Við stöndum saman!

Í dag var frekar stór dagur hér á Akureyri í „göngunni til lýðræðis“ því hér voru bæði fjölmenn mótmæli og flottur borgarafundur. Borgarafundurinn fjallaði um niðurskurð í menntamálum. Ég ætla að segja betur frá borgarafundinum síðar. Núna ætla ég hins vegar að segja svolítið frá öðrum deginum í samstöðumótmælunum á Ráðhústorginu.

Fólk mætti klukkan 17:00. Fjöldinn varð upp undir tvisvar sinnum fleiri en í gærkvöldi eða rúmlega tvöhundruð. Kl. 20:00 byrjaði borgarafundurinn í Deiglunni. Honum lauk rúmlega 22:00 og þá fór ég ásamt mörgum fundargestum aftur á Torgið.
Jólatréð brennurStemmingin og samstaðan sem lá í loftinu þar í kvöld var með ólíkindum. Mér fannst allir vera einhvern vegin ákveðnir í að standa saman. Þó við séum ekki öll sammála um framtíðina þá erum við búin að átta okkur á því að við erum sammála um eitt mjög mikilvægt grundvallaratriði: Við viljum núverandi ríkisstjórn frá og við viljum hreingerningu í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Við viljum að ráðamenn þjóðarinnar axli ábyrgð og þeir sem settu okkur á hausinn sæti henni fyrir gjörðir sínar.

Ég hugsa að við séum líka öll sammála um það að við viljum endurheimta æru okkar. Ég geri það með því að mótmæla því að yfirvöld komi fram við mig og þjóð mína eins og þræla. Það getur vel verið að einhverjum sé sama en mér þykir það bara engan vegin líðandi! Stemmingin á Torginu í kvöld einkenndist af samhug og bræðralagi. Við stöndum með sjálfum okkur, landi okkar og þjóð.
Trumbuslagarar IIÞað eru alltaf fleiri og fleiri sem ég heyri tala um úrelta jugmyndafræði sem hafi fengið að skjóta rótum alls staðar í samfélaginu og líka þar sem hún á ekki heima. Nýfrjálshyggjan hefur riðið röftum og vegið að rótum velferðarþjónustunnar þannig að sjúkra- og menntastofnanir hafa lotið markaðshyggjunni og hagur sjúklinga og nemenda verið fyrir borð borinn. 

Hugmyndir núverandi ríkisstjórnarinnar um það hvernig eigi að reisa við efnahag landsins byggir á þessari úreltu hugmyndafræði. Við mótmælendur vitum að það eru til aðrar leiðir. Við vitum að nýfrjálshyggjan eru ekki trúarbrögðin sem við höfum játast. Menning okkar byggir heldur alls ekki á þessari innfluttu hugmyndafræði. Við viljum því varpa af okkur oki þessarar græðgismöru sem hefur leitt þjóðina út í þær ógöngur sem hún er nú í fyrir tilstuðlan trúboða auðmagnins.

Það eru alltaf fleiri og fleiri sem eru að vakna til vitundar um það að til að takast á við vanda þjóðarinnar dugir ekkert annað en ný forgangsröðun. Ef marka má fjöldann á Ráðhústorgi í kvöld þá nær þessi vakning til sístækkandi hóps. Það lítur út fyrir að hann stækki dag frá degi um þessar mundir. Kannski er það vegna þess að fólk getur ekki lengur setið hjá og finnur sig þar af leiðandi knúið til að taka afgerandi afstöðu til þess sem fram fer.Mótmæli á Akureyri 21.01.09Meðal mótmælendanna á Torginu í kvöld voru tveir strákahópar sem vöktu sérstaka athygli mína. Annar fyrir mótmæli sín. Á spjaldinu hjá drengnum til vinstri á myndinni er eftirfarandi tilvitnun úr Kóraninum: „Sá sem aflar sér okurfjármuna mun eigi upp rís á annan veg en þann sem Satan krefur með snertingu sinni.“ (orðalag svolítið breytt)Við mótmælumHinir vöktu athygli fyrir alveg einstaklega göfugmannlegt framtak. Þeir höfðu hellt upp á tvær stórar kaffikönnur og buðu svo út í kaffið líka. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort þeim var ekki vel tekið!
KaffisveitinAð lokum langar mig til að taka það fram að mótmælin á Ráðhústorgi verður fram haldið á meðan ríkisstjórnin þráast við og situr áfram. Mótmælin á morgun byrja kl. 17:00 og standa væntanlega fram undir miðnætti eins tvö sl. kvöld.


mbl.is Mótmæli á Ráðhústorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Ég mæti kl 17.00 eins og í gær

Arinbjörn Kúld, 22.1.2009 kl. 13:17

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er gott að traustur maður taki vaktina! Er sjálf eitthvað léleg enda búin að vera eiginlega á útopnu alla vikuna

Rakel Sigurgeirsdóttir, 22.1.2009 kl. 20:41

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk, sjáumst vonandi fljótlega

Arinbjörn Kúld, 22.1.2009 kl. 23:36

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það vona ég líka

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.1.2009 kl. 00:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband