Við viljum heiðarlegt uppgjör!

Það skapaðist gífurleg samstaða niður á Austurvelli í gær. Tunnuómurinn dundi í marga klukkutíma samfleytt en síðustu tónarnir dóu ekki út fyrr en eftir miðnætti. Því miður var fáum sem hugkvæmdist að taka með sér tunnur til að við gætum notað þær áfram en a.m.k. 12 tunnum var bjargað og svo eru ábyggilega fleiri til annars staðar. Plasttunnurnar duga líka ágætlega til að skapa dimman óm kröfunnar um heiðarlegt uppgjör alþingis á verkum þess og ráðherranna í fortíð og nútíð.

Tunnumótmæli okt. 2010

Við erum búin að fá nóg af afleiðingum misgáfulegra aðgerða íslenskrar stjórnmálastéttar sem vinnur fyrst og fremst fjármálastéttinni þægileg lífskjör á kostnað okkar almennings. Við höfum þolað afleiðingar eins og atvinnumissi, gjaldþrot og eignamissi, sundrungu fjölskyldna vegna brottflutnings og sjálfsmorða. Þetta eru þeir alvarlegu hlutir sem við getum ekki búið við lengur.

Við þolum ekki meira af lygum, hroka og yfirhylmingum. Við krefjumst heiðarleika og réttlætis. Við viljum sjá heiðarleg viðbrögð við þeirri neyð sem hefur hrjáð okkur undanfarin ár. Við viljum sjá að mennskan verði gerð að aðalatriðinu í þeirri umbyltingu sem þarf að fara fram í samfélaginu. Við treystum gömlu stjórnmálastéttinni hreinlega ekki fyrir slíku verkefni eftir að hafa horft upp á öll þeirra afglöp. Við búum yfir hugmyndum að nýjum lausnum og erum tilbúin til að ræða þær við hluteigandi aðila gamla kerfisins.

Í tengdri frétt Morgunblaðsins er haft orðrétt eftir tilkynningu á Fésbókinni um áframhaldandi mótmæli svo ég sé enga ástæðu til að endurtaka hann hér en vil benda á atburðinn sjálfan sem er að finna hér.

Að lokum vil ég taka það fram að ég er sjálf afar sorgmædd yfir því að við skulum finna okkur tilneydd til að mótmæla einu sinni enn. Hins vegar tel ég það borgaralega skyldu mína að bregðast við þeirri neyð sem ég sé allt í kringum mig. Ég er hreinlega ekki tilbúin til að láta sem ekkert sé svo siðvilltir stjórnmálamenn geti haldið uppi einhverjum serímoníum í sjónrænu valdatafli inni á Alþingi í stað þess að taka ábyrgð og afstöðu til þeirra mála sem þeir voru kosnir til að vinna að.

Þess vegna mun ég halda áfram að hvetja til mótmæla og taka þátt í þeim sjálf þó ég vildi miklu frekar setja krafta mína í að vinna að því að leggja til hugmyndir að lausnum á ástandinu. Valdastéttin virðist aftur á móti vera svo sannfærð um að hún ein hafi það á valdi sínu að leysa úr erfiðum verkefnum og neitar að horfast í augu við það að allar athafnir hennar ógna framtíð lands og þjóðar svo geigvænlega að það hefur þegar kostað mannslíf! Ég vil að þessu linni og lýsi mig tilbúna til að taka þátt í því að vinna að slíku á hvaða vettvangi sem er!


mbl.is Boða til mótmæla í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Flottur baráttu jax! Lifi lýðræðið.

Sigurður Haraldsson, 9.10.2010 kl. 12:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband