Mér stendur ekki á sama

Fjórði mótmælafundurinn var haldinn á Akureyri í dag. Safnast var saman við Samkomuhúsið, en það heitir leikhúsið okkar hérna fyrir norðan, og gengið þaðan inn á Ráðhústorg. Ég sjálf var eitthvað sein fyrir þannig að ég sleppti göngunni en mætti á fundinn. Fjöldinn á þessum fundi var svipaður og á þeim fyrsta sem olli mér svolitlum vonbrigðum. Ég verð nefnilega að segja eins og er að ég skil ekki í því af hverju þeir sem eru óánægðir kjósa fremur að sitja heima en slást í hóp okkar mótmælenda og sýna samstöðu.
Mótmæli á Akureyri
Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér en ég hef á tilfinningunni að ríkisstjórnin, stjórnin í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu treysti því að við höfum ekki úthald til að standa saman og knýja fram réttlæti íslenskum almenningi til handa. Mér stendur ekki á sama ef rétt reynist.

Mér stendur alls ekki á sama ef eigendur bankanna og fyrirtækjanna komast upp með það að íslenskur almenningur verði á vonarvöl næstu áratugina vegna ofurskuldanna sem þeir stofnuðu til í nafni útrásarinnar. Mér stendur engan vegin á sama þegar ofantaldar stjórnir telja það sjálfsagt mál að efnahagur heillar þjóðar sé fórnað fyrir örfáa flokksgæðinga. Mig langar þess vegna til að hrópa svo hátt að heyrist til endimarka veraldarinnar:

Burt með vanhæfa seðlabankastjórn!

Burt með spilltu leynimakksstjórnina í Fjármálaeftirlitinu!

Burt með hrokafulla ríkisstjórn sem er ekki í neinu sambandi við þjóð sína!

Ég vona að einhver heyri í mér og komi okkur til bjargar áður en það verður of seint. Áður en vilji þjóðarinnar tapast í myrkri ársbyrjunarinnar 2009.

Mig langar þó miklu frekar til að biðja þjóð mína að standa saman við það að byggja okkur réttlátari framtíð. Við þurfum að standa saman og sýna að okkur er ekki sama. Þó við séum fá þá veit ég að við verðum aldrei 100% sammála um leiðir en ég trúi ekki að nokkur geti sagt það af einlægni að hann sé sáttur við þann veruleika sem blasir við í íslenskum fjármálaheimi í dag. Ég trúi því ekki heldur að nokkur geti sagt það af hjartans einlægni að ofantaldir hafi meiri rétt en íslenskur almenningur. Ef ég og þú yrðum ber af alvarlegum glöpum í starfi yrði okkur gert að segja upp. Af hverju á eitthvað annað að gilda um ofantalda?

Um næstu helgi verð ég í Reykjavík og þá ætla ég að mæta á Austurvöll. Ég er alls ekki að baki dottin. Ég læt ekki kulda, annir eða úrtölur halda aftur af mér eða telja úr mér réttlætisandann. Ég er með mína forgangsröðun á hreinu. Það er nefnilega ekkert sem skiptir jafnmiklu máli í mínum huga en verja lýðræðið og hindra óréttlætið. Baráttan fyrir þjóðarhagsmunum kemur bara einfaldlega á undan mínum sérhagsmunum.

Ég sé reyndar mínum hagsmunum best borgið í nútíð og framtíð með því að byrja á því að vinna með öðrum að því að vinna gegn óréttlætinu sem ég þarf að líða með þjóð minni.


mbl.is Segir góða stemningu á mótmælafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þetta.  Það er fólk eins og þú sem gerir það að verkum að vonleysið er ekki algjört.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.11.2008 kl. 22:28

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Æ, þakka þér fyrir það Ég reikna reyndar með því að þar sem þessi orð mín náðu til þín þá séum við ekkert ólíkar hvað það varðar

Rakel Sigurgeirsdóttir, 29.11.2008 kl. 22:38

3 Smámynd: Ingibjörg SoS

Gott að lesa skrifin þín, Rakel. Upplifi svo sannarlega einnig svipaða tilfinningu inn á milli. Hróp þín náðu mínum eyrum og ég mun hrópa þau áfram. Þetta á eftir að takast vegna þess að þetta "verður" að takast. Missum ekki móðinn. - Mannlegt að upplifa svekkelsi, og skynsamlegt að lofa okkur bara að vera svekkt. Hvíla sig smá, fylla síðan á tankinn á ný og halda áfram. Ég trúi því að óánægjan og mótmælin eigi eftir að magnast. Íslendingar eru "stökkbreytingamatýpur". Hlutirnir gerast allt í einu, og þá eru allir með. Ég er annars hér í höfuðborginni. Hlýjar og umvefjandi kveðjur til þín,

Ingibjörg

Ingibjörg SoS, 29.11.2008 kl. 22:55

4 Smámynd: Ingibjörg SoS

 Stafsetningavilluleiðrétting

Gott að lesa skrifin þín, Rakel. Upplifi svo sannarlega einnig svipaða tilfinningu inn á milli. Hróp þín náðu mínum eyrum og ég mun hrópa þau áfram. Þetta á eftir að takast vegna þess að þetta "verður" að takast. Missum ekki móðinn. - Mannlegt að upplifa svekkelsi, og skynsamlegt að lofa okkur bara að vera svekkt. Hvíla sig smá, fylla síðan á tankinn á ný og halda áfram. Ég trúi því að óánægjan og mótmælin eigi eftir að magnast. Íslendingar eru "stökkbreytingatýpur". Hlutirnir gerast allt í einu, og þá eru allir með. Ég er annars hér í höfuðborginni. Hlýjar og umvefjandi kveðjur til þín,

Ingibjörg

Ingibjörg SoS, 29.11.2008 kl. 22:59

5 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Skil þig svo vel Rakel..hlakka til að mótmæla með þér næsta laugardag!! Það var asskoti kalt í gær en hlýjaði að sjá að það voru samt þúsundir sem mættu galvaskir til að halda áfram baráttunni fyrir lýðræði og réttlæti. Í dag ætla ég að jólast smá og hengja upp jólaljós og fá smá birtu í sálina og kraft fyrir morgundaginn. Ég trúi því bara að það verði tugþúsundir íslendinga á Arnarhóli á Þjóðfundinum klukkan 15.00..hvernig sem viðrar.NÚNA er tíminn sem við þurfum að halda samtöðunni og auka hana massíft frá viku til viku eða alveg þar til ráðamenn heyra kröfur okkar og bregðast við þeim. Ef þessi stökkbreytingarkenning stenst..þá spái ég að stóra stundin verði í febrúar...þegar þúsundir eru farnir að finna verulega fyrir skorti vegna atvinnuleysis og fólk er raunverulega að berjast í bökkum og horfa fram á algeran eignamissi. Þegar hungrið verður alvöru og augun opnast fyrir því að stjórnvöld ætla ekkert að setja fólk og líf þess á undan flokkshagsmununum. Það var bara svona sparisetning sem Ingibjörg Sólrún missti út úr sér á fundi sínum með sínu fólki. Það verða engar breytingar hér nema við sjálf gerum þær. Guð hvað ég vona að fólk fatti það fyrr en síðar!!!!

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 30.11.2008 kl. 08:40

6 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ingibjörg: Þakka fyrir þín fallegu orð og hlýju kveðjur Það er sannarlega gott að vita að það er fleirum svipað innanbrjóst og maður sjálfur. Ég trúi því eins og þú að við sem mótmælum eigum eftir að sjá einhvern árangur af því. Vona að það verði fyrr en seinna.

Katrín: Ég hlakka líka til að hitta þig og fá tækifæri til að upplifa stemminguna á Austurvelli n.k. laugardag þó ég vildi svo sannarlega að við hefðum ekkert tilefni til að mótmæla. Því miður er það ekki svo gott. Vona að það verði margir sem láta sjá sig á Arnarhóli á morgun þó ég komist ekki til að taka þátt í þeim aðgerðum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 30.11.2008 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband