Við vorum fá en hávaðinn var ærandi
27.8.2009 | 13:47
Við vorum fá sem mættum á Ráðhústorgið hérna á Akureyri til að mótmæla Icesave. Klukkan tólf vorum við ekki nema þrjár en áður en yfir lauk fjölgaði mótmælendum um helming. George Hollander kom með sonum sínum ofan úr Lystigarði og sagði okkur að hávaðinn sem við framleiddum heyrðist alla leið þangað. Þeir sem eru kunnugir vita að það er þokkalegur spotti á milli Torgsins og Lystigarðsins.
Við þrjár vorum með fjölbreytt hljóðfæri en þau voru: kúabjalla, kastarolla og lítil stálpanna. Ásláttarverkfærin voru hamar og sleif. Nokkrir sem keyrðu fram hjá þeyttu bílflautur og það var greinilegt að mótmælin vöktu athygli inni í Landsbanka. Þar virtust þeir jafnvel bíða eftir því að einhverjir mættu. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá er rétt að taka það fram að útibú Landsbankans hér á Akureyri er við Ráðhústorgið.
Þó mótmælin væru ekki fjölmennari en raun ber vitni þá komust þau í fréttirnar bæði á RÚV og akureyri.net. Þess vegna segi ég að það er ekki fjöldinn sem skiptir öllu máli heldur það að sýna lit og taka þátt! Það að rísa upp og standa með sjálfum sér og mótmæla því óréttlæti og þeirri svívirðu sem felst í þessum samningi.
Ég er ekki tilbúin til að vera hneppt í skuldafangelsi fyrir óstjórn og vanrækslu sem gáfu örfáum græðgisböðlum tækifæri til að keyra hér allt í kaf. Það eru þeir sem fóru þannig að ráði sínu sem eiga að borga! Ég er ekki tilbúin til að samþykkja það að samlandar mínir og afkomendur okkar líði skerðingu og skort af því að einkavinir og/eða venslamenn íslensku stjórnmálaelíturnar komast upp með að skáka sér í því skjólinu. Við eigum rétt á þingi sem þjónar heildinni en ekki fáum útvöldum!!!
Það eru alltof mörgum skynsamlegum spurningum ósvarað enn í sambandi við samninginn sjálfan og fyrirvarana svokölluðu til að það sé réttlætanlegt að þessi samningur sé lagður fyrir þingið til atkvæðagreiðslu nú. Í þessu ljósi segi ég NEI við Icesave og vona að þingheimur geri það líka!
Viðbót: Hér er ávarpið sem var flutt á undan hávaðamótmælunum á Austurvelli í dag.
Hávaði gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.8.2009 kl. 00:19 | Facebook
Athugasemdir
Ég keypti mér eyrnatappa á leiðinni á Austurvöllinn í gær, og gleymdi svo að nota þá. Ég mætti með forláta vekjaraklukku, svona gamaldags með tveimur bjöllum og hamri á milli sem slær. Vekjaraklukkan er samt næstum ný, og mjög hávær.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:01
Ekki veitir af svona hávaðatóli til að vekja þreytta húsmóður á morgnana, til þess að börnin mæti í skólann á réttum tíma. Ég keypti þessa klukku í vor, þegar ég var búin að sofa yfir mig þrisvar í sömu vikunni.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:04
Ég ætla að kaupa mér eyrnatappa við fyrsta tækifæri til að verja heyrnina fyrir því ægilega hávaðatóli sem ég hef komið mér upp. Ég er nefnilega ekki frá því að ég hafi skaðað hlustirnar eitthvað í dag
Aðeins að þessu vandamáli með að sofa yfir sig. Pabbi kenndi mér þjóðráð sem hefur dugað mér en það er að hafa vekjaraklukkuna þannig staðsetta að maður þarf að fara fram úr til að slökkva á henni. Það hefur dugað mér mjög vel
Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:11
Tek undir það og segi NEI
Og svo hitti ég Jónu Kolbrúnu í mannsmynd í dag og er þá sennilega búin að hitta flesta bestu bloggarana
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:19
Ég stilli alltaf allavega tvær vekjaraklukkur, og ég þarf að fara framúr fyrir þær báðar, en þegar maður er farinn að blanda vekjaraklukkuhringingum inn í draumana það ekki efnilegt. En ég mæli með svona gamaldags vekjaraklukku, hún svínvirkar. Ég hef oft séð Jakobínu áður, hún þekkti mig bara ekki þá!!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:25
Æ já ég segi líka NEI !!!
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.8.2009 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.