Borgarafundur á Akureyri: Heimilin á hrakhólum

Fimmtudaginn, 12. febrúar sl. var haldinn, enn einn borgarafundurinn hér á Akureyri. Fjallað var um stöðu heimilanna að þessu sinni. Fundarstjóri var Benedikt Sigurðarson og kom hann að undirbúningi fundarins líka. Frummælendur voru fjórir. Það voru þau: Gísli Tryggvason, Ólafur Garðarsson, Sigurður Sveinn Sigurðsson og Svahildur Guðmundsdóttir. Frummælendur sátu allir í pallborði en auk þeirra sat Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa fyrir svörum líka. Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigurðsson, hafði  þegið boð á fundinn en afboðaði sig á síðustu stundu vegna anna.

Gísli TryggvasonGísli Tryggvason, talsmaður neytenda, reið á vaðið. Hann ræddi um húsnæðislánin, bæði gengistryggðu lánin og þau erlendu, út frá réttindum lántakenda. Hann dró fram fjögur rök fyrir því að þessi lán verði endurskoðuð en þau kallaði hann: forsendubrest, sanngirnisrök, eignaréttarrök og hagfræðileg rök.

Það sem hann benti á að hefði valdið því sem hann kallaði forsendubrest þessara lána er m.a. það að áhættustigið hefur margfaldast. Hann undirstrikaði það að neytandinn væri látinn bera alla áhættuna hvað forsendur lánanna varðar. Þar vakti hann athygli á því hvað gerðist í sambandi við erlendu lánin þegar ríkinu mistókst að viðhalda genginu.

Það sem vakti mesta athygli mína af því sem Gísli nefndi í sambandi við sanngirnisrökin er að hann velti því fyrir sér hve sanngjörn markaðssetning erlendu lánanna hafi verið. Ég er ein þeirra sem get nefnt dæmi um það að kostir erlends myntkörfuláns voru mjög tíundaðir í mín eyru. Þetta var þegar ég þurfti á láni að halda árið 2004.

Ég var mjög treg en lét tilleiðast eftir að yfirmaðurinn í bankanum hafði gefið mér persónulegt loforð um skuldbreytingu lánsins yfir í íslenskt lán ef ég gæti rökstutt það að það sem mér hefði verið sagt um kosti lánsins stæðist ekki. Tveimur árum seinna fékk ég láninu breytt. Reyndar eftir eins árs jarm af minni hálfu um skuldbreytinguna. Veit ekki hvort rök mín voru nokkurn tímann tekin gild en þau blöstu við mér. Það skipti mig sem sagt meira máli að minnka skuldabyrðina í nútímanum en það að hafa borgað minna þegar upp var staðið og lánið uppgreitt einhvern tímann í framtíðinni.

Þriðju rökin, sem Gísli dró fram sem lögfræðileg - og neytendapólitísk rök fyrir því að húsnæðislánin og þá einkunn erlendu lánin væru tekin til rækilegrar endurskoðunar, nefndi hann eignaréttarrök. Þar benti hann á að greiðslugeta húsnæðiskaupenda færi minnkandi um leið og veðhæfi eignarinnar sem stæði undir láninu færi lækkandi líka.

Að lokum voru það hagfræðileg rök sem Gísli nefndi máli sínu til stuðnings. Þar benti hann á að ástæða væri til að endurskoða og -reikna þessi lán til að vernda aðra markaði samfélagsins. Hann sagði að ef allar ráðstöfunartekjur húsnæðiskaupenda færu í að greiða af húsnæðislánunum þá yrði lítið sem ekkert eftir til að viðhalda öðrum mörkuðum sem þyrfti að viðhalda svo samfélagið „fúnkeraði“.

Gísli lauk máli sínu með því að benda á að, að óbreyttu þá myndu neytendur, þ.e. lántakendur og þá aðallega þeir sem skulda húsnæðislán, bera allan skellinn sem hrun bankanna olli.
Borgarafundur á Akureyri 6.02.09Næstur tók Ólafur Garðarsson, talsmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, til máls. Ræða hans hefur verið birt á heimasíðu samtakanna en auk þess er krækja í hana neðst í þessari færslu. Í upphafi ræðu sinnar sagði hann að heimilin væru: „verðmætasta sparifé samfélagsins og [stæðu] undir stærstum hluta þeirra veða beint og óbeint sem atvinnuvegirnir byggja á.“ Ræða hans er svo flott skrifuð að mig langar til að birta hana alla en þá yrði þetta alltof langt hjá mér. Þess vegna ætla ég að stikla á stóru en hvet alla til að lesa hana í heild. Kjarninn í því sem Ólfur sagði á fundinum er þetta:

Nú er komin upp sú staða, enn einu sinni að lánastofnanir sækja á heimilin í krafti einhliða samninga. Kerfið okkar er þannig uppbyggt að heimilin eru varnarlaus gegn ofríki lánastofnana. [...] Ef marka má það sem hefur verið að gerast undanfarin ár eru lánastofnanir byggðar upp fyrir afmarkaðan hluta af þjóðinni. Þúsundum heimila er nú ógnað með eignaupptöku.

Hver aðilinn á fætur öðrum rís upp og segist ætla að bjarga heimilunum. En hvað gera þeir? Þeir segjast ekki hafa efni á því þegar á hólminn er komið. [...] Sú stórfellda eignaupptaka og gjaldþrotahrina sem hafin er mun hafa mun verri afleiðingar en að gefa eftir af kröfunum eins og við leggjum til. Við lítum á hækkanir á gjaldeyristryggðum lánum og vísitölulánum síðustu 18 mánuði sem þýfi sem þarf að skila.

Hér er verið að nota samninga sem voru miðaðir við stöðugleika í efnahagsstjórn til þess að kúga heimilin til að borga brúsann. Alls kyns aðilar rísa upp á afturlappirnar og verja þetta afleita kerfi. Þeir nefna lífeyrissjóði og alskyns aðrar fráleitar réttlætingar. Við sem eigum lífeyrissjóðina í reynd teljum þá lítils virði í samanburði við stærsta lífeyrissjóðinn okkar, íbúðina, heimilið.

Undir lok ræðu sinnar lagði Ólafur áherslu á mikilvægi heimilisins þar sem hann sagði: „Heimilin eru lykillinn að árangri í að byggja upp nýtt fjármálakerfi og halda atvinnuvegunum gangandi. Það gerist þó ekki með því að lama og leysa upp stóran hluta þeirra.“ Hann lauk svo máli sínu með eftirfarandi:

Heimilin eru ekki að biðja um ölmusu. Heimilin eru ekki að biðja um niðurfellingu allra skulda. Þau vilja bara að ríki og lánastofnanir taki ábyrgð á þeim skaða sem þau hafa valdið. Ekki velta skaðanum yfir á íbúðareigendur eina. Ef það verður gert verður seint friður í þessu landi og margir munu yfirgefa það fyrir fullt og fast.

Sigurður Sveinn Sigurðsson, fasteignasali hér á Akureyri, var þriðji ræðumaðurinn á þessum borgarafundi um stöðu heimilanna í landinu. Því miður hefur hann ekki sent mér ræðuna sína eins og ég reiknaði með að hann myndi gera. Ég treysti mér þess vegna ekki til að hafa eins mikið eftir honum eins og t.d. Ólafi hér að ofan.

Sigurður ræddi stöðu fasteignamarkaðarins sem hann sagði afar slæma. Þannig benti hann á að margir væru eins og í stofufangelsi sinnar eigin fasteignar þar sem enginn gæti selt við núverandi aðstæður. Hann vék einnig að þeim lausnum sem helst hafa verið í umræðunni af hálfu stjórnvalda en það er greiðslufrestur af ýmsu tagi. Hann benti á að hvers kyns frestur á greiðslum húsnæðislaána, sem hafa vel að merkja veð í fasteigninni sem verið er að borga af, hefði þær afleiðingar að eignin ætist upp. 

Þegar kom að fyrirspurnum úr sal vakti svar Sigurðar við einni slíkri mikla athygli þegar hann benti á að fasteignasalar hefðu margsinnis furðað sig á því þegar tvítugir einstaklingar sem væru nýskriðnir úr skóla hefðu á tveimur dögum fengið samþykkt 90% húsnæðislán hjá bönkunum. Hann var líka spurður að því hvort fasteignasalar bæru ekki meginábyrgð á þeirri ofþenslu sem hefði orðið á fasteignaverði undangenginna ára en hann firrti sig og starfssystkini sín þeirri ábyrgð og benti á að að fasteignasalar hefðu alls ekki ýtt undir hana þvert á móti hefði það í mörgum tilfellum verið kaupendurnir sjálfir.

Máli sínu til áréttingar nefndi hann ónafngreind dæmi um það að óþolinmóðir kaupendur hefðu oftar en einu sinni boðið allt upp í einni og hálfri milljón yfir ásett verð í eign sem þeir höfðu áhuga á. Þetta hafi gert það að verkum að seljandi sem vildi selja sambærilega eign miðaði við verð sem var þannig tilkomið. Seljendur treystu m.ö.o. betur á slíkt verðmætamat en verðmat fasteignasalans. Ef einhver fasteignasalinn vildi halda sig við eitthvað annað verðmætamat þá varð hann tortryggilegur um leið og auðvitað auðvelt að snúa sér til annarrar fasteignasölu þar sem eignir höfðu farið á yfirverði. Ég man ekki hvort Sigurður notaði orðið vítahringur en svo sannarlega var hann að lýsa einum slíkum!

Svanhildur GuðmundsdóttirSíðasti frummælandinn á þessum fundi var Svanhildur Guðmundsdóttir, sviðstjóri þjónustusviðs Íbúðalánasjóðs. Hún kynnti þau úrræði sem Íbúðalánasjóður býður þeim sem eru í greiðsluvandræðum upp á. Þær eru nokkrar og fleiri í bígerð en þar sem hún sagði lítið umfram það sem kemur fram á glærunum, sem er krækt neðst í þessa færslu, ætla ég ekki að rekja þær sérstaklega hér en hvetja alla til að líta á þær. Sérstaklega fyrstu fjórar.

Mér sýnist á því sem Svanhildur sýndi og sagði að Íbúðalánasjóður bjóði upp á miklu fleiri leiðir fyrir húsnæðis- kaupendur í greiðsluerfiðleikum en bankarnir. Eftir að opnað var fyrir fyrirspurnir var flest- um fyrirspurnunum beint til hennar en þar sem ég var í því hlutverki að ganga með hljóðnemann á milli man ég þær fæstar. Það sem sló mig mest voru tölurnar sem hún nefndi um það hve margir væru nú þegar komnir í þrot með afborganir af húsnæðislánunum sínum. Ég þori hins vegar ekki hafa töluna eftir sem mig minnir að hún hafi nefnt. Hún er svo ískyggilega há að ég vona að mig misminni.

Það vakti líka athygli mína að hún sagði að aðeins eitt lán frá bönkunum væri komið yfir til þeirra. Ég er ekki viss um að ég muni það rétt en ef ég skildi hana rétt þá er það bankinn en ekki lántakinn sem getur óskað eftir því að færa lánið á milli. Ef þetta er rétt skilið þá er ástæða til að undirstrika það sem Gísli Tryggvason tók fram í ræðu sinni um að í viðskiptum neytenda við bankanna er það lántakinn sem ber alla áhættuna. Maður spyr sig eðlilega hvaða réttlæti er eiginlega í því? Þekkist slík einhliða ábyrgð einhvers staðar annars staðar í tvíhliða viðskiptum?

Auk frummælendanna var Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Stapa, líka í pallborði eins og áður hefur komið fram. Sumir hafa sagt mér að Kári sé þekktur fyrir einstaka svartsýni í afstöðu sinni til flestra mála. Ég verð að segja það fyrir mig að það sem hann sagði um að sagan sýndi að við myndum ekkert læra af efnahagshruninu núna finnst mér rökstyðja það mat á honum. Hann sagði að því miður gerðist það á velmegunartímum eins og þeim sem væru nýliðnir að öll varúðarsjónarmið brystu en framundan væri  tímabil reglna og aðhalds en svo þegar settum markmiðum verður náð þá færi allt í sama farið. Þannig endurtekur sagan sig þrátt fyrir dýrt námskeið eins og kreppan væri þjóðinni nú.

Það olli okkur sem höldum utan um borgarafundina hérna fyrir norðan þó nokkrum vonbrigðum hve fáir mættu á þennan fund. Við veltum auðvitað vöngum yfir hugsanlegum ástæðum þess að aðeins um þrjátíu manns komu til að hlýða á frummælendur og spyrja spurninga um þann vanda sem við héldum að flestir fyndu mest fyrir. Auðvitað komumst við ekki að neinni endanlegri niðurstöðu varðandi skýringar á þessari dræmu mætingu.

Hins vegar ákváðum við að halda eftirleiðis fundi á hálfsmánaðarfresti í stað vikulegra fundarhalda framan af árinu. Næsti fundur verður því ekki fyrr en 1. mars n.k. en þá ætlum við að halda fund í Deiglunni undir yfirskriftinni: Hverjum eiga fjölmiðlar að þjóna? Þar sem frummælendur og aðrir í pallborði eru flestir að sunnan ákváðum við að halda fundinn um miðjan dag á sunnudegi og í ljósi þess hve fáir mættu á síðasta fund ætlum við að vera í Deiglunni að þessu sinni. Það er þó von okkar að fleiri sýni þessu málefni áhuga en því sem var til umræðu á þeim fundi sem hér hefur verið lýst.

Að lokum langar mig til að benda á ræðu Marinós G. Njálssonar sem hann flutti á Austurvelli í gær og birti á bloggi sínu. Marinó er varamaður í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og hefur sett fram margar afar skynsamlegar tillögur um það hvernig megi mæta vanda heimilanna á blogginu sínu. Í gær dró hann þær fram í ræðu sem hann flutti mótmælendum í höfuðstaðnum. Það er von mín að fleiri leggi sig eftir því sem hann hefur fram að færa í sambandi við lausn á vanda húsnæðiskaupenda sem því miður virðist vera ætlað að borga allt tap bankanna upp í topp.


mbl.is Svigrúm skuldara aukið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Frábært. Verst að það hefur ávallt hist þannig á í vetur að ég er að vinna á fimmtudagskvöldum. Annað sem er stórmerkilegt er að margir eins og þú skýrir frá hafa komið fram með ákveðnar lausnir á vanda heimilana. Lausnir sem eru í senn réttlátar og sanngjarnar en samt hlusta stjórnvöld ekki á þær tillögur. Mér finnst það stórfurðulegt og benda til þess að það sé á áætlun stjórnvalda og AGS að láta almenning borga hvað sem það kostar.

Arinbjörn Kúld, 22.2.2009 kl. 10:00

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þetta er eini fundurinn sem hefur verið á fimmtudagskvöldi því flestir hafa verið á miðvikudagskvöldum. Næsti fundur verður líka á sunnudegi svo þú kemst vonandi þá.

Mér finnst það mjög alvarlegt mál ef stjórnvöld ætla að hundsa tillögur alls þess góða fólks sem hefur verið að kynna vel ígrundaðar og skynsamlegar leiðir við lausn heimilanna. Maður skilur hreinlega ekki hvað býr þvílíku að baki eins og þú segir. Það er a.m.k. ekki til uppbyggingar til landinu ef heimilin leysast upp!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.2.2009 kl. 14:28

3 identicon

Sé allt haft rétt efir Sigurði Sveini Sigurðssyni þá get ég tekið undir það. Ég er sjálfur löggiltur fasteignasali og ég kannst vel við þessa krakka sem fengu 100% lán í einum grænum í bankanum. Ég var margoft búinn að hrista hausinn og þegar maður spurði krakkana um það hvers konar ráðgjöf þau hefðu fengið í bankanum þá varð oftast fátt um svör. En þetta var bara ekki það versta því að í "eðlilegu" árferði þá ræður par í fullri vinnu og jafnvel einstaklingur alveg við að borga af svona láni jafnvel þó einhverjar sveiflur komi inn á milli.  En það sem gerðist  líka var að um leið og þesir krakkar urðu allt í einu virðulegir fasteignaeigendur þá ringdi yfir þau tilboðum um dýrt lánsfé, þeim var boðið gullkort, vildarkort, e-kort og égveitekkihvað kort, bankinn bauð þeim yfirdrátt að fyrra bragði og hinir og þessir aðrir td. stórar byggningavöruverslanir buðu þeim "úttekt". Þessu fylgdi að sjálfsögðu engin ráðgjöf. Það er því ekki síst þetta neystlufen sem bankarnir steyptu fólki í sem er að valda því að margir geta ekki staðið í skilum og eru að missa sitt húsnæði í dag. 

Þórður Grétarsson (IP-tala skráð) 23.2.2009 kl. 21:27

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og ég sagði í „fundargerðinni“ hér að ofan bjóst ég við að fá ræðu Sigurðar senda en af því varð ekki. Ég held þó að ég megi fullyrða að allt sem ég hef eftir honum sé rétt eftir haft.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.2.2009 kl. 22:11

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Flott samantekt.  Við þurfum núna að ganga harðar fram í því að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hlusti á röksemdir okkar.  Verði ekkert gert í málefnum heimilanna, þá verður kreppan dýpri en nokkurn órar fyrir.

Marinó G. Njálsson, 24.2.2009 kl. 23:48

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég leyfi mér bara að segja mér það að þú ert ein af vonarstjörnum mínum í því sambandi en svona til að létta aðeins álaginu á þér þá eru það fleiri sem hafa bent á lausnir sem mér finnst athygli verðar í því sambandi að bæta úr því sem amun blasa við þjóðinni við óbreytt ástand.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 00:37

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Við Gísli höfum rætt þessi mál og erum alveg samstíga.  Óli er náttúrulega með mér í stjórn hagsmunasamtakanna og raunar munaði litlu að ég færi á þennan fund.  Málið var að ég þurfti að vera bæði á fundi seint á fimmtudeginum og snemma á föstudeginum, annars hefði ég líka farið með Óla.  Svo eru samtökin fjárvana og allt kostar pening.

Þetta með vonarstjörnuna er kannski fullmikið traust sem þú setur á mig.  Við bara megum ekki gefast upp.  Það er enginn annar en við sem verjum heimilin.

Marinó G. Njálsson, 25.2.2009 kl. 01:58

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Mér tókst sem betur fer að hafa rétt eftir Gísla það sem hann sagði (hann staðfesti það sjálfur) en hann sagði vissulega fleira sem ég þorði ekki að hafa eftir honum þar sem ég var ekki viss um að ég hefði skilið það rétt. Mér leist vel á það sem hann sagði og svo líka Ólafur.

Þær eru þess vegna fleiri vonarstjörnurnar en þú ert vissulega ein af þeim Eins og ég hef sagt nokkrum sinnum inni á síðunni þinni finnst mér þú líka setja mál þitt fram á svo skýran og skilmerkilegan hátt að allir geta skilið mjög auðveldlega það sem virkar oft og tíðum flókið.

Ég hef ríka tilheigingu í þá átt að treysta fólki eins og þér sem fléttar ekki allt sem það hefur að segja inn í óskiljanlegan orðavaðal.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 02:27

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Góð samantekt hér á ferð.

Mér finnst vanta í umræðuna þann þátt sem lítur að vörusvikum í tengslum við lánveitingar eins og þú nefnir. Það er nefnilega rétta heitið á þessu: Vörusvik í lánveitingum sem við erum að borga. Vörusvikin felast í því að falsa upp stýrivexti og þar með verðbólgu og verðbætur með bullrökum og aðstoð við spákaupmennsku útlendinga í krónubréfum.

Ekki síst af þessum sökum ber að leiðrétta skuldastöðu bæði heimila og fyrirtækja.

Haukur Nikulásson, 25.2.2009 kl. 11:33

10 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Rétt Haukur! Þú tekur eftir að ég hef það eftir Gísla Tryggvasyni, talsmanni neytenda, sem ég segi um þessu svik.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.2.2009 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband