Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hér verður samanburði á menntun og starfsreynslu ráðherra í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn framhaldið. Þetta er fjórða færslan með slíkum samanburði en áður hafa forsætisráðherrarnir, fjármálaráðherrarnir og heilbrigðisráðherrarnir verði bornir saman. Þegar samanburði ráðherra allra ráðuneytanna verður lokið er líklegt að einhver heildarmynd hafi náðst fram varðandi þau viðmið sem formenn ríkisstjórnarflokkanna fara eftir við skipun í ráðherrastólana. 

Hefðin hefur verið sú að skipa þingmenn úr þingflokkunum sem sitja í ríkisstjórn sem þýðir að viðkomandi eiga sæti á löggjafarsamkundunni jafnframt því að fara með framkvæmdavaldið. Nokkur umræða kviknaði um þetta fyrirkomulag í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 meðal annars út frá því hvort það kynni ekki að grafa undan lýðræðinu að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið væri í reynd orðin sama samkundan. Ekkert fór hins vegar fyrir þessari umræðu þegar kom að alþingiskosningunum síðastliðið vor.

John Adams

Þó bæði stjórnmálamennirnir og þeir sem starfa inni á fjölmiðlunum hafi látið sem þessi umræða væri ekki þess verð að taka hana upp í aðdraganda kosninganna reikna ég með að það sama eigi alls ekki við um alla kjósendur. Það er meðal annars af þeim ástæðum sem hér hefur verið ráðist í það verkefni að endurvekja þessa umræðu þó það sé gert með væntanlega frekar óvæntri nálgun.

Að þessu sinni verður fjallað um mennta- og menningarmálaráðuneytið með svipuðum hætti og þau á undan. Hér verður þess vegna byrjað á því að líta til þess hvenær framkvæmdavaldið byrjaði að láta mennta- og menningarmálin sig einhverju varða en í framhaldinu verða núverandi og fyrrverandi ráðherra þessara málaflokka bornir saman.

Þorsteinn BriemFyrsta íslenska ríkisstjórnin var sett saman á árinu 1917 (sjá hér). Tveimur og hálfum áratug síðar fékk Ásgeir Ásgeirsson (síðar forseti) umboð til myndunar sjöundu ríkisstjórnarinnar þar sem hann setti Þorstein Briem yfir kennslumál. Þorsteinn var atvinnumálráðherra í þessari ríkisstjórn Ásgeirs sem sat á árunum 1932 til 1934. Auk þess að fara með kennslumálin fór hann líka með kirkjumálin.

Kennslumálin heyrðu aftur undir atvinnumálaráðherra næstu ríkisstjórnar sem sat á árunum 1934 til 1938. Atvinnu- og viðskiptaráðherra var með þau á sinni könnu í ríkisstjórn Ólafs Thors sem sat aðeins í sjö mánuði á árinu 1942 áður en utanflokkastjórn Björns Þórðarsonar var skipuð af þáverandi forseta til að fara með framkvæmdavaldið. Með ríkisstjórn Björns verður sú breyting á að heiti málaflokksins verða menntamál.

Brynjólfur BjarnasonFyrsti menntamálráðherrann var svo skipaður í ríkisstjórn Ólafs Thors sem tók við af utanflokkastjórninni. Það var Brynjólfur Bjarnason sem gegndi embættinu. Þess má geta hér í framhjáhlaupi að þetta var fyrsta þjóðkjörna ríkisstjórnin sem sat eftir að Ísland varð fullvalda.

Næstu áratugina, eða á árunum 1947 til 1980, fóru þeir sem voru skipaðir menntamálaráðherrar með ýmis önnur ráðuneyti samhliða. Kjörtímabilið 1974 til 1978 er þó undantekning en þá var Vilhjálmur Hjálmarsson skipaður yfir Vilhjálmur Hjálmarssonmenntamálráðuneytið eingöngu af Geir Hallgrímssyni. Það vekur líka athygli þegar horft er til þessara ára hve lengi Gylfi Þ. Gíslason fór yfir ráðuneyti menntamála eða í einn og hálfan áratug.

Allan tímann sem Gylfi gegndi þessu embætti var hann viðskiptaráðherra líka. Árin 1958 og 1959 fór hann jafnframt með iðnaðarmál. Það er reyndar rétt að taka fram að heimildunum þremur, sem eru hafðar til hliðsjónar hér, ber ekki saman hvað þetta varðar en þessar upplýsingar eru teknar héðan.

Á árunum 1980 til 2009 verður það að hefð að sá sem fer með menntamálaráðuneytið fer ekki með önnur mál enda um umfangsmikinn málaflokk að ræða þar sem skólastigin eru mörg, aldurshópurinn sem sækir skóla afar breiður og menntunin sem hann sækist eftir margvísleg. Auk nemenda eru það svo foreldrar nemenda upp til 18 ára og starfsfólk skólanna sem eru ótvíræðastir skjólstæðingar Menntamálaráðuneytisins.

Framan af blandaðist fáum innan þessa fjölbreytta hóps hugur um að hlutverk Menntamálaráðuneytisins væri að veita skólunum og menntuninni sem þar fer fram ákveðið skjól. Miðað við þróun síðustu ára eru þeir þó væntanlega sífellt fleiri sem vita tæplega hvaðan á sig stendur veðrið.

Forgangsröðunin í mennta- og skólamálum

Í ráðherratíð Ólafs G. Einarssonar, sem var menntamálaráðherra á árunum 1991 til 1995, skipaði hann nefnd um mótun menntastefnu. Nefndin skilaði af sér skýrslu í júní 1994. Skýrslan markaði upphaf þerrar stefnu sem menntamálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þau Björn Bjarnason (gegndi embættinu frá 1995 til 2002), Tómas Ingi Olrich (ráherra frá 2002-2003) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (menntamálaráðherra frá 2003-2009), unnu að að hrinda í framkvæmd með lögum sem urðu að veruleika sumarið 2008.

Strax árið 1996 var reyndar tekinn stór áfangi með því að rekstur grunnskólanna var færður frá ríki til sveitarfélaga. Þessi aðgerð er í fullu samræmi við það sem kemur fram í skýrslunni frá 1994 samber þennan texta:

Ríki og sveitarfélög reka nú grunnskóla í sameiningu. Sveitarfélög greiða allan rekstrarkostnað grunnskóla, annan en laun vegna kennslu og stjórnunar sem eru greidd af ríkinu. Skólastjórar eru ríkisstarfsmenn, en hafa forræði fyrir starfsfólki sem ýmist er ráðið af sveitarstjórnum (s.s. ræstingarfólk og húsverðir) eða ríki (kennarar). Þeir ráðstafa því fjármunum sem ýmist koma frá sveitarfélagi eða ríki.

Augljóst hagræði er að því að rekstur grunnskóla verði fullkomlega í höndum eins aðila. Slíkt einfaldar stjórnun, auk þess sem hægt verður að líta á grunnskólahald sem hluta af þjónustu sveitarfélaga og tengja það þannig öðrum verkefnum sveitarfélagsins, t.d. á sviði ýmiss konar sérfræðiþjónustu eða annarrar þjónustu sveitarfélaga við ungt fólk (svo sem vinnuskóla og tómstundastarf). (sjá hér)

Í skýrslunni er líka lögð til lenging skólaársins bæði í grunn- og framhaldsskólum, samræmd próf, styttingu framhaldsskólans niður í þrjú ár auk margs annars sem var lögfest með nýjum fræðslulögum í júní 2008. Að sjálfsögðu voru og eru viðhorf kennara og annars skólafólks til laganna mismunandi en margir vöruðu við og vara við enn. Þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir þann tíma sem lögin voru í mótun fór Þorgerður Katrín ásamt starfsfólki Menntamálaráðuneytisins sínu fram og hrinti kjarna þess í framkvæmd sem lagt var til af nefndinni um mótun menntastefnu árið 1994.

Margir töldu að með því að Katrín Jakobsdóttir tæki við Menntamálaráðuneytinu í byrjun árs 2009 hefði menntunin eignast málsvara þar innandyra að nýju. Það væri ósanngjarnt að halda því fram að viðmótið hafi ekki breyst eitthvað en lausnin á þeim erfiðleikum sem menntuninni í landinu var sett, með nýjum lögum um skóla, er óleyst. Ástæðan er ekki síst sú að lögin bera þess merki að vera sett saman af hópi sem er uppteknari af rekstri skólanna en menntunarhlutverki þeirra.

Marian Wright Edelman

Hér áður var vikið að því þegar rekstur grunnskólanna var færður frá ríki yfir til sveitarfélaga árið 1996. Með nýju lögunum um skólaskyldustigið var stjórnvöldum gert kleift að fara sömu leið og nýju lögin um heilbrigðisþjónustu opnuðu fyrir varðandi heilbrigðisstofnanir. Dæmið er tekið úr 10. kafla laga um grunnskóla

45. gr. Samrekstur.
Sveitarfélögum, tveimur eða fleiri, er heimilt að hafa með sér samvinnu um rekstur grunnskóla, sbr. VIII. kafla sveitarstjórnarlaga. [...]
Sveitarfélögum er heimilt að reka saman grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla undir stjórn eins skólastjóra að fenginni umsögn skólanefnda. [...] Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð, sbr. 8. gr., og foreldraráð, sbr. 11. gr. laga um leikskóla, starfi sameiginlega í einu ráði. [...]  

Niðurskurðurinn í menntamálunum var sannarlega hafinn fyrir efnahagshrunið þannig að foreldrar grunnskólabarna í dreifðari byggðum landsins kusu jafnvel að búa aðskildir yfir vetrartímann þannig að annað foreldrið gæti haldið börnunum heimili í nágrenni við a skóla í stað þess að láta þau búa inni á ókunnugum. Við efnahagshrunið var gengið enn lengra í niðurskurðinum og fleiri skólar sameinaðir þó niðurskurðurinn hvað þetta varðar hafi ekki náð að ganga eins langt og í heilbrigðisþjónustunni.

Það er hins vegar fleira sem vekur athygli í 10. kafla grunnskólalaganna frá 2008. Annað vísar til einkareksturs, ekki síður en ýmislegt í lögunum um heilbrigðisþjónustuna, og líklegra að seinni greinin geri það líka.

43. gr. Viðurkenning grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 1. gr., sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. [...] Um slíka grunnskóla gilda sömu lög og reglur og um grunnskóla skv. 1. gr., eftir því sem við á. Þar á meðal skal af hálfu viðkomandi skóla fylgt ákvæðum stjórnsýslulaga við töku ákvarðana sem kæranlegar eru skv. 47. gr. Það á þó ekki við um ákvarðanir um gjaldtöku.[...]

46. gr. Undanþágur.
Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan. [...] (sjá hér)

Það væri vissulega full ástæða til að fjalla ýtarlegar um markmið og afleiðingar þeirrar menntastefnu sem var komið á með lögunum um skólastigin í upphafi sumars árið 2008. Hér verður þó látið staðar numið en minnt á að menntamál hafa verið undir sérstöku ráðuneyti frá árinu 1980. Það varð hins vegar breyting á þessu með ríkistjórn Jóhönnu Sigurðardóttir með því að 1. október 2009 var menningarmálunum aukið við embættið og er Katrín Jakobsdóttir því fyrsti mennta- og menningamálaráðherrann.

Um þessa stjórnkerfisbreytingu segir þetta á vef Stjórnarráðsins: „Nýtt ráðuneyti mennta- og menningarmála fær auk fyrri verkefna umsjón menningarstofnana og verkefna er nú heyra undir forsætisráðuneyti.“ (sjá hér) Tíminn mun væntanlega leiða það í ljós á hvorum staðnum fer betur um menninguna en vissulega er menntun og menning náskyld enda bæði komin af orðinu maður.

Mennta- og menningarmálaráðherra

Mennta- og menningarmálaráðherrar

Katrín Jakobsdóttir var skipuð menntamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar. Auk þess að fara með menntamálaráðuneytið var hún samstarfsráðherra Norðurlanda frá upphafi síðasta kjörtímabils. Frá Eins og áður hefur komið fram var ábyrgð hennar aukin 1. október 2009 og embættisheiti hennar breytt í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín er fædd 1976 og var því 33 ára þegar hún var skipuð ráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Illugi er nýskipaður ráðherra mennta- og menningarmála í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Hann er fæddur árið 1967 og er því 46 ára. Bæði komu ný inn á þing árið 2007. Katrín hafði því tveggja ára þingreynslu þegar hún tók við ráðherraembætti en Illugi er með sex ára reynslu af þingstörfum.

Menntun og starfsreynsla:
Katrín varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund tvítug að aldri. Þremur árum síðar lauk hún BA-prófi í íslensku með frönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands. Í beinu framhaldi var hún ráðin sem málfarsráðunautur hjá RÚV og starfar sem slíkur næstu fjögur ár. Ári síðar lýkur Katrín meistaraprófi í íslenskum bókmenntum, þá 28 ára.

Að meistaraprófinu loknu vann hún að dagskrárgerð fyrir ljósvakamiðla og ritstörf fyrir ýmsa prentmiðla auk kennslu fyrir endurmenntunarstofnanir og símenntunarmiðstöðvar. Þau þrjú ár sem liðu frá því að Katrín lauk meistaraprófinu og þar til hún var kosin inn á þing annaðist hún líka ritstjórnarstörf fyrir Eddu- og JPV-útgáfu og stundakennslu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Menntaskólann í Reykjavík. Katrín var 31s þegar hún var kosin inn á þing vorið 2007.

Illugi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík tuttugu ára gamall. Frá 16 ára aldri og næstu tíu árin vann hann við fiskvinnslu hjá Hjálmi hf á Flateyri eða til ársins 1993. Eftir stúdentspróf starfaði Illugi sem leiðbeinandi við Grunnskóla Fateyrar í eitt ár. Þá sneri hann sér að námi í hagfræði við Háskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist árið 1995.

Eftir útskriftina var hann skrifstofumaður hjá Vestfirskum skelfiski á Flateyri í tvö ár en stundaði síðan rannsóknir í fiskihagfræði við Háskóla Íslands í eitt ár. Árið 2000 lauk Illugi MBA-prófi (Master of Business Administration) frá London Business School, þá 33ja ára. Í framhaldinu starfaði hann sem aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar forsætisráðherra í fimm ár eða til ársins 2005. Hins vegar er þess ekki getið í ferilskrá Illuga við hvað hann starfaði næstu tvö árin eða þar til hann var kosinn inn á þing 40 ára gamall.

Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Katrín byrjaði stjórnmálaþátttöku sína í Háskólanum og var bæði í stúdentaráði og háskólaráði á árunum 1998 til 2000. Tveimur árum síðar var hún kjörinn formaður Ungra vinstri grænna og gegndi því embætti í eitt ár eða þar til hún var kjörinn varaformaður Vinstri grænna. Frá árinu 2002 var Katrín fulltrúi í fræðsluráði, síðar menntaráði, Reykjavíkur, formaður nefndar um barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkurborgar og varaborgarfulltrúi fyrir Reykjavíkurlistann. Þessum embættum gegndi hún í þrjú til fjögur ár. Árið 2004 var hún auk þessa formaður bæði samgöngunefndar og umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur.

Miðað við ferilskrá Katrínar hefur árið sem Katrín varð 28 ára, þ.e. 2004, því verið afar annasamt. Auk útskriftar úr meistaranámi í íslenskum bókmenntum hefur hún verið varaformaður Vinstri grænna, varaborgarfulltrúi, formaður þriggja nefnda og fulltrúi í þeirri þriðju. Auk þessa hefur hún sinnt dagskrárgerð, ritstörfum og kennslu. Katrín var kjörin formaður Vinstri grænna í febrúar á þessu ári. Þá hafði hún gegnt embætti varaformanns flokksins í tíu ár eða frá því hún var 27 ára.

Eins og Katrín hóf Illugi stjórnmálþátttöku sína í gegnum stúdentapólitíkina í Háskólanum. Hann sat í  stjórn Vöku á árunum 1989 til 1990 og var oddviti þeirra í eitt ár eða frá 1993 til 1994. Hann sat í stúdentaráði á svipuðum tíma eða frá 1993 til 1995 auk þess sem hann var fulltrúi stúdenta í háskólaráði á sama tíma.

Þegar Illugi var þrítugur var hann kjörinn formaður Heimdallar og gegndi hann því embætti í eitt ár. Eins og áður hefur komið fram var hann aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar á árunum 2000 til 2005. Davíð var þá forsætisráðherra. Eftir að Illugi var kosinn inn á þing átti hann sæti í nefnd um eflingu græna hagkerfisins síðastliðin þrjú ár. Illugi var formaður þingflokks Sjálfstæðismanna árin 2009-2010 og 2012 og 2013.

Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Katrín var kjörinn inn á þing fyrir Reykjavík norður árið 2007 og hefur því setið inni á þingi í sex ár. Þennan tíma hefur hún átt sæti í þremur þingnefndum. Þar af sat hún í menntamálanefnd í tvö ár eða á árunum 2007 til 2009.

Illugi var líka kjörinn inn á þing árið 2007. Fyrstu tvö árin sat hann inni á þingi fyrir Reykjavík suður en frá árinu 2009 hefur hann setið inni á þingi fyrir hönd sama kjördæmis og Katrín. Illugi hefur því líka setið inni á þingi í sex ár. Frá því að hann settist inn á þing hefur hann átt sæti í þremur til fjórum nefndum á hvoru kjörtímabili. Þar af átti hann sæti í menntamálanefnd árin 2007 til 2009.

Hann og Katrín voru því samtíða í nefndinni sem fór með frumvörpin að núgildandi lögum um skólastigin sem voru samþykkt á Alþingi í júnímánuði ársins 2008.

Ráðherraembætti:
Katrín gegndi stöðu menntamálaráðherra frá árinu 2009 en heiti embættisins var breytt haustið 2009 í mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín gegndi auk þess embættinu samstarfsráðherra Norðurlanda á síðasta kjörtímabili. Þegar hún tók við þessum embættum hafði hún setið inni á þingi í tvö ár. Katrín var 33ja þegar hún var skipuð mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Illugi var skipaður í þetta embætti í núverandi ríkisstjórn. Eins og áður hefur komið fram á hann sex ára þingreynslu að baki og er 46 ára þegar hann er skipaður mennta- og menningarmálaráðherra (sjá nánar hér).

Samantekt
Þó tíu ára aldursmunur skilji þau Illuga og Katrínu að er ferilskrá þeirra ekki ósvipuð í mörgum atriðum. Bæði útskrifuðust sem stúdentar þegar þau voru tvítug. Í framhaldinu lá leið beggja í Háskóla Íslands þar sem þau tóku virkan þátt í stúdentapólitíkinni þó annað hafi fylgt Röskvu en hitt Vöku. Bæði hafa svo gengt forystuhlutverkum í ungliðahreyfingum þeirra flokka sem komu þeim til áhrifa.

Katrín hafði unnið að kennslu og öðrum menningartengdum verkefnum áður en hún settist inn á þing enda bundu margir vonir við að vera hennar í Menntamálaráðuneytinu myndi breyta bæði viðmótinu og stefnunni sem hefur þótt bitna á bæði menntuninni og menningunni í landinu. Þær vonir brugðust að mestu en rétt er að geta þess að Katrín var sá flokksbundni ráðherra sem mest ánægja var með meðal kjósenda á síðasta kjörtímabili ef marka má mælingar Gallups. Lægst mældist ánægja kjósenda með störf hennar í nóvember 2010 eða 32% (sjá hér) en í fyrstu könnuninni og þeirri síðustu sagðist helmingur kjósenda ánægður með hennar störf.

Nú er Illugi tekinn við ráðuneytinu og ljóst að sá niðurskurður sem var á stefnuskrá menntamálayfirvalda fyrir hrun hefur í engu hopað. Katrín fór sér vissulega hægar og sýndi málstað bæði nemanda og kennara sannarlega meiri skilning í orði en sá sem sat á undan henni en hún gerði hins vegar lítið til að leiðrétta það flækjustig sem menntastefnan er rötuð í eftir innleiðingu laganna sumarið 2008.

Illugi er með menntun í hagfræði en hefur starfað sem leiðbeinandi í grunnskóla í eitt ár. Katrín og Illugi voru samtíða í menntamálanefnd árin sem ný fræðslulög voru lögfest þar sem gert er ráð fyrir verulegri uppstokkun á samsetningu og skipulagi náms. Kennarar hafa ítrekað bent á ýmsa galla nýju laganna en bæði foreldrar og nemendur hafa að mestu verið hljóðir hingað til.

Við mótun menntastefnu þarf að taka afstöðu til þess hvaða hlutverki skólarnir skuli gegna. Samfélagið þarf að gera það upp við sig hvort það ætlar skólunum að vera geymslu-, uppeldis-, þjónustu- eða fræðslustofnanir. Menntamálayfirvöld þurfa ekki síður að gefa út skýr skilaboð um það hvort þau ætli skólunum frekar að vinna að innrætingu eða menntun sem lýtur að þekkingu og mennsku eða hvort áherslan á fyrst og fremst að miða að útgáfu prófskírteina. Sumir sem hafa gagnrýnt lögin frá 2008 hafa reyndar bent á að með þeim sé stigið stórt afturfararskref varðandi menntunarhlutverk skólanna um leið og innrætingar - og framleiðnihlutverkið hafi verið gert að forgangsverkefnum.

Bókvitið

Það er engum vafa undirorpið að embætti mennta- og menningarmálaráðherra er ekki síður umfangsmikið en heilbrigðisráðherrans. Í tilviki beggja er grundvallarspurningin samt sú hvort þeim er frekar ætlað að þjóna peningunum eða fólkinu. Rétt eins og langflestir sem starfa innan heilbrigðisstofnana telja sitt meginhlutverk vera það að sinna heilsu landsmanna við sæmandi aðstæður sem stuðla að góðum árangri til bættrar heilsu þá berjast kennarar og námsráðgjafar við að skapa skilyrði til þess að nemendur skólanna njóti menntunar og útskrifist með hagnýta þekkingu sem nýtist þeim til góðra verka. 

Þegar það er haft í huga að fagþekking þeirra sem stjórna innan Menntamálaráðuneytisins lýtur miklu fremur að hagræðingu í rekstri en því að styðja við mannvænleg skilyrði til menntunar nemenda er líklegt að menntamálin haldi áfram að vera í þeim hnút sem þau eru í nú. Það má svo árétta að áreksturinn milli heilbrigðisráðuneytisins og fagvitundar heilbrigðisstarfsfólks er ekki af óskyldum toga og því ekki ofmælt að það er líkt komið fyrir menntuninni og heilsugæslunni í landinu. 

Það er líka rétt að undirstrika það að menntamálin, líkt og  heilbrigðismálin, eru afar yfirgripsmikill grundvallarþáttur sem varða alla sem byggja samfélagið. Langflestir skattgreiðendur eru þess vegna á þeirri skoðun að það beri að hlífa menntuninni og heilsugæslunni umfram ýmsa aðra þætti samfélagsþjónustunnar sem snerta færri og minni hagsmuni. Varðandi menntamálin þurfa allir sem vilja hlúa að þessum grunni heilbrigðs samfélags að átta sig á að rekstur skóla og menntun nemenda er sitt hvað.

Aristoteles

Þegar á allt er litið er líklega ljóst að mennta- og menningarmálaráðherra þarf ekkert síður en heilbrigðisráðherrann að hafa hæfileika til samvinnu við þann fjölbreytilega hóp, sem skjólstæðingar ráðuneytisins eru, og kunna að setja hagsmuni þeirra í forgang frekar en fjármagnsins. Vænlegur kostur er því að hafa skilning á gildi menntunar (og reyndar menningar líka) ekki aðeins fyrir samfélagið allt heldur ekki síður fyrir mennskuna sem býr í hverjum einstaklingi.

Helstu heimildir

Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis

Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn

Stjórnkerfisbreytingar

Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups frá 6. desember 2012: Mat á störfum ráherra
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra

Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)

Nokkrar heimildir varðandi flutning á rekstri grunnskóla yfir til sveitarfélaga:

Nefnd um mótun menntastefnu (skýrsla nefndarinnar útgefin í júní 1994)

Flutningur á rekstri grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Skýrsla KPMG Endurskoðun hf gefin út í nóvember 2000.
Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaga. Rannsóknarstofnun KÍ. 1. nóvember 2004
Skólamálastefna Sambands íslenskra sveitarfélaga
(frá 2008)

Krækjur í ný lög um skólastigin frá því í júní 2008:

Lög um leikskóla
Lög um grunnskóla
Lög um framhaldsskóla

Lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla

Mástofa um menntafrumvörpin (aðgengileg samantekt sem gefur örlitla innsýn í ábendingar KÍ frá 10. apríl 2008 varðandi núgildandi lög)

Kynning á frumvarpi til laga um tónlistarskóla (janúar 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Bendi á að menntakerfið er undirstaða framfara í atvinnulífi.Aukin tenging milli skóla og atvinnulífs er þessvegna mikilvæg og þörf á yfirstjórnanda sem er með þetta atriði á hreinu.Mér finnst áhersla á rekstur RÚV vera léttvægari.Efla þarf tungumælalæsi(Enska og Norðurlandamál) og tölvulæsi fyrr í grunnskólunum þar sem þetta er grunnur undir frekara nám.

Jósef Smári Ásmundsson, 24.8.2013 kl. 06:47

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Tenging atvinnulífs og menntunar hefur verið eins og tískufrasi þegar kemur að umræðu um menntamál. Reyndar held ég að það sé engin sem hafi neitt á móti því að góð tengsl séu þarna á milli og aukin ef svo ber undir en hins vegar hef ég grun um að þeir séu færri sem geri sér skýra mynd af því hvernig þessari tengingu skuli fullkomlega háttað þannig að þjóni báðum; þ.e. menntuninni og atvinnulífinu.

Ólafur G. Einarsson og nefndarmennirnir sem hann skipaði voru engin udantekning hvað þessa tengingu varðar en þar er líka lögð áhersla á aukin þátt tölvunotkunar í vinnu nemenda.Þegar kemur að framvæmdinni verður að hafa í huga að bæði vettvangsheimsóknir og gestafyrirlesarar kosta að ekki sé talað um bekkjarsett af tölvum í alla skóla.

Einn af stóru þáttum þess hnúts sem menntamálunum hefur verið búinn er sá að yfirlýstur vilji og framkvæmd haldast ekki í hendur. Það leiðir auðvitað að sjálfu sér að þegar er sett fram kostnaðarsöm stefna án þess að gera ráðstafanir til að mæta kostnaðinum sem af hlýst þá myndast hnútur.

Það liggur í grundvelli allra skólastofnanna að þjóna menntunarhlutverkinu fyrst og fremst. Með aukinni forræðishyggju menntamálayfirvalda ásamt þeirri markaðsvæddu hugmyndafræði sem hefur rutt sér til rúms innan Menntamálaráðuneytisins undanfarna áratugi er því hlutverki hins vegar ógnað.

Út frá mínum bæjardyrum séð er brýnna að bregðast við þeirri hættu sem menntun framtíðarinnar stafar af hugmyndafræði markaðsvæðingarinnar en hvort nemendur fari í vettvangsferðir á vinnustaði eða komist í tölvur í skólanum. Mér sýnist reyndar að við núverandi aðstæður sé fátt annað til úrræða en verjast og vísa ég þá ekki síst til grunnskólans.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.8.2013 kl. 11:29

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég er nú ekki alveg sammála þér að um tískufrasa sé að ræða Rakel.Spurningin er ,til hvers þurfum við menntunina.Í gamla daga lærðu börnin af foreldrunum,einhverja iðn eða hvernig ætti að flaka fisk,baka kökur og elda mat auk móðurmálsins og lestur.Allt er þetta lært sem veganesti inn í lífið.Og hvaða tilgangi ætti menntunin annars að þjóna?Það er allt of mikið að fólk er að læra einhver fræði í háskólum landsins sem nýtist hvorki þeim né þjóðinni.Og menntun er dýr sem greiðist af þjóðinni.

Jósef Smári Ásmundsson, 24.8.2013 kl. 13:43

4 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Eins og ég taldi mig hafa rökstutt í svarinu hér að ofan þá heyrist þessi frasi mjög gjarnan þar sem menntamálin eru borin á góma. Ég ætla ekki að umorða eða endurtaka það sem ég sagði hér að ofan. Mér sýnist þó að þú hafir misskilið eitthvað það sem ég sagði þar um æskilega tengingu skóla og atvinnulífs. Miðað við það sem kemur fram í svari þínu finnst mér líka ástæða til að bæta því við að það má ekki gleymast að menntun er fleira en verknám eða það læra vinnubrögð ákveðinna starfsgreina.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 24.8.2013 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband