Ég er með í maganum yfir þessu slóri en...

Það er ótrúlegt hvernig er hægt að drepa málum á dreif og týna sér í japli og jamli og fuðri um önnur sem eru minna áríðandi. Það er líka spurning hvort það er þegjandi samkomulag um að blása út og draga þessa ESB-aðildarumræðu sem lengst til að hylma yfir óeiningu og/eða vanmátt forystumanna umræddra flokka (sjá tengda frétt) gagnvart þeim málum sem raunverulega brenna á okkur!

Þjóðin á þingÉg er auðvitað að tala um stöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Ég er líka að tala um að kraftur verði settur í rannsóknina á efnahagshruninu. Ég er að tala um upplýsingar og uppgjör. Ég er að tala um að skapa traust og trúverðugleika. Ég er að tala um verulegar og stórfelldar umbætur sem stuðla að raunveru- legu lýðræði í landinu.

Ég er sannast sagna með í maganum yfir því að núverandi stjórnarflokkar telja að þeir hafi allan tíma í heiminum til að argaþrasast út af málum eins og ESB-aðild. Slík aðild er svo langt frá því að vera forgangsverkefni þegar tugir þúsunda ganga um atvinnulausir, enn fleiri heimili standa frammi fyrir gjaldþroti og hvert fyrirtækið á fætur öðru hrapar fram af gjaldþrotabrúninni í því fjandsamlega rekstrarumhverfi sem þeim eru búin.

Ég er með í maganum yfir þeim sem standa í þeim sporum að þurfa atvinnulausir og húsnæðislausir að horfa upp á það að í stað þess að gripið sé til alvöru aðgerða til að rétta þeirra hlut NÚNA þá er öllu púðrinu eytt í að ræða mögulegar aðildarviðræður sem skila engum árangri fyrr en í fysta lagi eftir tvö ár og sennilega engum merkjanlegum fyrr en eftir fjögur til sex ár!

Það er dapurlegt að sjá fjölmiðlana taka þátt í því að stýra þjóðfélagsumræðunni inn á slíkar villigötur og halda henni svo fastri í þessari þröngu blindgötu. Það ætti að vera ljóst að Samfylkingin sem er búin að sitja í stjórn í bráðum tvö ár er ekki atkvæðamikill eða atorkusamur flokkur þegar kemur að hugmyndum og lausnum og þess vegna furðulegt hvað fjölmiðlar eru duglegir við að spyrja leiðtoga hans alltaf sömu spurninganna aftur og aftur til að útvarpa og sjónvarpa sömu svörunum endalaust.

Það er ekki tími til að hjakkast í þessum drullupytti lengur! Vonandi fara fleiri að átta sig á því eins og fréttamennirnir sem fóru inn á kosningaskrifstofu Borgarahreyfingarinnar í dag og unnu þetta innslag í Kastljós í kvöld! Hlustið eftir hugmyndunum sem þau varpa fram. Gangið á þau og fáið þingmennina fjóra sem eru komnir inn á þing til að útfæra þær betur. Spyrjið þau hvað þeim finnst vera mest áríðandi að gera núna.

Þjóðin á þingFrelsum þessa frasakenndu og stöðnuðu þjóðmálaumræðu upp úr þröngsýnum hugmyndapytti stjórnmálamanna sem hafa eytt nærri allri sinni starfsævi innan þykkra veggja Alþingis og heyrum nýjar raddir, ferskar hugmyndir og hlustum eftir úræðum sem eiga við núverandi stöðu. Hættum svo öllu þessu japli og jamli og fuðri yfir pappírsbunkum og kaffibollum í loftlausum fundarherbergjum og förum að gera eitthvað!

Reynum að horfa okkur nær í stað þess að einblína á fjarlægar lausnir í fjarlægum efnahagsbandalögum. Komum stjórnmála- mönnunum út úr þeirra gluggalausa sýndarveruleika og fáum þá til að horfa á frjósama gróðurmoldina og gjöful fikskimið í sjónum allt í kringum okkur. Horfum til möguleikanna sem við eigum í landbúnaðinum og sjávarútveginum. Í innlendri framleiðslu og annarri atvinnuuppbyggingu sem byggir á hugviti og frumkvæði þjóðarinnar.

Frelsum þjóðmálaumræðuna út úr þeirri blindgötu sem hún er stödd í akkúrat núna og snúum okkur að verkum sem skila þjóðinni raunverulegum hagsbótum á morgun en ekki eftir einhver ár!


mbl.is Ekki víst að langt sé í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Kastljósið var skemmtilegt í kvöld, þegar rætt var við okkar fólk.  Ég er stolt af því að tilheyra þessu skemmtilega fólki.  Þjóðin er komin á þing. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.4.2009 kl. 00:19

2 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Mér líður eins og Ísland sé tímaglas sem er að klárast.

Þórður Björn Sigurðsson, 28.4.2009 kl. 00:19

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Jóna Kolbrún: Sammála

Þórður Björn: Þetta er frábærlega vel orðað! Þó orðalagið lýsi auðvitað hræðilegri tilfinningu þá skil ég svo vel hvað þú átt við með þessari einföldu líkingu!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.4.2009 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband