Hefðarreglur ráða för II
7.12.2014 | 06:05
Það skal viðurkennt hér að áður en sú sem þetta skrifar réðist í þetta verkefni taldi hún sig vita eitt og annað um nefndir og nefndarvinnu Alþingis. Heimildarvinnan í kringum þessi skrif hefur komið mér til þeirrar niðurstöðu að í raun var það harla lítið. Reyndar grunar mig að þetta eigi ekki við um mig eina og þar af leiðandi er það kannski alls ekki svo galin hugmynd að gera grein fyrir þátttöku þeirra, sem hafa setið á ráðherrastóli frá vorinu 2009, í nefndarstörfum Alþingis þó verkefnið sé langsótt.
Ástæðan er ekki síst sú að samfara slíkri umfjöllun fylgir eitt og annað sem viðkemur nefndarskipulaginu sem fáir, fyrir utan þingmenn og starfsfólk Alþingis, er mikið inn í. Á síðustu árum hefur vægi nefndanna aukist sem þýðir að stór hluti þingstarfa þeirra sem hljóta kosningu til Alþingis fer fram í hinum ýmsu nefndum. Nefndirnar sem um ræðir eru svokallaðar þingnefndir og líka erlendar nefndir. Þingnefndunum má svo skipta í fastanefndir og aðrar nefndir og/eða sérnefndir. Sérnefndirnar geta verið mjög breytilegar á milli þinga bæði að fjölda og verkefnum. Umfjöllun um erlendu nefndirnar kemur síðar.
Á meðan á þinghaldi stendur eru haldnir reglulegir fundir í fastanefndunum eða tveir fundir í hverri viku fyrir hverja nefnd. Fundartími fastanefndanna er fyrir hádegi í hveri viku frá mánudegi fram til fimmtudags. Fundir í öðrum nefndum og/eða sérnefndum eru eflaust haldnir mjög reglulega líka og svo eru það fundir erlendu nefndanna sem þarf að sækja út fyrir landssteinana.
Viðfangsefni þessara nefnda eru mjög breytileg; allt frá því að skipuleggja þinghaldið og ákveða í hvaða röð fyrirliggjandi málefni verði tekin fyrir til þess að taka þátt í umræðum og samþykktum um hernaðaríhlutanir á milli stríðandi þjóða hvarvetna í heiminum. Kjósendur hafa í reynd sáralítil áhrif á það hver tekur að sér þau mörgu og margvíslegu verkefni sem heyra undir þingið nema með því að kjósa einn stjórnmálaflokk eftir framboðslista síns kjördæmis. Oft er það trú kjósandans á hæfi þeirra sem eru í oddvitasætunum til góðra verka sem ræður hvaða flokkur fær hans atkvæði.
Þegar fulltrúar stjórnmálaflokkanna mæta inn á þing þá tekur hins vegar við þeim hefðarkerfi, sem hefur orðið til varðandi vinnulag og nefndarsætaúthlutanir, sem gera það að verkum að hverfandi líkur eru á því að einstaklingur geti haft nokkur áhrif. Skýringin er m.a. sú að umræðan um mál hefur að langmestu leyti verið færð inn í nefndir þar sem verkefnin eru oftar en ekki það að liggja yfir lagafrumvörpum sem kalla á stranga yfirlegu og/eða sérfræðiþekkingu í tilteknum málaflokki.
Þingmenn eru almennt undir alltof miklu starfsálagi auk þess, sem þeir þurfa að sjálfsögðu líka tíma fyrir sitt persónulega líf, til að geta lagst þannig yfir einstök mál sem standa sum hver langt fyrir utan þeirra þekkingarsvið. Innan nefndanna eru því starfandi sérfræðingar sem koma gjarnan innan úr ráðuneytum viðkomandi málaflokks nefndanna og sérfræðingar frá því sem almennt eru kallaðir hagsmunaðilar. Hlutverk sérfræðinganna er að útskýra og túlka texta frumvarpanna, gildandi laga og annarra viðfangsefna sem koma á borð nefndanna.
Í reynd er það svo að þingmenn, sem eru starfandi í þremur til fjórum nefndum auk þess að taka afstöðu til málefna sem aðrar nefndir hafa til umfjöllunar, hafa fæstir tök á því að setja sig þannig inn í mál að þeir geti staðið undir verkefninu sem almennir kjósendur hafa valið þá til. Þ.e. að vera fulltrúar skoðana almennra kjósenda inni á þingi. Í reynd er því útlit fyrir að þátttaka kjósenda í lýðræðinu sé það að velja fulltrúa til að samþykkja eða hafna skoðunum eða túlkun þeirra sérfræðinga sem hefur orðið viðtekið að séu nefndunum til ráðgjafar og leiðbeiningar.
Það gefur væntanlega augaleið að það getur reynst erfitt að standa á móti túlkunum og/eða skoðunum sérfræðinga í t.d. sjávarútvegi með tilfinningarök eða yfirborðskennda þekkingu á sjávarútveginum eina að vopni. Þar sem vangaveltur af þessu tagi standa nokkuð fyrir utan efni þess, sem er meginverkefnið hér, þá verður ekki farið lengra út í þær að þessu sinni heldur haldið áfram við að gera grein fyrir því í hvaða nefndum þeir, sem hafa verið skipaðir ráðherrar eftir vorið 2009, hafa setið.
Hér verður sá hluti færslunnar Ráðherrasamanburður: Þingreynsla, sem fjallar um fastanefndir þingsins, endurbirtur. Kaflinn er eins að öðru leyti en því að reynsla Ólafar á þessu sviði hefur verið bætt við og þeim hlutum umfjöllunarinnar, þar sem hennar reynsla á heima, verið auknar.
Fastanefndir þingsins
Á undanförnum áratugum hafa þingstörfin breyst mjög mikið. Stærsta breytingin varð við það að Alþingi var gert að einni málstofu. Af því tilefni var nefndarskipan og -tilhögun breytt með lögum árið 1991 (sjá hér) í átt að núverandi tilhögun en núgildandi skipulag er frá árinu 2011 (sjá hér). Fram til ársins 1991 voru nefndarsviðin þrjú og fór eftir skiptingu þingsins í: neðri - og efri deild og sameinað þing.
Miðað við greinargerðina sem fylgdi lagafrumvarpinu um þingsköp Alþingis hafa fastanefndir Alþingis verið orðnar 23 árið 1991 en var fækkað niður í 12. Á móti var nefndarmönnum fjölgað upp í níu. Það sést á ferilskrám þeirra sem voru á þingi fyrir árið 1991 að vera þeirra í þessum nefndum er ekki getið þar. Það má vera að það stafi af því að fram að þeim tíma höfðu fastanefndirnar minna vægi. Það kemur a.m.k. fram í greinargerðinni með frumvarpinu að mikilvægi nefndarstarfsins mun aukast frá því sem áður var (sjá hér) við lagabreytinguna.
Nefndirnar sem voru settar með lögum árið 1991 hafa eitthvað breyst síðan. Þetta kemur greinilega fram þegar ferilskrár þeirra sem hafa setið á Alþingi eftir það er skoðuð þar sem heiti nefndanna eru breytileg. Á síðasta kjörtímabili var lögunum frá 1991 breytt þannig að fastanefndum þingsins var fækkað úr tólf niður í átta en fjöldi nefndarmanna er áfram níu.
Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er tilgangur breytinganna sá að bæta löggjafarstarfið. Þar kemur líka fram að það er gert ráð fyrir að flestir þingmenn muni aðeins sitja í einni nefnd í stað þriggja til fjögurra áður. Reyndin er hins vegar sú að þingmenn sitja að jafnaði í tveimur nefndum enda enda eiga ráðherrar ekki sæti í nefndum þingsins (sjá hér).
Miðað við það að á þessu þingi hefur verið skipað í sérstaka þingskaparnefnd (sjá hér) er ekki útilokað að framundan séu enn frekari breytingar á nefndarskipan Alþingis. Það kemur væntanlega í ljós síðar en vegna þeirra breytinga, sem þegar hefur verið gerð einhver grein fyrir, er það alls ekki aðgengilegt verkefni að skoða hvort og þá að hvaða leyti nefndarseta núverandi og fyrrverandi ráðherra hefur skipt máli þegar þeir voru valdir til þessara embætta.
Á vef Alþingis er yfirlit yfir núverandi þingnefndir. Fyrst eru taldar fastanefndir og dregur þessi kafli heiti sitt af því. Þá eru aðrar nefndir sem eru taldar í yfirlitinu í sérstökum kafla. Yfirlit yfir erlendu nefndirnar er annars staðar (sjá hér) en þeim hefur fjölgað smátt og smátt á undanförnum áratugum.
Allir þeir sem voru ráðherrar undir lok síðasta kjörtímabils sitja enn á þingi fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur. Þau sitja því öll í einhverjum nefndum nú þó þær séu eðli málsins samkvæmt ekki taldar hér enda ætlunin að draga fram þá reynslu sem ráðherrarnir höfðu aflað sér áður en að skipun til embættisins kom. Þeim sem kunna að hafa áhuga á að sjá í hvaða nefndum fyrrverandi ráðherrar sitja nú er því bent á að í töflunni hér að neðan er krækja undir nöfum þeirra sem vísa í ferilskrá viðkomandi.
Þar sem framundan er afar þurr upptalning, sem er hætt við að missi nokkuð marks, er rétt að taka það fram að þau nefndarheiti sem óvefengjanlegast tengjast málaflokki viðkomandi ráðherra eru feitletruð í upptalningunni á nefndunum hér að neðan. Þar sem það er ekki hægt að sjá að einhver nefnd tengist starfssviði forsætisráðherra þá er ekkert nefndarheiti feitletrað í tilviki Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Það verða hins vegar dregnar saman nokkrar athyglisverðar niðurstöður varðandi það hvaða reynslu þau eiga sameiginlega með fyrrverandi forsætisráðherrum þegar þráðurinn í verkefninu Ráðherrasamanburður verður tekinn upp aftur. Í þeim færslum verða líka dregnar fram fleiri niðurstöður varðandi þetta verkefni með skýrari hætti. Það er svo rétt að benda á það að í yfirlitinu hér á eftir verður miðað við heiti nefndanna eins og þau koma fyrir í ferilskrám þeirra sem eru taldir.
Ráherrar síðustu ríkisstjórnar | nefndarheiti |
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra | utanríkismálanefnd 1995-1996, iðnaðarnefnd 1995-1999, allsherjarnefnd 1996-1999, efnahags- og viðskiptanefnd 1999-2007, félagsmálanefnd 2003-2007. |
Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra | menntamálanefnd 2003-2005 og 2007-2009, félagsmálanefnd 2004-2005, fjárlaganefnd 2005-2007, iðnaðarnefnd 2005-2009; formaður 2007-2009, umhverfisnefnd 2007-2009. |
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra (tók við embætti haustið 2010) | félags- og tryggingamálanefnd 2007-2010; formaður 2009-2010, fjárlaganefnd 2007-2010; formaður 2009-2010, menntamálanefnd 2007-2009. |
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmála- ráðherra | efnahags- og skattanefnd 2007-2009, menntamálanefnd 2007-2009. |
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunar- ráðherra | sjávarútvegsnefnd 1991-1998; formaður 1995-1998, efnahags- og viðskiptanefnd 1991-1999, félagsmálanefnd 1999-2003, utanríkismálanefnd 1999-2009. |
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra | sjávarútvegsnefnd 1991-1993, allsherjarnefnd 1991-1992, iðnaðarnefnd 1991-1993; formaður, landbúnaðarnefnd 1992-1993, utanríkismálanefnd 1995-1999, 2005-2007, heilbrigðis- og trygginganefnd 1995-1999; formaður, umhverfisnefnd 1999-2000, fjárlaganefnd 1999-2001, efnahags- og viðskiptanefnd 2001-2005. |
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra (var skipaður heilbrigðisráðherra vorið 2009 en sagði af sér haustið eftir. Tók við nýju ráðherraembætti haustið 2010) | allsherjarnefnd 1995-1997, 1998-1999 og 2010, heilbrigðis- og trygginganefnd 1995-1996, félagsmálanefnd 1997-1998, efnahags- og viðskiptanefnd 1999-2007, efnahags- og skattanefnd 2007-2009 og 2009-2010, félags- og tryggingamálanefnd 2007-2009 og 2010, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2009-2010, umhverfisnefnd 2009-2010, utanríkismálanefnd 2009-2010, |
Jóhanna Sigurðardóttir hafði átt sæti á þingi í þrettán ár áður en þær nefndir sem hér eru taldar voru settar með lögum árið 1991. Á því 18 ára tímabili, sem leið frá því þær voru gerðar að mikilvægum hluta þinghaldsins uns hún varð forsætisráðherra, hafði hún setið fimm þeirra í alls 12 ár eða frá 1995 til 2007. Hún var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þegar lagafrumvarpið um þingnefndirnar var samþykkt (sjá hér) og var skipuð félags- og tryggingamálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde árið 2007 (sjá hér).
Á þeim 12 árum sem Jóhanna átti sæti í fastanefndunum, sem voru lögfestar árið 1991, sat hún lengst í efnahags- og viðskiptanefnd. Hún átti sæti í henni á árunum 1999 til 2007 eða í átta ár. Auk þeirra nefnda sem hér hafa verið taldar gegndi Jóhanna ýmsum öðrum trúnaðarstörfum á vegum þingsins áður en það kom að því að hún varð forsætisráðherra. Þau eru talin undir kaflanum Sérnefndir og önnur trúnaðarstörf í færslunni Ráðherrasamanburður: Þingreynsla. Hann verður endurbirtur í framhaldi þessarar færslu í þeim tilgangi að bæta reynslu Ólafar Nordal þar við. Önnur reynsla Jóhönnu kemur líka fram í færslunni um alþjóðastarf núverandi og fyrrverandi ráðherra.
Aðrir ráðherrar síðustu ríkisstjórnar höfðu mislanga reynslu af setu í nefndum ef Svandís Svavarsdóttir er undanskilin. Hún hafði enga reynslu þar sem hún var ný inni á þingi þegar hún var skipuð yfir Umhverfisráðuneytið.
Eins og fram kemur á myndinni hér að ofan höfðu þeir sem eru taldir verið í fastanefndum sem viðkomu málaflokki þess ráðuneytis sem Jóhanna Sigurðardóttir trúði þeim fyrir. Sumir reyndar ekki nema í tvö til þrjú ár. Katrín Júlíusdóttir sat í fjárlaganefnd á árunum 2005 til 2007 eða í tvö ár. Katrín Jakobsdóttir átti jafnlanga veru úr menntamálanefnd eða frá því að hún var kosin inn á þing árið 2007 fram til þess að hún var skipuð yfir Menntamálráðuneytið árið 2009.
Guðbjartur Hannesson hafði átt sæti í félags- og tryggingamálanefnd jafnlengi og hann hafði setið inni á þingi en hann var skipaður félags- og tryggingamálaráðherra þegar eitt ár var liðið af síðasta kjörtímabili. Steingrímur J. Sigfússon, sem átti 26 ára þingferil að baki þegar hann var skipaður fjármálaráðherra sölsaði um á miðju síðasta kjörtímabili og tók við Atvinnumálaráðuneytinu. Reynslan sem hann bjó að í málefnum þess var sú að hann hafði setið í sjö ár í sjávarútvegsnefnd auk þess sem hann hafði áður gegnt embætti landbúnaðarráðherra í þrjú ár eða á árunum 1988 til 1991 (sjá hér)
Össur Skarphéðinsson hafði setið í sjö ár í utanríkismálanefnd og Ögmundur Jónasson hafði setið í samtals í fjögur ár í allsherjarnefnd þegar hann tók við af Rögnu Árnadóttur haustið 2010 (sjá hér). Össur Skarphéðinsson hafði líka verið ráðherra í alls fjögur ár áður en hann var skipaður yfir Utanríkisráðuneytið vorið 2009. Hann tók við af Eiði Guðmundssyni sem umhverfisráðherra árið 1993 en það var í fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér). Hann var svo skipaður iðnaðarráðherra í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde (sjá hér).
Í töflunni hér að neðan er gerð tilraun til að draga það fram sem hefur komið fram hér að ofan um mislanga reynslu þeirra, sem voru taldir, úr nefndum sem viðkomu ráðuneytunum sem þau stýrðu í seinna ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Auk þess er það talið ef þessir gegndu formennsku í umræddum nefndum.
| tengd nefnd | fj. ára | formaður | fj. ára |
Katrín Júlíusdóttir | x | 4/2 | x | 2/ |
Guðbjartur Hannesson | x | 3 | x | 1 |
Katrín Jakobsdóttir | x | 2 | ||
Steingrímur J. Sigfússon | x | 8/7 | x | /3 |
Össur Skarphéðinsson | x | 7 | ||
Ögmundur Jónasson | x | 1/4 | ||
Meðaltal | 5/4 |
Það sem vekur mesta athygli hér er að helmingurinn hafði reynslu af formennsku í þeim nefndum sem viðkoma þeim málaflokkum sem þeir voru skipaðir yfir á kjörtímabilinu 2009-2013. Í þessu sambandi er rétt að minna á að Katrín og Guðbjartur nutu þess að Samfylkingin hafði verið í stjórn frá árinu 2007 en það er eitthvað annað sem skýrir það að Steingrímur J. Sigfússon var formaður sjávarútvegsnefndar árin 1995 til 1998 þegar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sátu saman í stjórn (sjá hér). Sama kjörtímabil var Össur Skarphéðinsson formaður heilbrigðis- og trygginganefndar ásamt því að vera í utanríkismálanefnd.
Má vera að báðir hafi notið þess að þeir höfðu verið ráðherrar í þeim ríkisstjórnum sem sátu á árunum á undan með ráðherrum sem héldu um stjórnartaumana þetta kjörtímabil. Steingrímur J. með þeim Halldóri Ásgrímssyni og Guðmundi Bjarnasyni en Össur með þeim Davíð Oddssyni, Friðriki Sophussyni, Halldóri Blöndal og Þorsteini Pálssyni. Munurinn er sá að Össur var formaður allt kjörtímabilið 1995 til 1999 en Steingrímur hefur vikið úr nefndinni ári áður en það var á enda.
Það þarf svo að útskýra uppsetninguna á árafjölda Katrínar Júlíusdóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar í töflunni hér að ofan áður en lengra er haldið. Eins og hefur komið fram áður þá sátu þessi yfir fleiru en einu ráðuneyti á síðasta kjörtímabili. Katrín var skipaður iðnaðarráðherra vorið 2009 en hún átti sæti í iðnaðarnefnd á árunum 2005-2009. Frá 2007 og fram til ársins 2009 var hún formaður nefndarinnar. Fram að því hafði hún líka átt sæti í fjárlaganefnd en hún tók við Fjármálaráðuneytinu þegar hún sneri úr fæðingarorlofi haustið 2012 (sjá hér).
Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd í átta ár eða frá árinu 1991 til ársins 1999. Á sama tíma sat hann í sjávarútvegsnefnd en reyndar einu ári skemur. Árin 1995-1998 var hann formaður sjávarútvegsnefndarinnar eins og var rakið hér að framan. Ögmundur Jónasson sat í eitt ár í heilbrigðis- og trygginganefnd eða árin 1995 til 1996. Vorið 2009 var hann skipaður heilbrigðisráðherra en vék úr því embætti eftir nokkurra mánaða veru. Ári síðar tók hann við Innanríkisráðuneytinu en hann hafði átt sæti í allsherjarnefnd í alls fjögur ár.
Skástrikin í töflunni hér að ofan afmarka sem sagt árafjöldann sem þessi sátu í þeim nefndum sem tengjast málaflokkum ráðuneytanna sem þau stýrðu á síðasta kjörtímabili. Tölurnar sem eru fyrir framan skástrikið eiga við þá nefnd sem tengist ráðuneytinu sem þessi þrjú stýrðu í upphafi síðasta kjörtímabils en sú fyrir aftan því sem þau stýrðu við þinglok vorið 2013.
Nánar verður farið í sum þeirra atriða sem koma fram í yfirlitinu hér að ofan í sérstakri færslu sem nefnist Ráðherrasamanburður: Nefndarreynsla en fjöldi þingnefnda og samanlögð þingnefndarvera hvers ráðherra í síðustu og núverandi ríkistjórn eru dregin saman í lokakafla færslunnar Ráðherrasamanburður: Þingreynsla. Hann verður settur fram aftur í sérstakri færslu þar sem þessi reynsla Ólafar Nordal hefur verið bætt inn í.
Áður en kemur að yfirliti sem sýnir í hvaða fastanefndum þingsins ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafa setið er yfirlit yfir nefndarstörf þeirra sem sátu tímabundið á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili.
Ráðherrar í styttri tíma | nefndarheiti |
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra (2009-2011) | fjárlaganefnd 1999-2009, samgöngunefnd 1999-2003, landbúnaðarnefnd 2003-2007, sjávarútvegsnefnd 2006-2007, viðskiptanefnd 2007-2009, efnahags- og skattanefnd 2009. |
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamála- ráðherra (2009-2010) efnahags- og viðskiptaráðherra (2010-2011) | heilbrigðis- og trygginganefnd 2007, heilbrigðisnefnd 2007-2009, utanríkismálanefnd 2007-2009; varaformaður, viðskiptanefnd 2007-2009, allsherjarnefnd 2009;formaður, menntamálanefnd 2009. |
Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnar- ráðherra 2009-2010 | félagsmálanefnd 1999-2000, samgöngunefnd 1999-2003 og 2004-2007, iðnaðarnefnd 2003-2004, sjávarútvegsnefnd 2003-2006, heilbrigðis- og trygginganefnd 2006-2007. |
Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra (2009-2010) | heilbrigðis- og trygginganefnd 2007, heilbrigðisnefnd 2007-2009, iðnaðarnefnd 2007-2009, allsherjarnefnd 2009, viðskiptanefnd 2009; formaður, efnahags- og skattanefnd 2009. |
Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra (2011-2012) | fjárlaganefnd 2009-2011; formaður 2010-2011, menntamálanefnd 2009-2011; formaður 2010-2011, samgöngunefnd 2009-2010, allsherjar- og menntamálanefnd 2011. |
Það er vissulega margt forvitnilegt sem kemur fram í töflunni hér að ofan. Það sem vekur þó líklega mesta athygli er í hve mörgum nefndum Oddný G. Harðardóttir hefur setið í á aðeins tveimur árum. Hún hefur líka verið formaður í tveimur þeirra sitthvort árið.
Nefndarreynsla Álfheiðar Ingadóttur er ekki síður athyglisverð þar sem hún hefur verið sett í þrjár nýjar nefndir árið sem fyrrverandi ríkisstjórn komst til valda og gerð að formanni einnar þeirra. Hún hefur því væntanlega ekki setið í þessum nefndum nema u.þ.b. hálft ár áður en hún tók við ráðuneytinu sem Ögmundur Jónasson fékk í sinn hlut við ráherraskipunina vorið 2009.
Í stað þess að dvelja frekar við þessi atriði er hér næst tafla sem dregur fram hversu lengi þeir ráðherrar, sem sátu tímabundið á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili, höfðu setið í nefndum sem fjölluðu um sömu málefni og ráðuneytin sem þeir stýrðu. Aðeins einn þessara hafði verið formaður í viðkomandi nefnd.
tengd nefnd | fj. ára | formaður | fj. ára | |
Jón Bjarnason | x | 4 | ||
Árni Páll Árnason | x | 1/2 | ||
Kristján L. Möller | x | 7 | ||
Álfheiður Ingadóttir | x | 2 | ||
Oddný G. Harðardóttir | x | 2 | x | 1 |
Meðaltal | 3/3 |
Vorið 2009 var Árni Páll skipaður félags- og tryggingamálaráðherra en hann tók síðan við af Gylfa Magnússyni sem viðskipta- og efnahagsráðherra haustið 2010 (sjá hér). Steingrímur J. Sigfússon tók við ráðuneyti hans á nýársdag árið 2012 ásamt ráðuneytinu sem Jón Bjarnason hafði setið yfir en Oddný G. Harðardóttir tók við Fjármálaráðuneytinu á gamlársdag ársins 2011 (sjá hér). Ráðherrahrókeringar haustsins 2010 hafa þegar verið raktar.
Hér má geta þess að það er afar forvitnilegt að skoða hvaða nefndarsæti þeir hlutu sem voru leystir frá ráðherraembættum á síðasta kjörtímabili. Ástæðan er ekki síst sú að slík skoðun gefur væntanlega einhverja hugmynd um það í hvaða virðingarröð nefndirnar eru og líka hvar í goggunarröðinni viðkomandi einstaklingar eru innan síns eigin flokks. Niðurstöður þeirrar skoðunar bíður næstu færslu.
Loks er það yfirlit sem dregur fram nefndarsetu núverandi ráðherra í fastanefndum þingsins. Hér er líklegt að það sem veki einkum athygli sé fjöldi þeirra nefnda sem Eygló Harðardóttir hafði setið í áður en hún var skipuð félags- og húsnæðisráðherra. Það er rétt að benda á að vera hennar í nefndunum, sem fyrst eru taldar, nær væntanlega ekki að fylla nema tvo til þrjá mánuði þar sem hún tók við nefndarsætum Guðna Ágústssonar þegar hann sagði af sér þingmennsku í miðjum nóvember 2008. Vegna þess að þetta er óstaðfest ágiskun er þetta þó talið eins og það er gefið upp í ferilskránni hennar.
Ráðherrar núverandi stjórnar | þingnefndir |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra | utanríkismálanefnd 2009-2013. |
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra | allsherjarnefnd 2003-2007; formaður, fjárlaganefnd 2003-2007, iðnaðarnefnd 2003-2004 og 2007, heilbrigðis- og trygginganefnd 2004-2005, utanríkismálanefnd 2005-2013; formaður 2007-2009, efnahags- og skattanefnd 2007-2009. |
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra | fjárlaganefnd 2007-2013, iðnaðarnefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2009-2011. |
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmála- ráðherra | efnahags- og skattanefnd 2007, fjárlaganefnd 2007-2009 og 2011-2012, menntamálanefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2007-2009, viðskiptanefnd 2010-2011, allsherjarnefnd 2010-2011. |
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra | efnahags- og skattanefnd 2007-2009, iðnaðarnefnd 2007-2009, utanríkismálanefnd 2007-2009, 2010 og 2011-2013, viðskiptanefnd 2009-2010. |
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra | heilbrigðisnefnd 2008-2009, iðnaðarnefnd 2008-2009, umhverfisnefnd 2008-2009, menntamálanefnd 2009-2011, viðskiptanefnd 2009-2011, allsherjar- og menntamálanefnd 2011, velferðarnefnd 2011-2012, efnahags- viðskiptanefnd 2012-2013. |
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra umhverfis- og auðlindaráðherra | sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 2009-2011, atvinnuveganefnd 2011-2013. |
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra | iðnaðarnefnd 2009-2011, utanríkismálanefnd 2011-2013. |
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra | allsherjarnefnd 2007-2010, samgöngunefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2007-2009, fjárlaganefnd 2009-2010, utanríkismálanefnd 2010-2011, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011-2013. |
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson átti aðeins sæti í einni fastanefnd Alþingis á síðasta kjörtímabili. Hann sat allt kjörtímabilið í utanríkismálanefnd. Vert er að vekja athygli á því að Jóhanna Sigurðardóttir hafði einnig átt sæti í þeirri sömu nefnd. Hún sat þar þó ekki nema eitt ár eða frá 1995 til 1996. Um verksvið nefndarinnar segir:
Nefndin fjallar um samskipti við erlend ríki og alþjóðastofnanir, varnar- og öryggismál, útflutningsverslun, málefni Evrópska efnahagssvæðisins og þróunarmál, svo og utanríkis- og alþjóðamál almennt. Enn fremur fjallar nefndin um skýrslur alþjóðanefnda sem og skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. (sjá hér)
Eins og áður hefur verið vikið að verður sú þingnefndareynsla sem þessi tvö eiga sameiginlega til frekari skoðunar í síðari færslum. Hér verður það hins vegar tekið til skoðunar hvort það sé jafn almennt meðal þeirra, sem Sigmundur Davíð skipaði til ráðherraembætta, að þeir hafi setið í nefndum sem snerta málefni ráðuneytanna sem þeir stýra eins og meðal þeirra sem fóru með völdin á árunum 2009-2013,
Það hefur þegar verið farið ýtarlega í það að þeir sem gegna ráðherraembættum nú hafa að jafnaði ekki jafnlagna þingreynslu og þeir sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn (sjá t.d. hér). Þar af leiðandi kemur það væntanlega engum á óvart að reynsla núverandi ráðherra af þingnefndarstörfum er ekki jafnlöng og þeirra sem höfðu setið lengst inni á þingi í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur.
Í ljósi þess að það munar sex árum á meðaltalsþingreynslu (fjórum ef þingreynslualdur þeirra sem sátu tímabundið er reiknaður inn í meðaltalið) núverandi ráðherra og þeirra, sem voru leystir frá embættum vorið 2013, er eðlilegt að gera ráð fyrir að það muni líka umtalsverðu á fjölda þeirra nefnda sem þessi höfðu setið í áður en að skipun þeirra kom. Sú er hins vegar ekki raunin í öllum tilvikum. Allir sem sitja á ráðherrastóli nú hafa átt sæti í nefndum sem fjalla um málefni ráðuneytisins sem þeim var trúað fyrir að Kristjáni Þór Júlíussyni einum undanskildum.
Áður en Ólöf Nordal tók sæti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur voru þau reyndar tvö en Hanna Birna á það sameiginlegt með Svandísi Svavarsdóttur, sem var yfir Umhverfisráðuneytinu í síðustu ríkisstjórn, að koma beint úr borgarpólitíkinni inn á þing og vera samstundis skipuð til ráðherraembættis. Svandís átti fjögurra ára reynslu úr borgarpólitíkinni að baki en Hanna Birna ellefu (sjá hér).
Kristján Þór á reyndar langan feril af sveitarstjórnarsviðinu en vorið 2013 hafði hann átt sæti á Alþingi í sex ár og setið þrjár nefndir. Engin þeirra snerti þó málefni Heilbrigðisráðuneytisins sem hann var skipaður yfir. Þar af leiðandi kemur hann hvorki fyrir á myndinni hér að neðan eða er getið í töflunni í framhaldi hennar.
Þau eru sjö meðal núverandi ráðherra sem áttu sæti í nefndum sem snerta málefni þeirra ráðuneyta sem þau sitja yfir. Þegar tíminn sem þau sátu í þessum nefndum er borinn saman við tíma fyrrverandi ráðherrahóps sést að ekki munar jafn miklu og mætti búast við. Ekki síst þegar miðað er við muninn á þingreynslutíma þessara tveggja hópa. Það sem samanburðurinn leiðir hins vegar í ljós og vekur sérstaka athygli er að enginn þeirra sem gegnir ráðherraembættum nú hafði verið formaður í þeim nefndum sem hér eru taldar.
tengd nefnd | fj. ára | formaður | fj. ára | |
Bjarni Benediktsson | x | 6 | ||
Illugi Gunnarsson | x | 2 | ||
Ragnheiður Elín Árnadóttir | x | 3 | ||
Eygló Harðardóttir | x | 1 | ||
Sigurður Ingi Jóhannsson | x | 4 | ||
Gunnar Bragi Sveinsson | x | 2 | ||
Ólöf Nordal | x | 5 | ||
Meðaltal | 3 |
Það hefur heldur enginn núverandi ráðherra reynslu af því að stýra fastanefnd nema Bjarni Benediktsson. Hann er sá í ráðuneyti Sigmundar Davíðs sem á lengsta starfsaldurinn. Hann á líka lengstu veruna í þingnefndum sem snerta ráðuneytið sem hann stýrir; þ.e. fjögur ár í fjárlaganefnd og síðar tvö ár í efnahags- og skattanefnd.
Hvað nefndarveru Ólafar Nordal snertir þá skal það tekið fram að hún á það sameiginlegt með Ögmundi Jónassyni að hafa verið í kjörbréfanefnd og sérnefnd um stjórnarskrármál sem voru sameinaðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með breytingunni sem gerð var á nefndarskipan Alþingis á miðju síðasta kjörtímabili. Áður voru þessar nefndir taldar til annarra nefnda og sérnefnda en með breytingunni heyrir verkefnasvið þeirra nú undir eina af fastanefndum Alþingis.
Miðað við lýsinguna á verkefnasviði kjörbréfanefndar er hæpið að telja reynslu af verkefnum hennar til grundvallaþátta í þingreynslu kandídata til embættis innanríkisráðherra. Góð þekking og skilningur á innihaldi Stjórnarskrárinnar er hins vegar einn þeirra þátta sem hlýtur að teljast mikilvægur þeim sem fer með embætti innanríkisráðherra.
Á hitt ber að benda að verkefni sérnefnda um stjórnarskrármál undangenginna ára hafa í meginatriðum snúist um breytingar á núverandi Stjórnarskrá og þar af leiðandi ekki alveg eins víst hversu hagnýt reynslan er verðandi innanríkisráðherra. Reynsla þingmanna af sérnefndum er talin í sérstökum kafla undir heitinu sérnefndir og önnur trúnaðarstörf. Þar er líka fjallað nákvæmar um þessar og aðrar nefndir sem þar eru taldar. Þessi kafli verður endurbirtur í framhaldi af þessari færslu og þá með þeim tíma sem Ólöf Nordal sat í þessum nefndum.
Hvað sem þessu líður þá sat Ólöf Nordal í tvö ár í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þrjú ár í allsherjarnefnd. Ef vera hennar í sérnefnd um stjórnarskrármál er talin með á hún jafnlangan nefndarferil úr viðkomandi nefndum og Bjarni en það breytir hins vegar ekki þeirri niðurstöðu að meðaltalsreynsla núverandi ráðherra úr málefnalega viðeigandi nefndum eru þrjú ár.
Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Illugi Gunnarsson áttu öll sex ára þingreynslu að baki þegar þau voru skipuð til núverandi ráðherraembætta. Eins og var tekið fram hér á undan þá hefur Kristján aldrei átt sæti í þingnefnd sem fjallar um heilbrigðismál. Illugi Gunnarsson átti hins vegar sæti í menntamálanefnd á árunum 2007-2009 og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafði bæði setið í iðnaðarnefnd og viðskiptanefnd áður en hún var skipuð iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Samtals í þrjú ár.
Eygló Harðardóttir átti sæti í velferðarnefnd í eitt ár eða þingárið 2011-2012. Auk þess má geta þess hér að hún var formaður verðtryggingarnefndar (sjá skýrslu hér), sem var skipuð af Gylfa Magnússyni, og í samráðshópi um húsnæðisstefnu árið 2011 (sjá skýrslu hér), sem var skipuð af Guðbjarti Hannessyni. Þessar nefndir eru taldar í kaflanum um sérnefndir og önnur trúnaðarstörf.
Sigurður Ingi átti sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í tvö ár og svo áfram þegar henni var steypt inn í atvinnuveganefnd haustið 2011. Samtals fjögur ár eða allt síðasta kjörtímabil. Gunnar Bragi sat í utanríkismálanefnd frá 2011 til 2013.
Formenn fastanefnda þingsins
Áður en lengra verður haldið með þennan samanburð má minna á það að af þeim átta sem sátu á ráðherrastóli undir lok síðasta kjörtímabils höfðu þrír verið formenn fastanefnda sem fóru með sömu málefni og þau ráðuneyti sem þeir voru skipaðir yfir. Fjórir ef Oddný G. Harðardóttir er talin með.
Reyndar hafði enginn setið lengur en í þrjú ár sem slíkur en þetta vekur sérstaka athygli fyrir það að enginn þeirra sem er ráðherra nú hafði verið formaður í þeirri nefnd sem fer með málefni þess ráðuneytis sem hann stýrir nú. Það má líka benda á að bæði Guðbjartur Hannesson og Oddný G. Harðardóttir höfðu verið formenn í tveimur nefndum þegar kom að skipun þeirra. Guðbjartur Hannesson kom nýr inn á þing vorið 2007 en Oddný vorið 2009.
Það er ekki síður athyglisvert að í núverandi ráðherrahópi er það aðeins Bjarni Benediktsson sem hefur verið formaður í einhverri fastanefnd Alþingis en þau voru fjögur, sem luku síðasta kjörtímabili á ráðherrastóli, sem höfðu slíka reynslu. Reyndar fimm ef formannsreynsla Jóhönnu er talin með. Ástæðan fyrir því að hún er ekki höfð með á myndinni hér að ofan er að reynsla hennar stendur fyrir utan núverandi nefndarskipan.
Nánari grein er gerð fyrir formannsreynslu Jóhönnu Sigurðardóttur í lokakafla færslunnar, Ráðherrasamanburður: Þingreynsla, sem verður þá fjórði hluti þessa færsluflokks en þegar allt er talið þá höfðu níu af fimmtán ráðherrum síðustu ríkisstjórnar reynslu af formennsku í nefndum og/eða ráðum á vegum stjórnsýslunnar.
Þrír þeirra sem voru ráðherrar tímabundið bjuggu að slíkri reynslu. Ragna Árnadóttir hafði líka reynslu sem formaður nefnda sem var stofnað til af frumkvæði Alþingis (sjá hér). Það vekur sérstaka athygli að allir ráðherrar Samfylkingarinnar sem sátu á ráðherrastóli við lok kjörtímabilsins, vorið 2013, höfðu verið formenn þingskipaðra nefnda og/eða ráða einhvern tímann á þingmannsferlinum.
Heimildir
Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla
Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla
Ráðherrasamanburður: Flokksforysta
Ráðherrasamanburður: Önnur flokksreynsla
Ráðherrasamanburður: Þingreynsla
Innskotsfærslur þar sem þingreynslu Ólafar Nordal er bætt við:
Hefðarreglur ráða för I
Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta
Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013
Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands (fækkun ráðuneyta). frá 30. mars til 11. apríl 2012.
Stjórnarráð Íslands (sameining ráðuneyta). frá 9. júní til 9. september 2010.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.