Mönnun brúarinnar

Eins og ég benti á í síðustu færslu er ætlunin að nota þennan vettvang til að bera saman menntun og reynslu ráðherranna í núverandi og síðustu ríkisstjórn. Tilgangurinn er að fylgja því eftir sem ég setti fram þar „en líka sú bjartsýnislega von að samanburðurinn veki einhverja til umhugsunar um það hvort núverandi kerfi við skipun ráðherra sé heillavænleg leið til reksturs samfélags sem er ætlað að þjóna öllum einstaklingunum sem það byggja.“ (sjá hér)

Hér á landi hefur sá háttur verið hafður á að allir sem hafa náð kosningaaldri ganga til alþingiskosninga á fjögurra ára fresti til að kjósa á milli stjórnmálaflokka sem hafa stillt upp einstaklingum sem að þeirra mati eru frambærilegastir til að fara bæði með löggjafar- og framkvæmdavaldið á því kjörtímabili sem tekur við að kosningunum loknum. Eftir kosningarnar eru það svo formenn þeirra flokka sem koma sér saman um ríkisstjórnarsamstarf sem sjá um að velja og skipa þá fulltrúa sem fara með framkvæmdavaldið. Í langflestum tilvikum hefur val þeirra takmarkast við þau flokkssystkini sem náðu með þeim inn á þing.

Það er í sjálfu sér kannski lýðræðislegt að gera ekki stærri kröfur til þeirrra, sem koma sér áfram af eigin rammleik innan viðkomandi stjórnmálaflokks, en að þeir hafi eitthvað til þess að bera að geta lagt a.m.k. mat á og tekið afstöðu til frumvarpa til laga en er það eðlilegt að þeir sem fara með framkvæmdavaldið hafi fátt annað á ferilskránni en vera eitilharðir við að koma sér til metorða í stjórnmálum eða njóta velvildar innan síns eigin flokks? Hér má heldur ekki gleyma því hvaða áhrif það hefur ef það eru fyrst og fremst peningastyrkir og -stuðningur fjársterkra aðila úr fjármálaheiminum sem hafa komið viðkomandi einstaklingum áfram innan flokkanna.

Thomas Jefferson

Allir þessir þættir voru eitthvað í umræðunni í kjölfar bankahrunsins 2008 en nú er eins og hún sé öllum gleymd. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sagði af sér í janúarlok 2009 var Jóhönnu Sigurðardóttur falið að mynda minnihlutastjórn sem skyldi sitja fram að kosningum sem voru boðaðar í aprílok það sama ár. Það má væntanlega líta á það sem viðbrögð við þeirri gagnrýni sem var uppi á þessum tíma um skipun æðstu manna ráðuneytanna að tveir utanþingsráðherrar voru skipaðir. Þeir héldu þó ekki sætum sínum nema fyrsta árið eftir kosningar. 

Það er sennilega mörgum í fersku minni hversu tíð ráðherraskiptin voru í síðustu ríkisstjórn. Af einhverjum ástæðum hafa ástæður þessara tíðu mannabreytinga nýliðins kjörtímabils aldrei farið neitt sérstaklega hátt í opinberri umræðu. Sennilega vita þó allir sem vilja kannast við það að ráðherrahrókeringarnar á kjörtímabilinu stöfuðu ekki aðeins af skilyrðislausri hlýðni formannanna við tilskipanir erlendra fjármálastofnana á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið um niðurskurð á kostnaði við ríkisrekstrinum heldur var þeim gjarnan beitt sem refsiaðgerðum gegn óhlýðnum flokksmönnum sem höfðu verið álitnir nægilega hollir við upphaf kjörtímabilsins til að hljóta náð ráðherraskipunarinnar.

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur 23. maí 2009

Í upphafi síðasta kjörtímabils voru þessir skipaðir ráðherrar í eftirtalin embætti:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009

Strax haustið 2009 var gripið til fyrstu refsiaðgerðanna  þegar Ögmundur Jónasson var sviptur ráðuneyti fyrir óhlýðni í fyrsta þætti Icesave-málsins. Í fjölmiðlum var það látið heita afsögn vegna málefnaágreinings en við lok Icesave-framhaldsþáttanna mátti vera ljóst að í raun var það ágreiningurinn sem reis upp sumarið 2009 í fyrsta Icesave-þættinum sem neyddi Ögmund til að láta af embætti heilbrigðisráðherra (sjá hér).

Álfheiður Ingadóttir tók við embætti Ögmundar Jónassonar 1. október 2009. Ári síðar eða 2. september 2010 var hann tekinn inn í ríkisstjórnina aftur en þá sem dóms- og mannréttindaráðherra. Fleiri breytingar voru reyndar gerðar á ráðuneytum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þennan sama dag. Þær verða taldar hér síðar.

Eins og áður hefur komið fram stendur til að bera saman hvort og hvernig menntun og starfsreynsla ráðherra núverandi og síðustu ríkisstjórnar uppfylla eðlilegar kröfur um fagþekkingu í viðkomandi ráðuneytum. Hér verða þessir þættir skoðaðir hvað varðar þá ráðherra sem sátu ekki út kjörtímabilið eins og á við í tilfelli Álheiðar Ingadóttur sem sat aðeins eitt ár yfir heilbrigðisráðuneytinu.

Álfheiður Ingadóttir Álfheiður er fædd 1951. Hún lauk stúdentsprófi tvítug frá MR og BS-prófi í líffræði fjórum árum síðar. Auk þess er hún með nám í þýsku og fjölmiðlum frá háskóla í Vestur-Berlín. 

Á meðan á líffræðináminu stóð kenndi hún líffræði í MH og MR en heimkomin úr viðbótarnáminu í Berlín sneri hún sér aðallega að blaðamennsku.

Þegar á háskólaárunum byrjaði hún að koma fótunum undir sig í pólitík. Frá 22ja ára aldri til 35 ára sat hún m.a. í stjórn Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Fimm árum eftir að hún var kosin í stjórnina er hún orðin varaborgarfulltrúi og gegnir því embætti innan flokksins næstu átta ár. Á sama tíma á hún sæti í nefndum borgarinnar. Fyrst umhverfisnefnd og þá jafnréttisnefnd þar sem hún var formaður um skeið.

Álfheiður tók þátt í stofnun Reykjavíkurlistans árið 1994 þá 43ja ára og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum hans. Sat m.a. í nefnd um mótun orkustefnu Reykjavíkurborgar 2002–2003 og í stjórn Landsvirkjunar 2003-2006.

Í beinu framhaldi af borgarstjórnarferlinum með Alþýðubandalaginu tekur alþingisferillinn við og þá sem varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík. Í fyrsta skipti sem hún sest inn á þing er hún 36 ára en svo verður nokkurt hlé. Hún kemur næst inn sem varamaður í lok áranna 2003, 2004 og 2005 en þá sem varafulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík suður. Árið 2007 kemst hún svo inn á þing sem þingmaður Vinstri grænna þá 56 ára. Frá því að hún settist inn á þing hefur hún setið í nokkrum nefndum á vegum þess. M.a. heilbrigðisnefnd frá árinu 2007-2009. (sjá nánar hér)

BS-nám Álfheiðar í líffræði og væntanlega afleysingakennslan hennar við MH og MR á meðan á því námi stóð hefur vissulega tengingu við málefni heilbrigðisráðuneytisins en hún hefur enga starfsreynslu til að byggja undir fagreynslu hvorki á sviði líffræðinnar eða heilbrigðismála almennt. Það er því hæpið að nokkur ráðningarskrifstofa hefði kvittað undir það að menntun Álfheiðar og starfsreynsla stæðu undir því að henni væri treyst fyrir jafnstóru og viðamiklu verkefni eins og yfirumsjón heilbrigðismála í landinu. 

Eftir breytingarnar 2. september 2010 

Eins og áður hefur komið fram tók Álfheiður Ingadóttir við sæti heilbrigðisráðherra í tilefni af því að Ögmundur Jónasson var tilneyddur til að segja af sér ráðherraembættinu haustið 2009. Ári síðar var Álfheiður hins vegar látinn víkja fyrir Guðbjarti Hannessyni en Ögmundur Jónasson fékk nýtt embætti. 

Fleiri breytingar voru gerðar á ráðherraskipaninni þetta á sama tíma. Báðir utanþingsráðherrarnir voru látnir fjúka svo og Álfheiður Ingadóttir og Kristján L. Möller. Árni Páll var færður til en Guðbjartur Hannesson tók við embætti hans og Álfheiðar. Ögmundur Jónasson tók við embætti Rögnu Árnadóttur. Frá og með 2. september 2010 voru ráðuneytin því þannig skipuð:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur haustið 2010

Það fór ótrúlega lítið fyrir umræðum um þessar mannabreytingar í fjölmiðlum og því eru engar aðrar aðgengilegar skýringar á þeim en þær að alltaf hafi staðið til að fækka ráðuneytunum í þeim tilgangi að draga saman í ríkisrekstrinum. Þeim spurningum hvers vegna Álfheiður og Kristján voru látin víkja fyrir þeim Guðbjarti og Ögmundi verður hins vegar ekki svarað með því að vísa til sparnaðar eingöngu. 

Ef við gefum okkur að ánægjumælingar Gallups, hvað varðar störf ráðherra, hafi einhverju ráðið um það hverjum var fórnað í niðurskurðinum kemur reyndar í ljós að Álfheiður og Kristján eru meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja mældist með í könnun frá því í mars 2010; þ.e. tæpu hálfi ári áður en þessar breytingar voru opinberaðar.

Minnst ánægja er með störf Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra og Kristjáns L. Möller samgönguráðherra. Um og undir 14% segjast ánægð með þeirra störf og nýtur Kristján minnstra vinsælda þeirra þriggja.  (sjá hér)

Niðurstöður umræddrar könnunar skýra hins vegar ekki að utanþingsráðherrunum var fórnað í stað þeirra sem komu miklu verr út úr mælingunni en þau tvö. Þeir sem þátttakendurnir í þessari könnun Gallups lýstu mestri óánægju með, fyrir utan þau þrjú sem eru talin hér á undan, eru: Árni Páll Árnason, Össur Skarphéðinsson og Svandís Svavarsdóttir. Utanþingsráðherrarnir eru hins vegar þeir sem mesta ánægjan ríkti með skv. þessari könnun: 

Fram kom að 65% kjósenda eru ánægð með störf Rögnu Árnadóttur og hefur álit á henni aukist um 16 prósentustig frá því í könnun síðast liðið haust. Tæpur helmingur, eða 49%, segist ánægður með störf Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra.  (sjá hér)

Hér verður ekki velt frekar vöngum yfir ástæðum þessara mannabreytinga heldur vakin athygli á ferilskrám þeirra þriggja, sem var vikið úr ríkisstjórninni um leið og Álfheiði Ingadóttur, til að skoða hvort menntun þeirra og starfsreynsla sé í samhengi við málefni ráðuneytanna sem þeim var ætlað að stýra. Í þessu sambandi mætti hafa það á bak við eyrað að ef til stæði að ráða eða skipa einstaklinga í viðlíka ábyrgðarstöður og „framkvæmdastjóra“ eða andlit/rödd fyrirtækja með sambærilega veltu, umsvif og mannafla og ráðuneytin þá eru það einmitt þessi atriði sem yrðu skoðuð fyrst.

Kristján Möller Kristján er fæddur 1953. Hann tók próf frá Iðnskóla Siglufjarðar 1971, þá 18 ára gamall, og kennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands fimm árum síðar. Í framhaldinu bætti hann við sig ýmsum námskeiðum á sviði félags- og íþróttamála í Noregi og Svíþjóð á árunum 1977 til 1982.

Frá 17 ára aldri til 21s árs gegndi hann stöðu æskulýðs- og íþróttafulltrúa Siglufjarðar og má gera ráð fyrir að til þess embættis hafi hann að einhverju leyti notið föður síns sem var bæjarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn á Siglufirði á á árunum 1952-1982 (sjá hér).

Kristján var íþróttakennari í Bolungarvík í tvo vetur eða árin 1976-1978 en sneri þá aftur til Siglufjarðar og tók við embætti íþróttafulltrúa Siglufjarðar, þá 25 ára. Þessu embætti gegndi hann í 10 ár áður en hann sneri sér að verslunarrekstri næstu 11 árin.

Þegar Kristján er 33ja ára er hann orðinn bæjarfulltrúi sem er fjórum árum eftir að faðir hans hvarf úr embætti forseta bæjarstjórnarinnar. Sjálfur var Kristján forseti hennar þrisvar sinnum á 12 ára ferli sínum í bæjarmálunum á Siglufirði. Fyrst árið 1986 en síðast árið 1998.

Árið 1999 er Kristján kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna í fyrsta skipti, þá 46 ára. Fyrsta kjörtímabilið sitt inn á þingi átti hann sæti í samgöngunefnd. Árið áður en hann settist inn á þing átti hann sæti Í byggðanefnd forsætisráðherra. Átta árum eftir að hann settist inn á þing er hann gerður að samgönguráðherra, þá 54 ára, en því embætti gegndi hann í þrjú ár. (sjá nánar hér)

Það er erfitt að sjá hvað í ferli Kristjáns L. Möller mælir með því að hann hafi verið gerður að samgöngumálaráðherra ef undan er skilin seta hans í samgöngunefnd um fjögurra ára skeið. Slík nefndarseta skilar þó tæplega þeirri fagþekkingu sem horft væri eftir ef skipun í ráðherraembætti stjórnaðist af faglegum metnaði þeirra sem sjá um skipunina.

Það má auðvitað ætla að reynsla Kristjáns af verslunarrekstri og bæjarmálum á Siglufirði hafi gert það að verkum að hann hafi verið ágætlega inni í því hvað samgöngumálin skipta landsbyggðina miklu máli þar sem ýmsar stjórnsýsluákvarðanir síðustu ára og áratuga hafa miðað að því að gera höfuðborgarsvæðið að stöðugt mikilvægari miðju margs konar þjónustu sem þarf þá að sækja þangað. 

Ragna Árnadóttir Ragna er fædd árið 1966. Hún var því 43 ára þegar hún var skipuð dómsmálaráðherra í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur sem starfaði frá 1. febrúar 2009 til 10. maí það sama ár. 

Ólíkt þeim stjórnmálamönnum sem var vikið úr ráðherrastóli á sama tíma og Rögnu þá ber ferilskrá hennar vitni um menntun og fagreynslu sem er í ágætu samhengi við málefni ráðuneytisins sem henni var trúað fyrir.

Menntun:
Stúdentspróf MA 1986.
Embættispróf í lögfræði HÍ 1991.
LL.M.-gráða í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi 2000.

Viðkomandi starfsreynsla:
Lögfræðingur við nefndadeild Alþingis 1991-1995.
Sérfræðingur við skrifstofu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og síðar Kaupmannahöfn 1995-1999.
Starfsmaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 2002-2003. Starfsmaður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi 2003-2004.
Skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti 2002-2009, auk þess staðgengill ráðuneytisstjóra 2006-2009. Settur ráðuneytisstjóri í sama ráðuneyti apríl-október 2008.
Stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2006-2008.

Viðkomandi nefndarsetur:
Í stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi (CDDH) 2002-2005.
Formaður sendinefndar Íslands í GRECO, ríkjahópi Evrópuráðsins gegn spillingu 2002-2009.
Í sendinefndum Íslands við fyrirtökur hjá eftirlitsnefndum Sameinuðu þjóðanna: mannréttindanefnd (CCPR) 2005,
nefnd um framkvæmd samnings um afnám alls kynþáttamisréttis (CERD) 2005
nefnd SÞ um réttindi barnsins 2003 og 2006.
Formaður ritstjórnar Lagasafns frá 2004.
Varaformaður kærunefndar jafnréttismála 2004-2008.
Formaður nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum 2008.
Formaður vinnuhóps til að semja Handbók um frágang og undirbúning lagafrumvarpa, útg. 2007. Formaður starfshóps sem kynnti sér mismunandi löggjöf um vændi og fleira á Norðurlöndum og víðar 2004-2006.
Formaður nefndar til að endurskoða ákvæði laga um helgidagalöggjöf 2004.
Formaður vinnuhóps til að gera heildarendurskoðun á lögum og reglum um fullnustu refsidóma 2002-2003.
Í nefnd viðskiptaráðherra um aðgerðir gegn peningaþvætti 2005-2007.
Í nefnd forsætisráðherra til að fara yfir viðurlög við efnahagsbrotum 2004-2006.

Þetta er langur listi þó einhverju sé sleppt en ferilskrá Rögnu á vef Alþingis má kynna sér nánar hér. Yfirlitið hér að ofan hlýtur þó að sýna fram á að Ragna hefði verið mjög líkleg til að hljóta yfirmannsstöðuna yfir ráðuneyti dómsmála jafnvel þótt skipunin hefði farið í gegnum ráðningarskrifstofu. Það er hins vegar spurning um kirkjumálin.

Gylfi Magnússon Gylfi er jafnaldri Rögnu og var skipaður í ráðherraembætti í fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur á sama tíma og hún. Rétt eins og Ragna átti hann líka sæti í örðu ráðuneyti hennar sem tók til starfa 23. maí vorið 2009 en var vikið úr því embætti 2. september 2010.

Ragna og Gylfi eiga það svo loks sameiginlegt að ferilskrá þeirra er í ágætu samræmi við ráðherraembættin sem þau voru skipuð til. Það liggur þó væntanlega í augum uppi að ef embættin væru á almennum vinnumarkaði þá er líklegra að Ragna væri hæf til að starfa sem dómsmálaráðherra en Gylfi hefði væntanlega aðeins komið til greina ef engin frambærilegri hefði sótti um viðskiptaráðherrann.

Þegar kemur að ánægjumælingu Gallups á störfum ráðherra skilur enn frekar á milli utanþingsráðherrana tveggja þar sem ánægja þátttakenda með störf Gylfa voru heldur á undanhaldi samkvæmt könnuninni á meðan Ragna hafði unnið töluvert á. Í mars 2010 sögðust 65% vera ánægðir með störf Rögn á meðan 49% voru ánægðir með störf Gylfa. Ánægjan með störf Gylfa hafði lækkað um rúm 10 prósentustig frá fyrstu könnun en Ragna hafði bætt við sig rúmum 15 stigum.

Miðað við þessa könnun voru þau tvö, ráðherrarnir sem þátttakendurnir voru ánægðastir með á meðan formenn ríkisstjórnarflokkanna, sem tóku ákvörðunina um að víkja þeim úr embættunum, voru dottnir niður í fjórða og fimmta sæti. 41% þátttakenda sögðust vera ánægðir með störf Steingríms sem ráðherra á meðan þeir voru aðeins sem voru aðeins 27% sem voru ángæðir með störf Jóhönnu (sjá hér).

Ferilskrá Gylfa Magnússonar á alþingisvefnum má skoða alla hér. Þegar óviðkomandi atriði hafa verið tekin út lítur hún þannig út: 

Menntun:
Stúdentspróf MR 1986.
Cand. oecon.-próf HÍ 1990.
MA–próf í hagfræði frá Yale University, Bandaríkjunum, 1991,
M.Phil. 1994.
Doktorspróf í hagfræði frá sama skóla 1997.

Viðkomandi starfsreynsla:
Sérfræðingur á Hagfræðistofnun 1996-1998.
Stundakennari við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands 1996–1998, aðjúnkt 1997-1998. Dósent við viðskiptaskor Háskóla Íslands 1998 og við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 2008.

Viðkomandi nefndar- og stjórnarsetur:
Forseti viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands 2004-2007.
Formaður stjórnar sjóða á vegum Háskóla Íslands 2001–2009.
Varaformaður stjórnar Kaupáss hf. 2000-2003.
Í stjórn Samtaka fjárfesta 2001-2007.
Í stjórn Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands 2004-2006.
Formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins 2005-2009.
Í úthlutunarnefnd útflutningsverðlauna forseta Íslands 2005 og 2006. 
Varamaður í yfirfasteignamatsnefnd 2007-2009.

Það er rétt að halda því til haga að það voru formenn stjórnarflokkanna í minnihlutastjórninni sem tók við völdum 1. febrúar 2009 sem völdu og skipuðu utanþingráðherranna tvo. Þegar ferilskrár beggja eru skoðaðar nákvæmlega kemur í ljós að Ragna hafði verið mjög náin stjórnsýslunni í tæpan áratug, þar sem hún hafði gegnt stöðum í þremur ráðuneytum, áður en hún var skipuð. Ekki verður heldur betur séð en Gylfi hafi tekið þátt í því sem leiddi til þess samfélagshruns sem sér ekki fyrir endann á enn þá.

Það er reyndar hæpið að ef ráðningarskrifstofu/-um hefði verið falið að auglýsa þessi embætti á sínum tíma og fara yfir umsóknirnar, með það að markmiði að finna hæfustu einstaklingana til að taka þau að sér, að þar hefði það þótt mæla á móti Rögnu að hún hafði reynslu og þekkingu á störfum ráðuneyta; þar af sjö ára reynslu innan úr Dómsmálaráðuneytinu. Hins vegar er ég ekki viss um að það hefðu þótt meðmæli með Gylfa hvar hann átti sæti í nefndum og stjórnum síðustu árin fyrir hrun. 

Varðandi spurninguna um það hvers vegna vinsælustu ráðherrunum var vikið úr ríkisstjórninni haustið 2010 þá má vissulega leiða að því líkum að formennirnir, sem lögðu línurnar fyrir næstu skref stjórnarsamstarfs síðustu ríkisstjórnar, hafi viljað launa utanþingsráðherrunum vel unnin störf áður en vinsældir þeirra tækju að dvína og skaða þannig möguleika þeirra á frekari frama í öðrum verkefnum.

Skipan ráðuneyta undir lok síðasta kjörtímabils

31. desember 2011 var Jóni Bjarnasyni og Árna Páli Árnasyni refsað með brottvikningu úr ráðuneytum þeirra. Við niðurskurð haustsins 2010 þótti staða þess síðarnefnda langt frá því að vera trygg enda altalað þá að: „Innan Samfylkingarinnar [væri] mikil ólga í garð Árna Páls vegna mannaráðninga, bæði í embætti umboðsmanns skuldara og nú síðast í framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs.“ (sjá hér) Þessar ástæður lágu þó í þagnargildi þeirrar opinberu umræðu sem fór af stað í aðdraganda annars niðurskurðartímabilsins sem síðasta ríkisstjórn greip til á ráðherrum sínum.

Í máli Jóns Bjarnasonar var hins vegar engin launung eins og blaðafyrirsagnir mánuði fyrir brottvikningu þessara tveggja báru með sér. Hjá DV var það: Jóhanna hjólar í Jón Bjarnason og visi.is: Veruleg óánægja með Jón Bjarnason í ríkisstjórninni. Undir síðari fyrirsögninni er m.a. þetta haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur um „refsivert athæfi“ Jóns Bjarnasonar:

„Þetta er eitt stærsta mál ríkisstjórnarinnar og það gengur ekki að sjávarútvegsráðherra haldi því bara fyrir sig. Hann hefur unnið þessa vinnu án aðkomu stjórnarliða og heldur skipað í kringum sig fólki, sem tilheyrir stjórnarandstöðunni. Það eru vinnubrögð sem ekki er hægt að líða,“ segir Jóhanna og bætir því við að ráðherra sem starfi í umboði þingflokka ríkisstjórnarflokkanna en vilji ekki starfa með sé illa stætt í ríkisstjórn.  (sjá hér)

Steingrímur J. Sigfússon tók við embættum bæði Árna Páls og Jóns Bjarnasonar en Oddný G. Harðardóttir var tekin inn í ríkisstjórnina og gegndi embætti fjármálaráðherra þar til Katrín Júlíusdóttir sneri úr barnseignarfríi haustið 2012. Síðasta þingvetur síðustu ríkisstjórnar var því ráðuneytisskipanin þessi:

Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur frá 1. október 2012

Hér verða ferilskrár þeirra tveggja sem var vikið úr ríkisstjórninni í desemberlok árið 2011 og Oddnýjar G. Harðardóttur rýndar í sama tilgangi og þeirra sem hafa verið til skoðunar hér á undan.

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll er fæddur árið 1966. Þegar hann var 19 ára lauk hann stúdentsprófi frá MH. Hann lauk lögfræðipróf frá Háskóla Íslands sex árum síðar eða 1991. Í framhaldinu bætti hann við sig námi í Evrópurétti við Collège d’Europe í Brugge í Belgíu skólaárið 1991-1992 og sumarnámi í Evrópurétti við Harvard Law School / European University Institute í Flórens sumarið 1999. Árið 1997  varð hann sér svo út um réttindi sem hæstaréttarlögmaður.

Árni Páll vann um fjögurra ára skeið sem ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum eða á árunum 1992-1994. Frá árinu 1998 og þar til hann var kosinn inn á þing árið 2007 starfaði hann sem lögmaður með eigin rekstur og ráðgjafi.

Auk fyrrgreindra starfa var Árni Páll sendiráðsritari í fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og Vestur-Evrópusambandinu í Brussel og fulltrúi Íslands í stjórnmálanefnd Atlantshafsbandalagsins á árunum 1995-1998. Starfsmaður ráðherraskipaðra nefnda, m.a. nefndar um endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar 2004. Hann var stundakennari í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík 2004-2009 og sat í stjórn Evrópuréttarstofnunar skólans á sama tíma.

21s árs er Árni Páll kominn í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins þar sem hann sat í tvö ár. Næstu tvö ár var hann oddviti Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins 1989-1991. Fyrr á þessu ári var hann kjörinn formaður Samfylkingarinnar sem þýðir að hann yrði væntanlega forsætisráðherra ef Samfylkingin kemst í sömu aðstöðu og sköpuðust hér í upphafi ársins 2009. Miðað við þá hefð sem hefur fest í sessi hér á landi varðandi skipun ráðherra þá myndi það væntanlega ekki breyta neinu þó ánægja kjósenda með hans störf sem ráðherra hafi verið komin niður í 12% í aðdraganda þess að honum var sparkað út úr ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Árni Páll var 41s árs þegar hann var kosinn inn á þing. Hann átti sæti í nokkrum þingnefndum. Þar á meðal nefnd um heilbrigðismál og viðskiptanefnd þar sem hann sat þar til hann var skipaður Félags- og tryggingamálaráðherra 23. maí 2009. Þessu embætti gegndi hann til 2. september 2010 þegar Guðbjartur Hannesson tók við ráðuneyti hans en Árni Páll tók við efnahags- og viðskiptaráðuneytinu af Gylfa Magnússyni. (sjá nánar hér)

Fljótt á litið er ekki að sjá að Árni Páll hafi nokkuð það á ferilskránni sem getur hafa undirbúið hann undir þau krefjandi verkefni sem tilheyrðu ráðuneytunum sem honum voru falin. Það er þó sanngjarn að minna á að áður en hann var gerður að ráðherra þá hafði hann setið í þrjú ár í þingnefnum sem fjölluðu um sömu málefni og honum var ætlað að vera æðstráðandi yfir á síðasta kjörtímabili. 

Jón BjarnasonJón Bjarnason er fæddur 1943. 22ja ára lauk hann stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og tveimur árum síðar, eða árið 1967, búfræðiprófi frá Hvanneyri.  Árið 1970 útskrifaðist hann svo sem búfræðikandídat frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi, þá 27 ára.

Árið eftir að hann útskrifaðist sem stúdent starfaði hann sem kennari við Lækjarskóla í Hafnarfirði og eftir útskriftina í Noregi var hann kennari við Bændaskólann á Hvanneyri fjögur ár.

Frá 28 ára aldri var hann bóndi í Bjarnarhöfn en sleit búskap ári eftir að  hann varð skólastjóri Bændaskólans á Hólum í Hjaltadal 1981. Því embætti gegndi hann til ársins 1999 eða í 18 ár. Sama ár var hann kosinn inn á þing, þá 56 ára.

Frá því að hann tók sæti á þingi hefur hann meðal annar setið í landbúnaðarnefnd á árunum 2003-2007 og sjávarútvegsnefnd árin 2006-2007. Hann var skipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 10. maí 2009 en leystur frá því embætti 31. des. 2011. (sjá nánar hér)
     
Miðað við menntun og starfsreynslu hlýtur Jón Bjarnason að teljast hafa töluvert með sér til embættis landbúnaðarráðherra. Hins vegar má efast um fagþekkingu hans hvað varðar sjávarútveginn. Eins og áður var vikið að er ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir var langt frá því að vera ánægð með störf Jóns og ef mið er tekið af niðurstöðum ánægjumælinga Gallups frá því í mars 2010 var hann meðal þeirra ráðherra sem minnst ánægja ríkti með meðal kjósenda. Hins vegar var gerð ný könnun í nóvember sama ár sem sýndi aðrar og nokkuð breyttar niðurstöður.

Samkvæmt henni voru þátttakendur langóánægðastir með störf Árna Páls í ráðherraembætti. Einungis 12% sögðust ánægðir. 18% þátttakenda voru ánægðir með störf Jóns Bjarnasonar en það voru jafnmargir og sögðust ánægðir með störf Össurar Skarphéðinssonar. Öfugt við Össur hafði Jón bætt við sig um fjórum prósentustigum frá könnuninni á undan á meðan ánægjan með störf Össurar höfðu lækkað (sjá hér).

Oddný G. Harðardóttir

Oddný er fædd árið 1957. Samkvæmt ferilskrá hennar inni á vef Alþingis lauk hún stúdentspróf frá aðfaranámi Kennaraháskóla Íslands þegar hún var tvítug. Þremur árum síðar lauk hún svo B.Ed.-próf frá þeim sama skóla. Stærðfræðinám til kennsluréttinda á framhaldsskólastigi stundaði hún við Háskóla Íslands árið 1991. Frá þeim sama skóla útskrifaðist hún síðan með MA-próf í uppeldis- og menntunarfræði þegar hún var 44 ára eða árið 2001.

Eftir B.Ed.-prófið starfaði hún sem grunnskólakennari í fimm ár en var síðan kennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árunum 1985-1993 þar sem hún var var deildarstjóri stærðfræðideildar skólans í tvö ár og  síðan sviðsstjóri stærðfræði- og raungreinasviðs á árunum 1990-1993.

Eftir stærðfræðinámið til kennsluréttinda árið 1991 var hún kennari við Menntaskólann á Akureyri í eitt skólaár en hlaut þá stöðu aðstoðarskólameistara við Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem hún gegndi á árunum 1994-2003 en var síðar skólastjóri þess sama skóla í eitt ár. Þá var hún bæjarstjóri í Garði í níu ár eða á árunum 2006-2009. 

Oddný hefur unnið við skipulag og stjórnun vettvangsnáms á vegum Endurmenntunar HÍ fyrir starfandi stjórnendur í framhaldsskólum 2001-2002. Hún var verkefnisstjóri í Menntamálaráðuneytinu 2003-2004. Auk þess hefur hún setið í ýmsum nefndum um mennta- og fræðslumál. Þ.á.m. var hún í stjórn Sambands iðnmenntaskóla 1994-1999. Í stjórn samstarfsnefndar atvinnulífs og skóla 1995-1998. Í stuðningshópi á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum 1997-1999. Formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum 2002-2003. Í stjórn Kennarasambands Íslands 2002-2003 og stjórn Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum frá 2006.

Í framhaldi af þriggja ára bæjarstjórnarferli lá leið Oddnýjar inn á þing, þá 52ja ára. Þar hefur hún verið formaður þingflokks Samfylkingarinnar frá 2011 auk þess að sitja í nokkrum nefndum. M.a. fjárlaganefnd frá 2009-2011. Hún var formaður hennar frá 2010-2011. 

Oddný hafði setið á þingi í rúm tvö ár þegar hún var skipuð fjármálaráðherra 31. desember. 2011. Heiti ráðuneytisins sem hún stýrði var breytt 1. september 2012 í fjármála- og efnahagsráðuneyti en hún var leyst frá embætti 1. október 2012. Þá tók Katrín Júlíusdóttir við embættinu. Helming tímans sem Oddný var ráðherra fór hún með tvö ráðuneyti þar sem hún leysti Katrínu Júlíusdóttur af frá 24. febrúar til 6. júlí á árinu 2012 eða þar til Steingrímur bætti iðnaðarráðuneytinu við ráðuneytið sem Jón Bjarnason hafði stýrt áður auk viðskiptahlutans í þeim ráðuneytismálum sem Árni Páll hafði farið með. 

Þó ferilskrá Oddnýjar sé þéttsetin ýmsum afrekum á sviði menntamála og pólitíkur þá er skýrir það ekki þá ákvörðun að hún var gerð að fjármálaráðherra og síðar sett yfir iðnaðarráðuneytið í fæðingarorlofi Katrínar Júlíusdóttur. Það hefði hins vegar verið töluvert skiljanlegra miðað við feril hennar ef hún hefði verið fengin til að leysa Katrínu Jakobsdóttur af í Menntamálaráðuneytinu á meðan hún var í barnseignaleyfi á árinu 2011.      

Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar 

Hér verður ekki farið frekar yfir ferilskrár ráðherranna í fyrrverandi né núverandi ríkisstjórn. Það verður geymt þar til í næstu færslum. Það er þó við hæfi að slá botninn í þetta hér með því að rifja upp hvernig ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tóku til starfa 23. maí sl. líta út. Ráðherraskipanin er eftirfarandi:

Ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar vorið 2013

Hér að neðan eru nokkrar þeirra heimilda sem stuðst var við þessa færslu og verður stuðst við í framhaldinu. Framhaldið verður samanburð á því hvernig menntun og starfsreynsla ráðherranna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hins vegar samræmis málefnum ráðuneytanna sem þessum hefur verið trúað fyrir. Þannig verður menntun og starfsreynsla núverandi forsætisráðherra borin saman við menntun þess fyrrverandi út frá því hversu vel hvoru tveggja stendur undir embættum þeirra og síðan fjármálaráðherranna og svo koll af kolli.

Þetta er vissulega seinlegt og tafsamt verkefni og eflaust engin skemmti- eða afþreyingarlestur heldur. Vonir mínar standa þó til þess að einhverjir sem eru tilbúnir til að hugsa það hvaða áhrif það hefur á rekstur samfélagsins að æðstu embættismenn þeirrar grunnþjónustu sem skatti okkar er ætlað að standa undir eru skipaðir með þeim hætti sem formenn stjórnmálaflokkanna hafa gert að hefð. Samkvæmt henni eru það formenn þeirra flokka sem koma sér saman um stjórnarsamstarf sem skipa sjálfa sig og þau flokkssystkina sinna sem náðu inn á þing til að ganga inn í hlutverk framkvæmdastjóra grunnstofnana samfélagsins.

Það er útlit fyrir að íslensk stjórnmálamenning hafi ekki hugmyndaflug til annars en viðhalda þessari hefð þrátt fyrir að síðasta efnahagshrun hefði átt að leiða það í ljós að í henni liggur stór hætta falinn. Með þeirri vinnu sem ég hef lagt í langar mig að gera tilraun til að vekja til umhugsunar um það hvort það er ekki kominn tími til að horfast í augu við það að núverandi fyrirkomulag er meðal annars sú meinsemd sem hefur skilað okkur til þess árangurs sem blasir við varðandi velflesta grunnþjónustu samfélagsins.

Áður en ég lýk þessum langa pistli langar mig til að taka það fram að tilgangur minn er alls ekki sá að gera viljandi lítið úr þeim einstaklingum sem gegndu embætti ráðherra á síðasta kjörtímabili eða þeim sem hafa nýtekið við slíkum á þessu. Ef einhver þeirra eða þeim nátengdur eiga eftir að sitja uppi með slíka tilfinningu þykir mér það virkilega leitt því ég veit að innst inni hljóta allir þeir sem taka á sig stóra ábyrgð að gera það því þá langar að gera vel.

Vonandi eru þó allir tilbúnir til að velta því fyrir sér hvort ekki megi gera betur með annarri aðferð. Ég er á því að það komi sér betur fyrir alla að þeir sem taka á sig stóra ábyrgð fyrir marga séu örugglega þeir sem eru hæfastir. Þar held ég að skipti meira máli góð undirstöðuþekking og víðtæk starfsreynsla á því sviði sem heyrir ábyrgðarhlutverkinu til heldur en pólitísk viðhorf eða flokkshollusta.

Heimildir:
Skipan ráðuneyta frá 1917-2013
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Þjóðarpúls Gallups frá mars 2010: Ánægja með störf ráðherra
Þjóðarpúls Gallups frá 4. júní 2010: Mikil meirihluti hlynntur fækkun ráðuneyta
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2010: Mat á störfum ráðherra
Frétt á Pressunni vegna ráðherrakapals haustsins 2010
Þjóðarpúls Gallups 2. febrúar 2012: Breytingar á ríkisstjórninni
Þjóðarpúls Gallups 23. mars 2012: Ánægja með störf ráðherra og stjórnarandstöðu 
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ákaflega góð grein.Ég hef velt mikið fyrir mér hvort sé ekki kominn tími á að falla frá þingbundnu stjórnarfari og ráða "ráðherrana" eftir faglegum hæfniskröfum.Sammála að Ragna Árnadóttir var sennilega hæfasti kandidatinn sem völ var á markaðnum enda stóð hún mjög vel,sennilega besti ráðherrann sem við höfum átt.

Jósef Smári Ásmundsson, 9.8.2013 kl. 18:49

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Áhugaverð rannsókn

Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.8.2013 kl. 01:35

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég þakka ykkur báðum innlit og innlegg. Ánægjulegt að það skuli einhverjir virkilega leggja í að lesa allan þennan texta. Ég var búin að velta þessu efni fyrir mér í nokkurn tíma áður en ég ákvað að nálgast það með samanburðinum sem ég geri grein fyrir hér að ofan.

Ég er ekki komin að neinni endanlegri niðurstöðu, frekar en Jósef Smári hér að ofan, nema þeirri að núverandi fyrirkomulag er ekki alveg að virka. Þessi skrif eru eins og mitt framlag til umræðunnar um kosti og galla núverandi fyrirkomulag við skipun ráðherra.

Að samanburðinum loknum stendur til að vinna áfram með hann og velta þessum atriðum enn frekar fram með tilraun til einhverrar niðurstöðu. Aðalatriðið er eins og áður segir að vekja til umhugsunar hvort sem það gerist við fyrsta lestur eða miklu síðar. Í reynd nægir mér það alveg í bili ef lesendum finnst viðleitnin nógu áhugaverð til að lesa textann :-)

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.8.2013 kl. 16:34

4 identicon

Áhugaverð úttekt! Þar sem þú virðist gera strangar hæfniskröfur til ráðherra, gætirðu þá snúið smásjánni örsnöggt að sjálfri þér í einum pistlinum? T.d. deilt með okkur reynslu af hæfnismati og ráðningarstörfum, menntun í stjórnsýslufræðum?

Arnar (IP-tala skráð) 11.8.2013 kl. 12:48

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Blessaður Arnar!

Það kemur mér skemmtilega á óvart að þú skulir hafa lesið þessa færslu mína af þeirri nákvæmni að þú hafir áttað þig á því um hvað hún snýst. Það er reyndar ljóst af athugasemd þinni að þú nærð því ekki fullkomlega.

Þú mátt þess vegna líta á þessi viðbrögð mín sem nánari skýringu á því. Í byrjun er þó rétt að leiðrétta þann misskilning að ég geri „strangar“ hæfniskröfur til ráðherra. Hér má benda á að á islenskum atvinnumarkaði og reyndar víðar viðgangast kröfur um þekkingu og hæfni sem viðkoma því starfi sem viðkomandi tekur sér fyrir hendur.

Þess vegna hlýtur það að teljast afar eðlilegt að gera sambærilegar kröfur til þeirra sem fara með æðstu embætti þjóðarinnar. Embætti þar sem gjarnan eru teknar ákvarðanir sem viðkoma líf og atvinnu margra fagstétta meira að segja og svo auðvitað samfélagsins alls.

Í beinu samhengi við það sem ég hef vikið að hér að ofan má t.d. minna á þær menntunarkröfur sem eru gerðar til kennara, námsráðgjafa og skólastjórnenda í þeim stofnunum sem heyra undir menntamálaráðuneytið og svo sambærilegra krafna sem eru gerðar til heilbrigðisstarfsfólks sem heyrir undir heilbrigðisráðuneytið.

Síðustu áratugi og allt fram til undanfarandi ára hafa kröfur um menntun til þessara starfsstétta frekar aukist heldur en hitt. Hér má t.d. minna á auknar menntunarkröfur og lengingu náms leikskólakennara, framhaldsskólakennara, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Ég veit ekki betur en þessar kröfur hafi verið fullunnar og afgreiddar frá viðkomandi ráðuneytum.

Sú umræða sem ég vildi freista að yrði endurvakin með þeirri vinnu sem ég hef lagt út í með þessum skrifum verður því ekki afgreidd með meinhæðinni eða yfirlætislegri athugasemd um að hér fari kvensnift sem ætti að skammast til að koma sér niður úr einhverju ímynduðu dómarasæti. Auðvitað vona ég að viðlíka þankagangur leynist ekki að baki athugasemd þinni en ég neita því ekki að grunur um slíkt læðist vissulega að mér.

Þess vegna vil ég taka það fram að sætið sem ég horfi úr er ósköp hversdagsleg sessa íslensks kjósanda sem hefur reyndar sérfræðimenntun og þó nokkra starfsreynslu á sínu sviði. Þó menntunin sé ekki í stjórnsýslufræðum, reynslan af ráðningarstörfum sé ekki fyrirferðarmikil og hæfnismatið fagbundið þá hef ég eins og allir, sem koma að atvinnumarkaði á eigin forsendum, nokkra reynslu af því hvaða kröfur er ætlast til að þeir uppfylli sem eru ráðnir til hvers kyns starfa þó einkum í mínu eigin fagi.

Ég reikna með að persónulegur áhugi þinn á mér sé alls ekki víðtækur auk þess sem það er algjörlega út fyrir efnið að fjalla um eigin ferilskrá inn í því verkefni sem ég hef ráðist í. Hins vegar reikna ég með að smásjám þeirra sem kunna að deila áhuganum með þér sé þokkalega fullnægt með því að benda á að hér á þessu bloggi eru nú þegar nokkuð ýtarlegar upplýsingar um menntun mína og starfsreynslu undir krækjunni höfundur hér á þessari síðu. ( Sjá hér ofarlega til hægri).

Ef þú sem kjósandi ert á þeirri skoðun að fyrir það að þig skorti menntun í stjórnsýslufræðum og/eða reynslu af hæfnismati og ráðingarstörfum þá hafir þú ekki forsendur til að draga saman ferilskrár ráðherra fyrrverandi - og núverandi ríkisstjórnar þá finnst mér það vissulega miður. Ef þú hins vegar býrð yfir einhverri reynslu á þessum sviðum og ástæða spurninga þinna er þess vegna sú að þig langar til að benda mér á augljósa hnökra á efnismeðferðinni eða vísa mér á aðgengilegri leið til að draga þá þætti fram sem ég hef ráðist í með þessu verkefni þá get ég ekkert nema fagnað því.

Mér finnst samt rétt að benda þér á Skýrslu nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem var unnin og sett saman af stjórnsýslu-, stjórnmálafræðingi og skrifstofustjórum forsætis- og fjármálaráðuneytisins. Miðað við punktana hér að neðan virðist mér að kröfur um hæfni ráðherra og annarra starfsmanna ráðuneytanna sé langt því frá að vera einkahugmynd kjósanda með þá takmörkuðu þekkingu á viðfangsefninu sem mig grunar að þú hafir viljað gera að aðalatriði með athugasemd þinni. Hér eru tvær tilvitnanir:

„Verklag við ráðningu æðstu embættismanna og annarra starfsmanna verði bætt s.s. með hæfnisnefndum og samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi.“

og:

„Nefndin leggur ríka áherslu á að tekin verði upp markvissari mannauðsstjórnun í Stjórnarráði Íslands og að komið verði á fót sérstakri mannauðseiningu sem hafi forystu í mannauðsmálum og aðstoði einstök ráðuneyti í þeim efnum og lagt er til að mótuð verði stefna um hreyfanleika starfsmanna. Þá verði verklag við ráðningu stjórnenda og annarra starfsmanna samræmt til þess að tryggja sem best að fagleg sjónarmið séu höfð að leiðarljósi.“ (sjá nánar hér)

Það er aftur á móti alveg sanngjarnt að taka það fram að ég er fullkomlega meðvituð um það að sú úttekt sem ég hef ráðist í hefur m.a. þá annmarka að ég er að vinna hana ein. Hún takmarkast því vissulega af annmörkum minna sjónarmiða og hæfileikum.

Mér þykir þess vegna mjög jákvætt að sjá að þetta er lesið og vænt um að fá við þessi skrif einhverjar athugasemdir. Von mín stendur þó fyrst og fremst til þess að framlag mitt veki til umhugsunar og umræðu þeirra sem hafa ekki aðeins metnað til að finna m.a. skipun ráðherra heillavænlegri farveg heldur njóta líka trausts fyrir þekkingu, færni og skynsemi til að finna og koma skipuninni í yfirmannastöður ráðuneytanna í samfélagslega farsælla fyrirkomulag en það er núna.

Að lokum þakka ég þér innlit og innlegg og vona að þú sést a.m.k. upplýstari um bæði bakgrunn og markmið þessara skrifa.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 11.8.2013 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband