Ráðherrasamanburður: Önnur pólitísk reynsla

Það hefur tíðkast frá örófi alda að sá sem vill ná tökum á ákveðinni iðn eða fagi hefur leitað í smiðju meistara í greininni. Í gamla samfélaginu héldu meistararnir þekkingunni á verklaginu og samskiptanetinu, sem þeir höfðu komið sér upp í kringum hana, fyrir sig og sína nánustu. Í Evrópu stofnuðu faggreinarnar gildi til að verja einkarétt sinn til iðjunnar og afleiddra viðskipta.

Thomas Jeffersons

Það er eðlilegt að líta á þessi gildi sem upphaf stéttarfélaga en saga sumra þeirra bendir mun frekar til klíkusamtaka sem voru stofnuð til að ryðja keppinautunum úr vegi. Í þessu sambandi má nefna að þegar rýnt er í upphaf galdraofsóknanna í Evrópu kemur fram lítt þekkt saga þar sem ný stétt háskólamenntaðra karllækna gekk í bandalag með kaþólsku kirkjunni og öðrum landeigendum sem höfðu lýst yfir stríði gegn þeim sem stunduðu það sem í nútímanum er kallað einu nafni óhefðbundnar lækningar (sjá Anderson, S. Bonnie og Judith P. Zinsser: A History of their own - Women in Europe from Prehistory to the Present).

Það er ekki ætlunin að rýna frekar ofan í þessa sögu í þessari færslu en þetta er nefnt hér þar sem það tengist meginviðfangsefni þessarar skrifa með óbeinum hætti þó það verði ekki útskýrt frekar fyrr en í niðurlaginu. Hér er ætlunin að skoða hverjir, meðal þeirra sem gegna ráðherraembættum í núverandi ríkisstjórn eða voru ráðherrar þeirrar síðustu, höfðu sótt sér reynslu af pólitískum vettvangi með störfum á vegum fyrri ríkisstjórna.

Miðað við þá aldagömlu hefð að leita þekkingar og reynslu á tilteknu sviði hjá þeim, sem eru fyrir í þeirri grein þar sem viðkomandi hefur í hyggju að hasla sér völl, er ekki óeðlilegt að ætla að störf á vegum eldri ríkisstjórna hafi skipt miklu varðandi mótun starfsaðferða og viðhorfa en ekki síður í því að afla sambanda. Hér verða þeir því taldir sem voru skipaðir í nefndir og störfuðu innan ráðuneyta eða sem ráðgjafar ráðherra í tíð eldri ríkisstjórna; þ.e. ríkisstjórna sem sátu við stjórnvölinn fyrir 1. febrúar 2009.  

Samuel Adams

Engin þeirra sem var leystur frá ráðherraembætti, við það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk lausn vorið 2013, hefur starfsreynslu af því tagi sem hér er til skoðunar. Hins vegar hafa allir sem sátu tímabundið á ráðherrastóli í valdatíð hennar slíka reynslu. Það verður rakið um hvers konar reynslu er að ræða undir lok þessarar færslu. Hér er hins vegar yfirlit yfir þá sem hafa slíka reynslu meðal núverandi ráðherra ásamt upptalningu á þeim ábyrgðar- og trúnaðarstörfum sem um ræðir.

Í vinstri dálkinum eru nöfn og núverandi embættisheiti þeirra talin ásamt því sem það er tekið fram frá hvaða tíma viðkomandi hefur setið inni á þingi og heildarstarfsaldur af því tagi sem hér er til skoðunar. Ef viðkomandi starf snertir núverandi ráðherraembætti er það feitletrað. Í hægra dálki kemur fram um hvaða ábyrgðar- og trúnaðarstörf er að ræða, svo og tímabil og á vegum hvaða ráðherra viðkomandi starfaði. Eins og áður eru svo krækjur inn á ferilskrá viðkomandi ráðherra á alþingisvefnum undir nafni hans.

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 Trúnaðarstörf á vegum fyrri ríkisstjórna
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 5 ár. Á þingi frá 2007
Aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra 2000-2005.
 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 12 ár. Á þingi frá 2007
Aðstoðarmaður Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005, utanríkisráðherra 2005-2006 og forsætisráðherra 2006-2007.

Starfsmaður Útflutningsráðs 1995-1998.
Í nefnd um nýtt fæðingarorlof 1999.
Í samninganefnd ríkisins 1999-2005.
Varamaður í jafnréttisráði 2000-2005.
Varamaður í bankaráði Norræna fjárfestingarbankans 2000-2006.
Í viðræðunefnd um varnarmál 2005-2006.
Í fjölskyldunefnd ríkisstjórnarinnar 2005-2007.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 2 ár. Á þingi frá 2009
Í ráðherraskipaðri nefnd sem vann að breytingum á dýralæknalögum 1996-1998. (Guðmundur Bjarnason, landbúnaðar- og umhverfisráðherra)
 Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
 2 ár. Á þingi frá 2009
Aðstoðarmaður Páls Péturssonar, félagsmálaráðherra 1997-1999.
 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 3 ár. Á þingi frá 2013

 


Starfsmaður Öryggismálanefndar 1990-1991. (undir Forsætisráðuneyti Steingríms Hermannssonar)
Deildarsérfræðingur í Menntamála-ráðuneytinu 1994–1995. (Ólafur G. Einarsson, menntamálaráðherra)

Formaður nefndar Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra, um mótun símenntunarstefnu 1997–1998.


Illugi Jökulsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa öll unnið sem aðstoðarmenn ráðherra sem gegndu embættum á vegum sama flokks og þau sitja á þingi fyrir nú. Það vekur athygli að bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir eiga eingöngu starfsferil af pólitískum toga.

Ragnheiður Elín hóf sinn starfsferil sem starfsmaður Útflutningsráðs þar sem hún byrjaði sem aðstoðarviðskiptafulltrúi en varð síðar viðskiptafulltrúi í New York og síðar verkefnisstjóri í Reykjavík (sjá hér). Upphaf starfsferils Hönnu Birnu verður til umfjöllunar í næsta kafla þar sem verður fjallað um trúnaðar- og ábyrgðarstöður á vegum stjórnmálaflokkanna.

Ráðherrar í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs sem hafa gegnt ábyrgðarstöðum fyrir eldri ríkisstjórnir

Illugi og Ragnheiður Elín hafa bæði verið aðstoðarmenn ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Illugi var aðstoðarmaður Davíð Oddssonar á árunum 2000-2005. Fyrst í Forsætisráðuneytinu og svo væntanlega það eina ár sem Davíð sat í Utanríkisráðuneytinu (sjá hér). Það kemur ekki fram á ferilskrá Illuga Gunnarssonar hvað hann gerði á árunum 2005 til 2007 en vorið 2007 settist hann inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Ragnheiður Elín var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár. Fyrst í þau sjö ár sem hann sat í Fjármálaráðuneytinu (sjá hér). Árið 2005 fylgdi hún honum í Utanríkisráðuneytið þegar hann tók við utanríkisráðherraembættinu af Davíð Oddssyni. Þegar Geir H. Haarde varð forsætisráðherra árið 2006 fylgdi Ragnheiður Elín honum svo í Forsætisráðuneytið. Árið eftir settist hún inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Lög um Útflutningsráð Íslands voru sett fram í stjórnartíð Jóns Baldvins Hannibalssonar yfir Utanríkisráðuneytinu. Fimm árum síðar varð Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra (sjá hér) en á þeim tíma hóf Ragnheiður Elín störf hjá Útflutningsráðinu. Þremur árum seinna réði Geir H. Haarde hana til sín sem aðstoðarmann. Á meðan hún starfaði sem aðstoðarmaður hans átti hún sæti í ýmsum nefndum og ráðum á vegum stjórnvalda; þ.á m. samninganefnd ríkisins sem sér um kjarasamninga við opinbera starfsmenn. 

Hanna Birna er þriðji ráðherra núverandi ríkisstjórnar sem kemur úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem á starfferil af því tagi sem hér er til umfjöllunar. Árið 1990 var hún starfsmaður Öryggismálanefndar sem heyrði undir Forsætisráðuneytið en á þeim tíma var framsóknarþingmaðurinn, Steingrímur Hermannsson, forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknar, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks (sjá hér).

Árið 1994 var Hanna Birna deildarsérfræðingur í Menntamálaráðuneytinu á þeim tíma sem sjálfstæðisþingmaðurinn, Ólafur G. Einarsson, var yfir ráðuneytinu (sjá hér). Þremur árum síðar skipaði Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra (sjá hér), Hönnu Birnu sem formann nefndar sem starfaði á hans vegum í þeim tilgangi að móta stefnu í símenntunarmálum.

Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra, á það sameiginlegt með Illuga Gunnarssyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra í sama flokki og hann situr á þingi fyrir nú. Gunnar Bragi var aðstoðarmaður Páls Péturssonar sem var félagsmálaráðherra á árunum 1995 til 2003 en Gunnar Bragi var aðstoðarmaður hans í tvö ár. Þá átti Sigurður Ingi Jóhannsson sæti í nefnd um breytingar á dýralæknalögum. Í nefndina skipaði Guðmundur Bjarnason sem var landbúnaðar- og umhverfisráðherra á árunum 1995 til 1999 (sjá hér).

Hér á eftir eru þeir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar sem hafa reynslu af ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörfum á vegum fyrri ríkisstjórna taldir upp ásamt tímabilinu sem þeir störfuðu, ráðherrunum sem skipaði þá til starfans, eða sá sem þeir störfuðu lengst með, og forsætisráðherranum sem fór fyrir þeirri ríkisstjórn/-um sem þeir störfuðu fyrir. 

Röðin miðast við byrjunarár en það skal tekið fram að Hanna Birna er aðeins talin einu sinni. Ástæðan er sú að hún starfaði ekki samfellt. Hún var starfsmaður Öryggismálanefndar í tíð Steingríms Hermannssonar eins og hefur komið fram hér á undan og síðar starfaði hún í nefnd sem Björn Bjarnason skipaði til. Það er svo rétt að taka það fram að það er mjög hæpið að halda því fram að aðrir en Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi í reynd notið leiðsagnar þeirra sem eru kallaðir lærifeður í töflunni hér að neðan.

 Núverandi ráðherra tímabil Lærifaðir
 forsætisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir 
1994-1995
Ólafur G. Einarsson
 Davíð Oddsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
1995-2007Geir H. Haarde
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
Sigurður Ingi Jóhannsson 1996-1998Guðmundur Bjarnason Davíð Oddsson
Gunnar Bragi Sveinsson 1997-1999Páll Pétursson
 Davíð Oddsson
Illugi Gunnarsson
2000-2005
Davíð Oddsson
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson


Eins og kemur fram í töflunni hér að ofan þá störfuðu þrír af fimm núverandi ráðherrum á vegum ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem var við stjórnvölinn, undir forystu Davíðs Oddssonar, á árunum 1995 til 1999 (sjá hér). Þó það komi ekki fram í töflunni hér að ofan þá starfaði Hanna Birna Kristjánsdóttir líka á vegum ráðherra í þessari ríkisstjórn þegar hún var skipuð formaður nefndar Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra, um mótun símenntunarstefnu.

Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir voru aðstoðarmenn ráðherra í þriðja og fjórða ráðuneyti Davíðs Oddssonar (sjá hér) og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar (sjá hér). Auk þessara starfaði Ragnheiður Elín líka á vegum fyrsta ráðuneytis Geirs H. Haarde (sjá hér) eða þar til hún var kosin inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn vorið 2007.

Þau störfuðu líka á vegum fyrri ríkisstjórna

Það vekur vissulega athygli að á meðan meiri hluti þeirra sem gegna ráðherraembættum nú eiga forsögu af ábyrgðar- og trúnaðarstörfum á vegum þeirra ríkisstjórna sem voru við stjórnvölin áratugina í kringum síðustu aldamót þá á engin þeirra sem sat á ráðherrastóli í undanfara stjórnarskiptana síðastliðið vor slíka forsögu.

Þetta er ekki síður athyglisvert í ljósi þess að allir þeir sem sátu tímabundið á ráðherrastóli í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur eiga slíka forsögu. Þessi verða talin hér en það er rétt að hafa það í huga að í sumum tilvikum eru nefndir og stjórnir sem starfa á vegum viðkomandi ríkisstjórna skipaðar af öllum stjórnmálaflokkunum á Alþingi þannig að hver flokkur skipar sinn fulltrúa í viðkomandi nefnd eða stjórn. Einhverjir þeirra sem eru taldir hér að neðan hafa því að öllum líkindum verið tilnefndir af þeim stjórnmálaflokkum sem þeir gegndu ráðherraembættum fyrir á síðasta kjörtímabili.

Ráherrar sem sátu tímabundið í ríkisstjórn Jóhönnu og hafa gegnt ábyrgðarstöðum fyrir eldri ríkisstjórnir

Jón Bjarnason var fulltrúi í búfræðslunefnd á árunum 1981 til 1999 eða í átján ár. Á þeim tíma voru þessir landbúnaðarráðherrar: Pálmi Jónsson, Jón Helgason, Steingrímur J. Sigfússon, Halldór Blöndal og Guðmundur Bjarnason. Jón var kosinn inn á þing fyrir Vinstri græna árið 1999. Sama ár tók Kristján L. Möller sæti á þingi fyrir Samfylkinguna. Hann var skipaður í byggðanefnd Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra árinu á undan og átti því sæti í henni í eitt ár.

Oddný G. Harðardóttir, sem kom inn á þing fyrir Samfylkinguna árið 2009, var verkefnisstjóri í Menntamálaráðuneytinu árið 2003 til 2004. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var menntamálaráðherra á þessum tíma. Álfheiður Ingadóttir, sem hefur verið á þingi fyrir Samfylkinguna frá árinu 2007, var í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2003 til 2006 Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, skipaði í nefndina.

Gylfi Magnússon var formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins á árunum 2005 til 2009. Valgerður Sverrisdóttir, sem var iðnaðar- og viðskiptaráðherra árið 2005, skipaði í stjórnina en Gylfi gegndi formennsku í henni áfram í tíð Jóns Sigurðssonar og Björgvins G. Sigurðssonar. Gylfi Magnússon var annar tveggja utanþingsráðherra sem Jóhanna Sigurðardóttir skipaði til ráðherraembættis árið 2009 en leysti frá störfum haustið 2010.

Árni Páll Árnason er sá fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar sem á fjölskrúðugasta starfsferilinn af þessu tagi. Hann var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar, utanríkisráðherra í Evrópumálum á árunum 1992 til 1994. Þá var hann embættismaður á viðskiptaskrifstofu og varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins síðasta árið sem Jón Baldvin sat yfir því.

Í framhaldinu var hann sendiráðsritari í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Vestur-Evrópusambandinu í Brussel og fulltrúi Íslands í stjórnmálanefnd Atlantshafsbandalagsins á árunum 1995 til 1998. Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra á þessum tíma. Þá var hann í ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur frá 1999 til 2009. Nefndin er á vegum Forsætisráðuneytisins en forsætisráðherrar á þeim tíma sem Árni Páll var varamaður í nefndinni (sjá hér) voru: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde.

Á sama tíma var hann starfsmaður ráðherraskipaðra nefnda um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar, eða árið 2004, og um fjármál stjórnmálaflokkanna árið 2005 til 2006. Árið 2004 var Davíð Oddsson utanríkisráðherra en á árunum 2005 til 2006 var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra en það er forsætisráðherra sem skipar í nefnd um fjármál stjórnmálaflokka. Árni Páll hefur setið á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2007.

Ragna Árnadóttir er önnur þeirra tveggja utanþingsráðherra sem Jóhanna skipaði í embætti árið 2009 en leysti frá störfum haustið 2010. Ragna átti átta ára starfsferil að baki innan úr stjórnsýslu fyrri ríkisstjórna þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hana til embættis dóms- og kirkjumálaráðherra í febrúar 2009.

Ferill Rögnu hófst í Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var deildarstjóri þar árið 2001 til 2002 eða á þeim tíma sem Jón Kristjánsson var yfir ráðuneytinu. Þá var hún skrifstofustjóri í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í sjö ár eða frá árinu 2002 til 2009. Auk þess var hún staðgengill ráðuneytisstjóra þrjú síðustu árin sín þar og ráðuneytisstjóri þess yfir sex mánaða tímabil á árinu 2008.

Sólveig Pétursdóttir var Dóms- og kirkjumálaráðherra þegar Ragna hóf störf í ráðuneytinu en Björn Bjarnason tók við af Sólveigu og sat yfir ráðuneytinu fram til stjórnarslita í upphafi ársins 2009. Það var því í tíð Björns Bjarnasonar sem Ragna var sett ráðuneytisstjóri. Skömmu fyrir stjórnarslitin í janúar 2009 hafði Geir H. Haarde fengið Rögnu yfir í Forsætisráðuneytið þar sem hún var skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra í janúar 2009.

Á sama tíma og Ragna var starfsmaður í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu gegndi hún ýmsum öðrum störfum á vegum þess og annarra ráðuneyta. Hér verða þau verkefni sem hún var skipuð til af ráðherrum annarra ráðuneyta talin. Ragna var starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála árið 2002 til 2003. Hún var skipuð af viðskiptaráðherra sem þá var Finnur Ingólfsson. Ári síðar var hún skipuð starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hún var skipuð af þáverandi viðskiptaráðherra sem var Valgerður Sverrisdóttir.

Ragna átti líka sæti í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti á árunum 2005 til 2007. Hún var því skipuð í tíð Valgerðar Sverrisdóttur en starfaði áfram þegar Jón Sigurðsson var viðskiptaráðherra. Þá var Ragna í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum á árunum 2004 til 2006 en Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra á þessum tíma. 

Auk framantalins gegndi Ragna Árnadóttir fjölda trúnaðarstarfa á vettvangi Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna á árabilinu 2002 til 2009. Á þessum tíma voru Valgerður Sverrisdóttir, Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherrar. Hvað aðrar trúnaðarstöður og ábyrgðarstöður á vegum Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins varðar er vísað til ferilskrár Rögnu á síðu Alþingis.

Samantekt og samanburður

Að lokum er vel við hæfi að taka saman í töflu á hvaða tímabili ofantalin gegndu ábyrgðar- og/eða trúnaðarstöðum á vegum eldri ríkisstjórna. Þar sem ekkert þessara starfaði sem aðstoðarmaður ráðherra þá er upptalningu þeirra ráðherra sem skipaði þau eða réði sleppt ásamt þeim sem veitti þeim áframhaldandi umboð þar sem um slíkt er að ræða.

Það er líka hæpið að tala um lærifeður nema helst í tilviki Árna Páls Árnasonar sem starfaði í þrjú ár með Jóni Baldvini Hannibalssyni í Utanríkisráðuneytinu, Oddnýjar G. Harðardóttur, sem var verkefnisstjóri í eitt ár í embættistíð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, og Rögnu Árnadóttur, sem starfaði í nær sex ár við hlið Björns Bjarnasonar í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. 

Eins og áður sagði er dálkinum lærifaðir sleppt hér en í þess stað er tekin saman árafjöldi hvers og eins í ábyrgðarstöðum af því tagi sem hér hafa verið tekin saman svo og árið sem viðkomandi kom inn á þing. Í tilviki utanþingsráðherranna er vera þeirra á þingi tilgreind í aftasta dálkinum. Það er svo rétt að taka það fram í sambandi við starfsaldur Árna Páls Árnasonar að þá er hann aðeins talinn fram að því að hann settist inn á þing vorið 2007.

 Nöfn ráðherra  tímabilárafj.
 forsætisráðherra
 á þingi frá:
 Jón Bjarnason 
 1981-1999
 18 ár
 Steingrímur Hermannsson
 Þorsteinn Pálsson
 Steingrímur Hermannsson
 Davíð Oddsson
 1999
 Árni Páll Árnason
 1992-2009 15 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2007
 Kristján L. Möller
 1998-1999 1 ár
 Davíð Oddsson
 1999
 Ragna Árnadóttir  2001-2009 8 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2009-2010
 Oddný G. Harðardóttir
 2003-2004 1 ár
 Davíð Oddsson
 2009
 Álheiður Ingadóttir
 2003-2006
 3 ár
 Davíð Oddsson
 Halldór Ásgrímsson
 2007
 Gylfi Magnússon
 2005 -2009
 4 ár
 Halldór Ásgrímsson
 Geir H. Haarde
 2009-2010


Það sem vekur e.t.v. mesta athygli er að framantaldir ráðherrar, sem allir sátu tímabundið í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hafa margir hverjir töluverða reynslu af ábyrðar- og trúnaðarstörfum á vegum ríkisstjórna sem voru undir forsæti ráðherra Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks. Af núverandi ráðherrum hefur Ragnheiður Elín Árnadóttir langlengstu starfsreynsluna af þessu tagi eða tólf ár. Af þeim sem eru taldir hér að ofan hafa Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason hæsta starfsaldurinn þó þess beri að geta að starf Jóns Bjarnasonar í nefnd um búfræðslu hefur alls ekki verið jafnviðamikið og þeirra Árna Páls og Ragnheiðar Elínar í sínum störfum.

Ragna Árnadóttir hefur líka hærri starfsaldur, í ábyrgðar- og trúnaðarstörfum fyrir fyrri ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar að Ragnheiði Elínu einni undanskilinni. Ef starfsaldri ráðherra núverandi ríkisstjórnar er deild út á þá fimm sem hér hafa verið taldir og fundið meðaltal er það fjögur ár á hvern þeirra samanborið við að starfsaldur þeirra sjö sem eru taldir í töflunni hér að ofan er sjö ár.

Niðurlag 

Í upphafi þessarar færslu var vikið í nokkrum orðum að svonefndum gildum sem gjarnan er litið á sem undanfara stétta- eða faggreinasamtaka þó ýmislegt í sögu þeirra minni frekar á klíkubandalög. Gildin voru stofnuð utan um ýmis konar faggreinaþekkingu í þeim tilgangi að verja sérþekkingu og viðskiptasambönd. Æðstráðendur veittu nýliðum inngöngu sem höfðu lært á vegum viðurkenndra meistara í viðkomandi grein ef umsækjandinn stóðst faggreinaprófið sem þeir höfðu sett. Fæstir komust þó að til náms nema þeir væru tengdir meistara innan gildisins einhverjum böndum.

Það er hæpið að skilgreina pólitíkina sem faggrein af því tagi sem gildin og síðar faggreinafélögin voru stofnuð utan um. Hins vegar eru tilefni stofnunar stjórnmálaflokka ekki óskylt þar sem þeim var frá upphafi ætlað að gegna hlutverki hagsmunasamtaka til að tryggja samvinnu um sameiginleg mál og viðhalda samböndum. Sumir vilja jafnvel meina að hlutverk stjórnmálaflokka sé miklu frekar það að tryggja viðgang stjórnmálaflokksins og sérhagsmuni þeirra sem tilheyra honum en að standa vörð um hugsjónir og hagsmunamál sem varða samfélagslega hagsmuni. 

John Locke

Hér hefur verið fjallað um þá sem gegna ráðherraembættum nú og þá sem fóru með slík embætti á síðasta kjörtímabili. Þeir hafa verið taldir sem hafa reynslu af ábyrgðar- og/eða trúnaðarstörfum fyrir ríkisstjórnirnar sem stýrðu þjóðarskútunni áratugina í undanfara þess að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingar - græns framboðs tók við völdum í upphafi árs 2009. Þessir höfðu aflað sér reynslu innan úr stjórnsýslunni og einhverjir væntanlega stöðu innan sinna stjórnmálaflokka með verkefnum á þeirra vegum.

Nokkrir störfuðu í slíku návígi við fyrri ráðherra að það má kannski líkja samvinnunni að einhverju leyti við samband meistara og lærlings ekki síst þegar það er tekið með inn í dæmið að leið viðkomandi lá inn á þing í framhaldinu. Hér er einkum átt við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem var aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í níu ár áður en hún settist inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2007, og Illuga Gunnarsson, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, sem var aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í fimm ár áður en hann var kosinn inn á þing fyrir sama flokk.

Það er heldur ekki útilokað að telja Árna Pál Árnason, Rögnu Árnadóttur og Oddnýju G. Harðardóttur til þessa hóps. Árni Páll var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum á þeim tíma sem sá síðarnefndi barðist fyrir aðild Íslands að EES-samningnum (sjá hér) eða frá árinu 1992 til 1994 og embættismaður á hans vegum í Utanríkisráðuneytinu það sem eftir lifði kjörtímabilsins sem Jón Baldvin var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Alþýðuflokks (sjá hér) eða fram til 1995.

Ragna Árnadóttir átti sjö ára feril í ábyrgðarstöðum innan ráðuneyta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og síðar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar Jóhanna Sigurðardóttir skipaði hana dóms- og kirkjumálaráðherra í þeirri ríkisstjórn sem tók við völdum 1. febrúar 2009. Ragna hafði lengst unnið með Birni Bjarnasyni sem var dóms- og kirkjumálaráðherra í sex ár. Oddný G. Harðardóttir var deildarstjóri í Menntamálaráðuneytinu undir stjórn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þar sem starfstímabil hennar í þeirri stöðu er ekki nema eitt ár er það væntanlega hæpnast að telja hana með í þeim hópi sem hafa notið leiðsagnar í verklagi og viðhorfum hjá viðkomandi ráðherra.

Það verður hins vegar að teljast líklegt að starfsreynsla af því tagi, sem hér hefur verið talin, sé þeim sem hafa verið tiltekin hér að framan dýrmætur reynslubrunnur. Hitt er ekki síður líklegt að hún hafi reynst þeim mikilvæg í að komast til þeirrar aðstöðu að vera skipuð í ráðherraembætti. Vissulega má gera ráð fyrir að með störfum sínum á vegum fyrri ríkisstjórna hafi umrædd fengið mikilsverða innsýn inn í verkefni og starfsaðferðir auk þess að kynnast og jafnvel tengjast þeim sem láta mest til sín taka innan viðkomandi málefnasviðs.
H.L. Mencken
Miðað við þá stjórnmálahefð sem er útlit fyrir að hafi fest rætur í íslenskri pólitík má gera ráð fyrir að mikilvægasta veganestið sé það að fyrir þau sambönd sem urðu til á þessum starfsvettvangi hafi orðið til einhvers konar forgangur þegar kemur að möguleikanum til metorða á pólitískum vettvangi. Hér er heldur ekki útilokað að ætla að árangur þess sem mætti kalla viðhorfamótun hafi haft eitthvað að segja. Þegar rætt er um að komast til metorða innan pólitíkunnar er bæði vísað til valdastöðu innan ráðuneyta og innan þess stjórnmálaflokks sem viðkomandi starfar fyrir.

Í næstu færslu verður farið yfir stöðu núverandi og fyrrverandi ráðherra innan þeirra stjórnmálaflokka sem þeir starfa fyrir. Þar verða hlutverk viðkomandi innan síns stjórnmálaflokks bæði í nútíð og fortíð dregin saman. Í framhaldinu verður þingreynsla sama hóps sett fram í sérstakri færslu og þá kemur loks að lokum með niðurstöðum og almennum vangaveltum bundnar þeirri samantekt sem þetta blogg hefur verið undirlagt af frá því í ágústmánuði á síðasta ári. 

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun
Ráðherrasamanburður: Starfsreynsla
Ráðherrasamanburður: Sveitarstjórnarreynsla

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Þetta minnir mig á að einn bekkjarfélaga minna í barnaskóla tilkynnti  að hann ætlaði að læra til landlæknis. 

 

Snorri Hansson, 3.5.2014 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband