Þegar löghlýðni getur valdið meiri skaða en óhlýðni er rétt að óhlýðnast (Immanúel Kant)
Það er frábært að fá fréttir af fjölmenni á nýliðnum borgarafundi í Reykjavík. Vildi að ég hefði tök á að komast á a.m.k. einn slíkan. Mér finnst frábært hvernig þessir fundir eru skipulagðir sem fræðslu- og hvatningafundir sitt á hvað og í bland. Fundurinn í kvöld sýnist mér að hafi verið góð blanda framsögumanna úr röðum mótmælenda og lögreglumanna.
Sumir virðast gleyma tilgangi mótmælanna og týna sér í umræðunni um samskipti mótmælenda og lögreglunnar. Einhverjir virðast m.a.s. halda að þessir hópar eigi í stríði. Í því sambandi langar mig til að benda á það mikilvæga atriði að málið snýst alls ekki um að mótmæla lögreglunni heldur vanhæfni ríkisstjórnarinnar sem þverkallast við að draga nokkurn til ábyrgðar á því alvarlega efnahagshruni sem reið yfir síðastliðið haust en vinnur skipulega að því að velta afleiðingunum yfir á herðar almennings í landinu.
Sigurbjörg Árnadóttir, sem sjálf upplifði kreppuna í Finnlandi í lok síðustu aldar, hefur frætt bæði embættismenn og aðra um afleiðingar hennar í ræðu á Austurvelli og í viðtölum í fjölmiðlum. Tilgangur hennar var að vara fulltrúa ríkisstjórnarinnar við að fara sömu leið og Finnar út úr þeirri alvarlegu efnahagslægð sem opinberaðist íslensku þjóðinni í bankahruninu í haust. Á borgarafundinum, sem var haldinn hér á Akureyri í gærkvöldi, benti Sigurbjörg á að sá niðurskurður sem nú á sér stað í velferðarkerfinu sé sniðin eftir finnska módelinu. Hún spáir því að ef við bregðumst ekki skjótt við þýði það ekkert annað en við göngum inn í sama framtíðarmyrkur og Finnar eru enn að glíma við 15 árum eftir efnahagshrunið þar í landi.
Það ætti að vera öllum ljóst hversu brýnt það er að íslenska þjóðin taki höndum saman og láti í sér heyra. Við verðum að halda áfram að mótmæla ríkisstjórn sem er búin að margopinbera vanhæfni sína. Við eigum ekki að eyða kröftum okkar og tíma í argaþras um aðferðir heldur finna þann vettvang sem hentar okkur sjálfum. Það er þó mikilvægt að við stöndum saman en stuðlum ekki að sundrungu með japli, jamli og fuðri um smáatriði eins og það hvort þessi eða hin mótmælaaðferðin sé líklegri eða ekki til árangurs. Þegar allt kemur til alls þá er hæpið að borgaraleg óhlýðni skili síðri árangri en vikulegir borgara- og mótmælafundir.
Eva Hauksdóttir, einn frummælendanna á borgarfundinum í Iðnó í kvöld sagði m.a. þetta um borgaralega óhlýðni: Tilgangur borgaralegrar óhlýðni væri leið almennings sem ekki hefði vald til að andmæla yfirvaldi og nefndi sem dæmi lög sem segja að það sé ekki hægt að koma ríkisstjórn frá nema hún samþykki það. Þetta eru ólög, og ef það er glæpur að berjast gegn slíkum ólögum, þá er ég bara stoltur glæpamaður, sagði Eva og uppskar dúndrandi lófaklapp viðstaddra. (sjá þessa frétt á mbl.is)
Ég er of mikil gunga til að standa í eldlínunni eins og Eva. Ég hélt mér þess vegna til hlés við hana á gamlársdag. Mér dettur þó ekki í hug að fordæma aðgerðir þeirra sem eru hugrakkari en ég og höfðu sig meira í frammi. Margir þeirra sem setja sig upp á móti hópnum, sem treystir frekar á borgaralegri óhlýðni í mótmælum sínum gegn ríkisstjórninni, virðast vera haldnir þeim misskilningi að slík hegðun byggist á ofbeldi og sé um leið ólöglegt athæfi.
Vissulega getur slík hegðun verið á mörkum þess sem valdhafarnir telja löglegt en aðferðin sjálf byggist alls ekki á beitingu líkamlegs ofbeldis. Hér er e.t.v. rétt að vekja aftur athygli á tilvitnuninni sem ég birti í upphafi þessara skrifa: Hún er sótt í bókina Beinar aðgerðir og borgarleg óhlýðni sem kom út í lok árs 2007. Meiri upplýsingar um hana er að finna hér. en þar segir m.a: Bók þessi fjallar um beinar aðgerðir og borgaralega óhlýðni, sem verkfæri þeirra sem vilja hafa áhrif í sínu samfélagi, en hafa hvorki opinber völd né áhuga á þeim.
Borgaralegri óhlýðni hefur verið beitt víða um heim. M.a. gegn breskri heimsvaldastefnu á Indlandi, aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku og gegn nasismanum í seinni heimsstyrjöldinni. Bandaríski rithöfundurinn Henry David Thoreau ruddi braut nútíma hugmynda um borgaralega óhlýðni í ritgerð sinni Resistance to Civil Government árið 1849.
John Rawl er af mörgum álitinn merkasti stjórnamálaheimspekingur á síðari hluta 20. aldar. Hörður Ólafsson, hæstaréttardómari, þýddi grein hans The justification of Civil Disobedience sem Rawl skrifaði árið 1969 samkvæmt því sem kemur fram á bloggi Kára Harðarsonar. Kári, sem er sonur Harðar Ólafssonar, birti þýðingu hans hér.
Vefritið Leyniþjónusta götunnar fjallar um þessa tegund mótmæla í þremur stuttum geinum sem má finna hér.
Meðal þekktra mannréttindafrömuða sem beittu borgaralegri óhlýðni til að vekja athygli á málstað sínum eru Mahatma Gandhi og Martin Luther King. Það er því vel við hæfi að ljúka þessari hvatningu til mótmælenda um að standa saman í stað þess að fordæma mismunandi aðferðir með einni tilvitnun eftir hvorn.
Martin Luther King: I come to say to you this afternoon, however difficult the moment, however frustrating the hour, it will not be long, [...] How long? Not long, because "no lie can live forever." How long? Not long, because "you shall reap what you sow."
Mahatma Gandhi: First they ignore you. Then they ridicule you. Then they fight you. Then you win.
Fundi lokið í sátt og samlyndi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:02 | Facebook
Athugasemdir
„First they ignore you. Then they ridicule you. Then they fight you. Then you win.“
Svo satt. Takk fyrir góðan pistil.
Sigrún Jónsdóttir, 9.1.2009 kl. 03:20
til ykkar beggja. Það eru greinilega fleiri andvaka en Katrín
Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.1.2009 kl. 03:34
Andvöku vaktin hérna alveg að missa sig - erfitt að losa sig við jólavökuna.
En að pistlinum þínum Rakel - alveg hárrétt við þurfum að vinna af því að viðhalda samstöðu á milli allara mótmælahópa og ég held að þessi fundur hafi einmitt verið frábær í þá áttina.
Auðvitað halda úrtöluraddirnar áfram að kvabba enda fá þær jafnvel borgað fyrir það úr Valhöll - it´s their job!
Segjum að Ghandi hafi rétt fyrir sér „First they ignore you. Then they ridicule you. Then they fight you. Then you win"
Hvar erum við? Eiga þeir eftir að berja okkur eða eru þeir búnir að því? - við verðum nefnilega að fara að komast á síðasta þrepið!!!
Þór Jóhannesson, 9.1.2009 kl. 03:42
Bauð Gandhi nokkuð upp á stuttu útgáfuna: First they ignore you. Then you win? Það er mín von.
Það er óskiljanlegt að einhver ráðherranna, t.d. félagsmálaráðherrann, skuli ekki leita ráða hjá Sigurbjörgu.
Almenningur verður að stilla saman strengina og knésetja ríkisstjórnina á eins stuttum tíma og kostur er. Hvort við getum sigrað hana á heimavelli er ég farin að efast um. Almenningur gæti þurft að leita út fyrir landsteinana: vekja athygli vestrænna lýðræðisþjóða á því hvernig ríkisstjórnin kúgar almenning hér og hreinlega biðja um hjálp. Ekkert ofbeldi, takk, heldur beita öllum löglegum ráðum til að knésetja ríkisstjórnina. Ég velti fyrir mér hvort ekki séu til fjölþjóða stofnanir sem almenningur getur leitað til eftir hjálp.
Helga (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 03:54
Tinna: Farðu vel með þig Ég ætla sjálf að fara að sofa þegar ég er búin að svara „andvökuvaktinni“ eins og Þór orðar það
Og Þór: Gaman að sjá að þú hefur rekist hingað inn. Ég les stundum bloggið þitt og hef rekist víða á komment frá þér. Ég hef séð að við erum í grundvallaratriðum sammála þó þú sért greinilega heitari en ég Af því sem ég er búin að lesa um þennan fund þá fæ ég einmitt sömu tilfinningu og þú fyrir því að hann hafi aukið á skilning mismunandi hópa. Ég vona líka innilega að hann auki á skilning lögreglunnar á mótmælendum.
Ég vitnaði ekki í orð Gandhis vegna þess að ég taki þeim svo bókstaflega að á eftir hunsuninni og lítillækuninni, sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sýnt okkur með þögn sinni og hroka, þá komi endilega líkamleg átök. Þó þeir hafi sannarlega beitt lögreglunni á þann hátt gegn mótmælendur nú þegar þá finnst mér aðför ríkisstjórnarinnar að lífskjörum almennings svo sannarlega megi líkja við það að þeir hafi sagt okkur stríð á hendur.
Mér sýnist þess vegna að við séum að upplifa þetta allt: hunsun, hroka og stríð en ég trúi því að við munum vinna þessa baráttu þó ég geti ekki svarað því hvenær það verður.
Helga: Ég er sammála þér í því að Jóhanna ætti svo sannarlega að hlusta á rödd Sigurbjargar! Það ættu reyndar hinir ráðherrarnir að gera líka.
Ég er líka sammála þér um framkomu ríkisstjórnarinnar gagnvart íslensku þjóðinni. Fulltrúar hennar níðast í raun á réttindum borgaranna og svívirða allar hugmyndir um lýðræði. Sigurlaug Ragnarsdóttir (veit ekki hvort þú kannast við hana en hún var á borgarfundinum í Iðnó í gærkveldi) er að skrifa grein á ensku og sænsku til að senda á erlenda fjölmiðla og vekja athygli á þessu. Þessi grein er inni á Facebook. Ég veit ekki hvort þú þarft að vera skráð þar til að sjá hana.
Ég hef líka velt þessu fyrir mér með fjölþjóðastofnanir sem íslenskur almenningur getur leitað til. Ég hef jafnvel varpað fram þeirri hugmynd hvort þeir sem töpuðu sparnaði sínum í bankahruninu geti ekki tekið sig saman og auglýst eftir erlendum lögfræðingum til að reka mál þeirra gegn íslenska ríkinu og/eða bönkunum.
Það þarf að breyta býsna miklu hér en e.t.v. fyrst að menn og konur í æðstu stöðum verði látin sæta ábyrgð. Auður og völd eiga alls ekki að hefja nokkurn yfir ábyrgð og lög.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.1.2009 kl. 04:34
Frábær grein - engu við hana að bæta:)
Birgitta Jónsdóttir, 9.1.2009 kl. 05:40
Þeir eru flottir pistlarnir þínir og settir í skírt samhengi.
„First they ignore you. Then they ridicule you. Then they fight you. Then you win.“
Magnús Sigurðsson, 9.1.2009 kl. 10:00
Takk fyrir þetta Rakel. Þú ert alls engin gunga. Við veljum okkur vopn við hæfi, sýnum þrautseigju og sigrum að lokum.
Sigurður Hrellir, 9.1.2009 kl. 11:22
Takk öll
Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.1.2009 kl. 16:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.