Að einkavæða skuldirnar og þjóðnýta tapið

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í gær og mér þykir við hæfi að tengja hana við þessa frétt. Ég tek það fram að fréttin sló mig verulega þar sem Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, hefur ekki tjáð sig fyrr um það sem fram hefur farið í samfélaginu frá hruninu haustið 2008. Það hefur hún ekki gert þrátt fyrir að á hana hafi verið gengið en hún kýs að gera það nú degi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um þetta viðkvæma Icesave-mál.

Frá bankahruninu haustið 2008 hefur það blasað við öllum sem vilja skilja að krafa fjármálaelítunnar á kostaða stjórnmálastétt er sú að hún tryggi það að gróði hennar verði einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þetta er kjarni þess sem skilur að hinar andstæðu fylkingar sem hafa verið kenndar við JÁ-ið og NEI-ið.

Einhverjir hafa reynt að halda því fram að Icesave-málið sé alltof flókið fyrir „venjulegt“ fólk að skilja. Ég bið fólk um að varast slíkan áróður. Í reynd snýst málið fyrst og síðast um tvo andstæða póla sem má kalla A og B.  

A) Snýst um það hvort hagsmunir fjármagnseigenda eru settir á oddinn með því að herða að kjörum almennings í gegnum skatta- og velferðarkerfið.

B) Snýst um það hvort réttlætið verður látið ráða ríkjum þannig að sömu lög gildi um hvítflibbaglæpi og aðra auðgunarglæpi eins og bókhaldssvik og innbrot.

Það er okkar almennings að gera upp hug okkar hvað þetta varðar. Ef við segjum JÁ erum við þar með að viðurkenna að almenningi beri að taka á sig skuldir einkafyrirtækja en ef við segjum NEI erum við að kalla eftir því að þeir sem stofnuðu til Icesave-skuldanna verði látnir bera tjónið af sinni glæfrastarfsemi sjálfir.

Ég bið kjósendur að hafa það hugfast að íslenskur almenningur nýtur þeirra öfundsverðu forréttinda að fá að segja til um það sjálfur hvort hann tekur á sig skuldir einkabanka, eins og Landsbankans, eða ekki. Ég bið kjósendur jafnframt að taka sérstaklega eftir því að þeir sem reka stífan áróður fyrir því að almenningur eigi að bera byrðarnar af Icesave er sama eigna- og valdastéttin og leiddi okkur í hrunið haustið 2008.

Hér hefur nefnilega ekkert uppgjör farið fram þannig að það eru sömu spillingaröflin sem reyna að afvegaleiða okkur nú og þau sem töldu okkur trú um að allt væri í himnalagi í aðdraganda hrunsins. Það ætti öllum að vera í fersku minni hvert það leiddi samfélagið að taka mark á orðum þeirra þá.

Rakel Sigurgeirsdóttir, framhaldsskólakennari

og meðlimur í Samstöðu þjóðar gegn Icesave


mbl.is Vigdís styður samninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Vigdís er ein af Elítunni sem þarf ekki að hugsa um að eiga fyrir salti í grautinn út mánuðinn eins og margir samlandar hennar....  Hún ætti að skammast sín...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 9.4.2011 kl. 03:15

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég er eiginlega of miður mín yfir því að hún skuli hafia kosið þetta mál og þennan dag til að segja hvað henni finnst þannig að ég treysti mér tæplega til að segja fullkomlega hvað mér finnst.

Ég bar ótakmarkaða virðingu fyrir Vigdísi og reiknaði virkilega með því af henni að hún myndi standa með þjóðinni. Mér finnst það að stíga fram núna, degi fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, og gefa það út hvað henni finnst vera til þess eins fallið að hræra í hrelldri þjóð. Hefði raunar ekki skipt hvora hliðina hún hefði stutt.

Ef henni finnst að þjóðin hafi eitthvað með hennar afstöðu að gera þá hefði hún mátt koma fram mörgum sinnum fyrr og segja hvaða afstöðu hún hefur til hrunvaldanna, Icesave, aðildarviðræðanna um ESB, stöðugleikasáttmálann, aukið atvinnuleysi, gjaldþrot heimilla og fyrirtækja í landinu, landglóttann, sirkusinn niður á Alþingi, svikin kosningaloforð ríkisstjórnarinnar, dekur stjórnmálastéttarinnar við fjármagnseigendur, gjána milli þings og þjóðar ... og svo mætti lengi, lengi telja.

Ef hún vildi tjá sig um Icesave III þá lyktar það í hæsta máta undarlega að hún skuli kjósa að gera það undir lok síðasta dags fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir lok sama dags og greinar Michaels Hudsons og Evu Joly birtust...

Já, Vigdís hefur sett niður í mínum huga og mér finnst það virkilega miður að hún hafi komið þannig fram að ég geti ekki virt hana eins og áður.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 9.4.2011 kl. 03:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband