Er kominn nýr hundur til að sparka í?!

Einn hættulegasti löstur mannkynsins að mínu mati er öfundin! Nátengdur honum er annar sem er jafnvel enn viðsjárverri. Það er óttinn! Mér finnst ég finna óþægilega sterka lykt af þessum löstum í kringum stórkostlegan árangur Borgarahreyfingarinnar. Hreyfinguna sem varð til af hreinni hugsjón og réttlætiskennd margra þeirra sem spruttu á fætur síðastliðið haust vegna sannfæringarinnar um að það væri eitthvað mikið, mikið að í íslensku samfélagi.

Ég er ein þeirra sem stóð frammi fyrir þeirri áskorun hvort ég ætti að ganga alla leið og taka þátt í starfi Borgarahreyfingarinnar. Í allt haust og allan vetur hef ég setið undir ámæli og tortryggni ýmissa utanaðkomandi einstaklinga og radda sem virðast hræðast þá sem hafa skoðanir og eru tilbúnir til að fylgja þeim eftir. Miðað við það sem ég hef mætt er freistandi að draga þá ályktun að þeir þyki hvað hættulegastir sem eru tilbúnir að gagnrýna það sem hefur lengi viðgengist.

Ég hef fegnið athugasemdir eins og þær að ég sé að velta mér upp úr ástandinu. Að ég sé óþolandi pólitísk. Að ég eigi bara að einbeita mér að einhverju öðru en því sem kemur mér ekkert við. Á meðan á mótmælunum stóð var mér legið á hálsi fyrir að blanda geði við bjálaðan skríl. Að ég væri að taka þátt í tilgangslausum og marklausum skrílslátum, athyglissjúkra fúskara. Sjálfsagt hefur eitthvað fleira verið sagt sem mér barst aldrei til eyrna. En það er ljóst að það eru ýmisir tilbúnir að ganga býsna langt til að þagga niður í fólki eins og mér. Það sannaðist með eftirminnilegum hætti í vetur! 

Ég veit að ég er alls ekki eini mótmælandinn sem hefur mætt ofantöldum athugasemdum. Margir þeirra tilheyra nú Borgarahreyfingunni og enn heldur ófrægingin og tortryggnin áfram. Sjálf er ég í fimmta sæti hreyfingarinnar hér í norðausturkjördæmi. Ástæðan fyrir því að ég tók sæti á listanum var tvíþætt. Í fyrsta lagi er hún ekki flóknari en sú að ég vildi að þessi listi væri í boði fyrir kjósendur í þessu kjördæmi.
Fimm efstu menn á lista Borgarahreyfingarinnar í NAEn hin er sú að Borgarahreyfingin er í raun eðlilegt framhald þess sem hrinti mér út í mótmælin og undirbúningsnefnd borgarafundanna hér. Ég mótmæli nefnilega spillingu og óréttlæti og krefst rannsóknar á bankahruninu, ég krefst lýðræðis og lífvænlegra skilyrða fyrir þjóðina sem byggir þetta land.

Ég hélt eins og margir aðrir að það yrði ekki hundsað þegar stór hluti þjóðarinnar reis upp og mótmælti á torgum og kallaði saman til funda til að ræða mörg þeirra brýnu málefna sem hafa legið í þagnargildi mörg undanfarin ár. Það reyndist því miður ekki alls kostar rétt. En þrátt fyrir skipulagða hundsun bæði stjórnmálamanna og fjölmiðla á því sem fram fór á mótmæla- og borgarafundum þá höfðu mótmælin a.m.k. einhver áhrif. Breytingarnar sem andófið knúðu fram urðu þó ekki nægilega afdráttarlausar. Það er margt sem vantar upp á enn og þess vegna varð Borgarahreyfingin til!

Þeir sem óttuðust mótmælendur mest og stóðu fyrir ófrægingarhernaði gegn þeim sem andæfðu á Austurvelli og víðar um land eru nú risnir upp aftur. Nú beinist ófræging þeirra gegn þeim fulltrúum Borgarahreyfingarinnar sem komust inn á þing. Spurning hvort það er kominn nýr hundur í stað Vinstri grænna til að sparka í fyrir hundsvekkta tapara? Tapara sem sjá fram á það að með auknu lýðræði, réttlæti og jöfnuði muni þeir tapa kökunni sinni fyrir sneið á stærð við þá sem við hin höfum þurft að láta okkur duga hingað til.
Ásköpuð forréttindi:-(Það er engu líkara en þessir taparar hafi fundið sér nýjan hund til að sparka í. Allt er tínt til. Skiptir ekki máli hvort það eru heiðurslaun Þráins Bertelssonar eða það að Margrét Tryggvadóttir skuli líta á þingmennskuna sem starf sem þarf að sinna á sama hátt og þau sem hún hefur gengt hingað til. 

Það er augljóst að árangur Borgarahreyfingarinnar ógnar einhverjum sem eru uggandi um sinn hag. Ég er þess vegna hrædd um að við eigum eftir að mæta mörgum sem reyna að gera lítið úr okkur með því að tala niður til okkar. Það verður reynt að tala niður til okkar og við verðum sökuð um búsáhaldaglamur í því sem á að heita alvarlegar umræður um þjóðfélagsmál. Það er reyndar þegar byrjað að reyna að gera lítið úr baráttumálum okkar með slíkum viðlíkingum.

En ég segi það satt að ég er stolt af því að tilheyra þessum hópi! Ég er stolt af því að tilheyra þeim hópi hugsjónafólks sem hefur barist fyrir framtíð afkomenda sinna og þjóðarinnar um leið án þess að láta neinn bilbug á sér finna! Nú eigum við líka málsvara inni á þingi þannig að rödd okkar og kröfur verða ekki hundsaðar lengur.

Ég vona að eitt af því sem okkur tekst að breyta verði það að þingmenn fari að haga sér eins og fullorðið fólk sem ber virðingu fyrir öðrum og leggi af ófræðginarhernað eins og þann sem er þegar byrjaður gegn fjórum hugrökkum hvunndagshetjum sem hafa boðið sig fram til að vinna að heildarhagsmunum þessarar þjóðar. Ég vona að almenningur hætti að láta leiða sig á asnaeyrunum og leggi af þann leiða ávana að éta allt upp sem kemur úr ófrægingarherbúðum öfundarinnar og óttans.
Herdeild öfunarinnar og óttansÖfundin og óttinn sem elur slíkar árásir, sem fulltrúar Borgarahreyfingarinnar þurfa að takast á við strax á fysta degi eftir kosningar, urðu nefnilega til í sömu herbúðum og settu þjóðina í þá alvarlegu stöðu að við fundum okkur knúin til að rísa upp og mótmæla. Þeir sem vita upp á sig skömmina af því hvernig er komið fyrir efnahag landsins óttast sem aldrei fyrr hvað verður um forréttindin sem þeir hafa tryggt sér á undanförnum árum. 

Við höfum sagt spillingunni og óréttlætinu stríð á hendur og við munum berjast áfram þrátt fyrir skítkast og niðurrifstal þessara afla sem vilja viðhalda forréttindum sínum á kostnað lands og þjóðar. Ég vona að almenningur fari að átta sig á þessu heildarsamhengi. Ég vona að allir fari að opna augun fyrir því hvernig sífellt er verið að reyna að kasta ryki í augu hans. Hvernig sumir leitast sífellt við að drepa stóru málunum á dreif með ómerkilegum ófrægingarhernaði í þeim eina tilgangi að aðalatriðin megi týnast og gleymast í moldviðrinu sem slíkt rótar upp.

Ég get ekki annað en spurt hvort einhver vilji í alvörunni taka þátt í slíku? Ég bið alla um að horfa fram í tímann og sjá það fyrir sér þegar ófædd kynslóð spyr okkur í framtíðinni hvar við vorum þegar þjóðin var rænd af auðmönnunum og embættismönnunum sem unnu í þeirra þágu. Ég leyfi mér að efast um að nokkur vilji standa í þeim sporum að verða að svara slíkri spurningu þannig: „Ég barðist að sjálfsögðu á móti þeim sem kröfðust rannsóknar, réttlætis og lýðræðisumbóta.“

Ég veit að ég get svarað ófæddum barna- og barnabörnum mínum með með stolti: „Ég stóð upp og mótmælti! Ég tók þátt í því að vekja ráðamenn þjóðarinnar til umhugsunar með því að kalla þá til borgarafunda sem ég tók þátt í að skipuleggja! Ég gekk m.a.s. svo langt að ég tók þátt í að byggja upp stjórnmálaafl sem komst inn á þing...“ Ég bíð spennt eftir framhaldinu!

Bestu óskirAð lokum óska ég þeim: Birgittu Jónsdóttur, Margréti Tryggvadóttur, Þór Saari og Þráni Bertelssyni velfarnaðar og farsældar í starfi. Ég óska þeim óbilandi krafta og kjarks til að takast á við hið flókna og krefjandi starfs sem þau eiga fyrir höndum. Ég vona að þeim beri gæfa til að láta öfundina ekki draga úr sér áræðið og þorið sem þau þurfa á að halda í því erfiða starfsumhverfi sem bíður þeirra.


mbl.is Eins og hvert annað starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef nú líka heyrt allskonar ákúrur vegna þess að ég nennti að mótmæla, ég mætti á flesta mótmælafundina og margir gerðu grín að því.  En stundum er tími til þess að láta heyra í sér.  Vonandi fer ástandið batnandi og stjórnvöld að vinna vinnuna sína við björgun heimilanna.  Þetta er frábær færsla hjá þér. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.4.2009 kl. 21:47

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Allir mótmælendur sem ég hef talað við mættu einhverjum ákúrum vegna mótmælendaþátttöku sinnar þó þær hafi verið mismiklar. En fæstir létu það neitt á sig fá heldur héldu áfram eins og ég og þú.

Takk fyrir hólið

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.4.2009 kl. 21:52

3 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Til hamingju með frábæran árangur. Það er ekki annað hægt en dást af því afreki sem þið unnuð.

Hallgrímur Guðmundsson, 27.4.2009 kl. 00:22

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æi, þakka þér fyrir en það munaði líka miklu að finna þann meðbyr, velvilja og stuðning sem við nutum frá öllum í kringum okkur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.4.2009 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband