Raunhæfur möguleiki

Steingrímur J. Sigfússon er haldinn sömu blindu og aðrir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar. Þeir neita að viðurkenna það að þeir hafa hvorki getu eða burði til að gegna hagsmunum almennra kjósenda. Það kom reyndar í ljós strax eftir kosningarnar fyrir einu og hálfu ári síðan. Þá settu þeir ESB-aðildarviðræður og Icesave-samninginn í forgang fram yfir miklu nærtækari ógnir heimilanna í landinu! Það sér reyndar ekki fyrir endann á vitleysisgangi hvorugra þessara forgangsmála þeirra enn!

Með aðstoð Gylfa Arnbjörnssonar og Vilhjálms Egilssonar frysti þessi ríkisstjórn launaþróun í landinu í nafni svokallaðs stöðugleikasáttmála. Á sama tíma gerði ríkisstjórnin enga tilraun til þess að ná tökum á bönkunum sem áttu langstærsta þáttinn í því að setja efnahag landsins á hausinn.  Bankarnir voru þó í ríkiseign þannig að ef einhver raunverulegur áhugi var fyrir því að leiðrétta kjör almennings og koma honum um leið undan því að bera einum afleiðingarnar af hruninu þá höfðu þeir svo sannarlega tækifærið!

Í stað margumtalaðs gegnsæis voru bankarnir seldir í lokuðu ferli til aðila sem grunur leikur á að séu jafnvel þeir sömu og áttu þá áður. Þeir eru a.m.k. engu betri enda ljóst að starfshættir og siðferði bankanna hafa ekkert breyst. Á sama tíma og margra milljarða lán helstu velgjörðarmanna gömlu eigendanna eru afskrifuð með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir aðra viðskiptavini bankanna standa þeir í vegi fyrir leiðréttingu á lánum almennra lántakenda vegna þess forsendubrests sem urðu á lánasamnigum þeirra fyrir gjörðir gömlu eigendanna.
Hrunverjabankarnir 

Bankar og stjórnsýsla hafa algerlega hundsað niðurstöðu Rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem höfundar 8. bindisins gefa báðum falleinkunn hvað varðar starfshætti og siðferði. Þetta tvennt hefur síst batnað í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessi ríkisstjórn komst til valda í krafti söluvænlegra kosningaloforða sem hún tók að svíkja frá fyrsta degi. Þeir hafa fengið hvert tækifærið á fætur öðru til að bregðast við og taka á málum sem snúa að uppgjöri annars vegar og leiðréttingu á síversandi kjörum almennings í landinu. Í stað þess alvöru aðgerða er þjóðinni boðið upp á blekkingar á blekkingar ofan.

Nú einu og hálfu ári eftir að þessi stjórn tók við völdum er risin upp ný mótmælaalda sem beinist gegn handónýtu þingi sem hefur sýnt sig að þjónar eingöngu peningavaldinu. Skiptir engu hvort þar situr hægri eða vinstri stjórn. Þjóðþing sem er að langstærstum hluta skipað þingmönnum sem finnst ekkert athugavert við það að kosningaslagur einstakra þingmanna og stjórnmálaflokka sé kostað að fyrirtækjum og fjármálastofnunum búa tæplega yfir heilbrigðri dómgreind. Stjórnsýsla sem gengur meira og minna út á bitlingapólitík býr augljósleg ekki heldur yfir ómengaðri siðvitund.

Það er þess vegna ekki skrýtið þó krafan um utanþingsstjórn sé komin fram. Það er augljóst að núverandi þingflokkar eru ófærir um að mynda þjóðstjórn sem nokkurn gagn verður í. Kosningar myndu tæplega skila neinni vitrænni niðurstöðu heldur þar sem það er líklegt að sama leikritið færi í gang í kosningabaráttunni og hver getur hugsað sér stjórn sem yrði leidd af einhverjum fjórflokkanna nema þeir sem styðja núverandi ástand vegna þess að hann hefur hag af því að almenningur beri allan þungan af afleiðingum þess ófremdarástands sem þeir bera allir nokkra ábyrgð á?!
Komið fram yfir síðasta söludag

Nú hafa tunnumótmælendurnir enn einu sinni boðað til mótmæla á Austurvelli og nú í tilefni að því að þing kemur aftur saman eftir einnar og hálfrar viku hlé. Krafan að þessu sinni er sú að Alþingi samþykki utanþingstjórn en  henni er ætlað það forgangsverkefni að vinna gegn því heilsuspillandi og lífshættulega ástandi sem íslensk stjórnmálastétt hefur skapað og viðheldur með ráðþægni sinni við peningaöflin á kostnað okkar almennings!

Settur hefur verið upp viðburður á Facebook. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 600 manns boðað komu sína. Mótmælin eru verða þann 4. nóvember fyrir framan alþingishúsið kl 14:00. (Sjá hér)


mbl.is Steingrímur gagnrýnir fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband