Ráherrasamanburður: Starfsreynsla

Það hefur margt gáfulegt verið sagt um gildi menntunar en svo eru aðrir sem snúast öndverðir og telja að of mikið sé gert úr vægi hennar og benda á að menntun kemur aldrei í stað góðrar eðlisgreindar og/eða almennrar skynsemi. Þeir eru m.a.s. til sem virðast beinlínis óttast það að með því að viðurkenna gildi menntunar þá verði þeir útilokaðir sem búa yfir áralangri starfs- og lífsreynslu en eiga engin prófskírteini til að færa sönnur á þekkingu sína.

William Safire

Úti á vinnumarkaðinum eru störfin fjölbreytt og krefjast þar af leiðandi mismunandi hæfileika og færni. Þegar rennt er yfir atvinnuauglýsingar snúast flestar auglýsingarnar um störf þar sem eru gerðar miklar kröfur til menntunar og að viðkomandi menntun nýtist í því starfi sem er verið að auglýsa laust til umsóknar.

Sum þeirra fyrirtækja sem auglýsa þannig eftir starfskröftum þykir það eftirsóknarvert að ráða þá sem eru nýútskrifaðir út úr námi þannig að þeir sem eru ráðnir inn í fyrirtækið komi ekki inn í starfið með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um það hvernig það eigi að ganga fyrir sig heldur mótist og aðlagist að vinnuaðferðum fyrirtækisins á sem stystum tíma án teljandi árekstra eða skoðanaágreinings um hugmyndafræði, vinnulag og aðferðir. 

Það er ekki útilokað að einhverjum starfsmönnum ráðuneytanna þyki ofantalið eftirsóknarverðir eiginleikar þeirra sem koma sem nýir ráðherrar inn í ráðuneytin en það er ólíklegt að það séu slíkir aðlögunarhæfileikar sem þjóna hagsmunum samfélagins best. Þess vegna hlýtur það að teljast æskilegt að þeir sem veljast til ráðherraembætta hafi einhverja reynslu af hinum almenna vinnumarkaði og helst þó nokkra af þeim sviðum sem heyra undir þá málaflokka sem viðkomandi ráðuneyti sýslar með.

Isaac Newton

Hér á eftir verður starfsreynsla þeirra sem sátu á ráðherrastóli í lok síðasta kjörtímabils og þeirra sem sitja þá nú dregin saman. Rétt er að taka það fram að hér verður þó eingöngu fjallað um þá starfsreynslu sem stendur utan stjórnmálanna. Reynsla af sveitarstjórnarmálum svo og starfsreynsla sem þessi hafa aflað sér með trúnaðarstörfum á vegum fyrrum ríkisstjórna verður tekin fyrir í sérstakri færslu. 

Samantektin hér á eftir er sett þannig saman að það er ekki allt nákvæmlega talið. Sumarvinnu með námi og hlutastörfum er almennt sleppt nema þau snerti það málefnasvið, sem viðkomandi hafði eða hefur með að gera, í embætti sem ráðherra. Það er rétt að taka það fram að í einhverjum tilfellum er líklegra að um hlutastörf hafi verið að ræða, þó það sé ekki tekið fram, þar sem sumir hafa gegnt mörgum hlutverkum á sama tíma. Hér verður ekki lagst í að reyna að skera úr um slíkt heldur það talið sem fram kemur á ferilskrám þeirra sem hér eru til athugunar.
Viktor ChernomyrdinÍ yfirlitinu yfir starfsreynslu núverandi og fyrrverandi ráðherra eru ártölin, sem hver og einn var í viðkomandi starfi, ekki tilgreind heldur árafjöldinn tekinn saman innan sviga í þeirra stað. Bent er á að í einhverjum tilfellum ber að taka þessum tölum með fyrirvara þar sem ferilskrá sumra ber það greinilega með sér að þeir hafa ekki verið í fullu starfi þar sem þeir hafa verið skráðir í nám eða fleiri störf á sama tíma.

Það að taka saman árafjöldann felur líka í sér ákveðna námundum. Niðurstaðan varð þó sú að þessi aðferð gæfi bestu yfirsýnina yfir heildarstarfsreynslu hópsins. Þeir sem vilja skoða starfsferil eftirtaldra nákvæmar er bent á að eins og í síðustu færslu má nota krækjur, sem eru undir nöfnum hvers og eins, til að komast inn á æviágrip þeirra inni á alþingisveggnum.

Svo er rétt að taka fram að í dálkinum með nöfnum ráðherranna kemur fram hvenær viðkomandi er fædd/-ur og hvenær hann kom inn á þing. Í dálkinum hægra megin eru krækjur á öll fyrirtæki sem má gera ráð fyrir að séu ekki þjóðþekkt. Í einhverjum tilvikum eru fyrirtækin ekki til lengur en þá leiðir krækjan á frétt sem varðar afdrif fyrirtækisins.

Ráherrar síðustu ríkisstjórnar starfsreynsla
 Jóhanna Sigurðardóttir,
 forsætisráðherra
 fædd 1942. Á þingi frá 1978
flugfreyja Loftleiðir (9 ár)
skrifstofumaður
Kassagerð Reykjavíkur (7 ár)
 Katrín Júlíusdóttir,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 
fædd 1974. Á þingi frá 2003
framkvæmdastjóri stúdentaráðs HÍ (1 ár)
innkaupastjóri hjá G. Einarsson & co. ehf. og síðar framkvæmdastjóri (4+1 ár)
verkefnastjóri/ráðgjafi Innn hf (1 ár)
 Guðbjartur Hannesson,
 velferðarráðherra
 fæddur 1950. Á þingi frá 2007
grunnskólakennari á Akranesi og í Kaupmannahöfn (4+1 ár)
erindreki Bandalags ísl. skáta (2 ár)
skólastjóri Grundaskóla Akranesi (26 ár)
 Katrín Jakobsdóttir,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra
 
fædd 1976. Á þingi frá 2007
málfarsráðunautur í hlutastarfi hjá RÚV (4 ár)
ýmis hlutastörf í sambandi við fjölmiðlastörf, ritstjórn og kennslu auk  stundakennslu í HÍ og MR (3 ár)
 Steingrímur J. Sigfússon,
 atvinnuvega- og nýsköpunar-
 ráðherra

 fæddur 1955. Á þingi frá 1983
jarðfræðistörf og íþróttafréttamaður hjá sjónvarpi (1 ár)
 Svandís Svavarsdóttir,
 umhverfis- og auðlindaráðherra
 fædd 1964. Á þingi frá 2009
stundakennari með námi við HÍ (4 ár) rannsóknir, ráðgjöf og stjórnun Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (2+7 ár)
kennslustjóri
í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við HÍ (4 ár)
 Össur Skarphéðinsson,
 utanríkisráðherra
 fæddur 1953. Á þingi frá 1991
ritstjóri Þjóðviljans (3 ár)
lektor við HÍ (1 ár)
aðstoðarforstjóri Reykvískrar endurtryggingar (2 ár)
ritstjóri Alþýðublaðsins og DV (1+1 ár)
 Ögmundur Jónasson,
 innanríkisráðherra
 fæddur 1948. Á þingi frá 1995
grunnskólakennari í Reykjavík (1 ár) og stundakennsla við HÍ frá 1979.
rannsóknir við Edinborgarháskóla (4 ár)
fréttamaður hjá RUV (10 ár)
verkalýðsleiðtogi BSRB (11 ár)


Af þeim, sem sátu á ráðherrastóli í lok síðasta kjörtímabils, er Guðbjartur Hannesson með langlengstu starfsreynsluna af almennum vinnumarkaði. Hann var kennari og skólastjórnandi í 31 ár áður en hann var kosinn inn á þing. Ögmundur Jónasson átti 26 ára starfaldur að baki þegar hann tók sæti á þingi. Þar af var hann fréttamaður hjá RUV í einn áratug en þó var hann mörgum eftirminnilegri sem leiðtogi BSRB til ellefu ára.

Jóhanna Sigurðardóttir og Svandís Svavarsdóttir áttu álíka langan starfsaldur þegar þær voru kjörnar inn á þing en þess ber að geta að það er ekki líklegt að Svandís hafi verið í fullu starfi þann tíma sem hún tók þátt á vinnumarkaðinum. Þessi ályktun hangir saman við það að fyrstu ár Svandísar á vinnumarkaði var hún enn við nám en síðustu sex árin, áður en hún tók sæti á þingi, var hún komin inn í borgarpólitíkina.

Sömu sögu er að segja af Katrínu Jakobsdóttur en samkvæmt ferilskrá hennar var hún aldrei í föstu starfi þau þrjú ár sem liðu frá því að hún lauk háskólanámi þar til hún var kosin inn á þing vorið 2007. Þennan tíma vann hún ýmis hlutastörf meðfram þátttöku í pólitísku starfi. 

 Ráðherrar núverandi stjórnar
 starfsreynsla
 Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
 forsætisráðherra
 fæddur 1975. Á þingi frá 2009
hlutastarf hjá RUV sem þáttastjórnandi og fréttamaður (7 ár)
 Bjarni Benediktsson,
 fjármála- og efnahagsráðherra
 fæddur 1970. Á þingi frá 2003
fulltrúi sýslumannsins í Keflavík 1995.
lögfræðingur hjá Eimskip (2 ár)
lögmaður Lex lögmannsstofa (4 ár)
 Kristján Þór Júlíusson,
 heilbrigðisráðherra
 fæddur 1957. Á þingi frá 2007
stýrimaður og skipstjóri (4 ár)
grunn- og framhaldskólakennari á Dalvík (5 ár)
bæjarstjóri Dalvíkur, Ísafjarðar og Akureyrar (8+3+8 ár)
 Illugi Gunnarsson,
 mennta- og menningarmála-
 ráðherra

 fæddur 1967. Á þingi frá 2007

 

grunnskólakennsla Flateyri (1 ár)
organisti Flateyrarkirkju (1 ár)
skrifstofumaður Vestfirskur skelfiskur (2 ár)
rannsóknir í fiskihagfræði við HÍ (1 ár)
aðstoðarmaður ráðherra (5 ár)

 

 Ragnheiður Elín Árnadóttir,
 iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 fædd 1967. Á þingi frá 2007

 

starfsmaður, verkefnisstjóri, aðstoðar- og viðskiptafulltrúi Útflutningsráðs Íslands (3+1+1+1 ár)
aðstoðarmaður ráðherra í þremur ráðuneytum (7+1+1 ár)

 

 Eygló Harðardóttir,
 félags- og húsnæðisráðherra
 fædd 1972. Á þingi frá 2008

(kom upphaflega inn á þing sem varamaður Guðna Ágústssonar)

framkvæmdastjóri Þorskur á þurru landi ehf (8 ár)
skrifstofustjóri Hlíðardalur ehf (1 ár)
viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðar- húsi hf (2 ár)
framkvæmdastjóri Nínukot ehf (2 ár)
verkefnastjóri Atvinnuþróunarfélag Suðurlands 2008.
 Sigurður Ingi Jóhannsson,
 sjávarútvegs- og landbúnaðar-
 ráðherra
 umhverfis- og auðlindaráðherra

 fæddur 1962. Á þingi frá 2009
landbúnaðarstörf samhliða námi
afgreiðslu- og verkamannastörf Mjólkursamsalan í Reykjavík (1 ár)
bóndi í Hrunamannahreppi (7 ár)
dýralæknir í sveitum Árnes- og Vestur-Barðastrandasýslu og síðast Dýralækna-þjónustu Suðurlands ehf (5+13 ár)

 Gunnar Bragi Sveinsson,
 utanríkisráðherra
 
fæddur 1968. Á þingi frá 2009

verslunar- og framkvæmdastjóri Ábær, Sauðárkróki (5+4 ár)
verka- og gæslumaður  Steinullar-verksmiðjan hf (2 ár)
ritstjóri Einherja (1 ár)
sölu- og verslunarstjóri Skeljungur hf (1 ár)
aðstoðarmaður ráðherra (1 ár)
markaðsráðgjafi Íslenska auglýsinga-stofan 1999.
verslunarstjórn Kaupfélag Skagfirðinga (2 ár)
 Hanna Birna Kristjánsdóttir,
 innanríkisráðherra
 fædd 1966. Á þingi frá 2013
starfsmaður Öryggismálanefndar (1 ár)
deildarsérfræðingur í Menntamála-ráðuneytinu (1 ár)
borgarstjóri í Reykjavík (2 ár)


Af þeim sem gegna ráðherraembættum nú er Sigurður Ingi með langlengsta starfsaldurinn af almennum vinnumarkaði eða 22 ár. Hann var bóndi í sjö ár að að Dalbæ í Hrunamannahreppi. Meðfram búskapnum var hann sjálfstætt starfandi dýralæknir og héraðsdýralæknir síðustu fjögur árin. Sigurður Ingi starfaði sem dýralæknir samfleytt í 18 ár.

Gunnar Bragi Sveinsson á næstlengsta starfsaldurinn eða 15 ár. Hann á það sameiginlegt með Eygló Harðardóttur að hafa lengst af unnið að stjórnun. Stjórnunarreynsla hans er af ýmsum stjórnunarstörfum í veitingaskála- og verslunarrekstri en Eygló hefur m.a. gegnt stjórnunarstörfum  innan nýsköpunarfyrirtækja í fiskiðnaði sem er útlit fyrir að hafi ekki farið gæfulega fyrir.

Af ferilskrá Illuga Gunnarssonar má ráða að hann hafi haft áhuga á að hasla sér völl á svipuðum starfsvettvangi og Eygló en hann var skrifstofumaður í tvö ár hjá nýsköpunarfyrirtæki í fiskiðnaði á Flateyri sem er ekki lengur í rekstri. Það sem er þó athyglisverðast við starfsferilskrá Illuga er það hvað störfin sem þar eru talin eru sundurleit.

Á meðan hann var í námi vann hann í fiski, þá var hann leiðbeinandi í grunnskóla, næst organisti í sóknarkirkju Flateyringa og síðan skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski. Eftir að ekki reyndist lengur rekstrargrundvöllur fyrir því fyrirtæki (sjá hér) sneri hann sér að rannsóknum í fiskihagfræði við Háskólann í eitt ár en gerðist svo aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar í Forsætisráðuneytinu í fimm ár.

Eins og áður hefur komið fram verður farið sérstaklega yfir reynslu, núverandi og fyrrverandi ráðherra, af pólitísku starfi í næstu færslum. Þar af leiðandi verður ekkert farið í þessa starfsreynslu hér þó einhver þessara starfa séu talin hér að ofan. Eins og þar er talið hefur Kristján Þór verið bæjarstjóri í þremur bæjarfélögum í alls 19 ár og Hanna Birna Kristjánsdóttir var borgarstjóri í tvö ár. Ólíkt Hönnu Birnu, sem hefur allan sinn starfsferil unnið á vettvangi stjórnmála, þá átti Kristján Þór níu ára starfsferil af almennum vinnumarkaði áður en hann sneri sér að pólitík.

Reynsla af sviði skólamála

Áður en Kristján Þór varð bæjarstjóri í fyrsta skipti var hann kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík  í fimm ár ásamt því að kenna við grunnskólann þar í tvö ár. Það vekur reyndar athygli hversu margir þeirra sem voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn hafa starfað á sviði skólamála. Í núverandi ríkisstjórn eru það Kristján Þór og Illugi sem eiga þetta sameiginlegt. Þegar rýnt er í starfsferil þeirra, sem voru leystir frá ráðherraembættum vorið 2013, kemur hins vegar í ljós að helsta samkenni þeirra er  starfsreynsla af sviði skólamála.

Kennslu- og skólareynsla

Þrír ofantaldra eru með kennararéttindi. Það er Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi velferðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra. Guðbjartur er með grunnskólakennararéttindi en þeir Steingrímur og Kristján Þór með framhaldskólaréttindi. Ólíkt Kristjáni hefur Steingrímur þó aldrei starfað við kennslu.

Kristján L. Möller, sem var skipaður samgönguráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum haustið 2010, er líka með íþróttakennarapróf. Það er reyndar eina framhaldsmenntun hans að undanskildu prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði sem hann lauk þegar hann var 18 ára. Kristján var íþróttakennari í tvo vetur í Bolungarvík en sneri þá aftur heim á Siglufjörð þar sem tók aftur við starfi íþróttafulltrúa. Hann var skipaður æskulýðs- og íþróttafulltrúi bæjarins í fyrsta skipti aðeins 17 ára gamall.

Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson eiga það sameiginlegt að hafa kennt við Háskóla Íslands. Þau þrjú fyrstnefndu sem stundakennarar en Össur Skarphéðinsson sem lektor í eitt ár.

Fleiri ráðherra með reynslu af skólastarfi

Það vekur líka athygli að allir þeir, sem voru skipaðir ráðherrar á síðasta kjörtímabili en leystir frá störfum fyrir lok þess, höfðu annaðhvort menntun eða reynslu sem tengist skólastarfi. Kristján L Möller hefur þegar verið talinn en Oddný Harðardóttir, sem var skipuð fjármála- og efnahagsráðherra á gamlársdag 2011 en leyst frá störfum haustið 2012, er einnig með menntun og réttindi til kennslu. Hún hefur lokið við kennsluréttindanám til grunnskólakennslu og kennslu í stærðfræði í framhaldsskóla. Hún er reyndar líka með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði.

Oddný er með 14 ára starfsferil sem kennari; fimm ár í grunnskóla og níu ár í framhaldsskólum. Auk þess var hún aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja í níu ár og eitt ár skólameistari hans. Guðbjartur og Oddný eru þar af leiðandi með álíka langa starfsreynslu af skólamálum; sitt af hvoru skólastiginu.

Jón Bjarnason, sem var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum í lok árs 2011,  er með viðlíka starfsreynslu og þessi tvö en hann hóf starfsferil sinn sem grunnskólakennari í Hafnarfirði þar sem hann kennd í eitt ár. Þá var hann kennari við Bændaskólann á Hvanneyri í fjögur ár og síðan stundakennari við Grunnskóla Stykkishólms í fimm ár og loks skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal. Þeirri stöðu gegndi hann í 18 ár eða þar til hann var kosinn inn á þing vorið 1999.

Gylfi Magnússon, sem var skipaður  viðskiptaráðherra vorið 2009 en leystur frá störfum rétt rúmu ári síðar, á mestan sinn starfsferil af skólastarfi þó upphaf hans liggi í vegarvinnu hjá Vegagerð ríkisins þar sem Gylfi vann á sumrin með námi í menntaskóla. Með námi í Háskólanum var hann svo á Morgunblaðinu. Með háskólanáminu var hann líka stundakennari við Menntaskólann við Sund 1988-1990. Á meðan hann var við háskólanám erlendis var hann aðstoðarkennari við Yale University en hann er með tvær meistaragráður frá þeim skóla svo og doktorspróf í hagfræði.

Starfsferill Gylfa við Háskólann hófst árið 1996 en þá var hann ráðinn sérfræðingur á Hagfræðistofnun en á sama tíma var hann stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans. Hann hefur verið dósent við viðskiptafræðideild Háskólans frá árinu 1998.

Árni Páll Árnason og Ragna Árnadóttir hafa bæði verið stundakennarar við Háskólann í Reykjavík. Árni Páll í Evrópurétti en Ragna við lagadeild skólans. Hann starfaði líka sem stundakennari við Menntaskólann í Hamrahlíð meðfram háskólanáminu. Árni Páll var skipaður félags- og tryggingamálaráðherra vorið 2009 en tók við ráðuneyti Gylfa Magnússonar, sem á þeim tíma hafði verið aukið í Efnahags- og viðskiptaráðuneytið,  þegar hann var leystur frá störfum haustið 2010. Árni Páll var leystur frá embætti efnahags- og viðskiptaráðherra á gamlársdag árið 2011. Ragna Árnadóttir var skipuð dóms- og kirkjumálaráðherra vorið 2009 en leyst frá embætti haustið 2010.

Loks á Álfheiður Ingadóttir, sem tók við Heilbrigðisráðuneytinu haustið 2009 en var leyst frá störfum ári síðar, það sameiginlegt með bæði Svandísi og Gylfa að hafa starfað við stundakennslu með háskólanámi. Hún kenndi líffræði við Menntaskólann í Hamrahlíð og Menntaskólann í Reykjavík.

Það er ekki útilokað að reynsla af kennslu og skólastjórnun nýtist í starfi sem þingmaður en sennilega er langsóttara að sjá að reynsla af kennslu nýtist beinlínis innan ráðuneytanna fyrir utan Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hins vegar er það frekar sennilegt að reynsla af skólastjórnun komi sér ágætlega í einhverjum praktískum atriðum sem snúa að embættisskyldum ráðherra.

Katrín Jakobsdóttir sem var yfir Mennta- og menningarmálaráðuneytinu á síðasta kjörtímabili hafði starfað sem stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands í eitt ár áður en hún var kjörin inn á þing auk þess sem hún hafði kennt á námskeiðum á vegum Endurmenntunar og Mímis-símenntunar frá 2004. Illugi Gunnarsson, núverandi mennta- og menningarmálaráðherra, starfaði í eitt ár sem leiðbeinandi við Grunnskóla Flateyrar. Það er ekki líklegt að svo stuttur ferill beggja hafi skilað þeim mikilli innsýn inn í veruleika skóla- og menntamála.

Miðað við það hversu margir þeirra, sem gegndu ráðherraembættum í tíð síðustu ríkisstjórnar, hafa reynslu af kennslu og/eða öðrum verkefnum á sviði menntunar og skóla þá vekur það athygli að málefni skólanna í landinu hafi ekki notið meiri athygli og alúðar á þeim tíma sem hún sat að völdum. Í reynd má segja að þessi mál hafi legið í salti allt síðasta kjörtímabil fyrir utan þann niðurskurð til skólareksturs sem kom fram í fjárlögum á þessum tíma.    

Reynsla af fjölmiðlastörfum

Sex af þeim sautján sem eiga þær ferilskrár, sem hér eru aðallega til samanburðar, eiga það sameiginlegt að hafa starfað við fjölmiðla. Reynsla þeirra er misyfirgripsmikil. Allt frá því að hafa verið ritstjóri á héraðsfréttablaði í eitt ár til tíu ára reynslu sem fréttamaður útvarps- og sjónvarpsmiðils RUV.

Ráðherrar með starfsferil af fjölmiðlun 

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, var fréttamaður á RUV í einn áratug og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, ritstýrði þremur dagblöðum á starfsferli sínum utan þings. Hann var ritstjóri Þjóðviljans í þrjú ár auk þess að ritstýra Alþýðublaðinu og DV sitt hvort árið.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra var málfarsráðunautur í hlutastarfi með námi yfir fjögurra ára tímabil auk þess kemur fram á starfsferilskrá hennar að hún hafi unnið að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og að ritstörfum fyrir ýmsa prentmiðla á árunum 2004 til 2006 (sjá hér).

Svipaða sögu er að segja af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, núverandi forsætisráðherra. Hann lauk BS-námi frá Háskóla Íslands árið 2005 en samkvæmt ferilskrá hans var hann í hlutastarfi sem þáttastjórnandi og fréttamaður hjá RUV á árunum 2000-2007 (sjá hér). 

Af þeim ráðherrum sem hér eru til samanburður er Steingrímur J. Sigfússon með langstysta starfsferilinn áður en hann var kjörinn inn á þing fyrir rúmum þrjátíu árum. Þegar hann tók sæti á Alþingi vorið 1983 hafði hann verið íþróttafréttamaður hjá sjónvarpi í eitt ár. Önnur starfsreynsla er frá námsárum hans en þá vann við vörubílaakstur (sjá hér).

Í þeim ráðherrahópi, sem sat tímabundið á ráðherrastóli á síðasta kjörtímabili, eru tveir sem hafa starfsreynslu innan úr fjölmiðlum. Samkvæmt starfsferilskrá Álfheiðar Ingadóttur var hún þingfréttamaður á Þjóðviljanum í tíu ár og fréttastjóri þar um tíma. Auk þess segir þar að hún hafi verið blaðamaður í lausamennsku á árunum 1991 til 1996. Á starfsferilskrá Gylfa Magnússonar kemur fram að hann hafi verið blaðamaður á Morgunblaðinu sumurin 1986 til 1990.

Það hlýtur að teljast líklegt að reynsla af fréttamennsku og ritstjórn skili þokkalegri þekkingu og væntanlega einhverri reynslu af samfélagsmálum og séu þar af leiðandi haldgóð reynsla hverjum þeim sem hefur hug á að gefa sig að pólitík. Hins vegar er hæpið að reynsla af fjölmiðlun skapi þann þekkingar- og reynslugrunn sem ráðherraembætti yfir sértækum málaflokkum, sem varða allt samfélagið, gera kröfu til.

Reynsla af framkvæmdastjórnun

Áður en botninn verður sleginn í þessa umfjöllun er vel við hæfi að draga þá fram sem hafa gegnt framkvæmdastjórastöðum á starfsferli sínum. Það er vel við hæfi fyrir þá ástæðu að því heyrist stundum fleygt að við val á ráðherraefnum sé rétt að horfa eftir því sama og við val á góðum framkvæmdastjórum. Það má vel vera að það sé eitthvað til í staðhæfingum af þessu tagi en þá ber að hafa það í huga að fyrirtæki eru mjög mismunandi að stærð og umsvifum auk þess sem hlutverk þeirra eru afar mismunandi.

Ráðherra er vissulega trúað fyrir því að annast stjórnsýslu yfir tilteknum málaflokkum en það hlýtur að gefa auga leið að þó hluti þess samfélagsrekstrar sem heyrir t.d. undir Mennta- og Heilbrigðisráðuneyti snúist um peningalega afkomu málefnasviðanna sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti þá ættu meginsvið beggja að snúast um fólk og að tryggja það að þær stofnanir samfélagsins, sem heyra undir það, virki á þann hátt sem þeim er ætlað.

Skatttekjum ríkissjóðs er ekki síst ætlað það hlutverk að tryggja viðhald og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Hlutverk þessara ráðuneyta gera því kröfur til uppfyllingu annars konar markmiða en framkvæmdastjóra t.d. Hagkaupa eða Vátryggingafélags Íslands er ætlað að vinna að.

Þrír þeirra ráðherra sem heyra til þeim samanburði sem hér fer fram hafa verið framkvæmdastjórar. Þetta eru: Eygló Harðardóttir, núverandi félags- og húsnæðisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, núverandi utanríkisráðherra og Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráherrar með starfsreynslu sem framkvæmdastjórar

Eygló Harðardóttir hóf starfsferil sinn sem framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Þorsks á þurru landi ehf sem átti aðsetur í Vestmannaeyjum (sjá hér). Samkvæmt fyrirtækjaskrá skilaði fyrirtækið inn virðisaukaskattsnúmeri sínu árið 2012 (sjá hér) en Eygló er þó enn skráð sem 50% hluthafi þess (sjá hér).

Fyrirtækið, Þorskur á þurru landi ehf, virðist aldrei hafa komist í fulla starfsemi því á sama tíma og Eygló er skráð framkvæmdastjóri þess starfaði hún fyrst sem skrifstofustjóri Hlíðardals ehf, þá sem viðskiptastjóri hjá Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi, í tvö ár sem framkvæmdastjóri Nínukots ehf (sjá hér) og síðast sem verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Nínukot ehf er ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í að útvega viðskiptavinum sínum „vinnu út um víða veröld“ (sjá hér)

Gunnar Bragi Sveinsson var framkvæmdastjóri Ábæjar á Sauðárkróki í fjögur ár áður en hann var kosinn inn á þing. Fyrirtækinu var lokað árið 2006 (sjá hér) en N1 tók við rekstrinum. Katrín Júlíusdóttir var framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands í eitt ár en árið eftir varð hún framkvæmdastjóri G. Einarssonar & co ehf. sem flutti inn barnafatnað (sjá hér). Hún hafði verið innkaupastjóri þess meðfram námi frá stofnun. Fyrirtækið var tekið af skrá árið 2001 (sjá hér).

Álfheiður Ingadóttir, sem tók við embætti Ögmundar Jónassonar haustið 2009 og gegndi því til haustsins 2010, var framkvæmdastjóri laxeldisstöðvarinnar Hafeldis í Straumsvík í tvö ár. Álfheiður á síst gæfuríkari framkvæmdastjóraferil að baki en þær Eygló og Katrín þar sem fyrirtækið sem hún stýrði var lýst gjaldþrota árið 1990 (sjá hér)

Niðurlag

Miðað við þann samanburði sem hér hefur farið fram þykir starfsferilskrá Ögmundar Jónassonar frambærilegust þar sem það má gera ráð fyrir að tíu ára reynsla hans sem fréttamaður hjá RUV og viðlíka langur ferill sem formaður BSRB hafi skilað honum reynslu og innsýn í mörg þeirra samfélagsmála sem honum var trúað fyrir í Innanríkisráðuneytinu.

Það má líka gera ráð fyrir því að Sigurður Ingi eigi ágætlega heima yfir landbúnaðarmálunum miðað við starfsreynslu. Hins vegar er vafasamara að hann búi yfir nægilegri þekkingu í sjávarútvegs-, auðlinda- og umhverfismálum til að fara með ráðuneyti þessara málaflokka samhliða málefnum landbúnaðarins. Fleiri mætti eflaust telja, ef vel væri að gáð, þó þeirra sé ekki getið hér fyrir það að þeir koma meira við sögu í næstu þremur færslum.

Dorothy Sayers

Að lokum er rétt að undirstrika það að hér hefur eingöngu verið horft til starfsreynslu af almennum vinnumarkaði en ekkert fjallað um sambærilega reynslu af pólitískum starfssviðum. Margir þeirra sem eiga ráðherrasæti í núverandi ríkisstjórn og þó nokkrir þeirra sem létu af embættum vorið 2013 eiga starfsferil af vettvangi sveitastjórnarmála.

Af þeim sem eru ráðherrar í núverandi ríkisstjórn er það líka áberandi hve margir hafa gegnt ýmis konar trúnaðarstörfum á vegum fyrri ríkisstjórna ýmist sem aðstoðarmenn ráðherra eða sem starfsmenn pólitískt skipaðra nefnda. Starfsreynsla af þessu tagi verður dregin fram í næstu færslu. Í framhaldi hennar verður reynsla af trúnaðarstörfum innan stjórnmálaflokkanna talin og síðast þingreynsla.

Að þessu loknu verður svo loks dregin sama einhverjar niðurstöður og settar fram ýmsar vangaveltur sem urðu kveikjan að því að lagt var af stað með þann samanburð sem þetta blogg hefur verið undirlagt af undanfarna mánuði.

Aðrar færslur í þessum sama flokki:
Ráðherrasamanburður: Aldur við skipun
Ráðherrasamanburður: Menntun

Heimildir um skipun ráðuneyta:
Ráðuneyti 1917-2013

Ferilskrá ráðherra núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar:
Menntunar- og hæfniskröfur til ráðherraembætta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband