Þeir sem stjórna á bak við tjöldin!

4. okt. 2010Frá stóru mótmælunum 4. október síðastliðnum hefur verið í gagni leikþáttur stjórnvalda sem hefur snúist um það að skoða svokallaða niðurfærsluleið til að mæta skulda- vanda heimilanna. Meðleikendur voru forstöðumenn banka og ýmissa annarra hagsmunasamtaka. Það sem vakti mesta athygli var að forystumenn Hagsmunasamtaka heimilanna voru hafðir með að þessu sinni.

Sú ákvörðun vakti sumum von um að nú yrði eitthvað að gert sem dygði heimilunum til bjargar en aðrir töldu að hér væri eingöngu um blekkingarleik ríkistjórnarinnar að ræða í þeim tilgangi að lengja svolítið í líftíma sínum. Það er a.m.k. ljóst að þessar viðræður skiluðu engu þrátt fyrir að standa yfir í tvær vikur.

Af þessu tilefni var send út yfirlýsing á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna sem hefst á þessum orðum: „Þá er það orðið opinbert. Stjórn HH var dregin á asnaeyrunum í tvær vikur af getulausu stjórnkerfi.“ (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar) Þeir bentu líka á að þessi leiksýning hefði afhjúpað þá sem stæðu í veginum fyrir leiðréttingu til handa almenningi:

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að greiðsluverkfall er í fullu gildi. HH hvetur til þrýstings á bankana, ASÍ og SA. Þessir aðilar ætla ekkert að gera til að bæta fyrir þann órétt sem fólkið hefur orðið fyrir. Það eina sem á að gera er að hrekja fólk úr landi og/eða í gegn um eignaupptöku auk þriggja til fimm ára þrælkunar fyrir stökkbreyttum skuldum sem það stofnaði aldrei til.  (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Enn einu sinni eru það sérhagsmunir fjármálakerfisins sem á að taka fram yfir hagsmuni almennings í landinu. Þessi forgangsröðun bitnar á fólki eins og þér og mér sem er að missa allt til lánadrottnanna. Dæmi eru einnig um það að líf hafi tapast. Það er því þyngra en tárum taki að helsta hindrun ríkisstjórnarinnar við að koma á leiðréttingu lánakjara almennings eru talsmenn bankanna og stjórnendur lífeyrissjóðanna.

Á þingsetningardaginn, 1. október sl., tók ein kona sig út úr hópi mótmælenda sem voru samankomnir niður á Austurvelli af því tilefni. Hún ákvað að líta við í aðalútibúi Landsbankans sem stendur við Austurstrætið. Þegar inn var komið hækkaði hún röddina og lét alla vita hvað henni fyndist um „niðurfellingu skuldar sjávarútvegsfyrirtækis sem er að hluta til í eigu fyrrverandi forsætisráðherrans Halldórs Ásgrímssonar“ (sjá hér) Heimsókn hennar lauk með því að henni var skellt í gólfið og hún dregin út. Í kjölfarið var bankanum lokað.

Tunnum bankanaþegar tunnumótmæli hafa verið boðuð við bankann sendir Landsbankinn út yfirlýsingu þess efnis að farið hafi verið að verklagsreglum við niðurfærslu þessarar skuldar. Það er varla tilviljun að talsmenn bankans sýna þessi viðbrögð fyrst nú en ekki fyrir mánuði þegar fréttist af því að  fjölskyldufyrirtæki Halldórs hefði fengið 2,6 milljarða afskrifaða hjá Landsbankanum! (sjá hér)

Auðvitað getum við ekki unað því að á meðan valinkunnir gerendur hrunsins fá afskrifaðar skuldir þurfi almenningur að bera skaðann af öllu saman. Hvað hefur þjóð líka að gera með ríkisstjórn, þjónustustofnanir og hagsmunasamtök sem vinna gegn henni í þeim tilgangi að gera hana að þægum þrælum sem mala þessum forréttindi til valda og eigna? Auðvitað nákvæmlega ekki neitt!

Það er reyndar með ólíkindum að þjóðin skuli þurfa að taka sig saman og mótmæla í nær tvö ár samfleytt til að koma því á framfæri að hér þarf heiðarlegt uppgjör að fara fram! Að við þurfum ekki á yfirvöldum að halda sem þekkir ekki rétt frá röngu og hafa enga siðferðiskennd til að setja hlutina í eðlilega forgangsröð. Við vitum að ríkisstjórnin á að taka af skarið varðandi það að verja hagsmuni þjóðarinnar sem kaus hana en þar sem hún gerir það ekki neyðumst við til að grípa til okkar ráða.

Tunnum verkalýðsforystunaÞess vegna höfum við snúið mótmælunum að bönkunum. Við mótmælum því að bankarnir, sem steyptu efnahag landsins á hausinn, kostuðu þingmenn, afskrifuðu skuldir vildarvina en sækja fram af fullri hörku gegn þeim sem ráða ekki við að standa í skilum sökum forsendubrests, skuli dirfast að standa í vegi fyrir því að kjör almennings í landinu verði leiðrétt! (Sjá hér) Við byrjum við Landsbankann í dag kl. 14:00

N.k. föstudag beinast mótmælin gegn forystu ASÍ en þá verður mótmælt við ársfund samtakanna sem fara fram á Hilton hótelinu við Suðurlandsbraut. Mótmælin hefjast kl.  14:00 n.k. föstudag (22. okt). Eins og eftirfarandi tilvitnun ber með sér eru mótmæli sem snúa að verkalýðsforystunni ekki síður tímabær en mótmæli sem snúa að bönkunum:

Svo sannarlega veitir ekki af mótmælum á Austurvelli. En það er ekki síður þörf á því að launþegar mæti við höfuðstöðvar svokallaðra „samtaka launafólks“ og „tunni“ forystumennina þar frá völdum. Þeir eru ekki að vinna fyrir umbjóðendur sína, þeir eru eingöngu að vinna í eigin þágu í góðri samvinnu við atvinnurekendur. Þetta lið þarf að „tunna“ út sem allra fyrst. (Sjá hér (leturbreytingar eru mínar)

Ég ætla að enda á því að setja hérna inn myndband frá Lifandi mynd sem var tekið upp á mótmælunum 1. október sl. sem mörkuðu upphafið af þeirri mótmælabylgju sem stendur enn. Spurning hvort þingmenn séu enn að velta vöngum yfir því hvað vakti reiði almennings þann dag.

Til að ekkert fari á milli mála þá er e.t.v. rétt að minna á það að þriðjudaginn á undan, þ.e. 28. september, þá sýndi atkvæðagreiðsla 36 þingmanna að þeim finnst ekki rétt að æðstu embættismenn þjóðarinnar beri ábyrgð á gjörðum sínum en á sama tíma lætur þingið það viðgangast að þjóðin sitji undir allri ábyrgðinni af óráðsíunni sem fylgir því að búa við siðlausa og ábyrgðarlausa stjórnsýslu. Óréttlætið í slíku vekur ekki aðeins reiði heldur er það að sliga okkur!


mbl.is Bankarnir taki á sig sökina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.10.2010 kl. 02:22

2 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Flott grein Rakel, en er vinnudagurinn orðinn full langur..

Gunnar Skúli Ármannsson, 19.10.2010 kl. 06:20

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Magnað myndband, samt eitthvað svo dapurlegt að þjóðin skuli þurfa mótmæla með þessum hætti. Tek undir hvert orð Rakel. Það er stutt í tja, sprenginguna hjá þjóðinni.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 21.10.2010 kl. 19:36

4 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Rakel.Góður pistill.Þú kemur að dyrunum eins og þú ert klædd.Sannleikurinn er sagna bestur,þó sumir vilja fela sig á bak við lygina og svikin.

Ingvi Rúnar Einarsson, 26.10.2010 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband