Að horfa undan því sem máli skiptir

PáfavaldMörgum gengur illa að taka afstöðu til þess sem snertir samtíð þeirra en eiga ekki í neinum vandræðum með að fella dóma um fortíðina. Þannig eru langflestir reiðubúnir til að áfellast ægivald kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Flestir þekkja þessa sögu m.a.s. svo vel að þeir eru sér fullkomlega meðvitaðir um að vald hennar byggðist á því að viðhalda ótta.

Kaþólska kirkjan ræktaði leiðtogahlutverk sitt með útsmoginni nákvæmni á útlistunum á ógurlegum ógnum helvítis. Það var mikið í húfi því á hugmyndinni um helvíti byggði hún ekki aðeins auð sinn heldur stýrðu fulltrúar hennar samfélaginu í krafti þeirra valda sem sá auður færði þeim. Allir sem þekkja sögu kaþólsku kirkjunnar á miðöldum vita að hér er ekki síst verið að vísa til aflátssölunnar.

Þá eins og nú gegndi áróðurinn meginhlutverki í blekkingarleiknum sem var viðhafður í samskiptum valda- og eignastéttarinnar við almenning. Á miðöldum var kirkjan í sama hlutverki og fjölmiðlar nú. Prestarnir unnu með veraldlegum valdhöfum að því að setja almenningi lífsreglurnar. Í dag er það aðallega sjónvarpið sem hefur það hlutverk að hafa stjórn á háttalagi fólks.

Ég geri ráð fyrir að flestir séu það vel að sér í sögu að þeir viti að vagga menningarinnar á miðöldum stóð í Róm. Eigna- og valdastéttin á þeim tíma kunni nefnilega ekkert síður en Berlusconi nútímans að tryggja sér völd og hóglífi í gegnum fjölmiðla þess tíma. Líkt og fjármálastéttin nú hefur lagt undir sig fjölmiðlana í þeim tilgangi að gera almenning að gæfum vinnudýrum sem skapar þeim auð þá keypti fjármálastéttin á miðöldum málara til að vinna að sömu markmiðum.

Á þeim tíma var málverkið einn áhrifaríkasti miðillinn og auðvitað kunni 1%-ið að hagnýta sér það til að stýra hinum 99%-unum til að þau fullnægðu drottnunargirni þess og öðrum annarlegum hvötum.

Áróðursmiðill miðalda

Málverkið hér að ofan er eftir ítalskan málara sem var uppi á árunum (1387-1455).

Á miðöldum var kaþólska kirkjan framvörður eigna- og valdastéttarinnar. Hennar hlutverk var að stýra almenningi til skilyrðislausrar hlýðni við að vinna henni í sveita síns andlitis. Í dag eru aðrar stofnanir samfélagsins teknar við því hlutverki eða eins og segir í Sögu mannkyns:

Tæknileg og vísindaleg þekking nútímans hefur rutt úr vegi mörgum þeim vandamálum sem voru óviðráðanleg og menn leituðu hjálpar við í trúarbrögðunum. Nútímaríkisvald með lögreglu sinni, fjölmiðlum og skólum hefur miklu meiri tök á því að stjórna einstaklingum en miðaldaríkisvaldið hafði. Þess vegna var kenning kirkjunnar, helgisiðir og ögun, miklu mikilvægari til að stjórna einstaklingum miðaldasamfélagsins. (6. bd. bls. 222)

Að lokum langar mig til að benda á að það er afar fróðlegt að slá inn leitarorðinu: Top 10 Worst Popes in History. Við lesturinn er líka gagnlegt að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Hvers vegna eiga svo margir auðvelt með að taka afstöðu til fortíðarinnar? og hvort það skiptir ekki meira máli að taka afstöðu til samtíðarinnar en þess sem er löngu liðið?


mbl.is Björn gefur ekki upp afstöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ágæt grein og umhugsunarverð. Takk.

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.11.2011 kl. 02:39

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Satt er það Rakel, fjarskinn er bæði blár og sár,maðurinn mun ekkert breytast um ókomin ár.

Helga Kristjánsdóttir, 4.11.2011 kl. 04:17

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Góð samantekt, en það er líka áhugavert að skoða hana í ljósi þess. Síðasta valdastétt á Íslandi voru útrásarvíkingarnir, völdin voru farin frá pólistíkusunum yfir til  auðmannana. Auðmennirnri vildu hins vegar hafa ákveðna pólitíkusa í vasanum. Einn þeirra Jón Ásgeir ákvað að hafa þrjá valdaþætti í einni og sömu hendi, fyrirtækin þ.m.t. banki, fjölmiðla og stjónmálin. Honum tókst að ná valdi á einum flokki Samfylkingunni sem í staðinn varði hann með odd og egg. Enn þann dag í dag hefur Jón Ásgeir völdin í fjölmiðnum og stjórnar umræðunni.

Sigurður Þorsteinsson, 4.11.2011 kl. 09:09

4 Smámynd: hilmar  jónsson

Góður pistill.

hilmar jónsson, 4.11.2011 kl. 10:55

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir innlegg og athugasemdir. Auðvitað var þetta skrifað í þeirri von að þetta vekti til umhugsunar.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 4.11.2011 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband