Félags- og húsnæðismálaráðuneytið
7.9.2013 | 06:30
Þetta er sjötti hlutinn af tíu þar sem ferilskrár ráðherranna í núverandi ríkisstjórn eru bornar saman við ferilskrár þeirra sem gegndu sömu embættum í lok síðasta kjörtímabils. Meginmarkmiðið er þó ekki samanburðurinn í sjálfu sér heldur að vekja lesendur til umhugsunar um það hversu farsæl núverandi aðferð við skipun í ráðherraembætti er íslensku samfélagi.
Í fyrsta hlutanum voru ferilskrár Jóhönnu Sigurðardóttur og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bornar saman, þá Katrínar Júlíusdóttir og Bjarna Benediktssonar, næst Guðbjarts Hannessonar og Kristjáns Júlíussonar, því næst Katrínar Jakobsdóttur og Illuga Gunnarssonar og síðast Steingríms J. Sigfússonar og Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.
Miðað við þann samanburð sem þegar hefur verið lokið við er svo að sjá að það sé pólitísk staða innan þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn sem ræður mestu varðandi það hver verður ráðherra. Það verður forvitnilegt að sjá hvort framhaldið staðfestir þessa ályktun eða leiðir fram fylgni við aðra þætti ferilskráa þeirra sem hafa gegnt eða gegna ráðherraembætti.
Að þessu sinni verða ferilskrár Guðbjarts Hannessonar og Eyglóar Harðardóttur bornar saman en Guðbjartur var velferðarráðherra í síðustu ríkisstjórn í kjölfar þess að Heilbrigðisráðuneytinu og Félags- og tryggingamálaráðuneytinu var steypt saman í eitt. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem húsnæðismálunum er veittur sá gaumur að þau eru tekin upp sem sérstakur málaflokkur af einhverju ráðuneytanna. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þetta brýna málefni sem snertir svo marga.
Saga félagsmálaráðuneytisins er lengri en mætti e.t.v. ætla í fyrstu. Fyrsti félagsmálaráðherrann var skipaður í þriðja ráðuneyti Hermanns Jónssonar sem sat á árunum 1939 til 1941. Sá sem var skipaður í embættið var Stefán Jóh. Stefánsson sem fór jafnframt með utanríkisráðherraembættið. Það sem vekur sérstaka athygli í ferilskrá Stefáns Jóhanns er að hann: Kynnti sér félagsmálalöggjöf á Norðurlöndum 1928 með styrk úr sáttmálasjóði. (sjá hér) Alls fór Stefán Jóhann með með þennan málaflokk í fimm ár; þar af tvö sem forsætisráðherra en það var á árunum 1947 til 1949.
Næstu áratugi eða fram til ársins 1983 fóru þeir sem voru skipaðir félagsmálaráðherrar ávallt með einn til þrjá málaflokka og/eða ráðherraembætti til viðbótar. Fyrsti ráðherrann til að fara með félagsmálin eingöngu var Alexander Stefánsson. Þetta fyrirkomulag hélst í 25 ár eða þar til 1. janúar 2008 að tryggingamálunum var bætt við embættisheiti þáverandi félagsmálaráðherra sem var Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir fór með þetta embætti í alls 10 ár (fyrst árið 1987 en síðast 2009) og er væntanlega þekktust þeirra sem hafa farið með félagsmálaráðuneytið. Þegar hún tók við embætti forsætisráðherra, eftir stjórnarslit Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í ársbyrjun 2009, skipaði hún fyrst Ástu R. Jóhannesdóttur í embætti félags- og tryggingamálaráðherra. Eftir kosningarnar vorið 2009 úthlutaði hún Árna Páli Árnasyni embættinu en 2. september 2010 Guðbjarti Hannessyni. Á sama tíma tók hann líka við helbrigðisráðuneytinu. Ráðuneytin voru síðan sameinuð í eitt 1. janúar 2011 og gefið nýtt heiti; velferðarráðuneytið (sjá hér).
Í hugum margra eru tryggingamálin væntanlega órjúfanlegur hluti félagsmálaráðuneytisins. Málaflokkurinn hefur alls níu sinnum komið fyrir í embættisheitum ráðherra í sögu ráðuneytanna sem nær aftur til ársins 1917. Oftast reyndar í tengslum við heilbrigðisráðherraembættið Í fyrsta skipti árið 1970 en þá var Eggert G. Þorsteinsson skipaður fyrsti heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrann. Í ljósi þess að húsnæðismálin hafa nú verið tengd við félagsmálaráðuneytið ætti eftirfarandi úr ferilskrá hans að vekja athygli: Í húsnæðismálastjórn 19571965, formaður hennar frá 1960. [...] 1960 í endurskoðunarnefnd um húsnæðismál. (sjá hér)
Í lok þessa sögulega yfirlits varðandi heiti ráðuneytisins og/eða embættisins má svo vekja athygli á að fyrirmyndin að þeirri tilhögun sem komst á með því að Guðbjartur Hannesson tók við embættum Árna Páls Árnasonar og Álfheiðar Ingadóttur frá 1. janúar 2011 hefur væntanlega verið sótt til ráðuneytis Gunnars Thoroddsen frá árinu 1980. Þá var Svavar Gestson félagsmála- og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (sjá hér).
Það hefur þegar verið fjallað um heilbrigðisráðuneytið þar sem áhersla var lögð á það um hve mikilvægan málaflokk samfélagseiningarinnar er að ræða. Félags- og tryggingamálin eru ekki síður mikilsverður málaflokkur í þeirri grunnþjónustu sem þeim sem fara með skatttekjur ríkisins er ætlað, af flestum, að setja á forgangslista þegar kemur að ráðstöfun skatttekna ríkisins. Án þess að gera lítið úr öðrum málaflokkum þá er ekki óeðlilegt að halda því fram að heilbrigðis-, trygginga- og félagsmálin eða m.ö.o. heilbrigðis-, lífeyris- og félagsþjónustan eru þeir þættir sem duga best sem mælitæki á það hvort grundvöllurinn sem nútímaríki byggja á halda eða ekki; þ.e.a.s. það sem mætti kalla samfélagssáttmálinn (sjá hér).
Samfélagssáttmálinn er meginhugtak svonefndra sáttmálakenninga um eðli og undirstöður mannlegs samfélags, siðferðis og réttmæti ríkisvalds. Hugmyndin er í grófum dráttum sú að óskrifaður sáttmáli ríki um að einstaklingar gefi upp tilkall sitt til tiltekinna réttinda en feli ríkisvaldi í hendur valdstjórn til þess að viðhalda reglu í samfélaginu og tryggja öryggi þegnanna.
Yfirleitt er því ekki haldið fram að menn hafi bókstaflega komist að samkomulagi un undirstöður samfélagsskipunarinnar á einhverjum tilteknum tíma heldur ríki samkomulagið á svipaðan hátt og samkomulag ríkir um merkingu orða í tungumálinu. (sjá hér)
Samkvæmt því þegjandi samkomulagi sem hér er vísað til má gera ráð fyrir að skattgreiðendur greiði skatta og önnur launatengd gjöld, svo sem lögbundin iðgjöld til lífeyrissjóða, í trausti þess að þessar greiðslur tryggi þeim örugga og góða þjónustu á jafns við aðra sem byggja samfélagið. Þegar misbrestur verður á með þeim hætti að bitnar á sjúklingum, bótaþegum og öðrum sem þurfa á þjónustu þeirra stofnana sem hafa verið reistar um þau málefni sem hér eru til umræðu þá er varla ofmælt að grunnurinn að samfélagssáttmálanum sé brostinn.
Þeir eru sennilega fáir ef nokkrir sem hafa misst af þeim niðurskurði sem hefur orðið á heilbrigðisþjónustunni þó gera megi ráð fyrir að afleiðingarnar hafi enn sem komið er bitnað misþungt á hverjum og einum eftir heilsufari þeirra. Nokkur umræða hefur líka verið um fjárhagsstöðu einstakra lífeyrissjóða en það hefur farið minna fyrir umræðu um afleiðingar þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til af sjóðanna hálfu. Það sama má segja varðandi félagsþjónustuna.
Í stuttu máli þá hefur farið afar lítið fyrir umræðu um stöðu þeirra sem niðurskurður velferðarkerfisins bitnar harðast á. Af einhverjum ástæðum hefur sístækkandi hópur þeirra sem situr frammi fyrir afleiðingunum að sviknum samfélagssáttmála verðið sleginn til skammarinnar og settur afsíðis með þögninni.
Margir gerðu sér að sjálfsögðu vonir um að sá hópur sem Jóhanna Sigurðardóttir hafði látið í veðri vaka að hugsjón hennar brynni fyrir þau ár sem hún sat yfir félagsmálaráðuneytinu hefði loks fengið ríkisstjórn sem myndi setja kjör þessa hóps til öndvegis þannig að heitið sem stjórn hennar setti sér að standa undir svo og tími Jóhönnu sem hún hafði gefið fyrirheit um að myndi öllu breyta myndu standa undir sér. Niðurstöður síðustu alþingiskosninga eru væntanlega öruggasti mælikvarðinn um að hvorugt sannaðist.
Með nýrri stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur heiti ráðherraembættinu, sem var nefnt eftir nafninu sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Sigfússonar gaf sjálfri sér, verið breytt og heitir nú félags- og húsnæðismálaráðherra. Nýja heitið vísar þannig líka til annars málflokks sem loforð síðustu ríkisstjórnar stóðu til til að gera stórfelldar endurbætur á sem ekki varð af en það er í fyrsta skipti í sögu ráðuneytanna sem húsnæðismálum landsmanna er skipaður sérstakur ráðherra.
Vissulega er það tímanna tákn að húsnæðismál landsmanna skuli koma fram í heiti ráðherra en það er óneitanlega spurning hvort tryggingarmálin séu áfram öll undir einum og sama ráðherra eða hvort hluti þeirra hafi verið færður aftur yfir til heilbrigðisráðuneytisins.
Félags- og húsnæðismálaráðherra
Í síðustu ríkisstjórn var Árni Páll Árnason fyrst skipaður félags- og tryggingamálaráðherra en Guðbjartur Hannesson kom nýr inn sem ráðherra 2. september árið 2010 og tók þá við þessu embætti. Þessir málaflokkar voru svo sameinaðir heilbrigðismálunum 1. janúar 2011.
Eins og áður hefur komið fram er Guðbjartur fæddur 1950 (sjá hér) og var því sextugur þegar hann tók fyrst við ráðherraembætti með síðustu ríkisstjórn eftir fjögurra ára setu á þingi. Eygló Harðardóttir er fædd 1972 og er 41 árs þegar hún tekur í fyrsta skipti við embætti ráðherra með ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Eygló kom fyrst inn á þing árið 2006 sem varaþingmaður og kom aftur inn á þing sem slíkur árið 2008. Hún hefur því rúmlega fimm ára reynslu sem þingmaður nú þegar hún tekur sæti félags- og húsnæðisráðherra.
Menntun og starfsreynsla:
Guðbjartur hefur aflað sér nokkuð fjölbreyttrar menntunar á sviði kennslufræða og skólamála. Hann var 21s ár þegar hann útskrifaðist með grunnskólakennararéttindi frá Kennaraháskóla Íslands. Sjö árum síðar lauk hann tómstundakennarapróf frá Seminariet for Fritidspædagoger í Vanløse í Danmörku. 41s árs settist Guðbjartur aftur á skólabekk og þá í framhaldsnám í skólastjórnun við Kennaraháskóla Íslands. Hann var skráður í þetta nám næstu þrjú árin. Síðast lauk hann svo meistaraprófi frá kennaraskóla Lundúnaháskóla (Institute of Education, University of London) árið 2005, þá 55 ára.
Í framhaldi af kennaraprófinu frá Kennaraskólanum kenndi Guðbjartur við Grunnskóla Akraness í þrjú ár en varð þá erindreki Bandalags íslenskra skáta næstu tvö árin. Eftir að hann lauk tómstundakennaraprófinu var hann kennari í Kaupmannahöfn í eitt ár en sneri þá aftur heim til kennslu við Grunnskóla Akraness. Eftir samtals fimm ára kennslu við skólann varð hann skólastjóri hans, þá 31 árs að aldri. Skólastjórastöðunni gegndi hann í 26 ár eða þar til hann var kjörinn inn á þing árið 2007. Guðbjartur var 57 ára þegar hann var kosinn inn á þing fyrir Samfylkinguna.
Eygló varð stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti tvítug. Átta árum síðar lauk hún Fil.kand.-prófi í listasögu frá Stokkhólmsháskóla. Árið 2007 var Eygló skráð í nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Ári eftir að Eygló útskrifaðist úr listasögunni var hún ráðinn framkvæmdastjóri Þorsks á þurru landi ehf. og er skráð sem slíkur næstu átta árin. Hún hefur þó unnið ýmis störf samhliða. Árin 2003 til 2004 var hún skrifstofustjóri Hlíðardals ehf. Næstu tvö ár var hún viðskiptastjóri Tok hjá Ax hugbúnaðarhúsi hf. þá framkvæmdastjóri Nínukots ehf. í tvö ár og síðast verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands árið 2008.
Eygló var 34 ára þegar hún settist fyrst inn á þing sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í u.þ.b. tvo mánuði. Þegar Guðni Ágústsson sagði af sér þingmennsku 17. nóvember 2008 tók Eygló sæti hans en hún var 37 ára þegar hún var kosin inn á þing í fyrsta skipti.
Stjórnmálatengd störf og nefndarsetur:
Guðbjartur sat í bæjarstjórn og bæjarráði Akraness í 12 ár. Á þeim tíma var hann tvisvar sinnum formaður bæjaráðs, eða alls í fimm ár, og þrisvar sinnum forseti bæjarstjórnar, eða alls í þrjú ár. Á sama tíma sat Guðbjartur líka í fjölda stjórna og nefnda á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt.
Þessi þáttur í ferilskrá Guðbjarts nær frá því að hann varð skólastjóri Grunnskóla Akraness til þess að hann var kosinn inn á þing. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskráar hans eru skóla- og félagsmál ungmenna. Allan tímann sem Guðbjartur er skólastjóri Grunnskólans á hann sæti í einni til tólf stjórnum eða ráðum. Flest sæti af þessu tagi átti hann á þeim tíma sem hann var í bæjarstjórnarmálunum á Akranesi auk þess að stýra grunnskólanum þar.
Á þessum tíma átti Guðbjartur 9 nefndar- og stjórnarsæti að meðaltali á ári; þ.e. á árunum 1986 til 1998. Stjórnirnar og nefndirnar þar sem Guðbjartur átti sæti urðu flestar árin 1994 og 1998 eða 12 talsins. Árið 1994 átti hann sæti í eftirtöldum stjórnum og nefndum:
Í bæjarstjórn Akraness 1986-1998.
(Forseti bæjarstjórnar þrisvar sinnum. M.a. 1994-1995.)
Í bæjarráði 1986-1998.
Í ýmsum framkvæmdanefndum um byggingu Grundaskóla og leikskólans Garðasels 1981-2001.
Fulltrúi skólastjóra í skólanefnd Akranesbæjar 1981-2007.
Fulltrúi á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 1986-1994.
Í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1986-1998.
Í stjórn Rafveitu Akraness tvisvar sinnum. Í seinna skiptið 1994-1995.
Í stjórn Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar 1994-1998.
Í samstarfsnefnd um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar 1990-1996.
Í starfshópi um vinnu við mótun markmiða og stefnu í málefnum leikskóla á Akranesi 1992-1994,
í samstarfsnefnd um mótun tillagna um uppbyggingu og rekstur íþróttamannvirkja á Akranesi 1993-1994.
Í stjórn útgerðarfélagsins Krossavíkur hf. 1994-1996.
Árið 1998 átti Guðbjartur aftur 12 stjórnar- og nefndarsæti. Sex þeirra voru þau sömu og árið 1994. Hinn helmingurinn var nýr. Þar á meðal var hann formaður Akraneslistans, sem var forveri Samfylkingarinnar á Akranesi skv. því sem segir hér. Hann gegndi þessu embætti frá árinu 1998 til 2000. Þegar Guðbjartur komst ekki að í bæjarstjórnarkosningunum á Akranesi fækkar nefndar- og stjórnarsetum hans verulega. Eina staðan sem hann heldur á sviði stjórnmála fram til þess að hann er kosinn inn á þing er sú að hann er fulltrúi skólastjórnenda í skólanefnd Akranesbæjar.
Það er þó rétt að benda á að skv. því sem kemur fram hér sat hann í miðstjórn og framkvæmdastjórn Alþýðubandalagsins og gegndi þar formennsku. Það kemur ekki fram hvenær þetta var eða hversu lengi. Því má svo bæta við að eftir að bæjarstjórnarferli Guðbjarts lauk var hann í bankaráði Landsbanka Íslands í fimm ár eða frá árinu 1998 til 2003 og bankaráði Heritable-bankans í London (eign Landsbankans síðan 2000) í eitt ár eða frá 2002 til 2003.
Eygló hóf þennan hluta ferils síns árið 2001 og hefur alls átt sæti í 15 stjórnum og ráðum. Flest á árunum 2003 til 2009 eða sjö til tíu á ári. Árið 2004 var metár hjá henni en þá átti hún sæti í tíu stjórnum og ráðum sem eru eftirtalin:
Í stjórn Þorsks á þurru landi ehf. 2001-2009.
Í skólamálaráði Vestmannaeyja 2003-2004.
Varamaður í félagsmálaráði Vestmannaeyja 2003-2005.
Ritari í stjórn kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi 2003-2007.
Í stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja 2003-2006.
Í stjórn Náttúrustofu Suðurlands 2003-2006.
Í stjórn IceCods á Íslandi ehf. 2003-2013.
Í miðstjórn Framsóknarflokksins síðan 2003.
Í stjórn Visku, fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar, 2004-2006 og 2008-2009.
Gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja 2004-2010.
Árið 2003 byrjar Eygló að feta sig upp pólitíska metorðastigann. Auk sætis í skólamálaráði og varamannssætis í félagsmálaráði Vestmannaeyja verður hún ritari í stjórn kjördæmissambands framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi og gjaldkeri í Framsóknarfélagi Vestmannaeyja þetta ár. Hún hefur líka verið í miðstjórn Framsóknarflokksins frá árinu 2003.
Hún var ritari í stjórn Landssambands framsóknarkvenna á árunum 2007-2009 og í beinu framhaldi ritari Framsóknarflokksins sem er núverandi staða hennar innan flokksins ásamt því að eiga sæti í miðstjórn hans. Þess má svo geta hér að hún hefur verið formaður verðtryggingarnefndar frá árinu 2010 en nefndin hefur það hlutverk að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi.
Þingstörf og nefndarsetur á vegum þess:
Guðbjartur kom nýr inn á þing vorið 2007, þá 57 ára gamall. Hann situr inni á þingi fyrir Samfylkinguna sem þingmaður Norðvesturlands. Hann hefur setið á þingi í 6 ár. Á þessu tímabili hefur hann átt sæti í fjórum þingnefndum. Þ.á m. sat hann í félags- og tryggingamálanefnd á árunum 2007 til 2010. Árið 2009-2010 var hann formaður hennar.
Eygló kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður Suðurkjördæmis í upphafi árs 2006. Hún var þá 34 ára. Undir lok ársins 2008 tók hún sæti Guðna Ágústssonar í tilefni þess að hann sagði af sér bæði þingmennsku og formennsku í flokknum. Hún hlaut svo kosningu sem þingmaður vorið 2009, þá 37 ára. Í síðustu kosningum átti hún sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Eygló hefur setið á þingi í 5 ár.
Þennan tíma hefur átt sæti í u.þ.b. níu nefndum eða þremur á hverjum þingári. Þ.á m. átti hún sæti í heilbrigðisnefnd fyrst eftir að hún kom inn á þing sem varaþingmaður Guðna og velferðarnefnd þingárið 2011-2012.
Ráðherraembætti:
Guðbjartur var skipaður félags- og trygginga- og heilbrigðisráðherra 2. september 2010. Ráðuneytin voru svo sameinuð 1. janúar 2011 og við það tilefni varð embættisheitið velferðarráðherra. Guðbjartur gegndi þessu embætti til loka síðasta kjörtímabils. Hann hafði setið í þrjú ár á þingi þegar hann var skipaður til embættisins. Guðbjartur var 60 ára þegar hann tók við Heilbrigðisráðuneytinu (sjá nánar hér).
Eygló er nýr félags- og húsnæðismálaráðherra en þetta er í fyrsta skipti sem húsnæðismálunum er gefin sá gaumur að þau koma sérstaklega fyrir í embættisheiti ráðherra. Tíminn á eftir að leiða það í ljós hvaða þýðingu þetta hefur fyrir málefnið. Eygló hafði setið í fimm ár þegar hún var skipuð ráðherra í nýrri ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Hún var 41s árs þegar hún tók við embætti félags- og húsnæðismálaráðherra (sjá nánar hér)
Samantekt
Guðbjartur og Eygló eiga ekkert sameiginlegt þegar menntun þeirra er skoðuð. Hann fer í Kennaraskólann og lýkur þaðan prófi þegar hann er 21s árs. Hún útskrifast sem stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti tvítug.
Samkvæmt ferilskrá Guðbjarts hefur hann verið að bæta við sig námi á sviði kennslu og skólastjórnunar fram til ársins 2005 þegar hann tekur meistarapróf frá kennaradeild Lundúnaháskóla. Samkvæmt ferilskrá Eyglóar er hún með kandídatspróf í listasögu en hefur síðan bætt við sig einhverju námi í viðskiptafræði við Háskólann.
Guðbjartur og Eygló eiga líka fátt sameiginlegt þegar kemur að starfsreynslu utan þings. Guðbjartur vann við virkjana- og verksmiðjustörf samhliða námi. Ekki er getið um slíkt í ferilskrá Eyglóar. Eftir að hún lýkur prófinu í listasögunni starfar hún í átta ár sem framkvæmdastjóri seiðaeldisstöðvarinnar Þorsks á þurru landi ehf.
Samhliða þessu starfi hefur hún sinnt ýmsum störfum sem í fljótu bragði er ekki að sjá að tengist menntun hennar né að þau byggi undir þekkingu í þeim málaflokkum sem henni hefur verið trúað fyrir af formönnum núverandi ríkisstjórnarflokka. Eins og áður hefur komið fram var Guðbjartur kennari í sex ár áður en hann varð skólastjóri við Grunnskóla Akraness. Því embætti gegndi hann í 16 ár.
Eins og fram kom hér að framan hefur Guðbjartur 12 ára reynslu af bæjarstjórnarmálum. Samkvæmt ferilskrá hans hefur hann setið í fjölmörgum nefndum og ráðum á sviði stjórnsýslu og ákvarðanatöku sem varða ýmist nærumhverfið eða samfélagið allt. Áberandi þáttur í þessum hluta ferilskrár Guðbjarts eru skóla- og tómstundamál ungmenna.
Samkvæmt ferilskrá Eyglóar hefur hún átt sæti í ráðum á vegum bæjarráðs Vestmannaeyja frá 31s árs aldri eða frá sama tíma og hún kemst til áhrifa innan Framsóknarflokksins. Uppgangur hennar innan flokksins hefur verið hraður og málaflokkarnir sem henni hefur verið treyst fyrir eru afar fjölbreyttir. Ekkert þessara starfa tengist hins vegar núverandi stöðu hennar ef frá er talin varamannstaða hennar í félagsmálaráði Vestmannaeyja í tvö ár.
Guðbjartur hefur setið inni á þingi frá árinu 2007 eða frá 47 ára aldri. Eygló kom fyrst inn á þing sem varaþingmaður þremur árum eftir að hún byrjaði að hasla sér völl innan Framsóknarflokksins. Frá árinu 2008 hefur hún átt þar fast sæti eða frá 36 ára aldri.
Síðan bæði komu inn á þing hafa þau átt sæti í nokkrum nefndum. Þar má telja að Guðbjartur Hannesson var formaður í félags- og tryggingamálanefndar í tvö ár eða frá árinu 2007 til 2009 en Eygló hefur verið formaður nefndar sem var skipuð árið 2010 af síðustu ríkisstjórn til að kanna forsendur verðtryggingar á Íslandi. Það gefur þó væntanlega auga leið að hvorugt getur þó talist sérfræðingar í þeim brýnu og umfangsmiklu málefnum sem snerta velferðarmál eins og félagsþjónustuna og húsnæðismál þjóðarinnar.
Í fljótu bragði er ekki að sjá að ferilskrá Guðbjarts og Eyglóar eigi annað sammerkt en að þar er fátt að finna sem bendir til að þau búi yfir nauðsynlegri þekkingu eða reynslu sem útskýrir það hvers vegna þau þykja líkleg til að ráða best fram úr þeim málaflokkum sem heyra undir það ráðuneyti sem Guðbjarti var falið að stýra í síðustu ríkisstjórn og Eygló í þeirri núverandi.
Það má vera að einhverjum þyki þetta þungur dómur en þegar það er haft í huga að hér er um að ræða jafn afgerandi málaflokka eins og þá hvort og hvernig félagsþjónustan virkar og það hvernig verður farið með þann forsendubrest sem húsnæðiskaupendur urðu fyrir við bankahrunið haustið 2008 þá getur það varla talist annað en eðlileg krafa að sá sem fer með þessa málaflokka hafi ekki aðeins kjark til að vinna að þeim almannahagsmunum sem kjósendur ætla ráðherrum að standa vörð um og knýja áfram.
Þekking og reynsla skipta ekki aðeins máli til að byggja undir kjarkinn og staðfestuna sem þarf til að verja heimili landsmanna og mannsæmandi kjör þeirra verst settu. Hún er grundvallaratriði til að setja fram hugmyndir að færum leiðum sem virka til að gera slíka vörn mögulega. Þegar hún er ekki fyrir hendi er hætt við að aðrir og sértækari hagsmunir ráði ferðinni.
Helstu heimildir
Ríkisstjórnir og ráðherrar frá 1904-1942
Ríkisstjórnartal frá stofnun lýðveldis
Ráherraskipan í síðara ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttir
Ráðherrar í núverandi ríkisstjórn
Þjóðarpúls Callups frá 6. október 2009: Ánægja með störf ráðherra (fyrsta könnun)
Þjóðarpúls Gallups 10. janúar 2013: Ánægja með störf ráðherra
Skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands - Samhent stjórnsýsla (13.12.2010)
Ný lög um Stjórnarráð Íslands (19.09.2011)
Skipting málefna á milli ráðuneyta (ráðuneyti Sigmundar Davíðs)
Krækjur í ýmis lög sem heyra undir félags-, trygginga- og húsnæðismál:
Lög um skyldu skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfssemi lífeyrissjóða (frá desember 1997)
Lög um málefni aldraðra (frá desember 1999)
Lög um almannatryggingar (frá maí 2007)
Breytingar á lögum sem varða samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða (frá september 2011)
Breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra (frá júlí 2013)
Lög um málefni fatlaðra (frá júní 1992)
Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (frá apríl 2006)
Breytingar á lögum um málefni fatlaðra (desember 2010)
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga (frá mars 1991)
Lög um félagslega aðstoð (frá maí 2007)
Breytingar á m.a. lögum um félagslega aðstoð (frá september 2011)
Lög um húsnæðismál (frá júní 1998)
Árna Páls lögin (frá desember 2010)
Lög um umboðsmann skuldara (frá desember 2010)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.