Biðin er ströng en vonandi verður hún ekki löng!

Það tekur allt tíma. Grundvallarbreytingar taka líka tíma. Þegar slíkra breytinga er þörf tekur það þó á að bíða. Ég bíð þess að fleiri vakni til vitundar um það sem hefur gengið á í samfélaginu á undanförnum árum. Ég bíð þess að þeir sjái og skilji hvað það sem fram fór hefur gert okkur. Hvaða alvarlegu afleiðingar það hefur haft fyrir íslensku þjóðina. Ég bíð þess að allir opni augun og horfist í augu við þær staðreyndir sem blasa við. Það reynir á þolinmæðina að bíða. Það reynir á vegna þess að það setur að mér ugg að hugsa til þess hvaða afleiðingar biðin hefur.

Það er ljóst að enn hefur meiri hluti þjóðarinnar atvinnu en þrátt fyrir hækkandi vöruverð standa launin í stað. Afborganir lána hafa líka hækkað hjá öllum og líklega munu skattar hækka líka. Sumir segja að maður megi ekki vera neikvæður. Við höfum haft það allt of gott hérna áður og nú sé komið að skuldadögunum. Það er í raun ótrúlegt að hlusta á blekkingarnar sem margir reyna að fela sig á bak við og/eða hugga sig við.
Rennur úr greipÞegar tæplega 20.000 einstaklingar eru án atvinnu þá gefur það auga leið að langflestir hljóta að þekkja einhvern sem hefur misst atvinnuna. Sumir reyna að segja „fallegar“ sögur af fjölskylduföðurnum sem loksins hefur tækifæri til að vera með börnunum sínum. Sögur af því að allt sé nýtt miklu betur nú en áður. Engum afgöngum hent og allt brauð bakað heima. Ekkert ljótt um þetta að segja svo sem en það bætir ekki fyrir sívaxandi atvinnuleysi og ástæður þess.

Það er líka staðreynd að atvinnuleysi hefur alltof margar og alvarlegar hliðarverkanir sem „fallegar“ sögur um sjálfsbjargarviðleitni og ný tækifæri geta aldrei dulið. Margir sem missa atvinnuna upplifa höfnun, tilgangsleysi, einangrun og í versta falli þunglyndi. Atvinnuleysi þýðir líka oft og tíðum það að ekki er hægt að standa við þær skuldbindingar sem viðkomandi gerði miðað við þær tekjur sem hann hafði. Þeir sem missa atvinnuna í dag geta þó ekki selt neitt nema með Þrúgandi áhyggjurgífurlegum afföllum.

Atvinnuleysi er samfélagslegt vandamál. Það ógnar bæði geðheilbrigði einstaklings- ins sem missir atvinnuna og aðstandenda hans. Þeir sem missa atvinnuna eiga rétt á bótum sem þurfa að koma einhvers staðar frá en það koma engin verðmæti á móti. Atvinnuleysisbæturnar duga tæpast fyrir nauðþurftunum þannig að mikið atvinnuleysi hægir líka verulega á hjólum efnahagslífsins.

Atvinnuleysi eykur álagið á heilbrigðis- stofnanirnar í landinu en þar er verið að skera niður af miklum krafti. Við getum auðvitað sagt okkur sjálf hvað þetta þýðir. Álagið á þá sem sinna heilbrigðismálum og þá einkum þeirri sem lýtur að andlegri heilbrigði eykst gífurlega. Álagið getur orðið svo mikið að það ógnar heilsu og í versta falli lífi þeirra sem þurfa að standa undir því.

Svo eru það þeir sem eru að missa eigur sínar. Ég heyrði það um daginn að það væru á milli 30-40.000 heimili sem hefðu verið eða eiga það yfir höfði sér að vera tekin til gjaldþrotaskipta. Ég vona svo sannarlega að þetta séu ýkjur. Ég hef líka heyrt og lesið fögur oforð stjórnmálamannanna og vinsamleg tilmæli um að hlífa þeim sem eru komnir í þrot með greiðslur af lánunum sínum. Hins vegar skilst mér að bankarnir, sem vel að merkja eru langflestir í eigu ríkisins, gangi hart fram í því að innheimta skuldir. Þegar það gengur ekki leysa þeir til sín veðin sem lánin eru bundin í.

Það eru ekki aðeins bankarnir sem ganga þannig fram heldur önnur fjármálafyrirtæki líka. Mest hefur þó borið á lánastofnunum sem hafa lánað fé til vinnutækja- og bílakaupa. Stórar vinnuvélar og bílar eru hirt upp í skuld og seld úr landi. Skuldararnir sitja eftir með sárt ennið og vangoldið lán sem hefur hlaðið á sig alls konar aukakostnaði vegna þess að það sem lánið átti að standa undir var hirt af þeim. Lánin sem skuldararnir sitja uppi með hefur þannig margfaldast en í verstu tilvikunum hafa þeir tapað vinnutækinu sínu sem er þeim nauðsynlegt til að afla tekna til að borga af láninu.
Þægilegt að neita að sjáAllt ósköp eðlilegt ef við neitum að horfast í augu við það að forsendur allra lána- samninga sl. ára eru brostnar, eða hvað? Stöldrum við og skoðum þetta aðeins betur. Hljómar þetta ekki allt saman eins og það sé illskan sem situr við stýrið þegar öll heildarmyndin er skoðuð?

Mér finnst það t.d. alveg ótrúlegt að sá sem missir atvinnutækið sitt þurfi að borga allt að því þrefallt hærra verð fyrir það en það er metið á þegar það er tekið upp í lánið. Mér finnst reyndar svo margt lykta af illsku og öðrum vafasömum kenndum í kringum þessar peningastofnanir allar saman að ég ætla að hlífa mér við því að telja það allt saman upp að þessu sinni.

Mér er það hulin ráðgáta hvernig það getur farið fram hjá nokkrum manni að það er eitthvað mikið, mikið að! Að það er þörf fyrir grundvallarbreytingar í samfélaginu. Við þurfum ekki aðeins að breyta okkar eigin hugarfari heldur þurfum við að hreinsa til í samfélaginu til að nýjar hugmyndir nái fram að ganga. Sérstaklega innan stjórnsýslunnar og inni í fjármálafyrirtækjunum.

Margir benda á að framundan sé tækifæri til þess þar sem bráðum verða kosningar. Ég vil meina að við séum að láta dýrmætt tækifæri til breytinga ganga okkur úr greipum. Ég vil meina að mótmæli og borgarafundir séu dýrmæt vopn okkar almennings til að minna á sanngjarnar kröfur okkar um breytingar í réttlætisátt.

Ég get ekki betur séð og heyrt en þeir sem treysta á brautargegni sitt í pólitíkinni á næsta kjörtímabili séu í afneitun eða þá að þeir séu að verja hagsmuni allra annarra en þeirra sem eru að missa heimili sín og atvinnu nú. Stundum hvarflar m.a.s. að mér að þeir séu að verja hagsmuni þeirra sem græða á atvinnuleysinu og því að eignast eigur landsmanna á nauðungaruppboðumPinch

Ég trúi því ekki að hinum almenna borgara finnist það í lagi að hér séu upp undir 20.000 manns atvinnulausir, á milli 30-40.000 heimili undir hamrinum og að það sé verið að selja stórvirk atvinnutæki og stóran hluta bílaflota landsmanna úr landi. Það getur ekki verið að það hafi farið framhjá fólki að erlendir kröfuhafar gömlu bankanna hafa nú þegar gefið eftir skuldir þeirra við sig.

Eða með öðrum orðum: Þeir hafa og/eða munu afskrifa þær að stærstum hluta. Nýju bankarnir ætla samt að innheimta skuldir hins almenna borgara að fullu. Ég þarf sennilega ekki að minna neinn á að þeir hafa afskrifað skuldir gömlu eigendanna og einhverra vildarviðskiptavina sinna líka en við þurfum að borga upp í þessar afskriftir. Þær eru reiknaðar inn í verðtrygginguna og vextina af lánunum okkar.
Gjáin milli ríkra og fátækraRanglætið er svo himinhrópandi! En samt tala einhverjir um þolinmæði og benda á að það sé verið að gera eitthvað... en hvað er verið að gera?! Getur einhver sagt mér það nákvæmlega og bent mér á árangurinn af því um leið?! Ég veit að hlutirnir taka tíma en ég veit að tíðindaleysi þýðir yfirleitt yfirhylmingu og/eða vísvitandi tafir.

Nú er þegar hálft ár síðan margir eigendur bankanna, ásamt fleirum færðu allar sínar eigur á nöfn eiginkvenna sinna. Þeir treysta því að tíminn vinni með þeim. Ef við bíðum í tvö ár þá eru þeir hólpnir... Þá hefur þeim tekist það sem mér sýnist að þeir í siðleysi sínu og græðgi ætli sér. Þeir vilja verða ríkir en ætla að láta almenning borga eignirnar sínar!

Það tekur allt tíma. Grundvallarbreytingar taka líka tíma. Ein þeirra breytinga sem verður að eiga sér stað er sú að við hættum að líta upp til auðs og valda með óttablandinni virðingu. Við vitum að margir eigendur bankanna og fleiri með þeim drýgðu stórkostlega glæpi. Þeir gerðu sig ekki aðeins seka um auðgunarbrot af ýmsu tagi heldur líka alvarleg svik gagnvart skjólstæðingum bankanna sem þeir stýrðu. Þeir rændu þjóðina með þeim afleiðingum að margir hafa misst vinnuna og enn fleiri heimili sín.

Er einhver tilbúin til að gleyma slíkum svikum?! Eftir hverju er að bíða!! Af hverju eru eigur þeirra og eiginkvenna þeirra ekki frystar?! Af hverju eru skattaskýrslur þeirra og eignastaða ekki yfirfarin?! Af hverju eru þeir ekki færðir til yfirheyrslu?! Af hverju stendur þjóðin ekki saman um þessar kröfur?! Af hverju erum við látin líða og bíða í óvissu en glæpamönnunum hlíft?!

Ég bara spyr því ég hef áhyggjur af því hvaða afleiðingar biðin hefur fyrir mig og þig...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábærlega vel skrifaður pistill Rakel.  Bestu og dýpstu hugleiðingar, sem ég hef lesið í lengri tíma  Tek undir allar þínar áhyggjur.

Sigrún Jónsdóttir, 16.3.2009 kl. 22:41

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir þín fallegu og hlýju orð Sigrún mín

Rakel Sigurgeirsdóttir, 16.3.2009 kl. 22:57

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þess vegna ætla ég að kjósa Borgarahreyfinguna í von um stórtækar breytingar.  Stokka allt kerfið upp. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 17.3.2009 kl. 01:25

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Gott hjá þér

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.3.2009 kl. 02:14

5 identicon

Virkilega góð grein hjá þér, ég gaf mér líka tíma fyrir hana.

Ég er víst einn af þessum atvinnulausu, ný upplifun fyrir mig.  Eitthvað sem ég vona að fleiri þurfi ekki að upplifa en því miður tel ég ástand þjóðfélagsins mun verra en komið hefur í ljós til þessa.  Það er dálítið mikið um afneitun hjá fólki sem enn hefur vinnu og það virðist frekar reyna að leiða ástandið hjá sér.  En svo kemur kannski skellurinn    og raunveruleikinn blasir við.

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 17.3.2009 kl. 03:03

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þakka þér fyrir það Páll Það bætir auðvitað ekki úr neinu fyrir þér en það gengur alveg fram af mér hve tala atvinnulausra er orðin há. Ég er hrædd um að talan eigi eftir að hækka ef ekkert er að gert. Margir lifa í þeirri sjálfsblekkingu að nú sé öruggast að vinna hjá ríkinu en ég held að þeir séu ekkert öruggari en aðrir.

Ég kenni sjálf í framhaldsskóla. Þar er boðaður mikill niðurskurður á næsta skólaári. Ef skólarnir eiga að stand undir honum er ljóst að þeir hljóta að þurfa að segja upp starfsfólki. Mér skilst að í sumum skólum hafi m.a.s. nú þegar verið gripið til uppsagna til að mæta niðurskurðinum sem var boðaður með endurskoðuðum fjárlögum sem voru gerð heyrinkunn í lok síðasta árs.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.3.2009 kl. 03:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband