bestu baráttukveðjur,

Hlynur Hallsson, 16.12.2008 kl. 21:55

2 identicon

Jamm, "við höfum hlustað á fólk" "rætt við það" sagði Einar K. "Sérkennilegt" sagði ISG. Hlustað en ekki heyrt, rætt án þess að segja nokkuð, sérkennilegt að mótmæla því að þjóðin sé skuldsett áratugi fram í tímann. "Meina löglega kjörnum fulltrúum að vinna sína vinnu" kannski en þeir eru það ekki lengur, við treystum þeim ekki. Getur fórnarlamb ofbeldis treyst ofbeldismanninum? Nei það getur það ekki. Frábær penni Rakel.

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 22:09

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þessi svör þeirra eru ótrúleg. - Góður pistill Rakel.

Haraldur Bjarnason, 16.12.2008 kl. 22:17

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir hlýjar kveðjur og hlý orð allir saman Ég heyri að orð ráðherranna hafa misboðið fleirum en mér sem er reyndar engin furða!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.12.2008 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband