Um baráttu góðs og ills á páskum
8.4.2012 | 05:55
Fyrir margt löngu skrifaði ég bloggfærslu sem ég nefndi: Baráttu góðs og ills. Þetta var undir lok ársins 2008. Nú rúmum þremur árum síðar finnst mér ástæða til að endurskrifa hana inn í núverandi aðstæður. Þegar upp er staðið er það þó einkum endirinn sem er annar.
Það hafa margar sögur um alls kyns spill- ingu gengið um í samfélaginu á undan- förnum árum. Ýmsir auðmenn og reyndar stjórnmálamenn líka hafa verið þar í aðalhlutverki. Eftir bankahrunið óx þessum sögnum svo sannarlega fiskur um hrygg og sífellt fleiri koma við þessar ljótu spillingarsögur.
Fyrst eftir hrun voru fáir í þeirri aðstöðu að meta sannleiksgildi þessara sagna. Allmargir voru sér þó meðvitaðir um það að dýpt kreppunnar hér á landi og þögn yfirvalda þar um væri ekki einleikin. Eitthvað hlyti að liggja að baki. Eitthvað sem væri svo stórt og ljótt að það þyldi ekki að vera dregið fram í dagsljósið. Margir gerðu sér líka grein fyrir því að það þurfti virka og sterka þöggunar- og felublokk til að hylma yfir ástæður og gerendur svo stórvægilegra athafna að þær leiddu til hruns heils samfélags.
Smátt og smátt hafa fleiri og fleiri atvik heildarmyndarinnar verið dregin fram. Stærsti þátturinn þar er Rannsóknarskýrslan sem þjóðinni var lofað að myndi leiða til uppgjörs. Uppgjörs sem myndi grundvalla nýtt upphaf. Það eru væntanlega fleiri en sú sem þetta ritar sem eru orðnir langeygðir eftir efndunum. Flestir eru sennilega líka orðnir útkeyrðir af því að brjótast áfram í villunum sem hefur verið dælt yfir þjóðina í kjölfarið í gegnum ýmis konar miðla.
Sumir sem reyndust traustir áttavitar fyrst eftir hrun hafa umskipst í blindsker. Margir þessara töluðu skynsamlega um byltingarkenndar breytingar fram til vors 2009 en í kjölfar kosninganna, sem var uppskera Búsáhaldabyltingarinnar, hafa þeir orðið að helstu málpípum nýrrar áhafnar á sama dalli og þeir kepptust við að rífa niður áður. Það hefur vissulega verið dapurlegt að horfa upp á það að þessir skuli styðja helstefnu laskaðrar þjóðarskútu fyrir það eitt að þeirra lið yfirtók stýrishús hennar.
Það sem hefur verið hvað athyglisverðast er að allan þennan tíma hefur enginn þeirra sem ber raunverulega ábyrgð á hruninu stigið fram og viðurkennt hana. Það sem hefur þó vakið mesta furðu í þessu sambandi er það hvernig þeir sem hafa verið kallaðir til hennar hafa langflestir komist upp með það að sverja sig frá allri slíkri ábyrgð. Oft á svo ósvífinn hátt að alla setur dumbrauða undir og margir kreppa hnefa um skriffæri eða hamra á lyklaborð í djöfulmóð. En orð mega sín lítils gegn siðleysinu. Espa það aðeins upp ef eitthvað er.
Þrátt fyrir að það liggi í augum uppi að fjárglæfrastarfsemi nýfrjálshyggju- gosanna hafi steypt krónunni til helvítis þá á enginn að sæta neinni alvöru ábyrgð fyrir það. Fyrst eftir hrun voru skilaboðin til þjóðarinnar þau að það væri ekki rétti tíminn til að finna sökudólga! Enn spyrja margir: Hvenær? ef ekki þá? ... svo fyrnast sakir. Grafast í ari tímans og gleymast undir ryklagi alls moldviðrisins sem þyrlað hefur verið upp á undan- förnum þremur árum til að flýta fyrir sigurverki tímans.
Það sem mér og sennilega mörgum fleirum hefur þótt furðulegast í öllum þessum hildarleik er það hvað þessu liði gengur til? Hvers vegna axlar enginn ábyrgð á því sem átti sér stað innan fjármálastofnananna í landinu? Hvers vegna virka fjölmiðlanir ekki betur? Hvers vegna þegir dómsvaldið og framkvæmdavaldið? Hvers vegna varð uppgjörið við hrunið ekki forgangsmál þingheims sumarið 2009? Af hverju neitaði ríkisstjórnin að víkja þegar hún reyndist ófær um að takast á við það loksins þegar uppgjörið komst á dagskrá haustið 2010?
Hvað eru þessir aðilar að verja? Sekt? Samsæri? Meðvirkni? Heimsku? Getuleysi? Dómgreindarskort? Siðspillingu? Sjö syndir, og sennilega enn fleiri sem mig skortir hugmyndaflug til að draga fram, binda þöggunar- og felublokkina saman, og gegn hverjum? Almenningi, sem er svo sleginn að andlegu ástandi hans má líkja við afleiðingar alvarlegs áfalls sem kemur fram m.a. í kjölfar loftárása og annarra stríðsógna. Og erum við ekki í stríði?
Fyrir hrun héldu ábyggilega allflestir að ríkisstjórnin væri í vinaliðinu með almenningi og stæði vörð um hagsmuni hans. En annað kom á daginn. Ríkisstjórninn reyndist óvinur almennings í landinu. Sú sem tók við hefur sýnt sig í að vera í því liðinu líka. Hún starfar alls ekki í þágu almennings og ber ekki hagsmuni hans fyrst og síðast fyrir brjósti. Þvert á móti ver hún þá sem brutu gegn þjóðarhagsmunum. Það lítur líka út fyrir að stærstur hluti stjórnmálastéttarinnar sé ekki bara sekur um yfirhylmingu og samsekur glæpamönnunum þess vegna. Heldur eru þeir sennilega líka sekir um sams konar glæpi og útrásarklíkan. Enda tilheyra þeir henni og starfa leynt og ljóst í hennar þágu og hennar hagsmuna. Það er líka hún sem tryggir þeim völdin.
Þjóðin á því ekki bara í baráttu við þá sem spilltu fortíðinni, rústuðu nútíðinni og standa í vegi fyrir framtíðinni heldur berst hún við ill eyðingaröfl. Meinsemdin sem hefur sest að í hugum þeirra, sem verja völd sín og vinaklíkurnar sínar með þessum hætti, er græðgin. Sjúklingarnir sem við sitjum uppi með eru svo gersamlega á hennar valdi að þeir eru orðnir þrælar hennar. Fíknin í auð og meiri auð og spennuna sem hann skapar hefur firrt þessa einstaklinga dómgreindinni. Ef þessi sjúklingahópur tapar er fjörið búið og það má ekki verða. Það er engin framtíðarhugsjón sem stýrir gjörðum þeirra heldur skammtímasjónarmið helguð af peninga- og valdagræðgi.
Hvar er almenningur í þessari mynd? Hann borgar upp áhættufjármagnið sem tapaðist sama hvað það kostar. Almannaheill er fórnað á altari græðginnar. Það verður að fórna öllu og öllum til að bjarga eigin skinni og halda uppi samsærinu. Hugsun græðgisfíklanna innan ríkisstjórnarinnar er mjög líklega þessi: Ef vinur minn tapar forréttindastöðu sinni kjaftar hann frá mér og það ríður mér að fullu! Það er þess vegna engin spurning hverjum verður fórnað, fyrir hvern og hvers vegna!
Almenningur er fórnarlambið. Við höfum færst aftur á tíma lénsveldisins og fáum alltaf frekari staðfestingar á því. Tekjur okkar og eignir voru settar að veði fyrir sýndarverðmæti fjármálastofnana og samsteypufyrirtækja. Við vorum og erum enn knúin áfram með auglýsingum og gylliboðum til að grundvalla þennan sýndarveruleika enn frekar og sumir bitu og bíta enn á agnið. Eru þeir sakamenn eða fórnarlömb? Ég held að þeir séu flestir fórnarlömb því ég reikna ekki með að þeir fái skuldirnar sínar afskrifaðar eða réttara sagt reiknaðar inn í vextina og verðtryggingarnar sem leggjast ofan á lán Jóns og Jónu eins og reyndin hefur verið varðandi afskriftir svokallaðra auðmanna.
Og þá er komið að stærstu spurningunum: Hvers vegna hefur almenningur ekki brugðist við með afgerandi hætti? Hvers vegna hefur hann ekki flykkt sér betur á bak við þá fáu sem hafa barist fyrir hann á undanförnum árum? Hvers vegna brýtur hann sig niður í fylkingar gegn hagsmunum sjálfs sín? Hvers vegna treystir hann enn þá á sundurlyndisraddir, falsspámenn og málsvara hvers kyns forréttindahópa?
Hér má auðvitað spyrja sig hverjir hafa staðið með almenningi? Áður en ég tel nokkra þeirra upp, sem hafa staðið með hagsmunum almennings með hvað skýrustum hætti undanfarin misseri, er rétt að ég taki það fram að það er mjög líklegt að ég gleymi einhverjum verðugum. Þeir sem ég man eftir í augnablikinu eru eftirtaldir: Andrea J. Ólafsdóttir, Gunnar Skúli Ármannsson, Gunnar Tómasson, Lilja Mósesdóttir, Marinó G. Njálsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Ómar Geirsson, Ragnar Þór Ingólfsson, Sturla Jónsson og Vilhjálmur Birgisson.
Ég bið ykkur sem lesið þetta að taka sérstaklega eftir því hvernig fjölmiðlar, alltof margir fésarar og sumar af öflugustu byltingarröddum Búsáhaldabyltingarinnar eru einmitt iðnin við að grafa undan akkúrat þeim sem hér eru taldir. Það er bæði himinhrópandi og sorgleg staðreynd að einmitt um þessar mundir hafa margar þessar raddir tekið sig saman og keppast um að tala niður eina valdhafann sem hefur staðið upp gegn ríkisstjórninni. Þ.e. forsetann sem stóð upp fyrir þjóðina og tryggði henni tækifæri til að kjósa um það hvort hún borgaði skuldir auðmannaklíkunnar sem ríkisstjórnin hefur margsannað að hún vinnur fyrir.
Áður en ég lýk þessum páskaskrifum um baráttu góðs og ills bið ég lesendur þessarar bloggfærslu að hafa hugfast hverjir eiga miðlana sem kosta áróðurinn gegn núverandi forseta. Ég bið ykkur líka að hafa hugfast að eins og er á þjóðin alltaf einn möguleika gegn ákvörðunum sitjandi ríkisstjórnar. Það er að forsetinn vísi endanlegri niðurstöðu hennar áfram til þjóðarinnar. Ólafur Ragnar hefur sýnt sig í að vera sá sem hefur styrkinn til þess að standa þannig með hagsmunum almennings í landinu.
Þess vegna er það fáránlegt ef þjóðin lætur sömu öflin og vildu að hún tæki á sig Icesaveskuldabaggann fífla sig til að kjósa eitthvað annað en manninn sem tryggði henni það að hún fékk að eiga síðasta orðið um það hvað hún vildi í þeim efnum. Látum skynsemina ráða og þiggjum boð Ólafs Ragnars um að standa með okkur gegn ríkisstjórn sem hefur margsýnt sig í að vinna á móti því sem kemur hagsmunum okkar best!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Facebook
Athugasemdir
Rakel, þetta er mjög góð grein hjá þér og ég er sammála henni. Málið er bara það að fólk eins og ég stóð á Austurvelli í öllum veðrum í hvert einasta skipti sem fundur var haldinn, en eins og margir aðrir, þá furðaði ég mig á því hversu fáir væru mættir. Þegar gay-pride eða slíkur viðburður er haldinn þá mæta margir tugir þúsunda í bæinn, jafnvel um hundrað þúsund manns. Þegar mikilvægur fundur er haldinn í bænum sem snýst um kjör almennings mæta nokkur hundruð manns. Ég hef búið erlendis í mörg ár og ég fullyrði það að engin þjóð myndi láta bjóða sér verðtryggingu á borð við þessa sem við búum við. Að fjölskyldur með börn á famfæri skulu vera látin bæta fjármagnseigendum upp hækkanir á sköttum, tóbaki, brennivíni o.s.frv. Engin þjóð lætur þegna sína bæta fjármagnseigendum upp hækkanir á olíuverði á heimsmarkaði sem dæmi. Íslendingar eru með þrælslund. Þegar einhver ætlar að ræða óréttlætið á vinnustöðum þá er gjarnan sagt "verðum ekki að ræða neikvæða hluti, tölum um eitthvað skemmtilegt". Íslendingar fara frekar í Kringluna og Smáralind en að berjast fyrir réttlæti. Fólk flykkist á leiksýningar og tónleika en nennir ekki að ræða "neikvæða hluti" þótt að málið snúist um grundvallarframfærslu barna þeirra. Verkalýðshreyfingin á Íslandi er gjörspillt batterí sem hleður undir sjálft sig. Menn með engar hugsjónir sem lifa eins og greifar og láta verðtrygginguna malla sjálfvirkt. Þeir þurfa ekki að gera neitt. Lífeyrissjóðsforstjórarnir með milljónir á mánuði halla sér aftur á bak og slaka á eða fara í laxveiði á sínum eðaljeppa, og láta fjármálakerfið sjálfkrafa sjá um ávöxtun sjóðanna. Þeir þurfa ekki að gera neitt, það þarf ekki að sýna neina ráðdeildarsemi. Gylfi Arnbjörnsson er helsti talsmaður víðtækrar verðtryggingar á allt fjármagn nema laun. Hvers vegna heldur þú að það sé Rakel?? Þetta er svo þægilegt. Að láta skuldugan almenning sjá um þetta fyrir þá. Elítan verður áfram rík og valdamikil á Íslandi, þessi "vinstri stjórn" brást okkur, hún þorði ekki að taka á þessu. Þrátt fyrir allt tal um "jöfnuð" þá sé ég engan jöfnuð hérna, ójöfnuðurinn er gríðarlegur og fer vaxandi í boði þessara stjórnvalda. Ekki mun taka betra við þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eru farin að stjórna landinu aftur og skipta gæðunum milli sín.
Margret S. (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 11:29
Þakka þér fyrir þitt langa og ýtarlega innlegg, Margrét. Ég ætla að taka það fram að ég treysti mér ekki til að svara öllu því sem þú víkur að í einu innleggi en fagna því að þú hefur gefið mér innlegg í nokkrar bloggfærslur til viðbótar.
Þú víkur nefnilega að mjög mörgu sem mætti kenna við þá stjórnmálakreppu sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð. Reyndar ekki bara hér á Íslandi heldur miklu víðar á jarðarkringlunni. Ég þori auðvitað ekkert að fullyrða um það hvort eitthvað af því sem þú nefnir er séríslenskt en þó þykir mér þöggunin sem þú nefnir að ríki m.a. á vinnustöðum líkleg.
Ég kannast sjálf afar vel við þessa þöggun. Ekki aðeins í sambandi við pólitík heldur kjaramál og annað sem lýtur að réttindum hvers konar og má eflaust öll setja undir einn og sama hattinn. Þ.e.a.s. pólitík.
Eins og ég vík að í bloggfærslunni, sem varð þér tilefni að þessum hugleiðingum þínum, þá grunar mig staðfastlega að fjölmiðlar eigi sorglega stóran þátt í þeirri atferlis- og skoðanamótun sem kemur fram í því sem þú bendir á.
Í nóvember sl. bloggaði ég um þetta efni í færslu sem ég nefndi: „Að horfa undan því sem máli skiptir“ þar sem ég benti m.a. á atferlismótun kaþólsku kirkjunnar sem viðhélt aflátssölu hennar til fjölda ára. Á þeim tíma „ráku“ eigna- og valdablokkirnar myndlistamenn til að miðla nauðsynlegum áróðri til að viðhalda hugmyndinni um himnaríki og helvíti. Kirkjan hélt svo reglulega fyrirlestra um það hvaða atferli leiddi fólk til himnaríkis.
Núna gegnir sjónvarpið og aðrir miðlar því hlutverki að „selja“ fólki skoðanir og það atferli sem viðheldur stöðu eigna- og valdastéttarinnar. Sundrung, vonleysi og vantrúin á það að hvert og eitt okkar geti gert eitthvað til að hafa áhrif er þáttur í því.
Vona að þú sést sátt við að ég svari þér ýtarlegar síðar. En það verður hér á þessu bloggi. Hvernig lýst þér á að ég nefni meginfærsluna: Svar til Margrétar?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 8.4.2012 kl. 13:31
Takk fyrir svarið Rakel og já, mér líst vel á að þú skrifir meira um þetta mál síðar og mátt gjarnan kalla meginfærsluna: "Svar til Margrétar", ef þú vilt :-)
Margret S. (IP-tala skráð) 9.4.2012 kl. 09:19
Innilega sammála þér Rakel og gott innlegg frá Margréti líka.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.4.2012 kl. 16:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.