Ég harma aðför stjórnmálastéttarinnar að almenningi
3.10.2010 | 03:54
Stjórnmálastéttin er haldin þvílíkri firringu að hún virðist ekki skilja þá neyð sem hún hefur komið almenningi í. Það er neyðin sem rekur okkur til að spyrna við fótum. Þess vegna hafa mótmælin aldrei sofnað þó þau hafi ekki enn náð sama krafti og í janúarbyltingunni 2009. Núna á föstudaginn mættu mörg okkar niður á Austurvöll og hrópuðum: VIÐ ERUM ÞJÓÐIN og VANHÆFT ALÞINGI.
Á mánudagskvöldið verður þeim mótmælum haldið áfram. Við höfum nefnilega misst alla trú á því að nátttröllin sem skipa gömlu flokkanna hafi vilja eða getu til að leysa vandann sem þau komu okkur í. Við erum að átta okkur á því að þau vilja aðeins verja fjármálakerfið og sjálf sig. Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað og mörg okkar eru á þeirri skoðun að þvílíku neyðarástandi sem hin sérhagsmunamiðaða flokkapólitík hefur átt virkan þátt í að koma okkur í verði aðeins leyst með nýjum starfsaðferðum.
Mótmælin sem boðað hefur verið til næst komandi mánudagskvöld við upphaf stefnuræðu forsætisráðherra bera yfirskriftina: TUNNUMÓTMÆLI FYRIR BROTINN TRÚNAÐ. Sérstakur viðburður hefur verið settur inn á Fésbók til að fólk geti skráð sig. Sjá hér. Þar stendur þessi texti:
Næstkomandi mánudagskvöld er stefnuræða Jóhönnu Sigurðardóttur á dagskrá þingsins. Við skulum skapa henni réttan undirleik og umgjörð. Ómsterkir eða stórir hljómgjafar afar vel séðir. Mætum í öllum okkar fjölbreytileik og stöndum saman í því að koma vantrausti okkar á því sem fram fer innan þingsins á framfæri.
Gleymum því ekki að stofnunin sem steypti fjármálakerfinu í glötun fyrir tveimur árum, með vanhæfni sinni og spillingu, steypti lýðræðinu sömu leið í atkvæðagreiðslunni um landsdóm síðastliðinn þriðjudag. Því er komið að okkur almenningi að spyrna við fótum áður en þeir missa landið okkar niður um svelginn vegna áframhaldandi afglapa.
(Seinni efnisgreinin er byggð á því sem fram kemur í grein Svans Kristjánssonar sem birtist á eyjan.is 30. sept. sl.)
Það hefur fréttst að nú þegar sé búið að safna saman nokkrum tunnum og einhverjir ætla bara að taka ruslatunnuna sína og trylla henni inn á Austurvöll til að taka þátt í tónleikum tunnubandsins sem verður til þar. Því hefur jafnvel verið spáð að bandið muni áður en yfir lýkur ná viðlíka leikni og þessir hér:
Það skal tekið fram að mótmælin hefjast kl. 19:30. Ræða forsætisráðherra hefst tuttugu mínútum síðar. Sjá hér.
Harma aðför að Geir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:02 | Facebook
Athugasemdir
Ágæta Rakel -
Forseti Bandaríkjanna sagði þegar hrunið var orðin staðreynd - þetta hófst með því að húsnæðiskaupendur í Florida gátu ekki staðið í skilum og lauk með efnahagshruni á Íslandi.
Þessi fordæmalausa keðja sem fékk afl sitt m.a. úr hruni Lehmannsbanka ruddi bankakerfinu í stórum hluta heimsins á hliðina.
Viðbrögð voru fálmkennd og óörugg - enginn vissi í rauninni hvað þyrfti að gera - ekki var ( eins og hér ) inni í myndinni að taka fyrirtæki (banka ) af "eigendum" þeirra - þá hefði verið öskrað hátt -
Það að ætla þingmönnum það að hafa vísvitandi "látið þetta gerast hér" er rangt - - ekkert þjóðþing - annað en hér - liggur undir slíku ámæli - hvergi er settur upp rannsóknarréttur - heldur er verið að vinna úr málum og koma atvinnulífinu í gang og lágmarka skaðann.
Hér hefur stjórnin því miður farið þá leið að féfletta almenning og fyrirtæki og standa í vegi fyrir því sem gera þarf til þess að skapa atvinnu - jafnvel þótt ríkið þurfi ekkert annað að gera en hætta að vera fyrir.
Þetta var alltof langur inngangu - EN - Rakel - ég hvet ykkur til þess að fara fram með mikilli aðgát - sýna stillingu og sýna það að mótmæli þurfa ekki að vera lituð ofbeldi.
ÉG er EKKI stuðningsmaður þessarar stjórnar - ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að við eigum að fá að segja álit okkar í kosningum - STRAX-
Enn og aftur - förum varlega - látum ekkert gerast sem ekki verður aftur tekið.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 3.10.2010 kl. 09:21
Ég hef áður séð að Ólafur Ingi virðist leggja trúnað á greiningu forseta Bandaríkjanna á efnahagskreppunni. Það eru líklega ekki margir í heiminum sem eru sammála þeirri einföldu skýringu sem þarna er boðið uppá. Vissulega er torgreinda peningastefnan (discretionary monetary policy) ættuð frá Bandaríkjunum og er undirrót kreppunnar, en hún á öðru fremur uppruna við Chicago háskólann (University of Chicago), en á Florida-skaganum.
Áður en undirmálslánin á Bandarískum húsnæðismarkaði komust í hámæli og áður en Lehman Brothers Holdings fór í gjaldþrot, var jarðvegur kreppunnar rækilega plægður. Hér á Íslandi var tímanlega búið í haginn fyrir kreppuna með vísvitandi aðgerðum til að ræna almenning.
Fyrsta skrefið var að gefa Seðlabankanum einkaleyfi til útgáfu peninga – Krónunnar. Tekin var upp torgreind peningastefna og markaðslögmálin þar með tekin úr sambandi. Óstöðugleiki var innleiddur í hagkerfið, í þeim tilgangi að skapa verðbólgu og færa til fjármuni – frá almenningi og til fjármála-aðalsins.
Annað skrefið til undirbúnings kreppunnar var innganga Íslands á Evrópska efnahagssvæðið. Sofandi stjórnkerfi, sem leyfði bankakerfinu að vaxa með svikum og prettum, kórónaði núverandi kreppu. Það hentar ekki valda-aðlinum að upplýsa um raunverulegar ástæður hrunsins. Þess vegna er haldið að fólki yfirborðskenndum skýringum, eins og þeirri, að einkavæðing tveggja ríkisbanka hafi verið megin orsök. Einnig er ranglega talað um kvótakerfið sem veigamikla orsök.
Enn ein blekkingin er tal um að Landsbankinn hafi skapað kreppuna með rekstri Icesave í útibúum í stað dótturfélaga. Sannað hefur verið að rekstararform Icesave skipti engu máli. Það sem skiptir máli, er að Landsbankinn hafði starfstöðvar (physical presence) í Bretlandi og Hollandi. Þar með höfðu Icesave-reikningarnir fulla tryggingavernd í þessum löndum. Landsbankinn greiddi til hinna erlendu tryggingakerfa, á sama hátt og aðrir bankar í viðkomandi löndum.
Vandamálin liggja því ljós fyrir, en stjórnmálstéttin hefur engan áhuga á að leysa þau. Gallar kerfisins eru að hluta undirstaða valdakerfisins. Þetta kom ljóst fram þegar undirmálin á Alþingi voru afhjúpuð. Þingmenn höfðu gert samkomulag um að ráðherrar þyrftu ekki að standa reikningsskil gerða sinna. Sérgætska þingmanna hefur svo sem oft komið fram áður, svo sem í sambandi við lífeyriskjör þeirra. Vandamálið er svo djúpstætt, að ekki verður annað séð en að fella verði valdakerfið og byggja að nýgju á rústunum. Verður það gert með öðru móti en með vopnaðri byltingu ?
Loftur Altice Þorsteinsson, 3.10.2010 kl. 10:34
Ólafur Ingi, þú ætlar mér mikið vald ef þú telur að ég geti stýrt lyktum þess sem verður. Þú mátt ekki skilja mig þannig að ég láti mér standa á sama um það hverjar þær verða en þær eru einfaldlega ekki á mínu valdi.
Ég veit ekki hvort við leggjum sama skilning í orðið ofbeldi en það er von mín að við sem mótmælum getum komið vilja okkar á framfæri án slíkra. Það að einhverjir tjái sig með eggjakasti er ekki ofbeldi í mínum huga þó ég efist um að ég fái sjálfa mig til að kasta hænueggji í steinveggi alþingishússins þá tel ég það ekki í mínu valdi að fordæma svo sakleysislega tjáningu vandlætingar og/eða vonbrigða.
Ég vona svo sannarlega að okkur beri gæfa til að knýja fram skynsamlegt breytingarferli sem byggir á réttsýni og sanngirni til handa almenningi sem svo sannarlega hefur verið skilin út undan og jafnvel misnotaður á undanförnum árum.
Ég er á þeirri skoðun að því neyðarástandi sem ríkir í samfélaginu nú hæfi neyðarúrræði til að vinna að mikilvægustu málefnunum sem er misskiptingin í samfélaginu á öllum sviðum. Ég sé ekki að kosningar myndu skila okkur öðru en enn lengri biðtíma þar sem mér sýnist stjórnmálastéttin í landinu glíma við alvarlegt sambandsleysi við raunveruleikann í íslensku samfélagi.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 3.10.2010 kl. 20:33
Rakel - ekki ætla ég að gera þig ábyrga fyrir því sem mun fara fram á Austurvelli - fjarri því -
ég vildi aðeins hvetja til aðgátar - allra -
Ofbeldistal Lofts er ekki svara vert. Gamall maður að hnykla visna vöðva.
Ólafur Ingi Hrólfsson, 3.10.2010 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.