Borgarafundur í Deiglunni á Akureyri

Ég var að fá tilkynningu um borgarafund sem verður haldinn í Deiglunni hér á Akureyri fimmtudagskvöldið 27. nóvember n.k. og hefst fundurinn kl. 20:00. Langar til að vekja athygli á honum hér og fleiru sem er framundan.

Frummælandi á borgarfundinum núna á fimmtudeginum verður Hilmar Þór Hilmarsson, dósent við viðskipta- og raunvísindadeild HA. Þegar frummælandinn hefur lokið máli sínu verður opnað fyrir almennar umræður og fyrirspurnir. Fundarstjórn verður í höndum Guðmundar Egils Erlendssonar.

Grasrótarsamtökin Bylting fíflanna stendur fyrir þessum fundi eins og þeim á undan og hvetja þau Akureyringa til að fylla Deigluna, ræða stöðuna og leita lausna. Ég hef frétt að Jón Þorvaldur Heiðarsson hagfræðingur sem talaði á síðasta borgarafundi hafi verið alveg frábær.

Samkvæmt því sem ein sem var á fundinum sagði mér var hann einstaklega skýr og fjallaði um íslenskt fjármálalíf og núverandi stöðu í efnahagsmálunum á mannamáli. Hún sagðist loksins skilja eitthvað í hagfræði eftir að hafa hlustað á málflutning hans. Auk þess sem hún skildi miklu betur hvers lags áhættufjármálaóráðsía leiddi þjóðina í það þrot sem hún stendur frammi fyrir núna.

HúniII Bylting fíflanna hefur opnað kaffihús um borð í Húna II sem liggur við bryggju nánast í hjarta bæjarins. Það er öllum velkomið að líta við og þiggja kaffi og kannski kleinur með.

Það er ýmislegt um að vera hér á Akureyri á næstunni sem má rekja beint eða óbeint til núverandi ástands í samfélaginu. Mig langar að nota tækifærið og benda á nokkra slíka viðburði sem eru á dagskránni á næstunni.

Fjórða gangan til lýðræðis verður gengin n.k. laugardag eða 29. nóvember. Mæting er við Samkomuhúsið kl. 15:00 en þaðan verður gengið inn á Ráðhústorg.

Stefna – félag vinstri manna stendur fyrir fundi um ESB/EES í Alþýðuhúsinu á sunnudaginn kemur. Þetta kemur fram í athugasemd sem Þórarinn Hjartarson gerði við færsluna mína „Termítarnir sem eru að eyðileggja landið“.

Ég hef ekki séð þetta auglýst annars staðar en vek athygli á þessu hér vegna þess að ef innganga í Evrópubandalagið verður gert að aðalkosningabaráttumáli næstu kosninga er eins gott að fara að setja sig almennilega inn í um hvað er að ræða.

Eitt meginhagsmunamál samtakanna, Bylting fíflanna, er að virkja lýðræðið en umræður um það verður efni þarnæsta borgarafundar sem hefur verið boðaður fimmtudaginn 4. desember.

Að lokum má geta þess að núna á fimmtudaginn verður haldið málþing á Akureyri sem ber yfirskriftina "Æskan á óvissutímum". Það er KFUM og KFUK ásamt Ungmennafélagi Íslands og Bandalagi íslenskra skáta í samstarfi við Menntamálaráðuneytið, Æskulýðsráð og Akureyrarbæ sem standa að málþinginu. Málþingið er haldið í Rósenborg og hefst kl. 13:00. (Sjá nánar hér)

Tilkynningalestri er lokið. Hafið góðar stundirSmile

Es: Langar að bæta við að: Þriðju skjaldborgarmótmælin fara fram á morgun. Eftir borgarafundinn í gær er enn meiri þörf til þess að halda áfram að þrýsta á stjórnvöld. Stöndum vörð um Alþingi, vörð um lýðræðið. Látum stjórnvöld finna fyrir því að okkur sé ekki sama. Krefjumst ábyrgðar og kosninga!

Mætum öll á morgun kl. 12 fyrir fram Alþingishúsið (tekið af síðunni Nýir tímar)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Psst, á laugardaginn er 29. nóvember. Hér í Reykjavík stendur Hörður Torfason hins vegar fyrir fundi á Arnarhóli, ef ég man rétt, mánudaginn 1. desember kl. 15. Það verður forvitnilegt að sjá hversu margir sjá sér fært að ... skjótast úr vinnunni á virkum 90 ára afmælisdegi lýðræðisins.

Berglind Steinsdóttir, 25.11.2008 kl. 22:46

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk, fyrir ábendinguna Berglind Leiðrétti þetta í hvelli!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 25.11.2008 kl. 22:54

3 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það eru margir slegnir eftir borgarafund gærdagsins. Sérstaklega eru menn og konur ósátt við óskýr svör ráðamanna. það er gott að fólk stendur á verðinum fyrir Norðan. Sagt er að ástandið sé mun alvarlegra en látið er í veðri vaka. Það er ferlegt að stjórnvöld ætla bara að láta þetta hellast yfir almenning. Á sama tíma eru bankafurstarnir að hirða allt veræmætt úr rústunum. Drullusokkar og gungur.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 25.11.2008 kl. 23:42

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Já, ég skil það. Eiginlega horfir þetta svona við mér. Margir höfðu það á tilfinningunni að núverandi ríkistjórn væri ekki fær um að fara með forræði þjóðarinnar. Sumir þeirra sem mættu á borgarafundinn í Háskólabíói á mánudagskvöldið fengu þann grun staðfestan þar. Fyrir aðra var sú uppgötvun eins og köld vatnsgusa. Kannski geng ég of langt með þessari ályktun. Kannski voru einhverjir þarna alveg sáttir við svör ráðherranna þrátt fyrir allt...

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.11.2008 kl. 03:27

5 identicon

Jæja Rakel þú stefnir hraðbyri að því að gera upplýsingamiðill fyrir okkur hin  Kæra þakkir fyrir allt þetta. Þú ert afar dugleg. Ég mun mæta á Deigluna, mótmælin á laugardag og eins mikið og ég get í framtíðinni. Ég held að við getum alveg gleymt þessum stjórnmálamönnum nútímans. Við verðum einfaldlega að stuðla að breytingum sjálf. Hvernig sem við gerum það svo.

Arinbjörn Kúld (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 16:09

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Arinbjörn, já við erum þjóðin

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 26.11.2008 kl. 17:27

7 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ekkert að þakka Arinbjörn. Kemst ekki sjálf í kvöld en ætla að mæta í gönguna á laugardaginn og e.t.v. upplýsingafundinn í Alþýðuhúsinu á sunnudaginn. Það er mikið rétt að það hvílir á okkur almenningi að knýja fram þær breytingar sem við viljum sjá og sporna gegn því að við og komandi kynslóðir sitji uppi með himinháar skuldir sem var stofnað til af „sponsurum“ flokkanna.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 26.11.2008 kl. 18:43

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég frétti af því að það stæði til að halda stofnfund hérna fyrir norðan en ég hef ekkert heyrt um að af honum hafi orðið. Ætlaði endilega að kíkja á fyrirbærið en ég fæ reglulega fréttir af hópnum hérna fyrir sunnan í gegnum Facebook. Þetta er greinilega öflugur og hugmyndaríkur hópur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.11.2008 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband