Tunnutónar í tilefni tveggja ára afmælis hrunsins

Það eru tvö ár síðan efnahagshrunið varð og enn hyllir ekki undir neitt réttlæti fyrir aðra en gerendurna. Ástæðan er sú að íslenska stjórnmálastéttin er svo hagsmunatengd þeim sem rústuðu efnahag landsins að þeir hafa ekki vilja eða getu til að ráða neina bót á þeirri staðreynd að lífskjör almennings er á hraðri niðurleið. Við þessu verðum við almenningur að bregðast.

Í dag, sem er afmælisdagur bankahrunsins, verður tunnumótmælunum fram haldið. Þingfundur hefst klukkan 14:00 og stendur eitthvað fram eftir degi. Mótmælin byrja hins vegar klukkan fimm en auðvitað má byrja fyrr ef einhver er með tunnu og ásláttaráhald. Tunnunum, sem hópurinn sem stendur að mótmælunum hefur enn undir höndum, verður hins vegar komið fyrir kl. 17:00 í portinu sem er vinstra megin við gamla landssímahúsið, beint á móti Háspennu. Sjá meira um þessi mótmæli hér.

Ég var niður á Austurvelli frá klukkan fimm fram til tíu í kvöld og það var svolítið merkileg upplifun fyrir margra hluta sakir. Tunnumótmælin sl. mánudagskvöld eru stærstu mómæli Íslandssögunnar þannig að auðvitað reiknuðu margir með því að þeir yrðu töluvert fleiri sem létu sjá sig í dag en raun bar vitni. Úthaldið hjá mörgum þeim sem hafa mótmælt núna í hart nær tvö ár er hins vegar á þrotum. Sumir eru þegar fluttir út en öðrum finnst tími kominn á að aðrir taki við að fylgja réttlætinu eftir. Miðað við það sem ég sá af mótmælunum í dag þá má eiginlega segja að það hafi gengið eftir nú.

Við urðum aldrei neitt sérstaklega mörg. Lengst af einhvers staðar á bilinu 20-40 en undir kvöld mætti nýr hópur sem ég hef a.m.k. saknað úr mótmælunum hingað til. Þetta var ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Ég spurði lögregluna sérstaklega að því hvort þetta væri hópur sem liðsmenn hennar könnuðust við en þeir sögðu svo ekki vera. Sögðu að þetta væru bara „venjulegir“ krakkar að mótmæla eins og við enda ekkert síður ástæða fyrir þau að spyrna við fótum en okkur hin. Ég tek undir það. 

Krossinn sem hefur verið lagður á herðar íslenskum ungmennumÞetta voru krakkar sem hafa að öllum líkindum undirbúið sig miðað við það hvernig þau höfðu útbúið sig. Einn bar þungan kross sem er táknrænt fyrir þann fjárhagslega kross sem íslenska stjórnmálastéttin hefur margítrekað skrifað upp á að íslenskur almenningur þurfi að bera. Einhver þeirra tóku líka stærstu tréflísarnar sem höfðu kvarnast úr ásláttartólunum og lögðu fyrir framan gamla anddyri alþingishússins.

Þó við höfum ekki verið mörg sem mættum í dag, a.m.k. ef miðað er við gærdaginn, þá tókst okkur sem börðum tunnur að framleiða ærandi hávaða sem heyrðist skýrt og greinilega inn í þinghúsið. Það gat enginn í þingsalnum leitt hann hjá sér. Það olli líka langflestum áhyggjum að það voru mótmælendur fyrir utan sem ætluðu ekkert að láta deigan síga.

Ég hef lítið getað fylgst með bloggheimum eða herferð gömlu álitsgjafa svokallaðra vinstri afla í landinu að undanförnu en ég hef heyrt að sumir séu í óða önn að reyna að tala þau niður. Haldi því fram að það séu Sjálfstæðismenn sem standi á bak við þau. Ég get upplýst lesendur þessa bloggs um að það eru aðallega fimm konur sem hafa borið hitann og þungan að því að standa fyrir þessum mótmælum. Engin þeirra tengist Sjálfstæðisflokknum á neinn hátt. Við getum þó ekki komið í veg fyrir að einhver innan þeirra raða reyni að nýta sér það að einhverjir sem eru utangátta telji að mótmælin nú beinist eingöngu gegn ríkisstjórninni.

Virðingardauði AlþingisÉg held mér sé óhætt að fullyrða að það vita það allir að þessi mótmæli beinast gegn stjórnmálastéttinni allri. Hún hefur sýnt það á svo ótvíræðan hátt að hana skortir ekki aðeins heiðarleika heldur býr hún líka við verulega skerta ábyrgðartilfinningu enda lætur hún sem henni standi fullkomlega á sama um það hvernig almenningi reiðir af.

Virðing Alþingis er dauð fyrir afglöp þessa fólks sem áttar sig ekki á því upplausnarástandi sem það er að skapa í samfélaginu með því að sitja áfram og halda því fram að það, fólk með enga samkennd og siðferðisvitund, sé best til þess fallið að stýra landinu! Það er ekki aðeins efnahagur landsmanna sem stefnir til helvítis ef þeir sitja uppi með þessa valdasjúku og veruleikafirrtu stjórnmálastétt heldur þau sömu gildi og þingmennirnir hafa gert sig seka um að virða að engu. Þ.e: samkennd, heiðarleiki, kærleikur, ábyrgð og siðferðiskennd.

Það er ljóst að það hreyfir ekki við þeim til alvöru athafna fyrir okkur, almenning í landinu, þó stærstu mótmæli Íslandssögunnar hafi átt sér stað við vinnustaðinn þeirra. Jóhanna boðar til fundar þar sem hún býður öðrum flokkum að taka þátt í stefnu núverandi ríkisstjórnar sem er sú að fara í einu og öllu eftir því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir þeim.

Sigmundur Davíð klifar á vilja Framsóknarflokksins án nokkurrar tilfinningasemi og það gerir Ólöf Nordal líka nema hún talar að sjálfsögðu um vilja Sjálfstæðisflokksins. Hvorugt vék að þeim alvarlega vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir enda er útlit fyrir að þingheimi standi á sama að undanskyldum þeim: Birgittu Jónsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Margréti Tryggvadóttur og Þór Saari. Þessi fjögur hafa raunverulegan skilning á því að lífi og framtíð Íslendinga er stefnt í voða með þeirri undarlegu forgansröðun að þjóna í einu og öllu vilja peningaaflanna í landinu þannig að þeir hafa orðið fullkomnar veiðiheimildir í tekjum landsmanna á meðan þeir geta ekki rönd við reist.

Eins og ég kom að hér í upphafi finnst mér seinni hluti gærdagsins úti fyrir Alþingi vera merkilegur fyrir margra hluta sakir. Skiptir engu þó við höfum sjaldnast verið nema milli 20-40 manns við tunnurnar. Ég var búin að nefna fyrra atriðið sem voru þeir sem voru nýir en hitt var allur sá fjöldi sem keyrði fram hjá okkur og tóku afstöðu í gegnum bílflauturnar og lyftu þumlunum í virðingarskyni fyrir úthaldi okkar sem börðum þungan taktinn út úr tunnubotnunum. Eftir kvöldmat birtist fjölskyldufólkið sem vildi leyfa börnunum sínum að sjá og upplifa hinn dimma hljóm kröfunnar um það að þau gætu haldið áfram að vera Íslendingar.

Dúmp, dúmp fyrir framtíðina, dúmp, dúmp fyrir heiðarlegu uppgjöri, dúmp, dúmp fyrir réttlætið, dúmp, dúmp fyrir lýðræðið og dúmp, dúmp fyrir nýtt fólk sem þorir, getur og vill vinna að þeim breytingum sem þurfa að fara hér fram. 

Hér er að lokum myndband frá mótmælunum í dag en þar má heyra að hávaðinn er vel greinanlegur þó tunnuleikararnir séu ekki margir:


mbl.is Heldur fjölgar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Afmælum fylgja oftast árnaðar og hamingjuóskir ..... ekki þessu afmæli þó.

Bestu kveðjur til þín kæra Rakel mín, að venju.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 6.10.2010 kl. 06:23

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég hef ekkert komist til þess að tromma, ég er búin að vinna alla vikuna.  Ég vona að ég geti laumast smá á morgun, þrátt fyrir það að ég sé að undirbúa smá afmæli hérna á föstudaginn... 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.10.2010 kl. 00:34

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Takk fyrir kveðjuna þína kæra Jenný Manni hefur oft orðið orða vant í þessari baráttu eins og við þetta tækifæri. Dimmur tónn tunnunnar hæfir þessum degi því best held ég.

Þakka þér líka fyrir hjartnæman pistil um engil með hvíta húfu... Þú manst kannski að ég talaði einu sinni um að flytja út en það varð bara að einu skrefi yfir fjöllin. Mér sýnist á öllu að næst verði það hafið sem muni skilja á milli búsetustaða hjá mér.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 7.10.2010 kl. 04:17

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

þakka ykkur stelpunum fyrir frábært framtak og innlegg í baráttuna

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 9.10.2010 kl. 18:26

5 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ætli maður sé ekki bara farvegur eða réttara sagt við sköpuðum bara farveg fyrir það sem var fyrir hendi. Ef við hefðum ekki farið að stað þá hefði þess ekki verið langt að bíða að einhver annar tæki af skarið.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 10.10.2010 kl. 15:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband