Tækifæri til að breyta!

Ég man þegar mótmælin byrjuðu í Reykjavík haustið 2008. Ég man að ég fylgdist með af því að mér fannst það löngu tímabært að við risum upp til að mótmæla því sem hafði farið fram í samfélaginu í nokkur ár þar á undan. Bankahrunið batt fólk saman til slíks. Ég trúi því að frumkvæði Sturla Jónssonar tæpu hálfu ári fyrr hafi skipt töluverðu máli í því að svo margir risu upp.

Ég man að ég fylgdist bæði með fréttum og bloggi til að vita hverju fram fór á mótmælunum í kjölfar hrunsins. Og ég man að ég naggaðist eitthvað út í matarkast á alþingishúsið og yfirlýsingar mótorhjólamanna í sambandi við hópspól fyrir framan þá sömu stofnun. Ég man hins vegar ekki eftir að ég hafi haft svo ríkt hugmyndaflug að kenna slíkt við ofbeldi.

En ég er löngu hætt að láta mig varða hvernig mismunandi einstaklingar tjá vonbrigði sín og vandlætingu enda hafa afleiðingar hrunsins bitnað misjafnlega á okkur. Sumir hafa misst vinunna, orðið gjaldþrota og misst eigur sínar í kjölfarið. Jafnvel endað á götunni. Kreppan hefur líka sundrað fjölskyldum. Margir hafa séð á eftir ástvinum sínum sem hafa flúið land en tilfinnanlegustu afleiðingarnar eru dauðsföllin sem hafa orðið fyrir staðreyndir hrunsins. Sjá t.d. hér.

Það er fullkomlega eðlilegt og skiljanlegt að lífsreynsla af þessu tagi veki mönnum reiði. Það er líka fullkomlega eðlilegt að sú reiði beinist gegn stjórnmálamönnunum og Alþingi því það voru þeir sem lögðu drögin að hruninu með gjörðum sínum, leyfðu því að verða með aðgerðarleysinu og samþykkja það svo að það skuli vera almenningur sem skuli blæða fyrir. Það tekur svo steininn fullkomlega úr þegar þeir hafna því að þeir beri nokkra ábyrgð á neinu sem viðkemur athöfnum þerra og/eða aðgerðarleysi.

Í kvöld ætlar alls konar fólk að mæta niður á Austurvöll kl 19:30 til að skapa stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur viðeigandi umgjörð og undirleik. Við ætlum að standa saman af því við vitum að samstaða er aflið sem þarf til að knýja fram breytingar.

Ég held að ég megi fullyrða það að við vildum öll vera að gera eitthvað allt annað en mæta einu sinni enn til að krefjast þess sama og í janúarbyltingunni. Þá opnuðum við dyr okkar upp á gátt og buðum sátt. Við báðum um réttlæti, jöfnuð og lýðræði. Við vildum að allir yrðu samferða.

Meiri hluti þjóðarinnar treysti Jóhönnu Sigurðardóttur og hennar flokksmönnum til að tryggja samfélaginu þann jöfnuð og réttlæti sem við báðum um. Steingrímur J. Sigfússon og flokkssystkini hans gáfu sömu fyrirheit. Reyndin varð hins vegar sú að þessi tóku við kyndli fyrri ríkisstjórna og hafa síðan staðfest það enn frekar að íslenska stjórnmálastéttin hefur hvorki áform né vilja til að vinna að hagsmunum annarra en fjármagnseigenda. 

Undanfarna áratugi hafa ákvarðanir stjórnvalda fyrst og síðast miðað að því að halda þeim sem eiga peningana í landinu góðum. Þannig hafa þau skipað í nefndir, lagt fram frumvörp og dregið sig í hlé til að þjóna hagsmunum þeirra og orðið margsek af því að misfara með umboð meiri hluta kjósenda sinna. Af þessum ástæðum er íslenskur almenningur hættur að treysta núverandi stjórnmálamönnum og krefst þess að þeir láti af störfum og skapi rúm fyrir nýju fólki.

Ég ætla ekki að fara nánar út í mínar hugmyndir um það hvað ætti að taka við eftir slíkt þingrof að þessu sinni en undirstrika að neyðarástandi hæfir neyðaráætlun.

Það gamla virkar ekki þannig að það þarf að hugsa dæmið upp á nýtt en krafa okkar mótmælenda nú er í grundvallaratriðum sú sama og í janúarbyltingunni. Við viljum réttlæti ekki ranglæti, við viljum jöfnuð en ekki ójöfnuð við viljum lýðræði en ekki fáræði. Ég vona að sú stjórnmálastétt sem heldur samfélaginu í gíslingu nú beri gæfa til að hlusta að þessu sinni. Við erum nefnilega tilbúin til að eiga í samræðum við þau og knýjum því á dyr...


mbl.is Litlar breytingar á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband